4.2.2008 | 01:23
Portrett verður til
Í nokkur ár hef ég haft portrettmálun sem áhugamál, og finnst hún mjög skemmtilegt og krefjandi viðfangsefni. Lengi hefur staðið til að setja inn á bloggið dæmi um það hvernig portrettmálverk verður til, og nú er komið að því.
Nýlega var ég svo heppinn að fyrrum bekkjarsystir mín í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Katla, bauð sig fram í að sitja fyrir portretti. Ég tók af henni ljósmynd og hún hefur komið nokkrum sinnum í heimsókn þannig að ég geti unnið að nokkru leyti frá lifandi fyrirsætu. En þar sem svona portrett tekur marga tugi klukkustunda að mála þá er ekki annað hægt en að styðjast að miklu leyti við ljósmynd. Myndin af Kötlu er núna nánast tilbúin eftir tæplega þriggja mánaða meðgöngu, og hér er ferlið rakið. Þetta er olía á léreft, 55 x 50 cm.
Fyrst er andlitið teiknað upp gróflega með blýanti á léreftið, og svo úðað með festilakki (fixatífi).
Þá kemur fyrsta umferð af málningu. Í þetta skiptið gerði ég fjólublátt/hvítt undirlag, sem mér fannst henta sem grunnur undir húðlitinn. Undirlagið má vera frekar gróft þar sem málað verður yfir það mörgum sinnum.
Þá er það fyrsta litalagið, þar sem húðliturinn byrjar að koma fram. Má gjarnan vera ýkt, því litirnir munu dempast á seinni stigum en samt skína í gegn um yfirlögin.
Eins og sjá má er munnurinn alltaf vandamál í portretti! Nú var kominn tími á að setja inn bakgrunnslit, þykkja húðlitinn og vinna í smáatriðum. Myndirnar lifna alltaf verulega við þegar glampinn er settur í augun, eins og sjá má.
Mér fannst þessi bakgrunnur of yfirþyrmandi og Katla var sammála mér. Hérna má sjá að ég reyni að halda jöðrum andlitsins ekki alveg hnífskörpum, það á ekki að vera eins og það sé klippt út úr pappír.
Nýr, miklu kaldari bakgrunnur kemur mun betur út. Mikið þurfti að fikta við munninn uns hann gekk upp. Að öðru leyti er búið að setja fleiri gegnsæ litalög á húðina til að gefa henni annars vegar hlýrri (appelsínugulari) og hins vegar kaldari (blárri) tóna eftir því hvernig ljós og skuggi falla á hana.
Nú er aðeins ein seta eftir með módelinu þar sem smáatriði verða löguð frekar til.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:41 | Facebook
Athugasemdir
Mikið afskaplega er þetta flott hjá þér. Vissi alltaf að þú værir góður að teikna en...
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 4.2.2008 kl. 02:47
Mjög flott hjá þér,við fáum að sjá myndina fullgerða, er það ekki ?.
Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 4.2.2008 kl. 07:31
Hæ, Katla!
Mikið vildi ég geta málað svona. Ég get ekki fyrir mitt litla líf málað nokkuð sem líkist því sem það á að líkjast.
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 4.2.2008 kl. 10:10
Takk fyrir viðbrögðin! Jú, ef myndin breytist eitthvað að ráði þá set ég endanlega útgáfu á bloggið.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.2.2008 kl. 16:16
Góður!
Heimir Lárusson Fjeldsted, 4.2.2008 kl. 19:56
Kærar þakkir fyrir þetta! Þetta er stórskemmtilegt blogg og mjög glæsilegt portrett. Gaman væri að fá að sjá myndina fullgerða og fleira í þessum dúr. Það er mikill karakter í þessari mynd sem er bæði málaranum og fyrirsætunni til mikils sóma.
Júlíus Valsson, 4.2.2008 kl. 20:02
Vissi ekki að það væri ,,Rembrandt" í fjölskyldunni!.. .. Til hamingju með þetta - ferlega flott!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.2.2008 kl. 21:21
Frábært Villi. Gaman að sjá hvernig þetta verður til. Ég vissi ekki að þetta væri svona hárnákvæmt í stíl hjá þér. Útkoman er virkilega sláandi.
Hlakka til að sjá meira..
Tómas Ponzi (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 00:50
Kærar þakkir fyrir jákvæðar athugasemdir. Sérstaklega er gaman að fá viðbrögð frá snillingnum Tómasi Ponzi, sem er meistari augnabliksins (sjá blogg og vef) .
Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.2.2008 kl. 01:03
Þú ert aldeilis fjölhæfur !
Flott hjá þér.
Kári Harðarson, 7.2.2008 kl. 10:50
Rakst á bloggið þitt f. tilviljun, því ég hef sama áhugamál og þú. Þú ert mjög flinkur, flott mynd!
Rán (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.