Vakning gegn nautheimska nafnleysingjahernum

Síðustu daga hefur orðið tímabær vakning gegn nafnlausum ritsóðum í bloggheimum. Fréttablaðið leggur opnu undir málið um helgina og segir að sjálfur Egill Helgason, yfirpáfi helsta nafnleysingjahersisns, hugleiði að loka fyrir ónafngreinanlegar athugasemdir á bloggi Silfurs Egils.  Guðmundur Magnússon ritstjóri Eyjunnar er greinilega líka kominn með kalda fætur, enda aðeins tímaspursmál hvenær hann mun sæta ritstjórnarlegri ábyrgð fyrir dómi að óbreyttu, og Björgvin G. Sigurðsson fær samúð eftir ómaklega en dæmigerða árás á mannorð sitt.

Ég er þeirrar skoðunar að framlag hinna nautheimsku nafnleysingja geri lýðræðislegri umræðu mun meiri skaða en gagn.  Það kann vissulega að vera að í undantekningartilvikum geri nafnleysið mönnum kleift að setja fram sjónarmið í umræðu sem þeir myndu ekki geta gert undir nafni af einhvers konar hagsmunaástæðum, t.d. vegna vinnu sinnar (þó má deila um gildi slíkra raka).  En á móti þessu kemur - og vegur mun þyngra - að flestir nafnleysingjanna nota tækifærið til að geipa um menn og málefni af fullkomnu ábyrgðarleysi, eins og nafnleysið beinlínis gefur umboð til.  Það sem sagt er í skjóli nafnleysis er eðli máls samkvæmt aðallega það sem fólk myndi ekki leyfa sér að segja undir nafni.

Afleiðingin er hundleiðinleg og endurtekningarsöm þrætubók eins og sjá má á bloggi Egils, þar sem sömu nafnleysingjarnir fara sama hringinn æ ofan í æ.  Hin svokallaða umræða er þar með föst í keldu; staðreyndavillur étur hver upp eftir öðrum; hugarburður, slúðursögur og rógur eru tekin sem sannleikur; og keppt er í samansúrruðum aðdróttunum um glæpi og landráð og notkun upphrópunarmerkja.  Allt er þetta beinlínis niðurdrepandi og eykur fólki bölmóð og svartsýni, þegar síst þarf á slíku að halda.

Skoða má reynslu þeirra sem halda úti stórum spjallvefjum fyrir viðskiptavini, t.d. CCP sem rekur netleikinn EVE-Online með 300.000 áskrifendum.  Aðeins örfá prósent viðskiptavina einoka gjarnan umræðu á slíkum spjallvefjum með öfgakenndum sjónarmiðum, sem reynslan sýnir að meginþorri viðskiptavinanna er ósammála.  Spjallið gefur því ranga mynd af skoðunum heildarinnar og varasamt er að draga ályktanir af framlagi þeirra sem eru afdráttarlausastir í nöldrinu.

Bloggið er afar gott verkfæri fyrir lýðræðislega umræðu og hefur sannað gildi sitt í hruninu.  Aukið gagnsæi, jafnvel það sem kalla má vægðarlaust gagnsæi, er það sem koma skal í netvæddu, opnu lýðræði.  Bloggið verður eitt af mikilvægustu aðhaldstækjum almennings í framtíðinni. En það þarf að þróast í rétta átt, og stórt skref er að leggja af nafnleysið, sem var og verður vond hugmynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Guðjónsson

Er þetta ekki eitthvað sem átti sér stað áður í skúmaskotum ( eldhúsum ). Nafnleysið

þarf auðvitað að vera til staðar. Margir hafa hins vegar nýtt sér það líka til að draga

athyglina frá því sem hinn nafnlausi bendir á, eins og gengur. Veit ekki alveg um hvað þessi herferð gegn Björgvin gekk út á en af pisti hans má ráða að einhver hafi sett upp einhvers konar prófíl ´´ hans sjálfs´´ á einhverri partí síðu. Vil því frekar meina að hér sé um að ræða skipulagða herferð sem sé undirbúin. Sé það rétt þá á hún ekkert skilt við athugasemdir ´´nafnleysingja´´ . Þá má ekki gleyma að liggi mikið við þá er hægt að staðsetja tölvu hins nafnlausa.

Svo er þetta allt abstrakt; margir telja t.d. að Björgvin hafi með meðvirkni sinni og getuleysi sem bankamálaráðherra ´´ baneitrað ´´ líf þeirra. Þá hefur hann ítrekað orðið ber að ósannsögli eða hálf lygi fyrir og eftir hrun. Án þess að hafa hugmynd um það en ég læt mér detta í hug að að þessi prófíl sé settur af fólki innan floksins.Hver hefur nokkurn áhuga á Björgvin nema Samfylkingarfólk.

Sá þetta með lánaafskriftir til hans á bloggmiðli og skrifaði honum tölvupóst  og bað hann upplýsa mig um hvort þetta væri rétt. Fékk að vísu engin svör nema þessa loðnu óendurskoðuðu yfirlýsingu ´´ þar sem gefið var í skyn af bankans hálfu að þetta væri ekki rétt´´. Þá er hagsmunaskrá þingmanna algjör brandari og t.d. Árni Páll orðið ber að ósannindum þar. Af hverju koma þingmenn ekki bara til dyranna eins og þeir eru klæddir ?? Eins og þú reyndar stingur upp á með vísan í grein þinni.

Einar Guðjónsson, 6.9.2009 kl. 23:55

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Rökstudd skoðun á embættisfærslum Björgvins G. er eitt, en nafnlaust níð um hans einkalíf er allt annað.  Virkt lýðræði gengur út á líflega umræðu um framgöngu stjórnmálamanna, skoðanir þeirra og gjörðir sem slíkir.  En persónulegur skætingur og rógur þjónar ekki lýðræðislegum tilgangi, reyndar þvert á móti.

Mér var eitt sinn boðið að gerast Eyjubloggari.  Því hafnaði ég helst af þeirri ástæðu að ég kunni ekki, og kann ekki, við nafnleysisstefnuna sem þar er rekin.  Og reyndar ekki heldur við ritstjórnarstefnuna yfirleitt, að því marki sem hún er fyrir hendi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.9.2009 kl. 00:09

3 Smámynd: Einar Guðjónsson

Þetta er allt sama uppeldið ; stjórnsýsla sem kann ekki stjórnsýslulögin, fólk sem þiggur vinnu hjá hinu opinbera( án þess að starfið sé auglýst ) eða setu í stjórn SÍ eða framtíðarnefnd Jóhönnu bæði fyrir og eftir hrun ( Ágúst, Svafa ). Ekki virðist það velta fyrir sér eitt auknablik ( þökk sé stóru útlendu háskólaprófunum ? ) hvort það sé gott fyrir trúverðugleika bankans eða nefndarinnar. Sama stjórn fyrir og eftir hrun er í lagi en bara bankastjórarnir voru í ólagi ( sic ). Sem getur svo sem verið rétt en það bætir ekki traustið. Nafnleysið á blogginu er alveg sami uppeldis skólinn. Það er það sem ég vildi sagt hafa. Semsagt bitamunur en ekki fjár.

Einar Guðjónsson, 7.9.2009 kl. 00:33

4 identicon

Vilhjálmur, viltu ekki helst hafa gömlu leydarmálin í sem flestu og að múgurinn hafi hægt um sig?  Almenningur er verulega reiður út í þá þjóðfélagsskipan sem ég held að þú aðhyllist.  Margir sem tjá sig eru hræddir og óttast refsingar.  Bloggumræðan hefur, þrátt fyrir allt, skilað vissum árangri í þeim hreinsunum sem standa nú yfir í þjóðfélagi okkar.  En betur má ef duga skal; í gjörspilltu samfélagi.

Benedikt Björnsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 00:46

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Vilhjálmur, það fer þér ekki að koma með svona vælufærslu fyrir hönd samflokksmanns þíns Björgvins G. Sigurðssonar. Auðvitað er ljótt að menn verði fyrir aðdróttunum en þetta er slíkur ómerkilegur tittlingaskítur að hann er bara lítill karl að vera velta sér upp úr þessu. Hann er opinber persóna og má því búast við umtali verðskulduðu sem óverðskulduðu. Það er bara hluti þess starfs sem hann valdi. Miðað við frammistöðu hans og embættisfærslu er eiginlega stórundarlegt að hann skuli hafa verið kosinn aftur til þingstarfa. Eiginlega er það bara jafn bilað og kosning Árna Johnsen.

Sjálfur hef ég alla tíð komið fram undir nafni en skil mjög vel þá sem ekki gera það af þeirri einföldu ástæðu menn hafa þurft að þola ofsóknir af hendi þeirra sem ráða för hjá ríkinu vegna skrifa sinna. Eitt besta dæmið um það er fyrsta mál sérstaks saksóknara á hendur Kristini Hrafnssyni og fleirum vegna skrifa um bankana. Þú hlýtur að viðurkenna að fyrr hefði átt að draga sökudólgana upp á bekk heldur en sendiboðana. Sjálfur hef ég fengið minn skammt af leiðindum vegna skrifa sem teljast ekkert mjög áberandi en virðast samt vakið suma til sérstakra aðgerða.

Að taka dæmið um að spjallvefur EVE On-line sé undirlagður af vitleysingum er algert virðingarleysi þitt við þá sem kaupa þá þjónustu. Ég skil ekki hvernig þú getur haldið því fram að þeir séu í minnihluta með sitt álit. Hefur þú spurt sjálfur alla 300.000 notendurna um sitt álit? Finnst þér samanburður við umræðu fólks, sem lifir í sýndarveröld, vera sambærilegur við hinn raunverulega?

Ég fullyrði að bloggarar (nefndir sem nafnlausir) og rannsóknarblaðamenn eru ekki meinsemd þessa lands heldur ónýtir og/eða spilltir stjórnmálamenn og einkavinir þeirra hinir handvöldu auðmenn sem hleypt var óáreittum í hamslausa græðgisvæðingu.

Ef ég ætti að meta hvort það kæmi meiri þvæla út úr nokkrum nafnlausum bloggurum eða því höfðingjaliði sem stjórnað hefur landinu og efnahagslíifnu með augljósum árangri er ég sjálfur ekki í nokkrum vafa um hvar skaðlegasta bullið er að finna.

Haukur Nikulásson, 7.9.2009 kl. 07:02

6 identicon

það er náttúrulega frábært að þínar hugrenningar taki undir höft á tjáningar of persónufrelsi.
Ég get sagt þér það að þeir yrðu afar ánægðir með þig í Kína, hugsanlega gætir þú orðið ráðgjafi fyrir internetið í Norður Kóreu.

Athugaðu að þetta sveitasímabull á klakanum er akkúrat það sem elitan og stjórnmálamenn vilja, þeir vilja bönd á það sem fólk segir... enda gæti fólk sagt eitthvað óþægilegt, eins og td þegar hinn illgjarni nafnleysingi lak upplýsingum um kaupþing.
Hefur einhver hér tekið eftir því að nafnlausir séu að rífa sig meira en aðrir.. ekki hef ég séð það, það sem ég sé er að yfirvaldið er að búa til afsökun til að binda niður helsta frelsistól mannkyns, internetið.
Ég hef verið á netinu frá upphafi, ég hef dásamað frelsi þess... ég hef líka lengi borið ugg í brjósti um það þegar misvitrir íslendingar á sveitasímastiginu munu krefjast og taka undir kröfur glæpamanna með að setja þurfi höft á þetta braðnauðsynlega tól
Til hamingju með að hafa fallið í gildruna vinur minn... ég vona að þú sér búinn að velja þér mann sem þú treystir til að velja það efni sem er óhætt að sýna þér

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 08:50

7 Smámynd: Einar Guðjónsson

Nú sé ég að málgagn Róberts Wessmans gerir frétt úr pistli þínum.Pressan virðist engin tengsl hafa inn í samfélagið eða fréttaheiminn. Fyrst er grein Björgvins gerð að

aðalfrétt. Í framhaldi ræðir þú um nafnleysingja og ógagn af þáttöku þeirra í umræðunni ( sumpart rétt ). Sé ekki alveg að Björgvin eigi við sömu nafnleysingja og  þú. Svo gerir Pressan frétt um pistill þinn og inntakið er að þú ´´ vandir þeim ekki kveðjurnar ( sic ), er hættur að botna í þessu. 

Einar Guðjónsson, 7.9.2009 kl. 10:05

8 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Nafnleysið í netsamskiptum hefur á sér ýmsar hliðar og er alls ekki nýtt af nálinni. Upp úr 1990 var í gangi verkefnið Kidlink og snerist um samskipti barna á milli landa með því að spjalla (IRC) á netinu. Haldið var "Kidlink-Jamboree" uppi í Kennaraháskóla þar sem börnum úr skólum á höfuðborgarsvæðinu bauðst að spjalla við jafnaldra sína í útlöndum. Ég veit að einhverjum börnum var vísað frá tölvunum vegna óviðunandi málfars.

Umræðan á blogginu leiðist því miður út í blammeringar út í þann stjórnmálaflokk sem ritari hverju sinni er talinn tilheyra, miðað við sjónarmið þau sem hann heldur fram.

Það gefur skammtíma "kikk" að sletta skít á netinu en ég er þeirrar skoðunar að skíturinn sé til þess eins fallinn að rýra orðspor sem honum kastar.

Flosi Kristjánsson, 7.9.2009 kl. 10:44

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Benedikt, ég vil endilega ekki hafa "gömlu leyndarmálin í sem flestu og að múgurinn hafi hægt um sig".  Ég vil einmitt opnari og hreinskiptari umræðu, og að fleiri hafi hugrekki til að tjá sig - en vitaskuld undir fullu nafni.  Það að óttast einhvers konar hefndir fyrir að halda fram rökstuddum skoðunum í lýðræðislegri umræðu, hlýtur að vera hluti "gamla Íslands" og rétta leiðin til að bjóða því birginn er að þora að koma fram undir nafni.  En með málefnalegum hætti.

Haukur: Svona rógs- og níðsárás eins og Björgvin G. varð fyrir er ein af ástæðum þess að margt gott fólk veigrar sér við að fara í stjórnmál.  Persónuníð er bara dónaskapur og andlýðræðisleg hegðun sem við eigum öll að fordæma.  Að gagnrýna gjörðir og skoðanir Björgvins sem stjórnmálamanns er hins vegar allt annar hlutur.

Ég tók dæmið um spjallrásir EVE-Online vegna þess að það hefur verið skoðað tölfræðilega og staðreyndin er sú að örfá prósent notenda halda uppi miklum meirihluta umræðunnar, hann má kalla "hinn kjaftfora minnihluta".  Það hefur líka sýnt sig að það er stórvarasamt að draga ályktanir um skoðun meirihlutans út frá hinum kjaftfora minnihluta, sem er allt öðru vísi samsettur.  Með því er ég alls ekki að segja að spjallborðsumræðan sé óþörf, en hana þarf að skoða með vissum fyrirvörum.

Ég var á móti opinberri birtingu lánabókar Kaupþings, eins og fram kom í fyrri bloggfærslu.  Mér hefði þótt fara betur á því að hinn óþekkti uppljóstrari hefði sent gögnin beint til blaðamanna (sbr. Watergate), sem hefðu unnið úr þeim það sem máli skipti fyrir almenning.  Þá hefði ekki þurft að koma til skaða fyrir saklausa viðskiptavini bankans (og langtímahagsmuni bankans sjálfs og reyndar allra íslenskra banka) sem áttu lögmætan rétt á að hafa sín lánamál í trúnaði.

DoctorE, ég er hvergi að tala um höft á tjáningar- og persónufrelsi.  Í fyrsta lagi er ég ekki að tala um nein lög eða opinber bönn.  Í öðru lagi má fólk segja hvað sem það vill ef það gerir það undir nafni og ber ábyrgð á orðum sínum, eins og segir í núgildandi íslenskum prentlögum.  Punkturinn hjá mér er að nafnleysið sé niðurdrepandi fyrir umræðuna og vont fyrir lýðræðið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.9.2009 kl. 10:49

10 identicon

Þetta er einfaldlega rangt hjá þér Vilhjálmur, nafnleysi er ekki niðurdrepandi... ef þú s,koðar málið þá er per se ekki neinn munur á hegðun nafnlausra vs þeirra sem skrifa undir nafni.

Ég endurtek... segðu þessa skoðun þína til þeirra sem berjast fyrir frelsi og jafnrétti.. og geta það ekki nema undir nafnleysi.
Nafnleysið er eitt það mikilvægasta sem netið hefur að bjóða, án þess værum við, allur heimurinn minna upplýst, í meira myrkri.
Það sem þú ert að fara fram á er að hindra framgang mannréttinda.. pure & simple.

Ég er persónulega í sambandi við afar marga viðsvegar um heiminn, múslíma og aðra sem aðeins geta tjáð sig undir nafnleysi.
Og ég endurtek að þú ferð í kjörklefan undir nafnleysi.. .viltu fá nafn á kjörseðla... það er akkúrat það sem bully's vilja.
Mér finnst stórfurðulegt að maður eins og þú hafir svona backwards skoðanir.. hreint ótrúlegt

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:21

11 identicon

Og taktu líka eftir að þú kallar alla nafnleysingja sem nautheimska... það gerir þú undir fullu nafni... hugsanlega gerir þú þér ekki grein fyrir því að nafnleysingjar eru líka fólk alveg eins og þú.

Hvort findist þér verra: Að ég segði þig heimskingja... eða að einhver nafngreindur maður segði þig heimskingja?

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:26

12 Smámynd: Einar Guðjónsson

Vilhjálmur er kannski mest að tala um almennt mannasiðaleysi og að nafnlausir sýni meiri dónaskap en gott þykir. Það er alveg rétt. Kenning hans er sú að menn séu dónalegri undir nafnleynd.

Einar Guðjónsson, 7.9.2009 kl. 11:50

13 identicon

DoctorE: Þú spyrð "Hvort findist þér verra: Að ég segði þig heimskingja... eða að einhver nafngreindur maður segði þig heimskingja?"

Einfalt, nafngreindur maður. Að rífast við óskilgreindan einstakling er eins og að berja höfðinu við steininn.

Hvað er annars málið með að ríghalda svona í nafnleysið? Skammastu þín fyrir skoðanir þínar og málflutning?

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:54

14 identicon

Ég skammast mín ekki Þórður, ég fer eftir leiðsögn manna erlendis sem segja klárlega að umræður um trúmál séu bestar undir nafnleysi...
Ég veit um nokkra afar geðsjúka ofurkrissa hér á landi sem gætu hæglega ráðist að börnum mínum og fjölskyldu.

Hinn stóri heimur ráðleggur þetta.. .en ísland vill halda í sveitasímann.

Og ykkur að segja þá hef ég séð mjög ljót blogg undir fullu nafni... það er bara rugl að nafnlausir séu verri.

The bully wants your name...

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:19

15 identicon

Mér finnst merkilegast í öllum skrifum um nafnleysið hvað menn telja sjálfa sig vera mikið betri persónur þar sem þeir skrifa sjálfir undir nafni og eitt besta dæmið kemur hér þegar alhæft er um hversu heimskir nafnleysingjar séu og vitnað í þá sem "nafnleysingjaher" og þeir allir settir undir einn hatt hvort sem þeir eru að skrifa af viti eða ekki.

Fyrirlitningin felur ekki síður í sér þann dóm að almenningur á íslandi sé almennt svo heimskur að hann trúi hverju sem er og lepji upp gagnrýnilaust naflaust persónuníð.

Það er sama hvaðan skrif koma, þau geta verið góð eða vond burtséð frá því hvort hægt er að tengja andlit við þau eða ekki, eða pólitískar skoðanir viðkomandi sem oftar en ekki eru notaðar til að dæma menn ómerkinga af þeim sem hafa andstæðar skoðanir án þess að fjalla um mál efnislega.

Þín skrif og þær athugasemdir sem hafa birst við þau hafa hingað til verið mjög upplýsandi og vel rökstudd, ég vona að það breytist ekki. Ég veit að ég sem heimskur nafnleysingi kem áfram til með að lesa þessa síðu eins og margur annar þó að ég sjái nafnleysið í öðru ljósi en þú og jafnvel með þeirri gagnrýnu hugsun sem nefndir gera.

Atli (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:27

16 identicon

Það er soldið lýsandi fyrir þessa fáránlegu umræðu að allt í einu eru ómarktækustu menn landsins, nafnlausir bloggarar orðnir að marktækustu mönnum landsins.
Menn hreinlega fara fram í oforsi vegna hlægilegra kjaftasagna... en gleyma svo að þingmenn okkar eru að pósta mjög svo alvarlegum níðsögum þvers og kruss undir fullu nafni, blogga fullir um miðjar nætur.

Klárlega er hér verið að hengja bakarafyrir smið.. og líklega liggur eitthvað á bakvið þetta heimskulega plott eilítu og stjórnmálamanna.

Með von um að Vilhjálmur kveiki á perunni

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:38

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg held bara að svo erfitt verði að koma í veg fyrir nafnlaus skrif á netinu að það sé nánast óvinnandi verk.  Þó td ein síða taki fyrir nafnleysi eða hamli því - þá mun bara spretta upp önnur sem sinnir þessu (held eg)

Þetta nafnleysisdæmi er dáldið öðruvísi á Íslandi en víða annarsstaðar í vestræna heiminum vegna fámennis þjóðarinnar.  Sem dæmi í BNA eru ótal spjallvefir og kommentasíður, allt nafnlaust, og eg hef ekki orðið var við að mikið mál sé gert úr því eða vandamálum af þeim sökum.

En á Íslandi eru allt öðruvísi aðstæður.  Miklu þrengra samfélag og skrif á einhverri síðu geta náð miklu meiri útbreiðslu á landsvísu.  Þess vegna geta bloggarar eða netskrifarar  haft miklu meiri áhrif hérna en víða annarsstaðar.  (Eða verið meira áberandi í umræðuni)

Hins vegar punkturinn með hvort nafnlaus skrif gefi góða mynd af heildardæminu eða skoðanir almennt í samfélaginu - þá held ég að það sé nefnilega ekki svo.  Sem dæmi ef maður les komment við einhverja frétt á Eyjunni þá mætti ætla að allir íbúar landins væru bara á heljarþröm, alveg snarbrjálaðir etc.  Þ.e. ef úrtakið af kommentunum væri haft til viðmiðunnar.  Svo gengur maður út og talar við mann og annann - Og þá eru allir bara hinir rólegustu að mestu leyti.

Það er oft þannig að þeir sem hafa hæst og hafa sig mest í frammi - þeir endurspega ekki endilega best raunveruleikann.  En etta á svo sem einnig við þó menn skrifi undir nafni.

Þetta er nefnilega nokkuð flókið mál, nafnleysið, að mínu áliti.  Spurning líka hvort þetta jafni sig ekki á nokkrum árum.  Er náttúrulega frekar nýtilkomið.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.9.2009 kl. 12:56

18 identicon

Smá um þessi mál frá Hitchens, mjög skemmtilegur og fræðandi fyrirlestur... ætti faktískt að sýna þetta i skólum
http://video.google.com/videoplay?docid=6379618149058958603#

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 13:02

19 Smámynd: Einar Þór Strand

Sýnist Björgvin hafi gert mest í að vekja athygli á þessum skrifum sjáfur, kannski til fá samúð.  En hér er að koma upp hvernig Samfylkingin er, það má skamma alla nema okkur.

Einar Þór Strand, 7.9.2009 kl. 15:18

20 identicon

Sammála DoctorE !!

Eru nafnleysingjarnir á blogginu orðnir samfélagsógnIN ??

Það er ekki efi í mínum huga að þetta væl í þing/fjármála liðinu er aðeins upphafið á endalokum óhefts/eðlilegs táningafrelsis.

Þessum mönnum er nefnilega meinilla við að möguleikinn á upplýsingaleka sé fyrir hendi og sannarlega vita þeir að "alvöru" upplýsingum er nánast aldrei lekið út undir nafni !!

Það kæmi mér ekki á óvart að þessir menn eigi sjálfir þátt í því að dreifa "lygi" um sjálfa sig undir nafnlausu bloggi til að fá samúð og ekki síst til að strá fræjum málheftis sem stuðlar að útrýmingu þeirra sem kjósa að gefa frá sér upplýsingar, upplýsingar sem alla varða, undir nafnleysi.

Hvernig komust upplýsingar um hina vafasömu lánabók kaupþings til almennings ???

Eða þegar topparnir í sama fyrirtæki afskrifuðu lán sín ???

Voru þessar STÓRMERKILEGU upplýsingar settar fram undir nafni ?? Voru upplýsingarnar minna virði eða minna sannar sökum nafnleysis höfundar ??

Öll merki um þetta "nýja" áhugamál stjórn/fjármálamanna hrópa á mig, að ástæða kvartanna þeirra stafi ekki af sárum sem þeir hljóta af völdum meinfýsna bloggverja, heldur er rótin, hrein rótin,  þörf ráðamanna til að kæfa allar upplýsingar svo almenningur viti sem minnst !!

Þannig, upplýsingasveltur, almenningur er draumur allra stjórnmálamanna.

Merkilegast af öllu finnst mér þó, að kveinstafir okkar fyrrum "bestu" sona hafi hljómgrunn í rústum Íslensks samfélags í dag. Þjóð sem hefur verið fífluð, fölsuð og illa tekin.....

runar (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 15:18

21 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ómar Bjarki, ég er sammála.  Og ég veit að það er engin von til þess, né endilega æskilegt, að stöðva eða banna nafnlausar athugasemdir á vefjum.  En veigameiri vefir á borð við Eyjuna, sem gefa sig út fyrir að vera með fréttir og umræðu, ættu að mínu mati að velta fyrir sér hvort marktækni þeirra sem miðils og vettvangs gæti ekki verið meiri, og áhrif þeirra á lýðræðislega umræðu í landinu betri, ef þeir breyttu ritstjórnarstefnunni hvað nafnleysið varðar.

Einnig ættu einstaklingar að velta því fyrir sér hvort orð þeirra fengju ekki meiri vigt ef þeir sýndu það hugrekki (og kurteisi) að koma fram undir nafni.  Ég held að við fengjum meira upplýsandi og uppbyggjandi umræðu með þeim hætti.  Það vantar meira kjark og hugrekki (og málefnalega gagnrýni), og minna af gífuryrðum, sem engu skila nema að minna á það versta í fólki.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.9.2009 kl. 15:46

22 identicon

Veistu Vilhjálmur að ég er á ótal spjall vefjum, vísindavefum.. öll flóran... hvergi nema á Íslandi hef ég fengið kröfu um að segja hvað ég heiti og koma með kennitölu... þetta hefur aldrei komið upp EVER.

Þetta segir kannski hversu miklir smáborgarar við erum hér á íslandi

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:07

23 identicon

Ég er ekki svo viss um að vandamálið snúist um nafnleysingja eða ekki, heldur fremur hvort hægt sé að koma því við að sá sem tjáir hugsanir sínar geti jafnframt borið ábyrgð á þeim fyrir dómi, fari hann yfir strikið, eins og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands gerir ráð fyrir.

Nánast allir sem tjá sig "nafnlaust" gera það í athugasemdakerfum viðkomandi bloggsíðna. Mér finnst það í sjálfu sér allt í lagi, en það verður þá að koma því þannig fyrir að hægt sé að draga mannorðsmorðingjana fyrir dóm.

Um ad hominem rök gegn grein Björgvins G Sigurðssonar eða titlingaskít manna eins og Hauks Nikulássonar hér að ofan hirði ég ekki að tjá mig.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:11

24 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Villi,

Í áratugi hef ég talið að þú sért einn af "þessum ljóngáfuðu" mönnum, sem hafa nýtt náðargáfu sína vel og af skynsemi.  Gáfur eru misskipt gæði, sem ekki verða keypt fyrir nokkurn pening.  Þrátt fyrir að ég get tekið sterklega undir andúð mína á svona lágkúrulegri persónuníð gagnvart opinberri persónu,  er ekki laust við að það andi köldum hroka úr gini ljónsins í yfirskrift pistils, þegar það ákallar nafnlausa bloggara nautheimska.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 7.9.2009 kl. 16:28

25 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jenný, ég játa á mig alhæfingu í þessari fyrirsögn, sem sett var saman með með hliðsjón af stuðlum og því að vekja athygli á umfjöllunarefninu.  Hinu er ekki að leyna, að mig undrar þekkingarskortur, t.d. í margnefndri umræðu á Eyjunni, um grundvallaratriði í stjórnskipun Íslands og stjórnarskrá, prinsipp í réttarríki, og jafnvel almenn mannréttindi.  Það vantar greinilega eitthvað upp á menntun í samfélagsfræðum, og skilning á þeirri uppsöfnuðu reynslu og lexíum sögunnar sem standa að baki nútíma lýðræðisríkjum.  Sú vöntun er afar vond, og hættuleg lýðræðinu, eins og rógburðurinn og níðið.  Það er fyrst og fremst þetta sem fer í taugarnar á mér og ég á við með "nautheimskunni".

Lýðræði er ekki sjálfgefið ástand, það gerir kröfur til allra um ákveðna grundvallarþekkingu og skilning á því hvernig þjóðfélagið virkar, og leggur mönnum ábyrgð og skyldur á herðar.  Ef menn standa ekki undir þeim kröfum er voðinn vís, hvort sem er fyrir kreppu eða eftir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.9.2009 kl. 19:04

26 identicon

Ég ætla ekki að vera leiðinlegur við þig Vilhjálmur... en getur verið að vegna tengsla þinna við EVE, að þá sértu komin með vélræna sýn á hvað lýðræði er.

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 19:48

27 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Alls ekki, EVE-Online er einmitt fyrsti sýndarveruleikaheimurinn þar sem lýðræði er viðhaft.  Sérstakt ráð spilara, Council of Stellar Management, er kosið í almennum kosningum í leiknum - stærri kosningum en t.d. þingkosningum á Íslandi.

Annars verð ég að "hrósa" DoctorE fyrir hugvitsamlegt nafnleysi.  Honum hefur tekist að snúa á Moggabloggið og vera með notendanafn án þess að unnt sé að sjá nafn ábyrgðarmanns skv. Þjóðskrá.  Útpælt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.9.2009 kl. 20:33

28 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hér er annars ansi góður pistill eftir Bergstein Sigurðsson blaðamann á Fréttablaðinu, þar sem hann minnir á - með dæmum - að Egill Helgason hefur ekki alltaf farið fögrum orðum um nafnleysingja á blogginu.  Hefði kannski ekki orðað hlutina alveg eins sterkt sjálfur, en þetta er alveg í áttina.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.9.2009 kl. 20:53

29 identicon

Ég var bannaður fyrir að segja að sjáandi sem spáði hörmungum og seldi jarðskjálfta held hús upp á 12 á Richter væri geðveik og eða glæpakvendi.

Þannig að vöntun á höfundarsíðu er runnið undan rifjum ritskoðunardeildar mbl/blog.is :)

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 21:03

30 Smámynd: Kristján Gunnar Guðmundsson

Sæll Vilhjálmur og til hamingju með nýjustuafurðina Dust 514 alltaf gott að sjá íslenskt hugvit fá að njóta sín.

 Varðandi netskrif sem ekki eru eyrnamerkt hverjum þeim sem vogar sér að festa staf á blað í þeim fljótandi og síbreytilega netheimi sem við leitum athvarfs í frá stöðlum hinna heftu raunheima, þá verð ég sem einkar frelsisunnandi netverji að vera ósannfærður um að nafnleysi verði nokkurntímann aflagt, og ég gætifarið útí mikla langloku um hversvegna ekki en in a "nutshell" þá er þetta hluti af mannlegri náttúru að tala illa um aðra og mannleg náttúra er einsog þessi spilakassaleikur þar sem þú lemur íkorna ofaní holuna og annar poppar upp aftur, blog spjall .is .com .net .org .ws skiptir engu máli hvaða lög verða sett þau eiga bara eftir að bitna mest á litla manninum sem átti enga sök lengra niður veginn, enda engin lög sem eiga eftir að geta haldið í við tæknilega þróun og þyrfti alltaf að vera að breyta þeim að sífellt verið að kvarta yfir hve úrelt þau eru og bara tómt vesen frá mínum bæjardyrum séð.

Hvað er ég þá að segja að það sé í lagi að hrauna skítugum grílukertum yfir menn og málleysingja á netinu.. Nei. það er ég engann veginn að segja, í "nutshell" þá er það sem ég er að segja er að það sem fer úrskeiðis á netinu sé lagað á netinu, fire v.s. fire. dómstólaleiðin er einsog að nota sprengjuvörpu til drepa flugu, og bara til að flækja það útí hið óendanlega, því internetið er í raun of stórt til að nokkurt land geti komið því undir lagaramma sinn og þeir sem fara of geyst í afskiptum af því brenna sig á því, svo maður taki t.d. dæmi um Bandarísku nethagsmuna samfylkinguna http://www.savetheinternet.com sem Repúblikanar fengu illa að kenna á vegna frumvarps um breytingu á netinu sjá nánar hérna "WINNER of a 2007 Webby People's Voice Award!"sumir vilja meina að jákvæð afstaða Obama varðandi "Net Neutrality" (Hlutlaust net, freedom of speech o.s.f) hafi skipt sköpum varðandi kjör hans til forseta.

 Ok lausnir! ég held að flestir geti verið sammála um að netið er enn ekki búið að slíta barnsskónum svo margt er enn í mótun, sem þíðir að spjallsvæði, blogg, o.s.f. er enn í þróun, þessi kerfi þarf einfaldlega að þróa betur einsog kemur fram hérna að ofan "Aðeins örfá prósent viðskiptavina einoka gjarnan umræðu á slíkum spjallvefjum með öfgakenndum sjónarmiðum, sem reynslan sýnir að meginþorri viðskiptavinanna er ósammála." þá er líklegt að viðkomandi spjall sé ekki komið með hið snilldarlega einkunnagjafarkerfi einsog t.d. fyrirfinnst á youtube þar sem þeir sem lesa skrif annarra við videó geta gefið skrifunum einkunn, og það er einmitt frábær leið að skjóta niður neikvæð ummæli, að láta samfélagið hreinsa sig sjálft ég er mikill áhugamaður um hvernig er hægt að hlúa að netsamfélögum sennilega afþví ég hef upplifað að netsamfélag sem ég tilheyrði var eyðilagt en það er önnur saga.

  Það sem gerist á netinu á einfaldlega að tækla á netinu, valdhafar eru ekki sérfræðingar í málefnum netsins og illa ígrundaðir lagabálkar gera illt verra.

 Varðandi dylgjurnar um fyllerý og framhjáhald í garð Björgvin G. Sigurðssonar þá er kallinn að lenda í því að ekki áræðalegri kjaftasaga en svo að séð og heyrt sér ekki einu sinni ástæðu á að birta hana byrjar á eitthverjum lala spjallvef innan um þræði er bera nöfn einsog "arg", "dsjís...DR1"  "að steikja beikon... ég er auli" o.s.f. mér er efst í huga að þessu tilefni það sem haft var eftir Árna Matthíassyni í opnu í fréttablaðinu nefnilega að skv úrskurði dómsstóla þá þurfa opinberar persónur að þola harðari ummæli en aðrir, en einsog fyrr segir þá er ég ekki að afsaka þessi ummæli, sá sem lét þau falla er að skemma fyrir frelsi á netinu með því að misnota það, en svo hefði maður haldið að stjórnmálamenn hefðu þykkari skráp, ekki er hann fyrstur og hvað þá síðast stjórnmálamaðurinn til að vera borinn óhróðri og að kenna miðlinum um málefnið er jafn gáfulegt og að skjóta sendiboða.

Annars  ég er alveg sammála þessu "Aukið gagnsæi, jafnvel það sem kalla má vægðarlaust gagnsæi, er það sem koma skal í netvæddu, opnu lýðræði.  Bloggið verður eitt af mikilvægustu aðhaldstækjum almennings í framtíðinni" ég er bara ekki sammála um fjöldanum af hófsömum pennum skuli refsað fyrir fámennan hóp óhófsamra penna, þótt raunin verði sjálfsagt sú að lokað verði dyrunum sumsstaðar.

E.S.  Egill Helgason, er nú bara enginn "yfirpáfi" yfir öllu nafnlausum svæðum þótt hann kunni að virka sem slíkur í því horni netsins sem sumir hafast við í, og þar með ekkert síðasta vígi tjáningarfrelsisins á netinu á íslandi.

Kristján Gunnar Guðmundsson, 7.9.2009 kl. 22:55

32 Smámynd: Skeggi Skaftason

Æ þessi umræða er nú svolítið ómarkviss. Hver og einn bloggari ber ábyrgð á sinni síðu. Ef hann hefur opið kommentakerfi á hann einfaldlega að henda út því sem hann telur ekki birtingarhæft. Með sama hætti ætti Eyjan bara að grisja út ruslkommentin, eða heimta full nöfn manna ef þeir svo vilja. Ætti að vera einfalt að biðja um rekjanlegar nafnupplýsingar en birta þær svo ekki á síðunni nema menn vilja. Þeir um það.

En hvað bloggið varðar er alls ekki hægt að sjá að nafnleysi hefti heift manna.  Ásakanir um landráð, tal um að útrásarvíkingar eigi hitt og þetta skilið o.fl. o.fl. finnst í ríkum mæli á nafngreindum bloggum, sem ekki eru stoppuð. En geðveiki, það er víst algert tabú. Það er geðveikt!

Bendi svo á fínan pistil ak-72 til varnar nafnleysi.

Skeggi Skaftason, 7.9.2009 kl. 23:07

33 identicon

Eins og þegar mbl bannar mig fyrir að segja það augljósa um sjánandann ógurlega og jarðskjálftaheldu húsin...
Mbl sýndi þarna fádæma fordóma gegn geðsjúkum, fordóma gegn réttmætri ábendingu, fordóma gegn sannleikanum.

Magir hafa komið og skrifað mun verri pistla en ég skrifaði um sjáandann... þeir eru ekki bannaðir... enda flestir þeir sem umsagnir voru sagðar um óvinveittir sjálfstæðisflokk.
mbl er líka partur af gamla íslandi.. muna þetta

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 07:47

34 identicon

Ég er að fara að ræða akkúrat þessi mál á 9.9.9 ráðstefnunni á morgun. Meiriháttar að fá allt þetta efni upp í hendurnar.

Ég er þeirrar skoðunnar að ábyrgðin liggur hjá stjórnendum vefsvæðanna. Ekkert af vinsælustu blogg svæðunum hérna heima er að bjóða upp á tilkynningakerfi á borð við það sem Kristján nefnir. Þannig getur samfélagið kosið bestu athugasemdirnar og grafið þær sem eru ærumeiðandi eða hafa litlu við umræðuna að bæta. 

Vandamálið er að það er lítið sem ekkert community management eða moderation á þessum íslensku samfélagsvefjum.

Berið umræðuna hér saman við til dæmis http://www.guardian.co.uk/commentisfree

Það vantar réttu verkfærin til að samfélagið geti stjórnað gæðum umræðunnar og svo útkastara og skemmtanastjóra á vegum hýsingaraðila.

Ekki láta "heimskingjana" stýra umræðunni. Kennið þeim leikreglurnar eða hendið þeim út.

Finnur Magnússon (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 18:49

35 identicon

Frábærty Finnur... og má eg spyrja hverjum þú treystir til að velja það sem þú mátt sjá?

Og leikreglurnar.. eru það þínar leikreglur sem allir eiga að fylgja... þeir sem gera það ekki eru heimskingjar sem sem skemmtanastjórinn þinn hendir út.

Annars er management hér á blog.is... en skemmtanastjórar eru mjög svo hlutdrægir... sem gerist alltaf þegar stjórar eru að velja hvað fólk má sjá og hvað ekki.

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 19:22

36 Smámynd: Kristján Gunnar Guðmundsson

Netið er sjálfmeðvituð skepna sem vex hratt sé henni gefið rétta fóðrið, úrelt blog/spjallkerfi er náttúrulega ekki gott fóður.

 Annars Finnur þá varðandi ábyrgð stjórnenda þá skv því sem Vilhjálmur Vilhjálmsson segir í fyrrgreindri opnu í fréttablaðinu um mögulega túlkun á prentlögum varðandi netskrif þá telst brot fullframið um leið og meiðyrði hefur verið skrifað (lögin voru náttúrulega upphaflega sköpuð fyrir prentmiðla sem mætti kalla "endanlegt form miðlunar" ólíkt því "óendanlega" formi sem fyrirfinnst á netinu) með öðrum orðum hvort sem skrifunum er eytt innan mínútna eða ekki þá eru lögin of afgerandi að Vilhjálmur segir að það væri beinlínis ósanngjörn niðurstaða ef síðuhaldari væri fundinn sekur fyrir slíkt.

 

Ok gefum okkur að það færi mál í gegnum dómsstóla þar sem einmitt dæmið að ofan gengi eftir og það væri fordæmisgefandi þ.e.a.s. eitthver vefmiðill þurfti að borga eitthverjum sem eitthver laug eitthverju uppá á á viðkomandi vefmiðli, daginn eftir dettur eitthverjum öðrum í hug auðveld leið að græða pening og misnota dómskerfið í leiðinni,ég skal bara leika hlutverkið í þessu SÝNIDÆMI!!! svo enginn fari að taka það til sýn að ástæðulausu.

Hann (Ég) notar opið net kaffihúsa á fartölvu sem ekki er hægt að rekja til hans sjálfs (tæknilegt) eða fær eitthvern annan til að gera það fyrir sig, skreppur inná allar helstu blogg/spjallsíður landsins og skrifar eitthvern óhróður um sjálfan sig að hann hafi drepið kött og flegið hann misnotað eitthvern/eitthvað og hvað ekki samt nógu krassandi til að tekið verði eftir, svo finnur hann eitthvern lögfræðing sem hefur nógu blæðandi hjarta fyrir greyið fórnarlambinu til að geta sannfærandi farið framm á nógu háar fjárhæðir frá þessum augljóslega seku stjórnendum spjallvefjanna, þótt náttúrulega aldrei sé haft uppá þeim sem kom öllum þessum óhróðri af stað og fékk kannski eitthverja fábjána til að tjá sig óvarlega um þetta í hneykslun/reiðikasti.

og á næstu vikum loka hver síðan á fætur annarri fyrir nafnlaus skrif á bloggum/spjallsvæðum sínum og aðrar flýja úr landi, frábær árangur.. nei takk!

 Auðvitað fer valdið varlega í allar lagalegar nálganir á málum varðandi netið enda veit maður aldrei hvern það á svo eftir að skaða í endann, þeir eru að öllum líkindum að bíða eftir fordæmum erlendis frá einsog með svo margt annað sem er svosem alveg rökrétt því það verður aðeins komið böndum á netið með alþjóðlegu samstarfi þar um en í mínum kokkabókum eru það reyndar bara tækniheftir jólasveinar sem virkilega halda að eitthvað slíkt eigi nokkurntímann eftir að gerast, netið er í raun sjálfmeðvituð skepna sem verður bara ekki komið böndum á en það þíðir að sjálfsögðu ekki að eitthverjir eigi ekki eftir að reyna það og mistakast hörmulega.

 Ég trúi því meira að segja að innan 50-100 ára verði eitthvað form Netræðisbúið að taka við af núverandi stjórnarháttum þar sem mjög háþróuð opinber vefkerfi sem upphefja afrek og sérþekkingu einstaklinga frekar en kosningafylgi flokka o.s.f. ég gæti talað endalaust um það mikill áhugamaður um það en það er annað mál.

 E.S. err.. 999 ætli það sé nokkuð dulin stæling á 666.. nie bara mjög vinsælt í mörgum nafnlausu nikkunum hef ég tekið eftir, t.d. í leikjaheiminum, líklega mestmegnis bara eitthverjir uppreisnargjarnir táningar samt :D

Kristján Gunnar Guðmundsson, 8.9.2009 kl. 22:43

37 identicon

Ef sumir fengu að ráða.. .þá væri dæmið svona.

Maður að nafni Jón drepur mann með eldhúshníf... BANG eldhúshnífar eru vondir í höndum manna sem heita Jón, bönnum Jónum að hafa eldhúshnífa

Já þetta er virkilega svona stúpid... og takið eftir að þetta er málflutningur elítu og stjórnmálamanna

DoctorE (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 08:28

38 Smámynd: Héðinn Björnsson

Hefur þú eitthvað fyrir þér í að fólk tali ómálefnanlegra undir nafnleynd? Það er nefnilega ekki mín tilfinning. Mér finnst eins og það sé sirka jafn stór hópur nefndra og nafnlausra athugasemda sem eru rættnar og/eða ómálefnalegar. Hef svosem ekki gert neina statistik á málinu, en það virðist heldur engin hafa sem telur hitt vera tilfellið.

Héðinn Björnsson, 16.9.2009 kl. 11:30

39 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Já, Héðinn, ég tel nokkuð augljóst að tónninn í umræðunni er öðruvísi t.d. á Eyjunni, þar sem nafnleyndin er yfirgnæfandi, en á Moggablogginu, þar sem hún er sjaldgæfari.  Með því er ég ekki að segja að allar athugasemdir á Eyjunni séu vondar og allar góðar á Moggablogginu, né að allar athugasemdir undir nafni séu góðar en nafnlausar vondar.  En heildarsvipur og inntak umræðunnar ræðst að mínu mati ótvírætt af því hvort nafnleysi sé ráðandi eður ei.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.9.2009 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband