21.12.2008 | 13:57
Um fullveldishugtakið
Í Fréttablaðinu í gær, laugardag, var ágætis ritgerð um fullveldishugtakið eftir Eirík Bergmann Einarsson. "Fullveldi" er eitt af þeim orðum sem slengt er fram í umræðu án þess að djúp hugsun liggi endilega að baki, og er alveg tímabært að rýna nánar í.
Hugtakið á uppruna í orðræðu frá þeim tíma þegar sjálfstæð þjóðríki urðu til, og þegar lýðræði færði þjóðum vald til að stjórna eigin málum. Hjá Íslendingum tengist orðið að sjálfsögðu 1. desember 1918 þegar þjóðin fékk forræði yfir landstjórninni þótt undir Danakonung heyrði. Þaðan bergmála enn jákvæð hugrenningatengsl.
Á 90 árum hefur hins vegar afar margt breyst í heiminum. Fyrirtæki, viðskipti og staðlar teygja sig yfir landamæri, umhverfismál eru hnattræn, fólk flytur óhikað milli landa til starfs og náms, verkalýðs- og kjarabarátta er alþjóðlegri en nokkru sinni, hugverk streyma heimshorna á milli yfir netið, og svo mætti áfram telja. Segja má að æ fleiri viðfangsefni séu þess eðlis að einstök lönd fái litlu um þau ráðið í sínu horni. Jafnframt eru það öllum til hagsbóta að þeim sé stjórnað með samræmdum hætti, annars verður hætta á siðbresti (moral hazard) þar sem sá sem skorast undan getur haft af því verulegan hag.
Í þessu ljósi verður að skoða merkingu fullveldis í nútímanum. Það er ekki endilega fólgið vald eða sjálfsvirðing í því að sitja einangraður úti í horni þegar fjölþjóðlegir og hnattrænir hagsmunir almennings eru í veði. Fullveldi getur alveg eins falist í því að eiga rödd og taka þátt í þróun stjórnmála frá áherslu á þjóðríki til áherslu á samþjóðleg viðfangsefni.
Sjálfur er ég svo mikill alþjóðasinni, og svo tortrygginn á þjóðríkis/þjóðernisáherslur (sbr. ógeðfelldar upphrópanir um "landráð"), að mér finnst þetta augljóst, en greinilega er ekki öllum þannig farið. Umræðan hefur verið of slagorðakennd, en ein leið út úr því er að skoða betur þýðingu orða á borð við "fullveldi".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.12.2008 kl. 22:33 | Facebook
Athugasemdir
Ísland varð sjálfstæð og fullvalda þjóð 1918 en ekki 1945 sem einhvernvegin hefur fest í hugum margra. Frá 1918 til 1945 erum við því fullvalda og sjálfstætt konungsríki með sameiginlegan þjóðhöfðingja með Danmörku, Færeyjum og Grænlandi á sama eða svipaðan hátt og t.d. Ástralía, Kanada, England og fleiri þjóðir hafa sameiginlegan þjóðhöfðingja. Hvað fengum við þá eiginlega 1945? Eða er raunin sú að við misstum eitthvað 1945 sem þjóðarsálin hefur óvitandi saknað síðan.
Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvort ekki við værum að öllu skoðuðu, sem lítið örríki með hverfandi lítið áhrifavald í alþjóðasamhengi, best borgið í ríkjasambandi með þeim þjóðum sem standa okkur næst bæði landfræðilega og hagsmunalega séð og kannski ekki minnst, ættfræðilega og sálarlega séð.
Ef maður nú leikur við þessa hugsun örlítið. Gæti maður ímyndað sér hagsmuni Íslands, t.d. í ESB mun sterkari í slíku ríkjasambandi? Gæti maður ímyndað sér að þróun, framleiðsla, iðnaður og virkjun hugvits yrði næstum sjálfkrafa sjálfbær í ljósi stærri innri markaðs, meiri slagkrafts og opinna á viðskiptabrauta sem standa á gömlum og traustum merg. Gæti maður ímyndað sér að okkar litla viðkvæma íslenska króna gætið þannig átt afturkvæmt sem nothæfur gjaldmiðill með sama gengi og dönsk króna?
Smá hugrenningar frá landráðamanni. ;-)
Thor Svensson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 01:05
Þetta átti að vera "...og opinna fyrirliggjandi viðskiptabrauta..."
Thor Svensson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 01:22
Ég bið forláts, þetta átti auðvitað að vera 1944.
Thor Svensson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 01:26
Ertu, Vilhjálmur, í alvöru að reyna að telja lesendum þínum trú um, að Eiríkur Bergmann, sá EBé-baráttumaður, geti skrifað "ágætis ritgerð um fullveldishugtakið"?!
Og hvernig dettur þér í hug að segja, að við séum "einangruð úti í horni" með því að vera ekki í EBé, þegar við erum bæði í viðskiptum og stjórnmálasambandi við meira en þrefalt fleiri ríki en um 1968? Og værum við ekki einangruð og lokuð frá tollfrelsissamningum við lönd eins og Kína, Japan og Indland, ef við létum innlimast í Evrópubandalagið?
Ég leit hér við í snarhasti; lít kannski á, hvernig þessi umræða þróast hjá þér á morgun. En öll skuldum við fullveldi þjóðar og lands hollustu og trúnað.
Jón Valur Jensson, 22.12.2008 kl. 03:42
Jón Valur. Hvað sérð þú oft minnst á ESB í grein Vilhálms? Ég sé það hvergi nefnt. Þarna er ekki verið að tala um ESB sérstaklega. Ég les út úr þessum pistli almenna hugleiðingu um alþjóðasamstarf og fjölþjóðasamstarf. Slíkt samstarf getru náð til alls heimsins og einnig verði svæðisbundið samstarf.
Heimurinn hefur minnkað og samskipti ríkja oriðn það mikil að það hvernig einstök ríki hefgða sér hefur áhrif á önnur ríki og því er nauðsyn á að settar séu reglur sem eru æðri fullveldi einstakra ríkja til að bæði samskipti og viðskipti geti gengið eðlilega fyrir sig. Gott dæmi um þetta eru reglur um mengun andrúmslofts og sjávar. Það er ekki hægt að þola það að einstök ríki skorist undan og haldi áfram að menga óhindrað sameiginlegt andrúmsloft og sameiginlegt haf allra jarðarbúa.
Þetta snýr einnig að mannréttindamálum. Ert þú þeirrar skoðunar að við eigum að virða meira rétt ríkja til fullveldis heldur en mannréttindi þegar einsakar einræðisstjórnir beita þegna sína grófum mannréttindabrotum?
Í dag eykst sá hugsunarháttur meðal ungs fólks í Evrópu að líta fyrst og fremst á sig, sem Evrópubúa fremur en sem íbúa tiltekins lands í Evrópu. Þetta fólk hikar ekki við að nýta sér það fjórfrelsi, sem ESB hefur skapað milli aðildarríkja sinna og flytur óhikað milli landa ef þeim býðst betri kjör í öðrulandi en það býr í. Þetta er einfaldlega útvíkkun á viðhorfi eins og því að við lítum fyrst á okkur, sem Íslendinga og síðan, sem íbúa tiltekinna sveitafélaga hér á landi. Þetta er eðlileg þróun í smækkuðum heimi.
Það að taka þátt í samstarfi við aðra með formlegum hætti í einhverjum samtökum þar, sem aðildarþjóðir taka á sig skuldbyndingar í formi þess að hlýta reglum samtakanna er ekki þess konar afsal á fullveldi, sem neinn skuldar hollustu við. Ef fullveldi er farið að standa í vegi fyrir efnahagslegum framförum og frelsi einstaklinganna þá er það einfaldlega fyrir í mannlegum samskiptum og þarf að endurskoða. Frelsi einstakoinganna er mikilvægara en fullveldi þjóða.
Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Sigurður M Grétarsson, 22.12.2008 kl. 09:31
Sæll Vilhjálmur.
Umræðan hefur verið of slagorðakennd, segir þú. Ég get tekið undir það. Fáeinum línum ofar skrifar þú um "að sitja einangraður úti í horni". Eru það svona slagorð sem þú átt við?
Hin meinta einangrun, sem felst í þátttöku Íslands í 59 alþjóðastofnunum, verður tæplega leyst með inngöngu í Evrópusambandið, ef það er það sem þú ert að ýja að með skrifum þínum.
Annars setti ég saman þessar vangaveltur um skrif Eiríks og hef engu við þær að bæta að sinni.
Haraldur Hansson, 22.12.2008 kl. 12:00
"Og hvernig dettur þér í hug að segja, að við séum "einangruð úti í horni" með því að vera ekki í EBé, þegar við erum bæði í viðskiptum og stjórnmálasambandi við meira en þrefalt fleiri ríki en um 1968? Og værum við ekki einangruð og lokuð frá tollfrelsissamningum við lönd eins og Kína, Japan og Indland, ef við létum innlimast í Evrópubandalagið?"
Heldur þú virkilega að Ísland geti gert fleiri tollfrelsissamningar við önnur ríki en ESB?
Egill M. Friðriksson, 22.12.2008 kl. 12:27
Já, Egill, ég tel a.m.k. að við getum gert slíka samninga við öflugustu ríkin utan vesturveldanna, m.a. Kína, Indland og Japan, sem EBé hreinlega getur ekki, vegna þess að iðngreinar bandalagsins o.fl. atvinnuvegir þar (og þar með öflugar ríkisstjórnir) myndu algerlega setja sig upp í móti slíku, þar sem ella myndi algert hrun blasa við þeim (t.d. skó- og fataframleiðendum).
En ef þér er alvara með afstöðu þína, ættirðu að drífa þig í utanríkisviðskiptaráðuneytið að sannfæra þá, sem þar vinna að tollfrelsissamningi við Kína, um að sú vinna verði til einskis, af því að við séum ekki þess megnug að gera slíkan samning. En fyrst geturðu æft þig í því að setja fram rökin fyrir því á þessari vefslóð.
Vera má þó, að Inbgibjörg Sólrún hafi sett þau tollfrelsisáform "á ís", af því að hana langar svo til að fórna fullveldinu fyrir EBé-innlimum, en tækist sú ætlun hennar, yrði slíkur tollfrelsissamningur að engu; við værum bara með sömu tollmúrana og Evrópubandalagið.
Jón Valur Jensson, 22.12.2008 kl. 15:27
Þakka Sigurði M. Grétarssyni athugasemdina, hún er eins og töluð úr mínu hjarta.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.12.2008 kl. 22:29
Sigurður M., rétt er, að Vilhjálmur minntist ekki á ESB í pistlinum, en maður skilur nú, áður en skellur í tönnum. Aðdáun V.Þ. á skrifum Eiríks B.E. kemur áreiðanlega ekki til af því, að hann sé ósammála Eiríki um að við ættum að láta innlimast í bandalag sem er 1560 sinnum stærra en íslenzka þjóðin og á eftir að verða ennþá stærra, ef svo fer, sem líklegt er vegna hrikalegs tímgunarleysis EBé-þjóða (og þar með vöntunar meira en 50 millj. manna á vinnumarkaði upp úr 2040), að þær neyðist til að taka Tyrkland einnig inn í bandalagið.
Að heimurinn hafi "minnkað" er engin röksemd fyrir EBé-innlimun (en er hins vegar röksemd fyrir tollfrelsissamningum OKKAR við Kína o.fl. lönd). Og hitt er heldur ekki rök fyrir EBé-innlimun, að við þurfum að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.
Sjálfur ætti Sigurður að hugsa út í hitt, að mjög stór meirihluti evrópskra NATO-þjóða tók afstöðu með innrásinni í Írak. Ef Ísland yrði meðlimur í bandalaginu og stefna stjórnarskrártillögunnar þar og síðar Lissabon-sáttmálans verður ofan á, þá verður stefnt að einni utanríkismálastefnu allra bandalagsþjóðanna og einn (yfir)utanríkisráðherra skipaður fyrir bandalagið. Er Sigurður svo viss um, að honum yrði stefnan, sem þar yrði efst á teningnum, að skapi? Minnist hann þess t.d., að EBé tók þátt í því að einangra Hamas-stjórnina á Gaza-svæðinu? (sem mér fannst reyndar ágætt mál, en Sigurði ekki!).
spyr Sigurður mig. Vitaskuld met ég fullveldi þjóðar meira en mannréttindi fárra einstaklinga – þó ekki þannig, að sú afstaða mín feli á neinn hátt í sér, að einræðisstjórnir megi beita þegna sína grófum mannréttindabrotum. Þar að auki er þetta ekki röksemd fyrir ninnlimun í EBé, ekki á nokkurn hátt.
Í næstu klausu innleggs síns gerist Sigurður væminn mjög í málflutningi, en er um leið á konkret hátt að taka undir stækkunarþróunina, sem svo mjög hefur verið í tízku, t.d. með sameiningu stórfyrirtækja og banka (með hörmulegum afleiðingum) og með sameiningu sveitarfélaga (með ömurlegum áhrifum, eins og hinn frábæri Þorkell Svarfdælingur gæti kennt Sigurði eitthvað meira um).
Við græðum ekkert á því að sameinast risabandalagi, þar sem við réðum ENGU, en bandalagið myndi taka til sín lögsögu yfir fiskveiðum okkar milli 12 og 200 mílna, auk þess að verða hér æðsta máttarorðið yfir allri okkar lagasetningu.
"Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér," segir Sigurður að lokum, en til hvers eru þá EBé-sinnar að reka fleyg á milli Íslendinga með þessum hrikalegu og afdrifaríku innlimunartillögum sínum og með því að keyra á að troða þessu í gegn á svo skömmum tíma, að þjóðin hafi vart tíma til að hugsa sig um? Svo sannarlega eykur það ekki þjóðareiningu, heldur tvístrar henni, og slík innlimun yrði aldrei fyrirgefin.
Jón Valur Jensson, 23.12.2008 kl. 01:21
Jón. Mér líkar ekki alltaf utanríkisstefna íslenskra stjórnvalda en verð að sætta mig við það að þeir, sem kosnir hafa verið til valda fari með þau mál. Auðvita hef ég meiri möguleika að beita mér hafa áhrif á utanríkisstefnu íslenskra stjórnvalda heldur en smeiginlegara stjórnvalda í ESB. Það er hins vegar meira í orði en á borði því hingað til hef ég ekki getað haft nein áhrif á stefnu íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum og ekki einu sinn eftir að sá stjórnmálaflokkur, sem ég er virkur félagi í, hefur fengið utanríkisráðuneytið. Eflaust á mér í framtíðinni eftir að mislíka margt í utanríkisstefnu ESB rétt eins og mér hefur mislíkað margt í utanríkisstefnu Íslands.
Það er hluti af frelsi einstaklinga að geta valið sér hvaða stað, sem er til búsetu og vinnu. Landamæri, sem takmarka frelsi fólks til að flytjast milli staða og/eða ráða sig í vinnu hinum megin landamæranna eru því frelsiskerðing. Ég met slíkt frelsi fólks meira en fullveldi einstakra ríkja. Ég tel því að ef hægt er að auka slíkt frelsi þó það feli í sér ákveðið afsal fullveldis ríkisins þá sé rétt að gera það.
Það er einnig hluti af frelsi fólks að geta keypt vörur af hvaða framleiðands, sem er án þess að þurfa að sæta innflutningshöftum eða tollum. ESB aðild eykur slíkt frelsi Íslendinga hvað varðar viðskitpi við framleiðendur í öðrum ESB ríkjum. Það er hins vegar alveg rétt hjá þér að það er ein tollastefna hjá ESB hvað varðar ríki utan bandalagsins og þannig er ESB með ákveðna haftastefnu gagnvart ESB ríkjum hvað varðar fríverslun við lönd utan bandalagsins. Hins vegar er ESB með marga samninga við ríki utan bandalagsins og það meira að segja fleiri ríki en Ísland.
Þeir fara sér reyndar hægt þessa stundina og held ég að það sé vegna mikillar stækkunar bandalagsins. Því hafa EFTA ríkin verið fyrri til að gera samninga við ákveðin ríki en ESB síðustu ár. Þessu var hins vegar öfugt farið hér áður fyrr og er ekkert, sem segir að svo geti ekki verið aftur.
Það er alveg rétt að stærri einingar hafa bæði kosti og galla. Það á bæði við um ríkjasamvinnu og sameiningu sveitafélaga. Hins vegar hafa sameiningar sveitafélaga í heildina verið til heilla fyrir íbúa þeirram þó vissulega séu á því eihverjar skuggahliðar. Andstæðingar slíkra sameininga eins og Þorkell Svarfdælingur kjósa einfaldlega að einblína á gallana, sem þeim hættir þar að auki til að ýkja. Þeir mega gera það í friði en það er engin ástæða til að láta slíkar úrtöluraddir standa í vegi framfara.
Ef Tyrkir bæta mannréttindamál hjá sér og meðal annars afnema dauðarefsingar þá sé ég ekkert að því að þeir gangi í ESB. Þeir eiga hins vegar langt í land enþá í því efni til að geta talist gjaldgengir meðal ESB þjóða. Tyrkir eru hins vegar ekki verra fólk en við. Ef menn sjá ástæðu til að fjölga ESB ríkisborgurum er líka hægt að slaka á innflytjendareglum. Það er fullt af harðduglegu fólki, sem hefur áhuga á að búa í ESB löndunum.
Sigurður M Grétarsson, 23.12.2008 kl. 09:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.