10.2.2009 | 10:37
Úbbs! Meira að segja forsetinn skilur þetta ekki...
Fyrri ríkisstjórn náði ekki að útskýra hugsunina að baki nýju og gömlu bönkunum fyrir þjóðinni. Ég hef orðið var við að varla nokkur maður skilur þetta dæmi. Nú er greinilegt að það hefur líka farist fyrir að útskýra þetta fyrir forseta lýðveldisins. Það ætlar ekki af okkur að ganga í kjánalegri stjórnsýslu þessa dagana.
Nú ítreka ég í a.m.k. fjórða eða fimmta skiptið á þessu bloggi:
Gömlu bankarnir koma ríkinu og almenningi ekki við. Þeir eru í greiðslustöðvun og verða ósköp hefðbundin þrotabú, eins og hjá hverju öðru gjaldþrota hlutafélagi. Eignir þeirra eru í reynd eignir kröfuhafa. Því sem vantar upp á að bankarnir geti greitt kröfuhöfum, tapa þeir. Ríkissjóður bætir þeim ekki upp tapið.
Undantekningin frá þessu eru innlán sem tryggð eru í gegn um Tryggingasjóð innstæðueigenda. Ef eignir banka duga ekki fyrir lágmarkstryggingu innlána, sem er 20.887 evrur á hvern reikning, þarf Tryggingasjóðurinn að bæta það sem á vantar. Á þetta mun reyna í Icesave Landsbankans, en hvorki hjá Kaupþingi né Glitni.
Kaupþing, og þýskt útibú þess, á nægar eignir fyrir innlánum og því mun ekki reyna á innistæðutrygginguna í því tilviki. Kröfuhafarnir, þar með innistæðueigendur, fá sitt borgað úr þrotabúinu. Það er ekki íslenska þjóðin sem borgar. Þetta þurfa menn að skilja og gæta sín að ergja ekki Þjóðverja eða aðra umfram brýna nauðsyn. Við höfum ekki efni á því í stöðunni.
Þjóðverjar fái engar bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Facebook
Athugasemdir
Ég trúi ekki að hann skilji þetta ekki. Þetta hlýtur að vera vitlaust haft eftir honum. En hitt er annað mál að í þjóðfélaginu er allskonar misskilningur í gangi með nýju og gömlu bankanna. Það hefði verið betra að mínu áliti að skipta strax um nöfn á bönkunum. Þá væru fleiri sem skildu þetta.
Hörður Már Karlsson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 10:46
Ekki þreytast á að útskýra þetta á einföldu máli - oft var þörf en nú er nauðsyn.
Halldóra Halldórsdóttir, 10.2.2009 kl. 11:15
Athyglisvert hjá þér. Umræðan í þjóðfélaginu er öll í þá átt að þjóðin verði látin borga skuldir bankana eða a.m.k. stóran hluta þeirra. Ég er einn af þeim sem sem hef haldið að við yrðum látin greiða stóran hluta þess. Atli Gíslason þingmaður sagði á borgarafundi hér á Akureyri um helgina að skuldir íslands yrðu um 2.300 milljarðar, Gunnar Tómasson hagfræðingur sagði á öðrum fundi um helgina að skuldir þjóðarinnar yrðu rúmir 5.000 milljarðar.
Allar upplýsingar eru afar misvísvitandi og það er einmitt það sem ruglar alla umræðu og kemur inn alls kyns ranghugmyndum og orðrómi um hitt og þetta. Það breytir því samt ekki að hvort sem upphæðin er 2.300 milljarðar eða 5.000 milljarðar sem fellur á okkur þá erum við ekki borgunarmenn fyrir slíku án þess að setja velferðarkerfið á hliðina í mörg ár og það snertir okkur öll, hvert einasta okkar.
Arinbjörn Kúld, 10.2.2009 kl. 11:21
Upphæðin er ekki heldur 2.300 milljarðar heldur verða nettóskuldir ríkisins að öllum líkindum að hámarki 1.000 milljarðar í lok 2011. Þá er allt innifalið, fjárlagahalli 2009-2011, Icesave, endurfjármögnun nýju bankanna og Seðlabanka, og hela galleriet.
En athugaðu að þarna er verið að tala um nettóskuldir (þ.e. skuldir að frádregnum peningalegum eignum) ríkissjóðs (ekki heimila og fyrirtækja).
Ég veit ekki hvaða ánægju menn hafa af því að ýkja þessar tölur, en þetta liggur allt fyrir ef menn nenna að kynna sér það. Sjá t.d. fyrri bloggfærslur mínar um þetta efni þar sem vitnað er í fjármálaráðuneytið, Fréttablaðið, skilanefndarskýrslur o.fl. En óneitanlega væri gott ef stjórnvöld tækju sig saman og gæfu út yfirlit og spá í eitt skipti fyrir öll, það myndi beina umræðunni á mun jákvæðari og uppbyggilegri brautir.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.2.2009 kl. 11:43
Andskoti er ég sammála þér Vilhjálmur. Ég tek mér orð forstjóra Straums í munn úr nýlegu viðtali: "Ísland má ekki við meira af neikvæðu umtali, nú þurfum við að fljúga undir radarnum og láta lítið fyrir okkur fara".
Þetta er ótrúleg útspil sem eru að koma frá Bessastöðum þessa dagana og sérstaklega slæm í ljósi þess að útlendingar halda margir að forsetinn hafi meir völd en hann hefur í íslensku samfélagi.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.2.2009 kl. 12:53
Ef hins vegar reynir á innistæðutryggingar hjá Kaupthing þá er það víst undir íslenskri tryggingu. Ég skil ekki þýsku reyndar, en mér er sagt að það komi hér fram: http://www.kaupthingedge.de/service/einlagensicherung
Kjánalegt að pósta link sem maður skilur ekki svo sem, en stundum verður maður líklega bara að taka sénsinn
Baldvin Jónsson, 10.2.2009 kl. 13:39
Þessi fyrirvari hjá Kaupþing hefur væntanlega átt vel við áður en neyðarlögin voru sett. Með neyðarlögunum fóru innlán í forgang og þá varð ljóst að eignir Kaupþing myndu duga fyrir innlánum, a.m.k. Þá var eingöngu spurning hve mikið fengist upp í kröfur skuldabréfaeigenda.
Maelstrom, 10.2.2009 kl. 13:43
Kaupþing EDGE í Þýskalandi er eina erlenda innlánastarfsemin á vegum Kaupþings sem var í útibúi, allt hitt var í dótturfélögum og ekki undir íslenskri innstæðutryggingu.
Maelstrom, þetta er rétt athugað hjá þér.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.2.2009 kl. 13:57
Var að lesa yfirlýsingu forsetans á ensku sem hann sendi þýskum fjölmiðlum. Nú er hann að reyna að hreyfa sig í kviksyndinu, sem eins og kunnugt er getur leitt til þess að menn sökkvi dýpra. Hann gefur t.d. í skyn að íslenskir innistæðueigendur hafi tapað alveg eins og þýskir, sem er rangt, og ekki endilega sniðugt að vekja frekari athygli á þeim kringumstæðum öllum.
Það væri best fyrir hagsmuni þjóðarinnar á þessum tímapunkti að forsetinn léti alveg vera að tjá sig um þessi mál, þau eru í sínum farvegi og aðeins hætta á skaða af því að rugga bátnum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.2.2009 kl. 17:30
En fyrst þetta er svona rosalega einfalt Vilhjálmur, hvernig stendur á því að enginn skilur það og getur talað um það á eðlilegan hátt nema þú og einhver handfylli manna?
Auðvitað leita erlendir aðilar eftir viðtölum og skýringum frá íslenskum ráðamönnum, það er barnaskapur að ætlast til þess að þeir steinþegi. Ekki kom þögnin okkur vel þegar Gordon Brown og félagar voru að taka okkur ósmurt í Október síðastliðnum. Það var fáránlegt að halda að það líti eitthvað betur út að láta ekki ná af sér tali. En auðvitað er verra að segja bara eitthvað og Árni Matt mátti ekki mæla því þá hefði komist upp um af hversu miklum kjánaskap landinu hafði verið stjórnað. Ég hef ákveðna samúð með fólki að standa frammi fyrir þeim valkostum að verða að annaðhvort þegja þegar þeir þyrftu helst að segja eitthvað eða tala og gera sig að fífli.
Fyrst þú skilur þetta svona vel væri frekar að þú keyrðir eins og einn rúnt upp á Bessastaði og útskýrir málið frekar fyrir honum og einhverjum góðum gestum. Aldrei að vita nema þú fáir kakóbolla hjá Dorritt og etv. koss að skilnaði? Ég segi þetta kannski beint út eins og í gríni, en það er engin fjarstæða. Tekur þig ekki nema 26 að rúnta þetta. Forsetinn getur tvímælalaust tekið sér þarflausari verk fyrir hendur en að spjalla aðeins við þig og hina fjárfestana og stjórnarformennina sem vita nákvæmlega hversvegna efnahagur landsins hrundi og venjulegt fólk er á vonarvöl.
Rúnar Þór Þórarinsson, 10.2.2009 kl. 18:51
Það liggur fyrir að ákveðin hugsun lá hjá stjórnvöldum að baki neyðarlögunum og uppskiptingu bankanna - það er rétt. Það er hins vegar langt í frá öruggt að hún haldi vatni fyrir dómstólum. Það er þegar byrjað að hrikta í neyðarlögunum og lánardrottnar hafa dregið að stórar kanónur sem horfa gráðugum augum "mögulegan" eiganda. En ríkið getur hæglega lent í þeirri stöðu eftir meðferð dómstóla að verða skilgreindur eigandi þar sem eiginlegt gjaldþrot hefur ekki orðið.
Margir munu hins vegar aldrei skilja þennan gjörning sem felst í neyðarlögunum enda hljómar þetta eins og argast kennitöluflakk sem siðlausir menn stunda. Sumir kalla það nútíma viðskipti með hlutafélög.
TH (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 20:27
Erum við ekki (ein) gáfaðasta og best menntaða þjóð í heimi? Meiri hluti þjóðarinnar virðist samt enn ekki skilja hvaða ábyrgð og áhætta fylgdi starfsemi útibúa eða dótturfyrirtækja íslenskra banka erlendis eða hvaða leiðir gætu verið reyndar til að leysa úr vandamálum sem upp kynnu að koma ef illa færi.
Hefur einhver opinber stofnun eða embættismaður útskýrt "stöðuna" fyrir okkur "fólkinu í landinu"?
Kannski er einhver í fjármálaráðuneytinu eða Seðlabankanum eða Nýja Kaupþingi eða Nýja Landsbankanum eða einhvers staðar sem gæti gefið okkur upplýsingar um að hvaða marki og af hverjum innistæður hjá íslenskum bönkum (gömlum,nýjum, innlendis,erlendi) eru tryggðar.
Agla (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 21:17
Djíís, hvers konar væl er þetta?! Fullt af fólki er nú bara í tiltölulega öruggri vinnu, á skuldlítið húsnæði og fína bíla. Og "fólkið á Íslandi" hefur vonandi ekki tapað reisn sinni. Við viljum enga vorkunnsemi frá öðrum löndum!
Farðu bara í langt frí Ólafur.
Einar Karl, 10.2.2009 kl. 21:32
Rúnar: ég myndi ekki hafna kakói og kossi frá Dorrit, svo mikið er víst
TH: það er ekki ólíklegt að sá athyglisverði dagur renni upp þegar kröfuhafar láta reyna á neyðarlögin fyrir dómstólum. Það er reyndar engin hætta á að þrotabúin sjálf lendi á ríkinu (þau eru hlutafélög með takmarkaða ábyrgð og ég get ekki séð að kröfuhafar hafi nokkrar forsendur til að sækja á ríkið), en innistæðutryggingin gæti gert það. Í stuttu máli væri það alveg voðaleg niðurstaða.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.2.2009 kl. 22:58
Tapið er gígantískt fyrir þjóðarbúið og þjóðina hver sem endanleg staða ríkissjóðs verður.
- Stóra blekkingin síðustu 15 árin var einmitt sú að staða ríkissjóðs ein og sér væri það eina sem máli skipti.
Davíð og Geir fengu því framgengt að við litum svo á að skuldir þjóðarbúsins kæmu ekki almúganum og hversdagsjónum við bara ef ríkissjóður einn og sér og einagraður stæði vel.
Helgi Jóhann Hauksson, 11.2.2009 kl. 00:55
Skuldir íslensku einkabankana falla ekki með beinum hætti á Íslendinga. En við greiðum þessa skuld í tapaðri viðskiptavild, í vantrausti á fyrirtæki Íslendinga almennt. Það er dýrt.
Ef íslenska ríkið situr uppi með 1000 milljarða skuld er hægt að borga þá upphæð á nokkrum árum. Það tekur hins vegar átatugi að endurvinna glatað traust. Við borgum því að lokum allar skuldir einkabankana.
Hriflungur (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 08:46
Að sjálfsögðu tapar þjóðin og almenningur á bankahruninu með margvíslegum óbeinum hætti. Hluthafar tapa öllu sínu fé, þeir sem áttu bréf í peningamarkaðssjóðum tapa nálægt þriðjungi, lífeyrissjóðir tapa 10-20% af nafnvirði eigna (og meira að raunvirði), og svo má ekki gleyma gjaldmiðilskreppunni sem kemur ofan á bankakreppunni og veldur jafnvel enn meiri skaða. Ég reyni síst að draga úr þessu, en mér leiðist þegar menn tala um að "þjóðin hafi verið skuldsett um 20 milljónir á hvert mannsbarn" og tala þannig kjarkinn úr fólki umfram það sem ástæða er til. Svoleiðis tal er hluti af vandamálinu en ekki lausninni.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.2.2009 kl. 11:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.