Klúðurlisti Seðlabankans

Listinn yfir risamistök Seðlabankans lengist stöðugt.  Hversu langur þarf hann að verða áður en stjórnendur þar verða látnir sæta ábyrgð?

Hér eru nokkur atriði sem ég man eftir í svipinn, en áskil mér rétt til að bæta við listann:

  • Að láta hjá líða að byggja upp gjaldeyrisforða meðan jöklabréfin hrönnuðust upp og fyrirsjáanlegt var að mikið magn gjaldeyris myndi hverfa aftur frá landinu
  • Að skirrast við að nýta heimildir laga nr. 60/2008 sem Alþingi afgreiddi á leifturhraða í lok maí sl. til að taka allt að 500 milljarða lán til styrkingar gjaldeyrisforðanum
  • Tímasetning og form Glitnisyfirtökunnar sem eyðilagði lánshæfismat ríkisins og varð til þess að erlendir bankar drógu til baka fyrri loforð um gjaldeyrislínu, á ögurstundu
  • Ekkert samband við norræna seðlabanka varðandi það að draga á lánalínur
  • Síendurtekin mistök í samskiptum við markaði og fjölmiðla, m.a. að vera með vefsíðu sem klikkar þegar mest liggur við
  • Að gefa út fast gengi krónu með óljósum hætti svo enginn vissi hvort átt væri við evru eða gengisvísitölu
  • Að gefa út fast gengi krónu án þess að geta staðið við það með nægilegu gjaldeyrismagni, og draga það svo til baka eftir að hafa valdið óþarfa ruglingi og óvissu
  • Verulegar stíflur og markaðsbrestir á skuldabréfamarkaði vegna ófullnægjandi framboðs á innistæðubréfum eða öðrum ríkistryggðum aðferðum til að binda fé
  • Ófullnægjandi rökstuðningur í beiðni til Seðlabanka Bandaríkjanna um skiptasamning
  • Tilkynning um lánssamning við Rússa sem reyndist röng og þurfti að afturkalla, einmitt þegar trúverðugleiki skiptir öllu máli
  • Að sjá ekki til þess að Tryggingasjóður innstæðueigenda yrði efldur í samræmi við gríðarlegan innlánavöxt
  • Að herða ekki bindiskyldu eða grípa til annarra tiltækra ráða, ef áhyggjur voru af hröðum vexti viðskiptabankanna
  • Að einblína allt of lengi á öfgakennda hreintrúarstefnu um hávexti í stað þess að hugsa um fjármálastöðugleika, annað aðalmarkmið Seðlabanka
  • Að láta hjá líða að gera viðbragðsáætlun um hvað gera skyldi ef banki lenti í lausafjárkreppu, þannig að allir vinklar hefðu verið metnir fyrirfram og bestu leiðir lægju fyrir
  • Að slá umræðu um ESB aðild og evruupptöku út af borðinu

Ég spyr aftur: hversu lengi á þessi listi að halda áfram að lengjast?  Er hægt að bjóða þjóðinni, og umheiminum, upp á þessa hörmung öllu lengur?  Halda þessir menn að þeir séu að reka sjoppu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Calvín

Þarna finnst mér þú heldur betur dómharður Vilhjálmur. Hver er orsökin og afleiðingin? Er orsökin ekki glannaskapur útrásarpésanna í að skuldsetja bankana? Ef glæpur er framinn á þá að kenna lögreglunni um glæpinn ef henni tekst ekki að koma í veg fyrir hann?

Calvín, 7.10.2008 kl. 23:49

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jöklabréfin eru ekki útrásarpésunum að kenna heldur hávaxtastefnu bankans.  Ef bankarnir voru að verða of stórir að mati Seðlabankans gat hann beitt bindiskyldu eða öðrum aðferðum til að takmarka þenslu þeirra.  Vandi okkar er meiri en annarra þjóða m.a. vegna þess að við erum með örmynt og bankarnir gátu ekki flutt lausafé úr henni yfir í erlendan gjaldeyri þegar á þurfti að halda, af því að Seðlabankinn byggði ekki upp gjaldeyrisforða.  Fjármálaeftirlitið heyrir undir Seðlabankann.  Allt ber að sama brunni, bankinn gerði röð mistaka og brást í eftirlitshlutverki sínu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2008 kl. 23:57

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.S. Þetta þvaður um "skuldsetningu bankanna" er hvimleitt og þeir sem þannig tala sýna að þeir skilja ekki um hvað málið snýst.  Það er eðli bankastarfsemi að bankarnir eiga eignir sem skuldir koma á móti, og svo eru tiltekin eiginfjárhlutföll sem þeir eiga að halda uppi skv. reglum (8% CAD).  Ef banki á 100 kall í eignum er eðlilegt út af fyrir sig að hann skuldi allt að 92 krónur á móti, það er ekki einhver ógurleg "skuldsetning".  Öllu þessu hefur Fjármálaeftirlitið (undirstofnun Seðlabankans) eftirlit með, og gerir m.a. svokölluð "álagspróf" til að ganga úr skugga um að efnahagsreikningurinn þoli áföll (sem reikningar bankanna stóðust með glans!).

Það var ekki skuldsetningin sjálf sem varð banabiti íslensku bankanna, og meira að segja heldur varla útlánagæðin (sem hefðu mátt vera meiri), heldur smæð Seðlabankans miðað við bankana, smæð gjaldmiðilsins, skortur á lánveitanda til þrautavara í erlendri mynt, og of hvikul fjármögnun (heildsölufjármögnun og skammtímainnistæður).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.10.2008 kl. 00:09

4 identicon

Ég minni á: 

http://www.petitiononline.com/mod_perl/signed.cgi?fab423&451

Styrmir Saevarsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 08:23

5 Smámynd: Púkinn

Heyr...heyr!

Það sama og ég hef verið að segja.

Púkinn, 8.10.2008 kl. 09:17

6 identicon

Sæll Vilhjálmur.

Mér finnst þú nú vera á hálum í og veikum grunni í fullyrðingum þínum, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Þegar svokallað 100 kr. eigið fé "bankanna" , sem 92 kr eru lánaðar út á, hafa t.d. orðið til við "uppskrúfun eigna" í bókhaldi fyrirtækja með t.d.  "ótrúlegu upphækkuðu mati á good-will" ofl. eignum, jafnvel svo að í bókum margra félaga er "good-willið" allt að 40% af eigin fé, þá verður nú fátt slíkum aðilum til varnar hvað þá að slíkar eignir séu í reynd raunverulega 100 kr. virði í bókum bankanna.

Þegar svo markaðurinn vill ekki kaupa slíkar eignir nema á brotabroti skráðs verðmætis þá eru nú fátt til varnar lánveitendunum.

Þeirra banka, sem hafa lánað út á svoleiðis "eignir" og hundraðkallinn margfaldaður með útlánuðum milljörðum, býður ekkert nema gjaldþrot ,enginn skynsamlegur gjaldeyrisforði þjóðar okkar getur nokkurn tímann bjargað því.

Á svona útlánarugli ber enginn ábyrgð, nema lánveitandinn sjálfur, þ.e. bankinn og eigendur þeirra fyrirtækja sem hafa þannig a.m.k. "ofskráð" ef ekki eitthvað enn verra, raunverulegt virði eigna sinna. Þeir eiga að bera tjónið en ekki almenningur landsins.

Kveðja

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 10:29

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur, ég er ekki að verja útlánagæðin, og sjálfsagt hefðu þau orðið banabiti bankanna fyrir rest.  En það sem felldi bankana akkúrat núna var lausafjárþurrð, einkum í erlendum gjaldmiðli.  Og tal um "skuldsetningu" er í besta falli ónákvæmt, það er ekki "skuldsetning" sem er vandinn heldur 1) fjármögnun bankanna, 2) aðgangur þeirra að evrum til þrautavara, og 3) útlánagæðin.

Þar að auki ert þú að rugla saman eignum bankanna annars vegar og eignum fyrirtækjanna sem lánað er, hins vegar.  Óefnislegar eignir bankanna telja ekki sem eign inn í CAD hlutfall þeirra.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.10.2008 kl. 12:32

8 identicon

Vilhjálmur.

Þetta er út úr snúningur hjá þér að það veistu örugglega vel.

1. Fjármögnun bankanna var ekki bara vandamál heldur beinlínis ómöguleg vegna fyrri skuldsetningar þeirra.

2. Ég rugla ekkert saman eignum bankanna og eignum fyrirtækjanna.

Lánardrottinninn, þ.e. bankinn, getur ekki komist hjá því að eignir hans t.d. í lána- og viðskiptapappírum eru a.m.k. eins miklu lægra virði á markaði og nemur of háum eignaskráningum hjá fyrirtækjunum, þaðan sem bak-/veðtryggingarnar eru gagnvart lánum frá bankanum.

M.ö.o. þó að óefnislegar eignir bankanna séu ekki inni í CAD hlutfalli þeirra, þá eru ofmetnir viðskiptapappírar, keyptir af fyrirtækjunum og t.d. baktryggðir í "of hátt skráðum" eignum fyrirtækjanna, miklu minna virði í eignasafni bankanna en einhverjir hugsanlega nýjir kaupendur slíkra pappíra af "lánabankanum" vilja borga fyrir þá, eða vilja meta þá sem tryggingar fyrir nýjum lánum til bankanna.

Svo einfalt er nú það.

Því er óvarkárnin og glannaskapurinn í slíkum útlánum á ábyrgð bankanna.

En þeim er kannski vorkunn í því að eigendur þeirra eru æði oft þeir hinir sömu og fengið hafa lánin fyrir sín ofmetnu fyrirtæki hjá þeim sömu bönkum, sbr. sjóð 9 ofl. hjá Glitni.

Kveðja

Guðm. R. Ingvason

Guðmundur R. Ingvason (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 14:17

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur, við erum held ég ekkert að ráði ósammála.  Vissulega fóru bankarnir mjög geyst, en Seðlabankinn hélt heldur ekki aftur af þeim eins og honum var í lófa lagið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.10.2008 kl. 15:56

10 Smámynd: Púkinn

Púkinn vill reyndar bæta við:

..að hafa beint og óbeint stutt við óeðlilega hátt gengi krónunnar og ekki barist gegn lántökum heimilis og fyrirtækja í erlendri mynt.

.. að hafa ekki haldið aftur af útlánagleði bankanna með hækkun á bindiskyldunni þegar þess var þörf.

Annars hef ég oft skrifað um þetta sama á mínu bloggi, að þetta er ekkert nýtt fyrir mig.

Púkinn, 8.10.2008 kl. 16:42

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vildi bæta við þennan lista:

  • Lækkun bindiskyldu árið 2003 um 50% á sama tíma og útlánageta var aukin um 100% vegna veðlána
  • Að auka útlánagetuna um rúm 40% árið 2007 á sama tímapunkti og við voru að glíma við verðbólgu
  • Að setja krónuna á flot árið 2001 á sama tíma og mikið ójafnvægi var í hagkerfinu
  • Að hækka raunstýrivexti upp úr öllu valdi án sýnilegrar ástæðu
  • Að vera með verðbóglumarkmið sem voru ósveigjanleg
  • Að miða allar aðgerðir í peningamálum við að verðbólgumarkmiði væri náð á 2 árum í staðinn fyrir að vera með millimarkmið og ná lokamarkmiði á lengri tíma
  • Að nota vísitölu neysluverðs með húsnæðisþætti, þegar allar þjóðir i kringum okkur nota vísitölu án húsnæðis
Þessi listi er endalaus og lengist liggur við á hverjum degi.

Marinó G. Njálsson, 8.10.2008 kl. 17:16

12 Smámynd: Calvín

Niðurstaðan er alla vega sú að traust almennings á stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, bankakerfi, bankamönnum og forstjórum fyrirtækja er ekkert í dag. Allir flokkar bera ábyrgð - líka stjórnarandstæðan fyrir lélega stjórnarandstæðu bæði í tíð þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu. Ef Vilhjálmur þetta er rétt hjá þér sem þú lýsir hér þá spyr ég þig sem áhrifamann í öðrum stjórnarflokknum:

a) Af hverju gerði Samfylkingin ekki kröfu um uppstokkun þegar hún kom inn í ríkisstjórnina? Er ekki rúmlega ár síðan þessi ríkisstjórn tók við? Er það ekki mikil ábyrgð að mynda ríkisstjórn og gera ekkert til að afstýra þessu hruni?

b) Átti Seðlabankinn fyrir hönd skattgreiðenda að taka dýr erlend lán (áhættulán) til að styðja við bakið á útrásarliðinu sem stóð sig svona afbragðsvel?

Calvín, 8.10.2008 kl. 20:41

13 identicon

Já Vilhjálmur, skrítnar og þunnur þrettándi finnast mér röksemdirnar um ábyrgðina.

Þú, púkinn og jafnvel Marinó líka, viljið helst að því er mér skilst, koma megninu af ábyrgðinni á Seðlabankann/einhverja ríkisstjórn og/eða hugsanlega einhverjar aðrar stofnanir. 

Þið viljið gera sem minnst úr ábyrgð stjórnenda og eigenda útrásarfyrirtækjanna og bankaeigandanna og bankastjórnandanna.

Þetta er aumt yfirklór yfir hvar "skíturinn" liggur og hver á að bera ábyrgð á að hreinsa hann upp. 

Þið eruð væntanlega allir með bílpróf. Þegar þið lendið í umferðaróhappi vegna "óheppni eða glannaskapar" þá þýðir lítið að kenna þeim sem veitti ykkur ökuleyfið. Þið berið sjálfir ábyrgð á ykkar ökulagi og eigið að kunna ökureglurnar og vita um áhætturnar í akstrinum. Glannaskapur er ekki í samræmi við kenndar ökureglur. 

Það er aumt að reyna að verja gerðir fyrrnefndra útrásarvíkinga og bankastjórnenda á grundvelli þess að það hefði einhver "stóra mamma" átt að líta eftir þeim og banna þeim að hoppa í of djúpum drullupolli.

En þegar óhófs græðgin tekur völdin og áhættufíklarnir bregða á leik, jafnvel með eigur annarra, þá kemur enginn vitinu fyrir þá, "enda eru þeir hámenntaðir snillingar hver á sínu sviði og jafnvel náttúrubörn í leiknum" eins og okkur almúganum hefur verið ítrekað sagt frá, a.m.k. af þeim sjálfum og þeirra fjölmiðla- pr-fræðingum, sem  hafa til þessa tröllriðið allri skoðanamyndun í þjóðfélaginu um þessa óskaplegu snillinga. 

Þó að einhver "stóra mamma" hefði reynt að hafa vit fyrir áhættufíklunum, hvort sem "stóra mamma" væri einhver ríksstjórn, Seðlabanki eða einhver önnur eftirlitsstofnun, þá hefðu allar aðvaranir, boð og bönn verið hundsuð af þessum snillingum, og krókaleiðir fundnar með aðstoð lögfræðingastóðsins, enda þegar búið að heilaþvo þjóðina með því, að þessum snillingum gæti ekki skjátlast, þeir væru nánast allir í hlutverki skeggjaða, góðlega jólasveins sem færir okkur árlega dýrlegar jólagjafirnar.

Og hananú.

Í guðana bænum, hættið þið þrír, greindir menn eins og þið ábyggilega eruð, þessum andskotans vörnum fyrir þessa "jólasveina áhættufíkla".

Það ber enginn ábyrgð á þeirra gjörðum, nema þeir sjálfir, allra síst hinn íslenski almúgi, enda þótt hann hafi í barnaskkap sínum verið alltof trúgjarn vegna þeirra fjölmiðlavænu Pótemkin tjalda sem földu raunveruleikann.

Kveðja

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 22:02

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Takk fyrir viðbæturnar, Púki og Marinó.

Calvín, ég er enginn "áhrifamaður í öðrum stjórnarflokknum" og svara ekki sérstaklega fyrir Samfylkinguna þótt jafnaðarmaður sé.  Ég er að reyna að koma með málefnalega gagnrýni án sérstaks tillits til flokkapólitíkur, sem mér finnst fremur geld og leiðinleg.  (Ég er til að mynda þeirrar skoðunar að ekki eigi að velja ráðherra pólitískt heldur eftir kunnáttu og reynslu á viðkomandi fagsviði.)

Guðmundur, bloggfærslan er málefnaleg gagnrýni á Seðlabankann.  Ég get alveg skrifað aðra færslu með málefnalegri gagnrýni á bankana sjálfa, og mun kannski gera.  En það breytir ekki því að Seðlabankanum hafa orðið á mörg alvarleg mistök, allt of mörg, á þeim sviðum sem hann ber ábyrgð.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.10.2008 kl. 23:59

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, ábyrgð stjórnenda bankanna er mikil, það er alveg öruggt.  Málið er að þeir voru undir eftirliti Seðlabankans og FME.  Þeir unnu innan leikreglna sem ríkisstjórn, Seðlabanki og FME settu.  Þessar leikreglur voru greinilega ekki nógu góðar og , já, þær voru brotnar í einhverjum tilfellum.  Það er alveg á hreinu að áhættustjórnun bankanna klikkaði.  Ekki vafamál í mínum huga.  Raunar tel ég að í grundvallaratriðum megi rekja bankakreppunnar hér á landi til nokkurra þátta, þar af minnsta kosti tveggja sem alfarið eru innfluttir og við höfðum ekkert með að gera:

  1. Regluverk fjármálakerfisins á Íslandi, þar með talið eftirlit og skilyrði fyrir þrautavaraláni
  2. Framkvæmd peningamálastefnu Seðlabanka Íslands
  3. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá íslenskum bönkum og erlendum
  4. Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á fjármálavefningum með undirmálslánum - sem síðar kom lausafjárkreppunni af stað
  5. Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements og of rúmar heimildir í reglunum
  6. Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni íslensku útrásarinnar
  7. Útrásarmenn tróðu of mörgum um tær á vegferð sinni og sköpuðu sér þannig óvinsældir og láðist að ávinna sér traust nema í þröngum hópi.
Svo mætti líklegast bæta við takmarkalausri minnimáttarkennd þjóðarinnar sem gerir það að verkum að við þurfum alltaf að vera að sanna okkur.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2008 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband