"Við borgum ekki!"

Fyrir páska kom í heimsókn til landsins Michael nokkur Hudson.  Hann mætti í Silfur Egils og á ýmsa fundi, með það erindi helst að segja Íslendingum að "neita að borga skuldir sínar", því það væri óvinnandi vegur.  Jafnframt lagði hann að okkur að skila láninu frá AGS.  Þennan sama málflutning enduróma svo ýmsir í umræðunni, bæði vinstrigrænir og Sjálfstæðismenn, merkilegt nokk.

Eins og áður með erlenda gesti sem mæta í Silfur Egils, þarf að spyrja hvernig heimsóknin kom til, hverjir áttu frumkvæði að henni og hvernig gestirnir voru upplýstir um stöðu mála á Íslandi.

Varðandi Hudson, þá þarf ekki að gúgla lengi til að sjá að tilteknir einstaklingar, m.a. bloggarar, stóðu í skeytaskiptum við hann áður en hann kom hingað.  Þessir bloggarar telja, ranglega, að til standi að skattborgarar greiði skuldir bankanna, og Hudson hefur greinilega trúað þeim.

Förum yfir þetta einu sinni enn.  Gömlu bankarnir eru hlutafélög úti í bæ.  Kröfuhafar í þá fá eignir bankanna upp í kröfurnar en ekki krónu umfram það.  Þannig virka einfaldlega hlutafélög, þetta er kröfuhöfum fullkunnugt og enginn ágreiningur um það.

Nýju bankarnir taka yfir innlend lánasöfn úr gömlu bönkunum, fyrirfram afskrifuð samkvæmt mati sem er að klárast þessa dagana.  Þeir taka einnig samsvarandi skuldbindingar á móti, þar á meðal innlán.  Ríkið leggur svo bönkunum til nýtt eigið fé.  Ef afskrift lánasafnanna er nokkurn veginn rétt, koma nýju bankarnir nokkuð sléttir út úr þessu (en reyndar þarf að fara varlega í þessu ferli til að klúðra því ekki).  Það er síðan valkostur í stöðunni að kröfuhafar eignist nýju bankana að hluta eða öllu leyti.

Lánið frá AGS er tekið til að styðja við krónuna.  Það er hluti af almennri efnahagsáætlun sem unnin var af ríkisstjórninni í samvinnu við AGS og er lífsnauðsynleg til að koma okkur aftur á réttan kjöl og byggja upp traust erlendis.  Ef við höldum rétt á gjaldmiðilsmálum, t.d. með því að stefna að evru, þá er ekki víst að nota þurfi nema lítinn hluta af peningunum, og þá aðeins tímabundið.

Það sem lendir á skattborgurum er innistæðutrygging á vegum Tryggingasjóðs innstæðueigenda.  Sá sjóður var sofandi á verðinum ásamt Seðlabankanum gagnvart gegndarlausri söfnun erlendra innlána á vegum útibúa Landsbankans og að hluta Kaupþings.  Brúttóskuldbinding þar er um 3 milljarðar punda en á móti munu koma eignir Landsbankans.  Skilanefnd telur að gatið sé um 75 milljarðar króna, sem lendir á Tryggingasjóði.  Það á þó eftir að koma í ljós hvernig gengur að semja við Breta og Hollendinga um fjármögnun sjóðsins, og þar eigum við að mínu mati verulegt kall til að þeir taki a.m.k. hluta tapsins á sig.

Mat viðskiptaráðherra er að vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs verði um 700 milljarðar í lok þessa árs, eða um 50% af VLF.  Sú skuld kemur einkum til vegna fjárlagahalla, framlags til Seðlabanka og vegna Icesave (sjá nánar t.d. hér).  Vissulega háar tölur en ekki óviðráðanlegar eða fáheyrðar í alþjóðlegu samhengi.

Í ljósi ofangreinds þarf að útskýra mun betur fyrir mér hvað Michael Hudson og skoðanabræður hans og -systur eiga við með því að "við eigum ekki að borga". Hvað er það nákvæmlega af ofangreindu sem við eigum ekki að borga, og hver á ávinningurinn af því að vera?

Athugið að ég er ekki að bera í bætifláka fyrir hroðalega hagstjórn og peningamálastjórn undanfarinna ára, né að verja óábyrga viðskiptahætti og fífldirfsku bankastjórnenda.  En staðreyndin er sú að tapið af því síðarnefnda lendir aðeins með óbeinum hætti á skattborgurum - nóg er nú samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Þetta fer nú allt eftir upphæð skuldarinnar. Þessir gaurar vilja meina að þeir hafi aldrei séð verri skuldastöðu hjá nokkurri þjóð. Ég verð að viðurkenna að ef þessi tala hjá þér 50 % er rétt eigum við vissulega að borga. Hins vegar hefur maður heyrt tölur allt upp í 200 % og þar er að sjálfsögðu ekki hægt að borga. Þá hefur maður heyrt að tekjuskattur allra Íslendinga standi ekki undir vaxtabyrðinni. Sem sé við þurfum að komast að því hvað við skuldum mikið.

Hörður Valdimarsson, 17.4.2009 kl. 14:53

2 identicon

Sæll Vilhjálmur.

Að mörgu leyti athyglisverð grein hjá þér og ég held að hún sé í rauninni um mjög margt raunsönn.

Þess vegna eigum við Islendingar sem betur fer alveg ágæta möguleika á því að vinna okkur af dugnaði og eljusemi út úr vandanum þó svo vissulega sé hann mikill.

Sé það rétt sem þú segir hér og ég hef reyndar heyrt núverandi viðskiptaráðherra segja ítrekað líka að í lok þessa árs verði vaxtaberandi skuldir Ríkissjóðs Íslands aðeins 700 milljarðar, þá er það mjög vel viðráðanleg fjárhæð fyrir Ríkissjóð Íslands og þær miklu framtíðartekjur sem hann getur aflað.

Meira að segja er þessi fjárhæð mun lægri upphæð en flest ESB ríkin skulda hvert fyrir sig að meðaltali og er þá tekið tillit til mannfjölda og þjóðartekna hvers um sig.

En áróður þeirra sem vilja einhenda okkur inní ESB sama hvað það kostar er samt allur í þá áttina að við eigum engra annarra kosta völ:

Eftirfarandi úrtölur og frasa eru mjög algengt að heyra frá talsmönnum ESB- trúboðsins á Íslandi:

"Við erum algerlega á hausnum" - 

"Við erum skuldsettasta þjóð heims og getum aldrei greitt skuldir okkar" -

Við getum ekki stjórnað okkur sjálf af því við erum svo miklir hálfvitar" - 

"Við þurfum að leita skjóls og ásjár hjá Seðlabanka ESB" -

"Krónan okkar er handónýtt drasl og við verðum að taka upp Evru og þessvegna eigum við enga aðra valkosti en ganga í ESB strax" 

"Við getum ekki treyst stjórnmálamönnum okkar og því betra að framselja völd okkar og ábyrgð til alviturra embættismannaráðana í Brussel" -

"Við erum hvort sem er búinn að missa sjálfstæðið og fullveldið á himinhátt skuldabálið og því sé í raun engu að tapa að koma okkur undir náðarfaðm ESB valdsins" -

Þessi endalausi úrtölu- og uppgjafar- áróður og ófyrirleitna lygi ESB trúboðsins á Íslandi dynur á þjóðinni frá morgni til kvölds. 

Sannleikurinn eða aðrir möguleikar þjóðarinnar skipta þá heittrúuðu engu máli því hjá þessum uppskrúfaða trúarsöfnuði helgar tilgangurinn einn meðalið.

 Svei þessu landráðapakki !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 15:23

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hörður, þessir menn halda að það standi til að Íslendingar greiði allar skuldir bankanna, og þannig fá þeir út einhverjar geggjaðar tölur á borð við 200% af VLF.  En það er bara misskilningur og della.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.4.2009 kl. 15:27

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gunnlaugur, við lentum í bankakreppu sem er slæm, en líka í gjaldmiðilskreppu sem er jafnvel enn verri fyrir almenning.  Út úr henni er engin raunhæf leið sjáanleg önnur en að stefna inn í ESB og evru.  Og það hefði verið skynsamlegt hvort sem er, þótt engin kreppa væri.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.4.2009 kl. 15:29

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já já, þetta er komið útí þvílíka ruglið.

Umræddur Hudson talaði (eða ég skildi hann þannig) eins og allar eða flestar skuldir fyrrverandi banka væru undir.  Allavega var hann ekkert að hluta dæmið neitt niður, talaði aðeins um skuldir sem einn massa - og ekki að borga.

Hvað skeður ?

Jú upp rís fjöldi manns og segir aðalega:  Borgum ekki Icesave !  Getum það ekki og eigum ekki að gera og benda á Hudson.

Þetta kalla ég að setja mál í alveg þvílíka ruglið.

(Annars hef ég ekki prófað að gúggla kallinn mikið.  Best að prófa það)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.4.2009 kl. 15:46

6 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Ég ætla nú ekki að úttala mig um skuldir Þjóðarinnar, maður hefur heyrt svo mikið um það. Við erum alla vega skuldbundin vegna icesave og við vitum ekki hvað það er mikið fyrr en búið er að selja eignir Landsbankans. Þá vitum við ekki hverjar skuldbindingar verða gagnvart íbúðareigendum. Ef við skuldum einungis 50 % af vlf stöndum við mun betur en t.d. írar sem harð neita því að þeir standi verr en  við. Svo veldur gengið jú því að bankarnir virðast stöndugri en þeir eru.

Hörður Valdimarsson, 17.4.2009 kl. 15:58

7 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Sæll Vilhjálmur. Virkilega góð grein hjá þér einosg venjulega.

Það sem er mest rætt manna á milli þessa dagana er gjaldeyrishöftin, hverjar ástæðurnar eru og hvaða rullu jöklabréfin spiluðu þar - og afhverju voru höftin hert um daginn. Þetta eru grundvallarspurningar í því kerfi sem við lifum við í dag, ekki lumar þú á greinargóðu svari einhverstaðar í greinasarpinum þínum?

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 17.4.2009 kl. 18:15

8 identicon

Góð grein hjá þér.  Fyrsta bloggið mitt á inabjork.net er einmitt um sama mál.

Það er ótrúlegt hvað sérfræðingar leyfa sér að fullyrða án þess að setja sig almennilega inn í málin og við því gleypir allt of stór hluti fólks.

Vonandi kemst smá ró yfir mannskapinn eftir kosningar....

Ína (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 19:08

9 identicon

Vilhjálmur,
Mikið væri það nú mikil framför ef þú færir rétt með varðandi innstæðutryggingarsjóð.  Það er þvæla sem þú margtyggur að innstæðutryggingarsjóður sé á ábyrgð ríkissjóðs og það sé eitthvað sem skattborgarar eigi að greiða.  Það er vægast sagt makalaust að þú teljir þig geta fullyrt þetta í trássi við helstu lögspekinga þessa lands.  Er nú ekki komið nóg af þessu bulli hjá þér varðandi innstæðutryggingarsjóð. 

Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 19:38

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Innilega sammála þér Vilhjálmur...og...TAKK!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.4.2009 kl. 20:13

11 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Gott framtak að taka þetta saman með skiljanlegum hætti. Miðað við þessar tölur þá virðist þetta vera viðráðanlegt og fréttirnar í dag um Kaupthing Edge eru uppörvandi. Ég er hins vegar ekki sammála þegar um að aðild að ESB þjónaði okkar hagsmunum í bráð og lengd. Í upphafi skal endinn skoða, hafa í huga samrunaferlið innan ESB og afsal fullveldisins.

Jón Baldur Lorange, 17.4.2009 kl. 21:22

12 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Átti að vera ... sammála þér um að aðild...o.s.frv.

Jón Baldur Lorange, 17.4.2009 kl. 21:23

13 identicon

Hvernig væri nú að reka trýnið aðeins lengra út úr músarholunni, Vilhjálmur? Það getur vel verið að þeir Perkins og Hudson sem komu hérna séu ekki með alla hluti hér á tæru - til að mynda þá ætlun ríkisins að greina á milli innlendra og erlendra kröfuhafa. En þú skautar núna fram hjá því að bankarnir urðu aldrei gjaldþrota og lagagrunnurinn er því ekki traustur.

En mér finnst réttmætt að hafa áhyggjur af því þjóðfélagið hér þ.m.t. ríkissjóður á í mesta basli með að standa við skuldbindingar sínar vegna hrapandi tekna og hækkandi greiðslubyrði. Hvað gera lánardrottnar ef t.d. orkufyrirtæki, kvótaeigendur, sveitarfélög, flugfélög og skipafélög standa ekki í skilum með afborganir og vexti? Getur ríkið komið og neitað að greiða skuldir óreiðumanna öðru sinni? Eða fáum við þá ný lán til að greiða vanskilakostnað? Sá sem á skuldirnar hann á eignirnar sagði einhver!

Finnst þér eðlilegt að blása á varnaðarorð erlendra sérfræðinga af því að hugsanlega “leikmenn” höfðu verið í sambandi við þá og jafnvel boðið þeim í Silfur Egils. Þú ert nú líka leikmaður á þessu sviði en telur þig þess umkominn að tjá þig eins og sérfræðingur um alla hluti – sem er öllum heimilt. Lars Christiansen hjá Danske Bank o.fl. fengu nú aldeilis útreiðina hjá valdhöfunum þegar þeir komu með gagnrýni á banka- og fjármálakerfið fyrir hrunið. En vinur er sá er til vamms segir!

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 21:24

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jónas Tryggvi: þakka góð orð.  Með tímanum er ég að verða sífellt sannfærðari um að gjaldeyrishöftin hafi verið vond ráðstöfun.  En það er sennilega efni í aðra bloggfærslu síðar.

Jón Helgi: Ég tek alltaf fram varðandi Tryggingasjóðinn að ég telji að Bretar og Hollendingar eigi að taka þátt í því tjóni.  En það er óraunsætt að ætla að niðurstaðan geti orðið önnur en sú að almennir innstæðueigendur fái 20.887 evru trygginguna, með einum eða öðrum hætti.  Kostnaðurinn af því að skorast þar undan yrði mun meiri, beinn og óbeinn, en af því að semja um málið og klára það í þokkalegri sátt.

Anna Benkovic: Þú mættir vera meira sammála mér í kommentum á Silfri Egils.

Torfi: Ríkið greinir milli innlendra og erlendra innistæðueigenda með neyðarlögunum, það er rétt.  Bankarnir eru í greiðslustöðvun og verða gjaldþrota að henni lokinni.  Ríkissjóður er sannarlega í vanda vegna tekjusamdráttar og aukinnar vaxtabyrði, ég skauta ekki yfir það, sbr. t.d. þessa færslu.  Varðandi lánasöfn nýju bankanna, þá skiptir máli að þau séu rétt metin (afskrifuð nægilega) við flutning úr gömlu bönkunum, og helst flutt yfir í krónur.  En jafnvel þótt ríkið haldi áfram eignarhaldi á bönkunum nýju, væri tapsáhætta þess, í versta falli, takmörkuð við eiginfjárframlagið (ca 250-350 milljarða).

Varðandi erlendu gestina, þá finnst mér reyndar ámælisvert að þeir séu fengnir hingað á röngum forsendum, þeim sögð bölvuð vitleysa og látnir verða sér faglega til skammar með því að enduróma hana fyrir alþjóð.  Þarna vantar, að mínu mati, tiltekna ritstjórn ("vetting", "fact checking") hjá okkar ágæta ríkissjónvarpi í framleiðslu hins áhrifamikla þáttar Silfurs Egils.

En ég er, eins og þú bendir á, bara bloggari út í bæ sem menn taka mark á eftir efnum og ástæðum, og það er eins og það á að vera.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.4.2009 kl. 22:00

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.S. Jón Helgi: Ég fór aftur yfir skrif mín um Tryggingasjóð og sé ekki betur en að ég hafi jafnan gert fyrirvara eða tekið fram að umdeilt sé að hann eigi að bera allan skellinn.  Þannig að mér finnst þú taka fulldjúpt í árinni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.4.2009 kl. 22:40

16 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já...en ég skildi ekki færsluna um Evu og blandaði saman þínu kommenti og HHG (sem ég hreinlega þoli ekki...?)  Sorry!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.4.2009 kl. 22:59

17 identicon

Við verðum þá bara verið sammála um að vera ósammála. 

Mín er sú að við eigum að standa við okkar skuldbindingar en ekki það sem við höfum ekki tekið á okkur.  Undanlátssemi og það sem ég myndi kalla undirlægjuháttur gagnvart ESB er að skapa þessari þjóð mikil vandræði.  Regluverk ESB um innstæðutryggingar er meingallað og það geta framtíðarskattborgarar Íslands ekki tekið á sig - þó svo að þér finnist það.  Það hafa komið ítrekað fram sterk rök lagasérfræðinga og fleiri fyri því að ríkið greiði ekki eina einustu krónu vegna Icesave.  Þú virðist telja annað sem og Samfylkingin.  Ég er þér algerlega ósammála og hef áður skorað á þig að rökstyðja þitt mál.  Þú virðist láta nægja að slá þessu fram eins og einhverju eðlisfræðilögmáli - lögmálið að borga það sem okkur ber ekki að borga - svona "af því að bara" rök!

Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 23:07

18 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ágætis skrif hér Vilhjálmur, sem endranær og oft gott að kíkja hér við þegar að geðshræringin er kannski að lyfta manni of hátt á köflum. En engu að síður þarf ég að lesa færslur þínar með þeim filter að þú ert bæði Samfylkingarmaður og mjög endrægur Evrópusinni. Þar með ertu væntanlega fylgjandi hugmyndum stórra alþjóðlegra stofnana, AGS þá þar með taldir. Það þá áfram þýðir mögulega að þú túlkar það sem frá þeim kemur og er ekki skýrt þeim í hag, þ.e.a.s. á sem jákvæðastan máta meðan að ég á móti kýs að skoða líka aðkomu þeirra að löndum annarsstaðar og hvernig aðstæður þar versna að virðist ítrekað og auðlindirnar renna úr greipum fólks.

En það sem er mér hugleikið eftir að hafa lesið þessa færslu þína hér er hvernig þér reiknast til að VLF hér verði 1400 milljarðar árið 2009?

Allir aðrir búast við miklum samdrætti, þeir jákvæðustu þar búast aðeins við 10% samdrætti. Flestir aðrir reikna með mikið meiru og fyrstu veltutölur hagkerfisins fyrir 2009 vísa til þess.

Hvers vegna reiknar þú með um 1400 milljörðum í VLF 2009?

Baldvin Jónsson, 18.4.2009 kl. 01:44

19 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gott innlegg.  Við munum alltaf borga.  ESB sem okkar stærsti viðskipataðili með Gordon Brown í fararbroddi mun hafa sitt fram.  Þeir geta alltaf rift EES og sett á "Icesave" tolla.  Svo þurfa allar gjaldeyristekjur okkar að fara í gegnum erlenda banka svo útlendingar hafa aðgang að okkar peningum ef við reynum að skipta um "kennitölu". 

Eða ætla Jóhanna og Steingrímur að fara að stunda fjármagnsflutninga í ferðatöskum?

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.4.2009 kl. 06:24

20 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er aðdáunarvert Þorsteinn hvað þú ert þrautseigur að útskýra þessa hluti, sem alltof mörgum virðist gang illa að skilja. Það er fettaskýrandinn Egill helgason sem kemur þessu bulli í hámæli með því að taka þennan Hudson í þáttinn sinn. Hann er því Yfirbulludampurinn í þessu máli. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig Egill heldur vinnunni hjá ruv því hann virðist ekki geta lagt saman eða dregið frá skammlaust.

Guðmundur Jónsson, 18.4.2009 kl. 08:42

21 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Afsakið nafna ruglið   "Þorsteinn" á að vera "Vilhjálmur Þorsteinsson".

Guðmundur Jónsson, 18.4.2009 kl. 08:46

22 identicon

Tryggingasjóðurinn var íslensk uppfinning og stóð í 10-12 milljörðum við hrunið, þaraf hluti fjármagnaður með bankabréfum sem urðu verðlaus við hrunið. Við setningu neyðarlaga voru settar nýjar leikreglur þar sem ríkissjóður ákvað að ábyrgjast íslenskar innistæður umfram það sem tryggingasjóðurinn gat (sem var ekkert). Síðan ætluðust Íslendingar til að tryggingasjóðurinn myndi fara uppí meðal annars Icesave. Þetta var hlegið útaf borðinu. Það er vel hugsanlegt að kröfuhafar muni láta reyna á neyðarlögin í heild fyrir dómstólum. Erfitt er að sjá þá stöðu fyrir sér ef ríkið tapaði slíkum málaferlum.

Það hjálpar lítið að segja að við þurfum sennilega aðeins að nota AGS lánið "tímabundið". Ef við drögum á lánið, þá þarf auðvitað að borga það til baka. Eins skil ég ekki hverjir eru "kröfuhafar" í nýju bankana sem gætu eignast þá. Þú hlýtur að eiga við kröfuhafa í gömlu bankana, sem eiga engar kröfur í nýju bankana ef neyðarlögin halda.

700 milljarðar vaxtaberandi skuldir viðskiptaráðherra hefur hann ekki sundurliðað og ekki útskýrt. Í yfirlii ríkissjóðs sem birt er á island.is eru allt aðrar tölur nefndar. Þar er reiknað með skuldum uppá 1100 milljarða í lok þessa árs, án þess að tekið sé tillit til AGS eða Icesave. 

Við munum ekki fá botn í þessar tölur fyrr en eftir kosningar, en tölur um Isave eru mjög á reiki. Brúttóskuldbindingar okkar vegna Icesave eru yfir 600 milljarðar og þær gætu allt eins orðið vaxtaberandi ef ekki semst betur og það frá því í október 2008. Eignir á móti eru allar í Bretlandi þar sem eignir hafa hríðlækkað í verði undanfarið. Þar hafa bjartsýnismenn áætlað að útaf standi um 70 milljarðar okkur í óhag. Menn gleyma því að í Hollandi er líklegt að útafstandi á bilinu 130-180 milljarðar okkur í óhag.

Stjórnmálamenn hafa talað um "nettóskuldir" einsog hægt sé að selja eignir ríkisins uppí skuldir. Það er fæstum tilfellum mögulegt og það er ekki hægt að tala um eignir og skuldir ríkisins einsog um fyrirtæki sé að ræða. Samkvæmt fjárlögum eru vaxtagjöld ríkisins á þessu ári um 90 milljarðar króna og þá er ekki reiknað með vöxtum af Icesave né óhagstæðum vaxtamun vegna AGS.

Ennfremur þarf að fjármagna mörg hundruð milljarða halla á fjárlögum á komandi árum. Enn er því erfitt að átta sig á stöðunni.

Ég held að það sem Hudson&Perkins séu að tala um er hina pólitísku hlið málsins. Þeir taka inní myndina matseinkunn ríkissjóðs (sem er lág og þess eðlis að ríkissjóður getur hvergi fengið lán), ríkisábyrgðir (íbúðalánasjóður, orkufyrirtæki), skuldir sveitarfélaga etc. Það er ljóst að þjóðarbúið er í afar þröngri stöðu og ofurselt náð og miskunn stórþjóða (og stórfyrirtækja). Að ímynda sér að allt sé í lukkunnar velstandi gera auðvitað þeir einir sem sáu heldur ekki fyrir hætturnar í fyrra og hitteðfyrra og þaráður.

Vonandi fer þetta allt vel.

Doddi D (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 09:45

23 identicon

Sæll Vilhjálmur.

Hvernig stendur á eftirfarandi?. Í ársbyrjun 2008 voru skuldir ríkisins engar að því sagt var. Síðan fóru nokkrir einkabankar á hausinn. Allt í einu skuldar þjóðin (ekki einkabankarnir) 1100 milljarða kr. skv. forsætisráðherra í gær. Vissulega eru sagðir einhverjar eignir vera á bak við skuldina, svo sem óveðtryggð lán til Teymis hf yfir 30 milljarðar kr., sem sennilega eru að stórum hluta verðlaus.

Af hverju skuldar ríkið 1100 milljarða kr. núna ef hrun einkabankana lendir allt á erlendum kröfuhöfum samkvæmt þínum skýringum?

MMR (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 10:53

24 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Baldvin: 700 milljarðarnir og 50% eru komin frá viðskiptaráðherra.  Ég held að gert sé ráð fyrir um 1550 milljarða VLF 2008 og það mínus 10% eru rétt innan við 1400 milljarðar.

Doddi: Á vef Tryggingarsjóðs kemur fram að hann hafi átt 13 milljarða og 6 milljarða í "ábyrgðum".  Hann er stofnaður skv. EES tilskipun og uppfyllir lágmarksskilyrði þeirrar tilskipunar.  Það sem er óljóst í henni er hvernig með skuli fara ef sjóðinn þrýtur.  Hann hefur "heimild til að taka lán"og það má vel lesa það svo að engin skylda til þess sé fyrir hendi.  Hins vegar væri það töluvert gróft brot á jafnræðisprinsippi EES að verja innlendar innistæður í íslenskum bönkum alveg en erlendar innistæður alls ekki. Þá kemur upp hættan sem Andri Geir nefnir, að greiðslur til og frá Íslandi verði einfaldlega frystar í London og Amsterdam uns safnað hefur verið upp í meinta skuld.  Ég tel, eins og margoft hefur komið fram, að innistæðueigendur verði að fá sínar 20.887 evrur, en að Íslendingar eigi ríka kröfu á Breta og Hollendinga að þeir taki þátt í þeim útgjöldum.

Ef AGS lánið verður notað, þá er það til að kaupa krónur, sem annað hvort verða seldar aftur fyrir gjaldeyri (með hugsanlegu tapi ef við gerum ekkert róttækt í gjaldeyrismálum) eða breytast í evrur eftir inngöngu í ESB.

Kröfuhafar í gömlu bankana eiga ekki aðrar kröfur í nýju bankana en skuldabréf sem nýju bankarnir láta þeim gömlu í té til að jafna mismun yfirtekinna eigna og skulda.  Vel má hugsa sér að það bréf breytist að hluta eða öllu leyti í hlutafé.

1100 milljarða talan er brúttótala og þar eru hvorki dregnar frá peningalegar eignir ríkisins, né eignir í fyrirtækjum þess.  Viðskiptaráðherrann er ekki að ljúga sinni tölu, það er áreiðanlegasta talan sem býðst í umræðunni.  Auðvitað geta menn svo verið með svartsýnisgetgátur ef þeir vilja.

Ég skil skilanefnd Landsbankans þannig að heildargatið vegna Icesave, í Bretlandi og Hollandi, sé áætlað 72 milljarðar.

Aðalinntak ræðu Hudsons var að "við ættum ekki að borga" og meinti þá fyrst og fremst skuldir bankanna, sem aldrei hefur staðið til að borga.  Og við erum ekki ofurseldari stórþjóðum og stórfyrirtækjum en þjóðir gjarnan eru í dag.

MMR: Brúttóskuld ríkisins kemur til vegna nokkurra þátta.  Einn er fjárlagahalli, sem verður til vegna mikils samdráttar í þjóðarbúskapnum og þar af leiðandi mun minni skatttekjum, m.a. af fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti, og auknum atvinnuleysisbótum og vaxtagjöldum.  Annar er gjaldþrot Seðlabankans sem ríkið þurfti að leggja til nýtt eigið fé.  Þriðji er AGS lánið (við erum að tala um brúttótölur hér) sem er nauðsynlegt vegna gjaldeyriskreppunnar, þ.e. veikrar stöðu krónunnar.  Fjórði er brúttóskuld vegna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda sem eignir Landsbanka koma að hluta á móti.  Fleiri þættir eru þarna en þetta eru þeir veigamestu.  Allt tengist þetta vitaskuld hruninu, en svo það sé á hreinu, þá eru skuldir vegna þyrlukaupa útrásarvíkinga o.þ.h. ekki skuldir ríkissjóðs og ekki þarna á meðal.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.4.2009 kl. 12:22

25 identicon

Ég tel rétt að vera svartsýnn. Umfjöllunin í færslunni er full af óraunsæjum væntingum. Sem dæmi er furðulegt að tala um AGS lán sem ekki-lán. Staðreyndin er auðvitað sú að ef ríkið tekur lán erlendis, þá þarf að borga það til baka. Það er rökvilla að halda að það breyti eðli skuldar hvað gert er við fjármunina. Það að taka lán í útlöndum til að kaupa krónur, þýðir að það er verið að ganga á gjaldeyrisvarasjóð sem fjármagnaður er með lánsfé sem er vaxtaberandi. Að bera það síðan á borð að slíkt lán muni gufa upp ef við göngum í Evrópubandalagið. Við gætum því samkvæmt þessari röksemdafærslu, prentað glás af krónum sem síðan "breyttust" í Evrur. Það væri nú aldeilis fundið fé.

Doddi D (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 13:16

26 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Fyrir þá sem eru mjög á móti málflutningi Vilhjálms þá finnst mér hann skilja það sem hann segir um ESB. Hann fer ekki með rangfærslur sem ég kem auga á. Það er mikil tilbreyting að menn hafi innsýn sem snýst um annað en: get ég verið perósnulega með eða á móti evru eða ESB eða ASG eða að borga skuldir eða ekki. Vildi að lífið væri svona einfalt.Minnir mig á þá gömlu góðu daga þegar við vorum með eða á móti hernum. Blessuð sé minning hans.

Gísli Ingvarsson, 18.4.2009 kl. 14:02

27 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk Vilhjálmur fyrir að greina álitamál og svara betur en flestir um þessi mál.

Spurningin sem þú spyrð hér og svarar fyrir þitt leyti - hvað eigum við ekki að borga? - er einmitt sú sem Hudson svaraði ekki á annars ágætum opnum fundi um daginn.

Mér fannst hins vegar gott það sem Hudson sagði um verðtryggingu í Fréttablaðsgrein og Silfri Egils; skrifaði ég tvær færslur um það 4. apríl sl. og 5. apríl sl. Það sem mér finnst hljóma svo réttmætt í máli Hudson er að þegar hann segir að "við" eigum ekki að borga þá skil ég það frekar sem svo að "neytendur" á Íslandi (fremur en íslenska ríkið eða skattgreiðendur) eigi ekki að borga að fullu verðtryggð og gengistryggð lán vegna ómöguleika sumra eins og Hudson nefndi svo og vegna forsendubrests og fleiri lagaröksemda sem ég mun kynna fljótlega opinberlega ásamt tillögu til lausnar.

Gísli Tryggvason, 18.4.2009 kl. 14:24

28 identicon

ESB Með:

1. Aukið jafnvægi í verðlagsmálum

2. Lægri vextir á húsnæðislánum

3. Auðveldari aðgangur smáfyrirtækja að Evrópumarkaði (hægt að flytja smávörur án tollskýrslna og VSK)

4. Lægri skólagjöld í víða í Evrópuríkjum

Á móti

1. Aukin hætta á viðvarandi atvinnuleysi.

2. Mikill kostnaður samfara aðild.

3. Tekjur ríkisins af tollum snarminnka.

4. Stjórn sjávarauðlinda flyst til Brussel.

Það þarf að taka þessa umræðu í alvörunni. 

Doddi D (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 14:29

29 Smámynd: Héðinn Björnsson

Við erum meira en ríkissjóður Vilhjálmur. Ekki síst þegar kemur að því að greiða erlendar skuldir enda þarf útfluttning til að greiða afborganir þangað (þeir taka ekki íslenskar). Samkvæmt Seðlabankanum var hrein staða þjóðarbúsins (skuldir umfram eignir) um 30 milljarðar US$ um síðustu áramót en við fluttum út fyrir um 3 miljarða US$. Ég hef ekki getað fundið nein gögn um vexti af þessum lánum en það þarf ekki mikla vexti á þeim til þess að éta bróðurpartinn af útfluttningstekjum landsins og að hráefnum til atvinnustarfsemi frátöldu gæti þessi stóraukna vaxtagreiðsla valdið verulegum samdrætti í innflutningi á neysluvörum en við erum meðal annars háð útlöndum um helming matvæla okkar, eldsneyti fyrir samgöngur, lyf og varahluti.

Héðinn Björnsson, 18.4.2009 kl. 17:02

30 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Doddi: AGS leggur okkur til lán og lánalínur, sem dregið er á ef þarf.  Lánin eru notuð til að kaupa krónur, ekki í rekstur ríkissjóðs eða slíkt.  Það er því alltaf peningaleg eign á móti skuldinni.  Og allar krónur munu breytast í evrur eftir inngöngu í ESB; spurningin er um skiptigengið sem ræðst að hluta af peningamagni í umferð, en um það er of snemmt að spá á þessu stigi.

Héðinn: Það er auðvitað rétt að við þurfum að hafa jákvæðan vöruskiptajöfnuð við útlönd til að eiga gjaldeyri til greiðslu vaxta og afborgana af erlendum lánum.  Reyndar hjálpar okkur að við eigum öfluga lífeyrissjóði með talsverðar erlendar eignir, sem skila einnig fjármagnstekjum á móti.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.4.2009 kl. 17:40

31 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Vilhjálmur,

ber mikla virðingu fyrir elju þinni við útskýringar á "skuld skattborgara" þegar kemur að bönkunum og Icesave, Edge og slíkum "smámunum".

Mig skortir hins vegar hæfileika til að skilja á milli "ríkiskassann" og "skattborgara". Þ.e. heimilin, fyrirtækin og  hið opinbera.

Framtíðar VLF og væntingar um hana er líklega stórlega ofmetin, og áhrif bankahrunsins heldur áfram að magna vandann.  Þegar rætt er um skuldir ríkisins par se, væri ef til vill hægt að setja upp gleraugu með innbygðri sólarvörn.  Þeir sem kjósa hins vegar að rýna í heildina, sjá ekki ljóstýru.

Umræðan er kannski lituð af þessu.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 18.4.2009 kl. 18:26

32 identicon

Ársskýrsla SI 2004

Leiðari Íslensks iðnaðar snemma árs,undir yfirskriftinni Afturgöngur í at-vinnulífinu, vakti enn og aftur athygliá tjóninu sem kennitöluflakk veldur áÍslandi. Í nóvember sté Einar Egilssoní Félagsbókbandinu Bókfelli fram ogsagði reynslusögu fyrirtækis síns íblaðinu undir fyrirsögninni „Í klómkennitöluhoppara.“ Vakti greinin miklaathygli og viðbrögð. Flestir stærstufjölmiðlar landsins fjölluðu um ástæð-ur og útbreiðslu kennitöluhopps enforráðamenn Samtaka iðnaðarinsleiddu kröfur um úrbætur. Þá rituðuSamtök iðnaðarins stærstu verkkaup-um á markaði samhljóða erindi umaðgerðir gegn kennitöluhoppi. Vísaðvar til góðs árangurs af sams konarátaki gegn gerviverktöku fyrir nokkr-um árum og lögð fram tillaga aðstöðluðu ákvæði í útboðslýsingum tilað hindra að fyrirtæki villi á sérheimildir með kennitöluhoppi.Árangurs er að vænta af þessu og SIþrýsta einnig á aðgerðir á fleirivígstöðvum.

http://209.85.229.132/search?q=cache:suHpu84rTG8J:www.si.is/media/pdf/2004-arsskyrsla-SI.pdf+rsk+kennit%C3%B6luflakk&cd=3&hl=is&ct=clnk&gl=is

Zippo (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 23:25

33 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Zippo: Og punkturinn er...?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.4.2009 kl. 23:47

34 identicon

Hvað gerðu nýju bankarnir ? Breyttu um Kennitölu

 er það orðið ok á íslandi

að breyta um kt og taka öll verðmæti með sér

í nýja fyrirtækið og skilja bara eftir skuldir  enn samt taka húsnæðið með !

Zippo (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 01:59

35 identicon

Þeim sem trúa illa tölunni 1.400 milljarðar fyrir landsframleiðslu þessa árs vil ég benda á að landsframleiðslan í fyrra var 1.465 milljarðar. Spár hljóða gjarnan upp á 10% samdrátt landsframleiðslu í ár að raunvirði (þ.e. á föstu verðlagi) miðað við árið í fyrra, en á móti kemur að verðlag í hagkerfinu hefur almennt hækkað talsvert, fyrst og fremst vegna gengisfalls krónu. Nærtækt dæmi er neysluverð, en allir þekkja þróun verðbólgunnar (þ.e. vísitölu neysluverðs) undanfarið. Því er ekki ólíklegt að landsframleiðslan 2009 verði rúmlega 1.400 milljarðar á endanum.

 Takk fyrir gott blogg, Vilhjálmur, og mikla þolinmæði í baráttunni við bullukollana, Silfraða sem aðra.

Barton (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 11:37

36 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Zippo, málið er nú reyndar verulega dýpra og flóknara en það að bankarnir hafi bara skipt um kennitölu.  Og það var ekkert annað í stöðunni; ef nýju bankarnir hefðu ekki verið stofnaðir hefðu allar innistæður landsmanna frosið, debet- og kreditkort hætt að virka og fólk hefði ekki fengið útborguð launin sín.  Það hefðu orðið rán og gripdeildir innan fárra sólarhringa.  Þetta gömlu/nýju-banka dæmi var eitt af því (fáa?) sem fyrri ríkisstjórn gerði rétt og vel, reyndar að miklu leyti í boði Reiknistofu bankanna (RB).

Barton, þakka innleggið og stuðninginn!

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.4.2009 kl. 13:11

37 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Halló, ég skil að ekki er hægt að festa um það tölur, en í dag er verulegur fjöldi fyrirtækja í vanda, og einnig er mjög verulegur fjöldi heimila í vanda. Punkturinn, er sá, að miklar líkur virðast vera á að mjög umtalsverðar fjárhæðir í lánum lendi í afkriftum.

Þ.s. lán eru helstu eignir bankanna, þá rýrnar væntanlega eignastaða bankanna verulega, sem getur valdið því að ríkissjóður þurfi að setja inn aukið fjármagn á móti.

200 milljarðar, eða svo, kæmi mér ekki á óvart. Ég held að það sé ekki of há tala. Hún gæti einnig orðið hærri.

Síðan, er náttúrulega, 70 milljarða talan, í sambandi við Icesave, bundin umtalsverðri óvissu, svo meira sé ekki sagt.

Ég hef einnig frétt, að rúmlega 100 milljarðar, hafi þegar verið notaðir, af lánalínum þeim sem Seðlabankanum var veitt, til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð ef með þyrfti. Þannig, að þar bætist við 100 milljarðar í óvéfengjanlega skuld.

Punkturinn, er að 1.100 milljarðar, geta alveg eins verið nær 1.500 milljarðar.

Svo, skulum við vona að meira bætist ekki við. 2.000 milljarðar, væri mjög hættuleg staða, t.d.

Kv. Einar Björn Bjarnason

Einar Björn Bjarnason, 20.4.2009 kl. 00:44

38 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég mæli með skýrri samantekt Guðmundar S. Guðmundssonar og Ólafs Garðars Halldórssonar hjá Hagfræðideild Háskóla Íslands um skuldastöðu íslenska ríkisins.   Hún var kynnt á fyrirlestri þar í gær (20. apríl) skilst mér.  Hef ekki leyfi til að dreifa skýrslunni en þeir sem geta útvegað sér hana eru hvattir til þess.

En þar er að minnsta kosti staðfest af óhlutdrægum aðilum að skuldir bankanna lenda ekki á ríkinu, og að stærðargráðurnar eru eins og ég hef haldið fram í umræðunni allar götur frá hruninu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.4.2009 kl. 01:12

39 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Mig langar að hitta þig og rökræða við þig um lánsfé og hvaðan verðmætasköpun í hagkerfinu kemur.

Það sem bankamenn og þú og margir aðrir virðast halda að verðmætasköpun komi úr erlendu lánsfé. Og klárum bankaköllum.

Þið eruð öll tilfinningalega háð lánsfé.

Það sem Michael Hudson sagði. Hefur dálítið verið slitið úr samhengi. Hann sagði borgið það sem þið getið. En takið stöðu með hagkerfi ykkar en ekki kröfuhöfum.

Fyrir mér snýst þetta ekki um hvað skuldirnar eru miklar. Heldur um eistu til þess að segja ég get aðeins borgað það sem hagkerfið þolir og ég vil semja upp á nýtt.

Það hefur enginn sagst ekki ætla að borga ekki neitt og loka landinu. Og ekki tala við neinn en það er alltaf notað í sömu setningu.

Ég veit ekki alveg hvað þú hefur stúderað en það sem flestir vilja ekki viðurkenna er að það er þegar búið að selja krónuna með gjaldeyristengdum lánum. Það er búið að fara fram hjá lögum sem voru sett til að verja krónuna en bankar hafa unnið gegn hagkerfi íslands með óstjórn sinni og svo segja menn hendum krónunni.

Málflutningur sem er algjörlega ógeðfeldur og siðlaus rökleisa á allan hátt. Markaðir byggjast á væntingum. Sagði konan góð. Væntingar markaðarins um frammistöðu fjárfestinganna laðar að erlent fjármagn sem dregur hagnaðinn úr hagkerfinu. Ef við eigum ekki fyrir framkvæmdum eða uppbyggingu eigum við að safna fyrir henni. Samfylkingin er með vel samansettan pakka af lygi sem hún matreiðir vel með fínum kokkum.

Jöklabréfin eru erlent fjármagn sem allir voru svo óðir í.

Sorry ypu have been fooled badly like the rest of us.

“The ideal tyranny is that which is ignorantly self-administered by its victims. The most perfect slaves are, therefore, those which blissfully and unawaredly enslave themselves.”

"A truth's initial commotion is directly proportional to how deeply the lie was believed. It wasn't the world being round that agitated people, but that the world wasn't flat.When a well-packaged web of lies has been sold gradually to the masses over generations, the truth will seem utterly preposterous and its speaker a raving lunatic"

Dresden James,

Vilhjálmur Árnason, 21.4.2009 kl. 02:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband