Hvað gerir Seðlabankinn?

Á miðvikudagsmorgunn kynnir Seðlabankinn næstu vaxtaákvörðun sína.  Það verður athyglisvert að sjá hvernig tónninn verður í þetta skiptið.  Ef ég mætti hvísla í eyru Seðlabankastjóra, ráðlegði ég þeim að byrja að gefa tóninn - blíðlega - um lækkun vaxta.  Af hverju?  Jú, það er ljóst að vaxtahækkanirnar eru ekki að skila tilætluðum árangri, heldur fremur í öfuga átt.

Fjárfestar og almenningur líta svo á að Seðlabankinn sé að lofa þeim sterkri krónu til alllangs tíma.  Það þýðir að jöklabréfaútgáfan heldur áfram og að almenningur einhendir sér í ódýr erlend lán, fyrir húsnæði, bílum og jafnvel neyslu.  Vextirnir eru sem sagt neysluhvetjandi en ekki letjandi eins og hefðbundin hagfræði segir.

Jöklabréfastabbinn er kominn í 700 milljarða og fer stækkandi.  Þarna eru peningar sem munu flæða út úr krónunni aftur þegar vaxtamunarviðskipti (carry trade) dragast saman á heimsvísu.  Að óbreyttu mun þetta ójafnvægi fara í 1000 milljarða og enn hærra.  Það verður ekki gaman þegar allir fílarnir ætla að troða sér út um litlar útgöngudyr, daginn sem krónan byrjar að falla.  Þá mun markaður fyrir krónur einfaldlega hverfa (sbr. 19. febrúar 2006), seljanleiki verður enginn, skrúfa þarf vexti upp í hundruðir prósenta tímabundið o.s.frv.  Seðlabankanum er vandi á höndum að reyna að komast hjá þessari stöðu með því að veikja krónuna afar mjúklega.  Á því verður að byrja sem allra fyrst, ef við eigum að komast hjá krísu sem kallar ekki allt ömmu sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Ég er búinn að búast við hruni krónunnar svo lengi, að ég er hættur að halda í mér andanum.

Það verður lítil fróun í að geta sagt "I told you so" þegar það loksins gerist.

Kári Harðarson, 14.5.2007 kl. 16:32

2 Smámynd: Púkinn

Ég vona nú bara að hún hrynji meðan enn er eitthvað eftir af útflutningsfyrirtækjum á Íslandi, en ofurgengið hefur hægt og rólega verið að murka úr þeim líftóruna.

Púkinn, 14.5.2007 kl. 17:22

3 Smámynd: haraldurhar

    Tek undir hvert orð sem þú segir um vextina.  Það ætti öllum að vera ljóst að stýrivextir sem eru út úr Q.  Vinna í þveröruga átt við það sem þeim er ætlað.

   Með um 10% hærri stýrivexti en önnur lönd sem við viljum bera okkur saman við sér hver heilvita maður að gengur ekki í opnu viðskiptaumhverfi.

   Fjármagnseigendur um víðan völl, eru að sjálfsögðu reiðubúnir að ráðstafa hluta af auðæfum sínum í að kaupa lottomiða. með 14% vöxtum, en eins og þú segir þá verður æði þröngt í dyrunum þegar þeir hefja sölu. Því enginn vill að sjálfsögðu vera síðasti maður til að slökkva ljósið.  Máski það verði Davíð.

haraldurhar, 14.5.2007 kl. 18:12

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Kannski flýjum við Íslendingar bara í þyrlu meðan fílarnir troðast að dyrunum - TF-EUR kemur til bjargar!

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.5.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband