17.2.2009 | 23:27
Staðreyndir um skuldir ríkisins
Mikill ruglingur hefur verið í umræðunni um skuldir ríkisins í kjölfar hrunsins. Í gærkvöldi komu til dæmis fram tveir nokkuð ólíkir pólar, annars vegar frá Haraldi L. Haraldssyni á opnum borgarafundi í Háskólabíói og hins vegar frá Tryggva Þór Herbertssyni í Kastljósi í sjónvarpinu.
Ég hef áður bloggað um þetta mál og vísa til þeirrar færslu og líflegrar umræðu í athugasemdum við hana.
Í þessari umræðu eru örfá lykilatriði sem þarf að hafa á hreinu til að draga réttar ályktanir og byggja á réttar ákvarðanir.
- Skattborgarar bera ekki ábyrgð á skuldum gömlu bankanna. Bankarnir eru hlutafélög og bera aðeins ábyrgð á skuldum sínum með eigin eignum, ekki eignum hluthafa (umfram hlutaféð) eða ríkisins. Gríðarlegar upphæðir tapast í hruni bankanna, en það eru lánardrottnar þeirra og hluthafar sem tapa, ekki skattborgarar.
- Eina undantekningin frá þessu er trygging innlána upp á 20.887 evrur á hvern reikning í gegn um Tryggingasjóð innstæðueigenda, sem ríkið telst bera ábyrgð á (þótt það sé ekki óumdeilt). Á þessa tryggingu mun aðeins reyna í tilviki Icesave Landsbankans, en hvorki hjá Glitni né Kaupþingi.
- Hin svokölluðu jöklabréf (glacier bonds) voru gefin út af erlendum útgefendum (Toyota, Evrópska þróunarbankanum o.s.frv.). Þau eru ekki á ábyrgð ríkisins né skuld þess. Hins vegar getur það veikt krónuna þegar eigendur jöklabréfanna selja sig út úr henni.
- Nýju bankarnir yfirtaka tilteknar eignir og skuldir frá gömlu bönkunum, nánar til tekið lánasöfn til innlendra fyrirtækja og almennings eignamegin, og innlend innlán skuldamegin. Þeir yfirtaka heldur meiri eignir en skuldir, og þurfa að gefa út skuldabréf til gömlu bankanna fyrir mismuninum, enda má ekki skerða hag kröfuhafa þeirra með þessum gjörningi. Lánin sem færast í nýju bankana eru afskrifuð fyrirfram samkvæmt sérstöku mati (sem stendur yfir) áður en þau eru flutt.
- Ríkið þarf að leggja nýju bönkunum til eigið fé, um 10% af eignum þeirra. Það fé er lagt fram í formi nýs ríkisskuldabréfs, sem bankarnir telja til eigin fjár og geta lagt sem veð inn í Seðlabanka fyrir lausum krónum. Nettóskuldir ríkisins aukast ekki við þetta þar sem það á bankana sjálft; segja má að peningar séu fluttir úr vinstri vasa yfir í þann hægri, en buxnaeigandinn er jafnsettur eftir sem áður.
- Lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum er geymt á reikningi í Federal Reserve Bank of New York á innlánsvöxtum. Það verður aðeins notað til að styðja við krónuna, sálfræðilega/leikjafræðilega, og raunverulega ef brýn þörf krefur. Þá yrðu keyptar krónur sem vonandi yrði síðar hægt að breyta aftur í gjaldeyri, eða sem yrðu að evrum eftir inngöngu í Evrópusambandið. Á móti láninu stendur þannig peningaleg eign og það telst ekki til nettóskulda ríkisins, enda væri fræðilega hægt að endurgreiða það hvenær sem ríkisstjórnin svo kysi. En vitaskuld þarf að greiða vaxtamun útláns- og innlánsvaxta af upphæðinni meðan hún stendur okkur til reiðu.
Ágætis umfjöllun Greiningardeildar Glitnis um samantekt Tryggva Þórs Herbertssonar á nettóskuldum ríkisins er að finna hér. Að mínu mati er Tryggvi í bjartsýnni kantinum, en aðferðafræðin er rétt, og á tölunum er bitamunur en ekki fjár, sbr. fyrri bloggfærslu mína.
Með málflutningi mínum er ég ekki að reyna að fegra ástandið umfram tilefni. Morgunljóst er að við stöndum frammi fyrir hrundu hagkerfi og lémagna bankakerfi, og gjaldmiðilskreppu að auki; verulegri skuldabyrði, samdrætti í þjóðarframleiðslu og atvinnuleysi. Allt mjög alvarlegt og á þessu bera bæði pólitíkusar, embættismenn og einkaaðilar ábyrgð.
En fyrsta stig í að vinna á vandanum er að greina hann rétt. Menn hafa lagst í mikla reiði og jafnvel örvinglan yfir upplýsingum um skuldir ríkisins sem eru ýktar og/eða rangar. Ég tel mikilvægt að leiðrétta þann misskilning eftir föngum og auka fólki bjartsýni hvað akkúrat þann lið varðar, en ég er ekki að slá striki yfir allan vandann með því.
P.S.: Nú hefur viðskiptaráðherra tjáð sig og segir að ætla megi að vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs verði 700 milljarðar á árinu eða um 50% af VLF. Það er minna en hjá Japan, Ítalíu, Belgíu og Bandaríkjunum, svo nokkur lönd séu nefnd.
Erlendar skuldir þjóðinni ofviða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.2.2009 kl. 14:17 | Facebook
Athugasemdir
Það má endalaust "leika" sér að upphæðum. Ég hlustaði á viðtal við Tryggva Þór á Útvarpi Sögu þar sem hann og fleiri "spáðu" í þessar tölur hans. Mér heyrðist Tryggvi vera ákaflega heiðarlegur í sínum útskýringum á þessu og jaðraði við að hann teldi þetta alls ekki "neinn sannleika" margt gæti og ætti eftir að breytast. Þannig var minn skilningur á orðum hans. Hversu miklar "skuldir ríkisins" verða á endanum er bara einn kafli í "kreppubókinni" en eitt er víst að "fólkið í landinu" þarf á einn eða annan hátt að borga þær. Ekki má gleyma "persónulegum" skuldum manna. Mörg heimili eru að sligast undan afborgunum lána, hækkunum á nauðsynjavörum og flestu öðru. Ekki verður það metið í peningum hvernig þetta fer með andlega og líkamlega heilsu fólks. Það væri hægt að telja endalaust upp þau vandamál sem "kreppan" skapar og reyna að meta þau í "upphæðum". Erfið staða fyrirtækja er enn eitt málið og mörg "tæknilega gjaldþrota". Menn geta "endalaust" færa "tölur á blöð" og þrasað um það hvaða tölur séu þær réttu.
Þetta er farið að minna mig dálítið á þrasið í þingmönnum. "Talnaglöggir" menn koma hver á eftir öðrum í fjölmiðla (og bloggið) og sjaldnast ber þeim saman.
Ég held að þessir "talnaglöggu", þó svo þeir hafi ekkert haft nema gott í hyggju með þessum tölum, séu farnir að rugla fólk og gera "illt" "verra". Það sem skiptir fólkið mestu máli í dag er að halda andlegri og líkamlegri heilsu til að takast á við öll þau vandamál sem blasa við og það er víst meir en nóg af þeim.
Talnaglöggu "herrar" vinsamlegast hættið þessu "talnatali", þetta kemur allt í ljós að lokum "án ykkar hjálpar".
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 01:10
Tæknilegur talnabjáni,
töluverður Páll er kjáni,
og sá sorrí gamli Gráni,
greiðir alla vexti af láni.
Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 02:49
Þakka kveðskapinn, Steini!
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 09:45
Eigið fé "nýju" bankanna er neikvætt um amk. 1000 milljarða og þarf því sjálfsagt að skaffa þeim amk. 12-1500 milljarða bara til þess að þeir séu rekstarhæfir, standist reglur um eiginfjárhlutfall osfrv. Það er erfitt að sjá hvernig gjaldþrota ríkissjóður á að standa undir slíku.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 09:58
Síðan þarf AGS brátt að fást við gjaldþrot Írlands, fyrrum sovétblokkarinnar, Spánar, Ítalíu, Bretlands og Bandaríkjanna svo nokkur komandi stórgjaldþrot séu nefnd og er sjóðurinn því nú þegar algjörlega fallít og getur ekki bjargað einum eða neinum. Fjármálakerfi heimsins hefur einfaldlega verið að sökkva undan eigin skuldainstrúmentum og margs konar furðulegum tryggingaapparötum sem áttu víst að tryggja kerfið gegn hruni. Núna er þessi skuldatrygginga- og afleiðuófreskja upp á þetta 1000-1500 kvadrilljónir dollara eða 20-25X verga heimsframleiðslu sem þýðir að heimurinn er margyfirveðsettur í bak og fyrir og því gjaldþrota. Þess vegna hafa endalausar "björgunaraðgerðir" á heimsvísu í raun ekki skilað neinu öðru en að tefja fall gjaldþrota bankastofnana og gefa innherjum meiri tíma til að losa sig við hluti sína.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 10:19
Steini fín vísa hjá þér.
Mikið er nú gott að vera kjáni í öllu þessu talnaflóði
Þú ættir að slást í hópinn
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 10:39
De rien!
Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 10:55
Innistæðitryggingarnar: Er fortakslaust hægt að halda því fram að Innistæðutryggingasjóður sé einungis skuldbundinn til að tryggja innistæður einstaklinga uppá 20 þús. evrur þegar búið er að lýsa því yfir að ríkissjóður ábyrgist allar innistæður í íslenskum bönkum?
Fyrir utan IceSave og allt það. Skyldu þetta vera háar upphæðir sem viðskiptaráðherrann hafði í huga þegar hann var að tala um innistæður sem erlendir aðilar ættu og gætu horfið úr landi þegar gjaldeyrishöftum væri aflétt? Eru þær tryggðar af sjóðnum góða?
http://www.mbl.is/mm/frettir/sjonvarp/index.html?media_id=22910
Grímur (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 11:02
Baldur, þetta er ekki rétt hjá þér. Eigið fé nýju bankanna við stofnun er nákvæmlega núll, það er beinlínis stillt þannig af. (Enda myndu lánardrottnar gömlu bankanna ella eiga kröfu á ríkissjóð fyrir eignaupptöku.) Síðan leggur ríkið þeim til 10% eigið fé sem áætlað er að verði í kring um 385 milljarða.
Ríkissjóður er ekki gjaldþrota og mun ekki skulda meira sem hlutfall af VLF en ýmis önnur ríki, t.d. Japan og Ítalía.
Grímur: Bretar og Hollendingar gera aðeins kröfu um trygginguna, 20.887 evrur pr. reikning, ekki heildarupphæð innlánanna. Jöklabréfin eru allt annað mál og hafa ekkert með innistæðutryggingu að gera. Erlendir aðilar eiga ríkisbréf, íbúðabréf, innistæður í Seðlabanka og bönkum. Þeir vilja gjarnan losna með þá peninga burt og um þá brottför þarf að semja.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 12:10
Vilhjálmur, það kom fram um daginn að eigið fé Kaupþings væri neikvætt um 800 milljarða og ég geri varla ráð fyrir að staðan sé skárri hvað hina tvo varðar. Erlendir lánardrottnar bankanna eiga þá þar með í raun augljóslega sem aftur þýðir að bankarnir munu fara aftur í gjaldþrot áður en það eignarhald verður formlega frágengið.
Erlend staða ríkissjóðs var neikvæð um yfir 500 milljarða í lok sept., skv. seðlabankanum og það þýðir að heildarskuldir hans hafa þá verið amk. 600 milljarðar eða 150% af árlegum tekjum = hann var algjörlega fallít áður en fjármálaspilaborgin féll á hann.
Það þýðir ekkert að taka mark á einhverjum klappstýrum sem héldu fólki sofandi á meðan fjármálakerfið var sett á hausinn og reyna enn að svæfa það. Þú getur allt eins fengið álit hjá hundinum þínum. Ekki lýgur hann.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 12:37
Er ekki réttara að segja að "ríkisstjórnir Bretlands og Hollands geri aðeins kröfu..."? Gætu einstakir innistæðueigendur ekki leitað réttar síns á grundvelli einhverskonar jafnræðissjónarmiða óháð þeim samningum sem ríkisstjórnirnar ná sín á milli?
Hugsunin sem ég var að reyna að móta með mér þegar ég vitnaði í viðskiptaráðherrann snýst um hættuna á bankaáhlaupi. Ef við sitjum uppi með stórar bankainnistæður sem eigendur bíða beinlínis eftir að geta tekið út og forða í öruggt skjól. Er ekki hætta á katastrófu? Þessar innistæður eru væntanlega tryggðar að fullu með neyðarlögunum.
Annars vil ég ekki verða til þess að auka á hýsteríuna. Nóg er nú samt!
Grímur (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 12:40
Baldur, ertu að tala um nýja eða gamla Kaupþing? Ég kannast ekki við þessa 800 milljarða tölu, gætirðu fundið þetta sem þú vísar til?
Það sem þú segir um skuldir ríkissjóðs er heldur ekki rétt, endilega komdu með tengil eða vísun í þessar upplýsingar þannig að við getum krufið hvað þar er á ferðinni.
Grímur: ég held að mismununarrökin séu torsótt og a.m.k. eru ríkisstjórnirnar ekki að byggja á þeim. En varðandi erlenda krónueigendur, þá eru þær eignir klárar og kvittar í ríkisbréfum og öðrum tryggum eignum, sem þeir keyptu á sínum tíma, og eru þegar innifaldar í skuldum ríkisins. Og það er vissulega veruleg hætta á gengisfalli, og hækkun ávöxtunarkröfu skuldabréfa, ef þeir hlypu út úr krónunni. Ég hef frá upphafi bent á að þarna þyrfti að fara gætilega og leita samninga við þessa aðila, og verið pirraður á aðgerðaleysi Seðlabanka og ríkisstjórnar, sbr. fyrri bloggfærslur mínar um það efni.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 13:00
Ég er að sjálfsögðu að tala um nýja bankann og upplýsingar um erlenda stöðu þjóðarbúsins er að finna hjá seðlabankanum. Í lok september var staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum neikvæð um 2300 milljarða. Síðan hefur téð þjóðarbú skiljanlega farið beint á hausinn og allar klappsýrurnar gátu ekki tafið það lengur.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 13:04
Töflur
Lýsigögn
Tímaraðir
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 13:17
Skv. skýrslu skilanefndar gamla Kaupþings (bls. 21) er stofnefnahagur nýja Kaupþings með þeim hætti að eignir og skuldir eru 625 milljarðar fyrir eiginfjárframlag ríkisins sem er áætlað 75 milljarðar þannig að niðurstöðutala efnahagsreiknings verður 700 milljarðar eftir fjármögnun (sem nóta bene hefur ekki farið fram ennþá enda beðið eftir mati á afskrift yfirfærðra eigna).
Búinn að skoða tölur Seðlabankans og þær eru brúttótölur, þ.e. um er að ræða skuldastöðu áður en dregnar eru frá peningalegar eignir í erlendum gjaldmiðli. Fjármálaráðuneytið segir nettóskuldir ríkisins einungis hafa verið 8 milljarðar króna fyrir hrunið. En ekki deili ég um það við þig, Baldur, að hagkerfið sýndi augljós hættumerki ofhitnunar fyrir löngu síðan og með ólíkindum að stjórnvöld og Seðlabanki hafi ekki gripið inn fyrr, t.d. með hækkun bindiskyldu, samdrætti peningamagns í umferð og ekki síst söfnun miklu stærri gjaldeyrisvarasjóðs, sem hefði verið "no brainer".
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 14:00
Hrein staða hins opinbera við útlönd var neikvæð um rúmlega 500 milljarða í lok sept. skv. seðlabankanum og hrein staða þjóðarbúsins var neikvæð um 2300 milljarða á sama tíma. Þetta er einfaldlega fundið með því að draga skuldir frá eignum - eins og gefur að skilja -.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 14:07
Jamm, en á móti kemur m.a. gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans, sem er 375 milljarðar brúttó, en nettó erlend staða Seðlabanka er jákvæð um 290 milljarða. Annars væri ástæða til að spyrja Seðlabanka og/eða fjármálaráðuneyti um hvar munurinn liggur á þeirra tölum.
Nú var viðskiptaráðherra að tjá sig við RÚV og telur að vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs verði um 700 milljarðar á árinu. Það er örugglega nokkuð áreiðanlegt og varfærið mat hjá honum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 14:21
Ég fékk hland fyrir hjartað þegar ég heyrði eftirfarandi ummæli í viðtalinu sem ég linkaði á að ofan: "Vandamálið eru frekar ýmsar eignir sem erlendir aðilar eignuðust hérna [...] til dæmis ríkisskuldabréf eða innstæðubréf í Seðlabanka eða jafnvel bara innstæður í viðskiptabönkunum og það eru allverulegar fjárhæðir..."
Ég hef aldrei reiknað með að útlendingar ættu verulegar innistæður í íslensku viðskiptabönkunum. Væntanlega á þó setningin "...það eru allverulegar fjárhæðir..." við um samtöluna af öllum upptöldum liðum en ekki bara bankainnistæður.
En ég fór sem sagt að hræðast klassískt bankaáhlaup þegar ég heyrði viðskiptaráðherrann segja þetta. Maður er orðinn hvekktur.
Þetta hefur svo sem ekkert með fjárhag ríkisins að gera. Tjah, nema bankarnir falli aftur!
Grímur (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 14:24
En að sjálfsögðu er hér um að ræða tölur frá í lok sept. (nýrri tölur liggja ekki fyrir þarna) og síðan hefur sem sagt þjóðarbúið rúllað á hausinn eins og frægt er orðið. En ég held að við getum að svo stöddu slegið því föstu að það sé haugalýgi að nettóskuldir ríkissjóðs hafi verið 8 milljarðar áður en þjóðarbúið fór á hausinn.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 14:34
Skuldir, kröfur og handbært fé ríkissjóðs 1994-2009, október 2008.
Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 16:18
Fyrsti hlutinn í greininni hjá þér er ekki hugsaður rétt.
Þegar banki er yfirtekinn af ríki (þér og mér) þá fylgja skuldirnar og ábyrgðirnar með. Ergo, við yfirtókum skuldir gömlu bankanna ! Svo er annað mál hvort við (ríkið) eigum að greiða þetta ! Það er hins vegar siðferðissspurning.
Best væri að afskrifa þetta !
baldvin berndsen (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 16:51
Viðskiptaráðherrann segir að ríkissjóður verði með 700 milljarða "vaxtaberandi" skuldir á árinu. Síðan verði 650 milljarða lán vegna Icesave ekki vaxtaberandi nema í skamman tíma vegna eigna sem eigi að koma á móti. Og hann segir að ekki sé meiningin að nýta 650 milljarða lánsheimildir eða lánalínur gegnum IMF. Þetta hljómar nú ekki sérlega sannfærandi.
Halli ríkissjóðs á þessu ári verður áreiðanlega 2-300 milljarðar og varla verður það skárra á næsta ári. Ég tel nánast 100% öruggt að eftir ár verði ríkissjóður með 1500 milljarða vaxtaberandi skuldir og farið að hilla undir 500 jafnvel 1000 milljarða í viðbót og þrotabúið verði síðan loks innlimað í ESB fyrir algjört slikk og á botnverði vorið 2010.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 17:48
Steini: mjög athyglisvert skjal atarna, en þarf örugglega uppfærslu ef það er síðan í október.
Baldvin: ríkið yfirtók ekki gömlu bankana. Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í þeim, skv. heimild í neyðarlögunum, og skipaði skilanefndir í þá í stað stjórna. Lögaðilarnir (fyrirtækin/kennitölurnar) eru ennþá til og tæknilega enn í eigu hluthafa, en eru í greiðslustöðvun og fara ef að líkum lætur í gjaldþrot. Ríkið ber enga ábyrgð á skuldbindingum gömlu bankanna (utan Icesave). Þetta er alveg 100% kristaltært og á hreinu, trúðu mér með það.
Baldur, það verður hver að meta staðreyndir málsins með sínum augum, og það er alveg möguleiki að líta á þetta með svartsýnum hætti eins og þú leggur upp, ef menn sjá tilgang með því.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 18:06
Þjóðarbúið rúllaði á hausinn undir happy talk kórsöng frá algjörlega ábyrgðarlausum og raunar siðlausum klappstýrukór sem hélt almenningi sofandi allt fram að hruninu. Núna er kórinn byrjaður aftur af krafti sem segir mér að ekki hafi tekist nógu vel að rýja almenning og nú eigi að reyna að svæfa aftur og soga upp restina.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 18:20
Jæja núna eru menn búnir að "skuldaklæmast" eins og verðandi prófessor segir. Við skuldum helling og það mun taka á að borga. Núna þarf hinsvegar að fara að bretta upp ermar. Koma hjólunum af stað. Næsta blogg hjá þér Villi ætti að vera: ef ég væri Jóhanna í einn dag þá myndi ég ....
1. Lækka stýrivexti í 6% í einum vetvangi.
2. Kára bankauppgjörið með 95% vissu. Það er það sama og í hugbúnaðargeiranum, þetta mun aldrei verða 100% en þeir þurfa að byrja að funkera strax.
3. Setja á lög til að banna útflutning jöklabréfakróna í 5 ár nema að höfðu samráði við stjórnvöld. Aflétta gjaldeyrishöftum á fjármagnsreyfingar til uppbyggingar atvinnuvega en hitt verði skamtað, þ.e.a.s. fjármagnshreyfingar. Menn sem koma inn með gjaldeyri og vilja fjárfesta fá ívilnanir.
4. Nota AGS sjóðinn til þess að koma gengisvísitölunni niður undir 150 og gefa svo markaðnum lausan tauminn eins og hægt er.
Mér er alveg sama um nokkra hvali, kosningar eða Davíð. Ég vil að ég geti búið hérna áfram næstu 5-10 ár. Ég vil geta boðið börnunum mínum upp á gott og öruggt umhverfi.
Árni (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 18:27
Tryggvi Þór Herbertsson miðar reyndar við gengið 127 krónur fyrir Bandaríkjadal en ekki 114 krónur, eins og það er nú, og hann bendir á að verg landsframleiðsla hér hafi verið um 1.500 milljarðar króna í fyrra en hún var um 1.300 milljarðar króna árið 2007, um 15% minni en í fyrra.
Tryggvi Þór Herbertsson í Kastljósinu.
Stýrivextir Seðlabankans eru nú 18% og verðbólga hér var 12,4% í fyrra og 18,6% í síðasta mánuði. En Glitnir gerir nú ráð fyrr hraðri hjöðnun verðbólgunnar. Og Seðlabankinn telur að verðbólgan verði ekki meiri en 2,5% árin 2010 og 2011, sem er verðbólgumarkmið bankans, en verðbólgan í viðskiptalöndum okar var 3,5% í fyrra.
Fjármálaráðuneytið gerði nú í janúar ráð fyrir 7,8% atvinnuleysi að meðaltali í ár og 8,6% á næsta ári.
Enginn hagvöxtur var hér í fyrra en fjármálaráðuneytið taldi nú í janúar að landsframleiðslan dragist saman um 9,6% í ár. Hér hafi verið viðskiptahalli sem nam um 22% af landsframleiðslu í fyrra en viðskiptajöfnuðurinn verði jákvæður í ár sem nemi 6,1% af landsframleiðslu og jákvæður um 5,7% á næsta ári.
Árið 2000 var viðskiptajöfnuðurinn neikvæður sem nam 10% af vergri landsframleiðslu og verðbólga hér var 6,7% árið 2001 og 6,8% árið 2006.
Aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) er skilyrði fyrir upptöku evru, en þar að auki þurfa aðildarríki að uppfylla ákveðin skilyrði um efnahagslega samleitni (Maastricht-skilyrðin). Öll aðildarríki Evrópusambandsins eru aðilar að EMU en þau hafa ekki öll uppfyllt Maastricht-skilyrðin sem eru þessi:
Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB ríkjum með lægstu verðbólguna.
Langtíma stýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast.
Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.
Aðili að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils innan ákveðinna vikmarka.
Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 18:30
Baldur: ég hef nú ekki verið í klappstýruliðinu hingað til, sjá bloggfærslur mínar t.d. frá 21. janúar 2008 þar sem ég varaði eindregið við yfirvofandi erfiðleikum, og frá í mars þar sem ég spáði því að gjaldmiðill Íslendinga yrði ORA fiskibolludósir um áramót, og fór þar nokkuð nærri lagi. En nú geta menn annað hvort setið með hendur í skauti og miklað fyrir sér vandann, eða byrjað að búa í haginn fyrir nýtt og betra Ísland.
Árni: góðir punktar, sérstaklega nr. 2, ég sé ekki af hverju ætti ekki að vera hægt að fjármagna bankana t.d. 80% og leyfa nákvæmninni að koma síðar. Það er fulldýr nákvæmni að mínu mati.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 18:38
Eitthvað klúðruðust nú Maastricht-skilyrðin hér fyrir ofan.
Ef hreinar (nettó) skuldir íslenska ríkisins verða um 465 milljarðar króna í ár, þar af 52% í erlendum gjaldmiðlum, miðað við gengið 1 krónur Bandaríkjadal, eins og Tryggvi Þór Herbertsson, doktor í hagfræði frá Árósaháskóla telur, verða þær um 36% af vergri landsframleiðslu, miðað við árið 2007 en þá var hún um 1.300 milljarðar króna.
Hreinar (nettó) skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru hins vegar 34,5% árið 1996. Það ár voru skuldir ríkissjóðs 49% af vergri landsframleiðslu og þar af voru erlendar skuldir um 27% af landsframleiðslunni, eða rétt rúmlega helmingur af skuldum ríkissjóðs, eins og nú.
Hérlendis var 6,6% atvinnuleysi í síðasta mánuði og 5-6% á árunum 1992-1995.
Skuldir, kröfur og handbært fé ríkissjóðs 1994-2009, október 2008.
Samkvæmt þessu verða hreinar skuldir ríkisins svipaðar í ár (um 36%) og þær voru árið 1996, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, miðað við að hún verði svipuð og árið 2007, en um 40% ef hún yrði 10% minni en árið 2007.
Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 18:44
"... miðað við gengið 127 krónur fyrir Bandaríkjadal ..." átti þetta að sjálfsögðu að vera.
Tölvan er eitthvað að stríða mér.
Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 18:49
Vilhjálmur, ég átti nú ekkert við þig persónulega í þessu sambandi.
Það var farið að hilla undir hrunið fyrir 2-3 árum og þegar bankarnir birtu uppgjör fyrir 1. ársfj. 2008 í fyrravor var alveg ljóst að þeir voru komnir að hruni. Þannig var eigið fé Glitnis í raun svo til ekkert þar sem þriðjungur þess var "goodwill" og nánast öll restin lán til stjórnenda, stjórnarmanna og tengdra félaga. Og fjórðungur af samtals eigin fé bankanna þriggja var goodwill. Með öðrum orðum nokkurra prósenta útlánatöp hefðu þýtt hreinlega að þeir gufuðu upp. Samt úrskurðaði eitthvað gervieftirlit að þessi dauðadæmda vitleysa stæðist "álagspróf" og bakkaði ekki með það fyrr en draslið rúllaði á hausinn. Þetta var sem sagt kerfi sem var drifið af lygum og blekkingum, landinu var stolið í rólegheitunum á fimm árum og það flutt út og gervieftirlit og pólitíkusar og ruslpóstur og ýmsir álitsgjafar héldu fólki sofandi á meðan. Ég sé því miður ekki mikla breytingu á þessu og tel þessa maskínu enn vera að ljúga að fólki og reyna að halda því rólegu á meðan restin verður hirt.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 19:12
Já, Baldur, ég held að við séum sammála í meginatriðum um þá steiktu hagstjórn og viðskiptaumhverfi sem hér viðgekkst sl. 5 ár, allt frá misheppnaðri einkavæðingu bankanna og ákvörðunum um álver í Reyðarfirði og byggingu Kárahnjúkavirkjunar á árinu 2003.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2009 kl. 19:32
Þeir eignfærðu jafnvel nafnið "Glitnir" á heila átta milljarða, hahahaha.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 19:40
En talandi um álver og stalínsk virkjunarævintýri þá forðast flestir að ræða gjaldþrota orkufyrirtæki sem eru á ábyrgð hins opinbera. Þannig skulda Landsvirkjun og OR samtals yfir 500 milljarða og orkusalan dugar ekki fyrir vöxtunum og þetta er því algjörlega fallít og fellur óhjákvæmilega á skattgreiðendur á endanum með einum eða öðrum hætti.
Baldur Fjölnisson, 18.2.2009 kl. 19:46
Þakka góða pistla Vilhjálmur og fínar umræður Steini og Baldur sértaklega.
Ekki gleyma því í viðbót við síðustu færslu að orkusalan er tengd álverði sem er á hraðri niðurleið. Hérna í nágrenni við mig er nánast beðið eftir að Saab verksmiðjunum verði lokað og mikil óvissa er um Volvo líka, að minsta kosti mjög mikill samdráttur í framleiðslu farartækja og mikil birgðaaukning áls í heiminum.
Lánin til Landsvirkjunar voru ríkistryggð (því annars var arðsemisútreikningurinn ekki jákvæður), og því er það bara gamalgróin bókhaldsbrella valdaflokksins að flytja þær skuldir út úr móðurfélaginu föðurlandinu. Held að samningarnir (leynilegu) séu þannig að orkan verður niðurgreidd til langframa, svo fremi að álbræðslunum verði bara ekki lokað.
Með kveðju frá Gautaborg
Ásgeir B Torfason (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 22:45
Var að skoða áfangaskýrslu AGS frá 24. desember á ensku (sjá hér). Þar kemur fram á síðu 18 undir "Central Government Net Debt" að endurskoðuð áætlun AGS um nettóskuldir ríkisins er 71,7% af VLF í lok árs 2009.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.2.2009 kl. 00:43
Hér er líka yfirlit um skulda og eingastöðu síðan í lok janúar frá fjármálaráðuneytinu:
http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/frettatilkynningar/nr/11705
- Þar er samt skrítin 100 milljarða færsla fyrir 385 milljarða framlag til nýju bankanna.
- Einnig frekar bjartsýn áætlun um að fá 450 milljarða eignir uppí 600 milljaraða Icesave.
- Síðan er spurning um fyrstu línuna sem innifelur 195 milljarða bókfærða eign fyrirtækja, hvort það innifeli helminginn af Landsvirkjun.
IMF skýrslan sem þú vitnar til er einnig á íslensku á fína island.is vefnum:
http://www.island.is/efnahagsvandinn/frettir-og-tilkynningar/adrar-frettir/nr/471
Ásgeir B Torfason (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 01:14
Takk fyrir þínar útskýringar og greiningu Vilhjálmur. Nú skil ég enn betur hvað Tryggvi átti við með hugtakinu "kreppuklám". En er ekki að saka þig um það.
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 21:20
Í byrjun maí árið 2006 kom út skýrsla Frederics Mishkin hagfræðiprófessors við Colombia-háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hann sagði íslenskt hagkerfi standa mjög svo traustum fótum. Viðskiptaráð hafði falið Mishkin að kanna stöðu efnahagslífsins og niðurstaðan var skýrsla sem hann skrifaði með Tryggva Þór Herbertssyni, forstöðumanni Hagfræðistofnunar. Sögusagnir um að þeir hafi droppað sýru saman áður en þeir hófust handa við breinstorminn munu vera úr lausu lofti gripnar. Mishkin vísaði algjörlega á bug kenningum um yfirvofandi kreppu. „Ég get ekki spá fyrir um hvað muni gerast, en grunnur hagkerfisins er góður," sagði hann og tók ekki undir gagnrýni í þá veru að íslensku bankarnir hefðu vaxið hraðar en þeim væri hollt. „Máli skiptir hvernig haldið er á málum. Algengustu mistökin í þessu sambandi eru að vanmeta áhættu. Það er ekki tilfellið með íslensku bankana. Þeir eru mjög meðvitaðir um áhættuna af starfsemi sinni." Mishkin var síðar á árinu tekinn inn í geðdeild seðlabankastjóra í Bandaríkjunum og er það til marks um þá virðingu sem hann nýtur í heimi hagfræðinnar, enda talinn í hópi alfærustu frjálshyggjusérfræðinga í heiminum sem reyndar er núna að rúlla lóðbeint á hausinn eins og hann leggur sig en það er áreiðanlega ekki hagfræðiklikkhausum og öðrum álíka skottulæknum og snákaolíusölumönnum að kenna.
Baldur Fjölnisson, 19.2.2009 kl. 21:42
Ætla ekki núna frekar en áður að kynna mig sem "talnaglögga" konu.
Að vísu þykir mér stærðfræði skemmtileg, en sá talnaleikur eða öllu heldur "talnaáróður" sem stundaður er þessa dagana, eða KREPPUKLÁM eins og Tryggvi Þór kallar það, hverju þjónar hann.
Er þetta fólk á mála hjá lyfjafyrirtækum sem selja kvíðalyf, eða er það svo að fólk hafi beinlínis nautn af því að hræða aðra. Sennilega er þetta gert í einhvers konar pólitískum tilgangi, en heldur finnst mér hann hæpinn.
Þið sem hafið svona gaman af reikningi, hafið hann til heimabrúks, en ekki til að hræða enn frekar atvinnulaust fólk sem óttast um eigin framtíð og barna sinna.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.2.2009 kl. 16:44
Því er ekki að neita, Hólmfríður, að ég hef velt því fyrir mér hvaða hvatir búa að baki því að halda fram svartsýnustu mögulegu mynd, og færast undan eða neita að viðurkenna beinharðar staðreyndir ef þær stangast á við þessa mynd.
Það hlýtur að vera að það teljist þjóna einhverjum ytri hagsmunum að fólk sé hræddara, kvíðnara og svartsýnna en það hefur ástæðu til að vera.
Stór hluti af kreppuástandi er sálarástand. Fólk sem er hrætt og kvíðið um framtíðina skríður inn í skel, frestar ákvörðunum um framkvæmdir, fjárfestingar og útgjöld, og gerir þar með kreppuna verri ("self fulfilling prophecy"). Það er best fyrir alla að réttum upplýsingum sé miðlað fljótt og vel og að allir geri sér grein fyrir stöðunni, hversu góð eða slæm sem hún er. Óvissa og getgátur eru aðeins til skaða.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.2.2009 kl. 16:02
Sæll Vilhjálmur
Ég tek undir hvert orð hjá þér í síðustu færslu. Ég hef spurt mig að þessu sjálf. Hvers vegna ekki að leggja þetta ískalt niður fyrir okkur (eins og þú ert að gera mjög vel). Mín vegna mætti mynda hóp talnaglöggra þegna um þetta verðuga verkefni. Þú ert reyndar að gera það á þinn hátt. Þú setur fram vel undirbyggðar skoðanir. Ef rökræðan er málefnaleg færumst við enn nær niðurstöðunni. Þú færð comment og svarar öllum málefnalega þó að menn svar þér misjafnlega málefnalega. Haltu áfram.
valborg Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 11:39
Ég heyri á RUV í morgun að viðskiptaráðherrann er núna að viðurkenna að skattgreiðendur sitji uppi með eitthvað 1500 milljarða skuldir eftir bankaævintýrin, þannig að það ætti að vera alveg óhætt að reikna með amk. 2000-2500 milljörðum í því sambandi.
En miðað við 1500 milljarða þá er ljóst að amk. fjórðungur af tekjum ríkissjóðs á næstu árum fer í vaxtagjöld.
Baldur Fjölnisson, 23.2.2009 kl. 08:14
Já, væntanlega eru 1400 milljarðar (=VLF) sirka brúttóskuldin þegar AGS-lánið og brúttótrygging Icesave eru talin með.
Vaxtagjöld ríkisins á þessu ári eru áætluð 87 milljarðar.
En það er ljóst að verulegur niðurskurður og hækkun skatta er í farvatninu. Spurningin er bara hvaða stjórnmálamenn treysta sér til að upplýsa almenning um það fyrirfram hver þeirra forgangsröðun sé í því efni.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.2.2009 kl. 11:33
Hann er líka búinn að átta sig á því að hallarekstur ríkisins á næstu árum þarf að mestu að reikna inn í skuldastöðuna (halla þarf augljóslega að fjármagna með lántökum og/eða hærri tekjum).
En ég sé ekki hvernig á að vera hægt að hækka skatta almennings við þessar aðstæður þegar velta almennt í hagkerfinu er að hrynja og þar með neysla almennings sem heldur jú uppi stórum hluta þess þjónustuvinnumarkaðar sem við búum við. Frekari skerðing ráðstöfunartekna með skattahækkunum leiðir augljóslega til enn meira atvinnuleysis osfrv. Damned if you do, damned if you don´t. Á sama tíma er haldið hér uppi geðveikislegu vaxtastigi á meðan allir aðrir eru í örvæntingu að reyna að vinna gegn kreppunni með því að fara með vexti sem næst núllinu. En séu stýrivextirnir lækkaðir þá hækkar gengi skuldabréfa og seðlabanki og ríkissjóður verða enn meira fallít. Aftur damned if you do, damned if you don´t.
Þetta hagkerfi er algjörlega fallít hvað sem gert verður. Vitleysingar hafa fyrirgert sjálfstæði landsins á skipulegan hátt og nú liggur ekki annað fyrir en innlimun þess á algjöru botnverði í stærri einingu.
Baldur Fjölnisson, 23.2.2009 kl. 13:03
Þín greining er út af fyrir sig rétt, Baldur, en svo merkilegt sem það er, þá eru t.d. Bandaríkin í svipaðri stöðu. Þeir eru með fjárlagahalla og skuldastöðu sem er af mjög álíka stærðargráðum og okkar. Sama mun gilda um Bretland, og svo ekki sé minnst á lönd eins og Austurríki, Írland og Eystrasaltslöndin.
Það verður að finna einhverja róttæka leið út úr þessu, sem sennilega innifelur grundvallarbreytingar á undirstöðum fjármálakerfisins, t.d. gjaldmiðlakerfinu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.2.2009 kl. 14:32
Bandaríkin eru heimsveldiveldi og langstærsta efnahagskerfi heimsins og öflugasta herveldið og með ráðandi gjaldmiðil með hverjum td. höndlað er með hvers kyns hráefni, málma, hráolíu ofl. Slíkur aðili getur allt eins farið í stríð við lánardrottnana ef þeir eru með eitthvað múður og getur raunar sett af stað terrorsjó og stríð til að hressa upp á viðskiptin. Aðstöðu dvergríkis á borð við Ísland er ekki saman að jafna.
Austurríki, austurblokkin, Írland, Bretland, Sviss og Spánn eru augljóslega gjaldþrota. Ég geri ráð fyrir að Rússland og Þýskaland skipti leifunum á milli sín í fyllingu tímans og renni síðan saman í efnahagsbandalag sem nær allt frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Síðar mun sjálfsagt öll Evrasía renna saman og mynda hrikalegasta veldi allra tíma og jafnvel Bandaríkin verða þá sem hundur í bandi þess.
Baldur Fjölnisson, 23.2.2009 kl. 16:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.