Geir gerir ekki neitt

Geir H. Haarde, okkar hæstvirti forsætisráðherra, er grandvar og áreiðanlegur maður, og holdtekja stöðugleikans.  En hann er kannski með stíflað pólitískt nef um þessar mundir, og ráðgjafar hans allir.

Þessa dagana fær hann í hendur tækifæri til að sýna sig og sanna.  Svona svipað og þjónustufyrirtæki sem fær argan viðskiptavin í heimsókn.  Sum þeirra (þau illa reknu) líta á slíkar uppákomur sem óþægileg vandamál.  Önnur (þau vel reknu) átta sig á því að argur viðskiptavinur er tækifæri til að veita sérstaklega góða þjónustu og vinna hjarta hans og viðskipti til langs tíma.

Ef Geir væri að reka þjónustufyrirtækið sitt, ríkisstjórn Íslands, vel, áttaði hann sig á því að núna er tækifærið til að ganga fram fyrir skjöldu og gera eitthvað táknrænt.  Sýna skilning á ergelsi fólks og svartsýni.  Spila út ráðstöfunum sem þurfa ekki að kosta mikið, og geta alveg verið tímabundnar ef svo ber undir.  Með því vinnur hann mikið en tapar litlu.  Er til dæmis teljandi skaði af því af því að lýsa yfir lækkun olíugjalds um svo sem tíkall á lítra til næstu áramóta?  Lækka tolla á kjúklingum og svínakjöti, og kjarnfóðri?  Þarf ekki að vera mikið, en sýnir skilning á ástandinu.

Hitt er svo stærra mál, að "gera ekki neitt" stefnan veldur raunverulegum búsifjum á fjármálamörkuðum.  Hver erlenda greiningardeildin á fætur annarri lýsir eftir viðbrögðum og stefnu íslenskra stjórnvalda vegna kreppuástandsins.  Bara það að sýna skilning á ástandinu með "einhverjum" ráðstöfunum - sem geta verið að mestu táknrænar - myndi bjarga miklu.

Og eins og ég benti á í síðustu bloggfærslu, væri tilkynning um að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um undirbúning inngöngu í ESB alveg málið.  Þá væri a.m.k. verið að hugsa og gera eitthvað af viti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ákkúrat Vilhjálmur. einmitt mín hugsun og er hún ekki hátt borguð?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.4.2008 kl. 03:05

2 Smámynd: Skarfurinn

Á þessum tímum þegar almenningur er hvattur til að draga saman seglin og spara þá ættu ráðamenn landsins að gaanga á undan með góðu fordæmi, en því miður er það ekki gert.

það er forkastanlegt að leigja einkaþotu eins og olíufurstar og eyða auka 6 milljónum í það, svo er annað að í stað 18 manna hefði örugglega verið nóg að senga2-3 manneskjur og spara stórar upphæðir. 

Skarfurinn, 2.4.2008 kl. 12:37

3 identicon

Þessi ríkisstjórn er handónýt, hún gerir ekki neitt.  Ríkisstjórnin ætti að gera nákvæmlega það sem þú ert að leggja til. 

Þess í stað er stjórnarliðið á fullu flugi um allan heim, annað hvort á Saga Class eða í einkaþotum á kostnað skattborgaranna. 

Geir, Ingibjörg (sem var alltaf svo mikið á mót svona ferðalögum hér áður fyrr), Þorgerður og Össur, drullið ykkur nú heim og farið að stjórna landinu.  Það er mun meiri þörf á því en að vera að þessum stórveldisleik úti í heimi með tilheyrandi kokteilboðum.

Eyþór Höskuldsson (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 14:53

4 identicon

Á meðan Geir og Ingibjörg og allt hitt snjóþotuliðið er erlendis, er tækifæri til að gera stjórnarbyltingu og skipta þeim út og fá nýja ríkisstjórn sem myndi gera eitthvað.

Ingólfur Þorgeirsson (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 14:56

5 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Grípa inn í?!!!???!! Þetta er frjáls markaður og markaðurinn þarf bara að vinna sig út úr þessu. Við sjáum nú hvað „inngrip“ yfirvalda skiluðu sér „vel“ þegar lækka átti matarskattinn.

Eða á kannski bara að grípa inn í? Eignarnám fyrir botni Þjórsár svo að hægt sé að virkja og svoleiðis?

Við þurfum ekkert að ganga inn í ESB til þess að lækka matvælaverð o.s.frv. hér á landi. Lýðveldið Íslandi er í lófi lagi að afnema aðflutningsgjöld og tollavernd á landbúnaðarvörum og koma á almennilegri samkeppni hérna, það liggur alveg fyrir. Fyrirheitna landið liggur ekki á meginlandi Evrópu, við erum með allt í höndunum til þess að gera þetta sjálf!

Magnús V. Skúlason, 2.4.2008 kl. 21:05

6 identicon

Nú er ég enginn sérstök Brussel-grúppía, en ég skil samt ekki af hverju svo margir eru með ofnæmi fyrir því að fara í aðildarviðræður við ESB. Ef við fílum ekki það sem þau bjóða okkur getum við bara sagt pass!

Þangað til vitum við kannski ekki nóg til að taka upplýsta afstöðu...

Þórarinn Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 22:24

7 Smámynd: Kári Harðarson

Ingibjörg kom vel út þegar hún gekk loks fram fyrir skjöldu og tjáði sig.  Þögn Geirs er fyrir löngu orðin meira en lítið grunsamleg. 

Bankarnir voru orðnir alþjóðlegir einkareknir bankar og þess vegna var engin hætta á ferðum þótt þeir færu geist, sögðu menn.  Nú vilja bankarnir aðstoð og koma heim í föðurhúsin eins og unglingar í slæmum fíkniefnavanda að sníkja pening.

Ef ríkið aðstoðar bankana tel ég að einkavæðingartilraunin hafi mistekist og það eigi að þjóðnýta bankana.  Ef ríkið aðstoðar bankana án þess að fá neitt í staðinn álykta ég að við séum öll skiptimynt í vasanum hjá bönkunum,  skuldarar, þingmenn og aðrir.

Einhverjar spurningar?

Kári Harðarson, 4.4.2008 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband