Framsóknarleiðin er torfær - en það getur verið bjart framundan

Ég kom eflaust ýmsum á óvart með því að taka tiltölulega jákvætt í hugmyndir Framsóknar um niðurskrift skulda.  Í pistli um það mál sagði ég þó að bíða þyrfti niðurstöðu úr mati endurskoðenda á afskriftum lánasafna bankanna, áður en hægt væri að leggja endanlegt mat á raunhæfnina.

Síðan hefur ýmislegt skýrst, þótt mat endurskoðenda liggi ekki enn fyrir.  Og staðreyndir málsins virðast því miður ekki jákvæðar fyrir hugmyndir Framsóknar (og landsmenn).

Framsóknarhugmyndirnar byggja að verulegu leyti á því að lánasöfn séu afskrifuð hvort sem er, fyrirfram, á kostnað lánardrottna gömlu bankanna, áður en þau eru færð til nýju bankanna.  Nýju bankarnir geti því innheimt t.d. 80 kr af hverjum 100 kr höfuðstóls, án þess að tap þeirra verði endilega í sama hlutfalli, og jafnvel verði það ekkert ef hagkerfið tekur við sér af þessum völdum.

En vandinn er sá, að stór hluti íbúðalána er beint frá Íbúðalánasjóði og þar eru engir erlendir kröfuhafar sem taka tap af afskriftum, heldur skattborgarar.  Annar hluti er frá lífeyrissjóðum, þar sem svipað gildir: þeir sem tækju tapið væru lífeyrisþegar.  Og loks hef ég heimildir fyrir því úr fleiri en einni átt í bankageiranum, frá fólki sem þekkir vel til, að Seðlabanki Íslands á íbúðalánasafn Kaupþings - ekki gamli Kaupþing banki.  Afskrift þar lendir því einnig, óbeint, á skattborgurum.  Það eru þá aðeins íbúðalán Glitnis og Landsbanka sem eru í eigu kröfuhafa og afskrifast með þeim hætti sem Framsókn hefur talað um.  Þá er nú lítið eftir af fiffinu.

Nokkur umræða hefur orðið vegna "dómsdagsspár" Sigmundar Davíðs um miklar afskriftir lánasafna sem standi til.  Hann hefur nefnt að af 14.400 milljarða útlánum sé allt afskrifað nema 2.000 milljarðar sem standi eftir í nýju bönkunum.  Þetta sé til marks um að atvinnulíf á Íslandi sé gjörónýtt.

Ég horfi öfugt á þetta miðað við Sigmund.  Það er gott fyrir íslenskt efnahagslíf, og nýju bankana, að lánasöfnin séu afskrifuð hressilega í millifærslunni og komi þannig inn í reikninga nýju bankanna.  Aðeins þá eiga bankarnir góða möguleika á að vinna úr þessum eignum með lágmarks áhættu á tapi, og hámarks svigrúmi til að semja um skuldir við fyrirtæki og heimili.  Miklar afskriftir eru því góðar, ekki vondar.  En vandinn verður að sannfæra kröfuhafa gömlu bankanna um að taka þær á sig.

Svo bendi ég á mjög góða grein Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins (ég styð Gylfa áfram í embætti!).  Þar er farið skýrt og skilmerkilega yfir stöðu mála og talinn kjarkur í landsmenn.  Ekki veitir af.  En ef við höldum rétt á málum, tökum upp aðildarviðræður við ESB og stefnum á evruna, þá eigum við alla möguleika á að koma vel undan kreppunni og reyndar betur en margar aðrar þjóðir.  Ég geri lokaorð Gylfa að mínum:

Það er hins vegar engin ástæða til svartsýni þegar til lengri tíma er litið. Lífskjör á Íslandi ættu eftir sem áður að verða með þeim allra bestu í heimi. Vel menntuð og ung þjóð, með sterka menningu, trausta lýðræðishefð, góða innviði og ríkulegar náttúruauðlindir. Ekkert af þessu hefur farið forgörðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sigmundur Davíð er bara að segja það sem eigin þorir að segja.

Okkur var ekki sagt satt á síðasta ári allt var í góðu lagi,en hvað ?

Sigmundur var fyrstur með skýrar efnahagstillögur markmið og leiðir

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 15:26

2 identicon

Blekkingartjald Samfylkingarinnar er að falla.  Kjósendur eru farnir að sjá hversu innihaldslaus stefna X-S er. 

Samfó hefur bara eina stefnu og það er að troða okkur í ESB, þetta feigðarós er byrjað að sökkva í hyldýpið.  ESB er eins og Títanik, það virkar stórt, voldugt og mikilfenglegt, en er á leiðinni til glötunnar..............

X-Samfylkingin + ESB + Evra = Varnalegt atvinnuleysi á Íslandi

Árni Fróði Björgvinsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 15:51

3 Smámynd: Kristján Torfi Einarsson

Stuðningur þinn við niðurfellinguna kom svo sem ekkert á óvart; af skrifum þínum má ráða að hér slær fyrst og fremst praktískur maður á lyklaborðið.

Ein hugmynd sem ekki hefur lítið sem ekkert verið rædd er hvort seðlabankinn geti ekki keypt húsnæðisbréfin af Íbúðalánasjóði og nýju bönkunum, rétt eins og seðlabankar geta keypt ríkisskuldabréf til þess að fjármagna halla á ríkissjóði (eins og seðlabankar Bretlands, Japans og Bandaríkjanna hafa gert að undanförnu)? Ingólfur hjá spara.is viðraði þessa hugmynd í Silfrinu um daginn og lýsti því ágætlega hvernig hægt er að bera sig að í þessu.

Varðandi bjartsýnisgrein Gylfa þá er ég ósammála þér.  Martin Wolf skrifaði líka frábæra grein um málið í FT síðastliðin þriðjudag og þá má líka benda á nýjan leiðara Economist í þessu sambandi.

Þegar jafnmikið er í húf og þá hlýtur varúðarreglan að eiga að vera í fyrirrúmi.        

Kristján Torfi Einarsson, 24.4.2009 kl. 16:02

4 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Tek undir með Sveinbirni og Árna

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 24.4.2009 kl. 16:04

5 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Það er áhyggjuefni að greiðsluaðlögunin sem minnihlutastjórnin býður skuldurum upp á er hvorki fugl né fiskur. Aðferðafræðin er ómanneskjuleg þ.e. að fólk þarf að viðurkenna ósigur í fjármálum. Boðið er upp á vægari fall þegar allt er komið í þrot og erfiðri þrautargöngu um kerfið vegna gjaldþrotameðferðar.

Stjórnmálamenn geta ekki kennt almenningi um hvernig fór í hruninu þegar skuldir hækkuðu í einu vetfangi um stjarnfræðilegar upphæðir. Ekkert er gert til að koma til móts við almenning í þessari mestu eignaupptöku í sögu þjóðarinnar frá skuldurum til fjármagnseigenda. Engin afskrift er boðin nema þegar búið er að leggja fjölskyldurnar í rúst ef ekki efnahagslega þá andlega. Það er þess vegna sem leið Framsóknar er manneskjulegri en leið Samfylkingarinnar. Hún viðurkennir ábyrgð stjórnvalda með niðurfellingu 20% skulda. Ég get hins vegar tekið undir það að kjósendur eru orðnir þreyttir á töfrabrögðum Framsóknar fyrir kosningar í formi hækkunar húsnæðislána, eiturlyfjalaus Íslands o.s.frv.

Þau Gylfi sé bjartsýnn, eins og þú bendir á Vilhjálmur, þá lækkar það ekki skuldir almennings sem stjórnvöld bera ábyrgð á (þ.e. hækkuninni vegna gengishruns og óðaverðbólgu).

Jón Baldur Lorange, 24.4.2009 kl. 16:22

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sigmundur er alls góðs maklegur og hann fékk prik frá mér fyrir að koma fram með skýrar tillögur sem hægt var að rökræða og taka afstöðu til.

Annars líst mér alls ekki illa á tillögur sem Agnar Tómas Möller og Gísli Hauksson settu fram í Morgunblaðinu fyrir nokkru síðan, og Sjálfstæðismenn hafa gert að sínum.  Þær ganga út á að lækka afborganir húsnæðislána næstu 3 árin eða svo en smyrja þeim í staðinn ofan á seinni tíma afborganir og að einhverju leyti aftan á lánin, þ.e. lengja lítillega í þeim.  Með þessu væri unnt að taka mesta sársaukann úr aðlöguninni á næstu árum, án þess að afskrifa þurfi höfuðstól lána.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.4.2009 kl. 16:50

7 Smámynd: Halldór Grétar Einarsson

Sjónarmiðin varðandi leiðréttingarleið Tryggva Þórs og Framsóknar finnst mér vera þrennskonar:

* Sanngjarnt að leiðrétta lánin um 20%: Flestir sammála um það.

* Höfum við efni á því: Skiptar skoðanir

* Meiri velta í þjófélaginu: Væntanlega

Mér finnst lágmark að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna viðurkenni fyrsta sjónarmiðið. Með annað sjónarmið gæti t.d. Samfylkingin sagt að þegar við geiturnar erum komin yfir velferðabrúna í græna grasið hinu megin og Ísland aftur orðið rík land þá muni þessi 20% leiðrétting verða gerð.

Halldór Grétar Einarsson, 24.4.2009 kl. 16:59

8 identicon

Sæll Vilhjálmur. Eins snjall maður og þú ert þá gerir þú þig sekan í grein þinni um að fara með hálfkveðna vísu. Þú segir að það sé gott fyrir íslenskt hagkerfi að erlendu bankarnir þurfi að afskrifa sem mest og þessu geta menn verið sammála að einhverju leiti m.v. hvernig komið er en þú sleppir því að nefna að það felst dauði í því fyrir efnahagskerfið þegar Jóhanna Sigurðardóttir leiðtogi lífs þíns lætur síðan innheimta 100% af sömu kröfum. Það að ríkið ætli að spara sér að leggja fram eigið fé inn í nýju bankana með því að innheimta 100% af lánunum á eftir að sjúga allt líf úr íslensku efnahagslífi.

Þú nefnir Gylfa Magnússon og telur hann hafa staðið sig vel en mér finnst Gylfi vera algjör gufa hann er eins og álfur út úr hól þegar hann kemur fram. Er þetta sami Gylfi og talaði digurbarkalega þegar hann stóð á kassa niður í bæ og talaði um hrunið ? þegar Gylfi talar um að ríkið þurfi að setja minna fé inn í bankana en reiknað hafi verið með þá er eina ástæðan sú að bankarnir eru þá minni þ.e. efnahagur þeirra er minni en áætlað var af því minna hefur verið nothæft af þeim kröfum sem sem komu úr gömlu bönkunum.

Heiða (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 17:02

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.S. Tillögur ATM og GH valda því að vöntun verður í greiðsluflæði til ÍLS og banka um 3ja ára skeið.  Á móti yrði t.d. Seðlabanki að lána ÍLS og bönkum peninga gegn veðum í húsnæðislánasafninu.  Það væri í raun peningaprentun til 3ja ára sem er að mínu mati góð aðgerð til mótvægis verðhjöðnun og kyrrstöðu í atvinnulífi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.4.2009 kl. 17:07

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Heiða, "ríkið" í þessu samhengi hjá þér eru skattborgarar.  Það þarf að fara mjög varlega í að velta byrðum frá skuldurum yfir á alla skattborgara, sérstaklega í árferði eins og nú er, þ.e. að drepa ekki líka nýjabrum með því að úða skuldaeitri yfir alla jafnt.  Það þarf að mæta vandanum þar sem hann er.  Og því miður vaxa peningar ekki á trjánum, það er alltaf einhver sem borgar.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.4.2009 kl. 17:12

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæl Bryndís!  Jú, ég hef einmitt kynnt mér tillögur framsóknar mjög vel, sbr. fyrri bloggfærslur mínar og athugasemdir við þær.  Og hnífurinn stendur þannig í kúnni að lánin úr nýju bönkunum eru aðeins frá Glitni og Landsbanka; öll önnur húsnæðislán (þ.e. mikill meirihluti þeirra) eru beint eða óbeint í eigu skattborgara og lífeyrisþega.  Þannig að þetta er ekki eins sniðugt fiff og það leit út fyrir að vera, því miður.  En við finnum aðrar lausnir á vandanum - og svo skulum við ekki gleyma því að við upptöku evru færast lán yfir í evrur og við getum sagt bless við verðtrygginguna.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.4.2009 kl. 18:13

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er svipað og ég sagði í minni færslu um þetta.  Þ.e. að ekki væri öruggt að þetta væri neikvætt frekar en jákvætt.  Það er aftur áhyggjuefni að þessar upplýsingar séu ekki komnar fram.

Mér sýnist það ekki endilega skipta máli fyrir niðurskriftir hvort það verða 6.000 milljarðar eða 4.000 milljarðar sem fluttir verða með 50% afslætti til nýju bankanna.  Einni munurinn er að 2.000 milljörðum meira verður eftir í gömlu bönkunum.  Það hefur hingað til ekki verið neitt gefið upp, hvað ætti að gera við það sem verður eftir þar og það hefur ekki breyst.  Við erum því í raun engu nær.  Að talan sem fer yfir hefur lækkað i 4.000 milljarða eykur í reynd líkur þeirra sem eiga lán í nýju bönkunum til að fá niðurfærslu, þar sem líklega hafa þessir 2.000 milljarðar verið skyldir eftir vegna þess að það voru verstu lánin.

Annar mæli ég með greininni hans Jóns G. Jónssonar í Morgunblaðinu í dag, en hana má lesa að mestu í færslu hjá mér: Grein Jóns G. Jónssonar í Morgunblaðinu í dag - Skyldulesning fyrir þá sem vilja fá skýra mynd af stöðu bankanna

Marinó G. Njálsson, 24.4.2009 kl. 18:23

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, við fall SPRON þá bættist í þennan "heppilega" hóp lánveitenda.  Með því fara öll lán Frjálsa fjárfestingabankans inn í þessa hít.

Þurfi að afskrifa lán hjá lífeyrissjóðunum, þá voru sjóðfélagalán aðeins um 10% af lánasafni þeirra.  20% afskrift er því 2% af eignasafninu.  Það er nákvæmlega ekkert sem skiptir máli og er vel innan þeirra skekkjumarka sem sjóðirnir eru að kljást vegna annarra eigna.  Við erum að tala um 32 milljarða af 1650 milljörðum.  Loks megum við ekki líta framhjá því að ákveðinn hluti þessara lána er sokkinn kostnaður og verða aldrei endurheimt.  Hvaða máli skiptir hver fær eftirgjöfina, núverandi lántaki eða sá sem kaupir eignina á uppboði?

Marinó G. Njálsson, 24.4.2009 kl. 18:29

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er ekki einu sinni viss um að þessi frásögn SDG af ferlinu, þ.e. að einhverjum 2.000 milljörðum hafi verið "skilað aftur" í gömlu bankana, sé rétt.  Ef farið er í gegn um ákvarðanir FME, sem eru aðgengilegar á vefsíðu þess, þá er gefin þar ákveðin forskrift um skiptingu milli gömlu og nýju bankanna.  Þessari forskrift hefur verið fylgt og ég veit ekki til þess að henni hafi verið breytt, nema þá rétt í upphafi (nánar tiltekið 19. október 2008) þegar ákveðið var m.a. að taka ekki skuldbindingar tengdar afleiðusamningum (einkum gjaldeyrisskiptasamningum) yfir í nýju bankana.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.4.2009 kl. 18:52

15 identicon

Jamm, ætli ég verði ekki bara að borga allar viðbætur sem bættust við skuldir mínar með bros á vör, einhverjir verða að redda ríkinu    þeir eiga víst ekki aura fyrir menn af mínu sauðahúsi.

Jóhanna og Steingrímur "gulltryggðu svo sparnaðinn", svona ca. 600 milljarða,  reyndar hafði mér verið sagt að ég gæti verið rólegur ef ég ætti ekki mikið yfir 3 milljónum og þar slapp ég fyrir horn.    Heppinn þar!   Síðar var ég róaður ennþá meira í bankanum míum og sagt að ég mætti eiga "óendanlega mikið".    Óheppinn þar!  hefði átt að vera búinn að selja hlutabréfasúpuna mína "fyrir fall".

Steingrímur tilkynnir síðan að "hann" ætli að hækka fjármagnsskattinn í 14% og krækja í eina 3 milljarða með því.  Í framhaldi af því sagði Ögmundur að það væri OK vegna þess að 80% af sparifjáreigendum þyrftu ekki að borga "skattinn".  Eitthvað tengist það víst "tekjumörkum" og fleiru þessháttar.

Ég fór auðvitað að öfundast útí þessi 20% sem þurfa að borga skattinn því þeir hljóta að eiga dálítið mikið af þessum 600 milljörðum.  Ég er meira að segja svo öfundsjúkur að ég vil helst vita hvað marga milljarða þeir eiga af allri súpunni og hvað þeir eru margir þessir "auðkýfingar" og hve mikið á haus þeir eiga.  Ég vil fá að vita stétt þeirra og stöðu í þjóðfélaginu og ef þeir hafa flutt af landi brott eins og sumir útrásarvíkingar, þá vil ég fá að vita hvar þeir búa.  Gætu þessir 20% "sparifjáreigenda" verið kvótakóngar, fyrrum og núverandi ráða-og valdamenn í þjóðfélaginu, útrásarvíkingar og kannski örfáir "venjulegir".  Varla eiga stórskuldugar fjölskyldur á Íslandi mikið af þessum 600 milljörðum   sem Hanna og Grímur "gulltryggja".

Ég er svo mikill "Cowell" að ég verð að komast að því hver á að lokum að borga alla þessa peninga.  Ætli það endi með því að ég þurfi að "borga sjálfum mér", í gegnum skatta mína, þessa lús sem ég átti á bókinni minni í séreignasparnaði og líka það sem sjálfvirka "verðbótavaxtaprentvélin" lagði á skuldirnar mínar.  Staðan er að verða dálítið snúin í mínum "Cowell" haus 

Ef einhverjir "útrásarvíkingar og kvótakóngar" eru partur af þessum 20% sem þurfa að greiða skattinn, þá verð ég mun rólegri, því ég var farinn að óttast það að þeir væru að tapa öllu sínu.   

Ég dreg orð Gylfa Magnússonar í efa varðandi "hrun" Sigmundar.  Ég las á "milli lína" í viðtalinu við hann að hann er ekki nægilega klókur "pólitíkus" til að kunna að segja ósatt.  En kannski orðinn of "mengaður af umhverfi sínu"   síðustu vikur.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 19:27

16 identicon

Hvað er gott fyrir þjóðfélagið og hvað er sanngjarnt fyrir þegnana, er spurning sem þú Villi minn, vilt greinilega ekki svara í einum og sama pistlinum. 

Það er gott og gilt að allir borgi sínar skuldir og að fólk tapi ekki sínu sparifé.  Það er í raun hinn siðmentaði hlutur sem í flestöllum siðmenntuðum löndum er stundaður.  Vaxtagreiðslur fara jú í það að bæta fyrir töpuð útlán, sem og að fjármagnseigendur fái eitthvað fyrir sinn snúð.   Þess vegna er gott að bætt gæði lánasafna, sem og gera skuldurum bærilegt að borga til baka með krókaleiðum, þannig að fjármagnseigandinn fái nú örugglega eins mikið fyrir sinn snúð og hægt er.  Skuldarinn er í raun sá aðili sem tapar nema að hann snúi á fjármagnseigandann og geri sig gjaldþrota, meti hann það svo að það borgi sig ekki að greiða til baka hina gjaldföllnu skuld. 

En þetta ástand sem ég lýsi að ofan gerðist ekki hérna á Íslandi.

Hérna á Íslandi varð griðarlegur forsendubrestur í öllu skilvirku fjármálakerfi sem var á vitorði fárra aðila sem spiluðu kerfið í absúrd stöðu og tæmdu svo bankana innanfrá.  Ég taldi það upp með Hilmari félaga mínum að á sama tíma var í raun fimmföld kreppa sem hefur ekkert með 99,9% íslendinga að gera. 

Í dag sitja svo þegnar landsins í skuldasúpunni í stóra pottinum og hafa ekki hugmynd um það hvernig þeir eiga að komast út úr þessu.  Tortólar landsins hafa komist undan með fé og munu aldrei koma með það til baka.   Okkur er gert að borga fyrir þetta, nema ef maður var nógu klókur til að ehfa sig.   

Sanngirni fyrir mig og þjóðfélagið er því ekki sama málið greinilega.  Ég Stímaið mig ekki, ég ginnti ekki Gift til að kaupa hlutabréf í Árna ehf með skilyrðum, ég lánaði ekki Róberti stjórnarmanni í Árna 450 milljarða, en viti menn þetta er allt tapað.  Árni þjóðfélagsþegn, skal þó greiða allar milljónirnar sem hann tók í húsnæðislán.

Árni (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 22:30

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég skil þig vel Árni, og veit að þetta er afskaplega ósanngjarnt allt saman, svo vægt sé til orða tekið.  En það er þá að minnsta kosti grundvallaratriði að kjósa ekki aftur yfir sig sömu hugmyndafræðina.  Og helst að færa okkur út úr þessum séríslensku skrýtilegheitum og yfir í alvöru gjaldmiðil, venjulega vexti, lága verðbólgu, og enga þörf fyrir verðtryggingu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.4.2009 kl. 23:59

18 Smámynd: Halldór Grétar Einarsson

"Kjósa yfir sig gömlu hugmyndafræðina"

Einföld spurning um hugmyndafræði til þín:

Samfylkingin talar um skuldaniðurfellingu, en Tryggvi Þór og Framsók um skuldaleiðréttingu. Hvora hugmyndafræðina aðhyllist þú burtséð frá hinni hlið málsins hvort kröfugafar hafi efni á henni ?

Halldór Grétar Einarsson, 25.4.2009 kl. 10:21

19 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Samfylkingin hefur talað um blöndu af greiðsluaðlögun annars vegar, til að laga greiðslubyrði að greiðslugetu, og úrræðum fyrir skuldara sem geta alls ekki borgað hins vegar, þ.e. að milda gjaldþrota- eða nauðasamningaferli.  Svo hefur Jóhanna ekki útilokað að gripið yrði til fleiri ráðstafana ef þörf krefur.

Eins og ég segi hér fyrir ofan finnst mér vel athugandi að fara í aðgerðir sem hvetja hagkerfið með tímabundinni frestun hluta afborgana, án endanlegrar afskriftar höfuðstóls (sem myndi bitna á skattborgurum).  Ef slík frestun væri t.d. í 3 ár væri farið að hilla undir evruna og evruvexti, sem myndu losa okkur út úr krónuvöxtum og verðtryggingu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.4.2009 kl. 11:21

20 Smámynd: Halldór Grétar Einarsson

Þetta var ekki einfalt svar, en af þessu: "..án endanlegrar afskriftar höfuðstóls (sem myndi bitna á skattborgurum). " dreg ég þá ályktun að þér finnist ekki sanngjarnt að leiðrétta lánin.

Þú veist væntanlega að lán einstaklinga, fyrirtækja og braskaranna hafa hækkað um c.a. 20% hjá öllum í þessum fjármála-hamförum þannig að leiðréttingin væri bara að taka hamfarirnar út fyrir sviga.

Ég geri mér grein fyrir að margt annað þyrfti að taka út fyrir sviga, eins og auknar skuldir þjóðarbúsins, atvinnuleysis-óáran o.s.frv. Sumt af því er þegar búið að gera eins og ríflegar innistæðutryggingar, innborganir í hlutabréfasjóði, aðstoð við VBS, afskriftir lána hjá einhverjum fyrirtækjum o.s.frv.

Þegar búið væri að taka hamfarirnar út fyrir sviga þá þyrfti að skipta  kostnaðinum við þær réttlátlega. Mér finndist t.d. réttlátt að við byrjuðum á því að semja við erlenda kröfuhafa og spákaupmenn þannig að þeir töpuðu eðlilega miklu af sinni fjárfestingu (þetta er eðlilega verið að gera), næstir í röðinni væru þeir Íslendingar sem eru búnir að maka krókinn í gróðærinu. 95% skattur á ofurtekjurtekjur umfram 24 milljónir á ári (hátekjumark) og 95% ofureignaskattur (eignaupptaka) á eignir umfram 150 milljónir per einstakling. Restina ætti svo að ná inn með greiðslum úr ríkissjóði (þ.e.a.s. almenningur og venjuleg fyrirtæki næstu árin).

Halldór Grétar Einarsson, 25.4.2009 kl. 14:56

21 identicon

Já, Dofri félagi þinn í Samfylkingunni, tók þannig til orða í gær á hádegisfundi í Nýherja í Borgartúni, að þeir sem geta borgað, munu verða látnir borga, þar til blóðið lekur.  Skítt með það hvort það sé til réttlæti eða ekki.   Hann tók ekki svona sterkt til orða, en var þráspurður að því ásamt fleirum Samfylkingarfélögum sem voru staddir þarna.  Það lá kristaltært í loftinu hvað maðurinn meinti.  Heimildarmaður minn sem er mér mjög nákominn ákvað að þetta væri nóg og fór.

Hann var þarna að koma fram sem fulltrúi Samfylkingarinnar, sem þú aðhyllist.  Flokkinn sem ég hef sjálfur kostið margar undanfarnar kosnigar en ekki lengur. Sérstaklega í ljósi þess hvað stendur í landsfundarályktun ykkar.

"Samfylkingin leggur áherslu á að jafnaðarstefnan verði það leiðarljós sem lýsi efnahagsstjórn okkar á næstu árum. Gætt verði fyllsta réttlætis við uppbyggingu efnahagskerfisins. Hagsmunum Íslendinga eftir kosningar 2009 verður best borgið með félagshyggjustjórn sem sækir um aðild að ESB og leggur samning í dóm þjóðarinnar."

Þess vegna eins og ég sagði að ofan, ef þetta verður raunin þá verður önnur bylting, hún verður fólgin í fjöldagjaldþrotum, nauðasamningum og landflótta. Það er jú það sem er í boði eftir kosningar.

Árni (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 20:29

22 identicon

Sæll Vilhjálmur

Þetta með Íbúðalánasjóð hefur nú alltaf legið fyrir og ég minntist á þetta í athugasemd fyrir mörgum bloggum síðan hjá þér.  En ég skal gefa þér nýja vídd til að hugsa þetta út frá.

Ímyndum okkur að þú sért stór fjárfestir með mikið lausafé og ég sé "íbúðalánadrottinn Íslands" sem á bara eina eign, þannig væri að ég ætti ÖLL íbúðalán landsmanna.

Nú kem ég til þín því ég er að komast í lausafjárskort........og ég spyr þig hvað þú viljir kaupa allt íbúðalánasafnið mitt á.  Segi þér að þetta sé lánasafn með tugum þúsunda greiðenda og fasteignamarkaður Íslands nánast allur að veði.

Myndirðu borga mér 100% hlutfall af kröfunum? .......nei væntanlega ekki, vitandi að stór hluti greiðenda stendur illa, fasteignamarkaðurinn hruninn og efnahagskreppa í landinu.    SVO..........þú væntanlega biðir mér að kaupa kröfustabbann á max 60 - 70% af kröfufjárhæð.

ERGO...........lánastabbinn.........hvort sem hann er í eigu Íbúðalánasjóð, gömlu bankanna, Seðlabankans eða lífeyrissjóðanna er bara ekki meira virði. 

Íbúðalánasjóður með sitt fjögur komma eitthvað % eigninfjárhlutfall er gjaldþrota anyway.  Því fyrr sem við hreinsum til í þessum kröfum og færum þær á sannvirði.....bæði hjá lánadrottnum og greiðendum........því fyrr komumst við öll uppúr þessu efnahagsrugli.

Allaveganna mín skoðun :-)

K (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 15:21

23 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Elsku vinir, ef forsendan er sú að skattborgarar eigi nóg af peningum, þá myndi ég byrja á því að þrefalda örorkubætur og ellilífeyri og "leiðrétta" svo lánin um til dæmis 50%, og kaupa svo karamellur fyrir afganginn.  Ef málið væri nú bara svo einfalt að snúast eingöngu um sanngirni...

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband