Icesave er rangt reiknað

Upplegg Icesave-samningsins, Indriða H. Þorlákssonar og nokkurra lögfræðinga sem skiluðu áliti til fjárlaganefndar, um meðhöndlun forgangskrafna í bú Landsbankans, er rangt - eins og ég fjallaði um í síðustu bloggfærslu.

Til að skýra þetta betur, skulum við taka mjög einfalt dæmi um virknina skv. þessu ranga uppleggi.

Banki fer á hausinn.  John English var sá eini sem átti innistæðu í bankanum, að upphæð 10.000.000.  Bankinn var illa rekinn, eins og Landsbankinn, og á aðeins 7.500.000 kr. í þrotabúinu upp í innistæðuna.

John fer til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fær þar 2.000.000 kr (rúnnað til einföldunar, í raun er upphæðin um 1,7 milljónir) í innistæðutryggingu.

Síðan gerir John kröfu í búið upp á 8.000.000 (10 mínus 2), en Tryggingasjóðurinn gerir kröfu upp á 2.000.000 sem hann lagði út til hr. English.

Við úthlutun úr búinu teljast allir kröfuhafar jafnstæðir og fá sama endurheimtuhlutfall upp í kröfur sínar, þ.e. 75%.

John fær því 6.000.000 út úr búinu (75% af 8.000.000) og Tryggingasjóðurinn fær 1.500.000 (75% af 2.000.000).

John hefur þá samtals fengið 8.000.000,- til baka (2 í tryggingu og 6 úr búinu).  Með öðrum orðum: Tryggingasjóðurinn tryggði John ekki bara fyrstu 2.000.000 af innistæðunni, heldur borgaði honum að auki 500.000 krónur úr vasa skattgreiðenda.  Sem  John átti engan rétt á, því innistæða hans var umfram tryggingaupphæðina og engin skylda hvílir á sjóðnum eða ríkinu að færa honum fé í þessu tilviki.

Þessi ranga niðurstaða er afleiðing af því að kröfu John er skv. uppleggi Icesave-samningsins skipt í tvennt og gerð að tveimur kröfum, sem á sér enga lagastoð né réttlætingu, hvorki í Evrópureglunum né í íslenskum lögum.  Samkvæmt fyrirmælum laga á Tryggingasjóðurinn að ganga inn í kröfu John (subrogation), en hún er eftir sem áður ein krafa.  Í því tilviki fær sjóðurinn sínar tvær milljónir til baka og stendur á sléttu, og John fær samtals 7.500.000 út úr búinu eins og vera ber.

Þetta verður að laga, það hafa einhvers staðar orðið afar vond mistök á leiðinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Hringir þú ekki strax í Jóhönnu, Villi?

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.8.2009 kl. 17:03

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Vona að hún eða ráðgjafar hennar lesi þetta, Jenný

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.8.2009 kl. 18:45

3 identicon

Ekki "úr vasa skattgreiðenda", því tryggingasjóðurinn er ekki með ríkisábyrgð heldur þarf hann að fjármagna sig sjálfur, t.d. með lánum.

Engu að síður er þetta rétt, og kjarninn í gagnrýni Ragnars Hall, að innistæðan hlýtur að mynda aðeins eina kröfu í þrotabúið, sem sjóðurinn yfirtekur og gerir svo upp við innistæðueiganda eftir því hvernig innheimtist.

Komi til annar aðili sem vill veita aukaábyrgð, hlýtur hann að koma inn sem milligöngumaður milli sjóðsins og innistæðueiganda, enda er um að ræða aukasamkomulag milli þeirra aðila sem snertir upphaflega sjóðinn ekki neitt.

Einhvern veginn virðist þessi einfalda röksemd týnast.

Kristján Valur Jónsson (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 20:04

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þakka þér fyrir þessar útskýringar.

Ég viðurkenni, að þær hafa aukið skilning minn, á þessum hluta deilunnar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.8.2009 kl. 13:10

5 Smámynd: Gunnlaugur Þór Briem

Mikið líst mér vel á að það sé svo — gætirðu gefið vísun/tengil á þau tilteknu fyrirmæli laga sem segja til um að sjóðurinn „gangi inn í kröfu John“ (subrogation)? Mig langar að geta rakið allan þráðinn.

Gunnlaugur Þór Briem, 22.8.2009 kl. 13:40

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gunnlaugur, skoðaðu athugasemdirnar við fyrri bloggfærsluna (næstu á undan), þar er tengt í ýmis bakgrunnsgögn.  Eitt lykilatriði er t.d. greinin sem um ræðir úr tilskipun 94/19/EC.  Hér er talað um að ganga inn í kröfu innistæðueigandans (subrogation), ekki að sjóðurinn eigi að eignast nýja kröfu í þrotabú:

Article 11

Without prejudice to any other rights which they may have under national law, schemes which make payments under guarantee shall have the right of subrogation to the rights of depositors in liquidation proceedings for an amount equal to their payments.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.8.2009 kl. 13:44

7 Smámynd: Gunnlaugur Þór Briem

Takk kærlega. Ég hef verið að furða mig á því klúðri að kröfuröðin sé ekki skýr í lögum, en í þessari grein í dírektívinu virðist hún einmitt gerð alveg kýrskýr (eftir lestur lögfræðilegrar skilgreiningar á „subrogation“).

Gunnlaugur Þór Briem, 22.8.2009 kl. 16:26

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Því miður, virðist mér, að vinstristjórnin, sé að draga alveg kolranga lærdóma, af ríkisstjórn Davíðs og Halldórs, á árum áður. Þ.e., að viðhalda svokallaðri stefnufestu.

Festan, eins og þá, felist í því að fylgja markaðri stefnu, og taka enga mark á gagnrýni á þá stefnu.

Eins og hjá Dabba og Dóra, og fyrir það hjá Bush, verður þetta að vanda, þegar stefnan er röng í einhverjum mikilvægum atriðum.

Að hlusta ekki, og taka ekki mark á aðvörunum, stefna Dabba og Dóra, á endanum skilaði ófarnaði. Það væri sannarlega mjög slæmt, að ef vinstristjórnin sem segist vera að moka flórinn, er í misgáningi og einskærri þrjósku við það að neita að taka mark á aðvörunum, þess í stað að grafa okku öll í enn dýpri holu en áður.

Klúður á klúður ofan, og útkoman væri megaklúður; raunverulegt gjaldþrot.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.8.2009 kl. 20:12

9 Smámynd: Birnuson

Íslenski textinn er svona:

11. gr.
Við greiðslur samkvæmt tryggingakerfinu hefur tryggingakerfið rétt til að ganga inn í kröfuréttindi innstæðueiganda við skiptameðferð sem svarar til fjárhæðarinnar sem greidd er, án þess að þetta hafi að öðru leyti áhrif á þau réttindi sem kerfið kann að hafa samkvæmt landslögum.
http://www.efta.int/content/publications/EEASupplements/supplement-1994-IS/94SU50IC.PDF
(bls. 58)

Birnuson, 22.8.2009 kl. 23:49

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Takk fyrir þetta, Birnuson, ég þarf að vera duglegri að finna íslensku þýðingarnar, auðvitað eru þær allar til.  Og þetta er sama orðalag og ég hafði fundið hjá sjálfum mér að nota yfir hugtakið subrogation.  Nú er bara spurninginn hvað þeir lögfræðingar, sem sendu álit til fjárlaganefndar og töldu að kröfum ætti að skipta, hafi verið að hugsa.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.8.2009 kl. 14:08

11 Smámynd: Birnuson

Það var lítið; ég er meira en til í að vera þér innan handar um slíkt. Almennt sýnist mér íslenzka þýðingin á þessum texta fremur góð, en sama er ekki alltaf hægt að segja um þýðingar EB-texta frá fyrstu árum EES.

Birnuson, 23.8.2009 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband