Er hraðfrysting skynsamleg?

Seðlabankinn virðist hafa ákveðið að hraðfrysta hagkerfið.  Verðbólga um þessar mundir er einkum vegna veikingar krónunnar en að hluta vegna hækkana á heimsmarkaðsverði hrávara.  Bankinn getur ekkert gert við hækkunum á hrávörum.  Hann er að reyna að stöðva veikingu krónunnar en vegna stíflu á gjaldeyrisskiptamarkaði (swap markaði) hefur hækkun vaxta lítil sem engin áhrif í þá átt.  Þá er aðeins eftir sá möguleiki að valda lækkun húsnæðisverðs til að keyra niður verðbólgu.  Þar virðast liggja helstu væntingar bankans til þess að ná verðbólgumarkmiði sínu.

Vissulega er verðbólga vond og margt má til vinna að berja á henni, en það er engu að síður ástæða til að staldra við og spyrja: er "lækningin" ef til vill verri en sjúkdómurinn?

Að óbreyttu blasa við gjaldþrot lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem stýrivextirnir bíta mest á.  Eignir fjölda heimila rýrna þannig að þær verða minni en skuldirnar.  Og ýmis stærri fyrirtæki sem skulda í erlendri mynt sjá eigið fé sitt rýrna með krónunni.  Ef ekki er gripið til annarra aðgerða en að hækka sífellt vexti, klárast trúverðugleiki krónunnar og efnahagsstjórnarinnar almennt.  Fyrir rest verða spákaupmennirnir banabiti okkar litla og sæta gjaldmiðils.

Vonandi skilja ráðamenn þjóðarinnar alvarleika málsins.  Það verður að leggja meiri hugsun í stöðuna en sjáanlegt er að gert hafi verið.

 

P.S. Fáar fjárfestingar geta keppt við 15,5% áhættulausa vexti í boði Seðlabankans, þ.m.t. hlutabréf.  Meira að segja hin eldtraustu og verðtryggðu HFF skuldabréf eiga í vök að verjast.  Ég mæli með að fjárfestar haldi sig í reiðufé, í stuttum innlánum. Peningamarkaðssjóðir sem eiga fyrirtækjapappíra eru að mínu mati, og því miður, varhugaverðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er orðin ein hringavitleysa og ég held að guðfaðir íslenska hluta kreppunar sé höfðinginn á Svörtuloftum og f.v. forsætisráðherra.  Í mínum huga verða stjórnmálamenn að horfast í augu við að Evrópusambandsaðild sem og upptaka Evru sé eina rétta leiðin.  Annað dugar ekki því miður.  Stjórnmálamennirnir sem munu þurfa að semja þetta vald frá sér, hafa ekki áhuga á því né vilja og mín skoðun er sú að þetta muni hafa alvarlegar afleiðingar.  Kannski er það einföldun á ástandinu, en þegar stóru bankarnir og önnur fyrirtæki vilja fara nota aðrar starfrækslumyntir en ÍKR þá er eitthvað að. Og í raun fáránlegt að stjórnmálamenn geti ráðið því. 

Hinsvegar hef ég lesið all margar greinar um hrávörumarkaði og matvælaverð og það að "kapítalísera" Asíu mun hafa þau áhrif að allt mun hækka og í raun væri gott að leggja út í það að verða frummatvælaframleiðandi því skv. spám, þarf "heimurinn" að framleiða helmingi meira af mat eftir c.a. 10-15 ár víst! Ætli það verði þá brauð handa hungruðum íslendingum en ekki afríku?  Bara spyr.

Árni (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 23:19

2 Smámynd: Sigga Hjólína

Hvernig getur Mónakó tekið upp Evru en verið utan EU? Getum við ekki farið þá leið? Ef Evran er lausnin en ekkert endilega innganga í EU, hví ekki???

Sigga Hjólína, 18.4.2008 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband