Enn um Icesave og forgangskröfur

Aðvörun: þessi færsla er einkum ætluð kreppunörðum og Icesave-djúpköfurum Cool

Ég hef áður skrifað þrjár bloggfærslur um meint rangt upplegg Icesave-samninganna varðandi það hvernig endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans ganga til innistæðutryggingasjóðanna, þ.e. þess íslenska annars vegar og þeirra bresku og hollensku hins vegar.  Því miður virðist nýjasta uppfærsla samningsins ekki taka með fullnægjandi hætti á þessu vandamáli.

Fyrst smá bakgrunnur: Ef Tryggingasjóður hefði ekki verið fyrir hendi, hefðu innistæðueigendur einfaldlega gert kröfur í þrotabú Landsbankans, hver fyrir sig, og fengið úthlutað að tiltölu upp í þær eftir því sem eignir hrykkju fyrir forgangskröfum.

En Tryggingasjóður á samkvæmt lögum að taka við umsóknum frá innistæðueigendum, greiða þeim út tryggingarfjárhæðina (20.887 EUR) og ganga inn í (yfirtaka) kröfu þeirra gagnvart þrotabúinu.  Þetta á hann að gera á grundvelli samnings (eyðublaðs) þar sem innistæðueigandinn framselur kröfu sína til sjóðsins, og fellst jafnframt á að fá greitt það sem innheimtist úr þrotabúinu upp í kröfuna, mínus 20.887 evrur sem hann hefur þegar fengið í sinn hlut úr sjóðnum.  En sjóðurinn heldur sem sagt kröfunni til streitu gagnvart þrotabúinu, tekur fyrstu 20.887 evrur af endurheimtum í sinn hlut og skilar innistæðueigandanum rest.

Takið eftir því að þarna er um að ræða einkaréttarlegan samning milli innistæðueigandans og Tryggingasjóðs.  Fyrirkomulagið hefur sem slíkt ekkert með gjaldþrotaskiptamekanisma bankans eða kröfuröð að gera, né sérstakan aukaforgang í þrotabúið; það fjallar eingöngu um skiptingu útgreiðslu - á grundvelli venjulegrar framkvæmdar gjaldþrotaskipta - milli sjóðsins og innistæðueigandans.

Nú virðist sem Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta hafi ekki haldið rétt á sínum hagsmunum (og skattgreiðenda) í Icesave-ferlinu.  Þó að Bretar og Hollendingar hafi upp á sitt einsdæmi tryggt innistæður umfram 20.887 evru lágmarkið, þá átti það engu að breyta um hagsmuni og framgangsmáta íslenska sjóðsins, sem eru skilgreindir samkvæmt íslenskum lögum og í samræmi við Evróputilskipun um innistæðutryggingar.

Kjarni vandans liggur m.a. í upphaflegum greinum 4.2(a) og (b) í breska viðaukasamningnum (Settlement Agreement), þar sem gert er ráð fyrir að FSCS (breski sjóðurinn) haldi hluta af kröfuréttindum innistæðueigenda hjá sér, og að jafna eigi út hlutfallslegar heimtur milli íslenska og breska sjóðsins.  Þetta er rangt upplegg, þar sem TIF (íslenski sjóðurinn) hefði átt að halda öllum kröfuréttindum en greiða FSCS aðeins það sem umfram yrði eftir endurheimt 20.887 evra af hverri innistæðu.

Í nýjum viðauka við Settlement Agreement er bætt við nýrri grein 4.2(c) sem býður upp á að dómur íslensks dómstóls, og samhljóða ráðgefandi álit EFTA-dómstóls, geti gefið kröfum TIF aukinn forgang (preferential basis) í þrotabú Landsbankans gagnvart öðrum kröfum (þ.e. hinum sjóðunum) vegna sömu innistæðu (relative to other claims).  Þetta er því miður langsótt og er ekki kjarni málsins.  Það er misskilningur Indriða H. Þorlákssonar og fleiri, að málið fjalli um einhvers konar aukinn forgang krafna í þrotabúið.  Það snýst ekki um það, heldur um einkaréttarlegan samning milli innistæðueigandans og TIF sem skilgreinir skiptingu endurheimtar þeirra á milli.  Hefði sá samningur verið fyrir hendi (sem hann átti að vera skv. lögum, að mínu mati), þá þyrfti ekki neinn aukinn forgang.  Enda engin lagaheimild fyrir slíku.

Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér í því sem hér stendur að ofan, og þætti vænt um að fá athugasemdir frá þeim sem telja að svo sé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Þetta er bölvað torf að samlesa og þyrfti að birta á vef stjórnarráðsins, í samfellu og á íslensku. Mér sýnist c-liðurinn kannski breyta þessu með að skipta kröfuréttinum. Þegar talað var um að Ragnars Hall ákvæðið væri inni stóð ég í þeirri trú að 4.2 (a) og (b) hefði verið leiðrétt en hef líklega misskilið eitthvað.

Verð að játa að ég hef ekki lesið nýja frumvarpið og verð að fara að bæta úr því. Maður treystir orðið svo vel á snjalla grúskara og góða bloggara. En samt; skipting á kröfuréttindum gengur aldrei upp í mínum bókum.

Haraldur Hansson, 23.10.2009 kl. 17:18

2 identicon

Varla verður annað séð en að hér sé um að ræða afar háar fjárhæðir.  Fjármálaráðherra hlýtur að svara þessu.

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 17:41

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hluti vandans er sá að FSCS er með öðruvísi reglur um endurheimt úr þrotabúi heldur en íslensku lögin gera ráð fyrir.  Reglum FSCS var nýlega breytt á þá lund að sjóðurinn fær ekki fyrstu 50.000 pund af hverri kröfu heldur aðeins hlutfallslega á móti innistæðueigandanum.  Það virðist því vera hugmyndin að láta bresku reglurnar ná yfir íslensku trygginguna einnig, en það er óþarfi og umfram skuldbindingu Íslands skv. Evróputilskipuninni.

Menn athugi einnig að eins og ég skil þetta er vandinn í sérstöku samkomulagi TIF við FSCS, ekki í hinum stóra Icesave lánasamningi samninganefndarinnar frægu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.10.2009 kl. 17:53

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta:

Kjarni vandans liggur m.a. í upphaflegum greinum 4.2(a) og (b) í breska viðaukasamningnum (Settlement Agreement), þar sem gert er ráð fyrir að FSCS (breski sjóðurinn) haldi hluta af kröfuréttindum innistæðueigenda hjá sér, og að jafna eigi út hlutfallslegar heimtur milli íslenska og breska sjóðsins.  Þetta er rangt upplegg, þar sem TIF (íslenski sjóðurinn) hefði átt að halda öllum kröfuréttindum en greiða FSCS aðeins það sem umfram yrði eftir endurheimt 20.887 evra af hverri innistæðu.

er nákvæmlega það sem ég hef haldið fram frá upphafi. Hvernig geta kröfur um greiðslu upphæðar umfram EUR 20.887 komið á undan krögunni um greiðslu upphæðar milli EUR 15.000 - 20.887?  Það skil ég ekki og hef aldrei skilið.

Marinó G. Njálsson, 25.10.2009 kl. 01:37

5 identicon

Þetta ætti að vera augljóst. Lögum samkvæmt gengur TIF inn í kröfuna, og reikningseigandi semur svo við TIF um endurheimtur.

Ef einstaklingur hefur svo einhvers konar umframtryggingu, eins og virðist vera boðið uppá hjá FSCS, hlýtur sá samningur að vera milli þeirra tveggja. Framkvæmdin _gæti_ því verið með því móti að FSCS tæki við samningi reikningsanda við TIF.

Kristján Valur (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband