Tvöföld öryggisleit í Leifsstöð

Ég var að koma frá Bandaríkjunum í gærkvöldi.  Fór fyrst í gegn um öryggisleit í Atlanta, aftur í Boston og loks við komuna í Leifsstöð.  Í Leifsstöð fer maður sem sagt aftur úr skónum, tekur af sér beltið, tekur tölvuna úr töskunni o.s.frv. þrátt fyrir að það hafi verið gert í Bandaríkjunum áður en lagt var af stað.  Svo er bannað að taka ílát með vökva inn í Leifsstöð þótt vökvinn hljóti að hafa verið keyptur á flugvelli í Bandaríkjunum og hafi augljóslega verið með í flugvélinni til Íslands.

Mér skilst að ástæðan fyrir þessum fáránlegheitum sé deila milli Evrópu (Schengen-svæðisins) og Bandaríkjanna um framkvæmd öryggisleitar.  Það hlýtur þá að þýða að kröfur eða staðlar séu mismunandi að einhverju leyti.

En er þetta ekki ástand sem stjórnmálamennirnir okkar geta gengið í að finna út úr og semja um?  Hvaða vit er í því að geta ekki komið sér saman um öryggisstaðla og þurfa þar af leiðandi að halda úti aukalegum rándýrum græjum og vöktum í öryggisleit og valda farþegum viðbótar angri, sem er ekki á bætandi?

Það er mörg vitleysan í kring um hinar meintu hryðjuverkaógnir, og þetta er ein þeirra. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Af hverju er ekki hægt að kaupa flugmiða hjá flugfélaginu sem heitir "at your own risk" ... Ég er viss um að það yrði ansi vinsælt

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.9.2007 kl. 13:26

2 Smámynd: SM

var einmitt hlessa á þessu sama þegar ég kom frá Bandaríkjunum um daginn. Eins leituðu bandaríkjamenn tvisvar í farangurs-töskunum mínum í innanlandsfluginu, það var líklega útaf straumbreytinum sem þeir hafa haldið að væri sprengja...

SM, 1.9.2007 kl. 14:55

3 identicon

Það er rétt hjá þér Vilhjálmur, að vegna deilu milli USA og Evrópskra flugmálayfirvalda, þarf að leita aftur á "transit" farþegum.               

Að Það skuli vera leitað á farþegum sem eru að koma inn í landið skrifast hins vegar alfarið á klúðurslega hönnun flugstöðvarinnar í Keflavík.  Í stað þess að hanna ódýra byggingu sem auðvelt væri að stækka við hentugleika, völdu stjórnvöld að láta hanna og byggja rándýra snobb-byggingu sem varð svo ennþá dýrara að stækka. 

Fyrir farþega sem ferðast innan Schengen er skaplegt að ferðast gegnum Leifsstöð, en fyrir farþega til USA og Bretlands er þetta hálfgerð þrautaganga.

Sigurður Sverrisson

Sigurður Sverrisson (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 22:26

4 identicon

Alveg rétt að hluta til. Schengen er vegabréfasamstarf og á ekkert skylt með öryggiseftirliti við komuna til Keflavíkurflugvallar. Byggingin er ekki eins og best verður á kosið en það á ekki heldur neitt skylt við skiptifarþega (transfer). Þeir þurfa alltaf að sæta eftirliti líkt og í öðrum flughöfnum sem eru aðilar að reglum EB.  Hinsvegar skrifast ástandið með komufarþega  hreint og beint á forráðamenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar h.f. sem hafa lagt mestu áhersluna á verslanir í bygginguni líkt og að um Kringluna væri að ræða.

hinrik valgeirsson (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband