14.10.2008 | 15:32
Hvað kemur í stað krónunnar?
Öllu raunsæju fólki er orðið ljóst að íslenska krónan er búin að vera, nema í mesta lagi að nafninu til.
Nú er áríðandi að ákveða hvað á að koma í staðinn, og drífa viðeigandi aðgerðir í gang sem allra fyrst. Enginn vill sjá vöruskort og hamstur, hvað þá afleiðingar sem slíku getur fylgt. (Bandaríski fjárfestirinn Jim Rogers hefur minnt á að jafnvel stöðugustu þjóðfélög eru aðeins fjórar máltíðir frá óeirðum og gripdeildum.)
Um þessar mundir gefst sjaldgæft tækifæri til að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil, vegna þess að óvenjulega fáar krónur eru í umferð. Bankakerfið er nýhrunið, gírun í sögulegu lágmarki, fullt af lánum verða afskrifuð og hlutabréf lítils virði.
Slík skipti geta gerst annað hvort í einni atrennu, með samkomulagi við ESB, Norðmenn eða aðra aðila, eða í áföngum með því að fyrst sé tekin upp tenging krónu við annan gjaldmiðil, sem bökkuð yrði upp af ECB, norska seðlabankanum, þeim íslenska, IMF og/eða öðrum aðilum. Danska krónan er sem kunnugt er innan ákveðins ramma ("currency board") í samvinnu við ECB. Slíkt fyrirkomulag mætti hugsanlega taka upp samhliða aðildarviðræðum við ESB.
Hvað sem öðru líður, verður að taka ákvörðun mjög skjótt, kynna hana og keyra á framkvæmdina. Annars er verið að leika sér að eldinum, og nóg eru áföllin samt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Facebook
Athugasemdir
Ég myndi stinga uppá að við myndum nota harðfisk
Jón Á Grétarsson, 14.10.2008 kl. 15:41
Hvað með norsku krónuna?
Emma (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 16:36
Sammála Emmu um að norska krónan sé góður kostur.
MBK Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 14.10.2008 kl. 22:14
Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði um samsæri gegn Íslandi!
Afsakið innrásina,mig langar að benda öllum sem hafa áhuga á ástandinu í þjóðfélaginu að lesa bloggið mitt. þar hef ég postað bloggi sem Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi i hagfræði talar um fjármálasamsæri gegn íslandi. Langar að fá álit samlanda minna því ég verð að segja að í dag hljómar þetta ansi kunnuglega.
Hippastelpa, 14.10.2008 kl. 23:36
Yen, yen, yen. ye
Greta Björg Úlfsdóttir, 15.10.2008 kl. 02:41
Er ekki rétt að svona mikilvæg mál séu gerð á löglegan hátt? Líklega er ástæðan fyrir því að krónan hefur fallið jafn mikið og gerst hefur sú, að gráðugir bankakallar hafa verið spila djarft, líklega farið langt, langt yfir það sem löglegt getur talist.
Að "drífa" jafn mikilvægt mál og innleðiing nýs gjaldmiðils, breyting á stjórnarskrá og annað sem því fylgir væri það vitlausasta sem við gerðum í stöðunni. Svíar, sem nota bene felldu upptöku evru 2003, höfðu gert áætlun um að taka inn evruna 2006, ef svo ólíklega vildi til að það yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu (var reyndar fellt 60-40).
Hvað vilt þú svo Vilhjálmur gera ef eitthvert áhlaup verður gert á evruna ef við værum komnir með hana sem gjaldmiðil, og hún ætti undir högg að sækja? Væntanlega myndir þú þá bara skipta yfir í aðra mynt, og "taka ákvörðun mjög skjótt, kynna hana og keyra á framkvæmdina."? Það er engin lausn að hoppa bara frá vandamálum um leið og þau koma upp. Það er nær að leysa vandamálið af yfirvegun og skynsemi.
Margir hafa gleymt því að árin 2005 og fram yfir áramót 2008 var gengi krónunnar mjög hátt. Skynsamt fólk hefði þá átt að nýta þann tíma til að koma sér vel fyrir. Leggja peninga til hliðar þegar innlánsvextir voru komnir í 16,5%, en ekki rjúka af stað og taka erlend lán, hlaupandi eins og tófan um alla evrópu eftir láni með lágum vöxtum. Það reyndist ekki skynsamlegt. Þeir sem hafa ávaxtað íslensku krónuna í íslenskum bönkum, á gömlu góðu bankabókinni hafa ávaxtað sitt pund vel, líklega betur en nokkur annar í evrópu. Krónan var þá ekki verri en það!!!!!
joi (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 15:01
Jói, ert þú ekki í sama heimi og við hin? Þú hefur vissulega fengið fína nafnvexti í íslenskri krónu en hvaða vexti hefurðu fengið í evru eða dollar? Færðu fleiri evrur fyrir krónurnar þínar í dag heldur en fyrir t.d. ári eða tveimur, þótt þú leggir 15% krónuvexti við?
Í bloggfærslunni lýsi ég ýmsum valkostum, þar sem ESB aðild er einn kostur, en ég tel hann reyndar langbestan. En ef andstæðingar ESB aðildar ná að hindra umsókn, verður engu að síður að bregðast við gjaldeyrisvandanum svo hratt sem auðið er - úr þessu er það hreinlega dagaspursmál.
Það þarf ekki að breyta stjórnarskránni til að skipta um gjaldmiðil, og það þarf ekki heldur að breyta stjórnarskránni til að hefja aðildarviðræður við ESB. Hins vegar yrði að breyta henni í kjölfar - eða samhliða - þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 15.10.2008 kl. 18:28
"Leggja peninga til hliðar þegar innlánsvextir voru komnir í 16,5%, en ekki rjúka af stað og taka erlend lán, hlaupandi eins og tófan um alla evrópu eftir láni með lágum vöxtum."
Þessar tölur eru ekki réttar. Þú gast farið upp í 16,5% ef þú varst með nógu háa upphæð á ýmsum reikningum. Og það gerðist ekki fyrr en stýrivextir voru komnir upp í 15,5%.
Þú gleymir samt einu. Á sama tíma og stýrivextir eru háir þá er verðbólgan búin að ná hámarki sínu upp í 14%. Því eru raunvextirnir nánast engir. Hlutir verða dýrari - þannig þó þú sjáir peninginn þinn vaxa þá er hann engu að síður ekki verðmeiri.
Egill M. Friðriksson, 15.10.2008 kl. 18:58
Ég er í sama og þið hin. Vextir á Íslandi hafa verið þeir hæstu í Evrópu og þess vegna gefið besta ávöxtun. Kannski þess vegna hefur gengið hrunið. Mikið innstreymi af gjaldeyri úr ESB löndum hingað. Ekki hefðu þessir ESB þegnar verið að flytja sína peninga úr landi og til Íslands, nema ávöxtun væri góð. Þetta fólk hafði góða trú á krónunni.
Það er alveg rétt hjá þér að við verðum að bregðast við þessu bruðli síðustu ára á einhvern hátt. Vil ítreka það að gjaldmiðill skiptir nákvæmlega engu máli þegar menn eyða meiru en aflað er. Skellurinn verður alltaf jafn mikill, sérstaklega þegar menn hafa farið jafn illa að ráðum sínum og Íslendingar hafa gert undanfarin ár.
Í dag fæ ég nákvæmlega enging pund og engar evrur, og get ekki borið saman ávöxtun í þessari mynt, samanborið við krónuna. Vinir þinir í ESB eru búnir að frysta peningana sem ég á von á frá útlöndum. þeir sitja fastir í bönkum í bretlandi og danmörku. Þetta mikla lýðræðisbandalag fer þá svona að. Gaman að vita af því.
Held að það sé búið að gera það algerlega 100% skýrt að evra verður ekki tekin upp á Íslandi, nema gengið verði í ESB. Það er alveg á hreinu. Þess vegna verður engin breyting á gjaldmiðli Íslendinga nema með því að breyta stjórnarskránni. Ef menn myndu gera það, væri Ísland komið á sama stall og einhver bananalýðveldi.
Þú segist hafa farið yfir kosti ESB aðildar í fyrstu bloggfærslunni þinni. Ég las þessa færslu. Sá hvergi neina skýra kosti setta fram. Allt var þetta í einhverjum upphrópunum eins og "sjaldgæft tækifæri" "hætta á vöruskorti" "hamstra vörur" og svo framvegis. Svona rökleysa er varla svaraverð. Allir vita að tækifærið til að ganga í ESB er ekkert að fara. Það verður þarna áfram. Úr því Albanía, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía og hugsanlega Tyrkland fara þarna inn, þá verðum við ekki í neinum vandræðum.
Egill hérna að framantalar um að verðbólga sé komin í 14%. það eru síðustu mælingar. Verðbólgan hefur ekki verið svona há áður. Helstu ástæður hárrar verðbólgu eru örfáir þættir, s.s. gríðarleg hækkun húsnæðisverðs. Það er aðeins lítill hluti þjóðarinnar að skipta um eða kaupa sína fyrstu fasteign á þessu tímabili, og hefur þar af leiðandi engin áhrif á þetta fólk. Í öðru lagi má segja að þessi verðbólga sé til komin út af gríðarlegri þenslu. Af hverju var þessi þensla? Jú rétt hjá ykkur, hún er tilkomin vegna gríðarlega sterkar krónu á þessu tímabili. Þarna virðist aftur komin einhver skekkja í ykkar málflutning. Verðbólgan er annars vegar of sterkri krónu að kenna, hins vegar of veikri krónu!!!! Er ekki sökin einfaldlega önnur en gjaldmiðillinn? Getur ástæðan ekki verið sú að almenningur og fyrirtæki hafa einfaldlega ekki sýnt nægilega fyrirhyggju? Eytt um efni fram? Kannski er erfitt að vera vitur eftir á, en ég held að það sé of einföld lausn að kenna krónunni einni um.
Þið verðið að viðurkenna þá einföldu staðreynd að kaupmáttur launa (raunveruleg mæling á lífsgæðum þorra landsmanna) hefur verið gríðarlega hár undanfarin ár. Lífsgæði hafa verið þau mestu í evrópu, kannski að Sviss, Noregi og Lúxemborg undanskyldum (ekki ESB lönd þar á ferð). 100 milljarða greiðsluhalli við útlönd er að hluta til að koma okkur í þessi vandræði sem við erum nú lent í. Bruðl landsmanna er þar um að kenna. Peningarnir sem hafa farið úr landi enduðu að mestum parti í hjólhýsum, 500 fm glæsivillum í úthverfum Rvk. o.s.frv. Ef við hefðum notað þennan greðisluhalla í að búa til verðmæti, þá væri þetta ok. nú er eyðslan hins vegar fuðruð upp, í verðlitlum fasteignum, bílum og öðrum leiktækjum, ekki í öflugum framleiðslutækjum. Krónan á engan þátt í þessu. Ekki heldur evran.
joi (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 23:06
Ég er að fjalla um neyðarvanda sem blasir við núna. Ef ekki verður búið að leysa gjaldeyrismálin með einum eða öðrum hætti innan sirka tveggja vikna stefnir í vöruskort og hamstur. Bankakreppan var eitt vandamál en krónan er annað, hugsanlega engu minna. Í bloggfærslunni gerði ég ráð fyrir a.m.k. þremur kostum, þ.e. evru, norskri krónu eða íslenskri krónu með gengisramma (sbr. dönsku krónuna). Hvað vill Jói gera til að leysa gjaldeyrisvandann? Ekki neitt?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.10.2008 kl. 00:26
Heyr!
Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 00:28
Úpps, fyrir Jóa.
Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 00:28
Veit ekki hvar þú færð það út að ein eða tvær vikur séu einhver "deadline". Við verðum bara að leysa þetta í samráði við þá sem eru tilbúnir að koma að þessu. Við erum ekki lengur bakvið stýrið og stjórnum þessu því ekki alveg.
Af hverju er krónan eitthvert sérstakt vandamál? Ef annar gjaldmiðill væri hér við lýði, þá værum við ekki í betri stöðu, engan veginn.
Þú talar um bankakreppu. Það er ekki rétt. Við erum að tala um bankagjaldþrot. Allir viðskiptabankar landsins eru gjaldþrota. Það gæti tekið meira en einhverja 5-10 daga að greiða úr þessu. Menn leiðrétta ekki þetta gríðarlega sukk í bönkunum síðustu árin á einni viku.
Guð forði okkur frá því að binda okkur við dönsku krónuna. Þeir voru að hækka vexti í síðustu viku úr 4,5% í 5,0%. Þeir eru búnir að hækka vexti í Danmörku um 70% síðan um áramót, úr 2,9% í 5,0%. Ætli þú værir ekki að hamra einhverjar aðrar lausnir inn á lyklaborðið hjá þér en þessar ef þetta hefði verið gert? Við gátum þó lækkað vexti í gær um 20%. Ef við hefðum bundið gengið við dönsku krónuna sem dæmi, þá hefðum við þurft að hækka gengið í síðustu viku um 10%.
Þessi athugasemd hérna að ofan er kjarninn í því sem þeir sem eru alfarið á móti ESB (ég er ekki alfarið á móti þeim, þessi klúbbur hefur gert ýmislegt gott, þó þeir séu algerlega getulausir á mörgum sviðum). ESB er oft að fara allt aðra leið en hagsmunir okkar. Við þurfum að lækka vexti, þá eru Danir að hækka gengið. Það getur ekki gengið.
Þrátt fyrir gríðarlega innspýtingu evrópskra seðlabanka inn í hagkerfi ESB fyrr í vikunni, þá virðist hlutabréfavísitalan hjá þeim í lóðbeinu falli. Hækkaði í fyrradag, en lækkaði verulega í gær, og hefur þegar þetta er skrifað, lækkað um 3%. Greinilegt að þessi Evra og evrópusamstarf er ekki að hjálpa þeim mikið.
Þú spyrð hvað ég vilji gera. Hérna eru nokkrar tillögur:
1. Seðlabanki Íslands reyni að taka lán með ríkið sem ábyrgðamann. Ríkið á góð veð, og er líklegt til að fá lán á góðum kjörum. Við þurfum að fá lánin með vöxtum, en án allra skilyrða. Engar herstöðvar, engin evra, engin gengisfelling eða önnur trix frá IMF, við verðum að fá lán með venjulegum vöxtum, engum öðrum skilyrðum. Lánadrottnar fá tip top veð sem ríkið leggur til. Þannig ættum við að fá einhvern gjaldeyri inn í landið og geta staðið skil a einhverjum greiðslum af erlendum skuldbindingum.
2. Uppgreiðsla erlendra lána sem eru fallin á gjalddaga og kaup á nauðsynjavörum. Setja þetta í forgang. Banna allar nýjar skuldbindingar gagnvart erlendum birgjum í bili. Bankar og ríkið getur ekki ábyrgst gjaldeyrisyfirfærslur á greiðslum á einhverju poppi og kóki. Nauðsynjar fyrst og greiðsla á gömlum range roverum og þyrlum verður að koma fyrst. við verðum að sýna vilja okkur til að standa í skilum við erlenda birgja. þá fáum við skilning úti.
3. Frysta allar skuldbingindingar íslensku bankanna erlendis. Við getum ekki lofað Icesave og Edge reikningseigendum greiðslu að fullu. Við værum eitt og hálft ár að standa í skilum við þessa sparifjáreigendur úti, ef ríkið myndi hætta öllum útgjöldum, þ.m.t. menntun, löggæslu, læknisþjónustu, öllu. Við getum boðið þeim 15-20% greiðslu upp í þeirra kröfu. Við getum ekki borgað meira. Þetta fólk setti peningana sína á reikning sem bauð 20% hærri ávöxtun en hæstu vextir hjá bresku/hollensku bönkunum. Þeim hefði átt að vera ljós áhættan. Hærri vextir, meiri áhætta. þetta ættu menn að vita.
4. Fara STRAX í aðgerðir til að auka gjaldeyrisframleiðslu hér á landi. Útflutning á sjávarafurðum, ferðaþjónusta, orkusala o.sfrv. Það verður að fá meiri verðmæti inn í landið ef menn ætla að losna fljótt við gjaldeyrishöft. Þetta ætti eiginlega að vera No 1 í þessari upptalningu. Vinna mannamat úr fisknum, ekki dýrafóður, setja meiri pening í uppbyggingu ferðaþjónustunnuar, þessar 50 kúlur frá Össuri um daginn var skandall. Virkja og byggja upp í orkugeiranum, en í SÁTT VIÐ FÓLKIÐ Í LANDINU. Það þýðir ekkert að tala bara um ál eins og ekkert annað sé til að selja orkuna í. Við verðum að virkja, og selja raforkuna til þeirra sem ætla sér að framleiða eitthvað almennilegt úr raforkunni sem við leggjum til, og skapa ný störf. Þessi álframleiðsla skilar ekki nægum gjaldeyri, og allt of mörg störfin eru "starfsmaður í kerskála" aka engar menntunar krafist. Þessi langi gangur af fólki í iðnaðarráðuneytinu þarf að hætta að naga blýanta, eða spjalla á msn, og fara að vinna.
Vona að þessar tillögur svari þér eitthvað. Annars held ég að það væri best í stöðunni að menn færu að koma með tillögur hvað sé hægt að gera til að auka framleiðsluna. Það er víst nóg til af fólki sem kann að eyða peningum, færri sem kunna að afla þeirra. Krónan, gengið, stjórnmálaflokkar, blaðamannafundir bla bla bla. Við þurfum að koma okkur í gírinn og fara AÐ FRAMLEIÐA OG BÚA TIL GJALDEYRI.
joi (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 09:38
Hvað áttu við með "50 kúlur hjá Össuri"?
Ertu nokkuð að skrifa þetta í vinnunni, í staðinn fyrir að naga blýantinn þinn?
Eða hvers vegna má maður eins og þú vera að því að skrifa komment á bloggsíðu á þessum tíma dag? Bara forvitin, í framhaldi af því sem þú sagðir.
Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 09:50
...og þá á ég við í svona löngu máli.
Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 09:51
Þetta var ekki langt mál. Ég er með 230 slög á mínútu. Þetta tók stuttan tíma.
Ég átti við 50 milljóna framlag ríkissins til að styrkja ferðaþjónustuna, gegn því að greinin kæmi með annað eins á móti. Þetta eru peningar sem hafa lítið að segja og hafa engin áhrif. Hætta við öryggisráðið, hætta við heimssýninguna, spara þar milljarð óg setja í uppbyggingu ferðaþjónustu, og þá væri össur að gera eitthvað af viti.
Ég er í vinnunni að skrifa þetta, en skrifa þetta út á minn eigin reikning. Ég vinn hjá sjálfum mér og verð að taka afleiðingum að eyða í þetta fimm mínútum, þarf ekkert að biðja einn eða neinn leyfis á því. Þeir sem vinna hjá öðrum, þeir hafa ekkert leyfi til að sinna áhugamálum í vinnunni. Þeir fá borgað fyrir að flaka fisk, prjóna peysur eða skrifa forrit, ekki að koma með hugmyndir hvernig eigi að bjarga þjóðarskútunni.
joi (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 10:26
Þú ert sannarlega snöggur. Ég er lengi að hnoða smápistli saman og svo þarf ég oftast í fullt af leiðréttingum vegna typo og líka að málið kemur vitlaust út úr mér.
Ég held að ég sé líka orðin eitthvað smá lesblind í seinni tíð, af hverju sem það stafar, alla vega á texta sem ég hef sjálf skrifað.
Greta Björg Úlfsdóttir, 16.10.2008 kl. 14:02
"Egill hérna að framantalar um að verðbólga sé komin í 14%. það eru síðustu mælingar."
Rétt eins og þú talaðir um síðustu hækkun á vöxtum, eða 16,5%, þá miðaði ég það við síðustu mælingu á verðbólgu. Vextir hafa ekki verið 16,5% í nokkur ár rétt eins og verðbólga hefur ekki verið 14%. Aftur á móti hafa stýrivextir hækkað með hverju skipti sem verðbólga hefur aukist. Því er út í hött að tala um að þú sért að ávaxta féið þitt um 16,5% - raunávöxtunin er allt önnur.
"3. Frysta allar skuldbingindingar íslensku bankanna erlendis. Við getum ekki lofað Icesave og Edge reikningseigendum greiðslu að fullu. Við værum eitt og hálft ár að standa í skilum við þessa sparifjáreigendur úti, ef ríkið myndi hætta öllum útgjöldum, þ.m.t. menntun, löggæslu, læknisþjónustu, öllu. Við getum boðið þeim 15-20% greiðslu upp í þeirra kröfu. Við getum ekki borgað meira. Þetta fólk setti peningana sína á reikning sem bauð 20% hærri ávöxtun en hæstu vextir hjá bresku/hollensku bönkunum. Þeim hefði átt að vera ljós áhættan. Hærri vextir, meiri áhætta. þetta ættu menn að vita."
Nú veit ég ekki hvort þú ert að meina heildarupphæðina á Icesave eða þessar fyrstu 20 þúsund evrur. Ég myndi telja það algjört glapræði og þjóðarsjálfsmorð ef við ætluðum ekki að tryggja þessar fyrstu 20 þúsund evrur. Ísland yrði litið mjög neikvæðum augum ef það myndi ekki standa við skuldbindingar sínar við annað vestrænt ríki. Sem er í ESB og NATO. Að auki myndi traust til okkar minnka til muna. Þannig ég tel þetta frekar óskynsamlega hugmynd.
"Þrátt fyrir gríðarlega innspýtingu evrópskra seðlabanka inn í hagkerfi ESB fyrr í vikunni, þá virðist hlutabréfavísitalan hjá þeim í lóðbeinu falli. Hækkaði í fyrradag, en lækkaði verulega í gær, og hefur þegar þetta er skrifað, lækkað um 3%. Greinilegt að þessi Evra og evrópusamstarf er ekki að hjálpa þeim mikið."
Þetta er mjög undarlega röksemdarfærsla. Þú talar um að þrátt fyrir evruna og evrópusamstarf þá lækki hlutabréfamarkaðir. Þú ert að setja orsakasamhengi milli hluta sem þú útskýrir hvergi. Svipað er búið að gerast í BNA, þ.e. bæði hækkun og lækkun eftir innspýtingu peninga. Ekki fara rugla saman hlutabréfamörkuðum við almennt ástand í löndum.
Egill M. Friðriksson, 16.10.2008 kl. 14:09
Menn geta leikið sér eins og þeir vilja með að velta þessum vaxtatölum fram og til baka. Kjarninn í þessu er hins vegar sá að menn hafa fengið hér hærri ávöxtun af óbundnum reikningum umfram raunverulega verðbólgu en í flestum löndum í kringum okkur. Þess vegna voru krónu og jöklabréfin gefin út. Það atriði þarf ekkert að ræða frekar.
Mér er í raun sama hvort um sé að ræða 20% af upphæðum upp að 20 þús evrum eða 20% af heildarupphæðum. Það er ekki aðal atriðið.
Það verður litið á okkur frekar neikvæðum augum, hvort sem við bregðumst trausti við að borga upp skuldbindingar gagnvart bönkum eða birgjum. Af tveimur slæmum kostum myndi ég tippa á að við stöndum við okkar að borga birgjum, en látum þá sem tóku mikla áhættu með því að ávaxta sitt pund með 20% álagi ofan á hæstu vexti sem voru í boði. Við verðum líka að velja á milli þess að gera upp við gamla fólkið og þá sem voru skipulega að spara á Íslandi eða þetta fólk í bretlandi og hollandi. Ríkið getur aldrei staðið við sínar skuldbindingar gagnvart báðum aðilum. Borgum birgjum og þeim sem við erum að kaupa af vöru og þjónustu, en bjóðum þeim sem voru í áhættulánastarfsemi eins og Edge/Icesave upp á 20% útborgun strax, restina ef við getum. Betra getum við ekki boðið að sinni.
Varðandi eitthvert orsakasamhengi milli lækkunar á hlutabréfum, þjóðnýtingu á bönkum o.s.frv., þá er það nákvæmlega málið. Það er ekkert orsakasamhengi fyrir því að vera í ESB og fá einhverja tryggingu fyrir þessu, eða vera fyrir utan það. Sömu vandamálin hjá USA, Íslandi og ESB. Við værum ekkert öruggari hvað það varðar. Líklega værum við verr stödd. Við höfum eitthvað um þetta að segja eins og staðan er í dag. Gætum farið út í að auka fiskveiðikvótann, selt virkjanir eða gert eitthvað af þessum trixum sem menn eru að benda á. Ef við værum í ESB, þá væru líkurnar á að við tækjum einhliða ákvarðanir varðandi þetta ekki eins skilvirkar. Líklega færi þetta í eitthvað japl og jaml í brussel.
Þú segir:
"Ekki fara rugla saman hlutabréfamörkuðum við almennt ástand í löndum. "
Ég held að það sé alveg óhætt að tengja saman gengi hlutabréfa og almennu ástandi í löndum. Þegar hlutabréfavísitalan á Íslandi var yfir 9000 stigum, þá var hér mesta góðæri Íslandssögunnar. Þegar hlutabréfaverðið íer í 3000 stig jaðrar við kreppu. Ég myndi telja að þarna væri gríðarlega mikið orsakasamband á milli, allt að því bein línuleg fylgni.
joi (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 14:27
"Ég held að það sé alveg óhætt að tengja saman gengi hlutabréfa og almennu ástandi í löndum. Þegar hlutabréfavísitalan á Íslandi var yfir 9000 stigum, þá var hér mesta góðæri Íslandssögunnar. Þegar hlutabréfaverðið íer í 3000 stig jaðrar við kreppu. Ég myndi telja að þarna væri gríðarlega mikið orsakasamband á milli, allt að því bein línuleg fylgni."
Þetta er nú mikil einföldun. Hlutabréfamarkaðir hafa lækkað nánast alls staðar í heiminum en ástandið er misgott. Fall hlutabréfamarkaðarins hérlendis tengist bönkunum. Þetta mun hafa stórkostleg áhrif hér á landi. Heyrirðu einhverja fjölmiðla tala um þjóðargjaldþrot nema á Íslandi. Heldurðu að aðstæður hér séu betri eða jafngóðar og á hinum Norðurlöndunum?
Svo má taka sem dæmi þegar að markaðir hrundu árið 2000 eftir netbóluna. Það hafði ekki mikil áhrif á almennt ástand í löndum. Það skiptir máli hvað það er sem er að hrynja og þess vegna geturðu ekki sett beint samband við hlutabréfamarkað og almennt ástand í löndum.
"Mér er í raun sama hvort um sé að ræða 20% af upphæðum upp að 20 þús evrum eða 20% af heildarupphæðum. Það er ekki aðal atriðið."
Mér finnst mikill munur á því að fara eftir reglum EES en að brjóta þær. Það er vissulega neikvætt að geta ekki endurgreitt allan peninginn í þessum reikningum. En eins og þú segir þá fylgdi þeim áhætta, sem að sveitarfélög og fyrirtæki vissu betur en einstaklingar. Það er því ekki boðlegt að skjótast undan 20 þúsund evra tryggingunni. Af hverju á þetta fólk eitthvað minna skilið tryggingu fyrir féinu sínu en íslenskir ríkisborgarar? Ef við ætlum að líta á okkur sem vestræna þjóð sem vill taka þátt í samstarfi með öðrum slíkum þjóðum þá finnst mér að lágmark væri að greiða trygginguna. Annars erum við bara að brjóta lög.
Egill M. Friðriksson, 16.10.2008 kl. 15:59
Get ekkert borið saman ástandið hér á landi og annars staðar á norðurlöndum. Líklega er það einna verst hér á landi eins og staðan er í dag.
Hlutabréfaverð lækkaði mikið þegar netbólan sprakk:
http://www.vb.is/markadsgogn/Years10
Eins og þarna sést væntanlega, þá lækkaði gengi úrvalsvísitölunnar verulega. Fór úr tæpum 2000 stigum í byrjun ársins 2000 og alveg niður í 1000 stig þegar hún fór lægst. Þeir sem voru að tapa peningum sem þessu nemur á þessum tíma eru þér líklega algerlega ósammála að við höfum ekkert fundið fyrir falli netbólunnar. Þetta ástand núna er vissulega mun verra, enda hefur hér verið greiðsluhalli upp á um 100 milljarða síðustu tvö árin. Það sér hver maður að svona eyðsla umfram tekjur gat ekki gengið endalaust. Auðvelt að vera vitur eftir á, en allir vita að ef menn gangast í of miklar skuldir og ábyrgðir, og færa neysluna í botn, þá endar með að tekjur duga ekki fyrir skuldum og skuldbindingum.
Þú verður bara að gera það upp við sjálfan þig, hvort sparifé og lífeyriseign verði þurrkuð út með einu pennastriki, ávöxtun sem á að heita áhættulítil (ætti að vera áhættulaus amk hvað varðar lífeyrisskuldbindingar) eða hvort við eigum að standa skil á þessu rugli Landsbankans og KB og þeira viðskiptavina. Vil endurtaka að þessir aðilar sem afhentu KB og Landsbanka peningana sína til ávöxtunar var boðin 20% hærri ávöxtun en hæsta ávöxtun sem í boði var áður en þessir aðilar komu á markað. Þetta fólk hefði átt að sjá í gegnum þetta. Áhætta eykst með meiri ávöxtun. Það er ekki flókin hagfræði.
Við eigum að líta á okkur sem vestræna þjóð, við eigum að taka þátt í samvinnu við aðrar þjóðir upp að því marki sem við þurfum ekki að afsala frá okkur því sem tók langan tíma að ávinna, en það þýðir ekki að almenningur í landinu eigi að standa skil á ruglinu í sigurði einarssyn og co. Hann verður bara að græja þetta sjálfur. Ég fyrir mitt leyti er amk ekki tilbúinn til að splassa út 2 milljónum til að standa skil á þessu sukki og rugli í þessum náungum sem komu okkur í þessa stöðu, svo að segja einir og óstuddir. Þú vilt það, þá er það ok. en ég vil það ekki.
Ég er nokk viss um að ef almenningur í landinu ætti að velja á milli þess að líta vel út í augum þjóðar sem kærði okkur fyrir hryðjuverk í síðustu viku og fórna stórum hluta af áunnum lífeyrisréttindum og líklega skuldaánauð næstu árin, eða láta gráðuga breta fá 20% af sínu áhættufé til baka, þá kýs ég síðari kostinn hvenær sem er.
Kannski ættum við að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu? þetta er ekki minna mál en þegar Olafur Ragnar ætlaði að láta þjóðina kjósa um hvort fjölmiðlamenn fengju áfram að vinna yfirvinnu eða ekki hérna um árið. Þetta er mun mikilvægara mál.
joi (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 16:50
Ég trúi Jóa alveg þegar hann segist skrifa 230 slög á mínútu, það eru næstum 4 á hverri sekúndu! Og þvílíkt textamagn að maður á erfitt með að komast fram úr því. En hann hraðles líka, og stundum of hratt, t.d. þegar hann virðist halda að ég hafi lagt til að við tækjum upp danska krónu.
Ég fatta samt ekki alveg hvar ágreiningurinn er nákvæmlega. Ég er ekki að rífast við Jóa um orsakir bankahrunsins, eða um það að menn hafi farið of geyst, o.s.frv. Ég segi bara að við erum núna í krísu nr. 2 vegna krónunnar, sem við hefðum sloppið við annars. Og sú krísa er verulega alvarleg og þarf að leysast mjög fljótt. Jói er kannski ekki búinn að átta sig á því en það vill enginn kaupa krónur, eiga krónur, lána krónur, eða senda krónur milli landa. Það ástand mun drepa íslenskt atvinnulíf og koma almenningi verulega í koll á örfáum vikum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.10.2008 kl. 23:50
Í dag stöndum við Íslendingar að það treystir okkur enginn. Við fáum ekki peninga borgaða erlendis frá og getum ekki borgað okkar neyslu erlendis. Fyrirtæki í innflutningi og útflutningi eru að verða stopp. Hin fyrirtækin eru ekki að kaupa vörur og búa til þessi margnefndu margföldunar áhrif.
Það þýðir á íslensku að íslenska hagkerfið er að bráðna niður. Fólk missir vinnuna ekki af því að því er sagt upp, fyrirtækin fara á hausin.
Nýju bankarnir ætla að passa sig og lána ekki / veita ekki fyrirgreiðslu. Þrátt fyrir atbeina stjórnvalda.
Þetta ástand hefur ekkert með krónuna að gera. Þetta hefur með traustið að gera sem við eigum ekki lengur.
Krísustjórnunin er gjörsamlega að bregðast og ef þetta ástand lagast ekki strax á mánudag/þriðjudag í næstu viku þá er voðin vís.
Þegar við höfum aflað okkur trausts aftur getum við farið að ræða það, hvaða myntir við ætlum að taka upp og hvernig við "geirneglum" krónuna á aðlögunartímanum. Mér dettur því í hug að spyrja, hvernig ætlum við að afla okkur trausts aftur þannig að okkur sem gerðum ekkert, verði gerlegt að lifa hér.
Árni (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 00:01
Ég er því miður ósammála þér Árni. Ef við værum með evru væri eina vandamálið tæknilegir greiðsluerfiðleikar í gegn um kennitöluflakks-bankana þrjá. Icebank (sparisjóðir), MP, Straumur og aðrir gætu afgreitt evrur eins og ekkert væri. Fólk og fyrirtæki myndu einfaldlega geta flutt bankaviðskipti sín til HSBC ef því sýndist svo. Munurinn á ríkinu og bönkunum væri mun skýrari.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.10.2008 kl. 00:29
Getum við ekki bara reddað krónunni með því að taka upp gullfót?
Sigurður B (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 08:50
Drífa sig bara í evruna, hætta þessu rugli, þessi falska "sjálfstæðisbarátta" okkar er búið að kosta okkur andskoti nógu mikið.
Jón Gunnar Bjarkan, 17.10.2008 kl. 08:56
Spot on Villi, ef við værum með Evru og seðlabankastjóra sem væri talsvert heill á geði þá væri vandamálið minna. Ef við værum svo komnir í aðilarviðræður í ESB og búnir að biðja um EMU aðild þá væri ástandið annað.
Þannig að núna gildir að ná upp trúverðuleika og þá kannski, bara kannski, bráðnar ekki hagkerfið niður í ekkert.
Árni (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 14:35
En áður en við sækjum um aðild að ESB þarf að vera komið nokkurn veginn á hreint hvað það myndi þýða fyrir okkur gagnvart náttúruauðlindum okkar. Myndum við hafa óskoruð yfirráð yfir þeim áfram, eða myndi sambandið koma með puttana í þær og taka af okkur ráðin.
Þetta finnst mér afar mikilvæg spurning sem Samfylkingin, sem annað stærsta aflið í stjórnmálum í landinu í dag, þyrfti að vera búin að koma klárlega á hreint fyrir næstu kosningar, svo maður viti hvar á að krossa. Í síðustu kosningum treysti ég mér ekki til að kjósa flokkinn vegna þessa, svo ég sleppti því að kjósa, gat hvorki hugsað mér að kjósa íhaldið eða rugludallana í hinum flokkunum.
"Stuðningsyfirlýsing" ESB við okkur gerir ekki þennan kost fýsilegri, þar er talað niður til okkar, en hvergi minnst á Breta, hvað þá sett ofan í við þá fyrir að beita aðra Evrópuþjóð hryðjuverkalögum, sem aldrei hefur átt aðrar erjur við grannþjóðir sínar en þorskastríðið.
Þó við höfum gert okkur sek um dramb og hroka á alþjóðavettvangi, þá réttlætir það ekki svona vinnubrögð af hálfu Breta. Manni finnst það ekki benda til áhuga á að fá okkur inn í sambandið að hvergi skuli ýjað einu orðið að þessari svakalegu framkomu aðildarríkis í okkar garð. Þó við stöndum utan sambandsins þá erum við enn í Efnahagsbandlaginu, þó við höfum beðið skipbrot á alþjóðavísu.
Ég sé ekki betur en að verið sé að hrekja okkur í fang Rússa með þessu móti.
Hins vega líst mér albest á að reyna að styrkja tengslin við Asíulönd til framtíðar, því þar mun uppgangurinn verða þegar frá líður. - En þá þurfum við að stórbæta okkur í mannasiðum fyrst!
Greta Björg Úlfsdóttir, 17.10.2008 kl. 15:24
Maður bíður eftir yfirlýsingu frá Nató núna, verður fróðlegt hvað þeir segja. Vitanlega erum við ekki lengur eins hernaðarlega mikilvæg fyrir sambandið og áður.
En auðvitað skíttöpum við kosningu til öryggisráðsins núna við þessar aðstæður, ég held við hefðum átt að hafa manndóm til að hætta við framboðið heldur en að gera okkur að athlægi með því að deila út rjómapönnukökum!
En Íslendingar hafa víst aldrei vit á því að hætta.
Þetta er orðinn útúrdúr við efnið, vona að mér fyrirgefist.
Greta Björg Úlfsdóttir, 17.10.2008 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.