3.10.2008 | 14:33
Næsta kynslóð beðin afsökunar
Í fyrradag tók ég í hönd sonar míns, sem verður 21 árs í nóvember, og bað hann afsökunar fyrir hönd minnar kynslóðar á því að við skilum af okkur gjaldþrota þjóðarbúi.
Hann hefur góða dómgreind og er því að læra klassísk fræði, þ.m.t. grísku og latínu, í Háskóla Íslands. Það er menntun sem mölur og ryð fá ekki grandað.
Í sígildum bókmenntum er margur vísdómurinn um mannlegt oflæti og fall þeirra sem fara með himinskautum. Vængir úr vaxi bráðna jú þegar flogið er of nærri sólinni, eins og Íkarus fékk að reyna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll; Vilhjálmur !
Þakka þér; íhugunarverða hugvekju. Skelfilegt yrði; þyrftu börn okkar (dóttir mín er tvítug, og nemur snyrtifræði, við Fjölbrautaskólann í Breiðholti) að kljást við þessar illu eftirstöðvar ofurgróðahyggju samtímans, sem líklegt er, að óbreyttu. Vonum hins vegar, hið bezta, enn um stund, og til sólar mætti sjá, á ný.
Skila þú kveðju minni, til sonar þíns. Hann er greinilega, greindur vel, sem grandvar, og iðkar; einmitt, þau fræði, fyrir hverjum mér lágu, á hans aldursskeiði, þótt atvik höguðu svo, að ég hvarf til liðveizlu, við landbúnað- sjávarútveg og málmiðnað, hverju ég sé ekkert eftir, enda, ......... oftsinnis, glugga ég í forna texta, þá tóm gefst til, að nokkru.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 14:55
Bara í hreinskilni þá fékk ég tár í augun að lesa samskipti ykkar, þau endurspegla svo mikið.
Halldóra, þú (og vonandi eru einhverjir fleiri á þinni línu) eru stolt og von okkar þjóðar, þetta er hið sanna Víkinga viðhorf. Þið eigið ærið verk fyrir höndum, en vonandi að lokum munið þið skila ykkar afkomendum betra búi - og þá á ég ekki við í efnahagslegum gæðum, þjóðin mun sennilega aldrei "halda" að hafi haft það eins gott og 2007.
Þitt blákalda mat er að mínu mati mitt blákalda mat líka (en er að sennilega nær Vilhjálmi en þér í aldri). En ef þín viðhorf skila sér áfram til næstu kynslóða þá óttast ég ekki, eins og ég hef oft gert á síðustu árum. Þú ert greinilega mjög vel gerð ung kona (og ef ég væri Vilhjálmur þá myndi ég bjóða þér í mat og kynna þig fyrir hinum vel gerða unga syni :-) En án alls gríns - girl, you impressed me!
XXX
ASE (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 22:47
Mér datt þetta nú ekkert í hug. Að biðjast afsökunar? Ung dóttir mín 19 ára horfir með miklum áhuga á allar fréttir núna og fylgist í fyrsta skipti með gangi þjóðmála svo ég viti. Ég lít á þetta sem afar góða lexíu í hagfræði og hvet hana til að læra af þessu. Hún er af skyndibitakynslóðinni og hún hefur gott af að kynnast því að svona líf eins og hefur verið á Íslandi undanfarin ár er ekki það besta, ekki það réttlátasta og alveg úr takti við virðingu fyrir umhverfi okkar og þeim öðrum sem við deilum jörðinni með.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 4.10.2008 kl. 01:03
Það mætti samt halda að "Gamla" kynslóðin sé dáin eða sé í andarslitunum.
Þetta bjargast og ef ekki þá förum við bara að skipta á rollum í stað peninga.
Engin ástæða til að stressa sig á hlutum sem eru ekki í manns höndum. Maður gerir bara það sem maður getur og lætur drauma sína rættast. Ef allt fer til helvítis sem það virðst ætla að gera þá gerist það og annað "ástand" tekur við.
Kveðja Næsta kynslóð :)
Ragnar (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 01:13
Tvennt finnst mér undarlegt við þessa færslu.
Það fyrra er að höfundur sem ekki er orðinn fimmtugur talar eins og hann sé sestur í helgan stein. (Talar um að skila af sér....) Það má vel vera að Villi sé sestur í helgan stein, en það er þá vegna velgengi og auðs, en ekki aldurs. Forritunarbeinið í honum er varla orðið svo stökkt að hann geti ekki pússað það aðeins ef á þarf að halda.
Hitt er fullyrðingin um gjaldþrota þjóðarbú. Hvaða rugl er þetta? Bankakerfið siglir erfiðan sjó núna og margir hafa tapað og munu tapa hlutafé. Það þýðir ekki að þjóðarbúið sé gjaldþrota.
Kjartan R Guðmundsson, 4.10.2008 kl. 22:14
Því miður er vandinn sá að það vill enginn lána okkur evrur eða selja okkur þær í skiptum fyrir krónu. Það þýðir að bankarnir geta ekki greitt erlend lán sín á gjalddaga, sem aftur þýðir að þeir þurfa að leita eftir greiðslustöðvun og við það gjaldfalla öll lán þeirra. Þetta er vandinn sem verið er að reyna að leysa núna yfir helgina.
En vissulega kemur dagur eftir þennan dag og mannauður okkar mun halda áfram að skapa verðmæti.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.10.2008 kl. 23:06
Ég verð nú að bæta við, eftir atburði gærdagsins, að VÞ var nú óþægilega nálægt sannleikanum. Jafvel forsætisráðherra talaði um möguleika á þjóðargjaldþroti.
Vissulega eru það aðallega þeir sem hafa gamblað mest sem tapa mestu, en stór hópur ungs fólks, kynslóðin í kringum þrítugt, mun fara illa út úr þessu. Fólkið sem tók myntkörfulán til að kaupa húsnæði og bíla.
Kjartan R Guðmundsson, 7.10.2008 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.