29.9.2007 | 23:46
Hvimleitt hjakk ofurfrjálshyggjumanna
Nú er maður þrátt fyrir allt orðinn eldri en tvævetur í pólitík, og hefur fylgst með umræðunni síðan snemma á níunda áratugnum. Meðal fastra punkta síðustu tveggja áratuga hefur verið hjakk ungra ofurfrjálshyggjumanna í kunnuglegri og einfaldri hugmyndafræði sem þeir þreytast ekki á að tala um en er hvergi praktíseruð. Ekki dettur þeim þó í hug að staldra við og spyrja sig hvort góðar ástæður séu ef til vill fyrir þeirri staðreynd.
Tvö dæmi:
Nú nýlega var Gísli Freyr Valdórsson að skrifa um leikskóla og taldi að hækka ætti leikskólagjöld svo unnt væri að hækka laun starfsfólksins. Röksemdafærslan byggði að hluta á því að fólk tæki sjálft ákvarðanir um að eignast börn og væri ekki of gott til að greiða sjálft kostnaðinn sem af því hlytist, sem sagt hin dæmigerða frjálshyggjurökfærsla um að einstaklingurinn beri fyrst og fremst ábyrgð á sjálfum sér en ekki öðrum.
Af þessu tilefni lýsi ég því yfir hér og nú að ég hef ekkert á móti því að greiða skatta til að börnin hans Gísla Freys, vonandi væntanleg, geti sótt vandaðan og góðan leikskóla ef foreldrarnir svo kjósa. Ég held að ég deili þeirri grundvallarafstöðu með verulegum meirihluta þjóðarinnar.
Af hverju? Vegna þess að það er mér og þjóðinni allri í hag að við leggjum rækt við næstu kynslóð, stuðlum að því að sem flestir sjái sér fært að eiga börn sem munu standa undir þjóðfélaginu í framtíðinni, og auðveldum aðgang beggja foreldra að vinnumarkaði eftir því sem kostur er. Allt er þetta hagvaxtaraukandi og gott í krónum og aurum fyrir heildarhaginn. Þar fyrir utan liggja í þessu fyrirkomulagi annars konar verðmæti varðandi velferð barna og fjölskyldna og almenna lífshamingju landsmanna, sem er líka mitt hagsmunamál sem einstaklings innan þjóðfélagsins.
Er þetta mjög erfitt að skilja? Nei, ekki finnst mér það.
Hitt dæmið er rekstur Sinfóníuhljómsveitar. Frjálshyggjumenn segja að áhugamenn um sígilda tónlist eigi einfaldlega að borga 40.000 krónur fyrir miða á Sinfóníutónleika eða hvaða upphæð sem það nú er sem telst raunkostnaður pr. gest. Kostnaði af áhugamáli fárra eigi ekki að velta yfir á fjöldann í formi skatta. Ósköp rökrétt á yfirborðinu.
En hverju sætir þá að í bisnesstímaritum á borð við Fortune eða Forbes má oft og tíðum sjá auglýsingar frá ýmsum heimsborgum þar sem gumað er af kostum þeirra fyrir fyrirtæki og fjárfesta, og þar er jafnan talið upp öflugt menningarlíf, sinfóníuhljómsveit og ópera, ef það er á annað borð fyrir hendi? Tilfellið er nefnilega, að burtséð frá óbeinum ávinningi í almennri lífsfyllingu, þá er fjárfesting lands eða borgar í sinfóníuhljómsveit eða óperu hverfandi miðað við það hversu mikið meira aðlaðandi landið eða borgin verður fyrir fólk, fyrirtæki og fjárfesta. Ég kem nálægt ýmsum fyrirtækjum sem þurfa á því að halda að vel menntað starfsfólk hvaðanæva að úr heiminum vilji flytja til Íslands og starfa hér. Ég byði ekki í það verkefni ef hér væri menningarlegt krummaskuð. Einhver brot úr prómilli af fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og/eða ríkisins skipta engu máli í skattlagningu en verulegu máli í að skapa hér aðlaðandi samfélag, sem aftur skilar prómillinu margföldu til baka.
Er þetta mjög erfitt að skilja? Nei, ekki finnst mér það.
En munu ungir frjálshyggjumenn halda áfram að hjakka í sama farinu? Já, eflaust, því í stað þeirra sem eldast, eignast börn og átta sig á litbrigðum lífsins (verða kannski jafnaðarmenn?), koma nýjar kynslóðir sem byrja á byrjunarreit. C'est la vie, og kannski ekkert annað en gott um það að segja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:51 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Vilhjálmur
Hvað er það sem réttlætir að skattpeningar fari frekar í eina tegund tónlistar en aðra, ég get til að mynda ekki samþykkt að sinfóníu tónlist sé eitthvað betri en tónlist en t.d rokk eða blús.
mér finnst ekki sangjart að þeir sem hafa áhuga á rokk tónlist þurfi sjálfir að standa undir kostnaði af tónleikum, en þeir sem hafa áhuga á "klassískri" tólist fái stærstan hluta greiddan af almannafé.
Er einhver sangirni í því að fólk sem hefur engan áhuga á "klassískri" tónlist sé neytt til að borga fyrir hana í gegn um skattkerfið á sama tíma og sama fólk hefur kanski ekki ráð á að fara á tónleika annarar tegundar þar sem miðarnir eru svo dýrir?
Ef sinfóníuhljómsveitin getur ekki sta'ið undir sér með miðasölu þá hlýtur það að endurspegla þann "fjölda" sem hefur áhuga á að koma og hlusta.
Anton Þór Harðarson, 30.9.2007 kl. 08:18
Æi, hvað þetta froðusnakk um tvævetur reynsluna er í raun innantómt. Eins og gefur að skilja rúnast mörg horn af skoðunum manna með auknum aldri. Sumir ganga meira að segja svo langt að leggja að baki róttækni og faðma í staðinn jafnaðarmennsku eða enn borgaralegri sjónarmið.
Röksemdafærslan um að foreldrar eigi að standa straum af uppeldi eigin barna er og verður gild á meðan frjálsir menn og konur nenna að halda því á lofti. Á öndverðum pólum eru þeir sem annars vegar vilja að hið opinbera kosti alfarið leikskólagöngu barna og hins vegar þeir sem vilja að foreldrar sjái alfarið (eða í meira mæli en nú er) um kostunina.
Ætla má að þeir sem draga vagninn í átt að meiri kostun hins opinbera muni á endanum hafa vinninginn, enda hefur þróunin verið í þá átt um langa tíð. Í mínum huga tel ég baráttu þeirra sem toga vagninn í hina áttina vera aðdáunarverða, ekki einungis vegna prinsipsins, heldur vegna hins að ég tel þetta tengjast stærra máli þar sem við borgararnir færum æ aukin völd í hendur hins opinbera um mál er varða uppeldi og gæslu á börnum okkar.
Heldur þykir mér Vilhjálmur ganga langt í ósk sinni um lífshamingju samlanda sinna. Betra vær að hann héldi slíku fyrir sjálfan sig og sinna nánustu. Eitt er að rétta einstaklingum hjálparhönd, sem hafa lent undir í lífinu, annað er að ganga svo langt að telja sig geta stuðlað að lífshamingju heillar þjóðar.
Anton reifar ágæt rök en fleira mætti tiltaka. Annars nefnir Vilhjálmur að frjálshyggja er hvergi stunduð. Hér held ég að hann misskilji stjórnmál og hvers vegna við nennum yfirleitt að standa í pólitískri baráttu. Í lýðræði okkar daga eru ólík öfl sífellt að takast á og ef lýðræðið virkar vel næst sátt sem tekur tillit til margra sjónarmiða. Frjálshyggjumenn eru ekki alráðandi (ekki frekar en hinn þreytti og margreyndi jafnaðarmaður) og fagna hverju sinni sem þeir ná að draga vagninn í áttina til sín.
Ólafur Als, 30.9.2007 kl. 10:41
Það kemur ekki á óvart að fá andsvar Antons Þórs, úr því ég hætti mér út í að nefna Sinfóníuna sérstaklega. En rökin fjalla ekki um neina eina sérstaka tegund menningarstarfsemi, heldur almennt það prinsipp að samfélagið hafi gagn af því sem heild að þar þrífist menningarstarf, og það er því miður ekki þannig að allt slíkt borgi sig með beinum hætti. Öll tónlist græðir á því að til séu tónlistarskólar og atvinnutónlistarmenn, en ef markaðslögmál réðu valinu ein, yrði flóran mun fábreyttari og fyrir rest óáhugaverðari og minni söluvara. Sem sagt, það græða allir á smávegis forsjárhyggju.
Ólafur þykir mér lítill hugsjónamaður úr því hann afskrifar það að reyna að stuðla að lífshamingju heillar þjóðar. Um það snúast stjórnmálin einmitt, held ég.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.9.2007 kl. 13:17
Já (sæll), þú áttir ekki að vera að nefna Sinfóníuhljómsveitina í þessu samhengi, sízt með því að flagga þessari kolröngu (margfalt of háu) 40.000 króna tölu. Að öðru leyti vísa ég um hljómsveitina í þessa grein mína og umræður þar á eftir. -- En varðandi leikskólagjöldin fyndist mér rétt, að fólk fengi á rukkunum sínum að vita, hve hátt (þ.e.a.s. lágt!) hlutfall það er að greiða af raunverulegum kostnaði, en það kann almennt að vera um 20%. Þetta myndi auka kostnaðarvitund manna.
Jón Valur Jensson, 30.9.2007 kl. 14:31
Snarvitlaus var tengill minn (afsakið), átti að vera þessi.
Jón Valur Jensson, 30.9.2007 kl. 14:46
Nei sko, allt í einu skoðun sem við Jón Valur erum sammála um!
Talan sem ég nefni getur vel verið röng; einhvern tíma sá ég rekstrarkostnaði Sinfóníunnar deilt niður á fjölda gesta og útkoman var að minnsta kosti nægilega há upphæð til þess að morgunljóst er að rekstrinum væri sjálfhætt án utanaðkomandi styrkja.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.9.2007 kl. 15:48
Megi allar góðar vættir forða okkur frá fólki sem telur sig hafa algild svör um hluti er varða lífshamingju annarra. Ef menn vilja leiða með góðu fordæmi er slíkt aðdáunarvert. Vilhjálmur er t.d. hvattur til góðra verka - sérstaklega ef við hin þurfum ekki að greiða reikninginn fyrir hugsjónir hans.
Ólafur Als, 30.9.2007 kl. 16:09
Má maður vera óforskammaður og snúa dæminu við? Halda því fram að menn og konur sem ekki eignast börn, ættu að greiða fyrir þann munað.
Þegar upp er staðið hef ég lagt tugmilljónir í að fæða og klæða börn mín, því skyldi sú fjárfesting standa barnlausum til boða?
Ég skal fyrstur manna samþykkja að foreldrar greiði 100% með sínum börnum; svo fremi arður þeirrar fjárfestingar (mannauður) standi einungis meðfjárfestum mínum (öðrum foreldrum) til boða.
Sem ég sit hér og skipulegg verðskrá á þjónustu fyrir barnlausra, er mig farið að klæja í fingurna. Það er ómögulegt að græðgisvæðingin virki bara í eina átt!
Allir sáttir?
Baldur McQueen (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 16:59
En Baldur, var engin ánægja af því að eignast þessi indælu börn?
- en svona í alvöru, getur ekki verið að einstaklingurinn sem lifir lífi sínu án barna geti verið einfær um að sjá sjálfum sér farborða fram að grafarbakka? Hér var reyndar einungis verið að fjalla um leikskólagöngu, snemma á síðustu öld var lagður grunnur að greislu fyrir skólagöngu barna og unglinga úr höndum ALLRA skattgreiðenda. Baldur, ef þú átt börn hafa skattpeningar okkar allra tekið þátt í að greiða skólagöngu þeirra - sem ég geri ráð fyrir að þú sért sáttur við, ekki satt?
Ólafur Als, 30.9.2007 kl. 17:14
Vilhjálmur, maður með þína reynslu ætti að sjá að rekstur sinfóníuhljómsveitarinnar er della og tímaskekkja. Dekur úr vösum almennings fyrir hina fáu sem hafa áhuga á þessu. Ég er ennfremur ósammála því að þetta dragi fólk til landsins. Það fer a.m.k. ekki á sinfóníutónleika. Er þá aðdráttaraflið fólgið í þvi að vita af þeim en geta sleppt þeim eins og við hin?
Ef þú getur réttlætt svona áhugamál af almannafé lendir þú alltaf í því að það sé notað sem rök til að krefjast fjármögnunar á hvaða snobbrugli sem er, sem almenningur hefur engan áhuga fyrir.
Stjórn nútíma samfélags getur ekki staðið í þessari vitleysu. Nær væri að lækka frekar skatta og þá getur almenningur sjálfur fjármagnað áhugamál af þessu tagi að eigin vali.
Haukur Nikulásson, 30.9.2007 kl. 19:41
Vilhjálmur, maður með þína reynslu ætti að sjá að rekstur sinfóníuhljómsveitarinnar er della og tímaskekkja. Dekur úr vösum almennings fyrir hina fáu sem hafa áhuga á þessu.
Ef þú getur réttlætt svona áhugamál af almannafé lendir þú alltaf í því að það sé notað sem rök til að krefjast fjármögnunar á hvaða snobbrugli sem er, sem almenningur hefur engan áhuga fyrir.
Stjórn nútíma samfélags getur ekki staðið í þessari vitleysu. Nær væri að lækka frekar skatta og þá getur almenningur sjálfur fjármagnað áhugamál af þessu tagi að eigin vali.
Haukur Nikulásson, 30.9.2007 kl. 19:45
Haukur, hér blómstrar sem betur fer talsvert auðugt menningarlíf, sem gerir Ísland meira aðlaðandi en ella, bæði til að fá fólk til landsins og að halda í fólk sem annars myndi frekar fara. Sinfóníuhljómsveitin er ein af kjölfestum tónlistarlífsins í landinu, sem er með ólíkindum öflugt. Það munar verulegu fyrir ungt fólk sem veltir fyrir sér tónlistarnámi að vita af möguleikanum á að verða atvinnutónlistarmaður í Sinfóníunni, þótt það verði vitaskuld ekki allir sem vilja. En ég endurtek, Sinfónían er notuð sem dæmi um fjárfestingu í menningarlífi sem skilar sér óbeint þótt hún geri það ekki beint. Hún á því fullan rétt á sér í þjóðfélagi sem er rétt og skynsamlega stjórnað með heildarhag í huga.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.9.2007 kl. 21:43
Jú Ólafur, ánægjan yfir börnunum var vissulega mikil (þau gætu þefað þessa heimild upp síðar)
Þó innleggi mínu hafi verið varpað fram í hálfkæringi, stendur spurningin eftir.
Því ættu þeir sem neita að leggja af mörkum í stofnkostnað við mannauðinn að njóta ávaxtanna?
Vita máttu að mannauðsfyrirtækið "Börn Baldurs" er ekkert á þeim buxunum að gefa frá sér afurð sem lagðir hafa verið miklir fjármunir og vinna í að móta og skapa (þó sköpunin hafi vonandi verið ánægjuleg flestum hlutaðeigandi).
Vilji menn njóta mannauðsins sem frá fyrirtækinu kemur, má benda á hlutabréf í formi aðstoðar við leikskólagjöld og þess háttar. Reksturinn gengur ágætlega, enda engin virðisaukaskattur lagður á mikilvæg aðföng (t.d. barnaföt) hér í Bretlandi, ólíkt sumum öðrum löndum.
Þeir sem skeyta engu um mannauðinn geta reynt að fá 5000 kr seðlana til að baða sig og hjúkra í ellinni. Óvíst er hvort það gangi vel. 5000 krónurnar geta hins vegar gert ýmislegt þegar mannauður er fyrir hendi, ekki satt?
Annars er ég jú hæstánægður þakka þér fyrir. Borga lægri skatta en á Íslandi og börnin mín fá 100% fría skólagöngu frá þriggja ára aldri hér í Svínabæ (Swinton). Ég mun þ.a.l. glaður afhenda samfélaginu fullorðna vinnumaura þegar þar að kemur og vonandi ná að ala þá þannig upp að þeir finni hamingjuna í að stuðla að hag allra á sanngjarnan hátt, barnafjölskyldna jafnt sem barnlausra.
Baldur McQueen (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 22:34
Árin 2003-2005 dvaldi ég langdvölum í Luxembourg sem er eitt ríkasta land í heimi miðað við höfðatölu (með 450 þúsund íbúa). Þrátt fyrir alla peningana sem flæða um banka þessa smáríkis, sjást þess lítil merki þegar kemur að menningarviðburðum. Satt best að segja var samanburðurinn við Reykjavík eins og á þorpi og borg hvað þetta tiltekna atriði varðar.
Það er vel hægt að hafa visst umburðarlyndi gagnvart ungum og æstum frjálshyggjumönnum líkt og hægt er að skilja skoðanir róttækra menntskælinga og jafnvel aðgerðarsinna. Skoðanir flestra mildast með aldrinum sökum raunsæis og reynslu viðkomandi.
Sem betur fer eru Íslendingar enn svo stoltir að þeir vilja að hér viðhaldist menning á sem flestum sviðum. Ef lögmál ofufrjálshyggjupostula yrðu ofaná væri þess ekki langt að bíða að hér yrði menningarleg eyðimörk. Mér finndist það einkennileg þversögn ef að andlegt ríkidæmi þjóðar minnkaði eftir því sem að veraldlegt ríkidæmi ykist.
Svo er það þessi umræða um leikskólana. Eiga foreldrar að borga fullum fetum fyrir leikskólapláss barna sinna? Eiga börn einstæðra foreldra og innflytjenda semsagt að gera sér að góðu allt aðra þjónustu (eða alls enga) heldur en börn þeirra sem eru í betur launuðum störfum? Hvað með dvalarheimili aldraðra? Ætti þá ekki að setja gamlingjana á götuna þegar að búið er að þurrausa budduna þeirra? Ungir frjálshyggjumenn eru víst lítið að spá í efri árin og það hvað tilveran er fallvölt. Verra með þá sem ættu að vera komnir með meira vit í kollinn.
Sigurður Hrellir, 30.9.2007 kl. 23:31
Baldur, gott að vita að ávextirnir þínir bragðist vel. Kannski ekki úr vegi að þau fái að heyra það fyrr en seinna. Spurningin þín er röng og misvísandi. Við höfum öll hag af opnum og heilbrigðum samskiptum en erfitt er að sjá hvernig hægt er að komast undan algóðum og algildum faðmi skoðana þinna (hér mætti e.t.v. bæta inní brosmerki?). Ég hef t.d. engin tök á að komast undan skattlagningu sem styður við mannauðsfyrirtæki þitt.
Eitt er það sem tekist hefur vel á Íslandi en það er að safna í lífeyrissjóði. Með okkar kerfi er lagður grunnur að fjárhagslegu öryggi borgaranna á þeirra efri dögum, jafnvel þó eldri borgurum muni fjölga verulega. Ekki er langt í það að lang flestir Íslendingar njóti ávaxta þessa kerfis en stór hluti er þegar farinn að njóta þess. Ég þekki ekki alveg hvernig þessu er háttað í hinu sameinaða konungsdæmi en fjölmargar þjóðir horfa með öfundaraugum til þess sem við höfum byggt upp heima.
Eins og þú réttilega bendir á, er skattlagning lægri hjá Bretum en hjá okkur. Sérstaklega á lægri og miðlungslaun (ekki þau allra lægstu); skattleysismörkin þeirra eru verulega lægri en á Íslandi. En er ekki heillavænlegra að 5000 kr. seðlarnir komi úr eigin vasa, ef svo ber undir, og þá getum við sameinast um að rétta þeim hjálparhönd sem verulega þurfa á því að halda? Á meðan njóta barnlausir sömu réttinda og aðrir og geta horft fram til þess að ekki séu spunnin upp hugmyndafræðikerfi til þess að halda utanum nauðsyn þess að "samfélagið" standi straum af æ fleiri þáttum hins mannlega lífs.
PS. Swinton, vestur af Manchester?
Vilhjálmur, hugmynd þín um réttláta og skynsama stjórnun þjóðfélags er einum of prússnesk fyrir mína parta. Hafðu í huga að stundum þarf hugrekki til þess að sjá aðrar lausnir en manns eigin. T.d. er ekki víst að menningin (að þínu skapi, væntanlega) muni bíða skipbrot ef sameiginlegir sjóðir styrki ekki menningu og listir í sama mæli og nú er. Í þeim geira sem tónlistin fær minnsta styrki blómstrar hún mest og best. Á því sviði er menningin vissulega menning hins almenna manns. Sumir meta hörpustrengi umfram gítarstrengi, tenóra umfram poppsöngvara eða vínarvalsa umfram dægurlög. Hinum sömu hættir til að setja eigin smekk ofar annarra og úr því hásæti er auðvelt að réttlæta hina opinberu aðstoð. Verst hvað þetta yfirlæti ber keim af viðhorfi frægrar drottningar þegar hún spurði hvort pöpullinn gæti ekki snætt sætabrauð.
Ólafur Als, 1.10.2007 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.