20.9.2008 | 23:39
Skortsala stuðlar að réttari verðmyndun á markaði
Yfirvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi eru tilbúin að ganga furðu langt í því að fikta við gangverk markaðarins. Þau brúka fé skattborgara til að kaupa hlutafé og lánasöfn, og hjálpa þannig fyrirtækjum sem hafa komið sér í klemmu með óabyrgri og skammsýnni stjórnun. Nýjasta vendingin er að banna skortsölu (short selling) hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum. Örlað hefur á slíkum hugmyndum í innlendri umræðu, m.a. í Fréttablaðinu í dag (laugardag).
Á markaði mætast mismunandi skoðanir og mat manna á verðmætum. Sumir kaupa meðan aðrir selja, á verði sem báðir telja viðsættanlegt. Um leið og krukkað er í þetta gangverk, verður verðmyndun óeðlileg, og það er engum til góðs til lengri tíma litið.
Á Íslandi hefði gjarnan mátt vera virkari skortsölumarkaður þegar mesta ruglið gekk yfir á hlutabréfamarkaði, þegar FL Group nálgaðist gengið 30 svo dæmi sé tekið. Skortsalar hefðu þá skipst á skoðunum við bolana með öflugri hætti og verð hefði náð jafnvægi á eðlilegri og skynsamlegri slóðum.
Skortsalar vigta sífellt vænta ávöxtun hlutabréfa á móti öðrum vöxtum sem bjóðast, t.d. á innlánum eða ríkisskuldabréfum. Með virkari skortsölumarkaði bíta vaxtahækkanir Seðlabanka mun betur á hlutabréfamarkaðinn en ella, og kæla hann niður, eins og til er ætlast.
Skortsölumarkaður á Íslandi hefur verið lítill, einkum vegna þess að lífeyrissjóðum er ekki heimilt að lána bréf úr söfnum sínum. Ég tel að það yrði til bóta, og vísa til reynslunnar af ítrekaðri ofhitnun markaðarins hér, að rýmka reglur um skortsölu frekar en að herða þær.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.9.2008 kl. 01:12 | Facebook
Athugasemdir
Löngu tímabært að tryggja öflugan skortsölumarkað hérlendis. Það er hins vegar vægast sagt undarleg ráðstöfun að banna skortsölu í BNA og Evrópu á næstunni og hlýtur að kalla á mikil vandræði, vantraust, skaða og málshöfðanir.
Jón Helgi (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 16:26
Ekki má gleyma því að skortsala er miklvægt verkfæri til þess að draga úr áhættu í viðskiptum. Skortsala þarf ekki endilega að þýða að seljandi sé að taka afstöðu gegn undirliggjandi bréfi, en þarf hinsvegar að tryggja sig gegn verðlækkunum.
Sigurður B (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 19:12
Ég er alveg sammála, um leið og við förum að krukka í regluverkið, þá er verið að fara inn á braut miðstýringar, sem alltaf hefur endað í ógöngum. Skortsala, geta líka tapað, en það sem er merkilegast við alla þessa umræðu alla er hversu lítið mark er að taka á greiningadeildum bankanna. Þeir virðast als ekki skoða bakgrunn fyrirtækja, samsetningu eigna þeirra, hversu stór hluti þess sé í öðrum fyrirtækjum og hvernig fyrirtækjum, hversu stór hluti eru raunhæf verðmæti eins og vélar og hús, og svo ég tali nú ekki um viðskiptavild fyrirtækjanna, sem er oft margföld önnur verðmæti, og virðist geta vaxið endalaust.
Kristinn Sigurjónsson, 21.9.2008 kl. 22:48
Já það er merkilegt hve hin frjálsi markaður er í raun miðstýrður. Óábyrgar ákvarðanir og gjaldþrot í banka/fjármálageira eru í raun "lagfærð" af hinu opinbera á meðan óbreyttir pylsu og pizzu salar fá enga slíka meðferð. Merkilegt. Sannast aftur sagan af Jóni og Séra Jóni.
Að vísu grunar mig að "skortsala" á íslensku krónunni meðfram undirmálslánakrísunni hafi gert krónuna mun verðminni en ella. Er ég einn um þá skoðun? Maður heyrir allavega af hópum manna sem ýmist eru "með" í stuttan tíma og svo "á móti" í stuttan tíma. Hefur þú Vilhjálmur heyrt um slíka gjörninga?
Árni (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 23:23
Já, það er fullkomlega eðlilegur hluti af hinum alþjóðlega gjaldeyrismarkaði, að menn eru "langir" í einum gjaldmiðli og samtímis "stuttir" í öðrum. Flestar gjaldeyrisstöður eru nákvæmlega þannig. Í raun er þá tekið lán í einni mynt og sett í innlán í annarri. Það hefur verið vinsælt að vera "langur" í krónu og "stuttur" í lágvaxtamyntum á borð við jen og franka, vegna þess að þá fá menn vaxtamuninn "með sér", sem hagnað. Það er að segja, á meðan krónan veikist ekki. En undanfarið, með vaxandi áhættufælni, snúa margir viðskiptunum við og eru "stuttir" í krónu og "langir" í öðrum traustari gjaldmiðlum á borð við franka eða norska krónu. Svona er einfaldlega eðli markaðarins, og við þetta verða menn að sætta sig ef gjaldmiðillinn er sjálfstæður og fljótandi á annað borð.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.9.2008 kl. 00:26
Frábær umræða, og það voru skortsalar sem fyrst leiddu athyglina að Enron!
Sverrir Agnarsson (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.