10.8.2007 | 01:00
Nýir pólar í stjórnmálum?
Ég var að lesa nýlega bloggfærslu Jóns Vals Jenssonar þar sem hann mærir framgöngu Gísla Freys Valdórssonar á sjónvarpsstöðinni Omega og telur upp þá pólitík sem þeir fóstbræður eru sammála um. Í stuttu máli er þar um að ræða íhaldssamar hægrisinnaðar skoðanir sem bergmála málflutning kristinna hægri-repúblikana í Bandaríkjunum. Lögð er áhersla á "kristin gildi", samkynhneigð tortryggð, stutt við Ísrael ("Gyðinga í Landinu helga"), hvatt til mótspyrnu við yfirvofandi heimsvaldastefnu islamista, fagnað uppbyggingu lögreglu og sérsveitar á Íslandi o.s.frv.
Þegar ég hafði melt þennan boðskap rann upp fyrir mér að ég er 100% ósammála þeim félögum Jóni Val og Gísla Frey og þeirra skoðanabræðrum og -systrum. Það er sjaldgæft nú til dags að finna fólk sem maður er 100% ósammála. Pólarnir hægri og vinstri duga orðið engan veginn til þess, við erum öll orðin jafnaðarmenn meira og minna og erfitt að búa til mikinn ágreining í þeirri vídd því hörðustu frjálshyggjumenn og sannfærðir sósíalistar eru álíka margir og geirfuglar.
Ég tel rangt að byggja stjórnmál og siðferðisviðmið á trúarskoðunum og að það sé dæmt til að mistakast. Við erum öll af sama mannkyni og skipting okkar í "við" og "þá" er af hinu illa. Þá sé ég enga ástæðu til að ríkið sé með nefið ofan í því hvernig fólk höndlar ástina og hvernig það hagar einkalífi sínu. Loks er ég mjög vantrúaður á að stríð leysi nokkurs manns vanda, og tel það skyldu ábyrgra þegna í lýðræðisþjóðfélagi að berjast gegn tilhneigingu til fasisma. Mannréttindi eyðast smám saman nema þau séu varin, með öflugri umræðu og gagnrýni.
Ég held að umræður og átök í stjórnmálum næstu ára eigi eftir að snúast í auknum mæli um þessa póla. Þá sem vilja fylgja kalli Bush og félaga í átt til fasískara þjóðfélags byggðu í auknum mæli á kristnu trúarofstæki, og hins vegar þá sem vilja efla lýðræði, altæk mannréttindi og frjálslyndi sem svar við ofbeldi og öfgum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:01 | Facebook
Athugasemdir
Það var nú ekkert minnzt á "samkynhneigð" né á "lögreglu" né "sérsveit á Íslandi" í þessari tilvísuðu "bloggfærslu" minni, Vilhjálmur, enda veit ég ekki, hvort við Gísli Freyr erum sammála um þau mál. En þér hefur kannski þótt henta að hafa þetta með.
Jón Valur Jensson, 10.8.2007 kl. 01:19
Ég er að lýsa almennt þeim skoðunum sem fram koma í bloggum ykkar og fleiri, en kveikjan að skrifunum er þessi tiltekna bloggfærsla sem ég vísa til.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.8.2007 kl. 01:41
Heill og sæll Vilhjálmur, og aðrir skrifarar !
Ég er nú ekkert sammála, þeim Jóni Val og Gísla Frey; í öllum atriðum en get tekið undir margt, í sjónarmiðum þeirra.
Það hefir ekkert með trú - heimspeki; eða stjórnmál að gera, en..... þar sem ég tel þig sæmilega upplýstan, Vilhjálmur; að þá getum við ekkert lokað augunum fyrir því, að ágengni og uppivöðslusemi, meðfram óslökkvandi drápshyggju, hins Múhameðska heims, hlýtur að vera óþolandi öðrum jarðarbúum, og gættu að; hvar fyrirfinnst, í löndum Múhameðstrúarmanna þvílíkur fítonskraftur uppbyggingar og jákvæðra hluta, sem víðs vegar á Vesturlöndum , sem og í Austur- Asíu; t.d. ?
Þú hlýtur að sjá; Vilhjálmur, að þessum samfélögum, aftan við steinöld, er varla viðbjargandi, nema því aðeins, að þau taki almennilega til, í sínum garði.
Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 02:16
Æji, ég vona ekki. Þá endum við frjálslyndu, raunsæju (þ.e. viljum tryggar varnir- en engin heilög stríð, takk), frjálshyggjumennirnir utan flokka.
Ég verð allavegana hvorki í flokki með trúarofstækisfasistanum Jóni Val né ykkur skandinavísku forsjárhyggju, veruleikaflótta, skattaglöðu hamingjuböngsunum.
Ég flyt úr landi.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 02:31
Biðst afsökunar á uppnefnunum. Varð bara óskaplega mikið um þegar ég sá þessa fylkingaskipan þína.
Sver af mér öll andleg tengsl við Jón Val.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 10:17
Nú þegar talið berst svo oft að islömskum öfgatrúarmönnum ( sem er agnar, agnar lítill hópur miðað við allan fjölda þeirra sem aðhyllast islam) þá gleymist oft öfgasinnaðir kristnir menn og jafnframt öfgasinnaðir gyðingar. Þegar bandarísk herflugvél var kyrrsett í, að mig minnir, Norður Kóreu fyrir nokkrum árum var það fyrsta sem Bush, Bandaríkjaforseti sagði þegar hann heyrði af þessu ,,Biblíur, er búið að útvega þeim biblíur" ( Úr Newsweek) Hugsið ykkur öfgana þegar örfáir gyðingar reyna að koma sér fyrir mitt á milli milljón araba, bara vegna þess að ,,Guð" leyfði þeim það. Öfgasinnaðir trúarbragðahópar eru af hinu illa. Það hljóta allir heilvita menn að sjá. Kristnir, Gyðingar og Múslimar.
Guðbjartur (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 10:33
Vilhjálmur, þú ert hér að hætta þér í tilgangslausa rökræðu því að þeir "trúuðu" nota trúna til að eyðileggja alla heilbrigða umræðu og rökræður.
Trú, þjóðernishyggja og græðgi eru helstu bölvaldar mannkynsins, hafa verið... og munu verða allt þar til Kári finnur þetta heimskugen og lækningu við því (Not!)
Haukur Nikulásson, 10.8.2007 kl. 10:55
Gott að vita af fólki sem er mér sammála í þessum efnum. Bloggaði einmitt um nánast það sama og þú í gærmorgun. Bestu kveðjur til þín.
Sigurður Sveinsson, 10.8.2007 kl. 11:28
Það er tilgangslaust að reyna að rökræða við þá sem trúa á tilvist ósýnilegs kalls í himninum sem þeir halda að fylgist með hverju þeirra fótmáli og geti tekið upp á að senda þá rakleiðis til helvítis. Og sem heimtar peninga, peninga, peninga og fær aldrei nóg af þeim.
Trúarruglið er heilaþvottur af verstu sort og menn þurfa að sitja undir stöðugri innrætingu annars tollir ruglið ekki stundinni lengur í þeim enda heldur það ekki nokkru andsk. vatni.
Baldur Fjölnisson, 10.8.2007 kl. 12:48
Af einhverjum dularfullum ástæðum telur Alþingi Íslendinga ekkert athugavert við að halda úti milljarða batteríi á kostnað skattgreiðenda í kringum téðan ósýnilega kall í himninum, sem þeir þá halda að fylgist með hverju þeirra fótmáli ...... og heimtar endalaust peninga og meiri peninga. Dómsmálaráðherrann hefur meira að segja látið hafa eftir sér að hann sjái ekkert athugavert við að stjórnmálamenn hafi samráð við "æðri máttarvöld". Ég skal ekki segja ... er alþingi nokkuð með trúnaðargeðlækni á sínum snærum ? Ætti kannski að senda þingheim allan í heilaskimun ?
Baldur Fjölnisson, 10.8.2007 kl. 17:22
Ég er sammála þér Vilhjálmur, mig hefur klæja í puttan að svara þeim. En hef ekki að því látið verða, vegna þess að mér hefur fundist það fullkomlega tilgangslaust. Mín kenning er að 80% íslendinga séu frjálslyndir sósial demokratar, 10% öfga hægri menn og 10 öfga vinstri menn. Sem betur fer litróið en þó þetta fjölbreyt, til þess að fjölbreytt umræða eigi sér stað.
Ég virði afstöðu JVJ og Gísla Valþórs og hvet þá til að koma henni á framfæri. Á meðan þeir virða mína skoðun þá læt ég þá afskiptalausa.
Ingi Björn Sigurðsson, 10.8.2007 kl. 21:04
Hvernig dettur ykkur í hug að svo mikið sem að veita svona greinum eins og Jóns Vals athygli og hvað þá að svara þeim? Ég er viss um að hann hlær að því að einhver skuli lesa bloggið hans og finnast þeim knúinn að ansa þessu!
Anna Sigurlin Hallgrimsdottir (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 21:18
Þetta er spurning um peninga og milljarða af þeim og risavaxnar atvinnuleysisgeymslur skattgreiðenda.
Baldur Fjölnisson, 11.8.2007 kl. 00:28
Menn mega trúa á jólasveininn eða tannálfinn - það er allt í frábæru lagi. Trúið á súpermann bara látið mig í friði með það.
Baldur Fjölnisson, 11.8.2007 kl. 00:39
Frjálslyndi, virðing fyrir einstaklingnum, friðhelgi hans og frelsi og markaðsbúskapur er allt komið úr bókum frjálshyggjumanna. Þú ættir að skammast þín að tala niður til þeirra, þar sem kjarninn úr stefnu sósíaldemókrata, a.m.k. þegar þeir eru að reyna að plata atkvæðin út úr fólki nú til dags kemur þaðan. Raunin er hins vegar sú að jafnaðarmenn eru ennþá við sama heygarðshornið hvað varðar forræðishyggju, ríkisbúskap og gera kjör allra sem mest jafn slæm.
Án þess að ég sé að reyna að bera í bætifláka fyrir þá menn sem þú ert að reyna að meiða með færslu þinni, enda þekki ég þá ekki neitt, þá finnst mér það rýra trúverðugleika þinn að þurfa að styrkja árásina með því að bæta tilefnið með skáldskap um hluti sem ekki voru á dagskrá, eins og annar þeirra bendir á hér að ofan.
Bjarni Ingason (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 00:52
Já, ef það eru tveir skýrir pólar, þá er ég ansi hrædd um að þeir sem kalla sig jafnaðarmenn séu arftakar þess póls sem tilheyrði kommunum hér áður fyrr.
Bryndís Helgadóttir, 11.8.2007 kl. 01:46
Gaman að sjá þessa líflegu umræðu. Ég viðurkenni að það er á mörkunum að ég nenni að elta ólar við JVJ. En því verður ekki neitað að þessi skoðanaflokkur sem ég lýsti hefur nokkuð fylgi og virðist því miður þó nokkuð öflugur í Bandaríkjum norður-Ameríku. Hann hefur eflst í kjölfar 11. september 2001 og það verður ekki undan því vikist að taka á þessum fjára, ekki vill maður fljóta sofandi að feigðarósi.
Ég skil ekki viðkvæmnina gagnvart því að ég nefndi lögreglueflingu og tortryggni gagnvart samkynhneigð í sama mund og aðrar skoðanir JVJ og GFV. Hvort tveggja eru atriði sem hafa fengið ítrekaða og áberandi umfjöllun á bloggum þeirra og fara ekki framhjá neinum sem þau skoðar.
Svo var óþarfi hjá Hans að draga í land með skandinavísku hamingjubangsana, mér fannst það frekar krúttleg einkunn og var hæstánægður með hana!
Bjarna vil ég benda á að jafnaðarstefnan byggir á frelsi, jafnrétti og bræðralagi, sem eru þættir sem þurfa allir að vera fyrir hendi og í jafnvægi í samfélagsskipan sem gengur upp - eins og dæmin sanna.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.8.2007 kl. 22:46
Takk fyrir góð skrif Vilhjálmur.
Ég rakst á síðuna þína á mbl.is
Mér þykir gott að sjá að það er ennþá fólk á Íslandi sem er með tilfinningarnar og skynsemina í lagi !
Takk fyrir.
Erla
Erla (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 05:20
Skammastu þín, Hans Haraldsson, að kalla mig fasista.
Jón Valur Jensson, 12.8.2007 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.