Verðtryggingin er blóraböggull

Um þessar mundir fer mikil umræðuorka í að deila á verðtrygginguna.  Að mínu mati eru menn þar á villigötum.

Hið raunverulega vandamál er krónan; verðtryggingin er sjúkdómseinkenni en ekki sjúkdómurinn sjálfur.

Það er einföld Hagfræði 101 að enginn lánar peninga, ótilneyddur, nema sjá fram á að fá þá til baka.  Með það í huga má líta á valkostina í stöðunni.

  • Lán geta verið óverðtryggð með breytilegum vöxtum.  Þá fylgja vextir stýrivöxtum Seðlabankans hverju sinni, með álagi. Á slíkum lánum væru vextir í dag á bilinu 22-24%.  Mánaðarleg vaxtabyrði af 15 mkr húsnæðisláni væri sirka 300 þúsund, plús afborgun af höfuðstól, þannig að greiðslubyrði væri vel á fjórða hundrað þúsunda.  Ég held að fáir myndu vilja þá stöðu í stað þeirrar sem nú er uppi.
  • Lán geta verið óverðtryggð með föstum vöxtum, en þeir vextir yrðu mjög háir vegna verðbólguáhættu.  Fastir vextir af 10 ára ríkisbréfum hafa lengst af verið í kring um 11% og því má ætla að fastir vextir af húsnæðislánum væru a.m.k. 15-17%, í gegn um þykkt og þunnt, og enn hærri af lengri lánum, enda áhættan meiri.  Markaðsvirði (mark-to-market) þessara lána yrði mjög sveiflukennt og því erfitt að lána hátt hlutfall af matsverði fasteignar.
  • Og loks geta lán verið verðtryggð með jafngreiðslufyrirkomulagi (annuitet) eins og íslensk húsnæðislán eru yfirleitt.  Raunvextir eru fastir til langs tíma og eins lágir og þeir geta orðið, þar sem áhætta lánveitandans er minnst og áhættuálag því lægst.  Greiðslubyrði er jöfn, miklu jafnari en af lánum með breytilegum vöxtum. Verðtryggingin innifelur vörn gegn gengisáhættu og því eru erlendir fjárfestar tilbúnari að leggja fé í þessi bréf, enda eiga þeir vænan hluta af þeim 625 milljörðum sem Íbúðalánasjóður skuldar í verðtryggðum bréfum.  Ég fullyrði að þetta fyrirkomulag er það langbesta sem í boði er, ef haldið er í krónuna á annað borð.

Að þessu sögðu, blasir við að verðbólgan er mörgum mjög erfið um þessar mundir.  En verðbólgan er krónunni að kenna (og misheppnaðri peningamálastjórn Seðlabankans).  Krónan er örmynt sem hoppar og skoppar eftir straumum hins alþjóðlega fjármálamarkaðar.  Því mun alltaf fylgja aukaáhætta að eiga eða skulda krónur og þar af leiðandi hærri vextir en í öðrum myntum.  Verðtrygging verður áfram nauðsynleg til þess að nokkur fáist til að lána krónur til langs tíma.  Þetta er (því miður) óumflýjanleg staðreynd.

Lausnin er ekki að afnema verðtrygginguna, heldur krónuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Horfðu á Evrópu með gaumgæfni.

ÞAr eru meðal tölur í verðbólgu, ef litðið er áratugi svona 4 aftr í tímann um 6% og ATVINNULEYSI um 9%

Okkar Verðtrygging er ekkert annað en þjófnaður, þar sem ekki fást LAUN í sama gjaldmiðli þ.e. Verðtryggðum krónum.

ÞEtta verða menn að skilja o taka afstöðu út frá því.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 7.12.2008 kl. 15:04

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Verðbólgan er blóraböggull, vissulega. Ef alltaf ríkti jafnvægi og stöðugleiki væri hún bara fín. Það má ekki líta framhjá því að það sem veldur núverandi ástandi og kemur illa við fólk er fyrst og fremst mannanna verk.

Hin mikla loftbóla sem þandi bæði krónu og fasteignaverð varð ekki til af sjálfu sér. Það sem lemur fólk er að fasteignaverð fer niður og verðbólgan upp, vegna þess að bólan sprakk. Þó að smæð krónunnar hafi gefið vondum mönnum færi á að leika sér með hana breytir það ekki gjörðum þeirra.

Þó að þessi færsla um krónuna sé á léttu nótunum þarf líka að huga að því að menn geti ekki leikið sér að henni, því það er ekki víst að við eigum kost á öðrum gjaldmiðli næstu árin.

Haraldur Hansson, 7.12.2008 kl. 15:18

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jú, Bjarni, til lengdar hækka laun í takti við verðlag, og reyndar rúmlega það ef kaupmáttur eykst með hagvexti.  Laun eru undir niðri verðtryggð, þótt vissulega geti myndast tímabundið misræmi, í báðar áttir.  Skoðaðu sjálfur tölurnar með gaumgæfni, til dæmis á vef Hagstofunnar og Seðlabankans, þá sérðu að launavísitala hækkar meira en neysluverðsvísitala, til langs tíma.

"Verðtryggingin er þjófnaður" er dæmi um rakalaus gífuryrði sem menn vaða uppi með í umræðunni.  Væri þá lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum, nú a.m.k. 24%, ekki þjófnaður?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.12.2008 kl. 15:25

4 identicon

Skv. rannsóknum m.a. Ragnars Árnasonar hagfræðiprofessors hefur raunvaxtamunur á millli Íslands og EU landa og US verið 1-2% yfir löng tímabil.  Ef evran er tekin upp þá hverfur geta til seðlaprentunar á Íslandi og minnkar því getu til að bregðast við áföllum.  Það eykur aftur áhættu fjárfesta að lána til íslenskra aðila sem aftur eykur vaxtaálag á Ísland - þ.e. ef við erum með t.d. evru.  Síðan eru vissulega kostir við upptöku annarra mynta en aðalatriðið er að það eru bæði kostir og gallar.  Ég myndi því vilja bæta við niðurstöðu Vilhjálms: Lausnin er að henda krónuninni EÐA tryggja faglega peningamálastjórnun. 

Jón Helgi (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 16:49

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég nákvæmlega í hópi þeirra fyrstu sem hef borgað öll lán með verðtryggingu. Það byrjaði árið 1977. Örítið eldri lántökur hjá fólki gufuðu hreinlega upp á tíma þar sem verðbólga fór t.d. í 130% árið 1983. Hver hefði viljað lána án verðtrygginga á þeim tíma?

Ég er ósammála því að krónan sé sökudólgurinn. Hún er fórnarlamb vondrar peningastjórnar, óráðsíu og almenns dómgreindarleysis ráða- og fjármálamanna.

Það er búið að ljúga því að þjóðinni alltof lengi að íslenska krónan sé minnsti gjaldmiðill í heimi, hann er það ekki. Það eru fleiri litlir gjaldmiðlar í notkun víðar í heiminum sem ganga og þar ræðst gengi þeirra af því hvernig þeir eru notaðir.

Ekki skulum við efast lengur eitt augnablik að Ísland á nú örugglega heimsmet í fjármálalegri heimsku og það er því óþarfi að kenna krónunni um að vera eitthvert sérstakt vandamál. Hún er bara ónýt vegna misnotkunar, reynt var að nota hana sem teskeið meðal verkfæra þegar þörf var á skurðgröfu.

Haukur Nikulásson, 7.12.2008 kl. 16:55

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hagfræðingurinn Benn Steil hjá Council on Foreign Relations (sem er mjög þekktur þankatankur) skrifaði grein í Foreign Affairs í maí 2007 þar sem hann færir rök fyrir því að litlir þjóðargjaldmiðlar séu búnir að vera.  Ég held að ýmsir stærri gjaldmiðlar séu hugsanlega líka búnir að vera, til dæmis er pundið í vandræðum núna og líka sænska krónan.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.12.2008 kl. 18:25

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég man vel eftir ástandinu 1983 þegar vísitalan hækkaði um 103% milli ára frá ágúst 1982 til ágúst 1983. Í febrúar-mars '83 var verðbólguhraðinn 225%!  Sjá hér á Vísindavefnum.  Á þessum tíma töpuðu margir stórum hluta sparnaðar síns.


Ég var þá tiltölulega nýbúinn að taka óverðtryggt lífeyrissjóðslán. Ekki man ég hvað vaxtaprósentan fór hæst þessi árin, en ég þykist muna að það hafi farið 2-3 mánaðalaun í að borga af láninu. Vaxtaprósentan hefur skipt allmörgum tugum.  Sem betur fer var nýbúið að taka upp verðtryggð lán og breytti ég mínu óverðtryggða láni í verðtryggt. Það var mikill léttir.

Ágúst H Bjarnason, 7.12.2008 kl. 18:52

8 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég hef verið andstæðingur verðtryggingarinnar vegna þess að hún hefur ekki haft þroskandi og stefnumótandi áhrif á efnahagsstjórnunina. Auðvitað er ekki "verðtryggingin" eða hvaða form vaxta menn vilja taka sér ástæða verðbólgu. Hún kemur heldur ekki í veg fyrir hana.

Þegar hún var þarflaus fyrir áratug eða svo fannst engum tímabært að losa sig við hana. Þetta var átakalaus leið til ávöxtunar lífeyris t.d. á meðan eignir voru á móti til að standa undir lánunum. Núna eru þessar eignir á móti láni helmingaðar amk. Hvernig eiga þær þá að réttlæta "viðhaldi" höfuðstóls á lélega fjárfestu fé? Það er ekki hægt. Verðbótaþátturinn virkar þá einsog bóla og hlýtur að springa.

Ef menn trúa því að krónan sé gjaldmiðill til framtíðar þá munu margir verða vonsviknir næstu tvö árin a.m.k. Fæstir hafa efni á að bíða svo lengi með verðlausar eignir og borga af þeim vexti og verðbætur. Því er efnahagsstjórn undirstaða velferðar en ekki verðtrygging. Rökleysa er að halda það að mælitæki geti t.d. hitamælir getir stjórnað því hvernig hitinn er úti? En ef menn til dæmis tengja laun sín við frosttölur og afborganir lána við hitatölur þá fáum við áhrif "verðtryggingar" séð í því ljósi.

Það á ekki að tryggja neitt nema sem ávísun á raunveruleg verðmæti. Ef veð lækkar vegna verðfalls er augljóst að verðtrygginarákvæðin verða að víkja með tilheyrandi efnahagslegu áfalli lánadrottna þó að það séu þú og ég, gamla fólkið og hvers sem er. Þessa skekkju þarf að leiðrétta því fyrr því betra (verra). Nýr gjaldmiðill er eina leiðin.

Gísli Ingvarsson, 7.12.2008 kl. 20:37

9 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Tek undir með Gísla.   Held reyndar að forsendur fyrir frystingu vísitölu neysluverðs til verðtryggingar - til ársloka 2009 - sé nægilega langur tími til að sitjandi stjórnvöld eða ný ríkisstjórn komi okkur endanlega út úr handónýtri ör-krónu.

Auðvitað er það hið óstöðuga eðli okkar litla hagkerfis - með alltof mikilli duttlungastjórnun og yfirgangi fjáraflamanna.   Spekúlantarnir hafa í gegn um tíðina getað stjórnað alltof mörgum pólitíkusum; - haft þá í vasanum.   Efnahagsmálum hefur alltof oft verið stjórnað með svokallað sértæka hagsmuni í huga.   Lengi vel sjávarútvegsins, síðan stóriðjunnar, og síðast en ekki síst peningaaflanna og græðgisvæðingarinnar.   Við sjáum til hvers þetta hefur leitt. Bíð eftir því að forystumenn Viðskiptaráðs og öfgahópanna biðjist afsökunar á trúboði sínu, rétt eins og gömlu kommarnir í Sovét-löndunum urðu að lokum að gera.   Öfgar græðginnar og átrúnaður á "loftbóluhagkerfið" (líkt og ENRON) - í bland við hagsmunatengd og veiklunduð stjórnvöld - hafa leitt til hruns á því efnahagskerfi sem áður var lýst sem "íslenska undrinu" . . . .

Í jafnvægisástandi geta flestir lifað við verðtryggðu krónuna; - en alls ekki þegar hrunið krefst þess að við förum öll í gegn um "eignaleiðréttingu" . . .

Benedikt Sigurðarson, 7.12.2008 kl. 21:22

10 Smámynd: Kári Harðarson

Hér í Frakklandi er ég með plastmöppu sem verður notuð í heimferðinni 3.janúar.  Í möppunni eru annars vegar íslenskar krónur sem hafa rýrnað verulega síðan þær voru settar í möppuna, og hins vegar klippikort í sund í Reykjavík.  Klippikortið hefur staðið sig miklu betur en krónan því ég kemst ennþá í sund út á eitt klipp (og hlakka mikið til). 

Klippikortið er dæmi um íslenskan örgjaldmiðil sem hefur haldið verðgildi sínu.

Kári Harðarson, 7.12.2008 kl. 22:10

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Benedikt, þú ert sem sé að tala um að taka 100-150 milljarða frá þeim sem eiga verðtryggðar eignir (lífeyrissjóðir, bankar, og fjárfestar innlendir og erlendir) og færa til þeirra sem skulda verðtryggt?  (Talan er byggð á 700-800 milljörðum a.m.k. í útistandandi verðtryggðum eignum margfölduð með 15-20% verðbólgu frá frystingardegi til affrystingardags.)  Ætlarðu að bæta eigendunum þetta upp með einhverjum hætti, t.d. úr ríkissjóði (frá skattborgurum)?  Eða ertu í raun að segja að taka eigi peninga úr lífeyrissjóðum og greiða þeim sem eru á besta aldri?

Menn verða að tala skýrt um svona hugmyndir, og nefna tölur og eitthvað sem gengur upp, ekki fara bara yfir í orðskrúð og frasa.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.12.2008 kl. 22:23

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Kári, "you are on to something".  Kannski verður niðurstaðan af heimskreppunni sú að gjaldmiðlar sem byggjast á engu nema trú ("fiat currencies") leggist af, en í staðinn komi einhvers konar netvæddar ávísanir á vöru og þjónustu, með undirliggjandi vöruskiptagagnagrunni?  Þ.e. nútíma útgáfa af gullfæti?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.12.2008 kl. 22:25

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góð ábending hjá Gísla. Ef veð á bak við lán rýrnar, ætti ekki verðgildi lánsins að rýrna? Peningar eru ekki verðmæti, þeir eru ávísun á verðmæti. Ef þau verðmæti sem eru á bak við peningana rýrna hvernig ættu peningarnir að halda fyrra verðgildi sínu?

Eina leiðin til að bæta lánveitandanum tapið er þá peningaprentun. Við vitum hvert hún leiðir okkur.

Eru gjaldmiðlar yfirhöfuð nokkuð annað en trúin á þeim, hvort sem þeir kallast peningar, gull, fasteignir, olía eða eitthvað annað? En þetta er áhugaverð tillaga hjá Vilhjálmi.

Theódór Norðkvist, 7.12.2008 kl. 23:04

14 Smámynd: Jón Magnússon

Vilhjálmur við erum sammála um að það er nauðsynlegt að vera með alvöru gjaldmiðil. Það er forgangsverkefni. En miðað við þær óvenjulegu aðstæður sem eru í dag þá verður að taka verðtrygginguna úr sambandi. Getur þú ekki séð fram á að það geti verið eðlilegt að hafa vaxtamun sem er örlítið hærri en verðbólgan. Á það ekki að duga? Ég hef aldrei skilið þessa ofsatrú á verðtryggingunni.

En verðtryggingin er óneitanlega hækja ónýts gjaldmiðils. Væri gjaldmiðillinn í lagi þá væri engin ástæða til að hafa verðtryggingu.

En hefur þú aðgætt eitt Vilhjálmur. Á meðan krónan hækkaði og hækkaði og varð sterkasti gjaldmiðill í Evrópu þá hækkaði verðtryggingin samt.  Sérkennilegt. Nei það er nefnilega vitlaust gefið í kerfinu vegna þess að verðtryggingarkerfið gerir ekki ráð fyrir að neytendur hagi sér skynsamlega. Þess vegna er alltaf vitlaust gefið í kerfinu.

Jón Magnússon, 8.12.2008 kl. 00:26

15 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Færslan þín Vilhjálmur er hrein snilld og útskýrir svo vel hvernig í þessu liggur. Þeir sem vilja verðtrygginguna burt eru um leið að segja við viljum krónuna burt. Við höfum í 31 ár greitt skatt til lánastofnana vegna þess að við erum með svo veikan gjaldmiðil að það er ekki þorandi á nota hann í viðskiptum án þessarar skattlagningar. Fólk er reitt yfir því sem er að gerast þessa stundina. Ég er reið yfir því að hafa verið látin greiða þennan krónuskatt í svona mörg ár og afar reið yfir því að hafa þurft að óþörfu að geriða þennan skatt sl. 10 ár. Við hefðum á þeim tíma fyrir ca 10 árum átt að vera um það bil að taka upp evruna og verið komin inn í ESB.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.12.2008 kl. 02:38

16 identicon

Þú gleymir nokkrum puntkum Vilhjálmur í þessari umræðu.  Verðtryggingin er alltaf bull og fyrir því er nokkrar mjög tryggar ástæður.

1.  Verðtrygging skapar vaxtagrunn á stórum hluta lána sem er ekki í neinu samkvæmi við markaðsvexti.  Þetta hefur nokkur áhrif í för með sér. Fólk sem á ekki endilega fyrir t.d. íbúðarhúsnæði kaupir sér þar sem afborganir eru svo "lágar", það tæki sem seðlabanki hefur sem kallast stýrivextir verða að bitlausu vopni og sveigjanleiki fjármálamarkaða verður mjög lítill.

2.  Verðtrygging skapar verðbólgu og óstöðugleika.  Gefum okkur í dag séu verðtryggðar skuldir þjóðarbúsins (einstaklinga og fyrirtækja) alls 1400 milljarðar.  Við hver 20% verðbólgu "prentast" 280 milljarðar af nýjum peningum inn í hagkerfið sem fellir gjaldmiðilinn.  Þetta væri ekkert mál undir hefðbundnum kringumstæðum þar sem gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja myndu taka þessa peninga út af markaðinum aftur sem tapaðar kröfur en þetta eru ekki venjulegar aðstæðr þar sem ríkið tryggir þetta allt saman núna.   Að öðru lagi skapar þetta verðbólgu þar sem lögaðillar með verðtryggðar skuldir hækka verð fyrir sínar vörur og þjónustu til að dekka þessar skuldir.  Ég hef ekki séð rannsókn um áhrif víxlverkunar verðtrygginar og verðbólgu hér á landi þar sem við erum í því einstaka ástandi að útistandandi verðtryggð lán við lögaðilla eru orðin töluvert hærri en VLF þannig að 20% verðbólga skapar nýja peninga upp á 33% af VLF.

3.  Þegar mikil verðbólga ríkir í umhverfi þar sem möguleikar á verðtryggði ávöxtun fjármagns eru nánast endalausir sogar það fjármagn af markaði sem gerir fyrirtækjum verulega erfitt að laða til sín fjármagn (nema í formi gríðarlega erfiðra verðtryggða lána).  Í eðlilegu hagkerfi þar sem verðbólga skellur á fjárfesta menn frekar í fyrirtækjum þar sem það er það næsta við verðtryggða ávöxtun, m.ö.o. aukið eigið fé fer inn í fyrirtækin á móti dýru lánsfé.

4.  Ástæðan fyrir því að við Íslendingar erum í þessu rugli sem við erum í núna er gríðarlega hátt stig skuldsetningar fyrirtækja og einstaklinga í erlendri mynt.  Það að erlend lán hafi verið valin er eðlilegt þar sem græðgin í Íslenskum fjármagnseigendum hefur verið svo svakanleg undanfarin 20 ár og vaxtastig svo algerlega út úr korti (fáránlega hátt vaxtastig VS verðtrygging) að þegar opnaðist á erlendu lánin var það spítt pilla, kókaín sniff og heroínsprauta allt á einu bretti og fólk stökk á alla þessa "fríu" peninga.  Ef vaxtaumhverfi og stjórnun peningamála hefði verið með eðlilegum hætti hefði þetta aldrei gerst svona.

5. Verðtrygging skapar kennitöluflakk.  T.d. þegar fasteignaverð lækkar um 40% er hægt að leiðrétta það í verðbólgu.  Ef við tökum ameríska kerfið sem dæmi að einstaklingur sem keypti sér hús 2007 þar í landi á 500.þús$ og tók 400.þús$ lán og stendur í dag í þeim sporum að húsið er 280.þús$ virði og lánið stendur enn í 400.þús$ þá á hann sénsinn á því að borga af láninu og miðað við stöðuga verðbólgu upp á 3-6% ætti hann að vera kominn aftur í plús í kringum 2015 þannig að það er von til framtíðar (setur sig ekki í gjaldþrot og heldur áfram að borga).  Ef við setjum upp sama dæmið hér á Íslandi er þessi sami einstaklingur með sitt verðtryggða lán kominn í viðvarandi mínus þar sem þegar fasteignaverð hækkar aftur hefur það áhrif á útreikning vísitölunnar til hækkunar.  M.V. að spá seðlabankans standist er einstaklingurinn kominn í plús árið 2031 og er að borga 40% yfir leiguverði á markaði af sinni eign út lánstímann.  Þetta er eitthvað sem kallar á kennitöluflakk.

Sigurður Hermannsson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 04:21

17 identicon

Stærstur hluti útlána bankanna er búinn til úr engu. Ef efnahagsreikningur Kaupþings fyrir mitt ár 2008 er skoðaður kemur í ljós peningamargfaldari í kringum 10. Á bak við þessi útlán eru engir peningar sem þarf að verðtryggja. Verðtryggingin er fyrst og fremst tekjutrygging fyrir bankana, svo að vaxtagreiðslurnar, þeirra lifibrauð, hækki í takt við verðlag.

Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 09:28

18 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sammála því að verðtryggingin er sjúkdómseinkennið en ósammála því að verðtryggð annuitetslán séu besta fyrirkomulagið. Held jafnvel að það sé stórskaðlegt.

Ef bara væru í boði íbúðarlán með breytilegum vöxtum væri íbúðarverð auðvitað ekki jafn hátt og það er (var). Það að fá að fresta afborgunum og stórum hluta vaxtagreiðslna af húsnæðinu (annuitet kerfið) þrýstir verði á fasteignum mikið upp.

Þetta VISA rað fyrirkomulag að fá hlutina strax en borga þá seinna hefur líklega átt hvað mestan þátt í að draga tennurnar úr stýrivaxtatækinu. Það hefði þó aldrei verið nóg að banna verðtryggð lán til að gera fólk meðvitað um kostnaðinn - fólk hefði þá bara tekið erlend lán í mun meiri mæli.

Allt ber að sama brunni - krónan er ónýtur gjaldmiðill.

Dofri Hermannsson, 8.12.2008 kl. 09:55

19 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Akkúrat, Sigurður og Dofri - ég get tekið undir flest í greiningunni, en það breytir ekki niðurstöðu minni.  Helstu rökin gegn verðtryggðum húsnæðislánum eru að mínu mati þau að stýrivextir Seðlabanka bíta mjög lítið á þau, og þeir eru því ekki jafn sterkt stjórntæki og stýrivextir eru í öðrum löndum.  En það er líka rétt að Íslendingar hefðu væntanlega leitað enn frekar í erlend húsnæðislán í stað innlendra ef verðtryggðu lánin væru ekki í boði.  Og af tvennu illu er þó betra að þjóðarbúið skuldi verðtryggða krónu en erlenda gjaldmiðla.

Allt leiðir að þeim brunni að peningamálastefna Seðlabankans var arfavond og virtist reyndar helst eiga að þjóna krónubréfaeigendum, fremur en innlenda hagkerfinu.  (Dofri, það er athyglisvert að skoða hvaða þátt stóriðjuframkvæmdirnar áttu í því að byggja upp ójafnvægið og koma atburðarásinni af stað.)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.12.2008 kl. 12:17

20 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jón, ég skil ekki muninn á "vaxtamun sem er örlítið hærri en verðbólgan" og verðtryggingu.  Og ástæðan fyrir því að vísitalan hækkaði í góðærinu, meðan krónan styrktist, var innflæði peninga erlendis frá vegna vaxtamunarviðskipta og lántöku Íslendinga erlendis.  Þessi gríðarlega aukning peningamagns í umferð (sjá fyrri bloggfærslu mína) var mjög þenslu- og verðbólguhvetjandi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.12.2008 kl. 12:21

21 Smámynd: Ólafur Als

Má vera að eitt skorti í umræðuna hér - svona tæknilegt atriði sem vert er að hafa í huga?

Sá vísitölugrunnur sem lagður er til grundvallar á hverjum tíma er kominn til ára sinna. Mér skilst að innan skamms eigi að skipta núverandi grunni út fyrir nýrri - sem tekinn var saman á meðan "góðærið" var sem mest (ég held að stuðst verði við 2005-2007). Undir venjulegum kringumstæðum er þetta gott og gilt, þ.e. ef efnahagssveiflur eru ekki miklar. Nú horfir svo við að stór hluti þjóðarinnar hefur neyðst til þess að breyta neyslumynstri sínu og þar af leiðir er vísitölugrunnurinn kolrangur. Hann mun halda áfram að mæla verðbólgu lúxusvarnings sem hefur allt of stórt vægi í útreikningum opinberra gagna en vegur æ minna í raunverulegum kaupum fólks. Ekki er óvarlegt að ætla að verðbólgan sé í raun nokkuð minni en núverandi - og verðandi - vísitölugrunnur sýnir.

Hvernig væri nú að hendast í að laga þetta? Hvert prósentustig verðbólgu kostar skuldunauta húsnæðislána nokkra milljarða - hvert prósentustig 20 m. kr láns kostar 200 þ. kr. Það getur því munað um minna að færa vísitölugrunninn nær raunveruleikanum.

Ólafur Als, 8.12.2008 kl. 12:34

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Á ekki að verðtryggja laun líka? Eiga þau að vera berskjölduð fyrir þessari óútreiknanlegu krónu?

Theódór Norðkvist, 8.12.2008 kl. 13:31

23 identicon

Tja nú verð ég aðeins að fá að leggja mitt input í þetta.

Hvað er króna?  Það er í raun mælieining.  Hún mælir hvað hlutir kosta ekki satt.  Hversu gáfuleg mælieining það er hverju sinni.  Hún er hinsvegar viljalaust verkfæri, s.b.r. málband eða mælikönnu.  Sá veldur er á heldur.   Hver heldur á krónunni og stýrir henni?  Jú stjórnmálamaður.  Og hvað gerir stjórnmálamaður? Hann eyðir peningum og leggur á skatta.  Það orskar svo verðbólgu. 

Þið verðið að átta ykkur á því að Krónan veldur ekki verðbólgu.  Það er hin mannlega heðgun okkar og stjórnmálamanna sem veldur verðbólgu.    Krónan gerir það ekki.  Árið 1996 var ágætt að hafa eigin gjaldmiðil og stýra honum með einhverskonar hókus pókus aðferðum. 

Stjórnmálamenn tóku svo upp þessa mögnuðu verðtryggingu og hún er að verða að náttúrulögmáli, eins og söluskattur, sem heitir að vísu í dag virðisaukaskattur.  Þröngur hagsmunahópur er hlyntur verðtryggingunni og stýrir stjórnmálamönnunum til þess að afnema hana ekki þrátt fyrir kæfandi mótmæli skuldara á Íslandi.  Um það fjallar hagfræði hagsmunahópa sem er önnur hagfræði en peningahagfræði. 

Þannig að til að svara spurningunni, krónan er mælieining. Hún er viljalaust verkfæri sem stjórnmálamenn stýra.  Hún er ekki orsök verðtryggingarinnar, verðbólgunnar eða falls bankanna.  Stjórnmálamenn eiga sök á verðtryggingunni, neytendur og stjórnmálamenn eiga sök á verðbólgunni og glórulausir ævintýramenn sem störfuðu í skjóli sofandi stjórnmálamanna eiga sök á falli bankana.

Árni (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 23:58

24 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég kem seint inn í umræðuna hér þ.a. það er svo sem búið að segja hér flest það sem ég held að skipti máli í umræðunni. Menn eru og verða ósammála um kosti og galla verðtryggingarinnar alveg eins og menn eru og verða ósammála um hvort a) sækja eigi um aðild að ESB og b) taka eigi upp Evruna, hvort heldur er einhliða eða tvíhliða.

Hér hefur verið komið inn á flesta punkta sem skipta máli í umræðunni að ég held, þ.a. ég hef svo sem ekki miklu við að bæta öðru en að leggja nafn mitt á vogarskálar með þeim sem eru á því að afnema beri verðtrygginguna til allrar framtíðar og eins og Benedikt bendir á hér að ofan:
("Í jafnvægisástandi geta flestir lifað við verðtryggðu krónuna; - en alls ekki þegar hrunið krefst þess að við förum öll í gegn um "eignaleiðréttingu" . . . ")
er ákveðinnar leiðréttingar þörf í þeim eignabruna sem orðið hefur á alla enda og kanta nema í verðtryggðum skuldum.

Síðuhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að afnema beri krónuna:
"Lausnin er ekki að afnema verðtrygginguna, heldur krónuna."
Með þessu reikna ég með að síðuhöfundur geri ráð fyrir að verðtryggingin verði afnumin með krónunni, því öðruvísi verðum við ekki betur sett með nýjan gjaldmiðil og höldum bara áfram í vítahring verðbólgu sem kynt er undir með verðtryggingunni.

Skoðanir mínar á verðtryggingunni eru annars aðgengilegar í nokkrum nýlegum færslum á vefsíðu minni. Ég hef ekki séð rök með verðtryggingu sem fá mig til að breyta minni skoðun enn og ég hafna algerlega veikum rökstuðningi lífeyrissjóðanna fyrir því að þeir verði að fá að viðhalda verðtryggingunni.

Karl Ólafsson, 11.12.2008 kl. 00:52

25 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

En hvað viltu þá í staðinn, Karl?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.12.2008 kl. 13:37

26 identicon

Hugmynd Gísla og Theodórs um að lánveitandi taki á sig

tap ef veðið rýrnar er óneitanlega frjó. Hvernig sjáið þið fyrir

ykkur ráðstöfun gróðans sem verður ef veðið hækkar í verði? 

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 01:46

27 Smámynd: Karl Ólafsson

Afsakið Vilhjálmur, ég sleppti augunum af þessari færslu í nokkra daga, svo hér kemur síðbúið svar.

Hvað vil ég í staðinn (fyrir verðtryggingu geri ég ráð fyrir að átt sé við)? Svarið er í raun afar einfalt,  en þó flókið og fullt af ef-um og öðrum fyrirvörum, þ.a. það er ekki auðvelt að koma því fyrir í nokkrum orðum.

Ég vil að allir framtíðarfjármálagjörningar verði óverðtryggðir.
Ég vil að stefnt verði að því að stöðugleikamarkmiði Maastricht verði náð svo að þjóðin hafi val um að ganga í EMU myntbandalagið.
Ég vil að tekinn verði upp einhliða (helst þó með velvilja viðkomandi seðlabanka/yfirvalda) nýr gjaldmiðill hið fyrsta.
Ég vil sjá meiri fjölbreytni í fjármögnunarleiðum húsnæðis t.d. sambærileg kjör, viðmiðanir og fjármögnunarleiðir eins og það sem býðst í Bretlandi.

Ég geri mér grein fyrir því að afnám verðtryggingar þýðir í núverandi umhverfi 20+ % vextir, sem er að sjálfsögðu óásættanlegt. Enginn getur tekið lán á þeim kjörum, en það getur heldur enginn tekið lán á þeim kjörum verðtryggðum, þ.e. t.d. 7% vöxtum og 13-20% hækkun höfuðstóls á einu ári. Þess vegna tel ég að eftirspurn eftir lánum á þessum kjörum yrði lítil og markaðurinn ætti að sjá til þess að þetta vaxtastig lækkaði hratt. Sömuleiðis hlytu stýrivextir að byrja að virka eins og þeim er ætlað mjög hratt, sem aftur ætti að leiða af sér hraða lækkun þeirra. Þetta hef ég reynt að setja fram sem kenningu í mínum færslum, en ég hef náttúrulega enga hagfræðiþekkingu til þess að rökstyðja þetta betur.

Ég vil ekki að börn mín þurfi að búa við þetta bóluhagkerfi sem hér ríkir og menn virðast vilja viðhalda í það óendanlega í trássi við hagfræðilögmál og reynslu sem sýnir okkur æ ofan í æ að öll bólukerfi springa og verða að endurstillast annað slagið. Það er það sem kreppur gera, en mönnum virðist fyrirmunað að sjá fyrir sér að það megi tappa af þessum útþanda bolta sem verðtryggingin er núna. Það er litið á það sem tap (sbr. Harald Ólafsson hér að ofan) ef t.d. lífeyrissjóðirnir fá ekki skráða á sig sem eignir þá 200 milljarða sem verðtryggingin mun færa þeim á næstu 6 mánuðum eða svo. Ég hef minnt á það aftur og aftur að þessir 200 milljarðar eru ekki til í hagkerfinu og því ekki hægt að 'tapa' þeim. Þeir eru ekki til. Tilurð þeirra er ósvífin og ósanngjörn peningaprentun á kostnað þeirra sem eru að reyna að eignast húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Og við skulum ekki einu sinni ræða þann 'gróða' sem ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í fjárlögunum færa lífeyrissjóðunum!

Haraldur spyr hver yrði ráðstöfun gróðans sem verður ef veð hækkar í verði. Í slíku ástandi er gjarnan kallað eftir hækkun stýrivaxta geri ég ráð fyrir. Fljótandi vextir hlytu þá að hækka og færa fjármagnseiganda auknar tekjur. Þarna eru hins vegar ákveðin þolmörk sem þurfa að vera til hliðsjónar og umdeilanleg sem þau mega vera, þá eru það slík þolmörk sem í raun eru sett í Maastricht.

Karl Ólafsson, 16.12.2008 kl. 17:34

28 Smámynd: Höfundur ókunnur

Ég kem einnig seint inn í umræðuna og er jafnframt aðeins með litla viðbót. Ég held að Benedikt Sigurðarson hafi einna skárstu tillöguna, þ.e. festum verðbæturnar, segjum í 8%, fyrir lán sem eiga meira eftir en 5 (eða 10) ár.

Meðan verðbólga er hærri en 8% þá hækkar lán bara um 8%, en þegar verðbólga fer aftur niður (sem er forsenda) þá eru verðbætur áfram fastar í 8% þar til uppsafnaður verðbótabolti er orðinn að sömu stærð og hann hefði orðið án festingar.

Ástæðan fyrir þessu er að 18% verðbætur eru mjög sársaukafullar fyrir fólk sem hefur misst vinnuna eða er í svipaðri aðstöðu. Þetta væri "fjárhagslegur dempari" yfir versta hjallann.

--

Mín skoðun er að kerfisáhætta á Íslandi sé að tryggja okkur súrt 2009-2010. Fólk keppist við að koma í fjölmiðla og lýsa því yfir að það borgi ekki lánin sín og hvetur almenning til hins sama. Þetta þýðir að Íblsj. fer á hausinn og ríkið líka. Þá lánar okkur enginn, enginn.

Fari svo, er hugsanlega eina leiðin út úr vandanum að koma skríðandi inn í esb.

Mín skoðun var samt sem áður sú að það væri betra að hafa ögn af reisn í viðræðunum. Með því að frysta verðtryggingu lækkar  kerfisáhættan eitthvað smávegis. Því er það góð skammtímaaðgerð.

Þrándur

Höfundur ókunnur, 20.12.2008 kl. 11:49

29 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þrándur ókunni, í fyrsta lagi eru verðtryggðu húsnæðislánin jafngreiðslulán sem þýðir að verðbólgukúfurinn dreifist sjálfkrafa yfir restina af líftímanum.  Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin þegar kynnt svokallaða greiðslujöfnunarvísitölu sem gengur út á þetta sem þú nefnir, þ.e. að flytja greiðslubyrði aftar á lánstímann.  Athugaðu að hefðbundin óverðtryggð lán með breytanlegum vöxtum væru með miklu hærri afborgunarbyrði þessa dagana en verðtryggðu jafngreiðslulánin.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.12.2008 kl. 13:14

30 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Karl og Benedikt, ég held að það sé alveg tómt mál að tala um að taka verðbæturnar af þeim sem eiga verðtryggð skuldabréf (lífeyrissjóðum og fjárfestum).  Þetta eru umsamin kjör og eru varin af almennum samningsrétti og eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.  Ef ganga ætti á bak þessum ákvæðum eftir á myndi ekki nokkrum manni, innlendum eða erlendum, detta í hug að lána íslenska ríkinu eða Íbúðalánasjóði peninga næstu áratugina.  Þetta er svo óraunsæ tillaga að það borgar sig ekki að eyða tíma og orku í að ræða hana.  Þá væri bara nær að legga beinlínis til að taka peninga úr lífeyrissjóðum og borga út til þeirra sem skulda (sem væri alveg galið en þó minna galið en hitt).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.12.2008 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband