Endurræsing krónunnar

Krónumarkaðurinn er um þessar mundir eins og bílvél sem hefur drepið á sér og þarf að ræsa á ný í frosti.  Seðlabankinn er búinn að reyna að snúa svisslyklinum en gleymdi bensíngjöfinni og innsoginu.

Ræsingin er verulega vandasöm.  Til hennar þarf mikinn gjaldeyrisforða.  Hversu mikinn?  Jú, svo mikinn að menn sjái engan tilgang í því að hamstra gjaldeyri.  Forðinn verður að vera svo mikill og trúverðugur að markaðurinn sannfærist um að til frambúðar verði hægt að skipta á krónum og gjaldeyri á sanngjörnu verði; ekki bara einhverja daga, vikur eða mánuði, heldur næstu árin.   Þá hverfur tilhneiging til hamsturs og smám saman færist jafnvægi yfir á ný.

Þarna er heilmikil leikjafræði, stærðfræði og sálfræði að baki.  Ef forðinn er nógu stór, mun bankinn ekki þurfa að nota nema lítinn hluta hans.  Ef forðinn er ekki nógu stór, mun hann klárast og við  verðum verr sett en áður - púðrið búið í byssunni.

Tilraun Seðlabankans til að hefja gjaldeyrisviðskipti á föstu gengi í vikunni með því að selja 6 milljónir evra á dag var því miður hlægileg og grátleg í senn.  Maður verður að vona að þeir sem stýra málum í bankanum séu ekki að vanmeta og misskilja verkefnið gjörsamlega.

Aðalbankastjórinn er manna hrifnastur af krónunni.  Núna verður hann að sýna að unnt sé að endurræsa krónumarkaðinn, svo við getum þrjóskast áfram í þeirri samfélagstilraun að halda úti minnstu fljótandi mynt í heimi, af því að það er svo mikið sjálfstæði í því, eða eitthvað.  Til þess þarf gjaldeyrisforða talinn í mörg hundruð eða sennilega á annað þúsund milljarða.

Hinn möguleikinn er að opna lúgu í Seðlabankanum þar sem Marteinn Mosdal tekur við gjaldeyrisumsóknum í þríriti.

Ef við værum með evru, væri þetta vandamál ekki til staðar, og ýmis önnur ekki heldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég spái að endurræsing krónunnar verði þrautreynd í þríriti og Marteinn Mosdal verði með þrjá securitas verði við að taka við gjaldeyrisumsóknum.

Magnús Sigurðsson, 10.10.2008 kl. 12:54

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er nákvæmlega það sem ég benti á um daginn.  Það þarf gott betur en 10-12 milljónir evra til að þetta gangi.

Marinó G. Njálsson, 10.10.2008 kl. 20:51

3 identicon

Marteinn myndi taka við umsóknum fyrir hádegi á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, en afgreiða svo gjaldeyri eftir hádegi á þriðjudögum og fimmtudögum.  Umsóknarfrestur er 1-3 vikur eftir álagi.

Árni (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 23:46

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Marteinn er mættur í lúguna, fyrr en ég hélt, sbr. tilkynningu Seðlabankans í dag (föstudag) um "tímabundna" skömmtun gjaldeyris.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.10.2008 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband