26.1.2011 | 11:43
Hæstiréttur og stjórnlagaþing
Úrskurður Hæstaréttar um að ógilda kosningu til stjórnlagaþings kom mér verulega á óvart. Ég reiknaði með að rétturinn gerði athugasemdir við einstök framkvæmdaatriði en kom ekki til hugar að "fræðilegir" ágallar á kosningunni gætu orðið til þess að ógilda hana með öllu. Ég hefði haldið að til svo róttæks meðals yrði ekki gripið nema að einhver þau atvik hefðu raunverulega orðið sem vörpuðu vafa á niðurstöðuna. Skoðum þau atriði sem Hæstiréttur telur hafa verið annmörkum háð.
Kjörseðlar voru númeraðir í hlaupandi röð. Sá sem hefði aðgang að gögnum úr kjördeildum og að seðlunum sjálfum gæti fræðilega tengt saman kjósanda og atkvæðaseðil hans. Engin vísbending er hins vegar um að slíkt hafi verið gert og að sjálfsögðu hefur þetta atriði engin hugsanleg áhrif á niðurstöðu kosninganna.
Kjörklefar ófullnægjandi. Pappaskilrúm eins og notuð voru hér eru víða í notkun erlendis. Enginn kvartaði á kjörfundi yfir því að sér væri ómögulegt að gæta leyndar vegna þessa.
Ekki mátti brjóta saman kjörseðil. Í lögum um Alþingiskosningar segir að kjósandi skuli skila kjörseðli í sama broti og hann tók við honum. Enginn kvartaði á kjörfundi yfir því að hafa verið beðinn að skila óbrotnum kjörseðli í kassa.
Kjörkassar ekki læstir. Kassarnir voru hins vegar innsiglaðir með þeim hætti að það hefði sést ef þeir hefðu verið opnaðir áður en þeir komu á talningarstað. Engin tilkynning hefur borist um slíkt atvik.
Fulltrúar frambjóðenda ekki viðstaddir talningu. Ég veit um a.m.k. tvo frambjóðendur sem heimsóttu Laugardalshöll meðan á talningu stóð til að fylgjast með. Þeir leituðu ekki eftir því að vera inni í sjálfum talningarsalnum og það reyndi aldrei á hvort slíkri beiðni hefði verið neitað ef hún hefði komið fram. Erlendur sérfræðingur og ráðgjafi, dr. James Gilmour, fylgdist hins vegar með framkvæmd kosningarinnar og talningu og skilaði skýrslu þar sem hann lauk sérstöku lofsorði á framkvæmdina.
Að virtu öllu ofangreindu finnst mér að það hefði verið í anda meðalhófsreglunnar að Hæstiréttur hefði fundið að framkvæmd kosningarinnar, en ekki gengið svo langt að ógilda hana. Enda eru engin áþreifanleg tilvik fram komin sem hægt er að segja að varpi vafa á niðurstöðuna, þ.e. birtingu lýðræðislegs vilja almennings.
Stjórnlagaþing fékk verkefni sitt í hendur frá Alþingi og átti að skila niðurstöðu sinni til Alþingis. Ég tel það því vera færa leið í stöðunni að Alþingi tilnefni þá 25 einstaklinga, sem fengu kjörbréf sem stjórnlagaþingfulltrúar, til þess að taka að sér það verkefni óbreytt að semja nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Að öðrum kosti þarf að kjósa aftur, og ég er reiðubúinn í það ef þarf. En stjórnlagaþing verður að halda, svo mikið er víst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Villi, burt séð frá stjórnlagaþinginu og framkvæmd kosninga til þess, er í lagi að brjóta lög ef skaðinn er enginn ?
Pétur Richter (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 12:23
Takk fyrir góða samtekt og mikið er ég sammála því sem þar kemur fram. Sannleiksskýrslan góða gagnrýndi einmitt þessa bókstafstrú sem lagatæknar beita. Sú skoðun sem kemur fram hjá Pétri hér á undan mér tel ég vera hættuleg því samvæmt henni eru allar reglur ófrávíkjanlegar og skynsemi því óþörf.
Geir (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 12:54
Pétur, málið er ekki svarthvítt fremur en önnur flókin viðfangsefni. Það mætti alveg eins gagnálykta að nú hafi verið opnað fyrir það að kverúlantar geti fengið kosningar ógildar eftir á með þrætubókarlist ef þeim líkar ekki niðurstaðan, án þess að þurfa að kvarta á kjörfundi eða benda á tiltekin atvik máli sínu til stuðnings. Er það endilega góð þróun fyrir lýðræðið?
Svo má ekki gleyma meðalhófinu: það er ekki sama refsing við því að aka yfir á rauðu ljósi annars vegar og að valda dauðaslysi með því hins vegar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.1.2011 kl. 13:31
Sæll Vilhjálmur. Ég las dómsúrskurð Hæstaréttar og get fallist á að niðurstaðan er mjög ströng, miðað við ágallana sem til eru nefndir.
Í ljósi þess að stjórnlagaþing er ráðgefandi til Alþingis, og að þar þarf að samþykkja frumvarp til endanlegs samþykkis þjóðarinnar, þá er etv. erfitt að sætta sig við þessi ofurströngu skilyrði. En það var ekki Hæstiréttur sem ákvað að styðjast í framkvæmdinni við lög um kosningar til Alþingis, sem eru eðli síns vegna formfastari en hér var nauðsynlegt. Að vissu marki má segja að Hæstiréttur sé hér að verja kosningalög sem notuð eru til Alþingis, þar eð dómurinn hlýtur að teljast hafa fordæmisgildi um slíkar kosningar einnig.
Umræðan um að þessi dómur, sem er tæknilegur úrskurður um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings ekki innihaldið sjálf, hafi einhver víðtækari áhrif en þau að kjósa þurfi aftur, er óskiljanleg. Alþingi samþykkti lög um að stjórnlagaþing skuli haldið og með hvaða hætti það skuli valið. Ágallar fundust í framkvæmd, en þar með hefur ekki verið fellt niður að stjórnlagaþing skuli haldið.
En ég er algerlega ósammála hugmyndum um að Alþingi tilnefni þá fulltrúa sem náðu kjöri í ógiltri kosningu. Slíkt væri í hæsta máta ólýðræðislegt, og illt veganesti fyrir stjórnlagaþing. Hæstiréttur hefur samkvæmt íslenskri stjórnskipan rétt til að ógilda kosninguna, og hún er ógild dæmd.
Þar eð Hæstiréttur virðist ógilda allt ferlið, þá mun reynast nauðsynlegt að hefja það frá fyrsta reit. Það þarf að skýra hvort breyta megi (eða eigi) einnig reglum sem Hæstiréttur úrskurðaði ekki sérstaklega um, eða jafnvel setja sérstök lög um framkvæmd þessarar kosningar.
Áhrifin eru óhjákvæmilega ankannaleg, þar sem næsta víst er að einhverjir sem hlutu kjörbréf í ógildu kosningunni munu ekki ná kjöri næst, eða ekki gefa kost á sér. En stjórnlagaþing er mikilvægara en nokkur einstaklingur, og því þarf að hlíta úrskurðinum í hvívetna, og ganga skörulega fram og leiðrétta það sem fór úrskeiðis.
Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 14:08
Landskjörstjórn hefur ekki heimild til að víkja frá lögum um opinberar kosningar. Veit einhver um meðalhófsreglu sem heimilar brot á lögum?
Í sjálfu sér skiptir ekki máli hvort brotin voru mikilvæg eða léttvæg. Eða hver á að meta það hvort lögin sé lítilsháttar brotin eða ekki.
Lögbrot verða að hafa í för með sér afleiðingar og skipti engu þótt tilgangur þeirra sé göfugur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.1.2011 kl. 14:58
Relgur um formþætti eru settar til þess að koma veg fyrir allt misferli og hefja kosningar og mál yfir allan vafa um misferli.
Ólíkt efnisreglum þarf ekki að sýna fram á tjón eða skaðsemi brota á formreglum. Formrelgur eru einfaldar og settar til þess að hefa kosningar yfir allan vafa um misferli. Brot á þeim segir því ekkert til um misferli eða um aðra mögulega útkomu. Það má vera að eitthvað misferli hafi átt sér stað eða úrslit kosninganna hefðu orðið önnur. Fullyrðingar um að önnur niðurstaða gæti ekki hafa orðið er því rökfræðilega alltaf röng.
Andri (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 17:26
Sæll Vilhjálmur,
Ég er sammála þér að málið er ekki svart/hvítt. Vissulega er úrskurður hæstaréttar strangur og vissulega má benda á það með nokkuð sannfærandi rökum að enginn skaði hlaust af. Það sama má t.d. líka segja um þann sem er tekinn fyrir ofsaakstur, vissulega má benda á, hafi hann verið svo heppinn, að hann hafi ekki valdið skaða með akstrinum. Í báðum tilfellum eru reglurnar skírar og í báðum tilfellum var ekki farið eftir þeim. Þegar ég tíni til rök fyrir sjálfan mig þá fæ ég svona "49-51" með úrskurðinum. Fyrir mér er það nóg.
Eftir stendur að enn einu sinni sendir alþingi frá sér illa undirbúið mál og enn einu sinni gætir alþingi þess ekki að farið sé eftir þeim lögum sem það setur. Það kaldhæðna í málinu er að þar er einmitt þess vegna sem þörf er á stjórnlagaþingi! Við skulum ekki gelyma að alþingi hefur haft það verkefni síðastliðin 67 ár að semja og stetja íslenska stjórnarskrá. En það hefur ekki hentað stjórnmálaflokkunum að gera breytingar á þeirri dönsku stjórnarskrá sem við höfum og því erum við enn með stjórnarskrá sem í grunninn er dönsk frá 1849.
Ef horft væri í krónur og aura þá er tillaga þín líklega skynsamleg, þ.e. að alþingi skipi þá 25 sem kosnir voru til þess að semja nýja stjórnarskrá. En líðræðisins vegna ætti að kjósa aftur. Og er það ekki það sem við vilju, að efla líðræðið?
kv. HansHans (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 18:11
Sæll Vilhjálmur,
ég er sammála því að það er ólíðandi að kverúlantar geti fengið kosningar ógildar vegna minnihátta galla á framkvæmd kosninga. Hins vegar virðist Hæstiréttur taka þá afstöðu að summa þeirra galla sem á framkvæmd kosninganna var leiði til ógildingar og því líklega ekki um æfingu í þrætubókarlist að ræða.
Lausnin er auðvita að fara eftir lögum um kosningar og framkvæma þær þannig að sómi sé að.
Geir, seint myndi ég kalla æðsta dómstól landsins "lagatækna". Einnig man ég ekki eftir því í "sannleiksskýrslunni" (sem ég geri ráð fyrir að sé skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis) að Hæstiréttur hafi sérstaklega verið gagnrýndur fyrir túlkun sína á lögum. Enda er það víst hlutverk Hæstaréttar að dæma einungis eftir þeim lögum sem sett eru af Alþingi.
Með vináttu, Pétur
Pétur Richter (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 20:51
Lög eru lög Vilhjálmur. Verðum við ekki öll að virða lögin og ætlast til að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi. Ég get bara ekki séð hvernig Hæstiréttur hefði átt að komast að þeirri niðurstöðu að segja: Lög voru klárlega brotin, en við ætlum að horfa framhjá því að þessu sinni, vegna þess að sagt er að enginn hafi orðið fyrir tjóni vegna lögbrotsins. En það vildi bara svo til að þrír kærðu kosningarnar til Hæstaréttar og þá skal dæma samkvæmt lögum, og engu öðru. Eða hvað er það sem þið eruð að fara fram á? Og ef Hæstiréttur hefði ,,látið þetta lögbrot" óátalið hvaða fordæmi er þá verið að gefa?
Jón Baldur Lorange, 26.1.2011 kl. 23:34
Edda Jónsdóttir, mannréttindafræðingur, hjá Öse hefur lýst því yfir að þeir formlegu ágallar sem Hæstiréttur fann að séu mikilvægir og ÖSE skoði slíka hluti alltaf. Ágallarnir eru því til staðar. Vandamálið er hvort þessir ágallar séu nægjanleg ástæða til að ógilda kosningar. Það er stór og mikil ákvörðun. Nú er það ósannað að þessu formlegu ágallar hafi haft einhver áhrif. Edda var viðstödd koningarnar 2009 og þekkir þær. Hún var hins vegar ekki viðstödd þessar kosningar. Ákærunrnar eru augljóslega af pólítískum toga. Þær eru hluti af pólitískri baráttu. það er hins vegar afar brýnt að semja almenn kosningalög í stað þeirra mörgu laga sem nú eru í gildi.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 09:45
Þú talar sjálfur um það í færslu hjá þér um landsdómsmálið að þó svo að sumir hafi kallað atkvæðagreiðslu þingsins pólitísk réttarhöld þá sé þó bókstafur stjórnarskrárinnar eins og hann er ... er þá bókstafur kosningalaganna ekki nógu góður eða finnst þér gilda önnur sjónarmið þegar maður er að túlka stjórnskrá og landslög?
Magnús V. Skúlason, 27.1.2011 kl. 09:50
Sammála þér Vilhjálmur og þetta er góð rökfærsla. Hæstiréttur hefði átt að taka tillit til þess hér var verið að kjósa eftir nýju fyrirkomulagi og ekki var vitað fyrr en stuttu fyrir kosningar að frambjóðendur yrðu fjölmargir og við því varð að bregðast. Þess vegna áttu lög um kosningar til Alþingis ekki að öllu leyti við þessar kosningar. Þarna er Hæstiréttur að blanda sér í pólitík og hefði með réttu átt að vísa málinu frá. Man ekki eftir að kosningar hafi áður verið kærðar áður fyrr vegna einhverra hnökra sem hafa þó verið margir og alvarlegri. Gætu 25- menningarnir sem náðu kosningu ekki alveg eins kært ?
Sigurður Ingólfsson, 27.1.2011 kl. 10:46
Ég verð að vera sammála þér um það atriði að mér finnst Hæstiréttur Íslands ganga alltof bókstaflega fram í sparðatýningi sínum og skýla sér á bak við grjótharðan og þrönga túlkun lagabókstafsins. En ekki líta hlutlægt á málið í heild og horfa á hver var tilgangur löggjafans við setningu þessara laga og svo framvegis.
Þessi harða og þrönga lagatúlkun eftir bókstafnum einum saman stendur íslensku þjóðfélagi og framþróun réttarkerfisins fyrir þrifum.
Ég er því sammála þér að þeir hefðu getað leyft sér að setja útá ýmislegt en að dæma alla heilu kosninguna ógilda á grundvelli þessa sparðatýnings finnst mér óhæfa og eg fulluyrði að þetta hefði aldrei gerst í réttarkerfi nokkurs siðmenntaðs lands.
Hvað segja menn um allt klúðrið í USA þegar Bush var kosinn einkannlega í Flórída. Framkvæmd kosninganna var öll með þvílíkum endemum og svo var Bush kosinn eftir endurtalningar og kærur á kærur ofan með minnihluta atkvæðpa á bak við sig. En ekki dæmdi undirréttur eða hvað þá hæstiréttur allar kosningarnar ógildar.
Hinns vegar verður að hlýta þessum dómi um annað er ekki að ræða og ef vill þá boða til nýrra kosninga til stjórnlagaþings. Það eru engar hjáleiðir færar í þeim efnum úr því sem komið er. Svo finnst mér að setja eigi skýrar reglur um að kosningaþátttaka þurfi lágmark að verða 50% til þess að þingið teljist fullgilt, annars muni enginn ná kosningu og þingið óþarft.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 10:49
Sæll Vilhjálmur,
Mér finnst hugleiðingar þínar um þessar kosningar afar illa ígrundaðar. Ég vil nú skýra það stuttlega.
Í lýðræðisþjóðfélaginu Íslandi hefur það verið talið grundvallaratriði í kosningum að þær séu leynilegar. Í því felst að kjósendur verða að geta verið alveg öruggir um að enginn geti séð hvernig þeir verja atkvæði sínu. Vafi um annað er í eðli sínu til þess fallinn að hafa áhrif á kosningahegðun. Tilvísun Hæstaréttar í dóm frá 1994 í niðurlagsorðum sínum er bein vísun á þessa röksemd.
Ég veit um dæmi þess að menn hafi frétt hvernig þessari kosningu var háttað og hætt við að kjósa. Ég veit líka um dæmi þess að menn hafi verið feimnir við verja miklum tíma á kjörstað vegna þess að fólk hafi verið að horfa yfir axlar þeirra. Það hafi gert að verkum að menn hafi ekki fyllt út seðilinn að fullu.
Nú telur þú þig eiga erindi á stjórnlagaþing. Hvernig getur þú talað af þessari léttúð um gildi leynilegra kosninga.
Á árum áður var háð m.a. hér í þessu landi barátta fyrir leynilegum kosningum. Henni lauk með fullnaðarsigri þeirra sem vildu hafa kosningar leynilegar. Andstæðingar þess, töluðu mikið um að leyndin hefði engin áhrif á niðurstöður kosninganna. Það er ótrúlegt að þurfa að taka þátt í þessum umræðum á 21. öldinni.
Ég vil síðan vekja athygli á því, að um leið og ég hafði tekið þátt í þessari kosningu (sem ég kýs að kalla skrípaleik), gerði ég að umtalsefni í fésbókarfærslu að mjög vafasamt væri að þessar kosningar hefðu verið leynilegar. Ég gef því lítið sem ekkert fyrir raddir þess efnis að enginn hafi kvartað.
Síðan vill þannig til að ég hef margoft tekið þátt í starfi kjörstjórnar á kjördag. Þar hef ég ítrekað orðið vitni að umræðum sem eiga sér stað milli fulltrúa einstakra framboða og kjörstjórnar um meðferð vafaatkvæða. Það er enginn vafi í mínum huga að þær röksemdir sem aðilar tefla þar fram eru til þess fallnar að hafa áhrif á meðferð vafaatkvæða. Það er því í mínum huga frekar líklegt að niðurstaða kosninganna hefði orðið önnur ef fulltrúar frambjóðenda hefðu átt þess kost að koma á framfæri sínum sjónarmiðum við talninguna. Þetta á ekki síst við vegna þess að víða munaði mjög litlu á því hverjir færu inn og hverjir ekki.
Þeir sem segja að enginn réttur hafi verið brotinn á neinum eru á afar hálum ís. Réttur til leynilegrar og lögmætrar kosningar var brotinn á öllum atkvæðisbærum þegnum þessa lands. Svo einfalt er það. Það er enginn sem getur sagt með vissu að niðurstaða þessara kosninga hefði verið sú sama ef þær hefur verið framkvæmdar með lögmætum hætti. Flest bendir til hins gagnstæða.
Ef menn ákveða með einhverjum næfurþunnum meirihluta á Alþingi að senda þá sem fengu kjörbréf, eftir þennan skrípaleik, í einhverskonar stjórnlagamálstofu þá er það bara framhald af skrípaleiknum sem er að engu hafandi. Umboð þeirra sem sitja slíka málstofu er marklaust og hefur ekkert með íslenska þjóð að gera. Þeir eru þá orðnir fulltrúar stjórnarmeirihlutans og umboðslausir að öðru leiti.
Bkv. Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 13:02
Viðurlög réttarkerfisins eru yfirleitt í samræmi við alvarleika brotsins og bitna á þeim sem braut af sér. Sá sem brýst inn í hús án þess að skemma eða taka neitt brýtur vissulega lög en sætir hins vegar vægum viðurlögum, t.d. áminningu um að gera þetta ekki aftur eins og þýski stjórnlagadómstóllinn beitti. Sá sem fær slíka áminningu tekur það oft nærri sér ef marka má viðbrögð þeirra sem lenda í slíku. Þetta er ekkert annaðhvort-eða eins og sumir hér virðast telja.
Enginn frambjóðandi hefur stigið fram og sagt að hann hafi tapað á þessum annmörkum kosninganna, ekki einu sinni þeir sem kærðu. Þess vegna er engan veginn ljóst að þeir hafi haft lögvarinna hagsmuna að gæta.
Það er enginn að kalla eftir því að þetta geti skapað fordæmi. Þvert á móti vilja allir auðvitað að ágallarnir verði lagaðir ef svipuð kosning fer fram aftur. Skynsamleg og yfirveguð áminning Hæstaréttar hefði auk þess auðvitað stuðlað að því.
Mat á því hversu leynileg þessi kosning hafi verið er ekki eins og í venjulegum kosningum þar sem kjósandi setur einn kross á seðilinn. Hér er ekki hægt að lesa hvað maður hafi kosið með því að sjá seðilinn í sjónhendingu.
Mikilvægasti annmarkinn sem eftir stendur er að mínu mati sá að fulltrúar frambjóðenda hafi ekki haft aðgang að talningu atkvæða, einkum vegna vafaatkvæða. Við hefðum þá líka séð hversu margir notfærðu sér það.
Þorsteinn Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 28.1.2011 kl. 10:00
Sæll Þorsteinn,
Það er greinilegt að þú misskilur dóm Hæstaréttar. Hæstiréttur er ekki að segja að þetta séu einhver bagatel brot. Það er forsenda sem þú gefur þér.
Þetta eru alvarleg og yfirgripsmikil brot á lögum sem varða kosningaleynd og eðli frjálsra kosninga. Ef þú myndir lesa dóm Hæstaréttar frá 1994 sem rétturinn vísar til í niðurlagi ákvörðunar sinnar þá gætir þú séð að Hæstiréttur telur að brot af þessu tagi - vegna eðlis þeirra - beinlínis til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöður kosningar.
Ég sjálfur veit um dæmi þess að þetta hafi haft áhrif á kosningahegðun í þessum tilteknu kosningum. Ég kvartaði undan þessu á fésbók, þótt það væri ekki gagnvart yfirvöldum. Ég veit líka um frambjóðendur sem eru sammála mér og fannst framkvæmdin í heild sinni ótraustvekjandi og ófullkomin.
Þér kann að þykja þetta eitthvað órökrétt og ósanngjarnt. Það hins vegar skiptir engu máli. Dómurinn hefur talað og það þýðir ekkert fyrir þig að segja réttinn hafa talið þetta einhver smábrot sem engu máli skiptu. Það er rangt. Rétturinn taldi þetta alvarleg brot og sá engan annan kost en að ógilda kosninguna. Ef Hæstiréttur hefði talið að þetta væru einhver smáatriði (eins og þú heldur fram) hefði það aldrei leitt til ógildingar. Í orðum þínum felst því útúrsnúningur á forsendum Hæstaréttar.
Svo má ekki gleyma því að Hæstiréttur er dómstóll. Hann dæmir og það hefur afleiðingar. Réttarfarsreglur gera ekki ráð fyrir því að dómstólar veiti áminningar eða tiltal. Það er eitthvað sem stjórnvöld gera.
Það sem stendur þó upp úr er að þú getur sammælst um að það sé mikilvægur annmarki að fulltrúar hafi ekki fengið að aðgang að talningu atkvæða. Það er allavega í áttina.
Bkv. Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 28.1.2011 kl. 14:35
Reimar: Kannski er eggið að kenna hænunni, en þetta var ekki "dómur" Hæstaréttar, heldur ákvörðun (úrskurður) um stjórnsýslulega kæru.
Rökstuðningur Hæstaréttar fyrir því að ógilda kosninguna á grundvelli annmarkanna er mjög takmarkaður. Tveir annmarkar teljast verulegir, þ.e. að kjörseðlar hafi verið númeraðir og að tilnefna hefði átt umboðsmenn frambjóðenda til að vera viðstaddir talninguna.
Um það fyrrnefnda er það að segja að til að brjóta kosningaleynd í reynd hefði þurft samsæri og glæpsamlegt athæfi starfsmanna kjörstjórna og landskjörstjórnar; en slík hætta er ávallt fyrir hendi sama hvaða lög gilda um kosningar.
Um það síðarnefnda gildir að ef Hæstiréttur hefði viljað gæta meðalhófs hefði verið í lófa lagið að fyrirskipa að telja skyldi atkvæðin að nýju, og þá að viðstöddum fulltrúum frambjóðenda.
Ég tel sem sagt að hér hafi verið brugðist við með allt of hörkulegum hætti og án þess að líta nægilega til hagsmuna almennings og lýðræðisins í landinu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.1.2011 kl. 13:23
Sæll Villi
Góð greinagerð hjá þér og það verður að segjast að í besta falli vekur dómurinn furðu, ef ekki pælingar um annarlegan tilgang.
Rakst á aðra grein um sama mál sem ég mæli með menn lesi, sjá: http://lugan.eyjan.is/2011/01/31/lydraedi-og-ogilding-kosninga/
Miðað við það að lögin beinlínis banna að ógilda kosningar þrátt fyrir tæknilega galla, nema um bein áhrif á niðurstöðu sé að ræða, er þá ekki rétt að þú og jafnvel aðrir réttkjörnir Stjórnlagaþingmenn kærið þennan úrskurð til Héraðsdóms? Sennilega eruð þið einu aðilarnir að málinu sem gætuð gert það.
Ef hægt er að snúa þessum dómi, þá er það mun ákjósanlegri leið heldur en bæði nýjar kosningar eða nefndaskipun.
kv.
Guðmundur Georgsson
Guðmundur Georgsson (IP-tala skráð) 31.1.2011 kl. 17:01
Sæll Villi,
Hæstiréttur hefur talað og ég held það sé engum til framdráttar að reyna að merkja þetta sem "stjórnvaldsákvörðun" sem væri þá væntanlega hægt að bera undir dóm. Ef menn vilja reyna að fara í mál fyrir héraðsdómi til að fá ákvörðun réttarins hnekkt þá væri það, að mínu mati, helber tímasóun og áframhald á skrípaleik sem hefur nú þegar varað of lengi.
Það er síðan merkilegt hvernig þú og nokkrir aðrir frambjóðendur reyna að gera að því skóna að Hæstiréttur hafi í raun byggt á öðrum forsendum en hann gerði. Það er ljóst að Hæstiréttur taldi í heildina að fjölmörg atriði hefðu verið framkvæmd með þeim hætti að það væri algjörlega útilokað að þessar kosningar myndu standa. Allt tal um annað er bara hugurburður þeirra sem segja frá.
Ég skil þína afstöðu hins vegar vel. Þú fékkst 672 atkvæði í kosningunum. Það hljómar reyndar mjög lítið. Það hefði t.d. ekki dugað þér inn á top 12 í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar 2009 en hefði hugsanlega skilað þér 3. sæti hjá Framsóknarflokknum í Norðausturkjördæmi.
Í öllu falli fékkstu þessi atkvæði, og kosningaþátttakan var svo léleg að ef kosningarnar hefði ekki verið ógildar hefðir þú orðið "stjórnlagaþingmaður", hvað sem það þýðir. Þú ert svo búinn að kynna þig sem slíkan, og mér sýnist að gagnrýni þín á Hæstarétt sé viðleitni til að valda þína stöðu. Þú ert með öðrum orðum farinn að gerast dómari um málefni sem þú hefur beina hagsmuni af. Auðvitað er það í lagi en við slíkar aðstæður þurfa menn hins vegar að gæta sín að stíga ekki yfir mörk málefnalegrar rökræðu.
Ég tel að gagnrýni þín á Hæstarétt gangi hér of langt. Þú býrð Hæstarétti til forsendur án þess að fyrir því sé nokkur stafur. Slíkt er hættulegt og ætti ekki að sjást til neins áhugamanns um breytingar á stjórnarskránni. Getur þú ekki reynt að verja þína stöðu með einhverjum málefnalegri hætti, sem e.t.v. fælir færri frá að kjósa þig þegar kosningarnar verða endurteknar?
Loks vil ég vekja athygli á því, að þú virðist leggja út að einungis sé hægt að ógilda kosningar ef til staðar er "samsæri" eða "glæpsamlegt athæfi". Come on! Er áhugamaðurinn um stjórnlög virkilega að mæla fyrir svo þröngum mælikvarða. Þetta dæmir sig sjálft.
Bkv. Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 10:58
Sæll aftur
Svona sem mótvægi við kverúlanta sem eru að atast í þér fyrir sjálfsagða gagnrýni á einkennilegan dóm Hæstaréttar, þá er allt í lagi að benda á að lögfræðingafélag Íslands hefur einnig gagngrýnt þessa ákvörðun, sjá
http://www.ruv.is/frett/hefdi-att-ad-sinna-rannsoknarskyldu
Þeirra gagnrýni, að dómurinn byggi á sögusögnum eins kærandans án þess að rannsaka málið frekar, sýnir að mínu mati meiri tæknilega annmarka við vinnubrögð Hæstaréttar heldur voru á þessari blessaðri kosningu.
Aftur vil ég hvetja ykkur Stjórnlagaþingmenn til að kæra þennan úrskurð. Þið eruð sennilega þeir einu sem getið gert það, þar sem þið eruð aðilar að málinu.
Guðmundur Georgsson (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 15:28
Sæll Reimar!
Ég er ekki að "merkja þetta sem stjórnvaldsákvörðun" því þetta er stjórnvaldsákvörðun, það staðfesti til dæmis Jón Steinar Gunnlaugsson Hæstaréttardómari í viðtali í Návígisþætti á RÚV í kvöld. Samkvæmt Ragnari Aðalsteinssyni hrl. í Speglinum í kvöld er þetta kæranleg ákvörðun og vel athugandi að fara þá leið enda meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga gætt í engu hjá réttinum í ákvörðun sinni, svo aðeins ein málsástæða sé nefnd.
Hæstiréttur tiltekur ekki "fjölmörg atriði" heldur nákvæmlega þau atriði sem ég tel upp í bloggfærslunni. Af þeim eru 4 annmarkar á kosningunni og 1 annmarki á talningunni (sem hefði mátt endurtaka til að sníða þann annmarka af).
En hafa ber í huga að almenna reglan í íslenskum rétti um ógildingu kosninga (skv. Eiríki Tómassyni) er í 3. mgr. 120. gr. laga um Alþingiskosningar, og hljóðar svo (leturbr. mín): "Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar."
Hæstiréttur rökstyður hvergi hvernig ágallarnir hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar, né rannsakar hann það sérstaklega, a.m.k. svo séð verði af úrskurðinum.
Svo leiðrétting á talnameðferð þinni: ég fékk 672 atkvæði í fyrsta sæti en 2.461 atkvæði samtals, sem nýttust mér til kjörs í 18. sæti af 25. Sjá úrslit kosninganna hér.
Gagnrýni mín á Hæstarétt er um það að lýðræðislegar kosningar voru ógiltar sem með réttu hefðu átt að teljast gildar þrátt fyrir annmarka, miðað við meginreglu íslensks réttar og alþjóðlegar viðmiðanir um slíkar kringumstæður. Þar með tel ég að gengið hafi verið á rétt kjósenda og almennings, og vissulega frambjóðenda einnig. Það er vitaskuld ekkert gamanmál.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.2.2011 kl. 00:44
Sæll Villi,
Ég skora á þig að höfða mál um þetta. Það er besta leiðin til að fá skorið úr þessu. Það væri líka frábært fyrir okkur sem finnst stjórnlagaþingið vera hálfgerður skrípaleikur.
Enn og aftur skora ég á þig að lesa dóm Hæstaréttar frá 1994 sem Hæstiréttur vitnar til í sínum rökstuðningi. Þú ert greinilega ekki búinn að því.
Ég veit svosem ekki hvernig dreifingin er nákvæmlega á atkvæðunum sem þú fékkst. Mér finnst þetta samt ekki árangur sem væri ástæða til að stæra sig af. Árið 2007 kusu meira en 10 þúsund manns nafna þinn Vilhjálmsson í prófkjöri og settu hann í fyrsta sæti, sem má bera saman við 672 atkvæðin þín. Ég hefði haldið að þú hefðir metnað fyrir meiru.
Bkv. Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 10:11
Reimar: Að gefnu tilefni frá þér fletti ég upp heildaratkvæðafjölda mínum í öll sæti, þ.e. hversu margir kjósendur settu mig einhvers staðar á atkvæðaseðilinn. Það voru 8.195 sem það gerðu. Þar af settu 5.190 mig í eitt af 10 efstu sætunum. Áðurnefnda talan, 2.461, er sá fjöldi atkvæða sem ég var kominn með uppsöfnuð inn í talninguna þegar útreikningum lauk vegna þess að tilskilinn fjöldi hafði náð kjöri. Bara svo það sé "on the record"!
Svo annað dæmi sé nefnt, þá var Þorvaldur Gylfason á 28.614 atkvæðaseðlum, þar af voru 22.810 sem settu hann í eitt af 10 efstu sætunum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.2.2011 kl. 16:42
Það er flott Villi og gott að þú ert ánægður með þetta. Ég hefði samt haldið að metnaður væri fyrir meiru, sérstaklega hjá þér. Dæmið um prófkjörið fyrir borgarstjórnarkosningarnar varpar ágætu ljósi á þetta en nafni þinn fékk yfir 10 þúsund atkvæði fyrir efsta sætið. Ég veit ekki hvað hann fékk mikið í fyrstu 10 sætin.
Ég sá reyndar að Þorvaldur Gylfason, sem þú nefnir, var að bera saman kosninguna fyrir stjórnlagaþingið við kosninguna til þjóðfundarins 1851. Það er grætilegt að hann þurfi að bera stjórnlagaþingskosninguna saman við kosningar á miðri 19. öld til að telja sjálfum sér trú um að hann hafi fengið góða kosningu. Kosningarnar fyrir þjóðfundinn 1851 áttu reyndar það sameiginlegt með stjórnlagaþingskosningunum 2010 að engri kosningaleynd var til að dreifa. Í þá daga þurftu menn líka að hafa mjög mikið fyrir því að kjósa, fara yfir heiðar um hábjargræðistímann o.s.frv. Það er dapurlegt að þurfa að leita fanga í þessum fornu kosningum til að telja sér trú um að stjórnlagaþingskosningin hafi verið vel sótt eða vel heppnuð.
Geta menn ekki bara viðurkennt að það var nánast allt glatað við þessar stjórnlagaþingskosningar? Væri það ekki heiðarlegast í stöðunni? Kosningaþátttakan var hörmuleg og allt ferlið andstætt lögum. Deilur um blæbrigði í ákvörðun Hæstaréttar og bollaleggingur um niðurstöðu réttarins breyta engu um þetta.
Bkv. Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.