Um Landsdóm og margvíslegan misskilning

Fyrirmæli um Landsdóm er að finna í 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, en hún er svohljóðandi:

14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.

Ákvörðun um að kæra ráðherra er sem sagt í höndum meirihluta Alþingis, samkvæmt skýrum fyrirmælum stjórnarskrár.  Síðasta markverða endurskoðun stjórnarskrárinnar fór fram 1995, samkvæmt tillögum nefndar undir forsæti Geirs H. Haarde.  Þá var ekki hróflað við þessari grein, en hún á sér hliðstæðu í dönsku stjórnarskránni (16. gr.) og var beitt þar í svokölluðu tamílamáli 1995.

Nánar er kveðið á um ráðherraábyrgð í lögum nr. 4/1963.  Þar eru tvær lykilgreinar eftirfarandi (leturbr. mínar):

2. gr. Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.

3. gr. Sá ráðherra, sem ritar undir lög eða stjórnarerindi með forseta, ber ábyrgð á þeirri athöfn. Annar ráðherra verður því aðeins sóttur til ábyrgðar vegna þeirrar embættisathafnar forseta, að hann hafi ráðið til hennar, átt þátt í framkvæmd hennar eða látið framkvæmdir samkvæmt henni viðgangast, ef hún lýtur að málefnum, sem undir hann heyra.

Þarna er skýrt að ráðherrar bera ábyrgð á þeim málum sem undir þá heyra.  Ábyrgðin sem hér er fjallað um er alltaf ábyrgð einstakra ráðherra sem slíkra, sem sagt í sínu embætti sem handhafar framkvæmdavaldsins.  Þarna er ekki verið að fjalla um almenna pólitíska ábyrgð sem t.d. forystumenn stjórnmálaflokka eða oddvitar þeirra í ríkisstjórn bera í því hlutverki.

Þá er athyglisvert að lögin um ráðherraábyrgð kveða á um 3ja ára fyrningu sakar:

14. gr. Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.

Að öllu þessu virtu er ljóst að það er margur misskilningurinn í umræðunni þessa dagana.

Í fyrsta lagi er skýrt skv. ákvæðum stjórnarskrár að meirihluti Alþingis tekur ákvörðun um kæru til Landsdóms.  Slíkt gerist aldrei öðru vísi en með atkvæðagreiðslu þingmanna, sem kalla má pólitísk réttarhöld o.s.frv. ef menn vilja, en bókstafur stjórnarskrárinnar er eins og hann er.  Hann má eflaust endurskoða, en það var a.m.k. ekki gert 1995 og ekki heldur þegar Jóhanna Sigurðardóttir lagði til á þingi árið 2001lög og reglur um Landsdóm yrðu endurskoðuð.

Í öðru lagi kemur aldrei til álita að ákæra embættismenn, t.d. fyrrverandi Seðlabankastjóra, undir þessum lögum.  Ef ætti að kæra þá, yrði það samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum refsiheimildum almennra laga, ekki samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og Landsdóm.

Í þriðja lagi kemur heldur ekki til álita að ákæra fyrrum ráðherra á borð við Halldór Ásgrímsson eða áðurnefndan Davíð, þar sem fyrningarfrestur er liðinn hvað þá varðar.

Í fjórða lagi er vandséð hvernig kæra á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fv. utanríkisráðherra hefði átt að standast skv. ákvæðum laga um ráðherraábyrgð.  Ekkert af þeim ákæruatriðum sem þingmannanefndin lagði til snúa að ábyrgðarsviði hennar sem utanríkisráðherra, heldur fyrst og fremst að stöðu hennar sem oddvita stjórnarflokks, en um slíka ábyrgð segja lögin ekkert, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Í fimmta lagi er talað um pólitískar línur í atkvæðagreiðslum um ákærur og spjótum sérstaklega beint að Samfylkingunni í því efni.  Þó liggur fyrir að í engum þingflokki voru atkvæði greidd með jafn einstaklingsbundnum og fjölbreytilegum hætti og þar.  Öll atkvæði telja jafnt, og þá ekki síður já-atkvæði sex þingmanna Framsóknarflokksins en atkvæði þeirra níu þingmanna Samfylkingar sem vildu eftir atvikum kæra einn, þrjá eða fjóra ráðherra, nú eða atkvæði þeirra ellefu þingmanna Samfylkingar sem engan vildu ákæra.

Meirihluti Alþingis komst að sinni niðurstöðu, eins og stjórnarskrá lýðveldisins og lög mæla fyrir.  Ég sé því ekki annað í stöðunni en að una henni og snúa sér að næstu viðfangsefnum; af nógu er að taka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef umræddir þingmenn Samfylkingarinnar hefðu kosið samkvæmt sannfæringu hefðu þeir líka kosið með að Björgvin G yrði ákærður. Þess vegna er þetta augljós flokkapólitík. Hvað hina flokkana varðar er líklegt að það hafi einnig verið flokkspólitískt. Sjálfstæðismenn kusu NEI því þeir vildu ekki fórna sínum mönnum. VG og Hreyfingin kusu JÁ því það kemur þeim vel að sjá falla á stærstu flokkana. Framsóknarmenn eru sennilega þeir einu sem kusu skv eigin sannfæringu.

Dagga (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 16:50

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Helgi Hjörvar og Skúli Helgason vildu aðeins ákæra Geir, en aðrir þingmenn Samfylkingar vildu annað hvort ákæra engan eða innifela eigin félaga - Björgvin, Ingibjörgu Sólrúnu eða þau bæði tvö.  Ég sé ekki mikla flokkapólitík út úr þessari afstöðu þingmannanna; miklu fremur er hún hjá Sjálfstæðisflokki, VG og Hreyfingunni, þar sem allir kjósa eins og í samræmi við "flokkshagsmunina".

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.9.2010 kl. 18:23

3 identicon

Dagga

Atkvæði Samfylkingar féllu þannig:

Geir: 9 já,  11 nei

Ingibjörg: 5 já, 15 nei

Árni: 7 já, 13 nei

Björgvin:  3 já, 16 nei, 1 auður

Af þessu má sjá að meirihluti þingflokks Samfylkingar sagði nei við öllum málshöfðunarliðum, en meirihutinn var þó mismikill. Hinn flokkurinn sem var skiptur var Framsókn. Þar vildi hins vegar meirihlutinn kæra alla, fimm af átta.

Hins vegar er allt málið hið versta og erfitt að sjá hvernig hægt er að halda friðinn í stjórnmálum og meðal þjóðarinnar á næstunni. Það tók yfir 30 ár fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að jafna sig á hinu svokallaða eiðrofi 1942. Á meðan gekk stjórnmálamönnum bölvanlega að vinna landið upp úr kreppunni. Síðustu höftunum var reyndar ekki aflétt fyrr en um síðustu aldamót með afnámi gjaldeyrishafta.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 18:27

4 identicon

Það sem ég átti við hvað Samfylkinguna varðar er að ég hef trú á því líkt og í dæmi Sjálfstæðisflokksins að þeir sem kusu NEI við öllum gerðu það flokkspólitískt af því þeirra eigið fólk var á lista. Þeir sem kusu Geir einungis hafa líka verið í flokkapólitík. Fóru bara ekki jafn leynt með það. Er sammála hvað varðar þá sem vildu ákæra eigin flokksfélaga. Þeir hafa líklega kosið samkvæmt sannfæringu. En ég get ekki lesið hug neinna frekar en aðrir, þannig að þetta er einungis mitt mat. Ég byggi það á því að mér finnst ótrúlegt að einhver sé raunverulega sannfærður um að ekki beri að ákæra alla umrædda. Er ekki alveg viss með ISG þó.

Dagga (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 23:07

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mjög gagnlegt að rifja þessi lög upp. Megingallinn er auðvitað sá að ráðherrar sitja á þingi og hafa atkvæðisrétt.

Það er erfitt að sjá hvernig hægt var að ætlast til þess að samráðherrar ákærðra (tilnefndra) ráðherra kysu með því að kalla þá fyrir Landsdóm.

Árni Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 08:59

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sammála þér Árni að þetta fyrirkomulag er hálfeinkennilegt, svo ekki sé meira sagt. En það er skýrt fyrirskrifað í stjórnarskrá landsins, svo það er ekki annað hægt en að fara eftir því. En þessu hefði betur verið breytt 1995; kannski verður samstaða um að breyta þessu núna á stjórnlagaþingi næsta vor.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.9.2010 kl. 11:27

7 identicon

Æ - þetta er nú aumi kattarþvotturinn hjá þér.

Að Árni hafi sloppið með einu atkvæði - en hann var fjármálaráðherra og hafði ekkert með bankamál, fjármálaeftirlit eða seðlabanka að gera - en Björgvin, sjálfur bankamálaráðherrann og yfirmaður FME, slapp með 6 atkvæðum, segir allt sem segja þarf um tvískinnunginn hjá Samfylkingunni.

Sá flokkur kaus að kjósta tvist og bast til að koma sínum í skjól - en skilja Geir kallinn og eftir atvikum Árna eftir á víðavangi.

Og rökin.  Jú - Björgvin vissi nefnilega ekki að bankarnir væru í vandræðum og því ekki hægt að ákæra hann..!!   Og ástæðan fyrir því að hann vissi ekki að bankarnir væru í vandræðum var að Ingibjörg lét hann ekki vita - en hana er auðvitað ekki hægt að ákæra því hún var bara utanríkisráðherra...!!

Þetta er ekki mylla.  Þetta er hrein og klár svikamylla.  Mylla, mylla, mylla...!

Er Samfylkingunni til ævarandi skammar og háðungar.

Comon (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 21:36

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Comon: Rökfærsla mín gengur út á að ekki sé hægt að tala um "Samfylkinguna" í þessu máli, enda var alveg augljóslega engin flokkslína í málinu, ólíkt öðrum flokkum (nema Framsókn).  Þú getur deilt á þá einstaklinga í þingflokki S sem vildu ekki ákæra Björgvin, en ekki flokkinn allan.  Sjálfum finnst mér rökréttust afstaða Sigríðar Ingibjargar og Ólínu, sem vildu ákæra alla nema ISG, vegna þess að þannig tel ég réttilegast farið að lögunum um ráðherraábyrgð.  (Og með því er ég ekki að segja að ISG sé stikkfrí; hún bar pólitíska ábyrgð og yfirgaf stjórnmálin að eigin frumkvæði, sem var rétt ákvörðun.)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.10.2010 kl. 17:49

9 identicon

Það er erfitt fyirir okkur, þessa dauðlegu, að gera skýran greinarmun á "Samfylkingunni" annars vegar og þingmönnum hennar, sem kusu að bjarga sínum eigin - en fórna Geir.   Sú niðurstaða þeirra var ólígísk, ósanngjörn - svo ekki sé talað um lítilmannleg.   Hreinlega ógeðsleg - út frá öllum parametrum.

Klámhögg - ef slíkt er til.

Vissulega voru margir þingmenn Samfylkingar sem sögðu nei - og munu þeir njóta sannmælis þegar tímar líða. 

Ekki skal gleyma 6 þingmönnum Framsóknar - sem vildu alla 4 fyrir Landsdóm.  Það var röng niðurstaða - en þó skárri afstaða en sú að handvelja eftir flokksskírteinum.

Höskuldur Hvítanesgoði sagði forðum að skamma stund væri hönd höggi fegin - þegar mágur hans leitaði ásjár hjá honum eftir að hafa vegið Höskuld Njálsson.  

Nú mun Steingrímur og fjallagrasaflokkurinnn eiga sviðið.  Samfylking og Sjálfstæðisflokkur tala tæpast saman að viti næstu misserin.   Mátti þjóðin við því?    

Helguvík hvað?       

Skamma stund er hönd höggi fegin.

Comon (IP-tala skráð) 5.10.2010 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband