11.5.2007 | 02:05
Íslendingar flýja krónuna
Ástand efnahagsmála er afskaplega einkennilegt um þessar mundir. Fyrirtæki á borð við Actavis, Straum, Marel og CCP færa bókhald sitt yfir í evrur og dollara. Almenningur fjármagnar kaup á bílum og íbúðarhúsnæði í erlendri mynt. Á meðan kaupa erlendir fjárfestar jöklabréf fyrir milljarðatugi og eru komnir samtals með mörg hundruð milljarða stöðu í hávaxtakrónu.
Ég spái því að íslensk fyrirtæki byrji fljótlega að bjóða starfsfólki að taka laun í evrum eða dollurum í stað krónu. Þá getur fólk verið rólegt yfir því að hafa lánin sín í evrum. Af kynnum mínum af upplýsingakerfum verslana veit ég að það er lítið mál fyrir búðir almennt að verðleggja vörur í evrum og krónum samhliða, og þá er stutt að bíða eftir debet- og kreditkortum á evrureikningum hjá bönkunum.
Sem sagt, almenningur er á leiðinni út úr krónunni og það verða smám saman aðallega erlendir spekúlantar og ríkissjóður sem halda í krónuna, svo ekki sé nú minnst á Seðlabankann, sem missir alla stjórn á hagkerfinu sem fólkið kýs með veskinu.
Þá vaknar góð spurning: er nokkuð slæmt við það?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef hlutirnir gerast í rangri röð getur það leitt til hruns. Ég er einn þeirra sem er nokkuð viss um að við verðum fyrir áfalli í efnahagsmálunum. Stjórnarflokkarnir einkavinavæddu bankana. Þessi sama stjórn kennir síðan bönkunum um að bera ábyrgð á þenslunni.
Bankarnir voru jú seldir með næstum ótæmandi lánstraust frá gömlum tíma ríkisábyrgðar og þeir nýttu sér það. Þeir hafa tekið mestu sambankalán sögunnar og afleiðingar eru t.d. offramboð lána leiddi af sér rúmlega tvövöldun á fasteignaverði og fólk nýtti sér það almennt að skuldbreyta húsnæðislánum og nýtti síðan mismun í bíla, húsbíla, sumarhús og annan munað. Þessi sömu lán frá bankakerfinu hafa verið notuð til að fjármagna kaup útrásarsnillinganna í erlendum hlutabréfum.
Þetta er grunnurinn að íslenska efnahagsundrinu, eitt risastórt lánsfjársukk inn í framtíðina. Allar hagvaxtartölur taka kipp og það er að verða flestum ljóst að hér er falskur tónn. Efnahagurinn tekur kipp vegna óráðsíu en ekki vegna ábyrgrar og traustrar fjármálastjórnar. Enda getur enginn bent á að á Íslandi hafi orðið veruleg verðmætasköpun í framleiðslugreinum. Gróðinn er huglægur að mestu í erlendum hlutabréfum sem geta síðan gengið til baka.
Mitt í öllu þessu hækkar Seðlabankinn stýrivexti sem setur í gang sölu á krónubréfum sem heldur krónunni sterkri á meðan eftirspurn er eftir henni. Þessi krónubréf heyrði ég að væru kominn í 650 milljarða. Þegar þessi eftirspurn gengur til baka í formi hræðslu eða vaxtalækkunar má búast við að þá komi verulegur vandræðagangur á krónuna.
Maðurinn er ekki ólíkur fuglunum og þar komum við að helstu rökum fyrir harðri efnahagslendingu. Þeir fljúga upp allir í einu þegar styggð kemur að þeim. Þetta gerir maðurinn líka!
Haukur Nikulásson, 11.5.2007 kl. 07:19
Já, sumir viðmælendur mínir spá veikingu krónunnar strax á mánudaginn, eftir kosningar. Sjáum til...
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.5.2007 kl. 12:19
Á aðildar að Evrópusambandinu gæti svona ferli, ef það gerðist í raun, leitt til þess að við hefðum engin stjórntæki eða öryggisnet til að ráða við eitt eða neitt í efnahagslífinu. Slíkt gæti hæglega endað með algerum ósköpum eins og ófáir hagfræðingar hafa bent á.
Hjörtur J. Guðmundsson, 11.5.2007 kl. 21:39
Evrópusambandsaðild er hins vegar ekki fýsileg.
Hjörtur J. Guðmundsson, 11.5.2007 kl. 21:42
Sæll Villi. Jú þetta er greinilega þróunin. Það fjarar smátt og smátt undan krónunni og kannski ekkert athugavert við það. Fjölmyntasamfélög bjóða upp á ýmis tækifæri. Hnattvæðingin og rafrænu viðskiptanetin leiða líka til þess að þetta verður þróunin á heimsvísu. Friedrich Hayek vildi að þjóðir hættu að reka seðlabanka og myntsláttur en láta stóra einkabanka um að gefa út gjaldmiðla.
Þorsteinn Sverrisson, 11.5.2007 kl. 22:31
Nothing wrong with getting rid of the Krona. Good riddance, I say !
Kari
Kári Harðarson, 14.5.2007 kl. 16:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.