Gleðilegt bloggár 2009; 2008 rifjað upp

Óska lesendum gleðilegs nýs árs, og þakka góð og jákvæð viðbrögð á liðnu ári.

Hér að neðan fer samantekt á bloggárinu 2008, með lykilsetningum úr ýmsum færslum ársins á þessu bloggi.

  • 7. janúar: Þá er ekki nema von að spurt sé: af hverju fóru [lífeyrissjóðirnir] ekki af krafti yfir í verðtryggð skuldabréf t.d. á síðasta ársfjórðungi 2007?
  • 21. janúar: Hins vegar er orðið verulega nauðsynlegt að huga að öðru markmiði [Seðlabankans], sem er stöðugleiki fjármálakerfisins.
  • 4. febrúar: Lengi hefur staðið til að setja inn á bloggið dæmi um það hvernig portrettmálverk verður til, og nú er komið að því.
  • 10. febrúar: Þegar horft er fram á fjármálakreppu, lokaða fjármögnunarmarkaði, frystingu útlána frá bönkum, og líkur á harðri lendingu krónunnar, myndi ég draga úr áherslu á hlutabréf hjá lífeyrissjóði, ef ég væri þar sjóðsstjóri.
  • 20. febrúar: Þetta blogg getur ekki verið eftirbátur stórblaðsins [The New York Times] og lýsir hér með yfir stuðningi við Barack Obama í [embætti forseta BNA]. 
  • 15. mars: Ég spái því að í stað krónu verði fiskibolludósir orðnar gjaldmiðill Íslendinga áður en árið er liðið. 
  • 31. mars: Fjárfestar myndu [við tilkynningu um ESB-þjóðaratkvæði] telja verulegar líkur á að krónum yrði í fyrirsjáanlegri framtíð skipt út fyrir evrur og að evrópski seðlabankinn tæki við sem lánveitandi til þrautavara fyrir íslenska banka. 
  • 15. apríl: Peningamarkaðssjóðir sem eiga fyrirtækjapappíra eru að mínu mati, og því miður, varhugaverðir.
  • 12. maí: Hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að láta Guðmund [í Byrginu] hafa peninga skattgreiðenda til að sinna viðkvæmu og brothættu fólki sem þurfti alvöru aðhlynningu og stuðning?
  • 16. maí: Stærð bankakerfisins miðað við veikan Seðlabanka og smáan gjaldmiðil leiðir óhjákvæmilega til þess að "Íslandsálagið" er komið til að vera. 
  • 14. júlí: Fátt virðist geta forðað [General Motors] frá greiðslustöðvun og hinir bílaframleiðendurnir standa ekki mikið betur. 
  • 14. september: Aðalvandi íslenska hagkerfisins um þessar mundir er ekki verðbólga, eins og forsætisráðherra heldur fram, heldur þverrandi fjármálastöðugleiki. 
  • 20. september: Á Íslandi hefði gjarnan mátt vera virkari skortsölumarkaður þegar mesta ruglið gekk yfir á hlutabréfamarkaði, þegar FL Group nálgaðist gengið 30 svo dæmi sé tekið. 
  • 1. október: Sú fixídea íslenskra stjórnmálamanna sumra, að halda í krónuna af forpokuðum smákóngaástæðum, veldur okkur núna verulegum búsifjum, umfram þær sem annars hefðu orðið.
  • 3. október: Í fyrradag tók ég í hönd sonar míns, sem verður 21 árs í nóvember, og bað hann afsökunar fyrir hönd minnar kynslóðar á því að við skilum af okkur gjaldþrota þjóðarbúi.
  • 4. október: Tryggingarsjóður innlána virðist samt tæplega duga upp í nös á ketti ef einhver bankanna lendir í þroti. 
  • 6. október: Það sem vantar [í neyðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar] er aðallega tvennt: að skýrt verði hvernig eigi að styðja við krónuna, og til lengri tíma, að undirbúa umsókn að ESB. 
  • 7. október: Ég spyr aftur: hversu lengi á [klúðurlisti Seðlabankans] að halda áfram að lengjast? 
  • 10. október: Núna verður [Davíð Oddsson] að sýna að unnt sé að endurræsa krónumarkaðinn, svo við getum þrjóskast áfram í þeirri samfélagstilraun að halda úti minnstu fljótandi mynt í heimi, af því að það er svo mikið sjálfstæði í því, eða eitthvað. 
  • 12. október: Krónunni var haldið of sterkri með hávaxtastefnunni, meðan gjaldeyrissjóði var ekki safnað til mótvægis.
  • 14. október: Um þessar mundir gefst sjaldgæft tækifæri til að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil, vegna þess að óvenjulega fáar krónur eru í umferð. 
  • 17. október: Ef einhver (fjármálaráðherra?) hefði aulað [ákvörðunum varðandi innistæðutryggingar] rétt út úr sér við Darling og/eða Brown hefði mátt komast hjá vægast sagt afdrifaríkum misskilningi.
  • 21. október: [Í] stað þess að skerða innistæður, sem væri svo óvinsæl aðgerð að hún er í reynd ófær, myndi Seðlabankanum vera skipað að "prenta peninga" og leggja inn í bankana til að unnt sé að láta fólk eiga jafnmargar krónur og það lagði inn. 
  • 28. október: Áfram mun þurfa að viðhalda hærri vöxtum í krónu en í nágrannalöndum til að halda krónum í landinu, enda mun taka mjög langan tíma að byggja aftur upp trúverðugleika krónunnar, ef það er þá yfirleitt mögulegt (sem ég held ekki). 
  • 30. október: Það verður að segjast, að íslensku bankastjórarnir og bankaeigendurnir voru rosalega vondir í að reka banka. 
  • 5. nóvember: Sundrungar- og mannfyrirlitningarstefnu George W. Bush hefur verið kastað á öskuhauga sögunnar. 
  • 6. nóvember: "Réttlæti heykvíslanna" er ekki gott réttlæti, og gerir aðeins illt verra. 
  • 11. nóvember: Segja má að bankarnir hafi mátt hafa sig alla við að koma hinu sívaxandi peningamagni í vinnu, sem hefur beinlínis kallað á aukna áhættusækni (gírun). 
  • 12. nóvember: Varðandi [hugsanlegt tap vegna innistæðutrygginga] þá kemur til greina að íslenska ríkið deili tapinu í einhverjum hlutföllum með öðrum ríkjum, og/eða endurgjaldi með hlutabréfum í nýju bönkunum. 
  • 15. nóvember: Batnandi mönnum er best að lifa, og vonandi kemst Sjálfstæðisflokkurinn að skynsamlegri niðurstöðu í Evrópumálum, þó verulega miklu fyrr hefði verið.
  • 18. nóvember: Vilmundur [Gylfason] sá glögglega brestina í flokkakerfinu og í því hvernig fólk er valið til ábyrgðar.
  • 30. nóvember: Flokkarnir hafa of mikil völd til að velja fólk inn á Alþingi, og margt af besta fólkinu nennir ekki að vinna sig í gegn um flokksapparötin.
  • 1. desember: Loks hefur setning gjaldeyrislaganna og -reglnanna þau óhjákvæmilegu áhrif að hræða erlenda fjárfesta frá Íslandi til skamms og langs tíma. 
  • 7. desember: Verðbólgan er krónunni að kenna (og misheppnaðri peningamálastjórn Seðlabankans).
  • 21. desember: Það er ekki endilega fólgið vald eða sjálfsvirðing í því að sitja einangraður úti í horni þegar fjölþjóðlegir og hnattrænir hagsmunir almennings eru í veði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gangi þér allt í haginn á nýja árinu!

Þorsteinn Briem, 2.1.2009 kl. 00:55

2 identicon

Skemmtileg samantekt hjá þér.  Ég les bloggið þitt reglulega og viðurkenni að ég er alltaf sammála þér, slíkt er vart hægt að kalla eðlilegt.  Það væri gustuk af því ef einhver af ráðamönnum þjóðarinnar nýtti sér þekkingu þína en það væri sennilega til of mikils mælst af þeim.  Ef ekki væri fyrir blogg manna eins og þín og Ívars Páls þá væri ég endanlega kominn á þá skoðun að ílendingar séu heimskasta þjóð veraldar.  Við erum altént með alvitlausustu þingmennina.

Takk fyrir góðar og upplýsandi færslur á síðasta ári.

Þórður Magnússon (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 11:53

3 Smámynd: Hörður Þórðarson

"30. október: Það verður að segjast, að íslensku bankastjórarnir og bankaeigendurnir voru rosalega vondir í að reka banka."

Þetta hlýtur að vera "understatement of the year 2008".

Hörður Þórðarson, 2.1.2009 kl. 19:27

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þakka góðar undirtektir og óskir!

Hörður er sérstaklega boðinn velkominn í bloggheima.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.1.2009 kl. 19:42

5 identicon

Heill og sæll og gleðilegt nýtt ár

 Þetta er magnaður listi, enda af mörgu góðu að  taka, ef frá eru talin nokkur orð um innlimun Íslands í Stórríki gömlu nýlenduveldanna sem verður væntanlega aldrei.

Þetta trompar bæði Völvu vikunnar og Jón Gnarr á einu bretti:

  • 15. mars: Ég spái því að í stað krónu verði fiskibolludósir orðnar gjaldmiðill Íslendinga áður en árið er liðið. 

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 15:39

6 Smámynd: Karl Ólafsson

Gleðilegt ár 2009 sömuleiðis Vilhjálmur og þakka þér mjög svo málefnaleg skrif á árinu.

Þar sem ég hef verið dormandi á blogginu frá því nokkru fyrir hátíðarnar og náði því ekki að klára smávegis skoðanaskipti áður en frestur til athugasemda rann út þá leyfi ég mér hér að skjóta inn örsvari við síðustu athugasemd þína í færslu: http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/737235/

Málið er að síðasta svari mínu þar tók ég fram að rök mín væru full af 'ef' og öðrum opnum endum og vísaði ég í fyrri færslur mínar þar sem ég tala gegn verðtryggingunni. Í þeim færslum og öðrum athugasemdum mínum við blog annarra hef ég einmitt oftar en einu sinni tekið fram að ég telji að ekki verði unnt að afnema verðtryggingu af núgildandi lánasamningum. Þeir verða að renna út (greiðast upp), eða þeim verða menn að breyta eftir því sem efni standa til með samningum og/eða skuldbreytingum, eftir forsendum hvers samnings og aðstæðum hvers lánveitanda/lántaka.

Ég hef einmitt lagt áherslu á að framtíðarfjármálagjörningar verði óverðtryggðir (þegar lánamarkaður kemst í gang aftur) og markaðurinn verði látinn sjá um að vextir þrýstist niður á við, eins og eðlilegur markaður ætti að gera (ekki það að íslenski markaðurinn hafi nokkurn tímann verið eðlilegur).

Þetta þýðir það að það er engin 'björgun' falin í því fyrir t.d. menn eins og mig að verðtrygging verði afnumin, nema mér takist að breyta mínum lánum í óverðtryggð lán á einhverjum tímapunkti. Það er hins vegar langt í það, en það eina sem ég veit er að ég er ekki tilbúinn til þess að taka á mig fleiri verðtryggð lán á minni ævi. Ég hef fengið af þeim nóg á síðustu 27 árunum. Og það er ósk mín að börn mín geti lifað við heilbrigðan húsnæðismarkað án verðtryggingar þegar fram líða stundir. Ef við skiptum um gjaldmiðil opnast e.t.v. möguleiki á að skuldbreyta verðtryggðum lánum yfir í nýju myntina.

Að ósekju hefði þessi færsla þín sem ég vísa til hér að ofan mátt vera með í þessari upptalningu hér að ofan.

Karl Ólafsson, 5.1.2009 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband