Arfleifð George W. Bush

Nú þegar sér fyrir endann á forsetatíð George W. Bush má velta fyrir sér hver hans arfleifð verði og hvernig hans verði minnst í mannkynssögunni.

Lesendum þessa bloggs þarf ekki að koma á óvart að bloggritari telur Bush yngri óhikað verða minnst sem eins af alverstu forsetum Bandaríkjanna til þessa. Það er sama hvar borið er niður, alls staðar er sviðin jörð.

Bush hefur vissulega haldið aftur af skattahækkunum en alls ekki eyðslu ríkissjóðs, og hefur fjárlagahalli slegið öll met í hans stjórnartíð.  Afleiðing af þessu er stórvaxandi skuldir Bandaríkjanna erlendis, en Kínverjar, Japanir og Miðausturlandaþjóðir hafa fjármagnað umframeyðslu Bandaríkjanna með kaupum á ríkisskuldabréfum.  Nú er svo komið að Beijing situr á a.m.k. 7-800 milljörðum bandaríkjadala í löngum skuldabréfum.

Aðgerðir Bush í Írak hafa hækkað olíuverð í heiminum og púkkað undir Rússa og Miðausturlandaþjóðir, sem stórgræða á olíuvinnslu.  Stjórnvaldssjóðir þessara landa hafa undanfarið notað peningana til að kaupa hluti í bandarískum bönkum á borð við Citigroup, Merrill Lynch og Morgan Stanley, á brunaútsölu eftir fjármálakreppu, og ráða þar æ meiru.  Kreppan sú er ekki síst tilkomin vegna lítils aga á lánamarkaði og ódýrra peninga, enda hefur Bush-stjórnin haldið lífi í bandarísku eyðsluklónni með of lágum vöxtum og með því að leyfa fasteignabólu að blásast út.

Herförinni í Írak var ætlað að tryggja olíuhagsmuni Bandaríkjanna en fór í handaskolum.  Vinir Bush í olíuiðnaðinum komu í veg fyrir að mótuð yrði alvöru orkustefna sem stefndi að því að minnka notkun kolefnaeldsneytis og losun koltvísýrings, en Bandaríkin eru ókrýndir heimsmeistarar í hvoru tveggja.  Þar fór dýrmætur tími fyrir lítið.

Í öryggismálum hafa Bandaríkin aukið hættu á hryðjuverkum með framgöngu sinni víða um heim.  Palestínudeilan hefur aðeins versnað í stjórnartíð Bush.  Bandaríkjaher á fullt í fangi og rúmlega það með Afganistan og Írak.  Reyndar má segja að sýnt hafi verið fram á gagnsleysi stærsta hers veraldar í nútímaaðstæðum, þar sem andstæðingurinn er annars vegar hryðjuverkamenn og hins vegar almennir borgarar og almenningsálit.  Á meðan þurfa Kínverjar og Rússar varla á her að halda, þar sem þeir geta valdið kreppu og fellt ríkisstjórnir í Bandaríkjunum að vild, hvort sem er með því að selja ríkisskuldabréf (eða bara hætta að kaupa þau) eða með því að skrúfa fyrir olíu.

Almenn mannréttindi hafa verið færð mjög neðarlega á forgangslista stjórnvalda með rekstri Guantanamo-búðanna, pyntingum fanga, sniðgöngu Genfarsáttmálanna, hlerunum og víðtækum heimildum til að halda svokölluðum óvinabaráttumönnum (enemy combatants) föngnum án dóms og laga.  Með öllu þessu framferði hefur ímynd og trúverðugleiki Bandaríkja Norður-Ameríku beðið verulega hnekki sem á eftir að taka langan tíma að bæta fyrir.

New York Times lýsti nýverið yfir stuðningi við Hillary Clinton sem næsta forseta Bandaríkjanna.  Þetta blogg getur ekki verið eftirbátur stórblaðsins og lýsir hér með yfir stuðningi við Barack Obama í sama embætti.  En hver sem kosinn verður í nóvember nk. hlýtur í öllu falli að verða skárri en George W. Bush.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Þökkum bara fyrir það að þú ert ekki í framboði til forseta Bandaríkjanna!

Magnús V. Skúlason, 20.2.2008 kl. 22:14

2 Smámynd: Púkinn

Þróunin er því miður í þá átt að Bandaríkin stefna hraðbyri að því að breytast í fasistaríki, gjaldþrota í efnahagslegu og siðferðislegu tilliti.  Jafnvel þótt þeir kjósi demókrata sem forseta næst, er spurningin hvort takist að snúa þeirri þróun við.

Púkinn, 21.2.2008 kl. 00:26

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Tek undir með þér, Púki.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.2.2008 kl. 01:16

4 identicon

Það er frekar sorglegt að hugsa til alls þess merkilega sem almennilegur forseti (í stað Búskmannsins) hefði getað komið til leiðar á þessum 8 árum.

Vonandi verður bragarbót á með nýjum forseta, hver sem það nú verður...

Þórarinn Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband