4.7.2007 | 00:17
Refsigleði er röng
Ég er á móti refsigleði. Í gær virtist mér bætast stuðningur í því efni úr óvæntri átt, sem sé frá engum öðrum en George W. Bush. Hann lýsti því yfir að 30 mánaða fangelsi væri of ströng refsing fyrir Lewis ("Scooter") Libby, fyrrum aðstoðarmann Dick Cheney, en hann hafði verið fundinn sekur um meinsæri. Bush náðaði því Libby hvað fangelsisvistina varðar. Virðist eins og við Georg séum orðnir sammála um að refsigleði bandaríska dómskerfisins sé komin út í algjörar öfgar.
Refsigleði er múgsefjunarfyrirbæri og kemur upp á bestu bæjum, til dæmis hér á Íslandi í kring um kynferðisafbrot ýmis konar, og meira að segja er til fólk hér á landi sem segist hlynnt dauðarefsingum við verstu ofbeldisglæpum.
Ég hef mjög takmarkaða trú á ofurströngum refsingum. Flestir þeir glæpir sem fólk vill refsa harðlega fyrir eru einhvers konar stundarbrjálæðisglæpir, þar sem gerandinn er ekkert að leiða hugann að því hvort hann fái 2ja, 5 eða 16 ára fangelsi fyrir verknaðinn. Hinn dæmigerði ofbeldisglæpamaður er ekki mikill homo economicus, sleipur í líkindareikningi og væntigildum.
Við verðum að hafa hugrekki til að velta fyrir okkur jarðvegi og orsökum glæpa, ekki bara að bregðast við afleiðingunum með frumstæðari hlutum heilans. Nú nýlega kom upp úr kafinu að talsverður hluti glæpa- og ólánsmanna ákveðinnar kynslóðar á Íslandi hafði verið á upptökuheimilinu að Breiðuvík í æsku, og verið misnotaður þar á ýmsan hátt. Er endilega sanngjarnt að refsa þessum mönnum harkalega fyrir misgjörðir sínar, ef orsakanna er að leita í því hvernig hið opinbera kerfi brást þeim gjörsamlega í æsku? Væri þá ekki nær að vinna í að komast fyrir orsakirnar?
Ég er ekki trúaður maður. En ég held að Kristur hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann hvatti til fyrirgefningar. Mér finnst reyndar kristin trú og refsigleði alls ekki fara saman, en um það erum við George W. Bush örugglega ósammála.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ástandið er einfaldlega hræðilegt í Bna þrátt fyrir þunga dóma. Þú getur t.d. endað í fangelsi í meira en áratug ef það finnast á þér fíkniefni, samt blómstra undirheimarnir og fíkniefnaneysla eykst.
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 02:11
Ég er alveg hjartanlega sammála þér Vilhjálmur. Ég hef oft og mörum sinnum þurft að tala fólk til sem gnístir tönnum og hreytir frá sér yfirlýsingum um brjálæðislega fangelsisdóma, jafnvel pyntingar og aftökur.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 4.7.2007 kl. 11:22
Ég verð að jáa þig í þetta skiptið. Ofurharðar refsingar skapa einnig það ástand að afbrotamenn sem eiga yfir höfði sér þunga dóma eru tilbúnir til að ganga lengra til að hylja yfir glæpinn, enda er til mikils að vinna svo komist ekki upp um þá. Einhvern tíman las ég rannsókn sem benti fram á sterka fylgni milli harðari refsiramma og tíðni alvarlegra glæpa í samfélaginu. Hvort kom á undan, eggið eða hænan get ég ekki fullyrt um. Það er þó áhugaverð hugsun hvort ofurharður refsirammi geti aukið tíðni alvarlegra ofbeldisglæpa.
Gaman að sjá George Bush náða Libby. Mér finnst hann samt hafa geta byrjað á Paris Hilton þegar hún fór inn, ef ekki bara til að sýna stöðugleika í ákvörðunartöku.
Elísabet Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 11:55
Tek undir þín skrif. Refsigleði skilar engu nema brotnum einstaklingum. Refsing á að snúast upp í betrun og svo þarf að finna önnur úrræði en að loka menn á bak við lás og slá til langs tíma.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 4.7.2007 kl. 11:58
Loksins les ég eitthvað af viti um afbrotamál. Því miður verður maður var við alltof
mikla refsigleði t.d. í skrifum Morgunblaðsins.
Þakka þér.
Sæmundur Gunnarsson
Sæmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 14:12
Þó ég sé þér sammála í að refsigleði bandaríkjamanna gangi út í öfgar oft á tíðum þá held ég að þú hafir ekki tekið rétt mál til styðja málstað þinn í þessu tilviki.
(sjá link)
http://www.crooksandliars.com/2007/07/03/keith-olbermanns-special-comment-you-ceased-to-be-the-president-of-the-united-states/#more-18986
Þó finnst mér við á Íslandi oft ekki taka nógu hart á málunum hvað varðar okkar afbrotamenn þó það sé kannski skárra heldur en bandaríska aðferðin.
Vera (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 14:16
Best að ég útskýri að ég er ekki að fagna því sérstaklega að Bush sleppti Libby við fangelsi. Það var nú bara stílbragð að segjast vera sammála Bush, ég er það nánast aldrei
Þetta mál er svona svipað og mál Jónínu Bjartmarz að því leyti að þegar ofurströngu lögin eiga að bitna á valdamönnum sjálfum, þá er hlaupið upp til handa og fóta að finna undanþágur og undankomuleiðir. Það er ekki verið að éta eigin hundamat, sem sagt.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.7.2007 kl. 18:43
Menn verða að muna að fangelsisvist er neyðarúrræði sem samfélagið grípur til þegar ekkert annað dugar.
Því miður er einsog sumum sé ekki viðbjargandi.
Grímur Kjartansson, 4.7.2007 kl. 20:21
Það vantar eiginlega að hægt sé að gefa 6 stjörnur, því meira sammála gæti ég ekki verið. Refsing á að vera til vernda samfélagið fyrir hættulegum mönnum, kenna þeim lexíu, rétta af óréttlæti (t.d. í formi skaðabóta) o.s.frv., en þegar þetta snýst bara um hefnd eða hvað viðkomandi "á skilið", þá... já, þú orðaðir þetta svo vel, ég læt bara við sitja.
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.