Mogginn úti að aka

Morgunblaðið hefur tvisvar í þessari viku birt "fréttir" þar sem forsvarsmenn fyrirtækja úti í bæ kvarta yfir að hafa ekki fengið tiltekin viðskipti við opinberar stofnanir eða hlutafélög þar sem ríkið er meðal eigenda.  Blaðamaður tekur að sér að rekja í alllöngu máli, í öðru tilvikinu á heilli síðu í blaðinu, einhliða útgáfu viðkomandi forsvarsmanna af upplifun sinni af tilteknum sölumálum og óskiljanlegu áhugaleysi kaupenda þrátt fyrir að verið sé að bjóða frábæra vöru.  Viðskiptavinurinn hefur sem sagt alls ekki rétt fyrir sér og þetta rekur blaðið í löngu máli fyrir lesendum sínum.  Án þess að detta í hug að leita álits gagnaðilans í viðskiptunum eða velta fyrir sér hvort fleiri hliðar kunni að vera á málinu.  (Siðareglur blaðamanna hvað?)

Í báðum tilvikum hafa svo birst í blaðinu daginn eftir athugasemdir og svör hinna meintu rangthugsandi viðskiptavina og hefur þá ekki staðið steinn yfir steini í upphaflegum málflutningi hinna móðguðu forsvarsmanna.

Maður spyr sig: má búast við framhaldi á svona athyglisverðri blaðamennsku, þannig að lesendur Morgunblaðsins geti dundað sér við að lesa langhunda með umkvörtunum sölumanna sem finnst þeir tala út í tómið, og svo andsvör áhugalausra viðskiptavina daginn eftir?  Ég er ennþá áskrifandi að Morgunblaðinu, en ekki finnst mér peningunum vel varið í svona trakteringar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband