Enn um verðmæti Glitnisbréfa

Á föstudaginn var lokagengi hlutabréfa Glitnis 15,7 og útgefnir hlutir 14,9 milljarðar talsins, sem þýðir að markaðsverðmæti bankans var 234 milljarðar.  Eigið fé hans var sléttir 200 milljarðar um mitt ár, þannig að fjárfestar voru tilbúnir að greiða 1,17 krónur fyrir hverja krónu eigin fjár á föstudaginn.

Í dag (þriðjudag 30. september) var lokagengi GLB 4,55 og útgefnir hlutir verða væntanlega 59,6 milljarðar ef díllinn hans Davíðs gengur í gegn.  Markaðsverðmæti bankans er þá 271 milljarður, og eigið fé bankans væntanlega 286 milljarðar (200 plús nýja hlutaféð frá ríkinu).  Nú eru fjárfestar þannig tilbúnir að greiða 0,95 krónur fyrir hverja krónu eigin fjár.

Þessa lækkun má skýra með því að fjárfestar telji að eitthvað hafi gengið á eigið fé bankans frá lokum 2. ársfjórðungs eða a.m.k. að líkur á afskriftum lána hafi aukist.  Jafnframt hefur komið í ljós, með dramatískum hætti, að fyrri yfirlýsingar bankans um lausafjárstöðu og fjármögnun á þessu ári og næsta mörkuðust af óskhyggju, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Verðmatið hefur í þessum þrengingum færst nær því sem gengur og gerist um norræna og norður-evrópska banka um þessar mundir. Þannig er verð hverrar krónu eiginfjár 0,73 hjá Svenska Handelsbanken, 0,86 hjá DnB NOR og 0,85 hjá Danske Bank (skv Thomson Financial).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Villi,

Þú ert með öðrum orðum að segja að Hrói höttur helgarinnar hafi verið að leiðrétta virði bankans handvirkt í morgunsár mánudagsins.. en hvert er þá verð hverrar krónu eiginfjár hjá gamla búnaðarbankanum og banka allra landsmanna ?

kv, Bergur

Bergur Ólafs. (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 16:32

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll Bergur!

Kaupþing kostar 1,16 krónur og Lansinn 1,11 á hverja krónu eigin fjár eftir daginn í dag.  Hreinskilnislega sagt þá finnst mér íslensku bankarnir vera dýrir, ennþá, miðað við banka erlendis, og það hald mitt að það séu talsverðar afskriftir í pípunum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.10.2008 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband