12.2.2009 | 22:17
Fjármál ríkisins: Orðaleppar eða upplýst umræða?
Í komandi kosningabaráttu á eftir verða mikið þvargað um fjármál ríkisins. Þar mun verða farið einu sinni enn með innihaldslitla orðaleppa varðandi tekjuöflun ("hátekjuskatt") og sparnað ("niðurskurð í utanríkisþjónustu"). Orðaleppa, vegna þess að enginn virðist vera með réttar og raunverulegar tölur á hreinu, eða nógu hreinskilinn til að bera þær á borð fyrir kjósendur.
Fjárlagahalli 2009 verður 153 milljarðar skv. fjárlögum. Hallinn 2010 og 2011 er samanlagt áætlaður 160 milljarðar, en 2012 er vonast til að náð verði jafnvægi í ríkisrekstrinum. Það þarf því að spara og/eða auka tekjur um 153 milljarða frá árinu í ár til 2012.
Svo það sé afgreitt strax, þá eru heildarútgjöld utanríkisráðuneytis 12 milljarðar á þessu ári, þar af 3 til sendiráða. Ef þarna er skorið niður um helming eru 147 milljarðar eftir.
Ef lagður er á 5% hátekjuskattur til viðbótar á allar tekjur yfir 500.000 krónur á mánuði, yrði tekjuauki af því í mesta lagi 4,3 milljarðar (m.v. 2007). Segjum 4 og þá eru 143 milljarðar eftir.
Það er ljóst að orðalepparnir duga skammt. Það mun, því miður, þurfa alvöru niðurskurð, sem hlýtur að byggjast á vel grunduðum prinsippum og grundvallarafstöðu til hlutverks ríkisins, en ekki á handahófi eða loðmullu eða "þetta reddast".
Í ljósi þessa: er til of mikils mælst að frambjóðendur og flokkar útskýri hugmyndir sínar og tillögur um fjármál ríkisins með skýrum og greinargóðum hætti í komandi kosningabaráttu?
P.S. Gögn eru frá DataMarket, sem er ótrúlega sniðugt fyrirbæri. Sjá Fjárlög 2009 og Tekjuskattslíkan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.2.2009 kl. 16:34 | Facebook
Athugasemdir
Til frekari skýringar: Tölurnar í fjárlagalíkani DataMarket miða við fjárlagafrumvarpið eins og það var eftir 2. umræðu í þinginu. Tölur hækkuðu nokkuð eftir 3. umræðu og bloggfærslan byggir á þeim.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.2.2009 kl. 22:36
Þakka aftur góða færslu þessar tölur sem að þú ert að birta vekja með manni von um að í raun sé verið að plata okkur með einhverjum gifuryrðum Hef mina skoðun á hversvegna en læt hana liggja milli hluta
Jón Aðalsteinn Jónsson, 12.2.2009 kl. 23:12
Satt segirðu Vilhjálmur, menn tala í kringum þessar tölur og eru þegar farnir í lágkúrulegt og gamaldags hægri-vinstri karp um hvort skattar séu góðir eða slæmir, eins og þetta sé spurning um 'annað hvort-eða'. Ég skrifaði aðeins um þetta eftir að Sigurður Kári og Árni Páll mætust í Kastljósi. Sigurður Kári taldi skattahækkanir koma "engan veginn til greina" og Árni Páll talaði bara um að "færa til byrðar".
Ætla þeir báðir að skera niður fjárlög um 153 milljarða?
Einar Karl, 12.2.2009 kl. 23:39
Já, Einar Karl, ég hefði haldið að stjórnmálamenn áttuðu sig á því að kjósendur eru ekki í stuði fyrir hefðbundið málfundakarp að þessu sinni. En kannski er þeirra tími liðinn?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.2.2009 kl. 23:52
Þakka hlý orð í garð DataMarket.
Tölur úr 3. umræðu (þ.e. samþykktum fjárlögum) eru komnar inn í líkanið okkar.
Punktur þinn um orðaleppana er tiltölulega augljós þegar maður hefur tölurnar svona lifandi fyrir framan sig. Í skattamódelinu hefur mér ekki tekist að búa til nema 20 - 25 milljarða króna í nýjar tekjur án þess að fara út fyrir allt það sem almenningur gæti sætt sig við. Og þann pening er ekki hægt að sækja til hátekjufólks, heldur verður að teygja sig vel inn á miðtekjubilið til að ná honum.
Á gjaldahliðinni myndi þurfa að ráðast í einhverjar óvinsælar aðgerðir líka. Sem dæmi um aðgerðir sem myndu einhverju nema væru:
- Tímabundið afnám aukinna fæðingarorlofsréttinda (líklega um 6 ma. kr.).
- Afnám jöfnunarsjóðs sveitafélaga (11 ma.)
- Stórfelldur niðurskurður á niðurgreiðslum til bænda (>5 ma.)
- ...eða stórar breytingar á fyrirkomulagi félags-, mennta- eða heilbrigðismála. (5-10 ma. á hverjum stað).
Allt eru þetta erfið og viðkvæm mál og ljóst er að enginn pólitíkus mun koma fram með neinar slíkar hugmyndir fyrr en eftir kosningar!Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 01:55
Rétt að taka strax fram að ég er heldur ekki endilega að leggja ofangreind mál til, þau eru bara tekin sem dæmi um hvað stóru liðirnir eru erfiðir og hvers vegna enginn mun taka í alvöru á málunum.
Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 02:27
Hér er hugmynd - að vísu ekki komin frá mér. Skipta út Windows og Office úr öllum grunnskólum (að vísu hjá sveitarfélögum), framhaldsskólum og háskólum og nýta sér opinn hugbúnað í staðinn. Ég veit nú reyndar ekki hver núverandi kostnaður er en væntanlega er jákvætt að spara alls staðar.
Egill M. Friðriksson, 13.2.2009 kl. 09:19
Hvar leggur þú til Vilhjálmur að draga saman og auka skatta?
Eða erum við einfaldleglega að horfa á niðurskurð sem verður lengi verið að greiða til baka?
Baldvin Jónsson, 13.2.2009 kl. 09:46
Hátekjuskattur mun aldrei skila neinu sem skiptir máli, það er eingöngu verið að slá keilur þegar pólitíkusar vilja kjafta upp svoleiðis lausnir, þess utan treysti ég því ekki að tekjumörkin sígi ekki hverju ári eins og gerðist síðast þegar þetta var reynt. Það væri miklu gáfulegra að hækka skattprósentuna í tþd. 46% og skattleysismörkin í 150.000 það gæfi ca 18 milljarða í auknar skatttekjur, allir sem hafa innan við 300.000 í skattskyldartekjur væru betur staddir en í núverandi kerfi og við sem höfum meira en 300.000 í skattskyldartekjur borgum brúsann.
Mér finnst líka blóðugt að meira en 4 milljarðar fari í Sóknargjöld, Þjóðkirkjuna, Biskup Íslands, Kirkjumálasjóð og Kristnisjóð. Er ekki best að fólk sem vill vera í þessum félögum borgi beint og án milliliða í sín félög.
Mikael Hreiðarsson (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 10:19
Eins og bent hefur verið á, hér að ofan, er ljóst að enginn pólitíkus vill tjá sig um málið af þeirri alvöru sem þarf, til þess að mark sé á takandi. Það þarf að grípa til mjög sársaukafullra aðgerða sem ná langt út fyrir það sem pólitíkusarnir vilja tjá sig um að svo komnu máli. Þeir hafa ekki þann þroska til þess að þora að segja okkur hvað er í vændum. Þeir hafa ekki þor á því að verða atvinnulausir enda í engin störf að hverfa ef þeir ná kjöri.
Við verðum að átta okkur á því að tekjusamdráttur verður verulegur eins og ASÍ hefur bent á þannig að það eykur hallan! Síðan eru IMFararnir væntanlegir um helgina til að fara yfir fjárlagaáætluln okkar næstu árin og maður er ekki bjartsýnn að það sé hægt að gera þetta þannig úr garði að þessir 310-320 milljarðar sem við meigum fara fram yfir, á næstu árum standist.
Ég biðst afsökunar á því hvað ég er svartsýnn.
Árni (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 10:36
Góð færsla hjá þér Vilhjálmur sem og oft endranær.
Nú ert þú meiri talnaspekingur en ég en er ég eitthvað að misskilja eða ertu að gera ráð fyrir að lesendur þínir viti meir en ég virðist gera?
Ef að "Fjárlagahalli 2009 verður 153 milljarðar skv. fjárlögum. " og samanlagður halli 2010 og 2011 verður 160 milljarðar. Erum við þá ekki að tala um að "Það [þurfi] því að spara og/eða auka tekjur um 153 (+160) milljarða frá árinu í ár til 2012." eða um 313 milljarða?Þór Ludwig Stiefel TORA, 13.2.2009 kl. 11:55
Egill góð hugmynd. Samkvæmt óformlegum áætlunum FSFÍ (www.fsfi.is) þá nemur kostnaður ríkisins vegna séreignahugbúnaðs (sem er að stærstum hluta Windows og Office) í kringum milljarði árlega. Það gæti verið meira, það gæti verið minna, en líklega ekki langt frá þessari tölu. Því miður hrekkur það ansi skammt í svona niðurskurði, en vissulega væri nær að grípa milljarðinn þaðan en úr t.d. heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu!
Steinn E. Sigurðarson, 13.2.2009 kl. 13:41
Þór: við þurfum árið 2013 að vera kominn á núllið aftur. Við fáum yfirdrátt upp á þetta 310 milljarða. Villi er sem endranær að benda á, að næstu fjárlög þrufa að vera með um 65 milljarða halla. Í dag er hallinn 153. Við erum semsagt að velta vöngum yfir því hvar á að finna þessa 153-65=88 milljarða sem þarf að spara.
Að vísu þarf líka að borga vexti sem gerir sparnaðinn meiri ?!?
Árni (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 13:47
Þór og Árni: við þurfum að minnka fjárlagahallann úr 153 milljörðum í ár, niður í núll árið 2012. Til þess þarf að finna sparnað og/eða auka tekjur upp á 153 milljarða á ári, í áföngum 2010-2012. Á tímabilinu verður halli og þá aukast skuldir ríkissjóðs vegna hans um 153+160 = 313 milljarða, plús vexti.
Lárus, þetta er aðallega því að kenna að við höfum lifað um efni fram frá sirka 2002/2003. Verðbólgu var haldið niðri með hávöxtum og hágengi, sem ýkti ríkidæmi og kaupmátt þjóðarinnar. Svo hjálpar Icesave klúðrið náttúrulega ekki.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.2.2009 kl. 14:34
Sæll Vilhjálmur,
Ég var að leika mér að fikta í þessu skattagrafi. Nú hef ég sjálfur verið hrifinn af hugmyndum um flatan skatt en þar sem hann byggist mikið á neyslu þá hef ég aldrei séð neina leið fyrir hann til að virka í kreppum. Nema auðvitað ef fólk myndi spara í góðæri - en þá væri auðvitað flati skatturinn ekki að skila inn meiri skatttekjum til ríkisins.
Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta er hjá nágrannalöndunum en bæði Danmörk og Svíþjóð hafa skatta allt upp í 50%. Ég setti því skattekjuprósentuna í 50%, sleppti hátekjuskatti og breytti persónuafslættinum í 80þúsund. Frá núverandi skattkerfi aukast tekjur í ríkissjóð um 28 milljarða og þeir sem hafa laun upp að 300þúsund fá meiri pening heldur en í núverandi skattkerfi. Hérna sést þetta: http://apps.datamarket.net/skattkerfi/?p=50%2C00&hp=0%2C00&d=80000&hm=500000
En svo er maður nú væntanlega bjartsýnn á þessar tölur þar sem mikið af hálaunuðu fólki starfar eða starfaði í bönkunum sem hefur annað hvort misst vinnuna eða lækkað í launum.
Egill M. Friðriksson, 13.2.2009 kl. 14:45
Egill, svo má ekki gleyma Laffer-kúrvunni: ef þú hækkar tekjuskatt (jaðarskatt) þá nennir fólk síður að leggja á sig yfirvinnu, og skatttekjur aukast ekki í hlutfalli við hækkun skattprósentu. Raunar kemur að þeim punkti að þú getur hækkað skattprósentuna án þess að það skili krónu í ríkissjóð. Ef jaðarskattur væri t.d. 80% held ég að fæstir nenntu að leggja á sig aukavinnu.
Með jaðarskatti á ég við samspil tekjuskattsprósentu og lækkunar tekjutengdra bóta, t.d. barnabóta og vaxtabóta, þ.e. hvað stendur eftir nettó í veskinu af hverjum aukahundraðkalli efst á launaseðlinum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.2.2009 kl. 16:28
Fyndið að þú skulir minnast á Laffer-kúrvuna. Var einmitt að læra um hana í einum hagfræðikúrs um daginn. Í kennslubókinni er talað um að Reagan (og Thatcher) hafi aðhyllst þessa hugmynd um skattkerfi en að niðurstaðan hafi verið sú að skatttekjur minnkuðu í BNA. En hagfræðingarnir taka þó undir og segja að ef tekjuskatturinn er of hár þá virki hann letjandi á fólk. Í því dæmi nefna þeir Svíþjóð þar sem skattar voru á tímabili mjög háir og þannig hafi ríkið orðið af skattekjum.
Það sem ég er aðallega að pæla er að hegðun manna hlýtur að skípta miklu máli þegar kemur að skatttekjum. Skattprósentan ein og sér segir ekki allt. Í núverandi árferði virkar því hugsanlega ekki jafnvel að hafa lága skatta eins og það gerir þegar allir eru að fríka á neyslunni. Má svo líka vera að skattkerfi þrífast misvel eftir menningu - eru Þjóðverjar t.d. minni neysluseggir en Íslendingar? Segir þetta okkur að við þurfum stöðugt að vera aðalaga skattkerfi eftir aðstæðum?
Egill M. Friðriksson, 13.2.2009 kl. 17:00
Egill, Laffer-kúrvan er út af fyrir sig óumdeilanleg sem almennt lögmál, en það er breytilegt eftir ýmsum misáþreifanlegum forsendum hvar "hápunkturinn" (sú skattprósenta sem skilar hámarks skatttekjum) er hverju sinni. Það fer m.a. eftir ýmsum hópsálfræðilegum þáttum. Það er athyglisvert að velta því fyrir sér hvort hápunkturinn færist ofar við kreppuskilyrði eins og núna eru, þ.e. að fólk sé tilbúnara til að leggja hart að sér fyrir minni nettóávinning, eða jafnvel öfugt.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.2.2009 kl. 17:21
Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu um Laffer-kúrvuna enda hef ég pælt mikið í henni að undanförnu.
Ég myndi nú ekki vilja kalla hana óumdeilanlegt lögmál einfaldlega vegna þess að skv. mínum skilningi felur Laffer-kúrvanókeypis hádegisverð og okkur hagfræðingum er afar illa við að viðurkenna að hann sé til.
Guðmundur Sverrir Þór, 13.2.2009 kl. 20:29
Afsakið, það vantaði orðin í sér inn á milli kúrvan og ókeypis.
Guðmundur Sverrir Þór, 13.2.2009 kl. 20:30
Gætirðu útskýrt þetta aðeins betur, Guðmundur Sverrir?
Annars er best að ég skýri hvað ég á við með Laffer-kúrvunni. Það er sú staðreynd að 0% skattur og 100% skattur skila engum skatttekjum (að því gefnu að fólk sé ekki þvingað til að vinna), en einhvers staðar þarna á milli er skatthlutfall sem skilar ríkinu mestum tekjum. Hlutfall umfram það minnkar vinnuvilja meira en sem nemur hækkun hlutfallsins.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.2.2009 kl. 21:14
Sagan segir að Laffer hafi teiknað kúrvuna á servíettu til þess að skýra út fyrir blaðamanni þá fullyrðingu sína (hugmyndin er reyndar eldri) að hægt væri að auka skatttekjur ríkisins með því að lækka skatthlutfallið, kúrvan er íhvolft fall með núllpunkta í skatthlutfallinu 0 annars vegar og 100% hins vegar.
Ástæðan fyrir því að ég segi kúrvuna fela í sér ókeypis hádegisverð er í raun einföld. Lækkun skatthlutfalls felur í sér auknar ráðstöfunartekjur heimila eða fyrirtækja þannig að lækkun skatthlutfalls felur ekki í sér neinn kostnað fyrir þann hluta hagkerfisins. Ef þú getur í leiðinni aukið tekjur hins opinbera með því að lækka skatthlutfallið þá felur það ekki heldur í sér neinn kostnað fyrir hið opinbera. Þar af leiðandi hefur skattalækkun, hægra megin við hápunkt á kúrvunni, engan fórnarkostnað í för í sér, þ.e. ókeypis hádegisverð.
Auk þess hef ég alltaf sett spurningamerki við þá hugmynd að þótt skattar séu lækkaðir aukist vilji fólks til þess að vinna, er ekki rökréttara að ætla að fólk myndi vinna minna - þ.e.a.s. í hinum raunverulega heimi, ekki heimi hagfræðilíkana. Að sama skapi myndi fólk vinna meira ef skattar hækka, til þess að halda sínum ráðstöfunartekjum.
Guðmundur Sverrir Þór, 13.2.2009 kl. 22:40
Þess má geta að Laffer heimsótti Ísland fyrir rúmlega ári og þá tók ég við hann viðtal fyrir Morgunblaðið. Þetta er fjári léttur og skemmtilegur náungi.
Guðmundur Sverrir Þór, 13.2.2009 kl. 22:45
Tja ... í "kreppuhagfræði" dagsins í dag og komandi ára held ég að hin upphaflega kenning um Laffer kúrfuna eigi ekki við.
Upphaflega er hún sett fram sem röksemd fyrir því að lækkandi skattprósenta geti skilað hærri heildartekjum fyrir ríkið. Þetta hefur þó þegar komið fram. Þó ber að geta þess að þessi kúrfa eða kenningin um kúrfuna er sett fram áður en heimurinn opnast sem eitt viðskiptasvæði eins og er í dag. Þ.e.a.s. menn vildu gera ákveðin lönd skattavænni s.b.r. Ísland og ákveðnar suðrænar eyjar .... o.s.frv.
Laffer kúrfan er því fyrst og fremst hagsögulegt fyrirbrigði en ekki hagstjórnarlegt tæki. Það eru að vísu allt of mörg ár síðan ég stúderaði þetta að einhverju viti og er kominn að vísu með meira brjóstvit ....
Hagfræði komandi ára hérna á Íslandi mun verða "rauðlituð" þannig að ef línurnar sem eru að leggjast í pólitíkini halda yfir kosningar, þá verður mikill skattur settur á hærri tekjur en 8-9 milljónir á ári, þannig að það verði vinna fyrir fleiri hendur frekar en fyrir meiri peninga.
Árni (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 22:46
Þið eruð farnir að þvælast einum of mikið í fræðunum (þó svo þau séu góð og gild út af fyrir sig) til að orðræðan sé "relevant" varðandi úrlausnir dagsins í dag. Þó að sjálfur sé ég hagfræðimenntaður þá er ég sammála þeim sem hér benda mismun á raun- versus líkana- veruleik. Menn festast í pælingum um flókin hagfræðilíkön sem aldrei eru nógu flókin til að taka inn allar breytur en nógu flókin til að alltof margt geti skekkt útkomuna.
Laffer kúrfan á svo einungis við um tekjuskatt en það eru aðrar skattaleiðir færar fyrir ríkissjóð til að afla tekna. Bloggfærslan fjallaði svo um fjárlagahalla; niðurskurður er svo hin hliðin á því.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 13.2.2009 kl. 23:42
Það er nú einmitt vandinn við blessaða Laffer-kúrvuna. Ef hún á annað borð virkar, sem ég er ekki viss um, þá er það bara í líkani þar sem allar breytur eru sniðnar að henni. Ég hafði hugsað mér að mitt input í þessa umræðu væri eingöngu að benda á þá staðreynd en þar sem einnig er rætt um niðurskurð þá tel ég sú leið sé röng.
Niðurskurður mun að mínu mati eingöngu hafa í för með sér aukið atvinnuleysi og dýpri lægð. Við erum stödd í Keynes-ískri niðursveiflu og ég tel einu leiðina út úr henni vera að ráðast í opinberar fjárfestingar til þess að brjóta hinn neikvæða spíral. Við verðum að þola fjárlagahalla um nokkurra ára skeið enda er það ekkert lögmál að ríkið eigi að reka með hagnaði.
Það sem þarf að passa er að ráðist verði í framkvæmdir sem auka skilvirkni samfélagsins, t.d. Sundabraut og jafnvel gangnaframkvæmdir víða um land.
Guðmundur Sverrir Þór, 14.2.2009 kl. 00:52
Já ef og hefði ... ef menn sem stjórnuðu hefðu lesið skýrslur IMF og annarra álitsgjafa sem og farið eftir almennilegum hagfræðikenningum þá hefðu ekki verið opinberar framkvæmdir á árinum 2006 til 2008. Menn hefðu líka hent bönkunum úr landi með erlenda starfsemi og gert þetta "norsku" leiðina.
Ríkið hefur þó ekki endalaust lánstraust og menn gera sér grein fyrir því að það þarf að"spíta í" til þess að koma ástandinu í aðeins betri farveg. Síðuhöfundur heldur úti fyrirtækjarekstri og frumkvöðlastarfsemi sem að er stopp vegna gjaldeyrishafta. M.ö.o. þó menn vilji fjárfesta þá er það ekki hægt !!! (Hversu gáfulegt er það). En komandi aftur að lánstraustinu, þá er því miður búið að eyða því nær öllu í tiltekt eftir óreiðumennina (Endurreysa banka, Icesave og krónustuðning) og ekki mikið eftir til opinberra framkvæmda. Það er klárlega vandamálið í dag.
Það er þó virkilega gaman að láta hugan reika (ISLM, Keynes, Laffer ...... Kuhn Tucker?!?) maður sér fyrir sér Tór og Ragnar Árna .....
Árni (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 11:42
Lánstraust ríkisins er vissulega verulega skert, sem er einmitt ástæða þess að ég tel það hafa verið hagstjórnarmistök að gera ríkissjóð skuldlausan. Þetta fé hefði frekar átt að spara til mögru áranna, sjá http://sverrirth.blog.is/blog/sverrirth/entry/801653/
Hins vegar eru ýmsir möguleikar fyrir hendi, munum t.d. að lífeyrissjóðirnir sitja enn á digrum sjóðum. Ef einhvern tímann hefur verið þörf fyrir að virkja sjóðina þá er það einmitt nú.
Guðmundur Sverrir Þór, 14.2.2009 kl. 14:39
Sæll Vilhjálmur! Undirrituð hefur lesið talsvert af textanum hér fyrir ofan. Er sammála að mörg og sum 'billeg' orð muni ganga á milli í kosningabaráttunni. Nóg er að ræða. Ég sleppi Laffer, Keynes og þeim kumpánum öllum en langar að ræða smáaurinn sem mér fannst að ekki skiptu máli í ríkisfjármálunum
6 milljarða varanlegur niðurskurður ríkisútgjalda (utanríkisþjónustan)+ 4,3 milljarða aukning tekna (hátekjuskattur) eru samtals 10,3 milljarðar króna. Vonandi er dæmið rétt reiknað fram að þessu. Tók bara upp þínar tölur. Þetta gerir 10.300.000.000,00 íslenskar krónur/ár sé rétt áætlað. Áætlaður fjárlagahalli næstu 3 ára var 153+160+160 milljarðar sagðir þú. Hækkum meðaltal áranna upp í 158 milljarða. !0,3 milljarðar eru 6,5 % af þeirri upphæð og samtals 30,9 milljarðar króna á 3 árum! Ertu virkilega á því að þetta sé ómerkileg upphæð, kannski bara táknræn - eins og fyrrverandi Hæstvirtur utanríkisráðherra sagði um hátekjuskatt?
Ég leyfi mér að vera því mjög ósammála og er ekki að smjaðra fyrir neinum kjósanda er segi það.
Hlédís, 14.2.2009 kl. 23:55
Guðmundur, Árni og Þór: þakka fína umræðu. Niðurstaðan er klárlega sú að það eru mörk fyrir því hvað hægt er að beita tekjuskatti, og aðrar skattlagningarleiðir og niðurskurður hljóta að koma til álita. Og ég er sammála Guðmundi um að það er í lagi í þessu árferði að prenta peninga og auka innlendar skuldir ríkisins, til að lágmarka skaðann á raunhagkerfinu.
Hlédís, ég get "glatt" þig með því að áætlaður halli 2009-2011 er samanlagður 153+160 milljarðar = 313 milljarðar öll þrjú árin. Og vissulega eru 30,9 milljarðar næstum 10% af þeirri upphæð, og ég geri ekki lítið úr því. En pojntið var um þá stjórnmálamenn sem láta nægja að nefna þessar tvær "klisjur" (hátekjuskatt og utanríkismálin) og að þar með sé málið útrætt. Það finnst mér ekki vera hreinskilni við kjósendur heldur leið til að komast hjá því að svara spurningunni: hvar og hvernig á að finna peningana? Svörin við þeirri spurningu eru algjört grundvallaratriði í pólitík næstu ára, þannig að mér finnst kjósendur eiga rétt á að fá þau upp á borðið, eða a.m.k. hugmyndafræðina sem beitt verður.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 15.2.2009 kl. 00:14
Satt er, Vilhjálmur! Margur slær sig til riddara með glamri, oft um það sem hefur lítið vit á. Og þá ekki síður sammmála um upplýsingaþörfina, gagnsæið!
Hlédís, 15.2.2009 kl. 00:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.