17.10.2008 | 15:44
Afdrifaríkur misskilningur
Var að lesa skýringar fjármálaráðuneytis Breta á The Landsbanki Freezing Order 2008 þar sem eignir Landsbanka voru frystar. Í skýringunum stendur m.a. orðrétt (feitletrun mín):
This action was deemed necessary because the emergency nationalisation law passed in Iceland on 7 October 20082 meant that UK creditors' rights could be prejudiced compared with other creditors. The Icelandic government had been unable to clarify the position of UK creditors in the administration process and there was therefore a threat to UK economic interests.
Þarna hefur íslenskum stjórnvöldum orðið hrapallega á í messunni, að útskýra innihald neyðarlaganna frá 7. október. Ekkert í þeim lögum mismunar kröfuhöfum eða innistæðueigendum bankanna eftir þjóðerni. Allir innistæðueigendur fá sömu vörn (forgangskröfu í þrotabú) og allir aðrir kröfuhafar tapa jafnmiklu (með því að færast aftur fyrir innistæðueigendur í kröfuröðinni).
Ef einhver (fjármálaráðherra?) hefði aulað þessu rétt út úr sér við Darling og/eða Brown hefði mátt komast hjá vægast sagt afdrifaríkum misskilningi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Villi.
Hvar varð okkur á? Að tjá okkur á eigin tungu? Er ekki augljóst að Jarpur og Darlíng'urinn hans, já og þeirra lið allt, hefi átt að fá "clarification" áður en þeir lýsa eitt stykki þjóð sem terrorista.
Að vísu gefur orðið "unable" til kynna að okkar menn hafi reynt... æi. En undir engum kringumstæðum geta þeir kumpánar skýlt sér á bak við tungumála örðuleika. Í samskiptum ríka er engin heimavöllur og engin heimadómari - en í þessu tilfelli virðist mér að Jarpur og Darlíng'urinn hans líti svo á.
Viggó H. Viggósson, 17.10.2008 kl. 18:15
Bresk stjórnvöld skutu fyrst og spurðu svo. Þeir koma fram við okkur eins og við séum verri en gömul nýlenda þeirra. Gamla heimsveldishugsunin sem keyrir á síðasta versi. Ekki hægt að finna stærra fórnarlamb en Ísland.
Þetta er gömul hernaðarlist breskra yfirvalda. Að byrgja sig með orðavafningum og sem enginn skilur og hlaupa svo frá öllu með eyrnapinna rjúkandi í eyrunum.
Skömmin er þeirra öll.
Grrrr
Gunnar Rögnvaldsson, 17.10.2008 kl. 19:09
Ég vona að bresk stjórnvöld verði lögsótt inn í helvíti!
Gunnar Rögnvaldsson, 17.10.2008 kl. 19:11
Sæll Vilhjálmur
Þarna eru bresk stjórnvöld að viðurkenna að ástæðan eru lögin sem sett voru á mánudaginn 6. okt. en ekki orð Davíðs Oddsonar. Í mínum huga hefur það auðvitað alltaf verið augljóst því Geir Haarde sagði þetta alveg kristaltært þegar hann mæli fyrir frumvarpinu að það gengi út á það að við myndum EKKI gangast í ábyrgð fyrir skuldir bankanna.
Það aftur á móti kom alveg skýrt fram í frumvarpinu að innstæðueigendur væru tryggðir.
Stórþjóðir eins og Bretar eru með sendiráð út um allan heim til að fylgjast með svona hlutum og ég get lofað þér því að búið var að þýða frumvarpið og senda út til Bretlands nánast áður en blekið var þornað. Á hverjum degi fá þeir í hendur þýðingar af öllu sem gerist hér á landi og tengist Bretlandi á einn eða annan hátt.
Það var síðan ekki fyrr en á miðvikudag sem þeir setja hryðjuverkalögin á Íslendinga. Ég er nokkuð viss að á þessum tíma voru PR menn Mr. Brown og Mr. Darling að kokka upp viðbrögðin sem við öllum nú vitum hver voru.
Eins og Gunnar Rögnvaldsson segir þá hefði verið í lófa lagið að fá þessa hluti staðfesta áður en þeir lögðu til atlögu t.d. í gegnum sendiráð Breta hér á landi. En það hentaði ekki fyrir pólitík Bretanna.
Ánægja með störf þeirra Brown og Darling hefur ekki verið meiri í langan tíma í Bretlandi og ástæðan er einföld. Þjóðir standa ávallt með leiðtögum sínum þegar þeir hefja stríð. Síðan fjarar venjulega undan þeim þegar sannleikurinn seitlar út.
Egill Jóhannsson, 17.10.2008 kl. 19:19
Áttu Bretar ekki að láta þýða lögin ALMENNILEGA áður en gripið var til ....... ?
Var hér nokkuð um misskilning að ræða?
Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 19:45
Það er allavega ljóst af textanum að þegar The Landsbanki Freezing Order of 2008 var gefin út, töldu Bretar að Íslendingar ætluðu að mismuna lánardrottnum eftir þjóðerni. Við ætluðum vissulega að mismuna lánardrottnum eftir formi kröfu (þ.e. innlán vs. aðrar kröfur), en ekki eftir þjóðerni. Einhvern veginn hefur þessu ekki verið komið á framfæri við þá þannig að þeir skildu.
Reyndar mátti vel skilja Davíð Oddsson í Kastljósi á þann veg að hann væri að tala um að mismuna eftir þjóðerni. Hann talaði ítrekað um "erlenda lánardrottna" sem myndu fá 5, 10 eða 15% af kröfum sínum greiddar, og "erlendar skuldir" sem yrðu afskrifaðar. Kannski var þetta bara áróðursorðalag hjá honum, matreitt fyrir innlendan markað. En þetta gat misskilist, eins og raunin virðist vera.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.10.2008 kl. 23:37
Ég var að lesa viðtalið við Davíð betur. Hann segir m.a. eftirfarandi:
„Já, við erum að gera nákvæmlega eins og bandaríkjamenn gera,“ sagði Davíð. „Við skiptum bönkunum upp í innlenda og erlenda starfsemi. Við tökum eigið féð að meginefni til og látum það fylgja erlendu starfseminni. Þannig að erlendu kröfuhafarnir fá meira í sinni hlut en sem nemur innlendu starfseminni.“ Erlendir aðilar ættu ekki að geta sagt að þeir væru verr staddir eftir þessa aðgerð en áður. Erlendu skuldirnar yrðu síðan gerðar upp og erlendu kröfuhafarnir myndu, því miður, ekki fá nema kannski 5-15% upp í þessar kröfur.
Ég sé ekki betur en að þetta sé beinlínis röng lýsing, eða vona það a.m.k. Neyðarlögin gera skilanefndum vissulega kleift að skipta bönkunum upp en sú skipting verður að vera í nýjan banka með forgangskröfum (innlánum) og samsvarandi eignum annars vegar, og eldri banka með öllum öðrum kröfum og eignum hins vegar. Það stenst engan vegin lögfræðilega að skipta bönkum upp eftir þjóðerni kröfuhafa eða að láta það ráða nokkru, það væri m.a. brot á EES samkomulaginu og væri ávísun á endalaus málaferli. Enda held ég að það sé ekki plottið, nema ég sé svona grænn og Davíð (og Geir) svona svaðalega ósvífnir.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.10.2008 kl. 00:07
Þetta er góð og réttmæt pæling Vilhjálmur. Það stenst ekki lög og „alþjóðlegar skuldbindingar okkar“ að mismuna sparifjáreigendum viðskiptabanka eftir þjóðerni þeirra. Það er þvi spurning hvort Geir, Árni Matt og Davíð hafi ekki skilið neyðarlögin sem þeir létu þingið samþykkja - eða skilji ekki þessa grunnforsendu um að við getum ekki mismunað sparifjáreigendum sem áttu bein viðskipti við bankana og útibú þeirra eftir þjóðerni en beiti ósvífnum kúnstum til að gera það samt.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.10.2008 kl. 01:22
Getur verið að Davíð hafi ekki vitað meira um starfsemi bankanna að hann hafi ekki vitað að um bæði innlenda og erlenda sparifjáreigendur væri að ræða, sem þá allir ættu sömu forgangskröfu samkvæmt ákvæðinu þar um. Öllum bæri jöfn staða sem sparifjáreigendur.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.10.2008 kl. 01:29
Bretar fóru sjálfir þá leið að ábyrgjast innistæður í breskum bönkum en ekki öðrum EES bönkum sem starfa á Bretlandi.
Þeir ákváðu líka að bæta almennum innistæðueigendum í Icesave upp tapið að fullu með greiðslum úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna án þess að það væri fordæmisgefandi.
Ég er engin lögfræðingur en ef að þetta stenst lög og EES þá ætti það að standast lög að tryggja innistæður í útibúum innanlands en ekki erlendis.
Auk þess munu vera ákvæði í EES sem kveða á um að samninginn megi brjóta í neyðartilvikum. Þegar það stefnir í að fjármálaþjónusta í landi leggist næstum niður að fullu þá hlýtur það að teljast neyðartilvik.
Annars finnst mér það undarlegt að það fyrirfinnist enn einhver sem trúir því að þetta stafi allt saman af misskilningi. Ef að það væri raunin þá væri búið að ganga frá málinu núna.
Helgi: Kröfum innistæðueigenda er ekki raðað eftir þjóðerni heldur eru innlendar innstæður tryggðar af ríkissjóði.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 01:46
Ég vil líka benda á þá staðreynd að Írar voru fyrstir þjóða ESB sem ýstu því yfir að allar innstæður í írskum bönkum og lán til írskra banka yrðu í ábyrgð írskra ríkisins i 2 ár.
En það athyglisverða er að þetta gildir eingöngu um 6 banka sem skilgreindir eru írskir en erlendir bankar með starfsemi á Írlandi voru undanskildir við lítinn fögnuð þeirra.
Egill Jóhannsson, 18.10.2008 kl. 02:18
Ég er sammála Hans um það að hér getur ekki verið um misskilning að ræða því þá væri búið að leiðrétta hann fyrir löngu. Hér er einfaldlega um vísvitandi útúrsnúning á íslensku neyðarlögunum að ræða ætlað til að skapa sameiginlegan óvin þegar fór að hitna undir Brown og Darling með það fyrir augum að auka eigin vinsældir.
Ég er mjög hneykslaður á íslenskum stjórnvöldum að vera ekki búin að sparka harðar á móti þegar sparkað er í okkur liggjandi með slíkum hætti. Það veldur því að heimsbyggðin heldur að það sé rétt, sem Bretar hafa sagt. Við höfum gott tækifæri til að vekja athygli á málinu með því að lýsa því strax yfir að við afþökkum breska loftvernd í desember. Það kemur málinu í umfjöllun og gefur íslenskum stjórnvöldum tækifæri til að útskýra af hverju við Íslendingar erum svona reiðir Bretunum.
Síðan getum við kallað sendiherra okkar heim og jafnvel vísað breskum sendimönnumn úr landi og sagt þeim að koma ekki aftur fyrr en hryðjuverkalög gagnvart okkur hafi verið tekin til baka.
Sigurður M Grétarsson, 18.10.2008 kl. 08:03
Neyðarlögin eru að sýna sig í að vera bara enn ein vond ákvörðun ríkisins á eftir mörgum öðrum. Strangt til tekið er ríkið að framkvæma sóðalegt kennitöluflakk með lagasetningu í örvæntingarfullri tilraun til að taka til sín eignir bankanna til að eiga upp í innistæðurnar sem þeir þurfa hvort eð er að ábyrgjast. Að auki er tilgangur neyðarlaganna að losa bankana við erlendar ábyrgðir sínar þar með talið sambankalánin sem þeir notuðu til að fjármagna starfsemina.
Ef þið skiljið þetta ekki er rétt að benda á að lesa neyðarlögin og síðan í framhaldinu ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um ráðstafanir eigna og skulda Glitnis og Landsbankans. Hér hafa margir með mikla reynslu í rekstri gert athugasemdir en það virðist einhvern veginn bara ekki henta málstað okkar íslendinga að vera með svona sjálfsgagnrýni.
Það er sorglegt, og þyngra en tárum taki, að saka eigin ríkisstjórn um svona skelfilegan óheiðarleika. Neyðarlögin auka þess vegna enn á vantrú umheimsins og verður okkur ekki til framdráttar.
Við getum rifið okku upp á afturendanum í leit að sökudólgum hvar sem er. Ég tel það samt standa óhaggað að upphaf hinna séríslensku efnahagshamfara (umfram lánakreppu heimsins) er að finna í þeirri röngu ákvörðun Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar að neita Glitni um þrautavararlánið. Það hefði gefið okkur ráðrúm til að reyna að bjarga því sem bjargað yrði.
Að þessu sögðu er ég samt á því að við eigum að lögsækja breta til skaðabóta eins langt og við komumst. Þeirra misbeiting valds er ekkert betri en okkar.
Haukur Nikulásson, 18.10.2008 kl. 09:02
Augljóslega taka ábyrgðir Íslands bara til íslenskra banka eins og ábyrgðir Íra taka til írskra banka og ábyrgðir Breta til breskra banka. En bankar allra þessara landa geta hafa átt útibú erlendis - eða ekki. Og það útibú er jafn íslenskt og íslenski bankinn sem rekur það eða jafn írskt og írski bankinn sem rekur það og svo framvegis.
Þess vegna hafði Kaupþing vit á að hafa sína erlendu starfsemi í erlendum dótturfélögum. Dótturfélag með höfuðstöðvar í London er ekki íslenskt heldur breskt og lýtur breskum reglum og eftirliti og ábyrgðum og svo framvegis.
Því miður bar Landsbankinn ekki gæfu til hins sama heldur voru Icesave-reikningarnir reknir sem útibú frá Landsbankanum við Austurstræti í Reykjavík. Þess vegna eru innlán á þá rekninga jafn miklar forgangskröfur og öll önnur innlán í Landsbankanum við Austurstræti í Reykjavík og útibúum hans.
Þetta gerðu Landsbankamenn til að þurfa ekki að lúta breskum reglum og takmörkunum á peningaflutningum, og bresku eftirliti heldur bara því íslenska. - Og ísl Fjármálaeftirlitið leyfði þetta - og bætti um betur með að leyfa samskonar reikninga í Hollandi bara nú í vor.
Helgi Jóhann Hauksson, 18.10.2008 kl. 10:57
Það var mjög áhugavert að fara í gegnum ofangreindar athugasemdir.
Mér finnst skrítið ,að í allri þessari umræðu hefur ekki mikið verið talað um að Íslendingar beiti fyrir sér um sé að ræða svokallað "Force Majeure" ástand.Ég get ekki séð annað en að þær hamfarir, sem dunið hafa yfir heimsbyggðina séu annað "Force Majeure"!
Staðan er að við erum hér ekki aðeins tala um hrun eins banka á Íslandi, heldur hrun bankakerfisins á Íslandi í heild sinni, en einnig um hrun hundruð banka erlendis. Hér er líklega um stærstu fjármálakrísu, sem átt hefur sér stað síðan 1929 eða 1914.
"Force Majeure" leysir aðila í raun undan ábyrgð sinni. Yfirleitt er talið að ekki sé hægt að notfæra sér ákvæðið nema að um stríð, uppþot, stóra glæpi, náttúruhamfarir á borð við flóð, jarðskjálfta eða eldgos sé að ræða. Það er hins vegar ekki hægt að nota þetta ákvæði til að afsaka vanrækslu eða vilt bara hreinlega ekki gangast í ábyrgð fyrir þínar skuldbindingar.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.10.2008 kl. 13:07
Mjög fróðleg umræða sem Vilhjálmur hefur hér sett af stað. Eftir stendur að almenningur hefur á tilfinningunni að stjórnvöldum hefur mistekist að verja íslenska hagsmuni með stórkostlegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið. Hver á þar sök skal ekki sagt um en böndin berast óneitanlega að fjármála- og forsætisráðherra sem áttu viðtöl við breska ráðamenn. Þeir hefðu átt að vita hvað var í vændum og það var þeirra ábyrgð að tryggja að enginn misskilningur gæti orðið því þjóðarhagsmunir voru í húfi.
Calvín, 18.10.2008 kl. 15:49
Helgi Jóhann setur þetta mjög skilmerkilega fram og ég er sammála honum.
Hans og Egill, þið megið ekki rugla saman þremur hlutum. Í fyrsta lagi neyðarlögunum sem kveða á um forgang innistæðueigenda til eigna bankanna, sem gæti (í besta falli) orðið til þess að innistæður yrðu greiddar að fullu. Í öðru lagi tryggingarsjóði innstæðueigenda, sem á (teóretískt) að bæta allt að 20.000 EUR á hverjum reikningi, ef eignir bankanna hrökkva ekki til, en á ekki fyrir þeirri skuldbindingu. Í þriðja lagi almennri yfirlýsingu stjórnvalda um að þau muni tryggja innlenda innistæðueigendur gegn tapi innistæðna í íslenskum bönkum. Hvorki neyðarlögin né innistæðutryggingin mega fela í sér mismunun eftir þjóðerni. Hins vegar er stjórnvöldum frjálst að nota skattfé til tryggingar sinna skattgreiðenda í tilteknum kringumstæðum ef þeim sýnist svo, það held ég að rekist ekki á EES - reyndar yrði forvitnilegt að sjá lögin sem heimiluðu slíka fjárveitingu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.10.2008 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.