Hlutlaus fræðsla er mannréttindi barna

Í Bandaríkjunum og víðar hefur heimakennsla barna (home schooling) færst í aukana hin síðari ár.  Foreldrar taka með öðrum orðum að sér að kenna börnum sínum, og velja sjálfir námsefnið að verulegu leyti, en í flestum tilvikum verða börnin engu að síður að standast samræmd próf á vegum yfirvalda.

Foreldrar sem velja heimakennslu eru gjarnan óánægðir með hið almenna skólakerfi af einhverjum ástæðum, og algengt er að þeir hafi svo sérstakar trúarskoðanir að þeir vilji ekki að börnum sínum séu kennd fræði sem stangast á við þessar skoðanir, svo sem þróunarkenningin, jarðsagan o.fl.

(Sjálfur vann ég einu sinni í hollensku fyrirtæki sem stofnað var af strangtrúuðum Kalvínistum, og var þar margur kynlegur kvisturinn.  Til dæmis voru þeir þeirrar bjargföstu trúar að menn hefðu áður og fyrr orðið mjög gamlir, því jörðin er skv. útreikningum þeirra um 6000 ára gömul en í biblíunni má sjá af ættartölum að í mesta lagi 40-50 kynslóðir hafi lifað á jörðinni frá upphafi.  Einföld deiling sýnir fram á að fyrri kynslóðir hafi orðið vel aldraðar - og eignast börn seint! - ef þetta á allt að ganga upp.  Fleira var þarna stórundarlegt en það er efni í síðari bloggfærslu.)

Ég er á móti heimakennslu af því að ég tel hana andstæða mannréttindum barna og hættulega samfélagi framtíðar.  Börn eiga rétt á því að fá hlutlausa fræðslu, ómengaða af bábiljum, fordómum og kreddum sem foreldrarnir kunna að vera haldnir.  Á grundvelli þeirrar fræðslu eiga þau sjálf að velja sína trú þegar þau hafa vit og aldur til.  Ef bandarískir kreddukjánar komast upp með að fóðra börn sín á sömu vitleysunni, þá er ekki von á góðu þegar ný kynslóð erfir landið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér Vilhjálmur. En ég las fyrir nokkrum árum að nær helmingur Bandaríkjamanna tryðu ekki á þróunarkenningu Darwins.

Það hefur verið rætt ítarlega um þetta mál í Reporting Religion á BBC og þar segir að hlutlausir foreldrar kenni börnunum sínum báðar kenningar.

Mér finnst Intelligent Design argasta þvæla en það er lýðræðislegur réttur fólks að trúa þessari þvælu og ég get ekki gert annað gegn þessu en að vinna vísindalegum þankagangi fylgi á lýðræðislegan hátt.

Kveðja, Gaui

Ps. Svo keypti ég nú nokkrar AK47 og sprengjuodda frá gamla Sovjet til öryggis ef fólk fer eitthvað að misskilja lýðræðið :)

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 22:17

2 Smámynd: halkatla

þetta er mannréttindamál. Börn kynnast svo mörgu öðru í skólum en bara námsefninu. Það þarf að sjá til þess að skólar séu góðir og að allir geti notið sín þar. Þá fyrst má banna heimakennslu. Ég gæti ekki verið meira sammála þér um að skrítnar trúarskoðanir þurfi að fá mótvægi, allavega svo að krakkinn eigi einhvern möguleika á að velja sjálfur sitt viðhorf - þessvegna er miklu betra að hafa ekki neina heimaskólun, og ekki undarlega einkaskóla.

halkatla, 2.7.2007 kl. 01:47

3 identicon

Dettur engum í hug að í ríkisskólum sé að finna kennara sem flokkist undir "kreddukjána" eða tilheyri þeim "helmingi" Bandaríkjamanna sem trúi ekki á sannleiksgildi þróunarkenningar Darwins. Ég er viss um að í sumum tilvikum sé heimakennsla foreldranna mun betri kostur en að senda krakkana í skóla þar sem þeim líður illa eða eru jafnvel í hættu. Heimakennsla þýðir ekki endilega að börnin taki engan þátt í tómstundastarfi utan skólans. Fólk verður að passa sig að setja ekki allt undir einn og sama hatt og dæma hlutina út frá tilfinningum einum saman án þess að þekkja vel til allra hliða málsins. Kallast það ekki fordómar?

Mak (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 12:39

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll.  Ég er sammála þér um kreddurnar.  Trúlega er best að hafa skólaskyldu í um 10 ár og börnum þarf að tryggja ákveðin gæði í námsefni og kennslu.  Hins vegar er ekki víst að hið ríkisrekna form sé hið eina sem eigi að vera við lýði og mér finnst ekki rétt að að útiloka heimakennslu sjálfkrafa.  Haldi heimakennsla uppi þeim staðli sem þjóðfélagið telur nauðsynlegan til að tryggja góða menntun, er erfitt að neita fólki um slíkt fyrirkomulag.  Í sumum tilvikum er heimakennslan til bóta og verndandi en auðvitað getur hún einnig verið "kredduhreiður" og því er erfitt að ganga úr skugga um að framkvæmdin sé traust.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.7.2007 kl. 14:37

5 identicon

Finnst vera byrjað að flokka of mikið undir mannréttindi.

Mér finnst það allavega sjálfsögð réttindi að vera laus frá ofbeldi ríkisvaldsins. Að vera þvingaður í almenningsskóla er ekkert annað en ofbeldi. 

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 15:20

6 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Ég er sammála.  Mér finnst mannréttindi að börn hafi aðgang að fleirri fullorðnum en sínum eigin foreldrum.  Ég þekki það ekki nógu vel, til að dæma foreldra, en það getur verið að skólar geti verið misjafnlega góðir og oft telji foreldrar börnin sín betur komin í heimanámi heldur en í þeim skóla sem börn þeirra hafa aðgang að.  Þá erum við komin að öðru jafnréttindamáli. En svona í heildina, þá held ég að bæði börn og foreldrar hafi ekki gott af því að vera saman "alltaf"

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 2.7.2007 kl. 16:10

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég tel að ekki sé gott (því miður) að foreldrar ráði þessu.  Þarna stangast á hagsmunir barnsins og foreldranna, og ég tel að hagsmunir barnsins eigi að ráða, þ.e. að fá staðlaða, almenna menntun óháð skoðunum eða fordómum foreldranna.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.7.2007 kl. 21:58

8 identicon

Áhugaverðir punktar og sammála að flestu leiti. Eftir lesturinn varð mér hugsað til þessarar sögu sem mér finnst áhugaverð frá sjónarhóli réttsýni, rangsýni og þröngsýni ... og ákvað að láta verða af því að skella henni á netið.

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband