Braut Seðlabanki bankaleynd með minnisblaðinu?

Hér birtir Morgunblaðið óundirritað minnisblað frá Seðlabanka Íslands sem hlýtur að vekja verulega athygli.  Bankinn, þessi opinbera lykilstofnun, tekur sér fyrir hendur að senda fjölmiðlum tiltekin bréfaskipti milli hans og Fjármálaeftirlitsins varðandi gjaldeyrisviðskipti.  FME "hefur haft efasemdir um að rétt sé að birta þess bréfaskipti vegna upplýsinga um nafngreinda aðila og fjárhæðir".  Með öðrum orðum, þá er Seðlabankinn hér að brjóta bankaleynd með því að birta að geðþótta sínum upplýsingar og dylgjur um tiltekin viðskipti aðila úti í bæ, í þessu tilviki Exista hf. og Kaupþings banka hf.  Og reyndar er niðurstaða FME sú að ekkert sé athugavert við viðskiptin.

Nú má spyrja: er þessi birting bréfaskiptanna eðlileg stjórnsýsla af hálfu Seðlabanka?  Eða enn ein birtingarmynd þess vanda sem við er að etja í bankanum?

Svo má líka spyrja í framhaldi: hvaðan komu þeir lekar sem undanfarið hafa borist í fjölmiðla og beinast einkum að Kaupþingi?  Og hvaðan hafa Egill Helgason og ýmsir blaðamenn þá sannfæringu sína að Kaupþing hafi verið í samsæri um að "fella krónuna"?  (Sem nóta bene féll af fullkomlega augljósum makróekónómískum ástæðum, sem m.a. voru á valdi Seðlabankans, og þurfti ekkert samsæri til.)

Það er ekki seinna vænna að þessi þjóð fái Seðlabankastjórn sem stendur undir nafni.


mbl.is FME fann ekki markaðsmisnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

nýjan gjaldmiðil=nýjan seðlabanka!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.2.2009 kl. 20:02

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki:

58. gr. Þagnarskylda.
Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.2.2009 kl. 21:22

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

... og við brotum á 58. gr. getur legið stjórnvaldssekt og allt að 2ja ára fangelsi, hvort sem brotið er framið af ásetningi eða gáleysi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.2.2009 kl. 21:25

4 Smámynd: katrín atladóttir

annað sem er pirrandi við þetta er að agli og nafnlausa hernum hans finnst þetta bara vera sönnun á því hversu óhæf og mikil glæpastofnun FME er..

katrín atladóttir, 6.2.2009 kl. 23:24

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Alveg furðulegt hvað ég, kratinn, er lentur í því að útskýra mekanisma frjáls markaðar fyrir frjálshyggjumönnunum.  Hvað er að því þótt viðskiptavinir Kaupþings hafi keypt gjaldeyri fyrir krónurnar sínar?  Máttu þeir það ekki, ef þeir höfðu ekki trú á krónunni?  - Sem ég lái þeim engan veginn, enda peningamálastefna Seðlabankans galin og gjaldeyrisvarasjóður sáralítill miðað við ofvöxtinn í krónublöðrunni.  Annað hvort er hér fljótandi gengi eða ekki.  En ef teórían gengur út á markaðsmisnotkun þá er a.m.k. ljóst að FME fann hana ekki.

Annars skiptir ekki máli, fyrir aðalatriðið hér, hvaða skoðun menn hafa á meintri krónusölu: Seðlabankinn má ekki brjóta bankaleynd og dreifa dylgjum um aðila út í bæ að geðþótta bankastjóra.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.2.2009 kl. 23:36

6 Smámynd: Hinrik Már Ásgeirsson

Varðandi bankaleynd og brot á henni þá er hún til staðar til að vernda fyrst og fremst viðskiptavini bankana og það trúnaðarsamband sem þarf að vera þar til staðar.

Vinur minn sem er lögfræðingur tjáði mér t.d. þegar Davíð Oddsson bar fyrir sig bankaleynd varðandi ástæðu Breta fyrir beitingu hryðjuverkalaga á Landsbankann á fundi viðskiptanefndar þá hafi það verið á afar gráu svæði þ.e. bankaleynd fjallar einungis viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna. Þar með er hann í raun verið að segja að ástæðan fyrir beitingunni byggi á upplýsingum sem hann hafi áskotnast í gegnum viðskiptamenn Seðlabanka Íslands eða veitt viðtöku upplýsingar sem falli undir sama.

 En að öðru.

Tryggvi Jónsson títtnefnur gaf út yfirlýsingu sem ég gæti fallið undir brot á bankaleynd.

Hérna er brot úr yfirlýsingunni:

"Í lok október sl. var fyrirsjáanlegt að ekki yrði hægt að forða Árdegi frá gjaldþroti.  Árdegi átti á þessum tíma fundi með Fyrirtækjasviði og var ég beðinn um að koma þar að.  Á fundinum lýsti forstjóri Árdegis yfir áhyggjum af því að geta ekki greitt starfsmönnum sínum laun vegna októbermánaðar.  Sala á einingum frá félaginu til að eiga fyrir launum var rædd.

Forstjóri Árdegis sagði aðspurður að Sena væri líklegasti kaupandinn að Skífunni og Hagar eða Max Raftæki kaupendur að BT tölvum.  Ég spurði hann hvort hann vildi að ég hringdi í stjórnendur þessara fyrirtækja til að koma á sambandi og vildi hann það."

Þetta hljóta að vera upplýsingar sem eru bæði viðskiptalegir og varða einkahagsmunir fyrirtækisins Árdegi.

Hvað finnst þér?

Hinrik Már Ásgeirsson, 7.2.2009 kl. 02:39

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jújú, má vel vera, ef TJ hefur ekki haft leyfi Árdegis til að birta þessar upplýsingar.

En varðandi Exista, þá er málið klárt og kvitt, þeir eiga að njóta bankaleyndar og væru í fullum rétti að kæra til FME, og ég sé ekki hvernig menn myndu ætla að snúa sig út úr því.

Gagnvart almenningi snýst málið hins vegar ekki um hagsmuni Exista, heldur stjórnsýsluna, fordæmið og aðferðirnar sem þarna er beitt. Og trúverðugleika Seðlabankans sem stofnunar, innan lands og utan.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.2.2009 kl. 10:35

8 identicon

Ég hef rætt um ótrúlega tilviljunakenndan fréttaflutning af svokölluðum "skilanefndamálum" og núna hefur SB bæst í þennan flokk.  Ljóst er að SB ber mikinn kala til Kaupþings af einhverjum ástæðum. 

Ég er ekki dómbær á það, hvað fellur undir bankaleynd og hvað ekki.  Ég er ekki heldur dómbær á það,  hvort það hafi þjónað hagsunum Exista að stunda gjaldeyrishamstur, þeir hafa e.t.v. verið að lesa bloggið þitt.   Voru KB og Exista í bandalagi með að "fella krónuna" og SB gat ekki varist árásinni?  Á vefsíðu SB er enn þessi magnaða áætlun þeirra, að halda verðbólgu í 2,5% með vikmörkum upp á 1,5%.  Þeir segjast ætla að stýra verðbólgunni með vaxtastigi sem og á sama tíma að koma inn á gjaldeyrismarkað gerist þess þörf.  Þannig að maður verður hugsi yfir því af hverju eru þeir mögulega að brjóta bankaleynd núna á þessum tímapunkti, og af hverju Kaupþing og Exista?   Af  hverju í sömu viku og Jóhanna sendir bréf? 

Síðan má velta því fyrir sér af  hverju það tekur FME 4 mánuði að athuga hvort þessi viðskipti rúmist innan eðlilgera marka og dæmist ekki sem árás á stöðugleika krónuna.  Ég hef ekki þær upplýsingar, en þetta ætti að vera c.a. dagsverk að meta  hreyfingar á markaði ...... ég kann allavega á excel ... :-)

Árni (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 13:34

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Mönnum hefur orðið tíðrætt um fjóra mánuði, og þá í tvennum skilningi: fjóra mánuði sem það tók FME að rannsaka málið, og hins vegar (rúma) fjóra mánuði sem líða þar til að Seðlabankinn kýs að senda bréfaskiptin á fjölmiðla.  Mér finnst það alveg skiljanlegt að það geti tekið FME fjóra mánuði frá apríl til ágúst, yfir sumarleyfismánuði, að rannsaka nefndar gjaldeyrisfærslur, þetta er væntanlega talsvert magn gagna.

Ef niðurstaðan átti erindi í fjölmiðla, þá var það í formi stuttrar fréttatilkynningar í águst frá annað hvort FME eða Seðlabanka, þar sem sagt hefði verið að í kjölfar ábendinga hafi gjaldeyrisviðskipti Kaupþings og tiltekinna viðskiptavina verið rannsökuð með tilliti til markaðsmisnotkunar, og niðurstaðan sé sú að slíkt hafi ekki fundist.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.2.2009 kl. 13:54

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hér er annars þagnarskylduákvæði laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands:

35. gr. Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.2.2009 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband