Hvernig virka afskriftir hjá fyrirtækjum?

Afskriftir skulda hjá fyrirtækjum hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og verða örugglega, og því miður, áfram.  Skoðum aðeins hvernig þær virka.

Bókhaldsjafnan

Í venjulegu fyrirtæki í eðlilegum rekstri gildir hin sígilda bókhaldsjafna, eignir = skuldir + eigið fé.  Eða, sem er jafngilt, eigið fé = eignir - skuldir.  Í hlutafélagi eiga hluthafarnir eigið féð, þannig að ef félaginu væri slitið, eignir þess seldar og skuldir gerðar upp, myndu hluthafarnir skipta með sér því sem eftir stæði.  Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á að hluthafar í hlutafélagi eru ekki ábyrgir fyrir skuldum félagsins.  Þeir bera aðeins áhættu af hlutafénu sem þeir lögðu inn í félagið.  Þetta er lánardrottnum hlutafélaga fullkunnugt um þegar þeir taka áhættuna á því að lána félaginu peninga, og á að endurspeglast m.a. í vaxtakjörum.

Segjum nú að stjórnendur hafi farið ógætilega að ráði sínu, tapað peningum og rýrt eignir í svo miklum mæli að þær séu orðnar verulega minni en skuldir - félagið er bókhaldslega gjaldþrota.  Þá kemur upp eftirfarandi staða:

Bókhaldslegt gjaldþrot

Takið eftir að hluthafar tapa fyrst sinni eign í félaginu, þ.e. eigin fénu.  Hlutaféð verður einskis virði, enda minna en ekkert eftir til skiptanna af eignum félagsins.  Annað hvort er (a) félagið tekið til formlegra gjaldþrotaskipta, eignir seldar í hlutum úr búinu og andvirðinu úthlutað til lánardrottna (kröfuhafa); eða (b) að lánardrottnar taka félagið yfir, afskrifa hluta af skuldunum og annað hvort selja það (sbr. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins) eða reyna að halda áfram rekstri í einhverri mynd í þeirri von að fá meira upp í kröfurnar seinna (sbr. eignarhaldsfélög bankanna).  Aðalatriðið er þarna að þegar skuldir verða umfram eignir, þá hafa lánardrottnar alla þræði í hendi sér - hluthafarnir missa völdin.

Munurinn á þessu og skuldum einstaklinga, t.d. vegna húsnæðis, er sá að hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldum félaga sem þeir eiga hluti í (nema þeir hafi sérstaklega látið félaginu í té veð í eignum sínum).  Húsnæðislán eru hins vegar, auk veðs í húsnæðinu sjálfu, einnig með fullnustuheimild í öðrum eignum skuldarans.  Þannig er kerfið ekki allsstaðar, t.d. er víða í Bandaríkjunum aðeins veð í húsnæðinu sem lánað er til.  Slíkt fyrirkomulag hefur ýmsa kosti, en þann ókost helstan að lánshlutföll verða mun lægri en annars, þ.e. fólk verður þá að leggja fram meira eigið fé þegar það kaupir sér fasteign.

Bloggfærslur 3. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband