3.10.2010 | 16:36
Hvernig virka afskriftir hjá fyrirtækjum?
Afskriftir skulda hjá fyrirtækjum hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og verða örugglega, og því miður, áfram. Skoðum aðeins hvernig þær virka.
Í venjulegu fyrirtæki í eðlilegum rekstri gildir hin sígilda bókhaldsjafna, eignir = skuldir + eigið fé. Eða, sem er jafngilt, eigið fé = eignir - skuldir. Í hlutafélagi eiga hluthafarnir eigið féð, þannig að ef félaginu væri slitið, eignir þess seldar og skuldir gerðar upp, myndu hluthafarnir skipta með sér því sem eftir stæði. Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á að hluthafar í hlutafélagi eru ekki ábyrgir fyrir skuldum félagsins. Þeir bera aðeins áhættu af hlutafénu sem þeir lögðu inn í félagið. Þetta er lánardrottnum hlutafélaga fullkunnugt um þegar þeir taka áhættuna á því að lána félaginu peninga, og á að endurspeglast m.a. í vaxtakjörum.
Segjum nú að stjórnendur hafi farið ógætilega að ráði sínu, tapað peningum og rýrt eignir í svo miklum mæli að þær séu orðnar verulega minni en skuldir - félagið er bókhaldslega gjaldþrota. Þá kemur upp eftirfarandi staða:
Takið eftir að hluthafar tapa fyrst sinni eign í félaginu, þ.e. eigin fénu. Hlutaféð verður einskis virði, enda minna en ekkert eftir til skiptanna af eignum félagsins. Annað hvort er (a) félagið tekið til formlegra gjaldþrotaskipta, eignir seldar í hlutum úr búinu og andvirðinu úthlutað til lánardrottna (kröfuhafa); eða (b) að lánardrottnar taka félagið yfir, afskrifa hluta af skuldunum og annað hvort selja það (sbr. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins) eða reyna að halda áfram rekstri í einhverri mynd í þeirri von að fá meira upp í kröfurnar seinna (sbr. eignarhaldsfélög bankanna). Aðalatriðið er þarna að þegar skuldir verða umfram eignir, þá hafa lánardrottnar alla þræði í hendi sér - hluthafarnir missa völdin.
Munurinn á þessu og skuldum einstaklinga, t.d. vegna húsnæðis, er sá að hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldum félaga sem þeir eiga hluti í (nema þeir hafi sérstaklega látið félaginu í té veð í eignum sínum). Húsnæðislán eru hins vegar, auk veðs í húsnæðinu sjálfu, einnig með fullnustuheimild í öðrum eignum skuldarans. Þannig er kerfið ekki allsstaðar, t.d. er víða í Bandaríkjunum aðeins veð í húsnæðinu sem lánað er til. Slíkt fyrirkomulag hefur ýmsa kosti, en þann ókost helstan að lánshlutföll verða mun lægri en annars, þ.e. fólk verður þá að leggja fram meira eigið fé þegar það kaupir sér fasteign.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:00 | Facebook
Athugasemdir
Nú er ég foráttuvitlaus í bókhaldi og því ekki til stórræðanna að ræða svona mál. En mér finnst kominn tími á að hluthafar beri meiri ábyrgð á rekstri hlutafélaga en nú er. Þeir eiga ekki bara vera stikkfríir og að taka út "gróðann" eða horfa fram á tap hlutafjár síns eftir því hvernig hlutafélagið er rekið af klækinda forstjórum með bókhaldsbrellur. Til þess að þetta virki verða minni hluthafar að hafa meira vægi í stjórn hlutafélaga gagnvart stjórn og stærri hluthöfum. Þannig væri ágætt að sjá t.d. ef skuldir hlutafélags fara yfir 70% af eigin fé félagsins, komi það strax með einhverjum hætti sem rýrnun á hlut allra hluthafa þar til eitthvert norm er komið á rekstur viðkomandi félags. Svo þarf að skerpa lög og reglur um arðgreiðslur þannig að bókhaldsbrellur forstjóranna verði ekki til þess að fyrirtækin séu rænd því litla fé sem þau eiga og svo keyrð í þrot eða milljarða skuldir afskrifaðar eins og mörg dæmin sýna.
Nú veit ég ekki hvort það er nokkuð vit í þessu hjá mér en ég leyfi mér allavega að kasta þessu fram.
Daníel (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 20:32
Takk fyrir skilmerkilega skýringu á grunnreglum afskrifta hjá fyrirtækjum. Gætirðu í framhaldi af þessu útskýrt fyrir leikmönnum eins og mér hversvegna eigendur Nón á Hornafirði halda sínu fyrirtæki þrátt fyrir afskriftir. Hversvegna innleysir bankinn ekki kvótann til sín og selur hæstbjóðanda?
Með kveðju
Helgi Borg
Helgi Borg (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 21:46
Daníel: Takk fyrir innlitið. Hlutafélög sem rekstrarform voru búin til m.a. í kring um viðskiptafélög sem sigldu með varning til Evrópu frá fjarlægum löndum og nýlendum, og hafa verið til frá því um 1600. Þau eru afar nauðsynleg í nútíma hagkerfi því þau gera fjárfestum kleift að setja fé í áhættusaman rekstur með takmarkaðri ábyrgð, þ.e. án þess að eiga það á hættu að tapa öllum eigum sínum. Án hlutafélaga yrði miklu minni nýsköpun og tilraunastarfsemi í hagkerfinu, og mun erfiðara að færa fjármagn frá fjárfestum til frumkvöðla.
Hitt er annað mál að bankar, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar fóru alls ekki nógu gætilega í að lána hlutafélögum peninga. Meðal annars skorti á lánaskilmála sem bönnuðu eða takmörkuðu greiðslu arðs, sameiningu við önnur skuldsett félög o.fl. Það voru því alls kyns leiðir og raunar hvatar fyrir eigendur hlutafélaga að skuldsetja þau og tæma svo innan frá með arðgreiðslum og öðrum aðferðum, án þess að lánardrottnar fengju rönd við reist. Þetta var fyrst og fremst ógætni lánardrottnanna sjálfra að kenna, en í sumum tilvikum sátu sömu eigendurnir beggja vegna borðs, þ.e. stjórnuðu bæði banka og lántaka, sem þykir hvergi góð latína, en FME lét viðgangast án marktækra aðgerða, eins og lýst er ítarlega í skýrslu RNA.
Helgi: Ég þekki ekki þetta Nón-mál sérstaklega, en það hlýtur að vera að bankinn hafi tryggt sína hagsmuni með einhverjum hætti í því dæmi, annars væru stjórnendur þar allverulega úti að aka og að vinna gegn hagsmunum sinna eigenda (kröfuhafa). Einhver rök hljóta að vera til þess að heildarhagsmunir kröfuhafanna séu best tryggðir með því sem þarna var gert.
Svo minni ég enn og aftur á að afskriftir á vegum Arion banka og Íslandsbanka eru ekki á kostnað skattborgara heldur kröfuhafa Kaupþings og Glitnis (að langmestu leyti). Í tilviki Landsbanka er málið flóknara, en þar á ríkið 81% í nýja bankanum, auk þess sem sérstakt uppgjörsskuldabréf er í gildi milli nýja og gamla bankans.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 3.10.2010 kl. 22:33
Hvernig virka afskriftir II
Fiat peningar, eins og evra og króna eru ávísanir á raunverðmæti.
Dæmi um þetta er 1000m skuldabréf með veði í frystihúsi sem metið er á 2000m. á meðan þannig stendur eru 1000m skuldabréfið ágætis pappír eða alvöru peningur og nothæf ávísun á raun verðmæti.
Nú brennur frystihúsið til grunna og eftir stendur ekkert nema grunnurinn sem metin er á 500m eftir brunann. Þá verður bréfið tæknilega ekki nema 500m virði þó svo að nafnverðið sé 1000m og þannig ekki lengur góður pappír og á meðan það er virt á 1000m í bókum þess sem á það, er það ekki lengur ávísun á raunverðmæti. ergo fiat peningurinn er ekki að virka sem skildi.
Með því að afskrifa skuldabréfið niður fyrir 500m í bókum verður það aftur nothæf ávísun á raunverðmæti. hvort sem það er gert með gjaldþroti að samningi milli aðila.
Þannig eru afskriftir skulda það sem viðheldur virkni peninga i hagkerfinu þegar verðmæti tapast eða þegar fölsuð verðmæti uppgötvast eins og í tilfelli margra útrásarfyrirtækjanna. Afskriftir skulda sem ekki eru ávísanir á raunverðmæti eru því hagkerfinu og okkur öllum til góða. Um þetta held ég að sé ekki deilt.
Það sem deilt er um er hinsvegar af hverju skuldir þessara stóru eru oftar afskrifaðar án gjaldþrota með samnigi milli aðila, sem gerir eigendum (sem í mörgum tilfellum brenndu frystihúsin sjálfir) kleift að halda þeim halda áfram í samkeppni við heiðarlegt fólk.
Guðmundur Jónsson, 4.10.2010 kl. 00:40
Takk fyrir skýringuna! Það hefur alltaf pirrað mig að:
eignir = skuldir + eigið fé
mætti skilja þannig að eftir því sem þú skuldar meira þá átt þú meira og það finnst mér vera mótsögn. Þú átt ekki það sem þú skuldar.
Peningarnir sem fyrirtækið hefur til að leika sér með
= það sem hluthafarnir lögðu til
+ það sem hluthafarnir tóku að láni
skil ég betur.
Kári Harðarson, 4.10.2010 kl. 09:29
Fín útskýring á því hvernig afskriftir ættu að virka. Það er nú því miður samt þannig að það vantar ekki theoríurnar í íslenskt viðskiptalíf...en hvernig útskýrir maður svona lagað...
http://www.dv.is/frettir/2010/10/4/bjarni-tok-ser-400-milljonir-ard-fyrra/Er það ekki þetta sem er að fara illa ofan í bæði fólk sem skilur og fólk sem skilur ekki hvernig viðskipti ættu að ganga fyrir sig samkvæmt theoríunum?
Áhugaverð setning Vilhjálmur "Einhver rök hljóta að vera til þess að heildarhagsmunir kröfuhafanna séu best tryggðir með því sem þarna var gert."
Hér má spyrja, eru heildarhagsmunir kröfuhafa endilega þeir sem við höldum? Hverjir eru kröfuhafar/eigendur Arion og Glitnis?
Eru þeir samstæð heild með sameiginleg markmið?
Hverjir eru hagsmunir kröfuhafa Glitnis í að gefa Bjarna Ármannssyni eftir hundruðir milljóna sem hefðu samkvæmt fræðunum átt að "nýtast betur" annars staðar?
Í skjóli hlutafélaga í dreifðri eign með takmarkaða yfirsýn eigenda geta lykilstarfsmenn eða stórir hluthafar gert ýmislegt á kostnað annarra.
Í framhjáhlaupi. Saga úr bankakerfinu vorið 2008. Fyrirtæki í þokkalegum rekstri kemur að lokuðum dyrunum hjá banka sínum varðandi lánsfé. Innan skamms hringir aðili úr fyrirtækjasviði (sem á að vera bakvið Kínamúra) og spyr hvort ekki sé stemning fyrir því að selja...fyrir rétt verð kaupanda?
Er það nema von að bankarnir eigi erfitt með að vinna sér inn traust?
Daði (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 13:08
"Hverjir eru hagsmunir kröfuhafa Glitnis í að gefa Bjarna Ármannssyni eftir hundruðir milljóna sem hefðu samkvæmt fræðunum átt að "nýtast betur" annars staðar?"
Gáfu þeir honum eitthvað eftir? Var einhvern pening að sækja í þetta fyrirtæki þar sem lánið lá?
Sjóður (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 14:46
Kári: Þetta er alveg rétt framsetning hjá þér líka. En oftast er það þannig að þegar félag tekur lán, þá kaupir það eignir fyrir peningana (eða leggur þá inn á reikning og á þá þar), þannig að 1000 kr skuld fylgir 1000 kr eign einhvers staðar. Kredit-færslu á skuldareikning verður að fylgja samsvarandi debet-færsla á eignareikning. En auðvitað geta menn svo eytt peningunum í rekstur og jafnvel tapað þeim, eins og dæmin sanna...
Daði: Af lestri DV-fréttarinnar að dæma virðist Glitnir ekki hafa átt veð í eignum Sjávarsýnar, móðurfélags Imagine Investments, heldur aðeins í dótturfélaginu og eignum þess. Imagine Investments er sjálfstætt hlutafélag og því ber móðurfélag þess ekki ábyrgð á því, nema um slíkt sé sérstaklega samið. Glitni hlýtur að hafa verið kunnugt um þetta þegar þeir gerðu lánasamninginn við Imagine Investments. Svo geta menn haft skoðanir á því hversu gáfuleg meðferð fjár bankans var f.h. hluthafa hans og almannahagsmuna, og jafnframt hvernig eftirliti og eftirfylgni FME var almennt háttað gagnvart lánveitingum banka til tengdra aðila.
Sjóður: Rétt, það liggur ekkert fyrir í málinu um að Glitnir hafi gefið eftir einhver réttindi sem bankinn átti. Sennilega átti hann bara ekki betri veð en þetta, þ.e. í dótturfélaginu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.10.2010 kl. 15:50
algjorlega fraebaer faerSla vilhjalmur. hlakka til að Sja thig a motmaelum a auSturvelli naeStu vikur.
hreSS (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 21:16
Takk fyrir hreSS en ég Styð ríkiSStjórn Jóhönnu Sigurðardóttur heilShugar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.10.2010 kl. 22:47
- afskriftir á vegum Arion banka og Íslandsbanka eru ekki á kostnað skattborgara heldur kröfuhafa Kaupþings og Glitnis-
en ef fyritæki fer í galdþrot og eignir seldar og það fæst ekki nóg upp í skuldir ?
unnur (IP-tala skráð) 5.10.2010 kl. 11:40
Unnur: Þá tapa kröfuhafarnir því sem upp á vantar. Ekki ríkið, ekki skattborgarar, ekki almenningur.
(En reyndar er það svo þannig í tilfelli (nýja) Landsbankans að ef afskriftir þar verða í heildina meiri en reiknað var með þegar lánasöfn voru flutt úr gamla bankanum í þann nýja, þá tapar ríkið sem stærsti hluthafi Landsbankans á því, vegna þess að eigin fé bankans rýrnar sem því nemur.)
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.10.2010 kl. 23:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.