4.10.2008 | 14:20
Æ tóld jú só
Beturvitrungurinn í mér krefst þess að fá útrás, með því að endurbirta færslu af þessu bloggi sem upphaflega birtist 21. janúar síðastliðinn (fyrir rúmlega 8 mánuðum). Feitletranir eru nýjar:
Krísa í vændum; Seðlabankinn í vanda
Nú hrannast upp óveðursský á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Á eftir undirmálslánunum kemur skuldatryggingakrísa þar sem í ljós mun koma að ýmsir sem selt hafa slíkar tryggingar geta ekki staðið við þær þegar á reynir (sbr. AMBAC, MBIA o.fl. í Bandaríkjunum). Fleiri dómínókubbar munu falla, og valda bönkum búsifjum. Þeir hamstra lausafé á viðsjárverðum tímum og hætta að lána peninga, sem aftur kemur illa við fjölmörg fyrirtæki sem eru veðsett upp í rjáfur eftir skuldsettar yfirtökur. Bandarískir neytendur eru að vakna með timburmenn eftir eyðslugleði undanfarinna ára sem hefur verið fjármögnuð með ódýrum húsnæðislánum og glórulausum fjárlagahalla. Kreppa þar í landi smitar út frá sér og hefur áhrif á hagkerfi heimsins.
Á Íslandi þýðir þetta að aðgangur bankanna okkar að lánsfé erlendis verður erfiðari og lánin verða dýrari. Bankarnir draga þar með úr lánveitingum og vaxtamunur þeirra hverfur, verður reyndar neikvæður.
Krónunni hefur verið haldið uppi með hávöxtum en jafnvel það mun ekki duga þegar alþjóðlegir fjárfestar flýja yfir í öruggari hafnir.
Seðlabankinn er milli steins og sleggju; hann á erfitt með að lækka vexti án þess að styggja jöklabréfaeigendur og spákaupmenn enn frekar, sem veldur krónufalli og verðbólgu. Hins vegar er orðið verulega nauðsynlegt að huga að öðru markmiði bankans, sem er stöðugleiki fjármálakerfisins. Bankakerfið vantar aðgang að lausafé og það gerist ekki nema krónum verði dælt inn í kerfið og vextir verði lækkaðir.
Við endum í krísu og ég sé enga leið út úr henni nema að taka upp evruna eins og hratt og hægt er, enda var aðeins tímaspursmál hversu lengi krónan - þessi örmynt - gæti átt sjálfstætt líf á samtengdum fjármálamörkuðum heimsins.
Á meðan þetta gengur yfir ráðlegg ég engum að kaupa hlutabréf og allra síst í bönkum og fjármálafyrirtækjum, en bendi enn og aftur á ríkistryggð og verðtryggð skuldabréf (HFF). Þau eru langskynsamlegasti innlendi fjárfestingarkosturinn í þessari stöðu, og reyndar öfundsverður valkostur fyrir fjárfesta í alþjóðlegu samhengi. Vona að sjóðsstjórar lífeyrissjóða átti sig á þessu en er ekki bjartsýnn á það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.