Úr fundargerðum stjórnarskrárnefndar

Á árunum 2005-2007 starfaði níu manna nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar undir forystu Jóns Kristjánssonar.  Sú nefnd skilaði ágætri áfangaskýrslu í febrúar 2007, en málið sofnaði þar með.  Það er athyglisvert að nefndarmenn, sem voru flestir forystumenn stjórnmálaflokka, voru á einu máli um þörfina á endurskoðun stjórnarskrár - sem ætti að vera umhugsunarefni þeim sem tala nú um að engin þörf sé á slíku.

Í fundargerðum nefndarinnar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Rætt var um uppbyggingu endurskoðaðrar stjórnarskrár. Voru ýmsir nefndarmenn því fylgjandi að ef uppröðun kafla yrði breytt þá yrði hún eitthvað á þann veg að í fyrsta kafla yrðu ákvæði um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins, í öðrum kafla um grundvallarréttindi, í þriðja kafla um Alþingi, þá um forseta, framkvæmdarvald, dómstóla og loks um ýmis önnur atriði eins og stjórnarskrárbreytingar.

Varðandi upphafskafla um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins kom fram það sjónarmið að þar þyrfti að vera ákvæði um að allt vald væri upprunnið hjá þjóðinni. Einnig að borgararnir ættu allan þann rétt sem ekki væri sérstaklega af þeim tekinn. Mikilvægt væri að stjórnarskráin geymdi skýr ákvæði sem takmörkuðu vald. Forðast ætti almennar stefnuyfirlýsingar með óljósa lagalega merkingu jafnvel þótt menn gætu verið þeim sammála. Ákvæði stjórnarskrár þyrftu að vera skýr þannig að vald til túlkunar væri ekki í of miklum mæli framselt dómstólum. Slíkt gæti raskað jafnvægi milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins. Loks þyrfti að taka á þeim vanda að orðalag stjórnarskrárinnar væri oft fjarri veruleikanum. Úrelt ákvæði mætti fella burt.

Fram kom það sjónarmið að styrkja þyrfti aðhaldshlutverk Alþingis með stjórnsýslunni.

Eins var þess getið að ástæða væri til að hafa ákvæði um umboðsmann Alþingis í stjórnarskránni.

Þá var einnig nefnt að æskilegt gæti verið að hægt væri að afla fyrirframúrskurðar Hæstaréttar um stjórnskipulegt gildi laga. Um þetta væri oft deilt en engin greið leið að fá úr því skorið.

Þessa punkta (úr stóru safni fundargerða) get ég alla tekið undir.  En helsti lærdómurinn af starfi stjórnarskrárnefndarinnar er sá, að það þýðir ekki að fela stjórnmálaflokkunum að endurskoða stjórnarskrána.  Þeim er málið of skylt, og starfið koðnar niður þegar farið er að ræða áþreifanlegar breytingar.  Þess vegna er stjórnlagaþingið einstakt tækifæri - sem okkur ber að nýta vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband