Færsluflokkur: Matur og drykkur

Friðrik V lifi!

Um daginn varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að snæða kvöldverð á veitingahúsinu Friðriki V á Akureyri.  Ég ferðast nokkuð víða og borða oft á góðum veitingastöðum, en það er ánægjulegt að geta sagt frá því að máltíðin á Friðrik V var sú besta sem ég hef fengið lengi, innanlands og erlendis.  Ef Michelin gæfi stjörnur á Íslandi væri þessi staður alls ekki ólíklegur til að fá tvær.  (Hjá Michelin þýðir ein stjarna að maður eigi að heimsækja staðinn ef maður á leið framhjá; tvær að maður eigi að leggja lykkju á leið sína til að snæða þar, en þrjár að maður eigi að gera sér sérstaka ferð.  Aðeins albestu veitingastaðir fá eina stjörnu, hvað þá fleiri.)

Ekki spillir fyrir að kokkurinn Friðrik Valur ber sjálfur réttina á borðið ásamt konu sinni Arnrúnu, og gestir eru leiddir í allan sannleika um uppruna hráefnisins, sem í nær öllum tilvikum er úr Eyjafirði og nærsveitum.  Koma þar fram nöfn bænda og búaliðs og margt er þar athyglisvert um einstaklingsframtak og metnað til að framleiða gæðavöru sem skeri sig úr, hvort sem um var að ræða kjöt, grænmeti, bjór eða ísinn í eftirréttinum.

Mér varð hugsað til Draumalandsins hans Andra Snæs og umræðu hans um landbúnaðinn og hversu erfiðlega hefur gengið að breyta honum úr sovétkommúnískri meðalmennskudýrkandi fátæktargildru, í opið markaðskerfi framtaks, nýsköpunar, markaðssóknar og fjölflóru.  Ef marka má máltíðina á Friðriki V, er alls engu að kvíða fyrir íslenska bændur, þótt þeim verði hleypt út á frjálsan markað eins og beljum að vori.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband