5.1.2009 | 15:10
Siðfræði mótmæla
Ég var einu sinni sem oftar á Austurvelli á laugardaginn og tók þátt í mótmælafundi. Þar kristallaðist umræða sem einnig hefur geisað í bloggheimum, um siðfræði og áherslur í mótmælum og aðgerðum. Má segja að fulltrúar pólanna þar hafi verið Hörður Torfason, Einar Már Guðmundsson og anarkistar með dulin andlit.
Hörður hefur staðið í mannréttindabaráttu í 40 ár og þekkir af reynslu hvað skilar árangri og hvað ekki. Hann telur það fari best á því að fólk komi fram af djörfung og notfæri sér lýðræðislegan rétt til friðsamlegra mótmæla. Sigur muni vinnast með því að höfða til fjöldans, hamra á málefnalegum lykilkröfum og ná fram hugarfarsbreytingu. Má segja að þetta sé í anda betri leiðtoga mannsandans á borð við Mahatma Gandhi, Martin Luther King og Nelson Mandela.
Einar Már Guðmundsson er að mínu mati fulltrúi þeirra sem stjórnast fyrst og fremst af blindri reiði og vaða fram í þokukenndum blammeringum (reyndar vel orðuðum eins og atvinnuskáldi er lagið). Allir - stjórnmálamenn, embættismenn, fólk í atvinnulífi - eru meira og minna glæpamenn og pakk. Fullyrðingum á borð við að hver Íslendingur skuldi 20 milljónir er slengt fram (hvaðan kemur sú tala? Icesave er talið vera 500 þúsund á kjaft). Óhikað er gripið til málfunda-mælskuvopna á borð við ad hominem - ef þú getur ekki svarað rökum beinirðu spjótum að málflytjandanum. Engin tilraun er gerð til að greina ábyrgð - pólitíska, embættislega, refsiréttarlega - heldur eitt látið yfir alla ganga með aðferðum múgæsingamannsins (demagógsins). Að höfða til lægri kennda: reiði, hefnigirni, svart/hvítra einfaldana - kann að vera ódýrt og freistandi fyrir þann sem langar að slá í gegn á fjöldafundum, en er ekki það sem okkur vantar í dag.
Um hina andlitslausu "róttæku mótmælendur"/anarkista þarf ekki að hafa mörg orð, þeir fyrirlíta lýðræði og stofnanir samfélagsins sem slíkar, og sjá það sem "nauðsyn" að skemma eignir, meiða saklausa eða hindra lýðræðislega umræðu. Rökstuðningur þeirra, ef rök skyldi kalla, eru rök ofbeldissinna og skemmdarvarga hvarvetna: tilgangurinn helgar meðalið, og "hinir" eru svo ljótir og vondir, að "okkur" leyfist hvað sem er. Það er verulegur ábyrgðarhluti að gefa þessum sjónarmiðum undir fótinn í andrúmslofti dagsins í dag, og ég leyfi mér að vona að hugsandi fólk, rithöfundar, ofurbloggarar og aðrir, geri það ekki að óathuguðu máli.
Verkefnið liggur nokkuð ljóst fyrir. Embættismenn í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og annars staðar verður að skipta um, enda eru þeir búnir að sanna eins rækilega og sannað verður að þeir eru óhæfir. Pólitískt uppgjör þarf að fara fram í kosningum jafnskjótt og ráðrúm hefur gefist til að undirbúa ný framboð og til endurnýjunar innan flokkanna. Óháðar og ítarlegar rannsóknir þurfa að fara fram á hugsanlegum lögbrotum í aðdraganda hrunsins. Síðan þarf að byggja upp aftur öflugt og sjálfbært atvinnulíf á nýjum forsendum. En æsingamenn, og tala nú ekki um ofbeldismenn, eru fremur hluti af vandamálinu en lausninni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.1.2009 kl. 00:59 | Facebook
Athugasemdir
Komdu sæll, Vilhjálmur
Var rétt í þessu að lesa færslu frá manni og er á sömu nótum og hjá þér. Guð láti gott á vita! Ég var farinn að halda að "samræðustjórnmálin" okkar ætluðu að koðna niður í hrakyrði og klám. Slíkur hefur fyrirgangurinn verið í bloggheimum.
Samræður eða díalog snýst um flæði hugmynda manna á milli, líkt og þegar straumþung á flæmist bakkanna á milli og fær á hverjum stað nýtt viðnám sem breytir stefnu hennar.
Ekki veit ég hvort við "höldum með" sama stjórnmálaflokki en ég þakka þér fyrir pistilinn þinn, sem er ritaður af þeirri festu og glöggskyggni vænta má af þér.
Flosi Kristjánsson, 5.1.2009 kl. 15:31
"Um hina andlitslausu anarkista þarf ekki að hafa mörg orð, þeir fyrirlíta lýðræði og stofnanir samfélagsins sem slíkar, og sjá það sem "nauðsyn" að skemma eignir, meiða saklausa eða hindra lýðræðislega umræðu."
Hvað ertu að tala um maður? Fyrirlíta lýðræði? Er beint lýðræði og samróma ákvörðunarferli ekki lýðræði í þínum augum? Ertu svona háður flokknum þínum að þú sérð ekkert annað en fulltrúalýðræði? Kýstu fulltrúa fjölskyldunnar þegar þú ákveður hvað á að vera í matinn? Fulltrúalýðræðið er ekki eina lýðræðið og flokksræði eins og það er á Íslandi er yfirhöfuð ekki lýðræði.
Hvenær hefur nokkur anarkisti haldið fram að það sé nauðsyn að meiða saklausa eða hindra lýðræðislega umræðu? Hvaða sakleysingjar hafa verið meiddir og hver sagði að það væri nauðsyn að meiða þá? Þetta eru hreinar dylgjur.
Hvaða lýðræðislega umræða hefur verið hindruð? Ertu að tala um montþáttinn á gamlársdag? Er "Stundin Okkar" eða "Gott Kvöld" lýðræðisleg umræða?
Maður þarf að vera verulega firrtur til að kalla þennan þátt lýðræðislegar umræður. Þetta fólk hefur haft 3 mánuði til að hefja lýðræðislegar umræður, en þegar það hefur kosið að tjá sig er það *eingöngu* með hroka og skítkasti.
Nonni, 5.1.2009 kl. 15:47
Sæll Vilhjálmur og takk fyrir góðan pistil.
Þeir mættu vera fleiri á þessum nótum hér í blogheimum, þ.e. málefnalegir og rökstuddir pistlar.
Halla Sigríður Bjarnadóttir, 5.1.2009 kl. 16:10
Nonni, ef þú lest bloggfærslur mínar t.d. um hugmyndir Vilmundar Gylfasonar þá sérðu að ég vil gjarnan minnka flokksræðið og hef ýmislegt konkret til málanna að leggja.
Ég hef undanfarna daga verið að lesa fjölmargar réttlætingar anarkista og öfgasinnaðra mótmælenda á atburðum við Hótel Borg. Þar er einmitt gert eins og þú gerir, að taka sér vald um að dæma fyrir hönd annarra hvað teljist leyfð/boðleg umræða, og telst þá Kryddsíldarþáttur með formönnum stjórnmálaflokka vera svo ómerkilegur ("Stundin okkar", dæmigerð hótfyndnis-röksemdafærsla) að það hafi verið gustuk að slá hann af. Ég er bara ekki sammála þeirri valdbeitingu fyrir mína hönd. Hver á að velja hvaða umræðuþættir eru þóknanlegir? Nafnlausir ofbeldissinnar? Er það betra Ísland?
Svo er morgunljóst af myndböndum að menn töldu ekki eftir sér að slást við starfsmenn Hótels Borgar og Stöðvar 2 til að komast inn í útsendingu þáttarins (til að gera hvað?). Og einhverjum fannst nauðsynlegt að henda múrsteini í lögreglumenn.
Annars er varla eyðandi orðum í að ræða þetta, svona vanhugsaður vitleysisgangur er bara til þess að skemma fyrir góðum málstað.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.1.2009 kl. 16:19
Fyndið hvernig þú talar um rökvillur Einars Márs og vindur þér svo beint í rökvillur sjálfur í næstu málsgrein þegar þú talar um anarkistana. Eða eins og Kristur sagði: „Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín?“
Rökvillan sem þú beitir í garð anarkistanna kallast fuglahræðslurök þar sem röng- eða óviðeigandi mynd er gerð sem síðan er felld. Þú ljáir anarkistunum þá merkingu að þeir séu ofbeldisfullir, fyrirlíta lýðræði o.fl. sem er ekkert endilega satt. Ekkert í þinni röksemdafærslu styður þessar fullyrðingar en það er auðvellt fyrir þig að dæma anarkistana út frá þessu.
Það er líka rökvilla hjá þér að álykta að það sem hefur virkað áður, muni gera það aftur (þau svo að líkurnar séu því jú hliðhollar er það ekki 100%) og af þvi það virkaði, þá virkar ekkert annað.
Í svari þínu við Nonna notarðu líka ógilda alhæfingu. Hvað veist þú um aðillan sem kastaði múrsteininum. Af því hann var inni í hópi rótækra mótmælenda hlýtur hann að vera anarkisti, ekki satt?
Ég myndi passa mig á þessu. Svona röklaus gagnrýni er bara til þess að skemma fyrir góðum málstað.
Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 16:53
OK, Rúnar, kannski á ég ekki að nota samheitið "anarkistar" heldur frekar "öfgasinnaðir mótmælendur", "harðlínu-mótmælendur" eða "róttækir mótmælendur" eins og þú gerir. Það er gott að anarkistar sem eru á móti ofbeldi hafi sig í frammi, enda gerir ofbeldi ekkert annað en að kalla á meira ofbeldi, eins og menn ættu að hafa marglært af sögunni.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.1.2009 kl. 17:06
Þetta er vel rökstuddur og goður pistill. Eg hef grun um að stor hluti folks se þer sammala þo svo að mikil rettlætingarherferð virðist vera i gangi a bloggheimum varðandi þessi "Kryddsildarmotmæli" og fleiri skemmdarverkasamkomur.
Það virðist nefnilega vera svo að i kjölfar slikra aðgerða fer umræðan öll að snuast um aðgerðirnar sjalfar en ekki malstaðinn sem aðgerðasinnar segjast vera að minna a þegar þeir rettlæta skemmdarverk. Reynt er itrekað að gera litið ur skemmdarverkunum og umfangi þeirra.
Er að sama skapi sammala þer með Einar Ma, það ma alveg fara að hvila hann, enda þessi ræða hans farin að verða þreytt.
Þorður Ingi (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 17:33
Hefði Martin Luther King haldið ræðu undir þessum kringumstæðum með þungamiðju í hártogunum um Ara Edwald? Held ekki.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.1.2009 kl. 17:39
Má ég benda þér á eitt Vilhjálmur, við höfum ekki "40 ár" til að koma frá spillingaröflum sem nú ráða og fara með ránshendi um landið. Það þarf að gerast fljótt og "snyrtilega". Þeim sem að finnast ríkisstjórnin vera hæf til starfa, þá bið ég um að horfa aftur á Innlendann annál RÚV.
smali, 5.1.2009 kl. 18:11
Má ég benda þér á, hr. Smali nafnlausi, að við erum með lýðræði til þess að skipta um ríkisstjórnir, og þótt lýðræði sé ekki gallalaust, þá hefur ekki tekist að finna neitt betra, þrátt fyrir ýmsar voveiflegar tilraunir í þá átt. Hefurðu lesið einhverja mannkynssögu að ráði?
Og hefurðu hugleitt hvort sú "lækning" sem mér heyrist þú vera að gefa í skyn (valdarán umboðslausra vitleysinga með ofbeldi?), sé verri en sjúkdómurinn? Má ég þá heldur biðja um Geir Haarde.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.1.2009 kl. 18:29
Einhver sagði að íslenska ríkisstjórnin yrði ekki verri þó valið væri af handahófi úr símaskránni. Ég er því ekki sammála, hún væri sennilega betri, laus við valdhroka og sennilega minni spilling.
Má ég benda þér á að samkvæmt skoðannakönnunum(sem að vísu ég hef takmarkaða trú á vegna oft leiðandi spurninga), þá er ríkisstjórnin umboðslaus. Ef ég í minni vinnu væri að standa mig jafnt og ríkisstjórnin þá yrði ég rekinn. Ég gæti ekki varið mig og myndi ekki gera það.
Ekki er ég spámaður mikill en í júní fór ég að búa mig undir þetta ástand sem nú er komið upp.
Ljótt er að segja það en ríkisstjórnin er eins og krabbamein og það verður að fjarlægja.
smali, 5.1.2009 kl. 18:44
Ef ég á að gefa ríkisstjórninni einkunn þá er hún "404".
Spurðu sjálfan þig ef þessir 13 einstaklingar væru flugvirkjar, myndir þú fljúga með vélinni sem þeir viðhalda?
smali, 5.1.2009 kl. 18:54
Ég nenni ekki að munnhöggvast við nafnleysingja.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.1.2009 kl. 19:24
Ef þí vilt vita nafn mitt þá er það Ingólfur Kristjánsson. Og þá geturðu hoggið munn minn.
smali, 5.1.2009 kl. 19:31
Frábær pistill Vilhjálmur - hafðu þökk fyrir!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 5.1.2009 kl. 20:08
Fínn pistill. Takk fyrir. Það á ekki að halda uppi samræðum við nafnleysingja. Ég hafði það fyrir sið á ellefu sjónvarpsárum og fimmtán árum í pólitík, að ef fólk hringdi og neitaði að segja til nafns , þá sagði ég: Mér er ómögulegt að tala við fólk sem heitir ekki neitt. Lagði síðan símtólið á.
PS Nefni svona til gamans í lokin að hann föðurafi þinn og nafni og faðir minn voru vinnufélagar á fimmta áratug síðustu aldar.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 20:29
já Vilhjálmur!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.1.2009 kl. 20:38
Það er magnað að fólk sjái það ekki að þegar mogginn er kominn í ríkiseigu þá er nafnlausum bannað að blogga. Mótmæli styrkt af ríkinu og pöpullinn gleypir allt.
Sorglegt.
smali, 5.1.2009 kl. 21:15
Takk fyrir góðan pistil Vilhjálmur.
Þér virðist líka hafa tekist, með svolítið öflugum blammeringum á anarkista, að svæla upp á yfirborðið friðelskandi anarkista. Það er vel og væri óskandi að friðelskandi anarkistarnir nái að leiða mótmæli þess hóps á þeim nótum.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 5.1.2009 kl. 23:04
Hef skrifað nokkrar hugleiðingar um þessi mál:
Grímklæddir mótmælendur og þorpsfífl til verndar fjölskyldunni
Hvar á ég heima? Áhugaverð grein um pólitíska hugmyndafræði sem þarfnast skýringa.
Þátttaka barna í pólitískum fundum og mótmælum
Ástþór Magnússon Wium, 5.1.2009 kl. 23:05
Afbragðs pistill. Afbragð.
Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 00:03
Þakka góð viðbrögð. Eiður, gaman að heyra um föður þinn og afa/nafna.
Já, Sigurður Viktor, ég hef látið málflutning róttækra/anarkista fara dálítið í taugarnar á mér, en það er kannski af því að mér finnst hann hljóma svipað því sem Ísraelar gætu sagt (og segja) til réttlætingar árásum á Gaza. "Af því að óvinurinn gerði þetta-og-þetta er ég í fullum rétti að ráðast á hann með ofbeldi." Nú þekki ég margt hjartagott fólk sem vill mótmæla en myndi aldrei vilja tengjast ofbeldi af neinu tagi. Vitleysingarnir eru að skemma fyrir þessu góða fólki, og það er synd.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.1.2009 kl. 00:29
Góður pistill :) Hittir naglann á höfuðið.
Vilma Kristín , 6.1.2009 kl. 01:24
Takk fyrir yfirvegað svar, Vilhjálmur.
Ég hef líka skoðað þessar hugmyndir Vilmundar og þær eru bráðnauðsynlegar og virkilega þarft skref í átt að auknu lýðræði í þessu landi. Annað sem þyrfti líka að koma til er staðbundnara lýðræði. Landstjórn ætti eingöngu að koma að málum sem varða allt landið, og héraðsstjórnir eða jafnvel hverfastjórnir kæmu að þeim málum sem þau varðar. Eitthvað í ætt við svokallaðar parecon hugmyndir. Að auki þyrftu allir fulltrúar í slíkum stjórnum að vera afturkallanlegir með einfaldri meirihlutakosningu, eitthvað sem ætti að vera tiltölulega einfalt á tímum netsins. Þá væri ég tiltölulega sáttur við lýðræðið, jafnvel þótt það væri ennþá meirihlutalýðræði.
En svo ég komi aftur að mótmælunum. Fyrirgefðu útúrsnúninginn en þú lagðir upp með þvílíkar blammeringar, dylgjur og rangfærslur, að útúrsnúningur virtist ekkert of góður fyrir þig. Staðan í þessu þjóðfélagi er þannig að ríkisstjórn situr í óþökk almennings, það er ekki umdeilt. Svoleiðis staða hefur komið upp áður á kjörtímabili en aldrei eftir þvílíkar hamfarir og hafa riðið yfir þjóðina. Aldrei hefur áður verið jafnfullkomlega ljós vanhæfnin og spillingin sem grasserar.
Mér heyrist þú vera sammála þessu. En hvað er til ráða? Eru friðsömu mótmælin ekki fullreynd sem aðferð? Friðsömu mótmælin þjappa fólki saman, en þau eru ekki nóg. Þau hafa verið fullkomlega hundsuð í 3 mánuði. Það að trufla útsendingu kryddsíldarinnar með hrópum og köllum er táknræn pólitísk aðgerð. Hún er hávær og hún setur þrýsting á ráðamenn. Mér fannst það lýðræðislegt að meðan þau reyna að leika sinn pólitíska hráskinnaleik heyrast raddir þeirra róttækustu sem vilja þau burt. Mér fannst það lýðræðislegt að þegar þau ýttu okkur út með hættulegum vopnum þá þögguðum við niðri í þeim með ofbeldislausum aðgerðum.
Hverju heldurðu að það sé að þakka að Ingibjörg Sólrún er núna að henda sprengjum í stjórnarsamstarfið? Henni er ekki lengur vært í ríkisstjórn. Ef þarf svona aðgerðir til að ýta við þeim til að þau hlusti á þjóðina, er það skylda okkar sem þorum, að nýta þær.
Nonni, 6.1.2009 kl. 10:04
Í þessarri grein gerir þú engan greinarmun á hreyfingunum í kringum Ghandi, Mandela og King en þó stóðu þær þó fyrir mjög mismunandi mótmælendastrategíu.
Hótel Borg mótmælin voru borgaraleg óhlýðni ala Ghandi og hópurinn þar er mjög upptekin af því að láta berja sig af yfirvöldum á meðan mótmælin á Austurvelli eru meira mómæli í anda King. Enn hefur engin tekið upp mótmælendaaðferðir Afríska þjóðarráðsins á Íslandi enda er slíkt ekki notað nema í ítrustu neyð.
Þegar fólk vitnar í söguleg dæmi er lámark að það kynni sér aðeins hvað það fólk stóð fyrir sem vitnað er í.
Sjáfur er ég svo á sirka sömu línu og Einar Már. Ég heilsa velkomin jafnt mótmælin við Austurvöll sem og mótmælin við Hótel Borg enda tel ég bæði mótmæli vinna að því samfélagi sem þarf að byggja hér á landi.
Héðinn Björnsson, 6.1.2009 kl. 10:43
Mandela held ég að hafi lært það af langri reynslu að það var ekki ofbeldið sem skilaði árangri. Eftir að hann komst til valda lagði hann áherslu á að gera upp við aðskilnaðartímabilið með því að leiða sannleikann í ljós og fá gerendur til að horfast í augu við ábyrgð sína og verk, en ekki með hefndum eða refsingum.
Ég er fylgjandi því að mótmælendur minni á sig, t.d. með hávaða í bakgrunni Kryddsíldar, og þátturinn hefði orðið athyglisverðari fyrir bragðið. En að fara að ráðast inn í Hótel Borg, slást við starfsmenn, og stöðva útsendingu með því að skemma búnað, fór yfir strikið. Þarna eru mörk sem mér finnst að hugsandi mótmælendur ættu að skilja og virða, þar sem menn gera mun meira ógagn en gagn með því að fara yfir þau.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.1.2009 kl. 14:02
Svo eru menn sem hengja sig á svona mótmæli og ræna þeim.
Eftirfarandi dæmi er verðugt íhugunar.
Eiríkur Bergmann áhugamaður (eða ber manni að kalla hann frekar atvinnumann ?) um aðild að ESB rænir hér í grein mótmælafundum á sem haldnir hafa verið á Austurvelli síðustu vikur, til að þjóna sínum hagsmunum.
"The government's unwillingness to face the risk of this systemic unbalance is perhaps one reason why ordinary Icelandic people are now demonstrating in the freezing streets of Reykjavik, calling for EU membership. "
Kannast Hörður Torfason skipuleggjandi fundanna við það að þeir sér haldnir undir fyrirfram skilgreindum merkjum einnar stefnu, eins og ESB aðildar, ofar annari ?
Merkileg meðöl sem menn velja sér !
Haraldur Baldursson, 6.1.2009 kl. 14:31
Vilhjálmur, ég held að sú mynd sem Ari Auðvalds mini-útrásarvíkingur hefur dregið upp þarfnist gagnrýni. Kynntu þér málið á þeim fréttamyndum sem Lára Hanna hefur sett upp í sinni færslu um málið. http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/759143/
Athugaðu fréttaflutning Nei! af málinu. http://this.is/nei
Kryddsíldin var flutt um sal, gagngert til að ekki heyrðist í mótmælendum. Vissulega ruddumst við inn á Hótel Borg, en eingöngu til þess að það heyrðist í okkur. Ef þú horfir á fréttamyndirnar, sérðu að þarna er fólk að ýta sér inn. Það er ekki þarna til að slást.
Eftir að við vorum úðuð fyrst í innilokuðu andyri var togað í kaplana. Eftir seinni úðun þegar okkur var ýtt þangað sem heyrðist örugglega ekki í okkur, voru kaplarnir bræddir. Eini tækjabúnaðurinn sem var skemmdur, voru þessir kaplar.
Þetta réttlætir örugglega ekkert í þínum augum, en mér finnst leiðinlegt þegar fólk heldur fram einhverri firru sem er tuggin ofan í það af þeim sem settu okkur á hausinn. Ég vona að fjöldinn sem mætti seinasta laugardag á friðsöm mótmæli sýni líka að fækkun á mótmælum fyrir jól hafði ekkert með aðgerðasinna að gera, og allt með jólastressið að gera.
Nonni, 6.1.2009 kl. 14:34
Þessar árásir á Ara blessaðan Edwald finnst mér ósanngjarnar. Hann er framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvar sem er í fullum rétti að reyna að senda út sína dagskrá, og verður fyrir því að ráðist er á starfsfólk hennar og tæki. Það væri aumur framkvæmdastjóri, og ekki að vinna vinnuna sína, sem tæki slíku mótmælalaust.
Ari Edwald er ekkert aðalatriði í þessu máli og ekki heldur eignarhald stöðvarinnar, eða er það ekki rétt hjá mér að mótmælendur hefðu gert nákvæmlega það sama þótt Kryddsíldin væri á RÚV? Málið snýst um það prinsipp hvort mótmæli eigi að innifela meiðingar og eignaspjöll, og hvort slíkt sé réttlætanlegt eða einu sinni líklegt til árangurs. Einnig að menn velti fyrir sér hvar slíkt framferði geti endað og hvort sá endir sé það sem óskað er eftir.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.1.2009 kl. 15:52
Ég var að tala um hræðsluáróður Ara Edwalds, um slagsmál og skemmdir á tækjum. Ekki eignahald hans.
Slagsmál eiga að mínum dómi ekki rétt á sér. Mér finnst í lagi að fólk troði sér inn í opinbera byggingu til að mótmæla, jafnvel þó sú bygging sé í einkaeigu. Fólk getur meiðst við slíkar aðstæður, en fólk verður að taka ábyrgð á sjálfu sér. Alveg eins og við getum ekki vælt yfir því að lögreglan verji Hótel Borg*, getur starfsfólk ekki vælt yfir því að það hafi fengið pústra þegar það tekur á móti mótmælendum sem troða sér inn.
Mér finnst jafnvel réttlætanlegt að skemma eignir ef það þjónar skýrum pólitískum tilgangi, eins og í kryddsíldinni. Það er rætt fram og til baka í mínum vinahóp hvað er ásættanlegt og hvað ekki. Þetta er verulega grátt svæði. Eigur má ekki skemma að mínum dómi.
Ég skil ótta þinn um að allt muni fara úr böndunum ef eignaspjöll eru liðin, en tek frekar mark á mínum ótta að það muni allt fara til helvítis á þessu landi ef engin axlar ábyrgð. Ég hef fært rök fyrir því að borgaraleg óhlýðni skili árangri og ef fólk notar hana ekki sem verkfæri til að koma þessu liði frá sem fyrst, áður en fólk missir húsnæði og fleiri missa vinnu, fer allt fjandans til. Það geturðu bókað.
*Við vælum samt yfir því og réttilega þegar lögregla virðir ekki eigin vinnureglur. Einnig að lögregla á Íslandi sé vopnuð viðbjóðslegu efnavopni.
Nonni, 6.1.2009 kl. 16:29
http://this.is/nei/?p=2089
Nonni, 6.1.2009 kl. 18:26
Þetta er nú aldeilis greindarleg grein hjá þér!
Og gaman að sjá þig og gamla embættismanninn falla svona í faðma.
Ég legg til að þú komir næst með refsiréttarfræðilega úttekt á þeirri ósvinnu að henda eggjum í Alþingishúsið!
Meðan þjóðníðingar hneppa okkur í ánauð...
Jóhann (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 17:27
Það verður fróðlegt að meta það eftir á, loksins þegar ráðamenn fara að taka við sér og sýna einlæga iðrun osfrv hve mikið af því gerðist af því að þeim fannst þeir neyddir til þess því annars myndi allt vaða hér í alvöru átökum. Það er svo sannarlega ekki hefð fyrir því á Íslandi að bregðast við eða taka tillit til friðsamlegra mótmæla. Það hefur sannast enn og aftur núna þrátt fyrir að hin landlæga og yfirgengilega spilling og sérhagsmunagæsla og sú siðferðisvitund sem því fylgir hafi nú keyrt stóran hluta þjóðarinnar í kaf í orðsins fyllstu merkingu.
Ég tek ekki þátt í ofbeldi né hvet til þess en stundum get ég hreinlega ekki komist hjá því svona í laumi heima hjá mér að þakka þessu fólki sem stígur skrefinu lengra en við hin og setur alvöru pressu á ráðamenn - svona pressu eins og myndast þegar sá brotlegi gerir sér grein fyrir að það eru viðurlög líka, að ef hann sýnir ekki samstarfsvilja þá gerist eitthvað.
(ég þakka samt ekki þeim sem hendir múrstein í höfuð lögreglumanns eða eitthvað þaðan af verra og mér finnst heldur ekki að löggan eigi að gefa neinn afslátt af sinni vinnu).
Einar Sigvaldason, 8.1.2009 kl. 10:47
Góðar hugleyðingar hjá þér Vilhjálmur. Það er munur á mótmælum og ofbeldi og það seinna skilar engu. Ef rökræðan dugar ekki þá er illa komið fyrir þessari friðsömu þjóð.
Slagorðastíllinn er líka mjög þreyttur því það sem gerðist er sambland af nokkrum þáttum sem allir fór illa. Helst ber að nefna agaleysi í rekstri fjármálastarfsemi og margra fyrirtækja, vöxtur sem ekki stóðst erfiðari aðstæður, hroki í vinnubrögðum í stað fagmennsku og það skrifast á óvandaða einstaklinga við stjórnvölinn. Síðan kemur hin alþjóðlega fjármálakreppa og klárar dæmið á nokkrum dögum.
kær kveðja
Sveinn
Sveinn Valdimar Ólafsson, 8.1.2009 kl. 11:44
Akkúrat, Sveinn - mér finnst stundum að allsherjarblammeringarnar kæfi umræðu um það sem raunverulega fór úrskeiðis og dreifi ábyrgð þannig að hún lendi hvergi. Mér finnst til dæmis þáttur Fjármálaeftirlitsins verulega ámælisverður, og svo gleyma margir að það er beinlínis lögbundið markmið Seðlabanka að gæta að og tryggja fjármálastöðugleika.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.1.2009 kl. 14:28
Vilhjálmur, hvað finnst þér að eigi að gera, almennt séð?
Nonni, 8.1.2009 kl. 16:05
Ítreka lokaorðin í bloggfærslunni:
Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.1.2009 kl. 13:54
... og svo þurfum við að hefja aðildarviðræður við ESB eins fljótt og við verður komið. Þær munu strax hafa jákvæð áhrif á krónuna og innlenda skuldabréfamarkaði, m.a. á vexti.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.1.2009 kl. 13:56
Eru þínar tillögur ekki líka blammeringar að einhverju leyti samt? Það er einhvern vegin þannig að bloggheimar hneykslast alltaf á því að athyglin beinist ekki gegn einhverjum öðrum. Þú vilt ekki að uppgjör við ráðamenn, en þú vilt Davíð og Jón(as) út.
En af hverju er ekki þegar búið að skipta um í Seðlabankanum og FME? Mótmæli þurfa að beinast líka að ráðamönnum, því þeir hafa völd til að raða upp á nýtt í þessar stöður. Og hvernig á að setja nægan þrýsting á stjörnvöld, eða embættismennina sjálfa til að eitthvað gerist? Ég vil meina að þurfi enn stærri fjöldafundi, bréfaskrif og aðrar aðgerðir. Ég vil líka meina að það sem er erfiðast að hundsa séu þær beinu aðgerðir sem það fólk sem ég hef mótmælt með stendur fyrir.
Ég veit ekki hvort þú ert sammála. Kannski trúir þú eins og sumir, að beinskeytt mótmæli sundri fjöldamótmælunum. Ef það er satt þá er það ansi snautlegt fyrir mig, að vinna gegn mínum markmiðum. En ég trúi að sum af þeim jákvæðu skrefum sem hafa verið tekin, séu borgaralegri óhlýðni og beinskeyttum aðgerðum að þakka og að þegar fólk sjái árangur sé það sameinandi.
Nonni, 9.1.2009 kl. 14:39
Fyrirgefðu, ég hélt því fram að þú vildir ekki uppgjör við ráðamenn. Það er náttúrulega ekki satt. En mér finnst samt, að þér finnist að það megi bíða til kosninga, og það var punkturinn sem ég meinti.
Nonni, 9.1.2009 kl. 14:41
Ég er lýðræðissinni og tel að skipta eigi um ríkisstjórnir í kosningum, ólíkt sumum sem hafa tjáð sig hér. Kosningar vil ég fá en tel að það þurfi vissan tíma til undirbúnings, bæði fyrir ný framboð að skipuleggja sig og fyrir flokkana að endurnýja sig (sjá t.d. Framsókn um þessar mundir). Það hefði verið óraunsætt að ætla að kjósa fyrir áramót; út úr því hefði aðeins komið öngþveiti.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.1.2009 kl. 15:42
Það er ekki kosið um ríkisstjórn í kosningum, heldur þingsæti fyrir flokka og stjórnarmyndunarumboð. Sér í lagi er ekki kosið um einstaka ráðherra.
Ég er lýðræðissinni, þó ég sé ekki hrifinn af núverandi fyrirkomulagi, en ráðherrar njóta lítils trausts að utan og ráðherrar hafa ekki neinar lausnir né sérþekkingu sem gætu gagnast okkur. Þeir þurfa margir hverjir að segja af sér vegna afglapa og pólitískrar ábyrgðar.
Alveg óháð þessu, eru þeir einu sem hafa vald til að setja af vanhæfa seðlabankastjóra og FME-aula, þeir sjálfir og ríkisstjórnin. Þess vegna hlýtur það að vera eðlilegt að setja pressu á hana, óháð því hvaða aðferðum við kjósum að beita.
Kærar þakkir fyrir skemmtileg skoðanaskipti, Vilhjálmur. Ég vona að ég sé ekki að ganga fram af þér með fjölda tjása hérna.
Nonni, 9.1.2009 kl. 16:20
Ég er hundfúll út í það sem gerst hefur og auðveldast væri að kenna öllum um, bara öllum. Sjálfur vinn ég við flugöryggismál og þekki vel til þar. Þegar verður flugslys er einmitt auðvelt að kenna öllum um - það ferst jú stundum fólk í slíkum slysum og hið mannlega óöryggi og örvænting tekur völdin hjá þeim sem málið stendur næst. Eitt af því sem er samt fróðlegt að pæla í er að oft eru vitni að flugslysum og þau eru að sjálfsögðu yfirheyrð og spurð um hvað þau sáu gerast!! Þá kemur nær alltaf í ljós að vitnisburður þessara vitna er svo margbreytilegur að það er vita gagnslaust að nota upplýsingar þeirra í flestum tilfellum. Einn segir flugvélian hafa verið að hækka flugið, næsti segir lækka flugið og sá þriðji að hún hafi haldið hæð!!! Um þessar mundir eru um 200-250.000 íslendingar að bera vitni um hvað gerðist (þeim yngstu er sleppt) og hversu sammála erum við!! Einn slettir rauðri málningu, næsti segir Davíð burt, þriðji Ingibjörgu, fjórði Geir..., fimmti,.. , sextugasti Jón Jónsson,.....!!
Eftir því sem fjær dregur þessum atburðum í október fellur rykið og sannleikurinn er líklegri til að birtast okkur. Góð flugslysarannsókn tekur 1-3 ár og svo koma niðurstöður sem hægt er að byggja á. Hversu lengi tekur að rannsaka hrunið er óvíst því verklagið sem þar er viðhaft er ekki staðlað, allir hafa álit - flestir telja sig vita hvað gerðist en eru samt ekki vissir??
Málið er flókið, tekur tíma að vinna úr og ég held að það taki nokkur ár að komast til botns. Það auðveldar ekki málið að allir lentu í þessu fjármálaslysi og því slysið snertir þetta okkur öll.
Gleymum ekki að snúa bökum saman en jafnframt rökræða málið án ofbeldis, og vinna okkur svo áfram en ekki festast í draugum fortíðar. Til þess að svo megi verða er afar mikilvægt að rannsókn á fjármálaslysinu 2008 verði vönduð, óvilhöll og réttmæt.
Kær kveðja
Sveinn
Sveinn Valdimar Ólafsson, 9.1.2009 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.