Röng nálgun Icesave kostar 91 milljarð

Í tveimur síðustu bloggfærslum hef ég rætt um þá hugsanavillu sem er í Icesave samningnum varðandi það hvernig eignir Landsbankans muni ganga upp í kröfur íslenska, breska og hollenska innistæðutryggingasjóðsins.  Í stað þess að gert sé (réttilega) ráð fyrir að tryggingasjóðirnir gangi inn í kröfu hvers innistæðueiganda, er miðað við að þeir geri (ranglega) nýja og sjálfstæða kröfu fyrir sína hönd í þrotabú bankans.  Fyrir þessu er engin lagastoð, heldur gerir Evróputilskipunin beinlínis ráð fyrir að tryggingasjóður gangi inn í upphaflega kröfu (notað er lögfræðihugtakið subrogation), í stað þess að búa til nýja kröfu í búið.

Menn kunna að halda að þarna sé bara orðhengilsháttur á ferð sem engu skiptir.  En það er öðru nær.

Ef sú nálgun sem ég tel rétta er notuð, fær Tryggingarsjóður innstæðueigenda 91 milljarði króna meira í sinn hlut úr þrotabúi Landsbankans en nú stendur til, miðað við 75% endurheimtuhlutfall.  Munurinn verður enn meiri ef endurheimtur versna.

Það helgast af því að 71.300 breskir Icesave-viðskiptavinir áttu meira en 22.000 pund inni á reikningum sínum, og munu þar af leiðandi fá meira en 16.500 pund í sinn hlut úr búi Landsbankans (75%), sem aftur þýðir að Tryggingasjóðurinn á að fá sína tryggingu óskerta til baka (20.887 EUR er um það bil 16.500 pund).  Það gerist hins vegar ekki með aðferðafræði Indriða H. Þorlákssonar og samninganefndar Icesave - þar fær sjóðurinn aldrei nema hámark 12.375 pund í sinn hlut pr. reikning (75% af 16.500), sama hver innistæðan er.  Og: ef sjóðurinn fær þrátt fyrir allt meira, af einhverjum ástæðum, er ákvæði í Icesave samningnum um að hann endurgreiði Bretum og Hollendingum mismuninn!

Um Hollendinga gildir að þar áttu 19.200 Icesave-viðskiptavinir meira en 27.849 EUR hver og munu þar af leiðandi fá meira en 20.887 EUR úr búi Landsbankans, sem gerir Tryggingarsjóð skaðlausan, gangi hann inn í kröfu þeirra.

Rétt skal vera rétt.  Sú nálgun sem ég lýsi uppfyllir fullkomlega skuldbindingar Íslands skv. Evróputilskipunum og íslenskum lögum.  Við semjum ekki af okkur 91 milljarð, bara si-svona.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu með einhver álit sem styðja þetta álit þitt?

sandkassi (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 19:26

2 identicon

Sem betur fer á Ísland nörda einsog þig og Marinó og Ragnar Hall fleiri. Það ætti að nota ykkur meira.

Doddi D (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 23:19

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gunnar: Ég hef verið í skeytaskiptum við tvo reynda lögfræðinga á sviði kröfuréttar og get a.m.k. fullyrt að ég er ekki úti í móa með þetta upplegg.

Doddi, á ég ekki að taka Straum til fyrirmyndar og fara fram á 6% frammistöðutengdan bónus ef þetta gengur upp?  Það eru þá 5,4 milljarðar... 

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.8.2009 kl. 23:33

4 identicon

ok, ertu búinn að koma þessu áleiðis til Fjárlaganefndar?

sandkassi (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 00:05

5 identicon

sandkassi (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 00:05

6 identicon

Vilhjálmur, sumir vinna vel án tillits til ávinnings. Þeir einfaldlega geta ekki annað. Ég held að þú og þitt fólk afsannið kapítalismann.

Doddi D (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 01:53

7 identicon

Það er hægt að skilja lagatexta á ýmsa vegu. Ég hef sjálfur ekki nennt að böggla mig í gegnum þennan. Hitt finnst mér þó liggja nokkuð í augum uppi að hvorki íslensk, hollensk né bresk yfirvöld hafi ætlað sér að ofborga innistæðueigendum, eða muni gera það þegar til kastanna kemur. Þegar af þeirri ástæðu verð ég að draga mjög í efa að þú hafir skilið textann rétt.

Það hefur verið bent á það áður, en ekki haldið nægilega vel til haga í Icesaveumræðunni, að neyðarlögin geta ekki staðist evrópureglur nema innistæður í íslenskum útibúum á meginlandi Evrópu séu jafnvel tryggðar og þær sem eru á Íslandi sjálfu. Það eru hins vegar upphæðir sem íslenska ríkinu eru gersamlega ofviða. Því er fólgið í því mikið vinarbragð að breska og hollenska ríkið hafa hlaupið undir bagga, greiða sjálf það sem er umfram lágmarkstrygginguna og lána Íslandi fyrir mismuninum.

Tal um íslenska ríkið sé að borga meira en því ber sýnist mér því á misskilningi byggt. Neyðarlögin skylduðu það til að borga 100%. Allt sem er minna en það er gjöf. Sé það rétt hjá þér Vilhjálmur að gjöfin sé 91 milljarði króna lægri en vonast var eftir þá verður maður bara að taka því. Valkosturinn er að ógilda neyðarlögin taka allt til baka sem á þeiim var byggt.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 10:04

8 identicon

Óháð því hvað stendur í lagatexta þá sýnir einfalt reikningsdæmi Vilhjálms í síðustu færslu fram á fáránleika þess að skipta einni innistæðu upp í tvær eða fleiri kröfur. Tilgangur laganna er að veita lágmarkstryggingu, en augljóslega ekki að borga þeim sem eiga innistæðu yfir lágmarkinu hærri hlut en sem nemur endurheimtuhlutfalli úr þrotabúinu.

Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 11:18

9 identicon

Það er þegar búið að greiða innistæðueigendunum. Hollendingar og Bretar tóku það að sér og gerðu eftir eigin reglum. Þeir fá ekki meira, hvað svo sem reiknireglum lýður.

Samningurinn snýst um hvað íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn á að endurgreiða þeim hollensku og bresku. Upphæðin og greiðsluskilmálar eru samningsatriði. Miðað við 100% greiðsluskyldu skv. neyðarlögunum sýnist mér niðurstaðan úr samningaviðræðum vera "glæsileg". Fjasið sem staðið hefur yfir í allt sumar og sett alþingi og þjóðina á annan endann er klassískt dæmi um það sem heitir á ensku að "look the gift horse in the mouth". 

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 12:10

10 Smámynd: Einar Karl

Ómar Harðarson: Ég hvet til að lesa betur síðustu þrjár færslur Vilhjálms. Ég skrifaði líka færslu um akkúrat þetta. Þetta er alls ekkert svo flókið eins og ætla mætti við fyrstu sýn.

Neyðarlögin voru sett, eins og nafnagift þeirra gefur til kynna, til að fyrirbyggja algjört neyðarástand. Þó svo fólk kunni að hafa horn í síðu banka er það nú svo að bankakerfið er nauðsynlegur þáttur í infrastrúktúr nútímasamfélags. Það er vart hægt að hugsa sér þá ringulreið og upplausn sem hefði orðið ef neyðarlög hefðu ekki verið sett, þ.e. ef bankarnir hefðu hrunið án þess að innstæður okkar voru tryggðar. Það hefur einmitt Vilhjálmur bent á í fjölmörgum færslum.

Þú byggir þinn málflutning á þeirri einföldu röksemd að fyrst íslenska ríkið tryggði innstæður hér á landi 100% ætti það líka að tryggja innstæður í erlendum útibúum sömu banka 100%. Það er vissulega gott og gilt jafnræðissjónarmið. En eins og þú sjálfur bendir á eru þær upphæðir íslenska ríkinu "gersamlega ofviða".  Þær eru það þó svo við fáum þær upphæðir að láni. (Margir hafa raunar haldið því fram að sú ódýrari leið sem stendur til að fara, að ábyrgjast greiðslur á 20.000 evru lágmarki, séu einnig okkur ofviða eða á mörkum þess.)

Íslenska ríkið hefur lagt til að ríkið ábyrgist lágmarksgreiðslur úr íslenska tryggingasjóðnum sem evrópureglur kveða á um (þó svo þær sömu reglur kveða í raun ekki skýrt á um að ríki beri ábyrgð á slíkum sjóð). Neyðarlögin skapa vissulega ójafnræði en voru sett til að íslenskt samfélag myndi ekki lamast.  Ekki veit ég hvaða evrópureglur þú telur ríkið hafa brotið með þeim aðgerðum. Eru til skýrar reglur um það hvernig ríki megi bregðast við til að fyrirbyggja neyð og samfélagslegt hrun?

Það sem Vilhjálmur bendir á að þetta tiltekna atriði sem hér er rætt gerir það að verkum að við greiðum meira en þetta upplegg gerir ráð fyrir, að Ísland ábyrgist að hver innstæðueigandi fái tilbaka af sinni innstæðu að lágmarki 20.000 evrur.

Eitt er líka alveg víst - bresk og hollensk stjórnvöld voru ekki að greiða þegnum sínum umfram 20.000 lágmarkið af þeirri ástæðu að íslensk stjórnvöld höfðu ábyrgst íslenskar innstæður að 100%, heldur til að forðast almennt bankaáhlaup á  fleiri banka með starfsemi í þessum löndum. Þess vegna er ég ósammála þér að tala um þessar greiðslur sem einhvern vinargreiða við íslensk stjórnvöld.

Einar Karl, 23.8.2009 kl. 12:26

11 Smámynd: Einar Karl

Ómar segir:

Miðað við 100% greiðsluskyldu skv. neyðarlögunum sýnist mér niðurstaðan úr samningaviðræðum vera "glæsileg"

Þessa fullyrðingu verður þú að rökstyðja og bakka upp. 

Einar Karl, 23.8.2009 kl. 12:32

12 identicon

Einar Karl. Þú hefur alveg hárrétt fyrir þér þegar þú bendir á ástæðu neyðarlaganna, sem og að sömu ástæður sem lágu að baki snöggum viðbrögðum Breta og Hollendinga við að bæta Icesave eigendum tjónið.

Vandinn með neyðarlögin var hins vegar sá að hann takmarkaði trygginguna við innistæður "á Íslandi". Á það hefur verið bent og mér vitanlega ekki hægt að draga í efa, þá stangast sú takmörkun á við evrópurétt og jafnræðisregluna. Skiptir þá engu hvort íslenska ríkið stendur undir því eða ekki (það stendur reyndar heldur ekki undir hinni svokölluðu 100% tryggingu neyðarlaganna)

Það að íslenska innstæðutryggingarsjóðnum verði aðeins gert að borga allt að 20.887 evrum, og að innistæðutryggingarnar hafi forgang í brotajárnið úr Landsbankanum sýnist mér einfaldlega vera vinarbragð. Hér hefur verið mikið tillit tekið til Íslendinga. Jafnvel þótt Vilhjálmur hafi rétt fyrir sér varðandi 91 milljarðinn þá kemur það ekki Icesave eigendunum til góða heldur aðeins viðsemjendunum sjálfum.

Tilvitnuðu ummælin útskýra sig sjálf. Rökstuðningurinn kemur fram í setningunni sjálfri. Það er glæsileg niðurstaða að þurfa að borga aðeins helming (minna, ef eitthvað kemur úr gamla Landsbankanum) ef það er skylt að borga allt. Sérstaklega ef það er ljóst (ég treysti útreikningum Seðlabanka) að hægt sé að kljúfa það.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:09

13 identicon

Ómar, tilskipunin tekur skýrt fram að tryggingarsjóðurinn megi ekki vera á formi ríkisábyrgðar:

"the system must not consist of a guarantee granted to a credit institution by a Member State itself or by any of its local or regional authorities," (http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=CELEX:31994L0019:EN:HTML, grein 3, paragraf 1)

Ef tryggingarsjóðurinn má ekki vera á formi ríkisábyrgðar, er erfitt að sjá að það se leyfilegt að ríkið beri ábyrgð á fjármögnun sjóðsins. Hvor ríkið megi svo ábyrgjast þau lán sem sjóðurinn tekur, það er svo aftur kannski annað mál.

Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:20

14 identicon

Kristján. Ég var ekki að tala um tilskipunina um innstæðutryggingar. Það voru neyðarlögin sem komu landinu í klemmu. Með þeim var allt tryggt af ríkinu, líka Icesave reikningarnir þar sem ekki er hægt að mismuna viðskiptavinum Landsbankans. Með Icesave-samningnum var íslenska innstæðutryggingasjóðnum bjargað undan þeirri kvöð að greiða upp í topp, heldur skyldutryggingin látin duga (plús 91 milljarður ef Vilhjálmur hefur lesið rétt).

Jafnvel þótt ekkert sé beinlínis sagt í evróputilskipuninni um ríkisábyrgð, þá var henni komið á með neyðarlögunum, þ.e. íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn er bakkaður upp af ríkinu þverri hann. Enn og aftur. Það er ekki leyfilegt að mismuna viðskiptavinum Landsbankans. Það var í því sem glæpsamlegt athæfi Sigurjóns og félaga fólst. Þeim var það alltaf fullljóst að íslenska ríkið myndi standa þarna á bak við - af þeim ástæðum sem Einar Karl minnti á í færslu hér að ofan.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:37

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þakka athyglisverð innlegg, Einar, Ómar og Kristján Valur.

Landsbankamálið er tvíþætt, þ.e. annars vegar grunn-innistæðutrygging og hins vegar sú ráðstöfun FME með heimild í neyðarlögunum að búa til nýjan Landsbanka í eigu ríkisins sem yfirtók eignir og skuldbindingar frá gamla bankanum.  Þegar það var gert lá ekki ljóst fyrir hvort eignir þrotabúsins myndu duga fyrir innistæðum.

Íslenska tryggingasjóðnum bar klárlega að tryggja 20.887 evrur á hvern reikning, jafnt á Íslandi sem annars staðar.  Ábending mín í síðustu þremur bloggfærslum er sú að miðað við fyrirliggjandi Icesave samning fær sjóðurinn minna til baka úr þrotabúinu af útleggi sínu en evróputilskipunin og íslensk lög gera ráð fyrir.  Sú útfærsla að breski og hollenski sjóðurinn hafi tekið að sér að greiða út tryggingarnar breytir ekki rétti íslenska sjóðsins til endurheimtu úr búinu.

Kemur þá að neyðarlögunum.  Fyrir innistæðueigendur, innlenda og erlenda, er mjög jákvætt að þau gera innistæður að forgangskröfum.  (Það eru hins vegar ekki góðar fréttir fyrir almenna kröfuhafa.)  Þrátt fyrir það hrökkva eigur búsins ekki fyrir öllum innistæðum og það verður tap, sem í dag er giskað á að verði 25% af innistæðunum.  Málið snýst um það hverjir bera þetta tap.

Eins og uppleggið er núna, þá bera íslenska ríkið og íslensku, hollensku og bresku tryggingasjóðirnir, og tilteknir innistæðueigendur tapið (þ.e. "fagfjárfestar" í Bretlandi og þeir sem áttu yfir 100.000 EUR á reikningum í Hollandi).

Íslenska ríkið ber tap þeirra sem áttu innistæður í íslenskum útibúum.  Það gerist með eiginfjárframlagi ríkisins til nýja Landsbankans.

Íslenski tryggingasjóðurinn og sá breski og hollenski deila með sér tapi af innistæðum í erlendum útibúum, eins og ég hef lýst í undanförnum bloggfærslum, auk áðurnefndra innistæðueigenda.

Þegar á neyðarlögin reynir fyrir dómi, mun málflutningur íslenska ríkisins eflaust byggja á því að ríkinu hafi verið nauðsynlegt og skylt að halda bankastarfsemi í landinu gangandi; það sé neyðarréttur.  Og að mínu mati er það rétt, enda hefði fljótlega komið til rána og gripdeilda, ef skrifa hefði átt innistæður fólks og fyrirtækja niður í sirka 2 milljónir króna (=innistæðutryggingu).  Fyrirtæki hefðu ekki getað keypt birgðir eða greitt laun og efnahagslífið hefði stöðvast.  Engin ríkisstjórn hefði getað látið slíkt viðgangast og það hygg ég að Hæstiréttur muni staðfesta.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.8.2009 kl. 14:02

16 identicon

Það hlýtur að vera álitamál hvort jafnræðissjónarmið (áttu hér við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, eða einhver önnur tiltekin EES lög?) trompi neyðarhagsmuni þjóðarinnar.

Til að hér færi ekki allt í kleinu greip ríkið inní og setti neyðarlög. Til að ekki færi allt í kleinu í Evrópu, borguðu Bretar og Hollendingum sínu fólki uppí topp. Það var ekki gert af neinum jafnræðissjónarmiðum. Hrun íslenska kerfisins afhjúpaði djúpa meinbugi á tryggingarkerfinu sem olli því að ríki urðu að "impróvísera" til að haldast á floti. En samt á að senda okkur reikninginn fyrir þær björgunaraðgerðir.

Það kann að vera gott og blessað að Bretar skyldu hafa umsvifalaust (og óumbeðið) lánað okkur pening fyrir skylduábyrgðinni (það er umdeilt, sjá http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/925932/), en það bað þá enginn að borga meira.

Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 14:02

17 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hvert er vægi tilskipana ESB gagnvart svona samningi. Er möguleiki að gerð verði athugasemd við hann af hálfu ESB á einhverju stigi málsins. Ég ætla ekki að kasta mér út í rökræður um þetta mál. Getur það verið möguleiki þegar Ísland er komið inn í ESB að málið verði tekið upp þar og sambandið gangi inn í að greiða þessa skuld okkar. Sá þessa tilgátu á blogginu um daginn.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.8.2009 kl. 00:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband