Samstarf við AGS er besti (og eini) kosturinn í stöðunni

Það er í tísku um þessar mundir að skamma Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AGS).  Þingmenn og jafnvel forystumenn stjórnmálaflokka tala um að AGS vilji Íslandi aðallega illt og að best sé að losna við sjóðinn sem fyrst.

Þetta er fjarri sanni.  Við getum þvert á móti prísað okkur sæl að hafa aðgang að sjóðnum og fyrirgreiðslu hans.

Samstarfið við AGS er að ósk íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþingis, sem samþykkti þingsályktun um að óska eftir hjálp sjóðsins í nóvember 2008.  Þá hafði verið undirrituð viljayfirlýsing um efnahagsáætlun í 27 liðum.  Þessi viljayfirlýsing er enn þann dag í dag eina marktæka áætlunin sem fyrir liggur, um aðgerðir til að komast út úr kreppunni, vinda ofan af skuldum, rétta af fjárlagahalla og styðja við krónuna.  Það er lágmarkskrafa til þeirra sem vilja AGS burt, að gera þá jafnframt grein fyrir því hvaða áætlun þeir vilji fá í staðinn.

Vandi okkar hefur aðallega legið í því að það hefur gengið allt of hægt að framfylgja þessari ágætu áætlun.

AGS er legið á hálsi fyrir að standa á móti vaxtalækkunum.  Þar verður að hafa í huga (1) að verðbólga er enn töluverð og raunvextir því ekki háir; (2) fara verður með gát til sökkva ekki krónunni, þrátt fyrir gjaldeyrishöft og sérstaklega ef ætlunin er að aflétta þeim; (3) það er þrátt fyrir allt peningastefnunefnd Seðlabankans sem ber ábyrgð á vaxtastiginu, en það verður að ríma við markmið áætlunar stjórnvalda og AGS.  Ég hef engin sannfærandi rök séð fyrir því að vaxtastigið gæti verið annað þótt AGS kæmi hvergi að málum.  Raunar má telja víst að hvati erlendra krónueigenda væri enn meiri til að hlaupa út úr krónunni ef stuðnings AGS nyti ekki við, skuldatryggingarálag ríkisins væri hærra og lánshæfismat þess verra.

Þá telja sumir AGS eiga sök á niðurskurði í ríkisfjármálum.  Vegna hrunsins dragast tekjur ríkisins verulega saman, og vaxtagjöld aukast um allan helming.  Þessu þarf óhjákvæmilega að mæta með samdrætti, hvort sem AGS kemur að málum eða ekki.  Ríkissjóðshalla þarf að greiða fyrr eða síðar, og ef hann er greiddur síðar, bætast vextir við.  Áætlun stjórnvalda og AGS gerir ráð fyrir að ná hallanum niður á sirka þremur árum, 2010-2012, og árið 2009 var látið líða án nokkurs niðurskurðar sem heitið gat - en sá (gálga-)frestur jók nóta bene skuldir ríkisins um 150 milljarða.

Íslenska ríkið mun á næstu árum þurfa að endurfjármagna stór lán á erlendum lánsfjármörkuðum.  Það sama gildir um veitufyrirtæki og sveitarfélög.  Þá er væntanlega ætlunin að freista þess að fleyta okkar heittelskuðu krónu á ný.  Úr ótrúlegustu áttum heyrast óraunsæjar, og mér liggur við að segja barnalegar, raddir sem halda því fram að þetta muni einhvern veginn blessast án aðstoðar AGS, án efnahagsáætlunar sem umheimurinn treystir, og án lánafyrirgreiðslu og jafnvel í beinu stríði við helstu nágrannaþjóðir.  Þeir sem halda slíku fram geta ekki haft mikla reynslu af viðskiptum eða tilfinningu fyrir því hvernig heimurinn virkar í raun og veru.  Ég myndi a.m.k. ekki treysta viðkomandi fyrir stjórn efnahagsmála.

Ísland er rúið trausti, þar sem við klúðruðum peningamálastjórn, hagstjórn og bankaeftirliti, svo eitthvað sé nefnt.  Ríkissjóðir, bankar, fyrirtæki og einstaklingar víða um heim hafa tapað stórfé á viðskiptum við íslenska aðila.  Eina leið okkar til að endurreisa sæmilegt traust og þokkalegt mannorð er að standa við skuldbindingar okkar, vinna með AGS, og helst að stefna að aðild að ESB.  Núna á ekki að bæta gráu ofan á svart með heimasmíðaðri, fordæmalausri furðuhagstjórn.  Við komumst út úr þessu með skynsemi en ekki skrýtilegheitum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Sæll Vilhjálmur.

Margt til í þessu hjá þér. Þú segir m.a.

Vandi okkar hefur aðallega legið í því að það hefur gengið allt of hægt að framfylgja þessari ágætu áætlun. 

Getur verið að þetta sé ekki síður vandi, en Icesave-deilan? Ég velti þessu fyrir mér í bloggfærslu í kvöld: Er ANNAÐ og fleira sem tefur AGS en Icesave?

Varðandi vaxtastigið veit ég ekki hvað skal segja, gallinn er sá að það er jú ríkið - við - sem borgum þessa vexti, sem sést á 100 milljarða vaxtakostnaðarsúlunni í fjárlagafrumvarpinu. 273 milljónir á dag. Það myndi muna heldur betur um að geta minnkað þessa blóðpeningagreiðslu.  

Einar Karl, 6.10.2009 kl. 21:48

2 identicon

Þetta er nú skrýtin röksemdafærsla. Það gerir plan AGS hvorki betra né verra, að það skuli hafa verið samið að ósk einhverrar ríkisstjórnar, né heldur fyrir það að vera eina áætlunin sem samin hafi verið. Hvernig getur það haft áhrif á gæði áætlunar, hver það var sem bað um hana og að hún sé eina áætlunin sem samin hafi verið? Allir hagspekingar sem um málin fjalla, telja að það eigi að gefa sér mun lengri tíma til að ná sér uppúr kreppunni. Það gera aðrar þjóðir einnig. Ef um væri að ræða einkafyrirtæki, er hugsanlegt að skynsamlegt væri að fara í brattan niðurskurð, en þegar ríkissjóður er annars vegar þarf að gæta þess að niðurskurður valdi ekki "implosion" í kerfin. Að það hrynji ekki saman. Þetta er mun flóknara mál en þú lætur í veðri vaka.

Doddi D (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 21:50

3 identicon

Svo segir,bissnesmaðurinn Vilhjálmur Þorsteinsson.

Númi (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 22:41

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eru ekki útlendingar þana í IMF ?  Jú þetta eru útlendingar.

Öll vandamál íslands eru vegna útlendinga.  Án úlendinga = Allt í gúddí.

Þetta vita menn.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.10.2009 kl. 22:42

5 identicon

Vilhjálmur Egilsson sem var sölstjóri AGS/IMF við innkomu þeirra, fór mikinn við að selja þingheimi meint ágæti stofnunarinnar, segir í dag að prógramið sem er verið að vinna eftir, verði að teljast það allra lélegasta sem stofnunin hefur nokkrum sinnu sett upp.  Hann hélt að þeir væru búnir að læra af reynslunni, sem þeir hafa augljóslega ekki gert. 

Þess ber að gæta að Vilhjálmur er einn margar hagfræðinga sem fóru mikinn í að dásama og selja þjóðinni samtökin sem hafa verið fastir starfsmenn þess. 

Einnig er rétt að minna á að Sameinuðu þjóðirnar vara eindregið við samstarfi við samtökin, að gefnu tilefni.

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 22:44

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Doddi: Ég er aðeins að minna fólk á að það vorum við (ríkisstjórn og Alþingi) sem báðum um aðstoð AGS, hann kom ekki hingað óboðinn og þröngvaði sér upp á okkur.  Og varðandi áætlunina, þá ætla ég ekki að fullyrða að hún sé sú besta sem möguleg er, en hún er a.m.k. sú eina heildstæða og trúverðuga áætlun sem ég hef séð.  Upphrópanir um að keyra vexti í núll, afþakka lán og lánalínur, og afnema svo gjaldeyrishöft eru óðs manns æði sem ótrúlega margir virðast tilbúnir að líta á sem raunhæf skref í stöðunni.  Ef það á að hafna AGS áætluninni þá verður önnur, framkvæmanleg og betri, áætlun að liggja fyrir.

Útgjöld ríkissjóðs hafa þanist mjög hratt út á föstu verðlagi undanfarin ár.  Það á að vera hægt að draga saman seglin án þess að þjónustustig verði að ráði verra en það hefur nýlega verið.  Þá er ég eindreginn talsmaður þess að skattlegga inngreiðslur í lífeyrissjóði, sem myndi skila 30-40 milljarða árstekjum í ríkissjóð og veitir ekki af.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 00:35

7 identicon

Það er auðvitað rétt hjá þér að AGS er eina áætlunin sem í boði er. Ég er ekki viss um að hún sé trúverðug. Hún hefur lítið verið rædd og lítið fjallað um hana af okkar bestu mönnum. Það þarf að vera. Allt þarf að ræðast af viti og af hæfu fólki. Þér er of mikið niðri fyrir.

Það vantar enn röksemdir og umræður. Það kann að vera að það sé óðs manns æði að keyra vexti niður í 0 en það er jafn líklegt að það sé rétt. Það er hugsanlega rétt að okkur vanti yfirdráttarlán (svonefndar lánalínur) en það er alls ekki víst og engin konkret dæmi verið nefnd. Sem ætti samt að vera auðvelt. Hvenær er næsta afborgun í erlendri mynt hjá Hafnarfjarðarbæ? Eða Reykjanesbæ? Eða OR eða Landsvirkjun? Þetta má alveg liggja fyrir. Við erum lítil þjóð, sem getur nýtt sér lýðræðisleg vinnubrögð til að fá góða niðurstöðu.

Sammála þér um skattlagningu lífeyrissjóða. Finnst það reyndar augljósara en augljóst. Það er líka rétt hjá þér með ríkisútgjöldin. Þar hefur orðið til ofboðsleg skekkja þjóðhagslega. En það er jafn rétt að það er betra að leiðrétta það hægt og rólega.  Kannski vantar ekkert nema yfivegaða umræðu?

Doddi D (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 00:51

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ríkissjóður Íslands þarf að standa skil á eftirfarandi greiðslum af skuldabréfum og lánum sínum í erlendri mynt næstu 3 árin:

EUR 150m þann 30. september síðastliðinn (2009) sem væntanlega (vonandi) er búið að borga

EUR 1.000m þann 1. desember 2011

EUR 300m þann 22. september 2011

EUR 250m þann 10. apríl 2012

Þetta er fyrir utan Icesave.

Hvernig Sigmundur Davíð, Bjarni Ben, Ögmundur, Lilja Mósesdóttir og Guðfríður Lilja ætla að endurfjármagna 1.550m EUR til 2012 án samstarfs við AGS og í stríði við helstu viðskiptaþjóðir okkar, er mér hulin ráðgáta.  Og ég er reyndar viss um að þau hafa ekki nokkra minnstu hugmynd um það sjálf, þekkja kannski hvorki haus né sporð á vandamálinu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 01:28

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Takk Vilhjálmur fyrir góða færslu um okkar stóru mál. Ég tel mig geta tekið undir það sem þú segir þó mig skorti þekkingu til að reikna hagstærðir. Mér hefur fundist að fáránleg keppni um að finna sína eigin "lausn" á vandanum hafi hlaupið með fólk í gönur. Ég get vissulega tekið undir með Ögmundi frænda minum þegar hann talar um að flokkarnir eigi allir að koma að lausn vandans, en er þó ekki tilbúin til að kaupa samvisku hans á uppsprengdu verði. Vonandi er þráteflinu um ICESAVE að ljúka og þá kemst vonandi skriður á önnur mál

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.10.2009 kl. 02:47

10 identicon

Hver á þessi lán?  Hefurðu velt því fyrir þér hvort hægt sé að endurfjármagna þetta í samstarfi við eigendur lánanna? Mér þykir þú gefa þér forsendur fyrirfram. Hvernig býstu við að AGS hjálpi okkur að semja um endurfjármögnun? Með því að skipa eigendum lánanna að endursemja? Með því að lána okkur?

Doddi D (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 07:45

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er einmitt að tala um hvort hægt sé að endurfjármagna yfirleitt.  Um er að ræða skuldabréf ríkissjóðs sem ganga kaupum og sölum og enginn veit hver á.  En bréfin þarf að greiða á gjalddaga, annars er ríkissjóður að lýsa yfir gjaldþroti (sovereign default) - og þá erum við á leið til viðræðna við Parísarklúbbinn, sem er öllu alvarlegri samkoma en AGS.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 09:16

12 identicon

Sæll Vilhjálmur

Þú veiest jaf vel og ég að með niðurgreiðslu hluta afborgana á hverjum tíma er t.t. auðvelt að semja um endurfjármögnun, sérstaklega ef viðkomandi er talin í veikri stöðu. Það hafa samningar bakanna hér á landi sýnt undanfarið. Með 30-40 milljarða frá rekstri er hægt að semja um margt. Ekki má heldur gleyma lífeyrissjóðunum sem eiga risaeignir í erlendur myntum sem nú eru að vaxa gríðarlega. Það er að vísu aldei góð  hugmynd að stjórnmálamenn fari að vasast meira með eignir almennings en þörf er á en nú gæti það verið nauðsyn.

Það land sem hingað til hefur verið talið sterkast á meðal evrópuríkja er Þýskaland. Þar eru gegnumstreymislífeyrissjóðir. Ekki krónu haldið til hliðar og reikningar landsins gerðir upp með þeim þætti að lífeyrir fellur undir rekstur en ekki framtíðarskuldbindingu og því ekki að auka skuldsetningu landssins í efnahag! Sama gildir um Frakka (sem að vísu líka vantelja skuldir sínar gífurlega).

Það eru margar leiðir til að takast á við þetta vandamál og skattlagning lífeyrisgreiðslna við innborgun er ein ásamt samningum við lífeyrissjóðina. Við verðum líka að horfa á þaða að ef ríkið, þ.e.a.s. við öll, er í vandræðum þá eru lífeyrissjóðirnir það líka; því miður. Þannig eru nú bara staðreyndir málsins.

Kv.

Sveinbjörn

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 09:38

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég sé ekki ágreiningsefni hér.  Það er hugsanlegt að hægt sé að semja um endurfjármögnun án samstarfs við AGS og eftir að hafa gengið á bak orða okkar og skuldbindinga vegna Icesave.  En það verður klárlega afar torsótt, svo ekki sé meira sagt.  Það er líka hugsanlegt, skammtafræðilega séð, að brotið glas á gólfinu safnist saman aftur af sjálfsdáðum og verði heilt.  En ég myndi ekki vilja veðja á það.  Sérstaklega ekki þegar framtíð 300.000 manna þjóðar er í húfi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 09:50

14 identicon

Sæll aftur

Ekki skil ég alveg samlíkingu þína en það er bara þannig. Ef að dómur verður kveðinn upp um að ábyrgð okkar sé fyrir hendi, þrátt fyrir að um einkafyrirtæki hafi verið að ræða, þá skal ég taka þátt í því að greiða þessar skuldir og þá virkilega þurfum við AGS.

Ef skaðinn er ekki slíkur þá eru aðrar leiðir færar og mun færari en þær sem lagðar hafa verið undir af þessari ríkisstjórn. Reglan er þó yfirleitt sú að þú semur ekki um afarkosti fyrirfram og heltir þig þannig fram að ákvörðun dómstóla.

Einnig verður að benda á að bæði Bretar og Frakkar neituðu að tryggja innistæðueigendur sem áttu inneignir í útibúum m.a. HSBC-Loyds bankans (bankanna) á aflandseyjum og öðrum erlendum ríkjum. Því er þeirra málstaður ekki styrkur. Þessar þjóðir skoðuðu hvorki lágmarkið sem sett var af ESB né þeirra eigin hækkun á lágmarkstryggingum.

Kv.

Sveinbjörn

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 10:08

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Einnig verður að benda á að bæði Bretar og Frakkar neituðu að tryggja innistæðueigendur sem áttu inneignir í útibúum m.a. HSBC-Loyds bankans (bankanna) á aflandseyjum og öðrum erlendum ríkjum."

Hvað ertu með í huga þarna ?  Ef þú ert mð í huga það sem eg held þá er margbúið að fara yfir það og skýra út. 

Ef verið er að halda svona fram,  þá verður að koma með heimildir lið fyrir lið.  Nákvæmlega hvað er verið að fara.  Söguna á bak við.  

Með fullyrðingu þinni ertu að segja að bretar ætli sér annað hlutverk en íslandi í sambærilegum tilfellum. 

Eigi rétt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.10.2009 kl. 10:28

16 identicon

Sæll Ómar Bjarki

Hér er dæmi um breskan banka, að vísu undir íslensku eignarhaldi, en undir vernd breta og þeirra eftirlitskerfi og því undir þeirra tryggingum:

http://www.ksfiomdepositors.org/

Finn meira fljótt.

Kv.

Sveinbjörn

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 10:44

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já.  Stutta svarið við þessu og feykir jafnframt útí hafsauga öllu tali því viðvíkjandi má finna td. á wiki sem bendir afar skarplega á:

"The Isle of Man holds neither membership nor associate membership of the European Union, and lies outside the European Economic Area"

Eigi relevant.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.10.2009 kl. 11:17

18 identicon

Sæll

Þannig að þetta er leyfilegt ef landið er utan ESB? Þ.a.l. að milliríkjaréttur gildir ekki ef farið er út fyrir bandalagið. Hvaða bull ert þú að bera á borð? Er þá hægt að mismuna fólki eftir staðsetningu bara af því það hentar Bretum? Þetta er u.þ.b. lélegasta kjaftæði sem ég hef séð.

Kv.

Sveinbjörn

PS: Málin á milli okkar og Breta verða vonandi ekki rekin fyrir ESB dómstólum, heldur alþjóðlegum aðilum.

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 11:38

19 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er ekki nóg Vilhjálmur að færa rök fyrir að stórt lán frá AGS auki líkur á því að hægt vreði að standa í skilum eftir 2 ár. það verður líka að færa rök fyrir því það auki líkur á að hægt verði að standa í skilum eftir 20 ár.

Í þessum málflutnigi öllum virðist mér margir líta framhjá því að ísland er sjálfstætt ríki og hugsa þetta eins og ísland sé fyrirtæki í rekstri innan evrópuríkisis, Þar sem lög og reglur evrópuríkisins ganga ofar þeim íslensku og evropuríkið hafi vald til að setja íslandi afarkosti eða í kníja fram gjaldþrot ef það greiði ekki skuld í einhverjum í gjaldmiðli sem ísland á ekki.

Þannig er þetta bara ekki því Ísland er sjálfstætt ríki og greiðir einfalega ekki af erlendum lánum nema að því marki sem það er hægt og það er ekkert sem evrópuríkið getur gert í því nema kannski lýsa yfrir stíði.?

Ég er ekki að mæla með að íslendingar greið ekki erlendar skuldir sínar, einungis að benda á að Ísland sem þjóð hefur það val og það val hefur veruleg áhrif á samnigstöðuna ef svo illa kynni að fara að ekki væru til evrur til að standa í skilum.

Guðmundur Jónsson, 7.10.2009 kl. 11:40

20 identicon

Það skiptir máli Sveinbjörn vegna þess að Mön er (eða var, það er náttúrlega gjaldþrota núna) með eigið innistæðutryggingakerfi óháð hinu breska. Þær lagaflækjur sem uppi eru á þeim slóðum varðandi innistæðutryggingar eru allsendis óskyldar EES/ESB reglum um innistæðutryggingar, enda tilheyrir landið hvorugu.

Bjarki (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 12:48

21 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Legg til að menn haldi sig við AGS í þessum þræði frekar en að missa hann út í enn eitt þjarkið um Icesave.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 14:25

22 identicon

Sælir Vilhjálmur

Þar sem það er best að halda sig við mörkin er rétt að taka fram að það eru alltaf aðrar leiðir færar en AGS eins og suður ameríka hefur farið í nokkur skipti. Við viljum væntanlega ekki fara þær leiðir og því er það siðaðra ríkja háttur að takast á fyrir dómstólum og ekki neita að greiða nema réttur falli okkar megin.

Einnig er ekki rétt að fallast á kröfur ríkja sem beita afarkostum og nýta alþjóðastofnanir s.s. AGS og jafnvel ESB fyrir sig, eins og glöggt hefur fram komið í fréttum.

Kv.

Sveinbjörn

PS: Ómar og bjarki

Það er ekkert í EES eða ESB sem segir að það fylgi ríkisábyrgð tryggingasjóðunum bankanna í evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur aldrei verið og mun væntanlega ekki verða. Það væri eins og skuldir Baugs hefðu verið með ríkisábyrgð. Bankar eru í flestum tilfellum einkafyrirtæki og engar aðrar ábyrgðir fylgja þeim en þeir tryggingasjóðir sem þeir greiða í sem einkafyrirtæki. Þetta verða mín síðustu orð um IceSave hér.

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 14:37

23 identicon

Þegar vel gengur geta menn leyft sér að tala um viðskiptabanka sem "hver önnur einkafyrirtæki" en þegar kreppir að þá viðurkenna nú samt jafnvel mestu kapítalistar að afleiðingarnar af því að innistæðueigendur missi traust á bankakerfinu og geri áhlaup á bankana séu svo slæmar að réttlætanlegt sé að leggja hina hreinu hugmyndafræði til hliðar og blanda ríkinu í málið. Ríki í öllum hinum siðmenntaða heimi baktryggja innistæður í viðskiptabönkum. Annars getur bankakerfi einfaldlega ekki gengið upp. Meira hef ég ekki að segja um þetta.

Upphaflega pistli bloggarans er ég sammála. Þrátt fyrir vafasama sögu AGS þá höfum við fullt forræði á samstarfinu við sjóðinn og það samstarf er einfaldlega eina raunhæfa leiðin fram á við eins og málin standa. Þrátt fyrir mikinn og popúlískan hávaða þá hef ég ekki heyrt rök fyrir öðrum lausnum.

Bjarki (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 15:19

24 identicon

Ég er ekki að fíla þetta Vilhjálmur. Þú getur ekki skrifað grein um AGS án þess að minnast svo mikið sem einu orði á sögu sjóðsins.

Andri (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 15:55

25 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Lýðskrum og ábyrgðarleysi hafa náð nýjum hæðum í málflutningi  stjórnarandstöðunnar undanfarið.En það sem  stendur upp úr er að  þeir  hafa engin úrræði. Engin.  Við komumst ekki hjá því að  starfa með  AGS fremur  en  við  getum hlaupist frá Icesave, sem  Sjálfstæðismenn voru  byrjaðir að semja um á sínum tíma.

Eiður Svanberg Guðnason, 7.10.2009 kl. 16:29

26 identicon

Skoðaðu sögu AGS Vilhkjálmur og bentu okkur á þó ekki væri nema eitt dæmi um jákvæðan árangur af stefnu sjóðsins!

erasmus (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 17:08

27 identicon

Sæll Eiður

Það er gaman að sjá stuðning þinn við þinn flokk. Þú ert sem betur fer kominn í algjöran minnihluta. SJS er ekki á þessum nótum miðað við það sem hann er að tala um núna í útvarpi.

Því hljótið þið í Samfylkingu að vera greindust okkar. Sama með ESB.

Kv.

Sveinbjörn

Sveinbjoörn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 17:17

28 Smámynd: Héðinn Björnsson

AGS stendur fyrir mjög hægrisinnaðri leið fyrir Ísland út úr kreppunni sem gengur út á að einkavæða innviði samfélagsins til þess að geta haldið áfram að greiða sem mest til erlendra kröfuhafa. En það er rétt sem þú segir að við sem stöndum til vinstri í pólitík verðum að setja fram aðra áætlun sem er vinstrisinnaðri og höfum ekki gert ennþá. En það er um að gera að koma sér að verki því Chicago-skólinn hefur magnað bæði þennslu og kreppu þar sem hann fær að komast að og við ættum að vera að stefna í burtu frá honum og ekki auka vægi hans með því að notast við hann líka þegar að á að heita að vera vinstristjórn.

Héðinn Björnsson, 7.10.2009 kl. 18:17

29 identicon

Ríkissjóður Íslands þarf að standa skil á eftirfarandi greiðslum af skuldabréfum og lánum sínum í erlendri mynt næstu 3 árin:

EUR 150m þann 30. september síðastliðinn (2009) sem væntanlega (vonandi) er búið að borga

EUR 1.000m þann 1. desember 2011

EUR 300m þann 22. september 2011

EUR 250m þann 10. apríl 2012

Þetta er fyrir utan Icesave.

Umsögn.

Í upphaflegri aðgerðaáætlun AGS og íslenzkra stjórnvalda sl. nóvember var gert ráð fyrir US$500 milljón endurgreiðslu á AGS lánum árið 2012 og US$800 milljónum 2013.

Í þessu sambandi vaknar spurning sem ég setti fram í tölvupósti til alþingismanna fyrr í vikunni sem hér segir:

Í upphaflegu aðgerðaáætlun AGS og stjórnvalda var erlend skuldastaða þjóðarbúsins í árslok 2009 áætluð um 160% af vergri landsframleiðslu (VLF).Á sama tíma taldi AGS að t.d. 240% skuldahlutfall væri „clearly unsustainable” – augljóslega óviðráðanlegt.Fyrir nokkrum vikum var áætlað hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins í árslok 2009 hækkað í 233% af VLF.Það er ekki útilokað að hlutfallið eigi eftir að hækka – e.t.v. verulega.Nýlega leitaði undirritaður því svara við tveimur lykilspurningum:

Hvaða breyting verður á “time profile” skuldastöðu hins opinbera ef milljarða dollara lán IMF o.fl. eru notuð til afborgana á komandi tíð?

Er hér um skammgóðan vermi að ræða, sem skýtur á frest - en forðar ekki – greiðsluþroti?

Svör lágu ekki á laus.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 18:25

30 identicon

AGS er vont, allt vitlaust sem þeir hafa gert, hendum þeim út, þurfum enga peninga eða fáum þá frá einhverjum öðrum. Þetta er tónninn í dag. En var ekki áætlunin samin af íslenskum stjórnvöldum í samstarfi við AGS? Hef ég misskilið þetta eitthvað? Áætlunin fyrir Ísland er engin uppskrift úr matreiðslubók AGS, það er fátt líkt með því sem verið er að reyna að gera á Íslandi og gert hefur verið í öðrum löndum. Og annað, er ekki einmitt beðið eftir því að endurskoða áætlunina með tilliti til þess hvernig gengið hefur? 

Þetta blogg þitt Vilhjálmur hittir beint í mark. En mig langar að fabúlera aðeins um hvað stjórnmálamenn á Íslandi eru að hugsa í tengslum við AGS.

Framsókn er í klárum popúlisma, eru löngu búnir að sjá hinn veika blett á ríkisstjórninni og ganga á lagið. Allt skal gert til að komast aftur til valda skítt með allt og alla.  Að hluta til má sega það sama um Sjálfstæðisflokkinn. Þar eru menn hins vegar á báðum áttum. Gera sér grein fyrir því hve alvarlegur leikur það er að trufla mögulegar lántökur og vinnu við að auka trúverðugleik, en á sama tíma vilja komast til valda, trufla ESB umsókn og margt fleira. En hvað gengur uppreisnarhópnum í VG til í andstöðu við AGS. Jú, andstaða við frekari stóriðju uppbyggingu sem Samfylkingin virðist vera heltekin af. Hópurinn veit sem er að ef AGS verður hent út og engin stór gjaldeyrislán berast þá er úti um allar stórframkvæmdir á Íslandi næstu áratugina. Það er nákvæmlega það sem þau vilja, kaupa tíma og ná vopnum sínum í baráttunni við virkjanasinna. 

Auðvitað getur Ísland komist af án AGS og lána, en allir sem tala skynsamlega benda á það sama, það mun verða eyðimerkurganga.  

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 18:27

31 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Villhjálmur,

Góð færsla.  Því miður vilja menn aðhyllast ´útrásarlýðskrum´sem gengur út á algjört ofmat á þekkingu, kunnáttu og trúverðugleika Íslendinga og barnalega afstöðu til útlendinga.  Málið er að útlendingar treysta AGS en ekki Íslendingum.  Þetta er beiskur sannleikur sem flestir stjórnmálamenn hér vilja ekki viðurkenna enda mun andstaða gegna AGS, EB og Icesave trekkja atkvæði í næsta prófkjöri og lengar nær ekki hugsun flestra alþingismanna.

Ef AGS er rekinn úr landi fer Landsvirkjun og aðrar eignir Íslendinga með.  Hvernig ætla Íslendngar að reka og eiga Landsvirkjun t.d.án aðgangs að erlendu lánsfé?

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.10.2009 kl. 18:42

32 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Andri, Erasmus og Héðinn: AGS lá undir ámæli fyrir einstrengingslega og ósveigjanlega stefnu á árum áður.  M.a. þess vegna var skipt um framkvæmdastjóra og hinn franski Strauss-Kahn einsetti sér að taka upp meiri "realpólitík".  Áætlun stjórnvalda og AGS, sem ég hvet ykkur til að lesa, gerir enga kröfu um einkavæðingu, það eina sem nefnt er í þá átt er hugsanleg sala nýju ríkisbankanna til að grynnka á skuldum.

Gunnar: Þessi skuldastaða þjóðarbúsins sem þú nefnir innifelur allar skuldir opinberra aðila og einkafyrirtækja, þar á meðal sveitarfélaga, orkufyrirtækja og álvera. Töluvert af þessari tölu eru skuldir sem á eftir að afskrifa í gömlu og nýju bönkunum.  Hún er því ekki alveg marktæk um þessar mundir og aðeins hluti af henni er vandamál ríkissjóðs.  Hitt er ljóst að m.a. vegna mikillar skuldastöðu og endurfjármögnunarþarfar er nauðsynlegt að passa lánshæfismat ríkisins og skuldatryggingarálög sérstaklega vel.  Þar er samstarf við AGS lykilatriði.

Andri Geir: Þú bendir á kjarna málsins.  "Útlendingar treysta AGS en ekki Íslendingum".  Svoleiðis er það bara, og ég lái þeim það ekki.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 18:57

33 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Ég er í grundvallaratriðum sammála að AGS er mjög nauðsynlegt til að vinna aftur upp traust á alþjóðamörkuðum.  Það á samt ekki að tákna að við látum allt eftir varðandi IceSave.  Ef það takast ekki núna viðunandi samningar þar, þá verðum við að vera til í að skoða hvaða aðra kosti við höfum, þó það væri ekki til annars heldur en reyna eitthvað aðeins að bæta samningstöðu okkar.  Þeir kostir eru tvímælalaust slæmir, en samt betra heldur en að vera í þeirri stöðu að við verðum að semja við Breta og Hollendinga á þeirra forsendum.

Bjarni Kristjánsson, 7.10.2009 kl. 19:29

34 identicon

Erasmus. 

Ég held að aðstoð IMF við Ísland 1968, 1974 og 1982 hafi nýst okkur mjög vel. þannig að þarna hefur þú 3 dæmi um jákvæðan árangur af stefnu sjóðsins.  Árið 1960 fékk Ísland líka lán frá sjóðnum en það var til fjárfestinga en ekki vegna tímabundina gjaldeyrisvandræða eins og í hin skiptin sem og er ástæðan fyrir aðstoðinni núna.

Vörður (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 19:32

35 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Bjarni,

Ég er sammála að við eigum ekki að láta allt eftir AGS.  Við verðum að fara að haga okkur eins og siðmenntuð þjóð en ekki óþekkur krakki sem fer strax í fýlu af því hann fær ekki allt sem hann vill.  

Það hörmulega er að við virðumst ekki eiga neina samningamenn sem eru reyndir í alþjóðasamningum.  Við verðum að reyna að fá endurskoðun á AGS samningnum en það verður að vera á faglegum nótum.

Svo er það skylda stjórnmálamanna að segja þjóðinni rétt frá okkar afleitu stöðu og gera ekki of miklar væntingar til alls.

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.10.2009 kl. 19:36

36 identicon

Guðmundur 2 Gunnarsson

"Einnig er rétt að minna á að Sameinuðu þjóðirnar vara eindregið við samstarfi við samtökin, að gefnu tilefni."

AGS er undirstofnun Sameinuðu Þjóðanna - bara svo því sé haldið til haga.

Ragnar (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 19:47

37 Smámynd: Oddur Ólafsson

Takk fyrir góðan og upplýsandi pistil.

Oddur Ólafsson, 7.10.2009 kl. 21:02

38 Smámynd: Njáll Harðarson

"Island er rúið trausti, AGS er eina leiðin!"

Ég vænti þess að Vilhjálmur hafi kynnt sér sögu AGS og World Bank?

Hvað eru mörg ríki sem hafa lent í alvarlegum vandræðum vegna krafna AGS?

Ég bloggaði um þetta fyrir nokkrum dögum. Annars er ég sammála því að það verður að semja um Icesave strax! jafnvel þó það sé fúll biti og ósangjarn. Þá er tappinn komin úr flöskunni og við þurfum þá ekki á AGS að halda, enda vilja mörg ríki aðstoða okkur um leið og búið er að gera þann gjörning.

Njáll Harðarson, 7.10.2009 kl. 21:15

39 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

"Enda vilja mörg ríki aðstoða okkur um leið og búið er að gera þann gjörning."  Æ dónt þínk só, böddí.  Ég held að því sé akkúrat öfugt farið.  Og hef fullan skilning á því, eins og við höfum hagað okkar hagstjórn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 21:22

40 identicon

Guðmundur 2 og Ragnar eru báðir nokkuð frá hinu sanna. Guðmundur: Það væri gaman að sjá heimildir fyrir þeirri fullyrðingu að SÞ vari við AGS. Slík viðvörun hefur aldrei verið út gefin svo ég viti, enda standa nær öll aðildarríki SÞ einnig að AGS.

Það er hins vegar misskilningur að AGS sé undirstofnun Sameinuðu Þjóðanna. AGS og Alþjóðabankinn, oft kallaðir Bretton Woods-stofnanirnar, voru stofnaðir í lok seinna stríðs rétt eins og SÞ, en engin sérstök tenging er á milli þeirra.

Barton (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 21:34

41 identicon

Hér verður að skilja á milli erlendra og innlendra skuldbindinga. Við hrun og kreppu er nauðsynlegt að keyra lausari peningastefnu en hér er gert, enda er það módelið sem fylgt hefur verið alls staðar annars staðar í löndunum í kringum okkur. Að teknu tilliti til verðbólgu eru stýrivextir við núllið eða neikvæðir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Við sitjum auk þess uppi með innlendar skuldir á bókunum sem eiga sér í reynd enga stoð og verður að hreinsa út, sbr. 300 milljarða skuldin við seðlabankann, sjá nánar í pistli mínum Pappírstjónið (http://fridrik.eyjan.is/2009/10/pappirstjoni.html)

Ef ekki á hér að verða þjóðargjaldþrot verða erlendu kröfur hins opinbera að vera í forgangi. Gengi íslensku krónunnar við núverandi aðstæður getur hins vegar tæplega styrkts við það að hér haldi áfram að draga úr efnahagslegum athöfnum og verðmætasköpun, en það er það ástand sem við búum við í dag.

Peningaprentun einungis til að greiða vexti án undirliggjandi verðmætasköpunnar mun einungis draga frekar úr trú og trausti á gjaldmiðlinum og þannig veikja hann enn frekar.

Það verður að ýta fjármagni í umferð - í vinnu - og það verður ekki gert nema með aggressívri vaxtalækkun.

Í dag er enginn hvati til þess að fjárfesta í íslensku atvinnulífi á meðan að Seðlabankinn býður næstum 10% ríkistryggða ávöxtun...!

Friðrik Jónsson (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 22:04

42 Smámynd: Njáll Harðarson

Ég held ég verði að vera sammála þér Vilhjálmur varðandi hagstjórnunina, eins og þú lýsir henni. Við erum ung þjóð rétt skriðin undan dönum og þurfum að losna við barnasjúkdómana.

Það sem mér virðist þú vera að segja er að þjóðir vilja ekki lána okkur á meðan Icesave er óútkljáð og svo þegar það er út úr heiminum, þá segi menn, en þið verðið að semja við Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn áður en við lánum ykkur?

Hvenig heldur þú að þessu sé farið? Bödd.

Njáll Harðarson, 7.10.2009 kl. 22:11

43 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Allt er afstætt í þessum heimi.  AGS hefur gert mistök sem eru vel þekkt og það vita allar þjóðir að enginn fer þangað nema vera neyddur til þess.  Þess vegna búast flestir við því að stjórnir og landsmenn sem eru í AGS prógrammi kvarti, það er nú bara einu sinn þannig.  

Svo er hitt vel þekkt, að þó AGS sé langt frá því að vera fullkomin stofnun nýtur hún þó alltaf langt um meira traust en þær þjóðir sem hún styrkir.  Eða sett í stærðfræðibúning

traust AGS > traust Íslands

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.10.2009 kl. 22:12

44 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Smá ábending.

Hér tala menn hástöfum um að peninga. Hvort Áætlun AGS auki traust útlendinga (þ.e. Erlendra fjárfesta og fjármálastofnana), hvernig peningastefnan er, vaxtagreiðslur, o.s.frv. Í stuttu máli það sem kallast "macroeconomics".

Allt sem þið eruð að tala um  hefur aftur á móti áhrif á venjulegt fólk. þegar, að áeggjan AGS, ríkisútgjöld eru skorinn niður um tugi prósenta og vaxtagreiðslur eru næst stærsti útgjaldaliðurinn þá hefur það áhrif á fólk. Sjúklingar fá verri þjónustu, tekjur öryrkja eru skertar, fólk missir vinnuna, fólk missir heimili sín, vaxandi fjöldi á ekki fyrir mat o.s.frv.. Vaxtastefnan eykur á vandamálið því fleiri fyrirtæki fara í þrot og þar af leiðandi missir fleira fólk vinnuna og við framleiðum minna og tekjur okkar skerðast en frekar.

Allt þetta kemur verst niður á þeim sem eru veikastir fyrir. 

Getur einhver svarað því, hvenær er komið nóg.

hversu marga atvinnulausa þarf til að menn segi stopp við AGS. 

hversu margar fjölskyldur er ásættanlegt að missi heimili sín?

hve mörgum sjúklingum má vísa á dyr áður en nóg er komið?

Er það í lagi að þúsundir lendi í fátækt svo erlendir fjárfestar fái sitt?

Er það aldrei of dýru verði keypt að borga upp í topp skuldir óreiðumanna?

Í hverju einasta landi sem AGS hefur komið nálægt hefur fjöldi fólks lent í sárri fátækt, velferðarkerfið verið skorið niður í nánast ekki neitt og alltaf hafa eignir og auðlindir almennings farið á brunaútsölu.  þetta er bein afleiðing af þeirri stefnu AGS fylgir. AGS horfir á mjög takmarkaðan þátt hagkerfisins. Gengið, verðbólga og jafnvægi í ríkisfjármálum, en sýnir fullkomið skeytingarleysi gagnvart örlögum venjulegs fólks í viðkomandi samfélögum sem aldrei hafa neitt með stöðuna að gera og bera enga ábyrgð á henni. 

Stefna AGS lendir alltaf harðast á þeim sem er veikastir fyrir og bera minnsta ábyrgð á ástandinu. Þeir sem bera ábyrgð, sleppa hins vegar vel (útrásarvíkingar og erlendir lánadrottnar). 

Er ekki komin tími til að hagstjórn á Íslandi miðist við  hagsmuni venjulegra Íslendinga, í  stað þess að þjóna fámennum hópum úr viðskiptalífinu og erlendum fjárfestum?

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 7.10.2009 kl. 23:00

45 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Benedikt, það er einmitt verið að reyna að gæta hagsmuna venjulegra Íslendinga.   Hinn venjulegi Íslendingur hefur verulega hagsmuni af því að krónan falli ekki frekar en orðið er; að hallarekstur ríkissjóðs (=skuldir framtíðar) verði lágmarkaður (en með eins mjúkum hætti og unnt er); að ríkissjóður geti endurfjármagnað sig; að nýjar fjárfestingar eigi sér stað í landinu til að halda uppi atvinnu; o.s.frv.

Ef við fáum ekki lán frá AGS, þurfum við að fá lán frá einhverjum öðrum - eða lýsa yfir gjaldþroti.  Ekki þjónar það hagsmunum venjulegra Íslendinga, núlifandi eða í framtíðinni.

Svo mættu menn gjarnan lesa efnahagsáætlunina (hún er á íslensku m.a. hér) og benda mér á hvað af henni þeir telja að við þyrftum ekki að gera hvort sem er, óháð aðkomu AGS.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 23:54

46 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Vilhjálmur,

Er einhvers staðar listi yfir þessi fjögur lán sem þú nefndir (150, 1000, 300, 250), til hverra hluta þau voru fengin, frá hverjum, og hvaða vextir reiknast/borgast af þeim?  Ef ég man rétt þá var stóra lánið tekið fyrir nokkrum árum síðan, til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn, sem er allavega að einhverju leiti enn til staðar.

Bjarni Kristjánsson, 8.10.2009 kl. 00:40

47 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Hafið þið kynnt ykkur rannsóknir um hvort AGS auki í raun trúverðugleika? Eða hvort stefna hans hér sé í raun að gera okkur greiða?

Mæli með að þið kíkið á svipan.is

Þar er meðal annar verið að skoða þessi mál í kjölinn og m.a. rannsóknir á frammistöðu þeirra fram til þessa.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 8.10.2009 kl. 01:19

48 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Ég las þetta blessaða skjal á sínum tíma.

Þar er afskaplega fátt um aðgerðir til sem tryggja hag venjulegs fólks í þessu skjali. það er þó minnst á okkur almúgann í einni málsgrein. í lið 17 kemur fram.

 Gengisfallið og aukin verðbólga sem af því leiddi hefur haft alvarleg áhrif á hag heimila og fyrirtækja vegna þess að stór hluti skulda þeirra er gengisbundinn eða vísitölutryggður.

Þetta er alveg hárrétt. Nokkrir hagfræðingar T.d. Gunnar Tómason hefur bent á að það sé hægt að taka þessar vísitölur úr sambandi meðan ástandið er óstöðugt. Þessi umhyggja fyrir heimilum og fyrirtækjum endist þó ekki lengi, því að í lið 19 er lofað að fara með stýrivexti upp í 18% sem var gert. Það gengur afskaplega ílla að fá þá lækkaða eitthvað að ráði. Menn bera því við að það sé ekki hægt út af hinu og þessu (menn tala eins og þetta sé eitthvert náttúrufyrirbæri sem við höfum enga stjórn á), aðallega þó út af gengi krónunnar. Þó hefur verið marg bent á að stýrivextir hafi sáralítil áhrif á fjármagnsflótta við okkar aðstæður. Sem kemur að þversöginni í þessu því að í sama lið er talað um að beita tímabundnum gjaldeyrishöftum, sem bendir til að menn átti á því að vaxtastigið hefur engin áhrif. Það hefur verið bent á betri leiðir sem er að skattleggja útstreymið tímabundið (reyndist vel í Malasíu). Fyrst við erum í lið 19 þá stendur þar,

 Við erum reiðubúin til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar.

M.ö.o. þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt fer gjaldeyrisvaraforðinn (sem by the way er fengin að láni) í að halda genginu uppi á meðan Jöklabréfin fara úr landi. Gunnar Tómason hefur bent á betri leið, þ.e. að taka vísitölur úr sambandi og leyfa genginu að falla.

Ef við spáum aðeins í megin markmiðum þessa skjals þá kemur fram í athugasemdum að 

Meginmarkmið efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.

Þarna er ekkert talað um að það þurfi að hlífa velferðarkerfinu eða gæta þessa að atvinnuleysi verði ekki of mikið eða að koma í veg fyrir nauðungasölur á heimilum. Ekkert í meginmarkmiðum þessa skjals hefur neitt með Íslenskan almenning að gera. Það að endurvekja traust á íslenskum efnahag snýr að erlendum fjárfestum. Ég get ekki séð að við aðstæður okkar séu það mjög eftirsóknarvert að bjóða þá velkomna því að við erum veik fyrir og það mikil hætta á að hagsmunir okkar verði fyrir borð bornir vegna veikrar samningsstöðu. HS-orka og æðið að fá Álver hingað eru ágætis dæmi (ég get rökstutt það seinna en bendi t.d. á ágæta grein Sigmundar Einarssonar). Gengið var ég að fjalla um hér fyrir ofan. Ég get reyndar ekki séð neitt í þessu skjali sem miða að því að styrkja stöðu ríkissjóðs. ætli þetta þýði ekki niðurskurður.

Það er margt athugavert við það hvernig eigi að endurreisa íslenskt bankakerfi.

í lið 12 er kemur fram 

Samkvæmt bráðabirgðamati má ætla að vergur kostnaður ríkisins vegna innstæðutrygginga [Icesave?] og endurfjármögnunar bæði viðskiptabankanna og Seðlabankans geti numið um 80% af landsframleiðslu

Hér er ég á hálum ís en ég hef ekki heyrt nein rök fyrir því af hverju við þurftum að taka á okkur allar þessar skuldir. 80% af landsframleiðslu er hátt í 1000 milljarðar og það hefur farið sára lítil umræða fram um þetta. Eins og ég sé þetta, þá er þetta hefðbundin þjóðnýting á einkaskuldum. Reyndar var ríkið að borga 100 milljarða í vexti árið 2009 sem miðað við 5% vexti er skuld upp á 2000 milljarða. Hvaðan koma þessar skuldir. Vissulega koma einhverjar eignir á móti þessum fjárútlátum en það eru fuglar í skógi. Í lið 12 segir einnig 

Í heild má gera ráð fyrir að vergar skuldir hins opinbera aukist úr 29% af landsframleiðslu í lok árs 2007 í 109% af landsframleiðslu í árslok 2009. Bankakreppan mun því setja hinu opinbera verulegar skorður og leggja auknar byrðar á almenning á næstu árum.

Þessar skuldir eru ekki komnar til vegna arðbærra framkvæmda eða uppbyggingar á innviðum samfélagsins, heldur þjóðnýttar einkaskuldir sem sáralitlar eignir eru til fyrir. það er því ljóst að ekkert af þessum peningum hefur farið í neitt arðbært heldur hlýst af þessu hreinn vaxtakostnaður. Niðurskurðurinn á ríkisútgjöldum vegna þessara skulda á mjög líklega eftir að hrinda af stað vítahring aukinna skulda ríkissjóðs, því að tekjuhliðin er nánast alltaf ofmetinn við aðstæður eins og okkar. AGS gerir nefnilega ekki ráð fyrir áhrifum niðurskurðarins. Skýrt dæmi um þetta má sjá hjá aðgerðum sjóðsins í Argentínu 2000-2002.  Sjóðurinn gerir því kröfur um meiri niðurskurð til mæta minnkandi tekjum. Þetta leiðir á endanum til þess að lán gjaldfalla, það er óumflýjanlegt.

Það er til eitthvað sem heitir að afskrifa skuldir og það þarf að gera. Við eigum ekki að fórna innviðum Íslensks samfélags til að greiða í topp skuldir bankanna.

Annars er veruleg hætta á að velferðarkerfið skaðist varanlega, og að fátækt verði hér alvarlegt vandamál. þetta er ekki spunnið upp úr mér, sem einhver hræðsluáróður heldur er þetta reynsla þjóða sem hafa lent í efnahagshruni. T.d. má nefna Argentínu, Tæland, Suður Kóreu og Indónesíu.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 8.10.2009 kl. 01:59

49 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

það sem ég kalla þetta skjal, er að sjálfsögðu efnahagsáætlun AGS

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 8.10.2009 kl. 02:02

50 identicon

Afsaka of langan póst..

Eftir að hafa lesið efnahagsáætlun AGS við Ísland eru mínar áhyggjur gagnvart AGS staðfestar.

AGS er þekkt fyrir það að koma því þannig um kring að þeirra lán eru ætluð til að halda upp gengi. Þannig að erlendir aðilar sem eiga krónur komist út á hagstæðu gengi. Lánið virðist alls ekki vera hugsað til að endurfjármagna erlend lán, önnur lán eiga að dekka það.

Liðir 17, 18 ,19, 20, 22 og 24 í efnahagsáætluninni bera allir að sama brunni. Gengi krónunnar skal styrkjast/haldast stöðugt og það á að nota 5 milljarða dollara lán AGS til verksins. Ef það kostar okkur 600 milljarða króna að halda upp gengi krónunnar þá finnst mér fórnarkostnaður af veru AGS of hár.

Síðan má einnig lesa milli línana að vextir verði ekki lækkaðir fyrir en gengið styrkist/verðbólga lækkar. Það vill nú þannig til að háir vextir í dag eru ekkert annað en peningaprentun á krónum sem leiðir til gengisfalls sem leiðir síðan aftur til verðbólgu. Þannig að eina leið okkar til að lækka vexti er að nota massífan gjaldeyrisforða til að kaupa krónur og skapa þannig gervi gengi í smá tíma. Þá verða líka erlendir eigendur króna farnir út á góðu gengi eftir að hafa verið með krónurnar sínar á háum vöxtum fram að því.

Lágt gengi er gott fyrir Ísland heldur atvinnu í landinu og styður útflutning, þannig að eyða gjaldeyrisforða í að halda uppi gengi hefur ekkert upp á sig.

Ef aðgerðir ríkisstjórnarinn ganga eftir þá aftengjum við afborganir húsnæðislána frá sveiflum í gengi krónunnar, þannig að við eigum alveg að þola lágt gengi á meðan óþolinmótt fjármagn fer úr landi.

Hvernig stendur síðan á því að þeir sem ráða í AGS fara ekki eftir stefnu AGS á krepputímum.

Eru US eða GB að hækka skatta?...

Eru US eða GB að hækka vexti?...

Eru US eða GB að reyna styrkja gengi með sértækum aðgerðum?

Það má því kalla stefnu AGS furðuhagstjórn.

Förum eftir stefnu US og GB á kreppu tímum:

-Skerum niður ríkisútgjöld (líklega það eina gáfulega í AGS pakkanum)

-Hækkum ekki skatta (dreifum þeim öðruvísi)

-Lækkum vexti.

Það sem þarf til að fá lán er að sýna að ábyrgir aðilar stjórni landinu. Ekki stjórnvöld sem hefur verið mútað af útrásardólgum eins og fyrri ríkisstjórn. Það þarf því að sýna að við séum að rannsaka ábyrgð útrásardólgana með trúverðugum hætti. Veit ekki betur en það sé verið að gera það.

Þannig að með rannsókn og jákvæðum viðskiptahalla ættum við að vera drauma skuldari fyrir land eins og Noreg.

Myndir þú lána þjóð sem er að fara í AGS pakkann?

Eftir því sem aðilli er skuldugri þeim mun verri skuldari er hann... eða hvað?

AGS í Argentinu, lánuðu 70% af GDP í að halda uppi gengi: http://www.commondreams.org/views02/0127-03.htm

http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/3941809.stm

Úr efnahagsáætluninni.

17. Brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands er að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins.

"forgangsverkefni að Seðlabanki Íslands komi á stöðugleika í gengi krónunnar."

18. Við höfum sérstakar áhyggjur af því að gengi krónunnar verði fyrir skammtímaþrýstingi þegar búið verður að koma á eðlilegum gjaldeyrismarkaði.

19. Sé litið til mjög skamms tíma ætlum við að beita eftirfarandi blöndu af hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum til að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði:

– Við erum reiðubúin til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar.

20. Við gerum ráð fyrir að traust verði brátt endurvakið þannig að vextir geti lækkað í kjölfarið. Í þessu efni reiknum við með að krónan styrkist fljótt og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% við lok ársins 2009 og að krónan styrkist enn frekar og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010.

22. Eftirfylgnin á því lykilmarkmiði að styrkja viðskiptajöfnuðinn svo að efla megi gjaldeyrisforðann og koma aftur á frjálsu gjaldeyrisflæði gegnum bankakerfið

styður við afnám gjaldeyrishaftanna þannig að hægt verði að hreinsa upp erlend vanskil einkaaðila.

24. Hrun bankakerfisins hefur leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé

- en afgangurinn er sjóðsþörf (gjaldeyrisvaraforði) að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala

Hjalti Atlason (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 02:23

51 identicon

Ég er sammála Hjalta hér að ofan. Það eru til aðrar leiðir en AGS-leiðin. Við gætum t.d. farið sömu leið og BNA og Bretland hafa tekið.

Þá er ég sammála Benedikt hvað varðar lánshæfismatið. Það sem skiptir mestu máli fyrir lánshæfismatið eru skuldir. Ekkert skaðar lánshæfismatið okkur eins og skulda of mikið. Fyrir utan skuldir í íslenskum krónum (sem ég hef ekki áhyggjur af) skuldum alltof mikið í erlendri mynt (gjaldeyrisforðinn og Icesave). 

Getur þú nefnt mér dæmi um þjóð sem hefur skuldað jafnmikið í erlendri mynt og komist upp með það? Held ekki, allt bendir til þess að Ísland sé sprungið á limminu. 

Fjármagnið hefur engan áhuga á því hversu löghlýðin og samfélagslegaábyrgar þjóðir eru. Fjármagnið hefur áhuga á því hvort menn geta borgað til baka. Þetta sést best í tilfelli Kína sem stundar þjóðarmorð í bakgarðinum sínum en á engu að síður í mesta basli við að vísa erlendum fjárfestum á bug. 

Alla jafna amast "alþjóðasinnar" yfir því þegar talað er um "við" um þjóðerni. Þetta er skiljanlegt enda mjög marklaust að tala um "okkur" í skilninginum "við klúðruðum stjórn efnahagsmála". Þetta Íslands-bashing í ykkur krötunum (þú líka Andri) er orðið reglulega þreytandi. 

Þess fyrir utan er mjög vafasamt og villandi að segja að stjórn efnahagsmála hafi verið undir stjórn Íslending. Verbólgumarkmið er sú stjórn peningamála sem AGS hefur boðað í hálfan annan áratug. Og Ísland hefur verið fyrirmyndarskáti þegar kemur að því að tileinka sér leikreglur hnattvæðingarinnar eins og Washington sáttmálinn, AGS og WB hafa lagt þær niður. Stjórn efnahagsmála hefur nema að takmörkuðu leyti verið í höndum stjórnmálamanna síðastliðin áratug (sbr. sjálfstæði seðlabankans) heldur hafa völdin verið hjá alþjóðlegum stofnunum og verið framfylgt af embættiskerfinu. Þessi stjórn hefur tekið mið af hagfræðinni; við getum talað um eftirspurnarstjórnun annars vegar Saltvatnsskólans hvað varðar fjármáleftirlit (Chigaco skólinn) og hins vegar Ferskvatsskólans í peningamálum (ný-keynesistar).  Ég held að enginn Íslendingur hafi átt stóran þátt í þróa þessi fræði. Stærsta synd íslenskra stjórnmálamanna var að leggja traust sitt á þessi fræði.

En það eru til fleiri leiðir og hér er Kína gott dæmi. Kína lærði af nýmarkaðskreppunum á tíunda áratuginum og sagði nei við peningastjórn AGS og eftirliti WB. Efnahagsstjórn Kína hefur tekið mið af supply side economics (helsti ráðgjafinn er Robert Mundell, faðir evrunnar og nóbelsverðlaunahafi). Þetta er svolítið gamalsdags hagfræði í aðra röndina sem kveður á um að framleiðsla og söfnun sé mikilvægari undirstaða hagkerfa en eftirspurn og skuldir. Í ljósi reynslunnar ættum við kannski hætta þessum heimóttarskap um seðlabanka Davíðs o.s.frv. og hugsa svolítið stærra - jafnvel alþjóðlega?

Afsakaðu langlokuna, það er stundum erfitt að hætta þegar lagt er af stað :)       

Kristján Torfi (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 11:16

52 Smámynd: A.L.F

Má vera að AGS sé eina leiðin þó ég trúi því ekki.

En þá er það stjórnar okkar að standa með almenningi sínum og gera eins og íraska strjónin hefur gert. Þeir óskuðu aðstoðar AGS líka en þegar AGS fór fram á það að þeir lækkuðu laun ríkisstarfsmanna niður úr öllu valdi að mati Írösnku stjórnarinnar sögðu þeir nei og vildu fá aðra áætlun.

AGS er ekki alvitur félag og það þarf að taka mið af hverri og einni stjórn og landi, það er ekki verið að gera núna. Eins og er virðist eina markmið þeirra vera að bjarga öðrum löndum undan kreppunni sem skal á þeim. Ísland á að vera það land sem tekur mest á sig.

Að það þurfi að skera niður er rétt, en það þarf að gera það hægar og með öðrum formerkjum, því öll vitum við að það sem er tekið af núna kemur ekki inn aftur þó hallinn fari. Flest af því sem verið er að skera niður hefur áunnist með mikilli þrautsegju og baráttu. Að þrenginartímanum liðnum mun þurfa enn meiri þrautsegju til að fá hlutina til baka. Valdi tillögur AGS 90% þjóðarinnar vandræðum og erfileikum þarf að endurskoða málin.

A.L.F, 8.10.2009 kl. 14:18

53 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Gjaldeyrisforði sem tekin er að láni hefur engan tilgang annan en að sveiflujafna gengi krónunnar. Lánaður gjaldeyrisforði er þannig leið til að gera viðskipti með krónur þægilegri svo erlendir fjárfestar geti komið og farið án þess að þurfa alltaf að sæta lægis vegna gengissveiflna. Hættan er hinsvegar sú að lánaður gjaldeyrisforði verði notaður til að verja of sterkt gengi eða spákaupmennsku og þá flæða verðmæti úr landi til útlendinga. Þess vegna er þessi leikur AGS núna með risalán á vöxtum stórhættulegur því gengið sem á að verja er ekki þekkt eingar líkur á að takist að hitta á það rétta til lengri tíma og þannig er það tilviljun háð hvort íslenska þjóðin tapar að græðir hundruð miljarða ISK.

Kristján Torfi og Hjalti Arason hér ofar eru með fingurinn á púlsinum í þessu, það sem átt er við með að líta til Bretlands og BNA við hagstjór er að þar er hallrekstur ríkissjóðs sjálfsgður hulutur til að komast út úr þvi ástandi sem nú varir.

Í reynd hófst í kapphlaup í fyrra á milli Evru, Punds og Dollar sem ekki má tala um upphátt en það fellst í að prenta sig út úr vandanum og BNA eru lang fyrstir eins og venjulega. En þetta er eimitt það sem gerir það að verkum að engin leð er að verja gengi ISK án þess að tapa á því.

En hér heima er aðal háhggjuefnið að verja eignir útlendinga til að engin verði fúll út í okkur.

Ég tel að skynsamlegra sé að vera bara áfram með höftin á ISK og loka augunum fyrir braski með hanna (braskið tappar af þannig að aflandsmarkaður verður raunverulegri ). Sá tími er að nálgast að hægt verður að fleyta ISK án mikils kostnaðar. Sterk merki um það eru að aflandsmarkaður er nú aðeins um 10% frá innanlandsmarkaði. Því finnst mér nokkuð augljóst að þörfin fyrir alla þessa lánspeninga frá AGS er að hverfa ef hún var þá einhvertímann raunveruleg.

Guðmundur Jónsson, 8.10.2009 kl. 15:01

54 identicon

Ég þakka fyrir góða færslu. Ég er henni líka sammála í öllum aðalatriðum.

Í fyrirsögninni kemur hins vegar fram að samstarfið við AGS sé "besti (og eini) kosturinn". Auðvitað er það ekki allskostar rétt. Gjaldþrot íslensku stjórnmálastéttarinnar getur enn undið upp á sig þannig að hún hrapi að þvi að telja það kost að semja eigin séríslensku útgáfu að skrýtilegri hagstjórn. Það hefur gerst áður. Þjóðin var í meir en 30 ár að jafna sig á hagstjórnartöfrabrögðum fjórða áratugarins.

Í dag má öllum ljóst vera að skynsamlegasta leiðin - sú sem hámarkar velferð almennings og fyrirtækja - er sú sem styðst við AGS. Ég gef ekki mikið fyrir þá sem tefla fram sögu AGS gegn samstarfinu. Það neyðist enginn til að semja við AGS. Geri aðstoð hans illt verra og verði þá aðrir betri kostir til staðar þá er auðvelt að slíta samstarfinu. Það er ekki eins og við séum að selja sálu okkar til skrattans.

Volæðissöngurinn um að allir útlendingar, með AGS í fararbroddi, séu svo vondir við aumingja Íslendinga er strax farinn að virka þreyttur. Það vill svo til að það voru íslenskir ógæfumenn (útrásarvíkingar og stjórnmálamenn) sem rústuðu fjármálakerfinu og ollu stórskaða um víða veröld. Aðstoð erlendis frá er ekki hægt annað en þiggja með þökkum, ef menn þá hafa manndóm i sér til þess.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 17:54

55 Smámynd: Fannar frá Rifi

Vilhjálmur, hvernig er árangur AGS í öðrum löndum sem sjóðurinn hefur komið inn í með fé og ráð til prógrömm fyrir ríkistjórnir til að fara eftir?  Árangurinn er vægast sagt skelfilegur. Árangurinn er engin. hvað varð um gjaldeyrisvarasjóð Rússa sem þeir fengu að láni hjá AGS? Hann hvarf á einum degi eftir að farið hafði verið að ráðum AGS. Í afríku er sagan enn verri, þar sviðin jörð allstaðar sem sjóðurinn hefur komið.

Þessi sjóður er handónýtur sem hjálp til ríkja í vanda.

Sem nútíma nýlendukúgun ríkja Vesturevrópu (gömlu nýlenduveldanna) og svo Bandaríkjanna, þá virkar hann mjög vel.   enda var hann og alþjóðabankinn sem stjórnað er af USA stofnaðir til þess að viðhalda áhrifum og völdum nýlenduvelanna í hinum nýju sjálfstæðu ríkjum. 

Þetta er ekki spurning um tísku að vera á móti AGS. þetta er spurning hvort þú spáir í hlutunum og hugsar eða ekki. 

Fannar frá Rifi, 9.10.2009 kl. 08:16

56 identicon

Handrukkarar peningaelítunnar (IMF) munu fyrst og fremst ganga erinda hennar eins og ávallt, enda batteríið stofnað til þess. John Perkins hefur gefið góða innsýn í hugsunarganginn þar á bæ og fráleitt að ætla að nokkuð hafi breyst, þetta er svínastía.

Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:33

57 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Fannar og fleiri: Prógramm AGS og Íslands er óvenju "mjúkt" miðað við áætlanir ýmissa annarra landa.  Ólíkt því sem gerst hefur annars staðar eru engin markmið í áætluninni um tiltekinn niðurskurð t.d. launa ríkisstarfsmanna eða fríðinda þeirra.  Stjórnvöldum er alveg í sjálfsvald sett hvernig þau ná niður ríkissjóðshallanum, en það verður vitaskuld að gera með einum eða öðrum hætti, sama hvort AGS kemur hér að málum eða ekki.  Mér finnst sumir tala eins og það sé hægt að þurrka út lögmál stærðfræðinnar með hugaraflinu einu saman.  Mínus verður að jafna út með plús, annars gætum við bara öll hætt að borga skatta og lifað í vellystingum, eða hvað?  Halda menn að það sé hægt að reka ríkissjóð með halla ef enginn vill lána honum?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2009 kl. 14:38

58 identicon

Aðkoma AGS er einfaldlega nauðsynleg þannig að það verði lágmarks gæðastimpill á peningamálum hér. Það eru auðvita ekki fullkomið að hafa AGS hér en fyrirgefið mér en hafa Íslendingar sýnt einhverja stjörnutakta í peningastjórnun síðustu 10 árin ?

Með fullri virðingu þá nýtur AGS meira trausts en Ísland á erlendum lánsfjármörkuðum. Við komumst ekki án þessara lána einfaldlega vegna þess að við þurfum þessa fjármuni til að sveiflujafna greiðsluflæði til og frá landi. Í þess felst ekki að við séum að nýta lánið til að halda uppi óeðlilegu gengi IKR. Nei, lánin eru nýtt til sveiflujöfnunar - gengið er á höfuðstól lánsins á tilteknum tíma sem aftur kemur til baka með innflæði gjaldeyris. Enginn galdur. X EUR út en X EUR koma til baka. Eini kostnaðurinn sem fellur á þjóðarbúið er vaxtakostnaðurinn af þeim tímaramma sem liggur á milli innflæðisins og útflæðisins.

Það má tempra þetta flæði með ýmsu móti. Bæði með óhindruðu flæði ef um er að ræða smærri upphæðir eða uppboði sé um að ræða stærri upphæðir. Kosturinn við uppboðið er að það er hægt að tímasetja það í samræmi við áætlað innflæði gjaldeyris og þannig lágmarka vaxtakostnaðinn.

Ef við höfnum AGS þá missum þann gjaldeyrisbúffer sem AGS áætlunin innleiðir. Gerist það eru yfirgnæfandi líkur á að við lendum í greiðsluþroti því gjaldeyrismarkaðurinn mun þorna upp og gengi IKR fara í hæðir sem enginn getur ímyndað sér. Þetta er EKKI hræðsluáróður heldur einföld staðreynd.

Við þurfum mikla hjálp og aðstoð til að koma málum hér í lag. Áætlun AGS, sem er vel að merkja áætlun samin af Íslendingum, er eini raunhæfi kosturinn okkar, að halda öðru fram er naivismi og populismi í sinni verstu mynd. Ástæða þess að aðrar þjóðir vilja aðeins hjálpa okkur í gegnum AGS er vegna þess að reynslan hefur sýnt að við kunnum ekki peningastjórnun, eða var ég að missa af einhverju ?

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 16:34

59 identicon

Skil ekki þessar röksemdir Björn:

"Ef við höfnum AGS þá missum þann gjaldeyrisbúffer sem AGS áætlunin innleiðir. Gerist það eru yfirgnæfandi líkur á að við lendum í greiðsluþroti því gjaldeyrismarkaðurinn mun þorna upp og gengi IKR fara í hæðir sem enginn getur ímyndað sér."

Þú átt þá við að það sé fleiri krónur sem vilji úr landi en evrur inn? Ef svo er á hvorri hliðinni skyldi þá þessi buffer seðlabankans að vera.

Seðlabankinn mun þurfa að kaupa allar þessar krónur til að halda stöðugu gengi sem tönglast er á í viljayfirlýsingunni margnefndu.

Litlir seðlabankar eiga ekki möguleika í fastgengisstefnu og eru kafffærðir undir eins.

Þannig að enginn galdur x út og x inn er bara grín. Spurðu Argentínumenn hvernig þeim gekk að halda uppi stöðugu gengi með gjaldeyrisvaraforða. Þeir geta sagt þér að hann spændist upp og þeir sátu bæði eftir með skuldir og ónýtan gjaldeyri.

Krónan einfaldlega fer þangað sem hún þarf að fara eftir að hún verður sett á flott. Vill benda á að munurinn á svartamarkað genginu og gengi seðlabankans er að minnka sem bendir til að þrýstingurinn á krónuna sé að minnka. Þannig að allt dómsdagshjal er úr lausu lofti gripið.

Það sem getur aukið þrýsting á krónunna er aftur á móti vitneskja spákaupmanna um stóran gjaldeyrisvaraforða í seðlabankanum með skýr fyrirmæli um stöðugt gengi. Það bara verður ekki betra fyrir gjaldeyrisbraskara. Þannig að það er hægt að færa rök fyrir því að þessi gjaldeyrisforði mun hvetja frekar en letja menn í að rústa krónunni.

Vilhjálmur, það er enginn að tala um að þurrka út lögmál stærðfræðinnar. Eins og Joseph Stiglitz benti á þá horfir AGS bara á skuldahliðina en ekkert á eignahliðina. Ef við byggjum virkjun þá hækkar skuldahliðin en mögulega hækkar eignahliðin meira.

Þannig að skera niður eitthvað sem skilar meiru af sér á eignahliðinni en sparaðist er tap? Þannig virkar allavega mín stærðfræði. Það er ljóst að það þarf að skera niður en það er alls ekki sama hvernig það er gert.

Niðurgreiðsla á gjaldeyri kemur innfluttningsaðilum, erlendum framleiðendum og gjaldeyrisbröskurum til góða en almenningi ekki nema að litlu leiti. Það eru aftur á móti almenningur sem borgar vexti og afborganir af þannig æfingum.

Hjalti Atlason (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 01:31

60 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hjalti: Það tala margir eins og það sé bara úrelt bábilja að gjaldeyrisforði styrki gjaldmiðla og komi í veg fyrir sveiflur.  Þessir sömu menn ættu endilega að skrifa um þetta greinar og birta í hagfræðitímaritum, þeir gætu jafnvel átt möguleika á Nóbel fyrir stórmerkar nýjungar í peningahagfræði.

Eins og ég hef útskýrt í fyrri bloggfærslum, þá snýst tilvist gjaldeyrisforða ekki síst um sálfræði og leikjafræði.  Ef markaðurinn veit að forðinn er enginn, eða að það er prinsipp að beita honum ekki, þá hafa spákaupmenn frítt spil að veðja á móti gjaldmiðlinum og vita að það verður engin mótstaða í því veðmáli.  Það verður nánast áhættulaus högnun (arbitrage) að skortselja gjaldmiðilinn og því fleiri sem taka veðmálið, því "betra" verður það.

Ef forðinn er á hinn bóginn nógu stór og trúverðugur, og menn hafa talað nægilega digurbarkalega um að beita honum ef þurfa þykir, þá sjá spákaupmenn að þeir muni - jafnvel með hópefli - ekki ná að brjóta niður mótstöðuna, og reyna það því ekki.  Svo það sé sagt aftur og skýrt: Ef forðinn er nógu trúverðugur, þarf aldrei að beita honum.  Það er staðan sem menn vilja vera í, þegar krónunni er fleytt.

Ég er hálfgáttaður á því hvað fólk, sem jafnvel gefur sig út fyrir að hafa reynslu úr viðskiptalífi, á erfitt með að skilja þennan einfalda sannleik - sem er viðtekinn á mörkuðum hvarvetna.

Síðan er það þannig i framhaldinu, að það mun alltaf þurfa stóran og dýran forða til að verja krónuna.  Það er einn liður í margvíslegum kostnaði sem við berum af þessum örsmáa gjaldmiðli, en aðrir liðir eru hærri vextir (hærra áhættuálag), verðtrygging, og aukinn kostnaður við sveifluvarnir hjá fyrirtækjum.

Það er ein af fjölmörgum ástæðum þess að við eigum tvímælalaust að stefna á upptöku evru.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 11:53

61 identicon

Það vekur mér furðu hvað markir taka mikið mark ennþá á hagfræðingum og hjali þeirra, eitthver ofmetnustt fyrirbrigði mannkynssögunnar, einu hagfræðingar ( og aðrair "spekingar") sem hugsanlega er hlustandi á eru þeir sárafáu sem sáu hrunið fyrir og vöruðu við því, allir aðrir mættu gjarnan þegja.

Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband