Bann á erlenda fjárfestingu?

Fyrsta grein nýrrar reglugerðar Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti hefst svona:

Fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peninga-markaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum með erlendum gjaldeyri er óheimil.

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að erlend fjárfesting sé þar með bönnuð í landinu.

Nú vill svo til að ég er stjórnarformaður í félaginu Verne Holdings hf. sem hyggst reisa gagnaver í Keflavík og hefur keypt tvö stór vöruhús í þeim tilgangi af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, fyrir miklar fjárhæðir.  Í félaginu eru erlendir fjárfestar sem ætluðu að koma með verulegt magn dollara inn í landið sem hlutafé í Verne Holdings.  Ef Seðlabankanum er alvara sé ég ekki betur en að menn geti pakkað saman og gleymt því verkefni, og nýja sæstrengnum Danice í leiðinni.

Er þetta það sem íslenskt efnahagslíf þarf á að halda um þessar mundir?  Eða er þetta enn eitt dæmið um mistök Seðlabanka?  Hvernig útskýrir maður svona rugl fyrir útlendingum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Í hverri viku gerir seðlabankinn einhver stór mistök.  Nei, oft í viku.  Ég er fyrir löngu farinn að halda að þeir geri það viljandi, í einhverjum óljósum tilgangi.

Það getur ekki verið að þeir séu í alvöru svona vanhæfir, er það?

Af hverju það er ekki búið að skifta um mannskap þarna fyrir löngu veit ég ekki.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.11.2008 kl. 17:15

2 identicon

Ég veit reyndar ekkert hvað þetta þýðir.  En ég hélt að þetta þýddi að ég mætti ekki kaupa útlend bréf fyrir dollarana mína.  Ég yrði að leggja þá inn í íslenskan banka.

Valdimar (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 17:44

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Þarna er verið að tala um fjármálagerninga. Viltu þá meina að hlutabréf falli undir verðbréf í 1. gr.? Það getur ekki verið tilgangurinn að koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila í íslensku atvinnulífi.

Það væri þá annað hvort klaufalegur texti eða mjög þröng túlkun. Svipað þröng og ef ég færi að gangrýna þig fyrir að kalla reglur Seðlabankans reglugerð, sem er nokkuð sem bankinn getur ekki gefið út.

Ef þú lest allar 14 greinarnar, þá má álykta út frá 10. gr. að þessi skilningur sé rangur. Þar eru settar hömlur við útflutningi gjaldeyris en ekki innflutningi. Þessi "einstefna" kemur reyndar ekki fram í 6. grein, en ég efast stórlega um að þessi skilningur geti verið réttur.

Haraldur Hansson, 28.11.2008 kl. 17:47

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Haraldur, ég vona að þú hafir rétt fyrir þér, en orðið "verðbréf" innifelur í öllum venjulegum skilningi bæði skuldabréf og hlutabréf.  Hlutabréf Verne Holdings eru í dollurum skv. heimild yfirvalda og kaup á þeim er því "fjárfesting í verðbréfum...með erlendum gjaldeyri".

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 19:41

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Úr spurningum og svörum á vef Seðlabankans:

Sp.: Geta útlendingar fjárfest hér á landi?

Sv.: Fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréf- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum, sem felur í sér hreyfingu fjármagns til landsins er óheimil. Óheimilt er að eiga gjaldeyrisviðskipti eða aðrar fjármagnshreyfingar í erlendum gjaldeyri með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í innlendum fjármálafyrirtækjum eða Seðlabanka Íslands. Fjármagnshreyfingar vegna yfirfærslu eða flutnings á fjármunum frá landinu sem tengjast sölu á beinum fjárfestingum eru óheimilar.

Þetta er sem sagt alveg kýrskýrt, útlendingar geta ekki fjárfest á Íslandi skv. þessum reglum.  Það þarf þá að sækja um undanþágu, náðarsamlegast.  Er heil brú í þessu?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 19:48

6 identicon

Tja, haftastefna skal það heita og fyrirgreiðslupólitík. 

Ef þú kemur inn með fulla vasa fjár er klárt að allir vilja vera vinir þínir.  En félagar þínir í Verne munu svosem ekki þurfa miklar útskýringar við, ef það er rétt sem ég heyrði með Argentínuævintýrið.  Manni skilst (án þess að hafa kynnt sér sourcinn sjálfur) að það hafi tekið þá innan við klukkutíma að tæma landið af peningum eftir að IMF kom þar að máli.  Þeir hafa kannski lært og m.v. viðtalið við Arnór Sighvats í sjö fréttunum þá virðist þetta hafa verið gert með IMF í huga.

Þannig að núna þarftu að fara að tala við Mr. M. Mosdal í Seðlabankanum.  Fá eyðublað 3b, í þríriti og skila inn upp á það hvort þú getir skapað frekari störf og gjaldeyristekjur.  Mr. Mosdal ætti ekki að vera lengi að ákveða sig.

Vinir þínir í Verne holdings eru hvort sem er ekki að tjalda með sína fjárfestingu fyrir minna en 10 ár.  Þá verða 8 ár liðin síðan þessi bráðabirgðalagaklásúla er úr gildi.  Þetta var að vísu sagt í den um Söluskatt .....

Þannig til að svara spurningunni, þá geta útlendingar fjárfest hér á landi.  Þeir geta ekki fengið hinsvegar fjárfestinguna til baka fyrr en að einhverjum þóknast að leyfa þeim það í opinbera kerfinu.  Er það gáfulegt? Nei.

Árni (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 20:19

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

En þetta er eins víðáttuvitlaust og frekast má vera.  Vantar okkur Íslendinga ekki einmitt erlenda fjárfestingu í beinhörðum gjaldeyri inn í landið?  Af hverju að banna það með alveg sérstakri áherslu í þessum reglum?  Getur einhver upplýst mig um hvað í ósköpunum er verið að pæla með þessu?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 20:34

8 Smámynd: Haraldur Hansson

Ef þetta er jafn kýrskýrt og þú telur get ég ekki komið auga á skynsemina. Ég vil samt halda mig við þá trú (eða von) að erlent fjármang sem ætlað er til langtímafjárfestinga hér á landi, í föstum eignum og atvinnurekstri, sé ekki á bannlistanum.

Allt það sem talið er upp eru fjármálagjörningar sem leiða til endurgreiðslu á einhverjum tímapunkti; verðbréf, lán, afleiður og hlutdeildarskírteini. Á mig virkara þetta sem varnir gegn fjármagnshreyfingum í hagnaðarskyni, til að komast hjá háskalegum sveiflum.

Hlutabréf eru þarna hvergi nefnd sérstaklega og heldur ekki fjárfesting í fasteignum. Yrði erlendum fasteignasala meinað að koma hingað og kaupa tíu íbúðir? Það efast ég um. Hvers vegna þá fasteign sem ætluð er til atvinnurekstrar.

Þó hlutabréf séu verðbréf í "öllum venjulegum skilningi" eru þau það ekki í skattalegum skilningi. Sé reyndar ekki hvers vegna skattamál ætti að vera notað hér, en maður leitar að hálmstrái. Svo á að endurskoða reglurnar í mars.

Haraldur Hansson, 28.11.2008 kl. 22:58

9 Smámynd: katrín atladóttir

ég þurfti að anda í poka eftir að ég las þetta í fyrsta skiptið

þetta fólk tekur ekki góðar ákvarðanir á daginn og ég held það sé nokkuð ljóst að það gerir það ekki kl 5 um nætur..

annars hef ég komist að þeirra niðurstöðu að ríkisstjórnin ákvað að bjarga fjölskyldunum og heimilunum sem eru í ruglinu og í staðinn, grilla útlendingana (enda geta þeir ekki kosið hér)

týbísk skammtíma sjónarmið stjórnmálamanna 

katrín atladóttir, 29.11.2008 kl. 00:01

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir upplýsingarnar, Vilhjálmur. Þetta er deginum ljósara, enda eru hlutabréf verðbréf. Haftastefna út í hött, óframkvæmanleg og ósamræmanleg nútíma viðskiptalífi.

Ívar Pálsson, 29.11.2008 kl. 00:34

11 identicon

Mér fallast bara alveg hendur. Hefði haldið að það mætti hjálpa til við dudd eins og þú er að stand í frekar en þetta álverspuð

Finnur (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 01:43

12 identicon

Mér detta ekki í hug nein vel meinandi rök fyrir því að banna fjárfestingu útlendinga í íslenskum félögum. Þvert á móti ætti að hvetja til hennar.

Þannig að annað hvort er orðalagið óvandað, reglurnar vanhugsaðar, eða reglusetningin hreinlega ekki vel meint. Ekkert af því þrennu er til að auka álit manns á Seðlabankanum.

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 11:04

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Því meira sem ég velti þessu fyrir mér, því meira hallast ég að því að ekki hafi verið hugsað út í þann möguleika að íslensk verðbréf (t.d. hlutabréf) geta verið í erlendum gjaldeyri.  Það er til dæmis tilfellið í Verne Holdings (sem er með hlutafé í dollurum) og er á stefnuskránni í CCP skv. heimild aðalfundar.

Þessi fyrsta grein Seðlabankareglnanna hlýtur að þurfa endurskoðunar við.  Hún er líka óljósust þeirra allra, og eru þó álitaefnin á hverju strái.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.11.2008 kl. 13:32

14 identicon

Er hlutafé Landsvirkjunar ekki líka í dollurum? Það er í það minnsta uppgjörsmynt þeirra.

Þórður Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 15:44

15 identicon

Það er ljóst að Dabbi og Geir eru að vona að fyrirtæki taki sig ekki til og vinni gegn þessu. En þetta er algert RUGL.

En ég held að sem atvinnurekandi sem þarf að flytja inn hráefni til að geta smíðað tæki til útflutnings þá á ég ekki völ á neinu. Því held ég að ég eins og aðrir muni gera eftirfarandi.

Stofna fyrirtæki sem selur mína vöru erlendis. Ég sel þessu fyrirtæki mínar vörur á kostnaðar verði. Ég mun einnig kaupa íhluti og hráefni frá þeim. Þ.e. ég hef fyrirtæki sem bara sparar allan hagnað erlendis.

Nonni

Jón (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 16:09

16 identicon

Það þarf ekkert að ræða það neitt sérstaklega hversu ruglað þetta er.

Hinsvegar virðst fyrstu viðbrögð markaðsaðila jákvæð. Það veit á gott.  Við erum þá kannski mögulega að taka babysteps, hversu rugluð sem þau kunna að virðast, miðað við fyrri takt, til trúverðugleika.

Vonandi verður þetta ástand tímabundið !!!

Árni (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 17:32

17 identicon

SAmkvæmt ínum heimildum er skilningur Seðlabankans að bein fjárfesting sé heimil. Hins vegar geri ég ráð fyrir líkt og þú að Seðlabankamönnum hafi yfirsést að íslensk fyrirtæki séu skráð í erlendum myntum. Það virðist hafa verið planið að loka á ala fjármagnsflutninga og nota síðan undanþáguákvæðið (11 gr.) til að opna lítil göt fyrir sérstök mál. Versta er að Seðlabankinn þarf ekki að birta neinn rökstuðning fyrir ákvörðunum sínum þannig að þetta opnar fyrir alls konar mismunun og jafnvel spillingu, sérstaklega þar sem gegnsæi Seðlabankans er ekkert.

 Kveðja

Gjaldeyrisgaurinn

Gjaldeyrisgaurinn (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 18:50

18 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þetta undanþágudæmi er dálítið séríslenskur hugsunarháttur.  Ég á mjög erfitt með að útskýra þetta fyrir erlendum fjárfestum, og þeir eru skiljanlega lítt spenntir fyrir að koma inn með milljarða upp á einhverjar undanþágur sem hægt er að kippa til baka hvenær sem er og frysta peningana inn í landinu (eins og verið er að gera með erlenda kaupendur ríkisskuldabréfa).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2008 kl. 21:34

19 identicon

Góður í Silfrinu - aldrei of oft rifjað upp hvað Vilmundur sagði - bara ef við værum löngu farin að fara eftir einhverju af því sem hann lagði fram..

Bryndís Ísfold (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 02:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband