2.5.2007 | 00:42
Aðför að lýðræðinu og stjórnarskránni haldið til haga
Rétt fyrir kosningar er vert að halda til haga einu af stærstu deilumálum kjörtímabilsins sem nú er senn á enda, sem sagt fjölmiðlamálinu og umræðunni um stjórnarskrána og lýðræðið sem fylgdi í kjölfarið.
Eins og menn muna sjálfsagt fór allt í bál og brand í júní og júlí 2004 eftir að forseti Íslands synjaði fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar staðfestingar. Með því vísaði hann í raun frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þá bar svo við að fylgismenn ríkisstjórnarinnar, einkum Sjálfstæðismenn, fundu þessu allt til foráttu; töldu forsetann í raun ekki hafa það vald sem í stjórnarskránni stendur. Ef til atkvæðagreiðslu kæmi, vildu þeir setja um hana sérstök lög með þrengri skilmálum en fyrirfinnast í stjórnarskránni, einkum um lágmarksþátttöku til að atkvæðagreiðslan teldist "gild" og jafnvel aukinn meirihluta.
Mér fannst þá og finnst enn að þessir menn væru að leika sér að eldinum og sýna verulegan valdhroka, jafnvel tilhneigingu í átt að fasisma. Þarna var í fúlustu alvöru talað um að ganga gegn skýrum fyrirmælum stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands. Þessi umræða öll var viðkomandi til skammar og ég ætla rétt að vona að þetta mál gleymist ekki í kosningunum núna. Það er rétti tíminn 12. maí að senda þau skilaboð - einkum til Sjálfstæðisflokksins - að svona gera menn ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:44 | Facebook
Athugasemdir
Algjörlega sammála þér Vilhjálmur! Þetta má ekki gleymast, enda einhver ljótasta atlaga sem hefur verið gerð gegn stjórnarskrá lýðveldisins og í raun jaðraði við' landráð!
Kristján H Theódórsson, 2.5.2007 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.