Hvað erum við aftur að gera í Afganistan?

Fregnir berast af því að Atlantshafsbandalagið hafi, það sem af er ári, drepið fleiri óbreytta borgara í Afganistan en talíbanar.  Hefur Hamid Karzai, forseti landsins og fyrrverandi starfsmaður bandaríska olíufélagsins Unocal, gengið svo langt að átelja aðferðir NATO og óska eftir að bandalagið meti afgönsk mannslíf með ábyrgari hætti en hingað til.

Nú spyr ég lesendur þessa bloggs: geta þeir hjálpað mér að muna hvað við Íslendingar (sem þátttakendur í þessu í gegn um Atlantshafsbandalagið) erum eiginlega að gera þarna?

Hin opinbera skýring er væntanlega sú að það verði að koma í veg fyrir að talibanar nái aftur völdum í landinu.  En kommon, getum við verið árum saman með hernaðarrekstur í fjarlægum löndum, sem kostar fjölda óbreyttra borgara lífið, til þess að koma í veg fyrir að tiltekin stjórn nái völdum?  Talibanar eru ekki geðfelldir en þeir eru ekkert að ráði verri en t.d. stjórnvöld í Sádí-Arabíu, og aðhyllast reyndar mikið til sömu hugmyndafræði.  Ekki erum við í Sádí-Arabíu með herlið, heldur þvert á móti - stjórnvöldum þar eru seldar F-16 þotur og Patriot flugskeyti og þau mærð sem bandamenn.

Ef talibanar ná völdum, verður bara að spila úr þeirri stöðu af skynsemi.  Fyrir rest falla stjórnvöld sem ekki njóta stuðnings fólksins.  Málstaður lýðræðis og mannréttinda er nógu sterkur til að sigra að lokum, sér í lagi ef hann er ekki eyðilagður með hræsni og tvískinnungi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hæ, ég skal hjálpa þér að rifja upp. Sambýlismaður minn hefur tvisvar verið í Afganistan og ég held að hann hafi verið fyrsti sem var sendur þangað á vegum íslensku friðargæslunnar. Hann skrifaði pistla sem ég setti á blogg á afganistan.blogspot.com

Seinna fór hópur og var á flugvellinum. Það var gerð heimildarmynd um þann hóp og hún var sýnt í sjónvarpinu. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.7.2007 kl. 11:46

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ástandið í Afganistan fyrir innrás Bandaríkjamanna var skelfilegt og hafði verið það í nokkur ár. Konur voru sá hópur sem þjáðist einna mest. Það er ágætt að rifja það upp hvernig komið var fram við konur af Talíbönum og hver mannréttindi þeirra voru.

Þessi bloggfærsla hjá þér bendir ekki til þess að þú hafir kynnt þér mikið ástandið þarna. Ég er engin aðdáandi stjórnarinnar í Sádi-Arabíu og hafði mestu skömm á stjórn Saddam Hussain í Írak en þó voru þessi stjórnvöld þúsund sinnum skárri en vitfirringsleg stjórn Talibana. 

Síðasta málsgreinin hjá þér á þessu bloggi er ákaflega bernsk svo ekki sé meira sagt. Þú heldur að málstaður lýðræðis og mannréttinda sé nógu sterkur til að sigra að lokum en ert að tala um sundurtætt samfélag þar sem hvergi stendur steinn yfir steini - í orðsins fyllstu merkingu því húsin eru eins og gatasigti og öll tré hafa löngu verið sprengt upp.  Það hefur aldrei ríkt á þessum slóðum lýðræði og fólk sérstaklega konur hafa varla haft nokkur mannréttindi.  Aldrei var þó ástand mannréttinda verra en í tíð Talíbana. Þess má geta að Talibanar bönnuðu konum að vinna og ganga í skóla. Núna eru margar stúlkur í skóla í Afganistan.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.7.2007 kl. 12:06

3 identicon

Er sammála Óskari varðandi skrif Salvarar, þekki sjálfur menn sem fóru til þessa svokölluðu friðargæslu og það sem ég heyrði. Þá var þetta bara djók og ævintýramennska fyrir milljón skattfrjálst á mánuði. Við munum öll eftir teppaleiðangrinum fræga sem sýnir firringu þessara manna. Talibanastjórnin var mjög slæm en það er líka margar bandalagsþjóðir okkar samt fá þær að vera í friði.

Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 14:05

4 identicon

Það er rétt að ástandið í Afganistan var slæmt fyrir innrásina en hvernig skapaðist það ástand?  Landið var í algerri óreiðu eftir borgara-stríðið milli Mujahideen (studdir af US) og komma-stjórnarinnar (studdir af USSR).  Það ríkti algjört stjórnleysi í landinu þar sem að hinir ýmsu stríðsherrar voru í sífelldum erjum sín á milli.  Þetta vandræðaástand leiddi til þess að Talibanar komust til valda og víst stjórnuðu þeir með vægast sagt harðri hendi en það kannski var það, það eina sem dugði við þessar aðstæður.  Ég ætla síst að fara að mæla Talibönum bót, enda tel ég mjög óæskilegt að láta trúaroftækismenn komast til veraldlegra valda, en þeir komu þó á lögum og reglum, þó að það hafi sannarlega verið mjög umdeilanleg lög og reglur. 

Innrásin í Afganistan var síðan gerð í kjölfar 9/11 og móðusýkinnar sem fylgdi í kjölfarið.  Innrásin virtist í sjálfu sér ganga "vel" en hins vegar hafa "bandamenn" aldrei náð að sjórna öllu landinu nema bara að nafninu til.  Eins og Salvör ætti að vita kvenna best (via eiginmanninn) þá er þetta algjör vindmyllu-slagur og völd stjórnarinnar eru mjög takmörkuð í landinu og fara frekar minnkandi en hitt.  Þessi friðargæsla er því orðinn hálf-gerður brandari og ljóst að menn fara þarna núorðið frekar af ævintýra-mennsku og gróðrarhyggju en hugsjón. 

Þorsteinn R. Þórsson (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 15:22

5 identicon

Blóð þessara saklausu borgara er ekki á höndum hersveita Atlantshafsbandalagsins.

Sektin liggur öll hjá þeim sem fela sig á bakvið slíka saklausa borgara í hernaði og vilja frekar beita ósæmilegum sprengjuárásum á saklausa borgara en mæta óvinum sínum á vígvelli.

Af hverju skrifa menn ekki um að Talíbanar ættu nú bara að hætta þessu rugli og gefast upp?

En nei, hér vilja menn frekar styðja siðlausa hryðjuverkamenn. Ættu menn að hætta að eltast við morðingja og nauðgara ef það væri erfitt og dýrt að gera slíkt?

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 17:14

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er greinilegt á höfunda-síðum Þorsteins Ingimarssonar og Vilhjálms Þorsteinssonar, að þeir voru báðir komnir til vits og ára, þegar hernaður Sovétríkjanna stóð yfir í Afganistan. Samt minnist ég þess ekki, að þeir hafi gagnrýnt þá slátrun og þá mögnuðu stríðsglæpi, sem þá áttu sér stað í landinu af hálfu innrásarliðsins. 1,5 til 1,6 millj. manna féll í því stríði, sem lætur þessi hörmulegu mistök NATO-hersveitanna blikna í samanburði. En nú fannst Vilhjálmi og Þorsteini tími til kominn að fara af stað með harða gagnrýni á hjálp NATO við ríkisstjórnina í Afganistan gegn lúalegum hryðjuverka-hernaði einhverra mestu öfgamanna síðari áratuga! (Í framhjáhlaupi vil ég benda hér á málefnalega href="http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?grein_id=1154179/">grein eftir Ásgeir Sverrisson í Mogganum í gær um ástandið í Afganistan.)

Talibanar eru komnir út í sama ljóta leikinn og andstöðuöflin í Írak: hryðjuverk sem bitna á almennum borgurum (auk þess að fela sig bak við saklausa borgara, eins og Hizbollah gerði). Sannarlega er sá ekki tilgangur NATO-hersveitanna; ef Vilhjálmur heldur því fram, vitum við, að hann er að tala þvert um hug sér. Hann ætti að spyrja Þjóðverja og Kanadamenn, af hverju þeir standi í þessari baráttu í Afganistan þrátt fyrir dýrkeypt mannfall a.m.k. hjá þeim síðarnefndu.

Jón Valur Jensson, 8.7.2007 kl. 18:30

8 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Má ég gerast svo frakkur að minna á hvað Palístínumenn sjálfir kusu.Jú mikið rétt þeir kusu sér stjórn sem kennd er við Hamas samtökin,áður var auðvitað Fatha Hreyfingin og Jasser Arafat þeirra gúru.

Hvað gerist síðan Hamas henta ekki Ísrael né vesturlöndum og voru bara settir af svona nokkuð eins og Talibanar,Kannski verða einn daginn Sjálfstæðismenn bara settir af á Íslandi því þeir henta auðvitað ekki einhverju landi í heiminum sem þykist ætla að frelsa liðið með meiri drápum jíbbbbbbbyyyyyyy en svona er bara allt í heimi hér rotið og ömurlegt ég styð ekkert neinn í stríði ég styð aftur á móti lausn og frið guði mínum til handa.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 8.7.2007 kl. 19:56

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég tek undir með orðum Þorsteins Þórssonar hér að ofan.  Ástand eins og það sem nú er í Afganistan myndast ekki í tómarúmi.  Líta verður til sögunnar og bakgrunnsins.  Þá sést að landið hefur um áratuga skeið verið leiksoppur stórvelda sem hafa fjármagnað og vopnað stríðsherra og öfgahópa.  Það er ekki von á góðu í framhaldi af slíku, og reyndar er sama lexía í gangi í Palestínu.  Ég held að það verði að reyna aðrar aðferðir en áframhaldandi hersetu og árásir sem bitna ekki síst á óbreyttum borgurum.  Miklu nær væri að hætta hernaðinum og vinna í staðinn að málamiðlun og hjálparstarfi.  Varð nokkuð heimsendir þótt Bandaríkjamenn færu á sínum tíma frá Víetnam?  Landið virðist bara pluma sig sæmilega, takk fyrir.  Það er miklu betra að fá fólk til liðs við málstað lýðræðis og mannréttinda með hjálp gulrótar í stað kylfu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.7.2007 kl. 20:15

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.S. Ég las einmitt afar góða fréttaskýringu Ásgeirs Sverrissonar í Mbl. og hún var ekki síst kveikjan að mínum skrifum.  Sé ekki alveg hvernig Jón Valur fær það út að sú grein styðji hans málstað.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.7.2007 kl. 20:18

11 identicon

"Varð nokkuð heimsendir þótt Bandaríkjamenn færu á sínum tíma frá Víetnam?"

Hefurðu kynnt þér ástandið í Víetnam? "Plumar sig ágætlega" !!? Landið er fátækt, þrúgandi lögregluríki. Hvort vildir þú frekar búa í Víetnam eða Suður Kóreu?

Það má vera að það sé ekkert annað hægt að gera en að fara frá Afganistan. Kannski er ekki hægt að koma þar á viðunandi ástandi, a.m.k ekki án þess að færa fórnir sem NATO og Bandaríkin eru ekki tilbúin að færa. En væri slík leið farin væri það ákvörðun byggð á raunsæi og eiginhagsmunum. Að tengja hana einhvernvegin við mannfall í stríðinu gefur það til kynna að það búi einhver mannúðarsjónarmið að baki. Það getur ekki í neinum skilningi talist mannúðlegt að skilja heila þjóð eftir á valdi ofstækismanna á borð við Talibana.

Á Sádi Arabíu og Afganistan er sá reginmunur að Bandaríkin og NATO eru ekki hernámsveldi í fyrrnefnda landinu.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 21:29

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er áskrifandi að tímaritinu Fortune, miklu amerísku kapítalistablaði eins og þeir vita sem þekkja.  Þar var um daginn heilmikil grein um stöðu mála í Víetnam og hina miklu fjárfestingarmöguleika sem þar væri að finna.  Var jafnframt tekið fram að tengsl Víetnams og Bandaríkjanna væru mjög að þiðna.  Mér fannst þetta athyglisverð lesning.  Sá ekki betur en að eðlileg samskipti og viðskipti væru að skila árangri sem blóðugt stríð hefði aldrei náð.

Afganska þjóðin mun ekki til lengdar þola talíbana ef þeir halda uppteknum hætti, eins og honum er lýst.  Meira að segja Suður-Afríkumenn vörpuðu fyrir rest af sér oki aðskilnaðarstefnunnar, og var hún þó mjög föst í sessi.  Besta leiðin til að fást við öfgastjórnir er að einangra þær á alþjóðavettvangi, og reyna að hjálpa fólkinu en setja stein í götu stjórnvalda.

Ég skil ekki síðustu málsgreinina hjá HH.  Skoðanir talibana og stjórnvalda í Sádí-Arabíu fara mjög saman, enda af sama meiði íslam.  Í Sádí-Arabíu er einveldi, ritskoðun, mannréttindi kvenna sáralítil, lög eftir bókstaf Kóransins túlkuðum út í ystu öfgar o.s.frv.  Þeir sem telja að NATO sé í Afganistan til að afstýra slíkum stjórnarháttum, eiga að gera skýlausa kröfu til að jafnframt sé ráðist inn í Sádí-Arabíu, með sömu rökum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.7.2007 kl. 21:50

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var ekki að benda mönnum á að lesa grein Ásgeirs, af því að hún styddi neitt við það, sem ég var að segja í ábendingum mínum til þín, Vilhjálmur, og til Þorsteins Ingimarssonar. Hins vegar er grein Ásgeirs miklu balanceraðri og mun fróðlegra yfirliit en skrif þín hér ofar.

Jón Valur Jensson, 8.7.2007 kl. 23:57

14 identicon

Víetnam er samt fátækt land. Þjóðarframleiðsla á mann jafngildir 620 dollurum. Til samanburðar er þjóðarframleiðsla á mann 280 dollara á mann í Úganda, 15.830 í Suður Kóreu og 46.320 hérna á Íslandi (skv. vef BBC). Þeir eru ennþá fátækir þrátt fyrir uppganginn.

Það sem skiptir þó líklega enn meira máli er að í Suður Kóreu hefur þróast fjölflokka lýðræðiskerfi á meðan að Víetnamar sitja enn uppi með alræðisstjórn.

 "Besta leiðin til að fást við öfgastjórnir er að einangra þær á alþjóðavettvangi, og reyna að hjálpa fólkinu en setja stein í götu stjórnvalda". Meinarðu eins og í Írak, Íran, Kúbu, Zimbabwe, Norður Kóreu....? Á hvorum skyldi það nú koma verr niður, fólkinu eða valdaklíkunni?

Skv. Genfarsáttmálanum ber hernámsveldi ábyrgð á því landsvæði sem það hernemur. Við hljótum að samþykja það að úr því að Bandaríkin og NATO hafa hernumið Afganistan að þá ber okkur siðferðileg skylda til þess að reyna að koma þar á réttlátri stjórn.

Nú er ég ekkert viss um að það sé hægt en verði NATO herafli kallaður frá Afganistan ættum við ekki að láta eins og það sé einhver mannúðarráðstöfun, jafnvel til marks um einhverja friðsemd að selja fólk í hendur ofbeldismanna. Við ættum að horfast í augu við það að hafa mistekist og skammast okkar fyrir það.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 9.7.2007 kl. 00:47

15 identicon

Gleymdi (þú ert kannski líka búinn að gleyma þessu): Það var ráðist inn í Afganistan vegna þess að Talibanar neituðu að afhenda Osama bin Laden og hans klíku, ekki vegna talibanastjórnarinnar sem slíkrar.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 9.7.2007 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband