Skuldir og viðskiptajöfnuður: krónan er vandinn

Myndin af skuldum íslenska þjóðarbúsins er óðum að skýrast.  Í desember sendi Seðlabankinn frá sér minnisblað þar sem gerð er grein fyrir nýjasta mati bankans á skuldum og hreinni stöðu þjóðarbúsins.  Niðurstaðan er í stuttu máli sú að hrein erlend staða (International Investment Position) þjóðarbúsins verði neikvæð um 91% af vergri landsframleiðslu (VLF) í lok þessa árs. Þetta er heldur hærri tala en bankinn hefur áður gefið út, og háð töluverðri óvissu, en munurinn skýrist m.a. af því að bætt hefur verið við töluna skuld nýja Landsbankans við þann gamla upp á 314 milljarða, og áætluðum kröfum gömlu bankanna á innlenda aðila upp á 400 milljarða. Gömlu bankarnir eru sem sé núna taldir vera erlendir aðilar, þar sem megnið af eignum þeirra muni fyrir rest ganga til erlendra kröfuhafa.

Hrein erlend skuldastaða upp á 91% af VLF - 1450 milljarða - kann að hljóma sem stór tala, en er það ekki þegar grannt er skoðað. Skuldastaðan hefur verið á svipuðu róli og jafnvel meiri allt frá árinu 2000 og var orðin mun neikvæðari fyrir hrun (yfir 120% árin 2006-7); hún hefur sem sagt batnað talsvert við hrunið - sem kemur sennilega mörgum á óvart.  Þetta hlutfall er ekki óvenjulegt meðal Evrópulanda og alls ekki hjá ungri þjóð í hraðri uppbyggingu.

Í erlendu skuldastöðunni eru innifaldir allir íslenskir lögaðilar, ríkissjóður, Seðlabanki, Tryggingarsjóður innstæðueigenda, sveitarfélög, bankar, álfyrirtæki og öll önnur fyrirtæki sem skulda beint erlendis.  Einhver fyrirtækjanna (sem sum hver skulda risaupphæðir) munu e.t.v. ekki geta staðið í skilum með erlendar skuldir sínar.  Það verður þá tjón viðkomandi (erlendra) kröfuhafa; ekki skattborgara eða almennings.

Vandinn er hins vegar sá, að erlendar skuldir ríkisins, veitufyrirtækja og sveitarfélaga eru með stórum afborgunum á næstu árum.  Þessar afborganir verða aðeins greiddar með (1) gjaldeyrisforða; (2) nettó innstreymi gjaldeyris vegna jákvæðs vöruskipta- og þjónustujafnaðar; og/eða (3) nýrri lántöku erlendis frá (endurfjármögnun og lengingu).  Núverandi gjaldeyrisforði Seðlabankans dugir rétt svo fyrir afborgunum 2010 og 2011, en á næsta ári nema erlendar afborganir og vextir hjá ríki og veitufyrirtækjum yfir 300 milljörðum.

Það eru að mínu mati tvær leiðir í stöðunni.  Önnur er sú að grafa höfuðið í sandinn, hafna samkomulagi um Icesave, segja skilið við AGS, fara í greiðsluþrot ríkissjóðs eigi síðar en 2012, og leita á náðir Parísarklúbbsins.  (Þá er jafnframt upplagt að rifja upp handverk, hannyrðir, sláturgerð og forna búskaparhætti.)  Lánshæfi ríkissjóðs og almennt traust á landinu væri þá skaddað til talsverðar framtíðar, komandi kynslóðum til mikils tjóns.

Hin leiðin er sú að ganga frá samningum um Icesave og halda áfram samstarfi við AGS með tryggðri fjármögnun í gegn um næstu gjalddaga.  Þá helst ríkissjóður ofan við ruslflokk og kemst í gegn um hrikalegt hrun og kreppu án þess að vanefna skuldbindingar sínar.  Það er góð saga til að segja í framtíðinni, og mikill greiði við komandi kynslóðir.  Til lengdar mun ríkissjóður geta staðið við skuldbindingar sínar og unnið niður erlend lán; til þess þarf aðeins ráðrými, sem fæst með stuðningi AGS og nágrannalanda.

Þá þarf að leggja alla áherslu á að ná hraðinngöngu í ESB og hraðupptöku evru.  Með því gufar vandamálið "erlendar skuldir þjóðarbúsins" hreinlega upp sem slíkt; allar skuldir verða í evrum, eins og tekjur fyrirtækja og skatttekjur ríkisins, og gjaldeyrisforði verður óþarfur.  Þá fyrst losnar almenningur undan þeim sökudólgi sem annars ylli honum mestum búsifjum á næstu árum: krónunni.  Því aðeins með krónunni verður vandamál viðskiptajafnaðarins vandamál almennings, með háu verði innfluttra vara og hækkandi gengis- og vísitölutryggðum lánum.

Um þetta ætti stjórnmálaumræðan á Íslandi að snúast; þarna er stóra myndin og stóru hagsmunirnir varðandi framtíð (og raunverulegt sjálfstæði) íslenskrar þjóðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hví millilenda í Evrópu Vilhjálmur? Hvers vegna ekki fara beint í kínverskt yuan og snúast á sveif viðskiptabandalags Asíuþjóða?

Ég veit ofangreint hljómar ómálefnalega, en hvernig geturðu haldið því fram að "raunverulegt sjálfstæði" snúist um skammtímalausnir og frávarp ábyrgðar í formi upptöku erlends gjaldmiðils sem er hagstjórnartæki hannað fyrir milljónaþjóðir, og inngöngu í regluverksbandalag fjölmargra misleitra þjóða, regluverki sem reynir að geðjast öllum í senn?

Er ekki krónan hagstjórnartæki sérhannað fyrir íslendinga? Var ekki verkfærinu krónunni  misbeitt sem útflutningsvöru þannig að hún er ill-nothæf? Væri ekki ráð að axla sjálf ábyrgð á eigin hagstjórn og þeim möguleikum sem þar leynast, og nota til þess sérhannað hagstjórnartæki?

Auðvelda leiðin er sjaldnast betri leiðin.

Ég er sammála þér, þú bendir í pistli þínum á  rót vandans; hagstjórnartækið krónuna og það hversu hátt má spenna bogann af þjóð með takmarkaðar auðlindir og mannburði.

Ég er hins vegar ósammála þér að framtíðin sé svart-hvít á þann hátt sem þú málar hana.

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 16:38

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég held að krónan sem hagstjórnartæki sé húmbúkk, eins og aðstæður eru í okkar hagkerfi, og hef skrifað um það langhund sem finna má hér.  Fórnarkostnaðurinn er miklu meiri en ávinningurinn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.1.2010 kl. 16:52

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þetta er fáránleg framsetning, þ.e. nettó skuldir. Gríðarlega villandi. 

Þetta inniheldur t.d. lifeyrissjóði, sem ekki er hægt að selja, á móti skuldum.

Síðan, er ekki vitað í raun hve mikils virði margar erlendar eignir, eru í raun og veru - en, ég bendi á, að þetta er mat skv. átætlun um virði skv. væntingum um tiltekna hagþróun, í þeim löndum þ.s. þessar eignir er að finna. Sem dæmi, ef hagþróunin reynist verri, þá lækka eignirnar. 

Síðan, gæti matið í tilvikum hafa verið rangt - en ég bendi á, að hjá bönkunum eru í mjög mörgum tilvikum, sömu einstaklingarnir að meta þær eignir, er þeir sjálfir mátu áður er bankarnir hrundu. Ef, tilheyging var til að ofmeta eignir, til að sýna frá á betri eignastöðu fyrir hrun, eitthvað sem mjög vel er hugsanlegt, er líklegt að þeir sömu einstaklingar séu þá varfærnir í því að meta þær niður sem skildi til að koma ekki upp um eigin gerðir - sem gætu orkað tvímælis.

Ég trúi að þetta mat sé rétt, þegar ég sé það rætast.

----------------------------------------------

Þ.s. eignasala fer ekki fram, alveg á næstunni - þá erum við að borga vexti, af skuldum án þess að frádraga eignir.

Ég miða því við það, og það gera aðrir fræðimenn:

Prófessors Sweder van Wijnbergen

Ég verð að segja, að ég hef meiri trú á hans orðum.

Sjá greinIceland needs international debt management

"The facts: debt will never be repaid

"But how must we now proceed? Iceland currently has an external debt that amounts to between 300 and 900 percent of its gross domestic product! The third world debt crisis of the 1980s taught us how to deal with overindebted countries. The Brady Plan that was applied involved discounting debts of countries like Mexico, whose commitments then amounted to 60 percent of GDP, and was therefore regarded as unable to pay. Nicaragua had ten times its GDP in debt. It has never repaid that. A debt of three or four times GDP cannot be repaid, and therefore will not be repaid, whether the president commits to repayment or not."

"The Mexico experience demonstrates how wrong all these predictions of Iceland becoming a pariah are. After Mexico had negotiated a 40% cut in its debt, capital flowed into the country. That happened in all countries in the Brady Plan, amounting to about 600 billion in the first ten years. It’s logical. Payment of gigantic debts requires extremely high taxation, which chases away investors and leads to zero growth for decades. Iceland would be cast into a vicious circle: high debt, high taxation, low growth, low payment capacity and thus even more debt. This is called debt overhang."

"Demanding full repayment in such circumstances leads to such turmoil that creditors end up with less than if they had been more modest in their demands. Moreover, creditors should not act in isolation. The international community should not permit Bos and Brown to insist on getting paid before other creditors. Someone, perhaps the Scandinavians, should coordinate the various creditors."

Skuldirnar eru óviðráðanlegar.

Við glötum sjálfstæðinu, ef við reynum að borga þær.

Að auki,  sjálft samfélagið hrynur - þ.e. stoðkerfi þess, - skólakerfi, heilbrigðiskerfi o.s.frv.

Lausn

"Iceland has to sell the banks that were nationalised so as to clarify its overall indebtness. It has to be established how much debt should be discounted to allow new growth so the country can repay the rest of its obligations. Stringent fiscal measures will have to be undertaken to convince creditors problems will not re-emerge. With such a restructuring and adjustment process, Bos will get more back for his money than he will with his current macho behavior. "

Við verðum að semja um afslátt á skuldum.

Þ.e. augljós þvættinhur, að þjóðir sem borgi ekki skuldir sínar upp í topp, séu teknar út af sakramentinu, af alþjóðakerfinu.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.1.2010 kl. 17:03

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Vilhjámur - þ.e. ekkert að krónunni, annað en gölluð hagstjórn.

Krónan er einkunnabók, okkar hagstjórnar.

Ekki þarf annað til, en:

  1. Minnka skuldir niður á viðráðanlegt plan, en nú eru þær fullkomlega óviðráðanlegar, með öllu - burtséð frá Icesave, en enn óviðráðanlegri með því.
  2. Endurskipuleggja hagkerfið, í tengslum við endurskipulagningu skulda, ásamt lækkun þeirra, og reka æ síðan trúverðuga hagstjórn.
  3. Líkja má ríkjum við fyrirtæki og gjaldmiðlum við hlutafé - en, í því samhengi, þá tekst fyrirtækjum alls ekki mjög sjaldan, að ná sé að fullu eftir áföll, þannig að hlutir nái á nýjan leik að seljast og verða eftirsóttir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.1.2010 kl. 17:08

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einar Björn: Hr. Wijnbergen er greinilega ekki alveg inni í málum hérna.  Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru brúttó 320% af VLF, um það eru held ég allir sem þekkja til málsins sammála; ég veit ekki hvaðan hann hefur 900% töluna en hún er alveg út í hött.  Eins og margoft hefur verið farið yfir, og Seðlabankinn gerir mjög vel í minnisblaðinu, eru þar ennþá inni skuldir fyrirtækja sem eru þegar eða á leið í þrotameðferð.  Staðan er því ennþá miklum vafa, og væntanlega ofmati, undirorpin.

Svo virðist hr. Wijnbergen halda að bankarnir hafi verið þjóðnýttir.  Það voru þeir ekki og á því er reginmunur.

Skuldbinding ríkisins er aðeins brot af 320% tölunni og ekki hærri en hjá mörgum nágrannaþjóðum, t.d. af sömu stærðargráðu og hjá Bretum, en ég sé ekki hr. Wijnbergen leggja til að þeir fari í nauðasamninga.

Auðvitað er það nettótalan sem skiptir máli varðandi viðskiptajöfnuð (það eru tekjur af erlendum eignum á móti gjöldum af erlendum skuldum) og heildarstöðu þjóðarbúsins, vitaskuld á t.d. að telja erlendar eignir lífeyrissjóða með þegar heildarstaðan er metin.

Svo bið ég þig í allri vinsemd að spara textasentimetrana, það verður mjög leiðingjarnt fyrir aðra lesendur að þurfa að rúlla niður marga metra á skjánum til að komast í að lesa frekari athugasemdir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.1.2010 kl. 17:19

6 identicon

Það þarf greinilega að fræða fólk betur um hugtökin í þessari skuldaumræðu. Brúttó og nettó; skuldir þjóðarbúsins og skuldir hins opinbera (ekki það sama!) o.s.frv. Nú er talað um að erlendar brúttóskuldir þjóðarbúsins séu áætlaðar um 320% sem sumir vilja meina að kalli á þjóðargjaldþrot. Þá hljótum við að benda Svisslendingum á lýsa líka yfir gjaldþroti, sambærileg tala þar er yfir 400%.

Bjarki (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 17:32

7 identicon

En Vilhjálmur var nú búinn að benda á þetta á undan mér.

Bjarki (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 17:34

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einmitt, Bjarki, það er mikið rugl í gangi um þetta og ótrúlegasta fólk virðist ekki vera með muninn á hreinu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.1.2010 kl. 17:34

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"3. ársfjórðungur 2009

Erlendar eignir námu 8.930 ma.kr. í lok ársfjórð¬ungsins en skuldir 14.669 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 5.739 ma.kr. og lækka nettó skuldir því um tæpa 90 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Í tölum um erlendar skuldir eru meðtaldar eignir og skuldir innlánsstofnana í slitameðferð."

14 þúsund milljarðar, eru bísna hátt hlutfall VÞF.

Ef þú dregur frá skuldir bankanna, er brúttóhlutfall sagt vera, 320%.

Þannig, að heildartala yfir skuldir okkar, er mun hærri en hjá nokkru Evrópuríki, þ.e. e-h yfir 1000%.

En, ef þú vilt draga frá bankana, þá þarftu til að vera sambærilegur, að einnig að draga t.d. frá skuldir breskra banka. 

En, ef þú vilt bera þig við heildarskuldir breta, þá áttu að nota rétta heildartölu fyrir Ísland, þ.e. þá sem inniber einnig skuldir bankanna.

---------------------

Ég samþykki, ekki að nota eignir lífeyrissjóða í þessu samhengi, þ.s. ekki er hægt að selja þær á móti - né, nýtast vextir af þeim eignum til slíkra hlura. Þeir nýtast einungis sjóðunum sjálfum, til að standa undir greiðslum til þega og til að ávaxta sjálfa sjóðina.

-----------------------

þ.e. allt í lagi, að tala um nettó vaxtaskuldbindingar - en, mjög villandi að ræða um nettó skuldir - vegna stórrar óvissu um endanlega stöðu sjálfra eignanna.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.1.2010 kl. 17:37

10 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Bjarki - rétt tala yfir heildarskuldir þjóðarbúsins, skv. Seðlabanka Ísland, er 14.669 ma.kr.

Hættu svo, þessum villandi málflutningi.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.1.2010 kl. 17:42

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einar, stóri munurinn á íslensku gömlu bönkunum og þeim bresku er að þeir íslensku eru gjaldþrota, en þeir bresku ekki (ennþá a.m.k.).  Það þýðir að skuldir þeirra íslensku verða ekki greiddar nema af eignum þeirra.  Kröfuhafar tapa rest.  Það er því enginn að fara að borga 14.669 ma.kr. til útlanda, það vita allir (nema kannski þú?).

Það er enginn að tala um að selja eignir lífeyrissjóða til að borga skuldir Actavis.  Eina ástæðan fyrir því að við erum að tala um skuldir þjóðarbúsins yfirleitt er að við erum að velta fyrir okkur áhrifum þeirra á viðskiptajöfnuð og gengi krónunnar.  Að öðru leyti gæti skattborgurum ekki verið meira sama hvort Actavis ræður við að borga sínar erlendu skuldir (nema óbeint vitaskuld).

Bestu tölur sem við höfum um þetta eru frá Seðlabankanum og þær hafa verið að batna með tímanum; nú virðast flest álitaefni vera komin inn í tölurnar.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.1.2010 kl. 17:45

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þ.s. þarf að hafa í huga, að það gefur mjög villandi mynd, af raunstöðu Íslands, að vera með þann samanburð, sem þið praktíserið - þ.e. að bera heildarsummu skulda Íslands að frádregnum skuldum bankanna, saman við heildarsummu skulda annarra Evrópuríkja, er enn hafa starfandi banka.

Því, þá gefið þá villandi mynd, að staða okkar, sé ekki að ráði verri en annarra.

Við erum enn ekki með fullstarfandi bankakerfi, vegna afleiðinga hrunsins - þ.e. tveir bankar með stöðu starfandi félags í eigu þrotabúa sem eftir er að gera upp - svo staða þeirra getur vart verið óljósari. Síðan, Landsbanka, sem hefur verið endurfjármagnaður, með lánsloforði á ríkið, sem er eignfært af Landsbanka - en, ríkið á þessum tíma, hefur ekkert lánstraust þannig, að ergo að mjög lítið traust er hægt að gefa á það lánsloforð.

Án fullstarfandi bankakerfis, sem hefur verið endurfjármangað sem skildi, er staða okkar miklu mun veikari, en þessi samanburður sem þið notið gefur til kynna.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.1.2010 kl. 18:03

13 identicon

Vilhjálmur-

Takk enn og aftur fyrir að halda uppi rökum fyrir skynsemi á Íslandi. Vanþakklátara verk er vandfundið.

Það eru um 6 vikur þangað til að kosningin um Icesave fer fram. Af hverju sést hvergi nokkur hreyfing á því að skynsemisöfl á Íslandi berjist fyrir samþykkt? Eru allir bara búnir að gefast upp?

Ég veit að París er falleg á vorin, en það er engin ástæða til að fara að leita að bekk við Pont Neuf strax.

Ég setti saman analýsu um hvernig atkvæðismagnið gæti verið að skiptast í kosningunum, og það er leið til að ná meirihluta. Hún byggist einfaldlega á því að einangra forystu sjálfstæðisflokksins frá þeim í flokknum sem eru í tengslum við viðskiptalífið. Hitt atriðið er að rífa upp þátttöku -- lítil þátttaka mun tryggja að samningurinn falli.

Ef mér tókst að setja þetta upp rétt er analýsan hér: http://blog.haraldsson.com

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 18:07

14 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Málið er, að áfallið hefur kreppt mjög getu hagkerfis Íslands til hagvaxtar, þannig að geta þess, til að standa undir skuldum, hefur minnkað mikið.

Ef, á að gera samanburðinn raunhæfari, þá þarf að gera ráð fyrir þessari kreppingu í hagvaxtargetu hagkerfisins.

Sem dæmi, væri hægt að beita þeirri reiknikúnst, að reikna upp skuldir annarra Evrópuríkja, sem hafa enn fullstarfandi bankakerfi og um leið minna kreppta hagvaxtargetu en við höfum.

Sem dæmi, 50% uppreikningur á skuldum Breta - gæti gefið nokkuð raunhæfa mynd.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.1.2010 kl. 18:24

15 identicon

Einar Björn-

Er einhver sérstakur útgangspunktur sem þú hefur fundið einn manna þar sem Íslendingar lýsa yfir þjóðargjaldþroti og sleppa bara við að borga skuldir sínar?

Hvað ætlarðu að segja í París? Að fiskurinn sé flak, fallvötnin þurr, hverirnir kaldir, flugvélarnar flognar, fiskiskipin sokkin, og lífeyrissjóðirnir tómir? Ísland getur ekki einhliða ákveðið að það fái niðurfellingu skulda.

Þetta er glórulaust tal, að þjóðin eigi að stefna í gjaldþrot. Argentína gerði það eftir áratuga neyslu umfram efni og að helstu tekjustofnar landsins hurfu. Landið er enn að komast út úr vandræðum sínum. Eða Mexikó. Ætlarðu að leggja að jöfnu Ísland og Mexikó? Það lætur nærri að búi feiri fátækir í skimaskotum á flugvellinum í Mexico City heldur en fátækir eru á Íslandi.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 19:26

16 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Burtséð frá skuldaþrætunni þá býður þessi grein Vilhjálms uppá umræður um gjaldmiðilinn. Krónan er ekki framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar þó svo að fyrirsjánlega verði hún það næstu tíu árin. Umsókn í ESB er forsenda gjaldmiðilsbreytinga og er það helsta ástæðan fyrir andstöðu við Evruna. Íslendingar eiga kost á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning ef hann næst. Þetta verður væntalega skýr valkostur með eða á móti. Borið saman við lagabálkinn sem Ólafgur vill að þjóðin kjósi um núna verður umræðan fram að þeirri atkvæðagreiðslu minnst um lögin sem á að samþykkja heldur a) með eða á móti Icesafe, b) með eða á móti ríkisstjórninni og c) með eða á móti ESB og ekkert þessara þriggja atrið verður gengið til kosninga um! Afstaðan til þessara þriggja þátta mun ráða úrslitum.

Gísli Ingvarsson, 19.1.2010 kl. 20:41

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Andri, ég brýt einmitt heilann yfir þessum málflutningi: það er svo mikil hætta á að Ísland fari í þrot, að við eigum þann kost vænstan að fara í þrot.  (Og vilja svo taka skref, á borð við að hætta samstarfi við AGS, sem auka líkur á þroti verulega.)  Þessarar skoðunar er fólk á borð við Einar okkar hérna, og hann er í kompaníi við fólk á borð við Birgittu Jónsdóttur þingkonu og Gunnar Sigurðsson leikstjóra.

Svo er verið að ásaka annað fólk fyrir skort á "baráttuvilja" og "þjóðhollustu" í kring um Icesave.  Mér finnst sannast sagna mest gagn í því fyrir land og þjóð að berjast fyrir að við höldum trausti okkar, lánshæfi og góða nafni eins óflekkuðu og unnt er í gegn um þessar hörmungar; sýna ábyrgð, trúverðugleika og skynsemi; vinna af heilindum og koma út úr þessu með sæmilega ólaskaða sjálfsvirðingu, fyrir hönd okkar og næstu kynslóða.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.1.2010 kl. 20:56

18 identicon

Vilhjálmur ég er að átta mig á þér.

Ég held ég mundi frekar velja að rifja upp handverk, hannyrðir, sláturgerð og forna búskaparhætti en að fara þína leið, skuldsetningar og skattaafsláttar til sérstakra vildarvina sem eru til í að skuldsetja þjóðarbúið enn og enn meir.

Það er glapræði að samþykkja icesave og það er vont að vita til þess að Samfylkingin er við völd við þær aðstæur sem við erum í.

En það er víst að meðan hlustað er á menn eins og þig og þið sjáið það eitt að halda áfram á braut sem er löngu fullreynd, braut skuldsetningar, ofurtrúar á eigin ágæti þó klingi í tómum holrúmum ykkar þá á þjóð vor litla möguleika.  Og svo reisið þið gagnaver og líkast til fleiri álver sem veða bara ein bommertan enn en ert þú til í að leggja sjálfan þig undir og taka ábyrgð Vilhjálmur? 

Ég meina ábyrgð með þínum eigin aurum?

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 22:21

19 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sigurður:  Greiðslur af Icesave yrðu ekki fyrr en 2016 og hafa engin áhrif á þá mynd sem ég er hér að lýsa, nema á þann veg að ef Icesave yrði hafnað og aðstoð AGS og Norðurlanda dregin til baka, þá förum við nokkuð örugglega í greiðsluþrot í erlendri mynt eigi síðar en 2012.  Eina leiðin til að komast hjá greiðsluþroti væri þá að veikja krónuna verulega umfram það sem nú er, og það myndi valda slíkum búsifjum að enginn heilvita maður myndi leggja slíkt til.

Ég ræði ekki gagnaversverkefnið á þessum vettvangi, sem er mitt persónulega blogg, en bendi þó á að ný erlend fjárfesting inn í landið virkar einmitt í þá átt að laga stöðuna, hjálpar til við viðskiptahallann og styður við krónuna.

Varðandi "ábyrgð með þínum eigin aurum" skil ég ekki alveg hvað verið er að fara, en ég er hluthafi og stjórnarmaður í nokkrum sprotafyrirtækjum og geri það sem í mínu valdi stendur til að hér verði áfram ákjósanlegt umhverfi fyrir nýsköpun og fyrirtækjarekstur almennt, enda verður ekki rekið hér velferðarþjóðfélag í framtíðinni án þess.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.1.2010 kl. 23:19

20 identicon

Icesavefólkið vill taka sénsinn með 90% líkur á því að allt gangi upp skv. úreltum og ofurbjartsýnum tölum AGS. Bara það að Seðlabankinn skuli allt í einu finna 400 milljarða af erlendum skuldum sýnir hvað tölulegar forsendur eru hæpnar.

Það þarf samt að reyna að meta hvor leiðin er áhættuminni og hagstæðari. Af hverju er enginn búinn að teikna þetta upp ef það er svona augljóslega slæmt að hafna Icesave2?

Kostnaður vegna Icesave 2 liggur fyrir þ.e. 600 milljarðar EF 88% innheimtist OG gengi milli gjaldmiðlanna þriggja helst í jafnvægi. Þetta mun ekki gerast og mesta áhættan vegna þessa er hjá Íslendingum. 

Hver ætli raunverulegi kostnaðurinn sé við það hafna Icesave 2 og láta lausn deilunnar bíða?

  • Ísland verður aftur sett á hryðjuverkalista Breta (ólíklegt)
  • Ísland verður sett í gjaldþrotameðferð af Bretum, Evrópusambandinu eða AGS (ólíklegt)
  • Ríkisstjórnin fær ekki frekari erlend lán og verður að vanda fjárfestingar sínar, skera niður óþarfa og fækka ráðuneytum (líklegt). 
  • Landsvirkjun og OR semja um endurnýjun lána við lánadrottna og greiða hærri vexti í nokkur ár. (líklegt)
  • Gjaldeyrishöftin verða í 6 - 12 mánuði lengur en þar sem SÍ verður búinn að finna allar erlendu skuldirnar en þá verður fljótlegra að afnema höftin (líklegt)
  • Bankarnir flýta endurskipulagningu óarðbærra fyrirtækja sem hjálpar þeim fyrirrtækjum sem eru núna í beinni samkeppni við "Bankann sinn". (líklegt)
  • Vextir verða lækkaðir til að stuðla að fjárfestingum (hlutlaust - Er SÍ sjálfstæður?)
  • Samstaða næst með þjóðinni og á Alþingi um næstu skref (líklegt)
  • Hægt verður að gera áhættminni og hagstæðari Icesave 3 samning með aðkomu allra stjórnmálaflokka og ESB. (mjög líklegt)
  • Heimtur á eignum LÍ verða skýrari og óvissan minni (líklegt)
  • Erlendar vaxtagreiðslur ríkisins verða minna/meiri en áætlað var (?)
  • Einhverjar fjárfestingar sem byggja á erlendum lánum frestast en ráðist verður í þær arðbærustu (líklegt)
  • ...

Auk þess er ekkert í hendi um hraðferð inn í evruna. Umræða um það er óskhyggja nema flestir stjórnmálaflokkar taki þátt í henni ÁSAMT Evrópusambandinu. Samkomulag um hraðferðina mun aldrei nást ef Icesave 2 lögin verða samþykkt.

NN (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 00:36

21 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Eða Mexikó. Ætlarðu að leggja að jöfnu Ísland og Mexikó? Það lætur nærri að búi feiri fátækir í skimaskotum á flugvellinum í Mexico City heldur en fátækir eru á Íslandi."

-------------------------------------

Ef við reynum að fara leið sjálfseyðileggingar skv. vilja ríkisstjórnarinnar, þá mun Ísland brátt verða eins fátækt og Mexíkó - því, þú ert að tala um viðvarandi niðurspíral lífskjara um næstu áratugi.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 20.1.2010 kl. 00:38

22 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Því miður, er þóðargjaldþrot næsta öruggt, ef ríkisstjórnin bregður ekki af helstefnu sinni.

Ísland getur endað, ekki sem Kúpa norðursins, heldur sem Haiti norðursins - þ.s. rökrétt útkoma leiðar ríkisstjórnarinnar, er samfelld niðurkúrva í vaxandi og síðan sífellt vaxandi fátækt.

Eina leiðin, til að sleppa við þá hringrás helfarar - er að breyta, setja þeim sem við skuldum stólinn fyrir dyrnar, og hefja undirbúning, gjaldrots.

 ------------------------------

Þ.e. ekki þannig endilega, að þá sé ætlunin að verða gjaldþrota, heldur er slíkt klassískur "brinkmanshp" sem kemur því til skila til mótaðila, að við erum ekki tilbúin, til að vera gólfmottur.

Með því að berja með slíkum hætti frá sér, sýna fram á, að við skríðum ekki, þá styrkir það samningsaðstöðu. Geriri mótaðila, líklegri til að láta undan.

En, það virkar aldrei sú leið, að vera gólfmotta, því það leiðir alltaf til, að enn frekar er á þér troðið. Leið til virðingar, er einmitt að sýna vilja og stefnufestu.

----------------------------

Greiðsluþrot er mun skárri leið, en helstefna ríkisstjórnarinnar. Það ætti öllu skynsömu hugsandi fólki, að vera fullljóst, og íllskiljanlegt að það skuli virkilega að vera til staðar fólk, sem hefur þá afneitun, að neita að sjá hið augljósa, hið rökrétta í stöðunni.

En, sú allra besta, er að ná samingum um afslátt af skuldum.

Sannarlega er rétt, að slíkir samningar eru aldrei fyrirfram í boði - en, þá er aftur á móti hægt að knýja fram.

Til þess, þarf einungis smávegir kjark og einbeitni, smá vilja til að vera ekki gólfmotta, pínulítið hugrekki í stað hugleysis.

Því fylgir að sjálfsöðgu sú áhætta, að planið geti endað í greiðsluþroti. En, sú útkoma er samt skárri en leið ríkisstjórnarinnar. Það ættu alli heilvita menn og konur, að geta séð. 

Á hinn bóginn, er engin ástæða til annars, en að halda áfram samingum við kröfuhafa. Eftir því sem frá líður, er rökrétt að afstaða þeira mildist - en, þ.e. líkur aukist á því, að þeir falli frá kröfum að hluta.

Þ.e. hið minnsta reynsla þeira 17 ríkja, er tóku þátt í "The Brady Bond Plan" en ó því ferli, sem dæmi náði Mexikó fram 40% lækkun.

Þetta er leiðin. Ég vona, að ábyrgir einstaklingar, sjái það og safni liði, til að berjast fyrir þessari leið.


Kv.

Einar Björn Bjarnason, 20.1.2010 kl. 00:52

23 identicon

Góðvild vegna heimatilbúins greiðsluþrots?

NN hér að ofan kemur með nokkrar hugmyndir sem eru þess virði að meta þær. Virði það mikils, ekki allir á þeirri línu. Förum í gegnum þetta:

Ísland verður ekki sett á neinn hryðjuverkalista, sammála um það.

Ísland verður heldur ekki sett í gjaldþrotameðferð af öðrum Evrópuþjóðum, sammála um það. Enda er ekki sem slíkt hægt að setja þjóðir í gjaldþrot. Þær missa bara viðskiptaleg og menningarleg tengsl við önnur lönd, missa aðgang að fjármagni, og það fjármagn sem fæst er svo dýrt að það er varla hægt að standa undir nokkrum fjárfestingum. Hér er þó fyrsta sem NN missir í mati sínu. Íslensk fyrirtæki geta ekki reiknað með góðum aðgangi að erlendu fjármagni og innkaupum heldur. Það er ekki vongott fyrir rekstur í landinu.

„Ísland fær ekki frekari lán og verður að skera niður hjá ríkinu.“ Fínt. Verður ástandið hjá almenningi betra fyrir það að landið er enn verr statt en núna? Ekki nóg með það, hvað eiga ríkisstarfsmenn að fara að gera? Vinna hjá fyrirtækjunum sem ekki hafa rekstrarfé? Eða lendir þetta fólk kannski á atvinnuleysisbótum til lengri tíma (semsagt borgað úr hinum vasa ríkisins)?

Það er líka athyglisvert að velta fyrir sér verðbólgu í landinu um þetta leytið. Aðgangur að erlendu fé er næstum horfinn. Enn hert gjaldeyrishöft (næsti liður NN) í gildi. Íslenska ríkið neyðist til að prenta endalaust af krónum til að standa við skuldbindingar innanlands (nema skatttekjur séu auknar, en þetta kemur allt í sama far), en æ minna fæst fyrir krónur í kaupum á svartamarkaði af gjaldeyri fyrir nauðsynjar til fyrirtækjareksturs. Þetta hefur svo sannarlega gerst vítt um heiminn. Að sumu leyti á Íslandi eins og þeir vita sem muna haftaárin.

Bankarnir flýta endurskipulagningu óarðbærra fyrirtækja. Semsagt fleiri fyrirtæki sett í þrot, það er eina endurskipulagningin sem getur farið hraðar. Fleira fólk atvinnulaust. Minni verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Akkúrat það sem fólk er að vilja fá með því að fella Icesave...

Vextir lækkaðir. Þetta gæti gerst. En hversu miklu skiptir það? Ef fyrirtæki hafa ekki aðgang að gjaldeyri (50% af aðföngum þurfa gjaldeyri) þá er ekki rekstrargrundvöllur. Þeir sem taka lán fara á hausinn. Þetta væri bara peningaprentun sem myndi enn auka á bál verðbólgu innanlands.

Samstaða næst um næstu skref? Af hverju er það svona líklegt? Verða íslendingar allt í einu ekki þrætugjarnir af því þeir fella Icesave? Er líklegt að láglaunafólk gleðjist meira yfir kjaraskerðingum af því það fékk að fella Icesve. Eða er líklegt að nýreknir ríkisstarfsmenn fari í gleðigöngur?

„Hægt verður að gera áhættminni og hagstæðari Icesave 3 samning með aðkomu allra stjórnmálaflokka og ESB.” Og þetta er mjög líklegt, af hverju? Það hefur enginn staðið með Íslandi í þessu kvabbi, en ef við neitum að fara að ráðum vinaþjóða, AGS, og göngum á bak orða 3 ríkisstjórna, þá allt í einu skín góðvilji erlendra þjóða á okkur eins og morgunsól? Er ekki talsvert líklegra að bretar og hollendingar fari hart fram í því að Íslandi verði vísað úr EES? Er ekki líklegra að þeir standi bara fast á sínu þangað til að Ísland gefst upp á að reyna að fjármagna sig í ruslflokkinum

Heimtur á eignum LÍ verða auðvitað skýrari eftir því sem á líður. En þær breytast ekki fyrir það. Þær verða það einungis það sem þær verða, saman hvenær er samið.

Erlendar vaxtaskyldur munu auðvitað ekki minnka ef að vaxtaprósentan í erlendum myntum hækkar. Það gæti komið til að minna verði greitt ef þjóðin er í þroti. En skuldin hverfur ekki meðan lánardrottinn sér eignir sem standa á móti. Það er í hnotskurn „vandamál“ Íslands: þetta er greiðsluvandamál, ekki eignavandamál. Íslendingar eiga gífurleg auðævi.

Það er rétt að ákveðnar fjárfestingar munu halda áfram, en nýjar fjárfestingar eru erfiðar þegar það er ekki ljóst hvernig hægt er að koma þeim í verð, eða færa fé úr landi. Ekki fæst sést að fjárfestingar gætu orðið meiri fyrir það að allt er í fári. En vissulega gætu láglaunastörf komið til landsins þar sem kaupmáttur innanlands verður mjög lítill. Kannski íslendingar með háskólapróf fari að manna símavörslu fyrir erlend fyrirtæki.

Að lokum þetta. Íslendingum hefur verið boðin aðstoð á allar hendur. Án þessar aðstoðar væru mál miklu verri en þau nú eru. Það er ssmeiginlegt mat allra þjóða sem við erum í kynnum við að við eigum að fara eftir því sem stjórnvöld hafa staðið í frá því að hrunið varð. En, enn og aftur þá halda margir íslendingar að þeir viti betur. Þetta fólk er ekki enn búið að fullreyna „íslensku leiðina?“ Það sem enginn skilur, amk. enginn sem skoðar málið af heilhug og sögulegri þekkingu, er af hverju sumir íslendingar halda að með því að gefa alþjóðasamfélaginu fingurinn þá eigi þeir enn rétt á samneyti við aðrar þjóðir? Af hverju sumir íslendingar virðast halda að góðvild í gjaldþroti sé meiri gagnvart þjóð sem útávið virðist mest umhugað um að hlaupast frá skyldum sínum?

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 01:54

24 identicon

Sæll Vilhjálmur, oft hef ég lesið bloggið þitt og oftast verið þér sammála.  Í þessari færslu er ég einnig sammála þér með flest, nema lokapunktinn.  Þó vil ég taka fram að ég er þér sammála um að Íslendingar eiga ekki að halda uppi egin gjaldmiðli. 

En þá fullyrðingu  þín að viðskiptajöfnuður sé aðeins vandamál almennings svo lengi sem við séum með krónu skil ég ekki.   Þú átt væntanlega við það vandamál að hér þarf að verða viðskiptaafgangur svo land og þjóð standi undir erlendum lánum sínum.  Og væntanlega gerir ráð fyrir að krónan þurfi að veikjast meira til að ná þessum afgangi, sem þú gerir ráð fyrir að valdi verðbólgu.

Hinsvegar hverfur þetta vandamál alls ekki ef við tökum upp evru, jafnvel þó við gerum það í kjölfar ESB aðildar.  Landið þarf samt sem áður að borga skuldir sínar og það verður ekki gert nema vera með nógu stóran vöru+þjónustuafgang svo viðskiptajöfnuður verði jákvæður.  Í stað gengisveikingar kæmi aukið atvinnuleysi sem er alveg jafnmikið vandamál almennings og verðbólga.

Ég er í grunnin sammála þér að upptaka evru er skinsamlegra en að halda fast í krónuna, en evru upptaka leysir ekki allan vanda sem við erum komin í.

Annars vil þakka fyrir góða pistla

kv  Björn

Björn Hákonarson (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 10:02

25 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Björn, þú hittir naglann á höfuðið í greiningunni.  Það sem breytist við að taka upp evru, er að þjóðarbúið sem slíkt getur hætt að hafa áhyggjur af því að nægur gjaldeyrir berist til landsins til þess að við getum (sem þjóðarbú) greitt af erlendum skuldum.  Auðvitað verður það eftir sem áður vandamál einstakra fyrirtækja og lögaðila að eiga fyrir skuldum sínum, en það verður vandamál þeirra sjálfra, ekki þjóðarinnar allrar í gegn um gengi krónunnar.  Ríkið þarf eftir sem áður að geta aflað tekna til að greiða af skuldum, en það skiptir ekki lengur máli hvort þær skuldir eru í innlendri eða erlendri mynt.

Útflutningsverslun Íslendinga er að tæplega 2/3 til Evrulanda og landa með tengda mynt. Við erum því þegar tengd evrunni sterkum böndum.  Jafnframt er það svo, vegna mikillar verðtryggingar og gengistryggingar skulda, að veiking krónu veldur almenningi miklum búsifjum, þótt hún styrki útflutningsgreinar.  Kaupmáttur heimila minnkar mikið við veikingu gjaldmiðilsins, og það veldur samdrætti - og þar af leiðandi einnig atvinnuleysi. Dæmið er því ekki alveg einfalt.

Ég hef skrifað um þetta ritgerð sem ég benti á fyrr í þessum þræði, en hana má finna hér.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2010 kl. 11:08

26 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er með reiknivang fyrir framan mig með líkani af endurgreiðslum erlendu lána opinberra aðila og veitufyrirtækja; fjármögnun AGS og nágrannaþjóða, áætluðum vöru- og þjónustujöfnuði, vöxtum o.fl.  Er enn að velta fyrir mér hvernig er best að setja þessar upplýsingar fram á bloggi.  En ályktanirnar eru tvær:

1) Það er ekki nokkur vinnandi vegur að komast í gegn um næstu 2-3 ár nema með aðstoð og fjármögnun AGS og nágrannaþjóða.  Þeir sem halda öðru fram eru ekki með heildarmyndina fyrir framan sig.

2) Icesave er ekki okkar helsta vandamál.  Afborganir hefjast þar 2016, eftir að við erum komin í gegn um mesta brimskaflinn, og skiptast á 8 ár.  Greiðslubyrðin virðist vel viðráðanleg miðað við annað; ef við ráðum við næstu 3 ár (þar sem aðalverkefnið er að berjast við krónuna) þá komumst við í gegn um Icesave-greiðslurnar.  - Ef endurreisnin er ekki stöðvuð í millitíðinni af óábyrgum popúlistum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2010 kl. 11:21

27 identicon

Það er ekki rétt að við þurfum ekki að borga af Icesave fyrr en 2016. Við þurfum að greiða vexti frá janúar 2009, á bilinu 28 til 35 milljarðar á ári. Nú þegar skuldum við ca. 30 milljarða. 

Hvar færðu tölur um allar afborganir hins opinbera næstu árin?

Doddi D (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 11:40

28 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Vaxtagreiðslur.

Fram að sjöunda ársdegi samningsins (og að honum meðtöldum) skulu áfallnir vextir af útgreiðslum leggjast við (og þannig verða hluti af) heildarhöfuðstólnum á hverjum ársdegi samningsins.

Eftir sjöunda ársdag samningsins greiðir Tryggingarsjóður innstæðueigenda áfallna vexti af láninu á hverjum ársdegi samningsins og þegar þrír, sex og níu mánuðir eru liðnir frá ársdegi samningsins.  (Lánasamningur milli TIF, Íslands Bretlands)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.1.2010 kl. 12:40

29 identicon

Lélegir smiðir segja alltaf að það sé verkfærunum að kenna. Sama er með lélega hugmyndasmiði. Það er allt sem ég hef um þetta að segja.

Dagga (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 12:57

30 identicon

Þetta er jafnvel vitlausara en ég hélt. Við ætlum sem sagt að láta taka af okkur hundrað milljarða í aukalega í vaxtavexti. Allt í gjaldeyri. Brilliant.

Og það fyrir reikning sem er ósamþykktur af okkur. Og er ekki einu sinni ljós hver er.  

Doddi D (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 12:59

31 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Doddi D, ertu viss um að þú vitir nokkuð um hvað þú ert að babbla ?  Fyrst ætlaðru að fara greiða vexti í gær - og það er ómögulegt.

Síðan er þú kveikir á peru og áttar þig á 7 ára skjóli - þá er það líka ómögiulegt vegna þess að vextirnir gufa bara ekkert upp !

Þetta er allt svona hjá ykkur sjöllum.  Bull og lýðskrum útí loftið og þið eigið að skammast ykkar.  

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.1.2010 kl. 13:59

32 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Greiðslur úr þrotabúi Landsbankans koma á móti höfuðstólnum jafnóðum í þessi 7 ár, og lækka hann og vaxtagreiðslur samsvarandi.

Svo dæmi sé tekið, þá eru horfur á að afborganir af lánum frá Norðurlöndum, sem tekin eru til að styrkja gjaldeyrisforðann, verði hærri upphæð en Icesave-greiðslurnar, þessi 8 ár sem þær standa yfir.

Tölurnar um afborganir eru fengnar m.a. frá Lánasýslunni (www.lanasysla.is), úr ársreikningum orkufyrirtækjanna, og úr ársreikningum helstu sveitarfélaga.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2010 kl. 14:13

33 identicon

Ómar, vertu almennilegur og rífast við mig persónulega á blogginu hans Vilhjálms. Er ekki sjalli, hvaða máli sem það nú skiptir. Er Íslendingur einsog aðrir hér. Og er að reyna að rökræða.

Vextirnir eru mikið stórmál í þessu samhengi, þar sem þeir mynda ekki kröfu í þrotabú Landsbankans. 

Eins sýnist mér að það sé sýndarveruleiki í þessu. Ríkið ákvað að gefa út ca. 300 milljarða skuldabréf til "gamla Landsbankans" sem er ekkert annað en þetta þrotabú sem við erum að tala um. Það er því í raun Icesave skuld líka. Þetta skuldabréf var í gjaldeyri.

Hér er verið blekkja okkur. Icesave er ekkert annað en Landsbankinn og þrotabú hans. 

Doddi D (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 14:23

34 identicon

Sæll Vilhjálmur

Nú þegar er búið að rita í fyrra athugasemdum ansi margar góðar ábendingar til þín um þessa bloggfærslu þína.  Vil samt bæta við nokkrum punktum

1)  Nettó skuldastaðan er EKKI 91% af landsframleiðslu líkt og þú gefur í skyn......hún er aftur á móti gróflega áætluð 91% með skekkjumörkum uppá mörg hundrum milljarða líkt og kemur fram í grein Más.  Einnig er bent á að margar eignir sem skráðar eru sem "eignir innlendra aðila" séu það afar líka ekki.

2)  Það er rétt hjá Einari sem hann segir um lífeyrissjóðina.  Þeir eru nefnilega í þeirri stöðu að vera með allar sínar skuldbindingar í krónum en slatta af eignum í erlendum myntum.  Það gengur ekki að taka erlendu eignir þeirra út úr þeirri jöfnu og ætla að nota þær sem hreina erlenda eign í jöfnunni á móti erlendum skuldum........án tillits til þess að í raun eru þær keyptar með láni í ISK  (fengnar að láni frjá sjóðsfélögum).

3)  Krónan hefur ekki gert einum eða neinum neitt........krónan er líkt og hvert annað mælitæki.  Hún mælir gæði hagstjórnar og hagkerfa.  Ef hún fellur þá er það vegna þess að við erum að gera eitthvað rangt.........á sama hátt og þegar barómeter fellur þegar von er á slæmri lægð, krónan gefur í skyn það sem í vændum er. 

4)  Íslenska ríkið hefur nú lánshæfiseinkunina "rusl" hjá Fitch  (reyndar ekki hjá neinu öðru matsfyrirtæki, en látum það liggja á milli hluta).   Áður vorum við í næsta flokkir fyrir ofan rusl.    En það skiptir auðvitað engu.......nákvæmlega engu......hvort við erum "næstum rusl" eða "rusl".  Við viljum vera hvorugt. 

Málið er bara að Icesave2 samningurinn hefði tryggt okkur inní "næstum rusl" flokkinn næstu áratugina.  Hver einasta evra, hver einasti dollar, hvert einasta pund sem við myndum afla hefði farið í afborgnir og vexti af lánum.....og það sem meira er, afar líklega megnið af gjaldeyrisforðanum.  EKKERT af þessum peningum hefði farið í fjárfestingar hér heima, ekkert í uppbyggingu atvinnulífs, ekkert af þessum peningum hefði heldur farið í uppbyggingu stoðkerfisins (infrastructure) landsins.  Það er ekki draumalandið til að búa í.

Þeir sem draga fram þá barnalegu mynd að við munum einangrast viðskiptalega og menningarlega við það að fara í þjóðargjaldþrot hafa ekki lesið heima fyrir tímann.   Sögulega hefur það ekki gerst.

Ísland býr yfir náttúruauðlindum........og það mun ÁVALLT verða keyptur af okkur fiskur og það verður ÁVALLT þörf á orku........og fjárfestar munu ÁVALLT horfa m.a. til þessarar þátta þegar þeir leita að landi til að reisa fyrirtæki líkt og gagnaver í.

Þakka þeim sem nenntu að lesa :-)

Kolbeinn (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 14:25

35 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Doddi: Það var reyndar Nýi Landsbankinn sem gaf út skuldabréfið til þess gamla, til að jafna út mismun eigna og skulda sem nýi bankinn tók yfir frá þeim gamla.  Sá nýi tók sem sagt 314 milljarða eignir umfram skuldir, og jafnar það út með þessu bréfi.  Ástæðan fyrir því að það er í gjaldeyri mun vera að yfirteknu eignirnar voru að talsverðu leyti í gjaldeyri.  Ríkið ber ekki beina ábyrgð á þessum skuldum Nýja bankans við þann gamla (sá nýi er hlutafélag með takmarkaðri ábyrgð) en vitaskuld stendur enn yfirlýsing ríkisins um að innistæður í íslenskum bönkum séu tryggðar að fullu af því - þótt deila megi um lagagildi slíkrar yfirlýsingar.

Icesave er skuldbinding Tryggingasjóðs innistæðueigenda, ekki Landsbankans, en vonir standa til að gamli bankinn skili 88% upp í forgangskröfur.  Skuldabréfið frá nýja bankanum er meðal þeirra eigna sem ganga munu upp í forgangskröfurnar.

Kolbeinn: 91% er besta talan sem við höfum.  Hún er vissulega háð óvissu en í báðar áttir eins og hagfræðingar Seðlabankans gera grein fyrir.  Varðandi lífeyrissjóðina, þá þarf að passa að gera greinarmun á skuldastöðu þjóðarbúsins annars vegar og ríkisins hins vegar.  Ef menn eru að tala um skuldastöðu þjóðarbúsins þá er algerlega borðleggjandi að eignir lífeyrissjóða erlendis eiga að vera með í þeirri tölu, alveg eins og skuldir Actavis eru inni í þeirri tölu.  Ef menn eru að tala um skuldastöðu ríkisins þá er það annað mál, en hún er ekki 320% af VLF heldur aðeins brot af því.

Við verðum bara að vera sammála um að vera ósammála um krónuna.

Margir helstu fjárfestingasjóðir heims mega aðeins kaupa og eiga bréf í fjárfestingarflokki (investment grade).  Ef ríkið fer í ruslflokk breytist kaupendahópur bréfa þess, og vandaðri sjóðir verða að losa sig við íslensku skuldabréfin.  Ávöxtunarkrafa hækkar til muna og þar með vaxtakostnaður ríkisins til framtíðar.  Sú hækkun ein og sér getur kostað árlegar upphæðir sem slaga hátt í greiðslubyrðina af Icesave, sem er þó afstaðin á 8 árum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2010 kl. 17:28

36 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Samtök atvinnulífsins, vara við því, að stefni í að innlend fjárfesting hérlendis, verði á þessu ári sú minnsta frá lokum seinni heimsstyrrjaldar:

http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4732/

Þ.s. menn virðast ekki enn vilja skilja, þ.e. hve alvarleg kreppan hérlendis er, geta hagkerfisins til hagvaxtar er stórsköðuð - sem veldur því, að geta þess til að standa undir skuldum er einnig stórsköðuð.

Þetta er grunnvandinn.

  • Þ.e. því tóm tjara, að benda á önnur ríki þ.s. geta til hagvaxtar er í betra horfi, og segja að staða okkar sé ekki svo slæm, því skuldir okkar séu ekki neitt að ráði meiri.
  • Þetta er mjög alvarlegur þvættingur, því þá eru menn ekki að gera sér ljóst, að um þessar mundir, er geta okkar hagkerfis til að standa undir skuldabyrði, mun minni en geta þeirra hagkerfa.

Þetta er ástæðan fyrir því, að mín niðurstaða er, að við stefnum í þrot og eina leiðin til að komast hjá því, sé að fara í það að undirbúa þrot á meðan að leitast verður við, að knýja fram aðra og skárri lausn, þ.e. lækkun skulda.

En, lækkun skulda, er þ.s. við þurfum. Án þess, er nær algerlega útilokað, að greiðsluþroti verði forðað.

------------------------------------------------------

Varðandi þá frétt, sem ég vísa til:

Þetta ætti ekki að koma nokkrum á óvart. Staðreyndin er sú, að hér er bullandi samdráttur, og aðgerðir stjórnvalda upp á síðkastið hafa fremur bætt þar í, en hitt.

*50% fyrirtækja, skv. fréttum rétt fyrir jól, hafa fengið tímabundna lækkun greiðslubyrði - frysting/eða lækkun. En, hér er um sömu tilboð og almenningur hefur fengið.

*2/8 fyrirtækja voru sögð skv. þeirri frétt, í vandræðum - sem væntanlega þíðir að ofangreindar aðgerðir voru ekki nægar.
-------------------------------

*Þetta kemur heim og saman við, að skv. skýrslu AGS séu rúm 60% fyrirtækja, metin með ósjálfbæra skuldastöðu.

*Höfum einnig í huga, að skv. spá Seðló fyrir árið í ár, verða 40% heimila komin með ósjálfbæra skulda/eignastöðu fyrir lok árs.

*Ofan í þetta, er verið að hækka skatta og það mikið - sem eykur í samdrátt.

*Síðan eru vextir ennþá of háir miðað við aðstæður - sem einnig eykur samdrátt.

*Að auki, er fólk farið að flytja af landi brott, sem einnig eykur á samdrátt.
----------------------------------------------------------------

Allt ofantalið, dregur úr getu hagkerfisins til hagvaxtar, og allt er í gangi á sama tíma.

Niðurstaða - ekki séns, að plan AGS og ríkisstjórnarinnar, geti mögulega gengið upp.

Ég er sammála því, að atvinnuleysi mun aukast mikið í ár, og einnig að samdrátturinn sem var frestað í fyrra með tímabundinni lækkun greiðslubyrði sé einnig á leiðinni.

----------------------------------------------------

Í þessu ljósi, er fjarskalega ólíklegt, að Ísland geti staðið undir greiðslum af Icesave.

Reyndar, í ljósi mjög skaðaðrar getu hagkerfisins til hagvaxtar - þá er sennilega mjög líklegt, að Ísland verði gjaldþrota þá miðað við þær skuldir sem þegar eru komnar.

Ýmsir hafa haldið fram, að skuldir okkar séu ekki mikið meiri en sumra annarra ríkja, sem röksem um að þetta reddist, en það tekur ekki tillit til mjög skaðaðrar getur hagkerfisins til hagvaxtar.

Í ljósi hver hve sú geta er sköðuð, þ.e. sennilega er gata hagkerfisins til hagvaxtar neikvæð - þ.e. ekki einu sinni “0? þá efast ég einnig um, að við stæðum undir okkar skuldum, þó þær væru helmingi minni.

En, lykilatriðið er geta hagkerfisins til hagvaxtar, þ.e. tekjur, vs. kostnaður af skuldum. En, í dag duga tekjur, ekki einu sinni fyrir vöxtum af skuldum, og svo verður sennilega næstu ár.

Gjaldþrot virðist því nánast, óumflýjanlegt.
----------------------------------------------------------------

Við þurfum því í ljósi stöðunnar, að hefja undirbúning fyrir greiðsluþrot.

Sjá umfjöllun mína á: http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 20.1.2010 kl. 20:24

37 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Vilhjálmur:

Hafðu þökk fyrir upplýsandi blogg um IceSave og skyld mál. Síbylja dramadrottninganna er farin að verða mjög þreytandi.

Menn hafa verið að verja krónuna hérna. Segja að hún endurspegli bara lélega hagstjórn.

Krónan afrekaði þó að margfalda tjón almennings af bankahruninu. Hvort sem það er vegna eðlis krónunnar í sjálfu sér eða lélegri hagstjórn að kenna skiptir mig ekki máli. Við verðum einfaldlega að losna við krónuna.

Þar fyrir utan höfum við meira en 60 ára sögu af nánast samfelldu verðfalli og sveiflum í verðmæti krónunnar sem að mestu má skrifa á reikning íslenskra stjórnmálamanna.

Langar einhvern til að prófa 60 ár í viðbót til að sjá hvort þeir muni ná tökum á þessu?

Ekki mig, sérstaklega þegar haft er í huga að með auknum alþjóðaviðskiptum á síðustu árum og áratugum verður sífellt erfiðara að verja krónuna fyrir alþjóðlegum bröskurum sem eru nógu fjárhagslega sterkir til að geta haft áhrif á gengið.

Gjaldið sem almenningur og fyrirtæki greiðir í hærri vöxtum sem fylgja krónunni er engan vegin ásættanlegt.

Finnur Hrafn Jónsson, 22.1.2010 kl. 00:30

38 identicon

Finnur :

Þú talar um dramadrottningar en persónugerir sjálfur krónuna og gerir dauðum hlut upp að hafa afrekað eitthvað.

Ef þú lemur sjálfan þig í hausinn með hamri, hver vann það afrek? Var það hamarinn sjálfur eða þú sem sveiflaðir honum?

Er þá ekki ráð skv. röksemdafærslum þínum að losa okkur við alla hamra í landinu "vegna þess að þeir valda óbætanlegu tjóni" ?

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 10:54

39 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ef Íslendingar væru búnir að reyna í 60 ár að ná tökum á því að nota hamar án þess að það hefði tekist, hvað þá?

Væri þá ekki ráð hætta að berja höfðinu í steininn og fá aðra til þess að nota hamarinn sem hafa sýnt sig að því að gera það miklu betur.

Við Íslendingar verðum einfaldlega að sætta okkur við að við erum ekki stórþjóð. Smæðin gerir okkur erfitt fyrir á sumum sviðum. Hún hjálpar líka á öðrum sviðum sbr. t.d. frábært starf rústabjörgunarsveitarinnar á Haiti.

Finnur Hrafn Jónsson, 22.1.2010 kl. 18:51

40 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Styrkur gjaldmiðla, fer eftir sömu lögmálum, og styrkur hlutabréfa fyrirtækja; þ.e. rekstrarlegum forsendum.

En, fyrir fyrirtæki þíða öllu að jöfnu, góðar rekstrarlegar forsendur, hátt verð hluta. Það sama á að öllu jöfnu við þjóðríki, að góðar rekstrarlegar forsendur skila sér í virðingu og trausti á þeirra gjaldmiðli.

Í reynd, er það sama að kalla hagstjórn viðkmandi lands ónýta, og að kalla gjaldmiðil viðkomandi lands ónýtann.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.1.2010 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband