Hvað misfórst? - Vandinn í hnotskurn

Egill Helgason og fleiri eru að reyna að finna sökudólga og nornir til að brenna, en umræðan er ennþá fálmkennd og óljós.  Hér er mín greining á því sem misfórst, í hnotskurn og aðalatriðum:

  • Bankar fóru offari í að lána til eignarhaldspýramída þar sem rekstrarfélög voru skuldsett upp í topp, síðan eignarhaldsfélög sem áttu rekstrarfélögin, og svo hluthafar eignarhaldsfélaganna einnig.  Með þrefaldri gírun á hverju þrepi var heildargírun undirliggjandi rekstrar orðin sirka 27-föld og eigið fé innan við 4%, þannig að ekkert mátti út af bera áður en pýramídinn hrundi.  Þarna vantaði bæði varkárni af hálfu bankanna og eftirlit/reglur.
  • Bankar fóru fram hjá reglum um lánveitingar til hluthafa í gegn um peningamarkaðssjóði og aðra sjóði á vegum rekstrarfélaga sinna.  Peningamarkaðssjóðir, sem áttu að vera öruggir og auðseljanlegir (liquid) keyptu jafnvel tregseljanleg fyrirtækjabréf á borð við bréf Stoða og Baugs.  Þetta voru forkastanleg vinnubrögð.  Þarna brugðust sjóðsstjórar, stjórnendur bankanna og Fjármálaeftirlitið, og hlýtur að koma til álita hvort farið hafi verið út fyrir ramma laga og reglna.
  • Bankar byggðu á frelsi EES til að sækja innlán til Evrópulanda af miklu kappi.  Að hluta var þetta gert í gegn um útibú en ekki dótturfélög, og þar af leiðandi á ábyrgð íslenskrar innistæðutryggingar.  Tryggingasjóður innlána var aðeins 1% af upphæð innlána og allt of lítill til að anna þessu verkefni.  Hér brugðust Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, sem hefðu átt að tempra magn innlána sem tryggð voru á Íslandi, eða láta bankana leggja miklu stærri upphæðir í tryggingasjóðinn.
  • Bakland bankanna var of veikt til að styðja þá í hröðum vexti og síauknum skuldbindingum í erlendri mynt.  Seðlabankinn hefði annað hvort þurft að slá á vöxtinn með sínum verkfærum (m.a. bindiskyldu) eða - það sem best hefði verið - að við hefðum átt að færa okkur yfir í ESB og evru fyrir löngu.  Þá væri ekki sá stóri gjaldeyrisvandi sem nú blasir við.

Á meðan allt ofangreint var í gangi, var peningamálastefna Seðlabankans aðeins til þess að hella olíu á eld.  Krónunni var haldið of sterkri með hávaxtastefnunni, meðan gjaldeyrissjóði var ekki safnað til mótvægis.

Þetta er í hnotskurn það sem misfórst - og hin alþjóðlega fjármálakreppa var svo skjálftinn sem felldi spilaborgina.

P.S. Hér er fín greining úr Financial Times, eftir Richard Portes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: katrín atladóttir

þú ert uppáhalds bloggarinn minn þessa dagana

katrín atladóttir, 12.10.2008 kl. 17:49

2 identicon

Trúir þú því í alvöru að evran hefði breytt einhverju? Sameiginlegt bankabjörgunarátak ESB er fyrst að komast á koppinn núna (vonandi) og þetta var gríðarlega mikið fé sem að þessir fjölþjóðlegu bankar þurftu að afla sér. Ég á erfitt með að sjá að það hefði bjargað neinu þótt að tekjur þeirra innanlands hefðu verið í evrum. Bönkunum hefði tekist að flytja meira fjármagn út úr landinu áður en þeir gáfu upp öndina en er það ekki allt og sumt? Ég á erfitt með að sjá að evran hefði skapað þeim nógu mikið lánstraust til þess að bjarga þeim úr hörmungum á borð við þær sem ganga yfir.

Voru þetta ekki 1600 milljarðar sem þurfti til að þrauka yfir áramót? Stórir gjalddagar á leiðinni þá og Guð einn veit hvað þá hefði verið farið í afskriftir, hér sem erlendis.

Þeir höfðu aðgang að evrópska lausafjármarkaðinum og ECB veitir ekki þrautavaralán. Það hlutverk hefði samt sem áður verið í höndum SÍ.

Svo er það spurningin hvaða stöðu við værum í núna ef að við værum með evru og bankarnir hefðu hrunið samt.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 19:49

3 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Trúir þú því í alvöru að evran hefði breytt einhverju?

Evran ein og sér hefði ekki bjargað bönkunum eins og á stóð. En þeir hefðu ekki tekið allt fjármálakerfi þjóðarinnar með sér í fallinu -  og þar skilur helvíti mikið á milli.

Atli Hermannsson., 12.10.2008 kl. 20:51

4 Smámynd: Calvín

Góð og örugglega rétt greining eins langt og hún nær. Var þetta þá ekki allt Dabba að kenna og Seðlabankanum? Hvað með fjármálaeftirlitið? Hvað með viðskiptaráðuneytið og fjármálaeftirlitið þ.e. þátt stjórnmálamanna í þessu? Hver er ábyrgð þeirra?

Calvín, 12.10.2008 kl. 21:09

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Takk Katrín, þetta var óvænt og vel þegið hrós frá fyrsta íslenska ofurbloggaranum!

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.10.2008 kl. 21:20

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Atli, ég er sammála: bankarnir hefðu sennilega farið á hausinn hvort eð var (útlánin hefðu fellt þá í stað lausafjárþurrðar).  En krónan veldur okkur verulegum búsifjum núna og í næsta fasa kreppunnar.

Calvín, ég bendi einmitt á að Fjármálaeftirlitið á sinn hlut í þessu og sjálfsagt einnig stjórnmálamennirnir fyrir að greina ekki vandann áður en ósköpin dundu á.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.10.2008 kl. 21:23

7 identicon

Telur þú sumsé að neyðaraðgerðirnar hefðu verið mögulegar ef íslenska ríkið hefði ekki myntsláttuvald?

Er ekki mögulegt líka að við værum (fyrst þjóða?) búin að sprengja okkur út úr myntsamstarfinu og sætum uppi með verðlausar Íslands-evrur sem væru stærra vandamál en tímabundið vantraust á krónunni?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 22:25

8 identicon

Minni á að fyrir hálfu ári fannst þér vitlaust að auka bindiskylduna 

Gullvagninn (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 23:49

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Touché, Gullvagn.  En ég er reyndar aðallega að herma þessi bindiskyldurök upp á Davíð Oddsson; hann sagðist í Kastljóssviðtalinu fræga hafa varað við vexti bankanna, en Seðlabankinn hefði getað notað bindiskyldu til að hemja hann.  Ég er ekki jafn tortrygginn og Davíð á vöxt bankanna sem slíkan, ef baklandið hefði getað fylgt honum eftir - þ.e. ef lánveitandi til þrautavara hefði verið fyrir hendi í evrum.  (Og innistæðutryggingar, og betra Fjármálaeftirlit...)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.10.2008 kl. 23:55

10 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Hvað segir þú Hans Har, það væri nú alveg bara hræðilegt að sitja uppi með "verðlausar Íslands evrur". Mikið betra að sitja uppi með verðlausar Íslands Krónur. Hvað eru annars "Íslands Evrur" í þínum hugarheimi.

Hún er orðin sjúkleg þessi barátta Evru-fóbíanna, að finna rök. Þjóðin hefði ekki þurft að ganga í gegnum 70-100% hrun á gjaldmiðli sínum til viðbótar við heimskreppu!

Jóhannes Snævar Haraldsson, 13.10.2008 kl. 10:01

11 Smámynd: Jens Ruminy

Jú, þessi grein úr FT er ágætt og þar er önnur úr FTD þar sem hálf-Íslendingur sem býr í Þýskalandi en hefur reglulega heimsótt Ísland greinir m.a. einfaldlega:

Hvernig getur 300.000 manna þjóð verið með FME sem fylgjast ekki bara með því sem gerist heima heldur líka með öllu sem ofurvöxnu bankarnir gera í útlöndum? FME gat það einfaldlega ekki því það vantar mannauð til þess.

Og jú, ESB aðild hefði bjargað mörgu því með aðild er venjulega komið á myntsamstarf (einungis Svíþjóð og Bretland eru ekki með) til að koma á samsveiflu á efnahaginn. Sem sagt hefðu þá ECB og SÍ unnið saman að því að gengi krónunnar sveifli ekki of geyst. Þar hefði hún ekki orðið eins sterk og hún varð á síðustu árum og mörg 'tækifæri' ekki skapast sem liggja nú þungt á þjóðinni í formi erlendra lána. Á hinn boginn hefði ECB nú stytt SÍ til að verja krónuna ef ekki Ísland væri komið nú þegar með Evru. Með Evrunni hefði Ísland einfaldlega verið aðildi að stórum og traustum gjaldmiðli, engin verðbólga orðin til eingöngu vegna gengisfalls o.s.fr.v.

En það er rétt, Evran í sjálfri sér bjargar engan frá fjármálakreppunni sem heimurinn allur er að glímast við núna. Að ríkin innan ESB eiga enn eftir að samræma aðgerðir sínar að fullu sýnir fram á það að ESB-aðild þýðir ekki að fullveldi er afsalað, ESB er enginn hægindastóll þar sem menn láta sig hverfa til að aðrir leysi vandamál manns/ríkis. En eru fullvelt ríki að taka ákvörðun, ekki nein ofurstjórn í Bruxelles.

Nú er langt í (Evru)land og róðurinn verður mjög þungur. Kaldhæðnislegt allt saman að einmitt helstir andstæðingar ESB-aðildar meðal stjórnmálamanna hafa með sinni sjálfstæðis-kreddu (við getum og gerum allt sjálf alveg eins og Bandaríkin) komið landið í þeirri klípu að nú þurfi það hreinlega að fara bónferðir (til Moskvu, um ESB-aðild) og er þá kannski verra statt í viðræðum heldur þegar Ísland var eftirsóknaverðari  aðili.

Enn veldur það á Sjálfstæðisflokknum hvort og hvenær gengið verður í ESB, aðrir flokkar geta eða þora ekki að taka málið upp að fullu núna, og ef af aðild verður getur þjóðin hugsanlega þakkað Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa ákveðið að sækja um. Hinir flokkar virka nú frekar ráðalaus hvað því varðar. Hvort sem manni líkar við Sjálfstæðisflokkinn eða ekki er stjórn án hans varla hugsanleg eins og er.

Jens Ruminy, 13.10.2008 kl. 11:08

12 identicon

Þakka þér fyrir raunsæja greiningu á atburðarásinni. Þetta er eflaust nærri lagi. Það er líka fróðlegt að velta fyrir sér af hverju við höfum komið okkur í þetta (þ.e. altækum skýringum en í stað nærtækra). Kannski er fólksfæðinni um að kenna. Ef við skoðum aðrar þjóðir af svipaðri stærð þá erum við algert útgildi hvað varðar yfirbyggingu. Aðrar örþjóðir reyna ekki einu sinni að halda úti viðlíka flóknu kerfi og við. Við höfum einfaldlega ekki nóg af fólki sem hefur bæði getu og áhuga til að manna Alþingi og mikilvægar ríkisstofnanir (eins og Seðlabankann). Eina leiðin er að notfæra sér vinnu annarra við utanumhald eins og kostur er, t.d. með því að ganga í ESB. Ástæðum þess að við höfum reynt að keyra hér upp jafn margslungið þjóðfélagskerfi og raun ber vitni má svo kannski leita í þjóðarsálinni...

Grétar (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 13:43

13 identicon

Hvernig er það voru nornir ekki brenndar vegna galdra?  Það voru engnir galdrar hjá hetjum okkar útrásarvíkingunum.  Þetta er allt saman skiljanlegt, þó svo að seðlabankastjóri hafi ekki skilið útrás bankanna svo skrítið sem það er verandi í þessu starfi.

Þó svo það hafi ekki komið fram í fjölmiðlum þá gátu íslensk stjórnvöld bannað íslenskum banka að stofna útbú erlendis í samræmi við EES-reglur.

Eyjólfur (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 13:50

14 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

En hvað merkir það að eigið fé bankanna var opinberlega vel yfir 11% og „með því hæsta sem gerist“ eins og sagt var? - og að Glitnir taldist daginn eftir að neyðarlögum var beitt á hann tækur í kauphöllina þ.e. uppfyllti öll skylyrði um eigið fé og rekstrarlega þætti? - Ég sé ekki betur af því litla sem ég veit um málið að bankarnir hafi stöðvast þegar lánalínur til þeirra voru klipptar fyrst vegna gjaldþrots Lehman Brothers og svo vegna lækkaðs greiðslumats ríkisins eftir yfirtöku Glitnis sem svo aftur olli lækkuðu greiðslumati ríkis sem eftur lækkaði greiðslumatið á bönkunum - og þá var klippt á lánalínur Landsbankans sem svo leiddi til lokunar Kaupþings í Englandi. - Sé enn ekki hvar útlánastefna bankanna, eigið fé eða krosseignatengsl komi inn sem orsök að þessu.

Helgi Jóhann Hauksson, 13.10.2008 kl. 14:04

15 identicon

Þetta er nokkuð "spot on" hjá þér.  Þó vantar í þetta punktinn með að hlusta.   Þá á ég við að margir sérfræðingar, þú t.a.m., og aðrir málsmetandi menn voru marg búnir að vara við ástandinu en pólitíkusarnir skelltu skollaeyrum við þessu.  Veit eiginlega ekki hvar á að byrja í því sambandi. 

Þeir horfðu bara á "álagspróf" og CAD hlutföll og mælikvarða sem mæla í raun ekki "hitann" í kerfinu. 

Það eru svo margir sem gerðu mörg mistök í öllu þessu og núna sitjum við í skuldafeni dauðans sem er stórt vandamál, en með gjaldmiðil sem er verðminni en monopoly dollarar.  Þannig að vandinn er tvöfaldur.  Nóg væri ef vandinn væri einfaldur. 

Síðan mun það gerast í nóvember að fyrirtæki munu fara í greiðslustöðvun hvert af öðru, og þá er þetta endanlega farið.  Það er ekkert í stöðunni sem segir mér að annað gerist. 

Árni (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband