Siðferðisrök, lagarök og nytjarök fyrir jái við Icesave

Þann 3. mars síðastliðinn sat ég í pallborði á opnum fundi Arion banka um Icesave-málið, og flutti við það tækifæri eftirfarandi ávarp.

---

Það er ekkert sérstakt gleðiefni að tala fyrir því að við samþykkjum samning sem gæti kostað ríkissjóð tugi milljarða vegna innistæðutrygginga Icesave-reikninga Landsbankans. En eftir að hafa kynnt mér þetta mál rækilega er ég sannfærður um að það er betra að samþykkja fyrirliggjandi samning en að hafna honum. Rökin fyrir því eru þrenns konar: siðferðileg, lagaleg og svo hrein nytjarök.

Hvað siðferðið varðar, þá legg ég mikið upp úr trausti, orðheldni, ábyrgð og gullnu reglunni: að menn komi fram við aðra eins og þeir vilja að komið sé fram við þá. Ég minni á að viðskipti almennt, allt okkar hagkerfi og reyndar samfélög manna yfirleitt byggja einmitt að verulegu leyti á þessu sama: trausti, orðheldni, ábyrgð.

Fjöldi fólks lagði sparnaðinn sinn inn á Icesave-reikninga meðal annars í trausti þess að þeir væru undir innistæðutryggingu íslenska ríkisins. Við þóttumst vera menn í það að gera út banka í samkeppnisumhverfi evrópska efnahagssvæðisins, undir sömu tilskipunum, eftirlitsramma og lágmarksskilyrðum um tryggingar og annars staðar tíðkast.

En stjórnendur Landsbankans fóru offari, svo ekki sé tekið dýpra í árinni; skuldbindingar Tryggingarsjóðs hlóðust upp langt umfram greiðslugetu, og gagnvart þeirri áhættu var hagsmuna almennings á Íslandi ekki gætt sem skyldi. Þar var m.a. sjóðnum sjálfum, fjármálaeftirliti, Seðlabanka og stjórnsýslunni um að kenna. Við, og ríkissjóður fyrir okkar hönd, sitjum uppi með ábyrgðina, svo ósanngjarnt sem það nú er.

Bretum eða Hollendingum er nefnilega ekki um að kenna, og hvað þá innistæðueigendunum; þeir eru þolendur í þessu máli. Þá sögu verður að segja eins og hún er.

Varðandi lagarök, þá eru flestir málsmetandi aðilar á því að innistæðutilskipun EES sé ótvíræð um skyldu aðildarríkja til að sjá til þess að fyrir hendi sé tryggingakerfi sem greiðir lágmarkstrygginguna refjalaust innan stutts frests frá því að innistæður verða ótiltækar. Tilskipanir EES eru þeirrar náttúru að aðildarríkjum er að miklu leyti í sjálfsvald sett hvernig markmiðum þeirra er náð, svo lengi sem þeim er náð.

Íslendingar völdu að setja upp fyrirfram fjármagnaðan tryggingasjóð með einu prósenti af tryggðum innistæðum og óljósri heimild til lántöku ef „brýn ástæða“ er til, eins og segir í lögunum. Þegar til átti að taka var víðs fjarri að sjóðurinn gæti staðið undir gjaldþroti banka; hann hefði sennilega tæmst á Sparisjóði Mýrarsýslu einum saman.

Lögfræðiálit benda til þess að EFTA-dómstóllinn sé líklegur til að úrskurða Ísland brotlegt gagnvart EES-samningnum á grundvelli kæru ESA, sem komin er í farveg; eða gefa ráðgefandi álit í þá átt, sem styðjast yrði við í lagatúlkun fyrir innlendum dómstólum. Þá eru fordæmi í Hæstarétti fyrir því að einstaklingar hafi sótt skaðabætur á hendur íslenska ríkinu vegna ófullnægjandi innleiðingar EES-tilskipunar í íslensk lög.

Ég fæ því ekki betur séð en að marktækar líkur séu á að Bretar og Hollendingar geti sótt lágmarkstryggingarupphæðina og jafnvel heildarupphæð innlánanna, ásamt dráttarvöxtum, í hendur Íslendinga með fulltingi dómstóla, og ef ekki þannig, þá með ýmsum beinum og óbeinum þvingunaraðgerðum sem gætu orðið okkur afar erfiðar.

Þá komum við að nytjarökunum. Til þess að hafna fyrirliggjandi samningi þurfa menn að sjá hag sínum betur borgið með því, eftir að hafa lagt mat á mismunandi útkomur og líkur og reiknað væntigildi. Ljóst er að útkoma úr dómstólaleið er mjög óviss. Einnig er óvíst hvaða tjón verður á orðspori landsins, lánshæfismati ríkissjóðs og innlendra lögaðila, aðgengi okkar að fjórfrelsi EES-samningsins og ýmis konar tvíhliða samvinnu við nágrannalönd. Slíkt tjón leiðir jafnframt til fórnarkostnaðar í glötuðum samstarfs- og uppbyggingartækifærum.

Hafa verður í huga að með höfnun samnings værum við að ganga á bak margítrekaðra loforða stjórnvalda gagnvart gagnaðilum okkar, Norðurlöndum, Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og svo framvegis. Lánveitingar tveggja hinna síðarnefndu hafa a.m.k. að hluta byggst á fyrirheitum stjórnvalda um að Icesave-málið væri í farvegi samninga og að Íslendingar myndu standa við skuldbindingar sínar.

Að ganga á bak orða sinna hefur óhjákvæmilega áhrif á trúverðugleika og traust Íslands í alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum um komandi ár og jafnvel áratugi, og þann kostnað er afar erfitt að meta til fjár. Talsvert af þessum óbeina kostnaði myndi falla til jafnvel þótt við ynnum fyrir rest formlegan sigur fyrir dómstólum, þar sem um er að ræða pólitísk og viðskiptaleg sjónarmið ekki síður en hreina lögfræði.

Niðurstaða mín af öllu þessu er því skýr: hvort sem litið er til siðferðilegra, lagalegra eða nytjaraka þá er rétti leikurinn í stöðunni að samþykkja fyrirliggjandi samning og snúa sér síðan með fullri orku að næstu skrefum í uppbyggingunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Er það ekki rétt Vilhjálmur að ef gengið sígur um 20% þá hækkar þessi skuldbynding upp í 200 milljarða? Finnst þér það ásættanleg áhætta fyrir kröfu sem engin ríkisábyrgð er á? Og fyrir alla muni ekki blanda siðferðisrökum inní þetta mál. Siðlausir Landsbankamenn bera alla ábyrgð og þetta var í raun ekki banki heldur glæpastofnun sem á kerfisbundinn hátt sveik út úr grunlausum sparifjáreigendum litla 1200 milljarða sem þeir vissu að aldrei væri hægt að greiða til baka.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.3.2011 kl. 00:40

2 identicon

Hin siðferðilegu rök gegn Icesave eru að ekki skuli lúta hótunum eða kúgunum hins sterka

Hin lagalegu rök öðlast fyrst merkingu við meðferð dómstóla.

Nytjarökin segir þú óviss og það er hárrétt. Það gildir í báðar áttir og úr því mun aldrei verða skorið, þar sem aðeins önnur leiðin verður farin.

marat (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 01:38

3 identicon

Það er þetta fólk sem er látið standa undir nytja og siðferðisrökum þínum Vilhjálmur.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/03/05/svelta_sig_svo_bornin_fai_mat/

Toni (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 02:52

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Skynsamleg og sanngjörn greining Vilhjálmur.

Þórir Kjartansson, 6.3.2011 kl. 08:50

5 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Með sömu rökum matti komast að þeirri röngu niðurstöðu að Icave2 væri ásættanlegur.

Frosti Sigurjónsson, 6.3.2011 kl. 10:44

6 Smámynd: Þórir Kjartansson

Ég held að þeir sem hamast mest gegn samþykkt Icesave séu persónur sem aðeins sjá  eina hlið á hverju máli.  Hvað myndu þeir hinir sömu segja ef breskur banki hefði komið til Íslands og svikið fé út úr fólki, sem íslenska ríkið hefði svo þurft að borga.  Nokkuð er ég viss um að þeir færu mikinn í því að heimta það fé til baka.

Þórir Kjartansson, 6.3.2011 kl. 10:53

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Ég fæ því ekki betur séð en að marktækar líkur séu á að Bretar og Hollendingar geti sótt lágmarkstryggingarupphæðina og jafnvel heildarupphæð innlánanna, ásamt dráttarvöxtum, í hendur Íslendinga með fulltingi dómstóla""

Þú ættir að vita orðið Vilhjálmur að ESB mun gera allt til að koma í veg fyrir að íslendingar fái á sig dóma sem gerir ríkisjóði aðildarríkjanna ábyrga fyrir innistæðutryggingasjóðum. Það væri sjálfsmorð fyrir ESB að hleypa slíku máli af stað og það er eina ástæða þess að ekki var höfðað mál þegar við feldum Icesave II sem þig lagið líka til að borga á sínum tíma ef ég man rétt.

""Hafa verður í huga að með höfnun samnings værum við að ganga á bak margítrekaðra loforða stjórnvalda gagnvart gagnaðilum okkar, Norðurlöndum, Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og svo framvegis.""

Þetta er rangt. "Loforðin" byggðust öll á því að við mundum standa við skuldbindingar okkar á grundvelli gildandi laga. Og á grundvelli gildandi laga þá skuldum við ekkert vegna Icesave nema að dómur falli á þann veg.  Þetta veist þú orðið Vilhjálmur.

Guðmundur Jónsson, 6.3.2011 kl. 11:54

8 identicon

Þitt vandamál Vilhjálmur er að þú ert siðferðilegur öryrki. Mælir með því að þjóðin sé tekin þurrt aftanfrá sem aðgöngumiði inn í ESB. Þess vegna vilt þú samþykkja Icesave3. Komdu út úr skápnum með þetta eins og heiðarlegur hommi með sín mál. Það er lítil lagaleg óvissa í því falin að fara með Icesave fyrir dómstóla, enda flestir ef ekki allir okkar helstu lagaspekingar og forystumenni í stjórnmálum sammála um það að Íslendingum beri ekki skylda til að greiða þennann Icesave reikning. Hvers vegna ættum við ekki að terysta dómstólum til að dæma eftir lögum? Þvílíkur undirlægjuháttur og skortur á sjálfsmynd og sjálfstrausti er á ferðinni hjá borgunnarsinnum Icesave eins og þér að ætla Íslensku þjóðinni að borga þennann þrælaklafa þvert gegn lögum fyrir auðmenn heimsins vegna eðlisæggs undirlægjuháttar ykkar ESB sinna sem aðgöngumiða inn í þetta aulabandalag sem heitir ESB.

Rekkinn (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 12:07

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jóhannes: Í grundvallaratriðum þá eru eignir og skuldir í Icesave-dæminu nokkurn veginn í jafnvægi hvað gjaldmiðlasamsetningu varðar, þ.e. skuldin er 100% í gjaldeyri en eignin sirka 92% miðað við nýjustu tölur. Hreyfing krónunnar hefur því ekki mikil áhrif hvað það varðar. En ef krónan veikist þannig að heimtur forgangskrafna úr búinu fari yfir 100% í krónum, þá byrja fjármunir að ganga upp í almennar kröfur í stað forgangskrafna og það er tap fyrir TIF (=okkur). Þetta kemur þannig út að viss veiking, sem er núna ca 12% frá apríl-gengi 2009, hefur ekki áhrif sem heitið getur, en veiking umfram það eykur tapið. Þetta er vissulega ein af stærri áhættum Icesave-samkomulagsins. Á hitt er hins vegar að líta, að vöruskiptajöfnuður er um þessar mundir jákvæður um yfir 100 milljarða á ári, og hreinn viðskiptajöfnuður jákvæður um allt að 200 milljarða skv. greiningu Arion banka, byggðri á nýlegri skýrslu Seðlabankans. Að óbreyttu eru því ekki miklar líkur á veikingu krónunnar, heldur ætti hún fremur að styrkjast en hitt, sérstaklega frá apríl 2009 þegar hún var enn veikari en nú.

Marat: Gallinn er sá að dómstólaleiðin tekur 2-3 ár og allt verður í óvissu á meðan, þar á meðal viðskiptatraust Íslendinga, lánshæfismat, AGS áætlunin og pólitísk staða okkar gagnvart nágrannalöndum, m.a. Norðurlöndum. Ég held að tapið á þeirri óvissu eitt og sér verði meira en upphæðin sem samningurinn kostar.

Toni: Ég tel að samningaleiðin kosti íslenskan almenning minna en dómstólaleiðin þegar allt er talið, þess vegna vil ég fara hana.

Guðmundur: Í fyrstu umferð er það ESA sem fer með málið fyrir EFTA-dómstólinn, ekki Bretar og Hollendingar. Sá dómur verður kveðinn upp, sama hvort við eða þeir viljum - ef ekki verður samið.

Eftir því sem ég hef kynnt mér lagahlið málsins betur, tel ég ljósara að yfirlýsingar stjórnmálamanna sumra um að "engin lagaskylda sé fyrir hendi" séu ætlaðar til samningabrúks og ágætar sem slíkar. En það er aldrei gott að taka ákvarðanir á grundvelli stöðumats sem er ekki gagnrýnið og hreinskilið. Nú eigum við öll að greiða atkvæði um þetta mál og þá skiptir máli að á það sé lagt kalt og raunsætt mat.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.3.2011 kl. 15:03

10 identicon

Rétt hjá þér Vilhjálmur

Auðvitað eigum við að borga. Einkavæða gróðan handa vini þínum Björgúlfi Thor en þjóðnýta tapið hans, alveg eins og við eigum að gefa þér og Björgúlfi skattaafslætti svo þið getið gefið okkur eitt stykki gagnageymslu svo þið megið græða en ætli við borgum ekki ef þetta er allt vitleysa hjá ykkur félögunum??????

Kom on Vilhjálmur talaðu ekki um siðferðilegar skildur.

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 15:47

11 identicon

Skammastu þín Vilhjálmur! Þú sem syndir í seðlum og alsnægtum,talar um það að þjóðin eigi að taka á sig byrðar þær sem sameigandi þinn og vinir Björgólfarnir hafa komið þjóð sinni í  NEI og aftur NEI Vilhjálmur þjóðin á ekki að þurfa að borga þessa gjörninga peningamanna og þjófahyskisins NEI ICESAVE  NEI  ESB.

  Vilhjálmur ef einhver er siðblindur að þá ert það þú. Skammastu þín aftur.

Númi (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 17:21

12 identicon

Vilhjálmur, mér finnst þessi pistill ágætur svo langt sem hann nær. Get ekki látið hjá líða að minnast á þessi orð þín "

Hvað siðferðið varðar, þá legg ég mikið upp úr trausti, orðheldni, ábyrgð og gullnu reglunni: að menn komi fram við aðra eins og þeir vilja að komið sé fram við þá. Ég minni á að viðskipti almennt, allt okkar hagkerfi og reyndar samfélög manna yfirleitt byggja einmitt að verulegu leyti á þessu sama: trausti, orðheldni, ábyrgð."

Þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum var sú beiting byggð á trausti, orðheldni og ábyrgð?

Ég vil sjá nýjan samning þar sem skortur á þessum atriðum og beiting hryðjuverkalaga verði reiknuð út til lækkunar á kröfum Breta. Annars hafa þessi orð enga þýðingu. Hvernig getum við treyst Bretum varðandi traust, orðheldni og ábyrgð þegar þeir hafa beitt þessum lögum?

Munu framtíðarsamskipti þjóðanna verða bara eins og ekkert hafi í skorist?

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 18:25

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hafþór: Ég geri ráð fyrir að samninganefndin, sem stjórnarandstaðan átti vel að merkja fulltrúa í, hafi haldið þessu atriði til haga í samningunum. Að minnsta kosti verður ekki lengra komist í samningaviðræðum og þá er annað hvort að samþykkja fyrirliggjandi samning eða fara í dómstólaleiðina. Hún getur tekið 2-3 ár og á meðan beðið er eftir niðurstöðu ríkir mikil óvissa, m.a. um aðgang okkar að lánsfé frá AGS og Norðurlöndum, um lánshæfi ríkissjóðs, Landsvirkjunar og OR, um aðgang okkar að fjórfrelsi EES, um trúverðugleika íslenskra stjórnvalda sem mótaðila í samningum til lengri tíma o.m.fl. Ég vil meina að sú óvissa muni kosta okkur talsvert meira en þessa 32 milljarða nettó sem samningurinn er nú talinn kosta að bestu manna yfirsýn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.3.2011 kl. 18:34

14 Smámynd: Gunnlaugur I.

Þú ert ekki í lagi og berlega ESB aftanóssi !

Gunnlaugur I., 6.3.2011 kl. 18:57

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég get ekki látið hjá líða að benda á að lítið fer hér fyrir málefnalegum rökum þeirra sem vilja gagnrýna pistilinn minn. Meira er af alls kyns uppnefnum og dónaskap. Þetta hygg ég að sé málstað þeirra sem eru ósammála mér lítt til framdráttar, nema síður sé.

En gaman væri að fá fram betri rökræðu sem hjálpar fólki að taka góða og upplýsta ákvörðun 9. apríl. Ekki veitir af í svo flóknu og mikilvægu máli. Reyndar má segja að þessi athyglisverða tilraun með þjóðaratkvæðagreiðslu um svona flókið mál standi og falli með því hvort unnt sé að eiga vitræna rökræðu um það.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.3.2011 kl. 19:08

16 identicon

Það er ESA sem ákveður hvort farið sé með mál til meðferðar hjá EFTA dómstólnum.

Ef að eftirlitsstofnun ESA telur að Íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn EES samningnum um að koma á innistæðutryggingakerfi þá skýtur hún málinu til úrskurðar hjá EFTA dómstólnum. Til þess að það geti gerst þarf eftirlitsstofnunin að að komast að þeirri niðurstöðu að Íslensk stjórnvöld hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EES samningnum.

Það er ekki líklegt að ESA komist að þeirri niðurstöðu, meira en 10 árum eftir að tryggingasjóðurinn var setur á laggirnar, að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum samningsins við stofnun sjóðsins.

Og þó að ESA komist að þeirri niðurstöðu að stofnun Íslenska tryggingasjóðsins hafi verið með með lakari hætti en kveðið er á um í tilskipuninni þá mun EFTA dómstóllinn ekki komast að þeirri niðurstöðu af þeirri einföldu ástæðu að dómstólar dæma eftir lögum og réttarheimildum og Evrópusambandið byggir einmitt á lögum og rétti.

Íslenska tryggingasjóðnum var komið á laggirnar samkvæmt ákvæðum og skilyrðum EES samningsins og var og er jafn löglega rekin og tryggingasjóður Noregs Hollands og Bretlands sem og sjóðir annarra ríkja innan sambandsins.

Og þá á eftir að sýna fram á að eftirlit með starfsemi icesave hafi verið á hendi Íslenskra stjórnvalda sem hafa ekki lögsögu í Bretlandi eða Hollandi svo dæmi sé tekið.

Siðferðisrökin eru augljós hverjum sem einhverntímann hefur lesið í guðspjöllunum eða gluggað í stjórnarskrám lýðræðis ríkja. Sömu rök lúta að nytsemisforsendunum. Við einfaldlega erum ekki lengur með hvort annað á matseðlinum af hagnýtis og siðferðisástæðum.

Toni (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 19:34

17 identicon

Innlegg Gunnlaugs I. er minna en einskisvirði. Ekki loka hjá þér athugasemdakerfinu vegna svona smámuna. Þú ert vonandi meiri maður en það.

Toni (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 19:41

18 identicon

Vilhjálmur.

Það er ekkert að því og ekki málefnaleg fátækt að benda á tengsl þín varðandi þinn málfluttning.

Og það er málefnaleg afstaða að vilja ekki borga fyrir einkavæðingu bankanna eða eins og kallað er að þjóðnýta tapið og einkanýta gróðann.

Það er ekki heldur málefnaleg fátækt að benda á siðblindu þína þegar þú sem ráðgjafi iðnaðarráðherra kallar á sértækar aðgerðir fyrir gróðafyrirtæki sem þú átt í sameign með Björgúlfi Thor. manninum sem var kallaður valdamesti maður Íslands vegna áhrifa sinna í bankakerfinu sem nú á að láta mig og aðra sem gagnrýndu á málefnalegan hátt hvernig var staðið að einkavæðingunni með samþykkt Samfylkingarinnar.  Og það er aumt og dapur að verða vitni að því að Steingrímur J. Sigfússon er búinn að gera sig að þeim ómerkingi sem hann er, með því að endurreisa peningakerfi sem er úrsér gengið og handónýtt, allt frá lífeyrissjóðum til bankanna.

Af hverju talar þú Vilhjálmur ekki málefnalega um Icesave og segir okkur frá því hvernig viðræður um inngöngu Íslands í EES muni fara ef við samþykkjum ekki???

Það væri fróðlegt að heyra málefnalega umræðu frá þér um það.

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 19:45

19 identicon

Vilhjálmur! Þjóðin á ekki að borga krónu af Icesafe á meðan viðskiftafélagar þínir, Björgólfsfeðgar ganga lausir og óskiftir.

Og það er SKANDALL að ríkisstjórnin, með samþykki þingmanna úr 4flokka samspillingunni, skuli eiga í bullandi viðskiftum við þá feðga með hjálp þinni.

Skammastu þín.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 20:15

20 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Toni: Sérstakar þakkir fyrir málefnalegt innlegg.  Þú lýsir aðdraganda dóms hjá EFTA-dómstólnum rétt.  Það ferli er komið nokkuð langt nú þegar, því ESA hefur lagt fram formlega ábendingu (letter of formal notice) sem Íslendingar eru á margframlengdum fresti með að svara.  Beðið er niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.  Málinu myndi ljúka með samningunum við B&H, en halda áfram til EFTA-dómstólsins að öðrum kosti.  Röksemdir ESA þarf hver að meta fyrir sig, en mér finnst þær sterkar.

Íslensku lögin eru þannig að stjórn TIF getur tekið lán ef fjármuni sjóðsins þrýtur og brýn þörf krefur, eins og stendur í lögunum.  Í reynd eru lán B&H þau lán sem stjórn sjóðsins tekur skv. lögunum, en til þess að tryggja endurgreiðslu höfuðstóls og vaxta af lágmarkstryggingunni þarf ríkissjóður að ábyrgjast það sem upp á kann að vanta árið 2016.

Þú þyrftir eiginlega að lesa ESA bréfið því það yrði of langt mál fyrir mig að svara því sem þú nefnir varðandi það hvort Íslendingar hafi uppfyllt skyldur sínar með því að stofna TIF með 1% iðgjaldi.  Ég bendi þó á að það er óvenju lágt framlag í samanburði við það sem gerist annars staðar, og að orðalag um lántöku sjóðsins er óvenju óljóst miðað við t.d. við Svíþjóð þar sem það er skýrt í lögum um tryggingasjóðinn að hann fær lán frá lánasýslu Svía (Riksgälden) ef hann vantar fé.

Sigurður: Ég er að reyna að tala málefnalega um Icesave, en fæ misjöfn svör, eins og þitt svar er dæmi um.  Ef menn vilja á annað borð fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um svona mál, þá tilheyrir að fram fari lýðræðisleg skoðanaskipti þar sem rök eru sett fram með og móti.  Almenningur á að fá tækifæri til að kynna sér rökin og umræðuna, taka þátt í henni og mynda sér skoðun á grundvelli hennar.  Það lýsir einkennilegum skilningi á lýðræði að fyrtast við því að þeir sem eru á annarri skoðun en maður sjálfur setji sín rök fram.  Ef við eigum að halda áfram á braut beins lýðræðis, þá þurfum við líka að tileinka okkur betri umræðuhefð.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.3.2011 kl. 21:35

21 identicon

Vilhjálmur Þorsteinsson,viðskiptafélagi Björgólfs Thors,hvetur fólk að jáast Icesave.

Er það rétt þú hámenntaði Vilhjálmur að þú sért aðstoðarmaður eða ráðgjafi Iðnaðarráðherra.? Í mínum augum er Samfylkingin,Kommúnistaflokkur.

Gerðu ekki lítið úr þeim og þar á meðal undirrituðum,að við séum ekki með málefnanleg svör gagnvart hræsni þinni,því að mínum dómi ertu ,,siðblindur.

Gættu þín Vilhjálmur að mikil nærvera við Björgólfana getur smitast af siðblindu og einhverju öðru miklu verra.NEI NEI NEI ICESAVE og NEI NEI NEI E S B.

Númi (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 21:48

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þýðir eigi að benda á bréf ESA því fólk fæst ekki til að lesa.

Reyndar ætti að þýða þetta á íslensku.  Bréfið.

En nei nei, þá þýða menn eitthvert álit einhvers Örebekks um álit ESA. Maður skilur ekki svona.

Málið er bara að það að uppfylla ekki skuldbindinguna sem fram er sett í dírektífi telst brot.  Vegna þess að þar er um að ræða ,,obligation of result".  Og skyldurnar eru skýrar.  Lágmarksbætur ef á reynir.  Og lögin veita einstaklingum réttindi.  ,,Confer right on individuals".

Undan ofangreindri skyldu er engin leið að ríki komist undan.

Ofan á þetta og allt um kring kemur Jafnræðisreglan.  Grunprinnsipp EES og stjórnarskrá má segja.  Bannað að mismuna.  það er bara bannað.  Ekki flóknara e það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.3.2011 kl. 21:49

23 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ómar Bjarki: Hvar er þessi íslenska þýðing á Örebech?  Ég reyndi að lesa hann á ensku og tókst ekki, tilþrif hans í enskri málfræði (og stafsetningu) eru of háþróuð og exótísk fyrir mig.  Hlakka til að sjá hvernig þýðandinn hefur leyst úr vandanum, t.d. hvernig hann hefur þýtt þessa fullyrðingu Örebechs: "No additional obligation in addition to EC directive 94/19 is out of question."

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.3.2011 kl. 22:56

24 identicon

Vilhjálmur.

Ég hef aldrei lesið eins vitlaus og einfeldningsleg öog eru í pistli þínum. 

Hvað aðrar athugasemdir varða þá las ég ekkert þeirra, enda var það þessi pistill þinn sem kom mér í uppnám.

Ég átti engan banka og lofaði hvorki mínum landsmönnum né annarra landa neinum ofurvöxtum.

Og ég á ekki og ætla ekki að borga skuldir auðmanna.

Það er ekki nóg að vera orðinn gjaldþrota á Íslandi en eiga auðæfi erlendis, til að fá mig til að hlaupa undir bagga með þessum þjófum. Sem stela úr mínum vasa núna á hverjum einasta degi.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 23:07

25 identicon

Já ég lagði nú mín rök fyrir um að við eigum ekki að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið. Ég veit að það er ekki sér íslenskt heldur krafa þeirra sem smíðuðu reglugerðir um frjálst fjármagnsflæði innan Evrópusambandsins og reyndis svo meingallað. Ég er á móti því líka að hisja buxurnar upp um vanhæfa blíantsnagara frá Brussel.

Margir segja að það að greiða Icesave geri okkur að betri skuldurum, líkast til með sömu rökum og Jón Ásgeir gat vaðið inn í alla banka hér á landi og fengið miljarða í lán, af því hann skuldaði öllum svo mikið. En við ættum að læra af reynslunni og forðast að koma íslenska ríkinu í sömu spor og Jón Ásgeir er í núna.  Það verður ekki happadrjúgt því aldrei mun það verða liðið að íslenska ríkið taki lán og komi þeim fyrir á Tortúlu, það mun Alþjóðabankinn passa upp á.

Af hverju þurfum við að aflétta gjaldeyrishöftum. Ég hef ekki orðið var við að þau trufli mig í mínum rekstri og svoleiðis held ég að sé um 99% íslensku þjóðarinnar. Það kæmi sér sjálfsagt vel fyrir þá sem tóku stöðu gegn krónunni að gjaldeyrishöft yrðu afnumin og líka fyrir spilafíklana sem fjárfesta fyrir lífeyrissjóði landsmanna. Af hverju þurfa þeir að fjárfesta erlendis?  Er það ekki bara misskilningur ég er á þeirri skoðun og held að það ætti að taka þá alla og gera þá upp og afhenda peningana  til eiganda þeirra. Af hverju að vera með 10% skatt til að halda uppi valdakerfi fyrir menn á borð við Vilhjálm Egilsson og Víglund Þorsteinsson? Ég botna ekki í því.

Vonandi næst að innheimta sem  mest af eignum Landsbanka Íslands og breska og hollenska ríkið  fá það sem þær lögðu út til að bjarga eigin skinni og borga Icesavetryggingar. Á því ber ég enga ábyrgð. Og ég ætla að vona að ég verði ekki gerður ábyrgur fyrir því og börn mín og barnabörn látin borga fyrir aðalsstéttina sem er alltaf að bjarga okkur með því að taka meiri og meiri lán. 

Þurfum við lán? Af hverju þarf svona mikið af lánum til að stofna gagnaver Vilhjálmur?  Er ekki hægt að byggja það upp í rólegheitum með eiginfé eigandanna. Fé sem þeir taka úr rassvasanum, fé sem þeir eru tilbúnir að hætta til að fá kanski rentur af seinna? Af hverju  þarf að taka 10 krónur að láni fyrir hverja eina sem þið leggið fram og að einhver annar taki ábyrgð á þessum 10 krónum í þessu tilviki íslenska ríkið?  Ég held að þetta sé bad business fyrir mig en kanski ekki fyrir þig? 

Kanski finnst þér þetta ekki málefnalegt, en mér finnst það. Mig langar að skygnast inn í heim ykkar sem viljið samþykkja Icesave til að ísland fái AAA hjá Múddís.

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 23:31

26 identicon

Höfnum Icesave III af allskonar ástæðum. Siðferðislega af því ekki er borð fyrir báru til þess að taka enn einn sénsinn á eignum þrotabús einkabanka. Það er fjárhagslegt brálæði að skrifa undir ríkisábyrgð á meðan evran riðar til falls og skuldabréfabólan í Evrópu er við það að springa. Íslenskur almenningur hefur auk þess engar siðferðislegar skyldur gagnvart ríkisstjórn sem frysti eignir þeirra 8. október 2008.

Lagarökin skipta ekki höfuðmáli ef 2-3 ár tekur að leysa úr deilunni fyrir dómstólum. Ef rétt er staðið að málum þá verður þrotabúið/TIF búið að greiða ríkisstjórnum Breta og Hollendinga um 400 milljarða í lok sumars. Innnan árs þá verða 20 þús. evrurnar greiddar (630 ma.) og kröfur Breta og Hollendinga beinast þá að þrotabúinu en ekki íslenskum almenningi. Nytjarökin eru að ríkissjóður borgar ekkert ef þessi leið er farin.

NN (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 23:44

27 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Á vef Alþingis er ísl. þýðing á eftir enska textanum:  ,,Peter Örebeck, Noregi (á ensku og íslensku) (umsögn)"

Öll erindi:   http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=139&mnr=388

Og beint á álitið: (ísl þýðing byrjar um miðbik skjalsins) 

,,Icesave samningar:  Umfjöllun um lagalegan misskilning með sérstakri áherslu á Eftirlitsstofnun EFTA  (ESA)

Unnið fyrir fjárhagsnefnd Alþingis.  Peter Örebech, Háskólanum Tromsö, Noregi."

http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=139&malnr=388&dbnr=1155&nefnd=fl

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.3.2011 kl. 23:47

28 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sigurður, við þurfum að aflétta gjaldeyrishöftunum vegna þess að með hverjum degi sem líður þá skaða höftin hagkerfið og auka ójöfnuð!!  Þú tekur kannski ekki eftir því núna en það muntu gera ef þau vara mikið lengur.

Á meðan Seðlabankinn ræður gengi krónunnar en ekki opinn markaður þá sendir krónan röng skilaboð um hagkerfið sem leiðir til þess að fjárfest er á röngum stöðum og neyslan verður of mikil.  Það leiðir af sér sóun og lífskjaraskerðingu.  -  Í dag erum við að lifa af fjárfestingum síðustu ára, en til að halda sömu lífsgæðum þá þarf meiri fjárfestingu og minni sóun!

Samkvæmt núverand gjaldeyrishöftum þá þurfa þeir sem hafa háar erlendar fjármagnstekjur ekki að skila þeim til landsins!!  Bíddu Sigurður!!  Ertu sáttur við að þeir taki ekki þátt í endurreisn landsins?  Ertu sáttur við að útrásarvíkingarnir séu stikkfríir???  Nú ertu kominn í mótsögn við sjálfan þig ef þú telur höftin góð sem sleppa víkingunum við að taka þátt í endurreisninni.

Þess vegna þurfum við að afnema gjaldeyrishöftin!!  Þau mismuna og þau skaða!

Það gleymist að taka þann gríðarlega kostnað sem fylgir gjaldeyrishöftunum þegar sagt er að það kosti ekkert að hafna Icesave III.  Kostnaðurinn er líka félagslegur vegna þess að höftin hygla auðmönnum en refsa almenningi.

Lúðvík Júlíusson, 6.3.2011 kl. 23:57

29 identicon

Lúðvík  Ráðherrabróðir,  þú nefnir þarna enn og aftur um afnám haftana. En einsog ég hef sennilega spurt þig um áður annarsstaðar að mig minnir,hve mikil er hættan í sambandi við losun á Jöklabréfunum,verður ekki algert hrun og draumur Samfylkingarinnar fer á flug gagnvart réttlætingu á Evruni hingað.

Númi (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 00:03

30 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Númi, við vitum öll að þú vilt hygla auðmönnum umfram aðra í landinu.  Það þýðir ekkert að hóta okkur með algöru hruni verði því hætt.

Það verður ekki algert hrun ef höftin verða afnumin á markvissan hátt.

Lúðvík Júlíusson, 7.3.2011 kl. 00:07

31 identicon

Hvernig hefta gjaldaeyrishöftin almenning?.

Almenningur getur ferðast þangað sem hann vill og hefur efni á. Takið sinn gjaldaeyrir eins og var fyrir örfáum árumm  og notað svo krítarkortin eins og það vill. sé engin höft fyrir almenning o þessum gjaldaeyrishöftum.

Það er bara ágætt að haf höftin lengur. Þá fara ekki gamblarar með hann til fjandans á meðan.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 00:11

32 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sigrún Jóna: Mér þykir leitt að pistillinn hafi komið þér í uppnám.  Því miður snýst Icesave-deilan um skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vegna innistæðutrygginga erlendis, ekki "skuldir auðmanna".  Þeir sem áttu að gæta hags almennings í þessu máli brugðust og leyfðu skuldbindingum tryggingasjóðsins að fara upp úr öllu valdi.  Eftir að bankinn hrundi lögðu Bretar og Hollendingar út sirka 1150 milljarða til innistæðueigenda í hinum íslenska Landsbanka.  Þeir vilja fá helming þeirrar upphæðar til baka frá Íslendingum vegna lágmarkstryggingar innistæðna.  Þeir og Íslendingar eiga síðan kröfu í þrotabú Landsbankans sem mun standa undir ca. 85-90% af upphæðinni, en restin lendir á skattborgurum, hérlendis og í Bretlandi og Hollandi. Um þá stöðu snýst málið.

Sigurður: Innistæðutryggingar eru staðreynd og skuldbinding skv. lögum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, eða köllum það að "þjóðnýta tapið".  Þær tíðkast hvarvetna en Bandaríkjamenn komu þeim á fót í kreppunni miklu um 1930.

Að öðru leyti hefurðu nokkuð sérkennilegar skoðanir varðandi það að gjaldeyrishöft séu fín til frambúðar, að lífeyrissjóðir eigi ekki að eiga erlendar eignir, að gera eigi upp lífeyrissjóði, og að ekki þurfi lán í rekstur og fjárfestingar.  Mér væri nær að halda að þú sért að grínast, en vissulega má segja að það sé rökrétt fyrir þann sem hefur þessar skoðanir að segja nei við Icesave-samningi.

NN: Vandinn er sá að skuldin hverfur ekki þótt ekki sé skrifað undir samning. En ef atburðarásin verður eins og þú lýsir, þá borgum við heldur ekki neitt með undirrituðum samningi, ef Ragnars Hall túlkunin nær fram að ganga, sem ég tel talsverðar líkur á.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.3.2011 kl. 00:14

33 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sigrún, lestu það sem ég skrifa í athugasemd frá kl. 23:57!

Höftin senda röng skilaboð um hagkerfið!  Það ýtir undir sóun, rangar fjárfestingar og meiri neyslu en hagkerfið stendur undir til lengdar!

Þau hygla jafnframt auðmönnum með því að sleppa þeim frá skilaskyldu á fjármagnstekjum!  Öll útflutningsfyrirtæki og allur almenningur þarf að skila fjármagnstekjum sínum til landsins en ekki auðmenn!  Ertu sátt við það?

Fjármagnstekjur eru skattlagðar en þar sem auðmenn sleppa við að skila fjármagninu til landsins þá er það ekki skattlagt hér á landi!  Þannig sleppa þeir ekki einungis við að skila gjaldeyri til landsins heldur sleppa þeir einnig undan skattlagningu.  Almenningur þarf þá að taka á sig þyngri byrðar.  Ertu sátt við það?

Hefur almenningur virkilega það gott að hann hafi efni á að hygla auðmönnum?

Lúðvík Júlíusson, 7.3.2011 kl. 00:18

34 identicon

Eitthvað er Lúðvík Júlíusson Ráðherrabróðir að misskilja mig og ekki í fyrsta sinn,því hann veit andúð mína á þeim auðmönnum sem drýgt hafa  ófyrirgefanlega glæpi gagnvart þjóð sinni,með aðstoð Samfylkingarinnar. Það veit Lúðvík.

Númi (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 00:22

35 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Númi, ég er ekkert að misskilja þig og hef oft svarað þér.  Það verður ekkert hrun, það er ekkert að óttast ef afnámið verður markvisst.

.. og ég veit ekki andúð þína á auðmönnum.  Ég skil þig einmitt þannig að þú viljir vekja nægilega ótta í fólki svo það fari að óttast breytingar til hins betra.  Það er kannski misskilningur en þannig kemurðu fyrir.  Ef þú segir mér hver þú ert eða hvernig ég get haft samband við þig þá getum við rætt þetta annars staðar og eytt öllum misskilningi.  Við skulum ekki fara að gera mikið úr misskilningi ef hann er enginn á þessu bloggi.

Lúðvík Júlíusson, 7.3.2011 kl. 00:35

36 identicon

"Því miður snýst Icesave-deilan um skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vegna innistæðutrygginga erlendis, ekki "skuldir auðmanna". "

Þetta er lýgi Vilhjálmur og það veistu.

Þangað til að ríkisstjórnin gerir grein fyrir því hvert Icesafe peningarnir fóru og hvar þeir eru. Ásamt því að skilgreina hvernig hún hyggst ná þeim til baka og lágmarka og eða greiða að fullu Icesafe með þeim. Ásamt því að refsa þeim seku. Þetta voru jú GLÆPIR.

Þá ERU ÞETTA OG VERÐA SKULDIR AUÐMANNA. LANDSBANKAMAFÍUNNAR sem enn gengur laus.

Þökk sé siðspilltum samspillingarpésum sem gefa skít í þjóð sína og hugsa eingöngu um skjótan gróða í skjóli og undir pilsfaldi jafnspilltra HRUNA RÁÐHERRA. Og alþingismanna.

Utanríkisráðherra Japana sagði af sér í dag. Af hverju Jú hann fékk einhverja 600 us$ Eða 69.000. Íkr. í kosningaframlag.

Kom þú svo og predikaðu um siðferði Íslensku þjóðarinnar og að hún eigi að borga Icesafe skuldir FJÁRMÁLAGLÆPONANNA og Ráðherrana sem þáðu mútur þeirra.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir: Landsbanki 3.500.000. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: Landsbanki 1.500.000. Guðlaugur Þór Þórðarson: Landsbanki 1.500.000. Kristján Möller: Landsbanki 500.000. Össur Skarphéðinsson: Landsbanki 1.500.000. Björgvin G. Sigurðsson: Landsbanki 1.000.000. Guðbjartur Hannesson: Landsbanki 1.000.000. Helgi Hjörvar: Landsbanki 400.000. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir: Landsbanki 300.000. Ragnheiður Elín Árnadóttir: Landsbanki 300.000. Árni Páll Árnason: Landsbanki 300.000. Jóhanna Sigurðardóttir: Landsbanki 200.000. Katrín Júlíusdóttir: Landsbanki 200.000.

Og því ætti þetta lið að segja sig frá þingstörfum, þar til fulldæmt hefur verið í Ícesafe og Landsbanka þjófnaðarmálum öllum. Það myndu allir heiðvirðir þingmenn alvöru lýðræðisríkja gera.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 00:49

37 identicon

Og að sjálfsögðu ættir þú Vilhjálmur að segja af þér úr öllum embættum fyrir stjórn þessa, sem hafa með peninga og Icesafemál að gera.

Fattarðu það ekki maður,

AÐ ÞÚ ERT GJÖRSAMLEGA VANHÆFUR eins og allir mútuþegar Landsbankans að fjalla um Icesafe sem viðskiftafélagi og hægri hönd Bjorgólfs.

Og að voga þér að tala um siðferði um leið og þú segir að þjóðin eigi að greiða skuldir viðskiftafélaga þinna, er hámark hrokans.

Siðspilling samspillingaraflanna nær nýjum hámörkum hvern einasta dag. Og þú berð þá siðspillingarkórónu hæst.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 01:02

38 identicon

http://www.litlaisland.net/corruption/draw/2/302/

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 02:13

39 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Auðvitað snýst þetta um skuld tryggingarsjóðs.  það er margbúið að skýra þetta út fyrir fólki.  þetta var og er sjóður sem ríki áttu að koma upp sem tryggði ákv. lágmark og var í raun neytendavernd sem komið var upp á ábyrgð ríkja á öllu EES svæðinu. 

Málið hlýtur eðli máls samkv. að snúast um þetta.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.3.2011 kl. 09:46

40 identicon

Sæll Vilhjálmur.

Ég er algjörlega sammála niðurstöðu þinni. 

Það sem þú kallar "Nytjarök" ætti að vera nóg til að sannfæra hvern hugsandi mann.

Björn (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 10:59

41 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það er e.t.v. ástæða til að árétta það sem ég segi í pistlinum, að frumorsakir vandans liggja annars vegar hjá stjórnendum Landsbankans, sem náðu þeim merkilega "árangri" að tapa þremur krónum af hverjum fjórum sem bankanum var treyst fyrir, og hins vegar hjá stjórnvöldum sem gættu ekki hagsmuna almennings gagnvart gríðarlegri ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda.  Það er réttmætt að beina reiði og sárindum að þessum aðilum eftir atvikum.  Hitt er órökréttara að beina henni að sendiboðanum, þótt skilaboðin séu sár og erfið.

En á hinn bóginn verður að hafa hlutföll mála í huga.  Miðað við nýjasta mat skilanefndar og samninganefndar lenda nettó 32 milljarðar króna á ríkissjóði, sem greiddir verða á 5-6 árum.  Þetta er lægri upphæð en sett var á dögunum inn í Íbúðalánasjóð, og aðeins brot af því sem gjaldþrot Seðlabankans kostaði.  Jákvæður vöruskiptajöfnuður er um þessar mundir 100 milljarðar á ári og hreinn viðskiptajöfnuður  er talinn vera um 200 milljarðar.  Það þýðir að gjaldeyrir safnast upp sem þessu nemur til ráðstöfunar til uppgreiðslu á skuldum.  Því eru sem betur fer allar líkur á að Icesave málið valdi ekki meiriháttar búsifjum fyrir Íslendinga.  Ýmis önnur mál verðskulda ekki síður að menn æsi sig yfir þeim.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.3.2011 kl. 13:45

42 identicon

Það veit alþjóð Vilhjálmur, að Landsbankamenn "TÖPUÐU ekki þremur krónum af hverjum fjórum sem bankanum var treyst fyrir"

Bankinn var RÆNDUR INNANFRÁ af eigendum og stjórnendum. Og það er hámark SIÐLEYSISINS AÐ RÍKISSTJÓRNIN standi í viðskiftum við svona menn. Sem eigendur Landsbanka eru.

Og hér sjást vel tengsl þín við þá:

http://blog.eyjan.is/larahanna/files/2009/12/bjorgolfur_thor_og_vilhjalmur_c3beorst.jpg

http://blog.eyjan.is/larahanna/2009/12/22/upplysingar-og-gagnsaei-i-augsyn/

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 14:15

43 identicon

Hvorki þú Vilhjálmur ne aðrir geta fært nein rök fyrir þessu bullmáli ykkar Icesave !!   þó þú sjálfur sert liKlega báðu megin við borðið eins og flestir peningaplokkarar þessa lands þá er ástæðulaust að vera flytja SKIT Á MILLI BANKA  !!!.Skúli Mágnússon Ritari hja Efta útskyrði þetta mál ágætlega i Silfrinu  hja Agli um helgina Og það er trúverðugra  eins og margt fl. sem sagt hefur verið af utanaðkomandi fólki um Icesavemálið en ykkur þessum staurblindu pólitikusum og Auðvaldsinnum her heima   !! þess vegna má þessi Icesave máladraugur ykkar dingla her á milli landa svo lengi sem mögulegt er OG VONANDI GERIR ÞAÐ !! það er svo annað mál og mikið verra hvað þetta mál sem er aðgöngumiðinn að ESB er notað á ósvifinn og niðurlgjandi hátt á hinn almenna borgara  Elsku borga þú og aðrir svona peningabubbar sem ekki vitið af þvi ...endilega  ...En það vita allir að það mynduð þið aldrei gera   !!! 

Ransý (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 15:51

44 identicon

Auðmanninum Vilhjálmi Þorsteinssyni,munar ekki mikið um að borga í Icesave.

V I L H J Á L M U R    S K A M M A S T U   Þ Í N   E N N   OG   A F T U R.

Númi (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 17:52

45 identicon

Sæll Vilhjálmur

Ég tek heils hugar og hjartanlega undir ummæli Ransý.  Orða hennar segja hug okkar flestra, sem erum bara nóboddíar í öskustó hrunsins.

Mundu Vilhjálmur, að fátt er ömurlegra en þegar (góðir?) menn reyna að troða siðferði, lög og nytjar niður í svaðið.  Og skreyta sig jafnvel með því að þykjast vera jafnaðarmenn, meðan þeir skara eld að eigin köku (ma. á kostnað skattborgara sem formaður nefndar um framtíðarstefnu um auðlindanýtingu) og ganga erinda alþjóðlegra gróðapunga og auðróna.  Það er ekki fallega gert Vilhjálmur minn, meðan sauðsvartur almúginn er troðinn niður í svaðið.  Vill ekki meintur jafnaðarmaður finna meintri gæsku sinni betri farveg og þá til heilla fyrir okkur öll, hin vesælu?  Hringdu nú Vilhjálmur minn í Björgólf og láttu hann díla um skuld sína.  Hann getur td. rætt við Deutsche Bank, höfuðstöðvarnar í Frankfurt.

Við, niðurnídd íslensk þjóð, borgum ekki skítaskuld Björgólfs.  Svo einfalt er það Vilhjálmur.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 18:04

46 Smámynd: Rúnar Ingi Guðjónsson

-Því miður hef ég nú ákveðið að segja NEi við Icesave samningum.

-Ástæður þess eru fréttir af ofurlaunum sem Bankastjórar nýju bankanna eru að skammta sér.

-Fréttir af Breskum bönkum þar sem milljarða ofurbónusar eru greiddir út þessa daganna.

Það eru tvö atriði sem geta komið í veg fyrir þvi að ég segi Nei.

-Önnur er sú að Björgólfur Thor,viðskipta félagi þinn Þorsteinn, verði sóttur til saka fyrir landráð vegna aðgerða eða aðgerðaleysis sem eigandi Landsbankans.

-Í öðru lagi að Bankastjórar Arions og Íslandsbanka endurgreiði oftekin laun síðasta árs inná uppgjörsreikning vegna Icesave.

Rúnar Ingi Guðjónsson, 7.3.2011 kl. 21:51

47 identicon

Sæll Villi,

ég hnaut um þessa færslu þína:

En á hinn bóginn verður að hafa hlutföll mála í huga. Miðað við nýjasta mat skilanefndar og samninganefndar lenda nettó 32 milljarðar króna á ríkissjóði, sem greiddir verða á 5-6 árum. Þetta er lægri upphæð en sett var á dögunum inn í Íbúðalánasjóð, og aðeins brot af því sem gjaldþrot Seðlabankans kostaði. Jákvæður vöruskiptajöfnuður er um þessar mundir 100 milljarðar á ári og hreinn viðskiptajöfnuður er talinn vera um 200 milljarðar. Það þýðir að gjaldeyrir safnast upp sem þessu nemur til ráðstöfunar til uppgreiðslu á skuldum. Því eru sem betur fer allar líkur á að Icesave málið valdi ekki meiriháttar búsifjum fyrir Íslendinga. Ýmis önnur mál verðskulda ekki síður að menn æsi sig yfir þeim.

Er að þínu mati lítill munur á "stærð IceSave" og eiginfjárframlagi til Íbúðalánasjóðs og svokölluðu gjaldþroti Seðlabankans?

Það er hreint ótrúlegur misskilningur að halda þessu fram og því þarf að skoða af hverju:

* IceSave er ekkert annað en samningur um erlenda skuld og eignir að bakvið eru fastar í ISK, svo þar er mikil gengisáhætta yfir langan tíma sama hvað hver segir, ennfremur er ENGIN lagastoð fyrir skuldbindingu á hendur íslenskum skattgreiðendum. Við íslendingar erum að skuldsetja okkur, og af hverju vita ekki allir, í mynt sem við getum ekki prentað eða aflað í neyð. Dómsdagsspár og hræðsluáróður er algjörlega búinn að missa marks áður og byrjaður að gera það enn á ný...

Svo er alltaf jafn furðulegt að heil þjóð setji allt sitt trúss á mat 5 starfsmanna skilanefndar, með ekkert álit utanaðkomandi matsmanna á umræddu eignasafni. Það amk. nægir mér ekki.

* Eiginfjárframlag í Íbúðalánasjóð er föst krónutala í ISK, hrein peningaprentun, þar sem Ríkissjóður stingur skuldabréfi inn í Íbúðalánasjóð....framtíðar skattar fá svo reikninginn þegar þar að kemur. Þar að auki ber að minnast á að þetta eiginfjárframlag fór aðallega í að fjármagna svokallaðar "aðgerðir handa heimilunum" eða var það byggingakostnaður "skjaldborgar", ég bara man það ekki lengur, en það var eitt kosningaloforða sitjandi stjórnar svo erfitt er að sjá hversu mikið þetta getur tengst IceSave að neinu leyti.

* Gjaldþrot Seðlabankans er málinu algjörlega óviðkomandi og réttlætir ekki að skrifa uppá skjal sem í sér felur framtíðaráhættu af mörgum toga. Svo á ég alltaf jafn erfitt með að skilja hvernig sá sem framleiðir einhverja mynt getur verið gjaldþrota í sömu mynt en það er önnur saga. Ennfremur á eftir að koma í ljós hvað það meinta gjaldþrot verður í tölum þar sem ESÍ er með eignir til að selja uppí skuldir gömlu bankanna.

* Þessi margrumræddi viðskiptajöfnuður sem öllu er að bjarga í dag er svo gríðarlega ofmetin stærð. Það sést best hér: http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8527 en þarna (bls 2 fyrir miðju) kemur fram að viðskiptajöfnuður 2010 er um 30ma króna. ÞRJÁTÍU !

Að lokum þá minni ég á hræðsluáróður sitjandi stjórnvalda fyrir IceSave II í Desember 2009 en þá gerðist fátt af því sem stjórnin spáði. Síðan þá hafa hins vegar Marel, Össur, Landsvirkjun og fleiri sótt sér fé erlendis. Kínverjar hafa undirritað samstarfssamninga við okkur á ýmsum sviðum og sent fjölmenna sendinefnd. DnB NOR hefur gengið í opinbert samstarf með Íslandsbanka á sviði eignastýringar. Fleiri ferðamenn koma nú en nokkurn tímann áður. Ýmsir framleiðendur vilja reisa hér verksmiðjur og vinnslur. Icelandair reka markaðsstarf í fjölmörgum ríkjum og hafa ekki heyrt neitt um þetta innan sinna herbúða.

Svo er Össur nú að flytja alfarið í Dönsku kauphöllina með Íslenskan forstjóra.

Ef íslendingar væru með þetta slæmt orð á sér og stjórnmálamennirnir og aðrir vilja meina, þá er þetta nú allt stórskrýtið. Það hlýtur einhver rannsóknarnefndin að skoða þetta.

kveðja Styrmir

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 22:51

48 identicon

Frumorsök vanda Íslendinga, Breta, Hollendinga og Íra er evrópskt regluverk hannað í City of London og oftrúa á bókfærðum eignum banka.

Ríkisábyrgð á Icesave skuldsetur ríkissjóð yfir 100% af VLF og óþarfa áhætta er tekin. Fyrir hrun var ekki hlustað á aðvörunarraddir. Hlustum núna á aðvaranir Gunnars Tómassonar, Ólafs Margeirssonar ofl. Viðskiptajöfnuður er enn neikvæður (15 - 20 ma)og Seðlabankinn áætlar að hann verði það út 2013 vegna Icesave. Samt gera Icesave sölumenn ráð fyrir að gengi krónunnar styrkist á tímabilinu?!?

Þriðja leiðin er fær þ.e. að láta þrotabúið greiða 20 evru innlánstrygginguna (630 ma) sem fyrst út til Breta og Hollendinga. Þetta tekur innan við 12 mánuði og "skuldin" hverfur um leið og lánshæfi ríkissjóðs styrkist. Þeir sem vilja deila um keisarans skegg fara á meðan dómsstólaleið.

NN (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 23:25

49 Smámynd: Guðjón Eiríksson

Sæll Vilhjálmur.


Fyrir alla muni láttu skítkastið sem vind um eyru þjóta. Það eru jafnan hinir rökþrota sem til þess grípa.

 Ég læt hér fylgja hlekk á grein sem Alain Lipietz skrifaði um Ríkisábyrgð vegna Tif.

Ég hef þó eitt við þessa umræðu að bæta og það snýst um neyðarlögin.

Með þeim var farið, nánast í skjóli nætur, inn í þrotabú bankanna og  og fjármagn tekið traustataki til þess að stofna ríkibanka.

 Um leið voru innlendar innistæður fluttar yfir, en Icesave innistæður skildar eftir.

Það má færa gild rök fyrir því að Icesave samningurinn sé í raun  viss leið til að leiðrétta þá mismunun sem átti sér stað með þeim gjörningi.

Með því að greiða innistæðurnar út hafi B og H forðað Íslenska ríkinu frá flóðbylgju skaðabótamála af hálfu Breskra og Hollenskra innistæðueigenda.

Má kannski gera ráð fyrir því með að synjun á Icesave samningnum falli af þeim sökum skaðabætur á Íslenska ríkið gagnvart B og H ríkinu?

Bara svona enn ein pælingin

Guðjón Eiríksson, 7.3.2011 kl. 23:45

50 identicon

TIL GLÖGGVUNAR.::Vilhjálmur Þorsteinsson,er með skítkast á þjóðina,að ætla henni að borga braskið á Björgólfsfeðgum og vinagengi þeirra,og er Vilhjálmur hinn ofurríki Þorsteinsson í því gengi(Vonandi hef ég rangt fyrir mér með það.).Á þjóðin að hreinsa upp skítin eftir Bjöggana og gengið þeirra. Ég man eftir Vilhjálmi þegar hann var um fermingaraldurin,og var hann mikið séní í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og var fjallað um hann í fjölmiðlum þá. Það er ekki spurning að Vilhjálmur er ágætlega gefin í ýmsu,en,en,en að reyna að telja þjóð sína á það að greiða fyrir þjóðarbandítana,,,kemur EKKI til greina. Það er greinilegt líka að LandráðaJóhanna og hennar gengi hefir tekist að heilaþvo Vilhjálm,og er það miður. Er það satt Vilhjálmur ertu Ráðgjafi hjá Katrínu Júlíusdóttur Iðnaðarráðherra.? Vilhjálmur hvað veist þú sem þjóðin veit ekki. ?

Númi (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 00:04

51 Smámynd: Guðjón Eiríksson

Eftir að hafa lesið grein Alain aftur sé ég að hún svarar spurningu minni að hluta.

Verst að það mun ekki falla í hans hlut að dæma í málinu verði dómstólaleiðin

ofan á.

Fyrir þá sem ekki nenna að lesa grein Alain Libietz alla læt ég hér fylgja afritaða málsgrein úr henni. Hafa ber það í huga að A L er hér að fjalla um upphaflega samninginn.

Þegar tiltekið aðildarríki Evrópusambandsins veitir opinbera aðstoð sem þessa er það vissulega svo að greinar 106 og 107 (fyrrum 86 og 87) í stofnsáttmála Evrópusambandsins, mæla svo fyrir að öll fyrirtæki og íbúar viðkomandi ríkis skuli hljóta sömu meðhöndlun: Þetta er meginreglan um að ekki megi mismuna.  Íslenska ríkinu var þannig heimilt að takmarka hækkunina á ábyrgðinni á innistæðutryggingunni við þá sem bjuggu á Íslandi, að því tilskyldu að það næði einnig til allra sem áttu fé í útibúum erlendra banka á Íslandi.

En næsta málsgrei er líka fróðleg:

En þetta er í rauninni algert aukaatriði. Grein 107 kveður á um að það sé Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að skerast í leikinn ef ekki er allt með felldu. Hún gerði það hins vegar ekki, svo mjög var þessi „þjóðernislega“ afstaða ríkjandi í október 2008

Sjálfur tel ég að skynsamlegra sé að semja í þessu tilfelli, en ég skil vel sjónarmið þeirra sem eru mér ósammála.

Guðjón Eiríksson, 8.3.2011 kl. 00:11

52 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Aldrei skilið afhverju fólk fór að láta svona mikið með þannan Líplíetz.  Ekkert merkilegt sem frá honum kom.  Jú jú, í klausu sem birtist að ofan virðist hann fatta Jafnræðisregluna. 

Eru soldið svona þessir karakterar sem hafa verið dregnir á flot og kallaðir ,,erlendir fræðimenn" sem segi að Ísland ,,eigi ekki að borga" o.s.frv.  Að þegar upp er staðið er þeirra mál ekkert relevant varðandi efnið.

Fólk ætti að átta sig á því þegar það les álit ESA.

Málið er svona í fáum orðum:  Útibú LÍ  erlendis voru undir sama tryggingarkerfi og útibú LÍ hér á landi oþal. var Ísland undir þeirri skyldu að meðhöndla á saa hátt.  Hér á landi sá ríkið til þess að allir aðilar að máli voru tryggðir og verndaðir uppí topp.  Ekki erlendis.  þar áttu þeir bara að sjá til hvort ekki næðist eitthvað uppí þetta á mörgum árum gegnum eignir.

þetta er eins augljóst brot samkv. dírektífinu og Jafnræðisreglu EES og nokkur hlutur getur verið.

þegar það hefur verið sagt, þá hefur ekki jafnframt verið sagt að Ísland eigi sér ekki einhverjar málsbætur - en þær eru ekki þess eðlis að þær afmái skuldbindingu Íslands varðandi erlendu útibúin.  Málsbæturnar þurrka ekkert skuldbindinguna út eða hin augljósu brot og bresti sem verða á framkvæmd EES samningsins af Ísland hálfu.   þessvegna þarf að semja um málið sem siðuðum ríkjum sæmir - sem var og gert.

Sáraeinfalt sko.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.3.2011 kl. 00:46

53 identicon

Sæll Vilhjálmur

Er það rétt sem ég hef frétt, að þú og Arnar Guðmundsson ætlið að halda svona jess-áróðurs-hópeflis-fund í félagsheimili Samfylkingarinnar að Hallveigarstíg 1 á miðvikudagskvöld?  Sögunni fylgdi að Björgólfur Thor muni mæta með 50 cent á fundinn og það verði svona skemmtiatriði sem hann ætli að leggja gratís til?

Er þetta rétt frá sagt Vilhjálmur?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 02:39

54 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

"Takið á móti frískandi heilaþvotti og lærið að heilaþvo fjölskyldumeðlimi yðar."  Daði  Ingólfsson...  Þannig hef ég heyrt að námskeið þeirra verði... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.3.2011 kl. 03:22

55 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég sé að margir sem hér gera athugasemdir vilja láta meintar skoðanir og hagsmuni Björgólfs Thors Björgólfssonar ráða atkvæði sínu 9. apríl nk. Þeir hinir sömu þurfa þá fyrst að gera upp við sig hvor okkar meintu talsmanna hans fari rétt með hans málstað, þ.e. ég eða Reimar Pétursson hrl. (sjá http://www.dv.is/frettir/2011/2/25/alitsgjafi-um-icesave-var-starfsmadur-novator/) en Reimar telur af og frá að semja.

Styrmir: Takk fyrir málefnalegt framlag, þetta eru allt punktar sem er full ástæða til að ræða.

Það er vissulega gengisáhætta í samningnum, að því marki að ef krónan veikist frá aprílgengi 2009 svo mikið að 100% fæst upp í forgangskröfur í búinu og peningar fara að "leka" yfir í almennar kröfur, þá er það tap fyrir TIF og okkur.  Ég tel áhættuna þarna hins vegar ekki mikla miðað við sterkan undirliggjandi vöruskipta- og viðskiptajöfnuð.  En ef stóráfall yrði, annað hvort í hagstjórn eða umhverfi, er þessi hætta fyrir hendi.  Við þurfum því að fara varlega næstu 5 árin, þ.e. til 2016 þegar málið verður uppgert nema eitthvað óvænt komi upp á.  Það hjálpar þó að ég er sannfærður um að erlend fjárfesting mun aukast á næstu árum ef við göngum frá Icesave-málinu

Varðandi eignamat skilanefndar, þá virðist framgangurinn vera eðlilegur í því og reiðufé búsins eykst með hverjum fjórðungi.  Reiðufé og krafa á NBI eru nú um 690 milljarðar.  Deloitte gerði nýlega úttekt á verkferlum og matsaðferðum skilanefndar og taldi þar vera réttilega að verki staðið.

Gagnvart skattborgurum koma 33 milljarðar í Íbúðalánasjóð mjög svipað út og 32 milljarðar í Icesave.  Um er að ræða skuldbindingu um afhendingu vöru og þjónustu í hagkerfinu sem standa þarf við.  Vissulega reyna 32 milljarðarnir á gjaldeyrisforða einnig, en forðinn er núna norðan við 750 milljarða og vöruskiptajöfnuður 100+ á ári þannig að álagið af þeirri tölu er ekki til að hafa verulegar áhyggjur af miðað við annað.

Gjaldþrot Seðlabankans fólst í því að hann hafði veitt bönkum (nýprentað) reiðufé í krónum í skiptum fyrir veð í skuldabréfum bankanna sjálfra ("ástarbréf").  Þetta reiðufé var afhent bönkunum og þeir lánuðu það út til sinna viðskiptavina.  Það myndar tilkall til afhendingar vöru og þjónustu í hagkerfinu, eða í mörgum tilfellum til afhendingar gjaldeyris til erlendra lánardrottna.  Það er því rangt að segja að þarna sé ekkert tjón á ferðinni; þvert á móti er það mjög eðlislíkt Icesave nema hvað upphæðirnar eru miklu stærri.

Viðskiptajöfnuðurinn er tekinn ítarlega saman í nýju plaggi Seðlabankans um skuldastöðu þjóðarbúsins.  Á síðu 31 kemur fram að undirliggjandi viðskiptajöfnuður m.v. reiknað uppgjör úr þrotabúum en án Actavis er áætlaður 12,8% af VLF (ca 200 milljarðar) á árinu 2010, 12,3% árið 2011 og 12,0% árið 2012.  Miðað við þessar tölur er gjaldeyrisstreymi vegna Icesave "piece of cake".

"Hræðsluáróðurinn" vegna fyrri Icesave samninga miðaði við að prógramminu með AGS yrði hætt og frekari lántökur frá Norðurlöndum fengjust ekki.  Sem betur fer tókst að afstýra þeirri stöðu, með því að margítreka fyrirheit um að Íslendingar hyggðust ljúka Icesave með samkomulagi og standa við skuldbindingar sínar.  Hafa t.d. Lee Buchheit og Andrew Speirs lokið sérstöku lofsorði á framgöngu stjórnvalda, einkum fjármálaráðherrans, gagnvart AGS og öðrum til að fá þetta í gegn. Ég minni á stóra gjalddaga skulda ríkissjóðs í lok þessa árs og spyr hvernig menn ætli að komast í gegn um þann skafl og aðra án góðs samkomulags við nágrannalönd og AGS.

Loks er það rétt að ég og Arnar Guðmundsson munum halda námskeið/fræðslufund um Icesave fyrir félagsmenn SffR á miðvikudagskvöld, allir félagsmenn velkomnir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.3.2011 kl. 11:09

56 identicon

Þú talar um að TIF hafi brugðist með því að hafa aðeins 1% (eða minna) tiltækt í sjóði til þess að mæta áföllum. Þér hlýtur að vera kunnugt um það, að hliðstæðir trygginasjóðir annarra Evrópulanda eru með mjög svipað hlutfall tryggðra innistæðna í sínum sjóði. Sumir minna (sumir alls ekkert), sumir meira.  En þetta eru örfá prósent í öllum tilfellum og 0,7% að meðaltali.

Bankakerfi margra annarra Evrópulanda eru líka sama marki brennd og það íslenska hvað varðar fjölda banka og mismunandi stærð þeirra. Of fáir bankar í hverju innistæðutrygginakerfi, þar af sumir allt of stórir hlutfallslega. Þetta gildir ma í Breltandi og Hollandi. Þetta eru hönnunargallar á innistæðutryggingakerfum Evrópu, sem komu í ljós á Íslandi og almenningur á Íslandi ætti ekki undir neinum siðferðisrökum að þurfa að taka ábyrgð á.

Tökum annað dæmi. BP átti borpall í Mexikóflóa. Hann bilar. Olía flæðir um allt. Mikill skaði. Hver á að borga skaðann? BP og tryggingafélag þess væntanlega. En ef þau getur ekki greitt þennan gríðarlega skaða? Verður þetta þá sjálfkrafa skuld bresks almennings (við skulum láta sem BP sé ennþá breskt félag)? Punkturinn er þessi: Þótt tryggingafélagið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, verður skuldin ekki  þar með sjálfkrafa á ábyrgð almennings í heimlandi fyrirtækisins.

Nytjarökin eru það eins sem hugsanlega er hald í hjá þér.

Ragnar (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 11:43

57 identicon

Sæll Vilhjálmur

Og takk fyrir svar þitt og staðfestingu á því að þið Arnar verðið með jess-áróðurs-hópeflis-fundinn fyrir full-gilda safnaðarmeðlimi Samfylkingarinnar í musteri hennar í höfuðborginni sjálfri.

Fundurinn verður sem sé, en ég skil vel að þú viljir ekki uppljóstra neinu um leynigestina sem ég spurði um hvort satt væri að muni mæta, sjálfan Björgólf Thor og 50 cent ... leyndó er jú leyndó ... svona til að rapp-gangstera-fílingurinn verði algjör í sælu ykkar.

Já, bara fyrir fullgilda jess-meðlimi segirðu?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 12:13

58 identicon

Þessir gallar innistæðutrygingakerfisins eru í raun svo augljósir, að furðu sætir að ESB skyldi láta sér detta í hug að innleiða það.

Frjálst flæði fjármagns milli banka, meira og minna eftirlistlaust (ekki bara á Íslandi) , en innistæðutrygginasjóðurinn á ábyrgð heimamanna? Eða hvað? Er ekki hægt að gera þá siðferðislegu kröfu á hendur lagasmiðum ESB, að þeir tiltaki það berum og skýrum orðum í dírektífinu eða annars staðar, ef ríkisábyrgð á að vera á innistæðutryggingasjóði hvers lands?

Þú talar um að Sænski innistæðutrygginasjóðurinn hafi aðgang að ríkislánum, til þess að standa undir skuldbidningum sínum. Gott og vel. En gert ráð fyrir því að starfandi bankar greiði þau lán til baka. Hér var öðrum bönkum ekki til að dreifa, þegar 85% af kerfinu hrundi. Í Þýskalndi og Frakklandi eru yfir 1000 fjármalastofnanir, sem vel geta tekið skellinn, ef 1-3 bankar falla í hvoru landi. En hér á landi, með svona lítið tryggingakerfi (fáa iðgjaldsgreiðendur) þá er tryggingakerfið markleysa, nema einn lítill sparisjóður í smáþorpi falli.

 Þetta er gott dæmi um það, þegar smáþjóð tekur umhugsunarlaust upp kerfi, sem hannað er fyrir allt aðrar aðstæður.

Ragnar (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 12:29

59 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,, .. að hliðstæðir trygginasjóðir annarra Evrópulanda eru með mjög svipað hlutfall tryggðra innistæðna í sínum sjóði"

 Sjáðu hvernig ESA tekur á þessum rökum.  Eigi relevant segir ESA.  Vegna þess að Ísland er eina ríkið sem hefur ekki uppfyllt umrædda skudbindingu.  þannig að þessi ,,röksemd" sumra ísllendinga er álíka og einhver fremdi eitthvert afbrot og sér til varnar segði hann:  Ja, aðrir hefðu líka hugsanlega geta framið álíka afbrot!  Þessvegna er eg sýkn saka o.s.frv.  Heldur engu vatni auðvitað.

,,As stated above, Directive 94/19 contains no exemption from payment for exceptional circumstances.

As regards comparison with deposit guarantee schemes in other EEA States the Authority would first like to observe that such comparison is, as a matter of law, irrelevant with regard to whether Iceland has complied with its obligations under the Directive.

Moreover, during the financial crisis that struck in the autumn of 2008, the other Member States took measures to avoid deposits becoming unavailable. Thus, the depositors with the Icesave branches in the Netherlands and the United Kingdom are the only ones who have not received even the minimum compensation from the deposit guarantee scheme responsible under the Directive.“

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.3.2011 kl. 12:34

60 identicon

Ómar - afbrotadæmið sem þú tekur nær þessu ekki. Tökum annað dæmi  - um öryggisbúnað í fiskiskipum. Öll fiskiskip eru (í dæminu) eins, þau hafa einn gúmmbjörgunarbát og eitt blys- eins og lög gera ráð fyrir. Síðan sekkur eitt skip með manni og mús. ESA segir: Öryggisbúnaðurinn var ófullnægjandi. Skipaeigandinn telur vörn í því, að aðrir bátar hafi verið með nákvæmlega sama öryggisbúnað, þann sem lögin gerðu ráð fyrir - og ég er sammála honum. Það er vörn í því.

Að dírectífið hafi ekki haft fyrir því að tiltaka, að innistæðutrygginakerfið væri ekki hannað fyrir kerfishrun, eins og hér varð, segir allt sem segja þarf um dírektífið o ghöfunda þess. Þeir kusu að láta það ósagt, hvað gera skyldi, ef kerfishrun yrði. Hins vegar var öllum ljóst um alla Evrópu, að engin raunveruleg ráð voru fyrir hendi, ef kerfishrun yrði í einhverju landi. Þeir stungu bara höfðinu í sandinn (íslensk stjórnvöld reyndar líka). Auðvitað hefði þurft að vera SAM-evrópskur tryggingasjóður til þess að tryggja SAM-Evrópskt bankakerfi. Frjálst flæði fjármagns gengur ekki, ef fall einstakra banka á að vera ábyrgð heimamanna.

Ég hef áður notað samlíkinguna um IKEA-leiðbeiningarnar:

Að vitna í Dírektífið, núna þegar kerfishrun hefur orðið (þegar ekki er minnst á kerfishrun í Dírektífinu) er það sama og að halda áfram að lesa upp úr IKEA bæklingi, til þess að setja saman hillu, sem fallið hefur saman í jarðskjálfta.

Ragnar (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 13:03

61 identicon

Sælir,

* Ég deili ekki matinu á gengisáhættu samningsins og er það óháð spurningunni hvort greiða skuli yfir höfuð.  Það að vafi leiki á ríkisábyrgð vegna TIF í ofanálag við kostnað og gengisáhættu er hins vegar samantekið óásættanlegt að mínu mati.

* Eignamat skilanefndar kann að vera eðlilegur, en er ekki líka eðlilegt að utanaðkomandi aðili taki út 20-30 stærstu eignirnar og skýri frá hugsanlega staðfestu mati ?  Er það ekki bara enn sterkari málatilbúningur fyrir þá sem vilja ganga við þessum samningi ?  Þetta tæki 3-5 virka daga !

* "Gjaldeyrisforði" uppá 750milljarða er tálsýn, þetta er hinsvegar yfirdráttur sem er aðgengilegur en á yfirdrátt stólar maður varla þegar maður skipuleggur framtíðina.  Eignalaus skuldari er ekki betri skuldari þó hann hafi aðgang að yfirdrætti, eini munurinn er að kröfuhafarnir verða fleiri.

* Auðvitað varð tjón þegar Seðlabankinn tapaði þessum kröfum, en gjaldþrot er ekki rétt orðalag þó það henti málstað ákveðinna stjórnmálaafla.  Ég spyr hins vegar mátti forða þessu tjóni ?  Seðlabankinn var gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi árin fram að hengifluginu og ég spyr bara hvaða spurninga við værum að spyrja okkur í dag ef Seðlabankinn hefði neitað að sinna hlutverki sínu þegar þessi bréf voru gefin út ? 

* Ég vitna svo aftur í nýbirta grein, 2.mars 2011,  Seðlabanka Íslands hvað viðskiptajöfnuð varðar, þar viðskiptajöfnuður er 30ma kr allt árið 2010.

* Hræðsluáróðurinn hefur verið á fullu bústi síðan Svavar kom heim með sína glæsilegu niðurstöðu.  Gylfi Magnússon þáverandi ráðherra talaði um "Kúbu norðursins" og Þórólfur og fleiri málpípur fóru mikinn í ömurlegum málflutningi.  Það verður bara að viðurkennast að EKKERT af þessu hefur ræst og engar líkur eru til að neitt gerist ákveðum við að fá niðurstöðu ágreiningsmáls fyrir dómstólum.  Allt annað er ekkert annað en "handrukkun".

kveðja, Styrmir

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 13:24

62 identicon

Athugasemd til Guðjóns Eiríkssonar.

Þú segir: Með neyðarlögunum "var farið, nánast í skjóli nætur, inn í þrotabú bankanna og  og fjármagn tekið traustataki til þess að stofna ríkibanka. " Af þessu má nánast skilja, að þú og ég eigum að vera þjakaðir af samviskubiti yfir þessari ráðagerð. Að við eigum að fletta upp í siðfræðikafla Vilhjálms hér að ofan, til þess að leita okkur að sáluhjálp. Lengi vel hafði ég slíkt samviskubit. 

En þetta mun þó vera alsiða í hinum siðmenntaða fjármálaheimi - að innistæður séu teknar út úr föllnum bönkum og settar inní aðra nýja banka, á kostnað óvarinna kröfuhafa. Nú síðast var þetta gert vegna falls Amagerbanken í Danmörku fyrir fáeinum vikum. Þetta er ein leiðin til þess að tryggja lágmarksinnistæður.

En kannski er þetta dæmi um það sem Ómar fjallar um í dæminu að ofan. Kannski er þetta glæpur, þótt önnur lönd (DK, Svíþjóð, Bretlandi, Holland etc.) tíðki þetta líka og Michel Barnier hjá ESB mæli með þessu.

Ragnar (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 13:28

63 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Við verðum að hafa það í huga að bankar starfa í allt öðru umhverfi en önnur fyrirtæki og stofnanir.

Bankar hafa heimild til að taka á móti innlánum og hafa að sama skapi heimild til að nota þessi innlán til útlána.  Bankar hafa heimild til að lána meira en innlánin standa undir og sömuleiðis hafa bankar heimild til að hafa minna reiðufé til staðar en sem nemur heildar innlánum.

Þetta gera þeir með sérstöku leyfi undir eftirliti FME og Seðlabankans.

Hættan í núverandi bankakerfi er bankaáhlaup.  Það þýðir að innistæðueigendur fari og taki innistæður sínar út úr bönkum og setji undir koddann.  Þegar það gerist þá minnkar útlánageta bankanna og þeir neyðast jafnvel til að gjaldfella lán til að tryggja sér lausafé.  Þetta veldur því að fyrirtæki skortir fjármagn til að standa undir daglegum rekstri, innkaupum og þess háttar.  Bankaáhlaupið skaðar þess vegna ekki einungis "eigendur bankanna" heldur einnig allt hagkerfið.

Til að tryggja eðlilegt greiðsluflæði á óvissutímum og til að minnka líkurnar á bankaáhlaupum þá var byggt upp kerfi innistæðutrygginga.  Það tryggir innistæðueigendur en ekki eigendur bankana.  Hugmyndin er sú að eigendur sparifjár séu öruggir og þurfi ekki að óttast um sparnað sinn.

Þess vegna er samanburður á milli innistæðutryggingakerfisins og reksturs einkafyrirtækja ekki mögulegur.

Lúðvík Júlíusson, 8.3.2011 kl. 13:29

64 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Nei þetta er ekki sambærilegt dæmi. 

Í umræddu dæmi er búið að vetia einstaklingum ákv. réttindi með lögum.  Ríkið veitir þessi réttindi með lögum.  Lögin segja:  Alltaf lágmarksbætur.

Síðan þessi lög voru sett á EES svæðinu hefur þeim alltaf verið framfylkt.  Alltaf.

Það að segja að hugsanlega geti einhver annar framið afbrot - er auðvitað ekkert relevant.  Það verður bara tekið á því þegar og ef þar að kemur.  Núna er það Ísland sem er í bresti gagnvart umræddum lögum.

Þegar maður les álit ESA, þá skýrist eða highlightast mikið hve málflutningur einhverra 2-3 lagaséffa hérna uppi er í raun kjánalegur.  Því miður.

þessi rök um ,,kerfishrun"  eiga ekkert við.  Ísland var ekki í stakk búið til að kövera einu sinni brot af einum banka gegnum umrætt tryggingakerfi!  Kerfishrun eru vissar málsbætur - en þær þurrka ekkert út skuldbindinguna og afbrotið. 

það er ekkert mikil nýjung að kerfin í Evrópu þurfi að taka lán fyrir skuldbindingum sínum.   Sum hafa meir að segja lánafyrirgreiðslu frá ríkinu með einu eða öðrum hætti.   Núna er daska kerfi td. að óska eftir lánum á frjálsum markaði vegna falls Amagerbankans.  Ætti danska kerfið ekki að segja bara:  Ja, sjóðurinn er búinn?  Þetta dettur engum í hug einfaldlega vegna þess að dírektífið inniheldur kjarna sem er ,,obligation of result" að einstaklingar fái bætur.   Og dírektífið veitir einstaklingum rétt ,,confer rights on individiuals".  Ríkið verður að sjá til þess að einstaklingar fái þennan rétt.  Það liggur meir að segja fyrir dómur í ECJ þar sm má ráða að ríkið verði ábyrgt fyrir lágmarkinu þó dómurinn hafi ekki þurft að dæma sérstaklega um það.

þar að auki, þar auki, þó ofantalið væri þurkað út - þá væri Ísland samt skaðabótaábyrgt vegna Jafnræðisfaktorsins!  Ísland dekkaði og verndaði innistæður hér á landi á - og ekki bara lagmarkið!  Nei uppí topp!

Ísland sem sagt verndaði atriði hér uppí topp sem sumir vilja fara með fyrir Alþjóðlega dómsstóla og segja að ríki beri bara alls enga ábyrgð á umræddu atriði!  Komi umrætt atriði eins og inhverjar innstæður bara ekkert við!   Sem það þó köveraði og verndaði uppí topp hér!

Hvaða dómstóll heldurðu að fallist á svona hringavitleysumálflutning?  Eg er bara ekki að sjá að slíkur dómsstóll fyrirfinnist.  því miður.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.3.2011 kl. 13:40

65 identicon

 Lúðvík.  

"Hugmyndin er sú að eigendur sparifjár séu öruggir og þurfi ekki að óttast um sparnað sinn."

Hugmyndin er sú, já, en reyndin er önnur. Núverndi innistæðutrygignakerfi nær ekki þessum markmiðum.

Því þarf að breyta innistæðutryggingakerfinu, og einnig þrengja og hefta starfsemi bankanna, t.d. skylda þá til þess að starfa undir opnum tjöldum (gera stærri útlán þeirra opinber t.d.) .

Þótt þörfin fyrir innistæðutryggingakerfi sé brýn, þá er kerfið ekki nógu vel hannað. Það nær ekki markmiði sínu.

En ég er sammála þér, hugmyndin um "einkabanka" er markleysa, ef mistök í rekstri þeirra eiga að vera á ábyrgð ríkissins.

Ragnar (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 13:46

66 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. og svo ættu sumir íslendingar að íhuga líka að ESA lítur svo á að Tryggingasjóðurinn sé það kallast á evrópuleveli ,,emanation of the state".  Og í skilningi EES Samningsins hluti af ríkinu.

þetta rökstyðja þeir mjög vel hjá ESA eða skýra út.  þetta mikil nýjung fyrir marga íslendinga:

,,

"Finally, the Authority considers that the Fund forms part of the Icelandic State within the meaning of the EEA Agreement although it is, in Icelandic law, constituted as a private foundation, cf. Article 2 of Act No. 98/1999. 

As a consequence any breach by the Fund of the Directive is directly attributable to the Icelandic State.

The Court of Justice has held that a directive may be relied on as against a State,  regardless of the capacity in which the latter is acting, that is to say, whether as employer or as public authority. The entities against which the provisions of a directive that are capable of having direct effect may be relied upon include a body,   whatever its legal form,  which has been made responsible, pursuant to a measure adopted  by the State, for providing a public service under the control of the State and has for that purpose special powers beyond those which result from the normal rules applicable in relations between individuals."

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.3.2011 kl. 14:05

67 identicon

Rannsókn á fyrirhuguðum ríkisstyrkjum til gagnavers Verne í umsagnarferli

27.1.2011

PR(11)03 - Icelandic version

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, kallar eftir athugasemdum við ákvörðun um að hefja rannsókn á stuðningi ríkisins og Reykjanesbæjar við Verne Holdings. Samkeppnisaðilar, hagsmunaaðilar og aðrir sem telja sig málið varða, eiga þess nú kost að senda athugasemdir til ESA. Frestur til þess rennur út þann 28. febrúar 2011.

Formleg rannsókn á opinberum stuðningi við gagnaver Verne í Reykjanesbæ hófst þann 3. nóvember á síðasta ári, sjá fréttatilkynningu ESA nr. 10/62.

Ákvörðun ESA um rannsóknina birtist í dag í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, ásamt þýðingu á útdrætti hennar á þjóðtungur allra 27 aðildarríkja ESB, sjá Stjórnartíðindi Evrópusambandsins 27. janúar 2011.

Útdráttur úr ákvörðuninni á íslensku var í dag einnig birtur í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Hann má nálgast á bls. 22 í EES-viðbæti 4/2011 frá 27. janúar 2011. Ákvörðunina í heild er að finna á ensku á vefsíðu ESA, ákvörðun nr. 418/10/COL.

Íslenskum yfirvöldum verður gefinn kostur á að tjá sig um framkomnar athugasemdir. Unnt er að óska nafnleyndar í samræmi við gildandi málsmeðferðarreglur, sbr. 6. gr. bókunar 3, um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar, við samning milli EFTA-ríkja um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Athugasemdir skulu sendar á neðangreint póstfang eða á netfangið registry@eftasurv.int.

Frekari upplýsingar fást hjá:

Trygve Mellvang-Berg

Fjölmiðlafulltrúa ESA

sími +32 2 286 1866

farsími +32 492 90 01 87

Smá spurning Vilhjálmur.

Ef að þessi fyrirgreiðslupólitík kemur til með að springa í andlitið á ríkisstjórninni eins og alt þeirra klúður í sambandi við Icesafe hingað til.

Á þá Íslenska þjóðin einnig að bera skaðann af því ef við fáum á okkur málaferli og dómskröfur út af þessu máli?

Eða getum við búist við því að eigendur Verne beri skaðann?

P/S. Ómar, þar sem þú ert nú specialisti í öllu sem viðkemur málum ESA og samspillingar. Endilega fræddu okkur.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 17:31

68 identicon

@11:09

Rit Seðlabankans sem þú vísar í gerir ráð fyrir neikvæðum viðskiptajöfnuði fram til 2013 (15 - 20 ma. á ári)á bls.17. Það er afar villandi að vísa til "undirliggjandi viðskiptajöfnuðar" sem er m.a. tilraun til þess að giska á hvernig uppgjörin á þrotabúum bankanna muni hafa áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Ef þetta væri áreiðanleg tala þá myndi gjaldeyrishöftunum vera aflétt á morgun.

Þú talar um að Icesave sé kökubiti. Munum að brauðstritandi íslendingar eiga margir í erfiðleikum þessa dagana vegna ofmats stjórnmálamanna á eignum bankanna. Nú vilja Icesave flokkarnir að launþegar borgi kökubitann. Það er siðferðilega rangt, lagalega óþarft og afar ónytsamlegt.

NN (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 19:12

69 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,P/S. Ómar, þar sem þú ert nú specialisti í öllu sem viðkemur málum ESA"

Eg er áhugamaður um skaðabótaábyrgð ríkja samkv. evrópalaga og regluverki.  Eg var td. fyrsti á íslandi  almennt í umræðunni sem bennti á að lagaleg hlið íslands væri alls ekki svo sterk.  (Að vísu var Stefán Geir búinn að setja fram álit þessu viðvíkjandi sem mér var ekki kunnugt þá.  Hann var einmitt, að ég held,  involveraður í tímamótadóminn í Sveinbjornsdottir case.   þó það mál sé dáldið annars eðlis, þá kom það samt flatt uppá flesta að ríkið gæti orðið skaðabótaábyrgt vegna bresta á EES). 

Það sem er kannsi eftirtektarvert í tilfelli íslands er, að þar er enginn almennur lagarammi um skaðabótaábyrgð ríkisins.  Mér sýnist að það sé í flestum ríkjum evrópu.  Helst á því.  þessvegna ef svona dæmi kæmi upp í evrópu, væri fyrirfram mótaður mekkanismi þar sem einstaklingar gætu sótt rétt vegna eðli málsins.  þ.e. að búið er að veita þeim lagaleg réttindi - sem þeir síðan fá ekki uppfyllt eða er eigi framfylgt.  Að þá í EU löndum, sýnist mér, er löngu búið að móta ferli þar sem bein leið er fyrir einstaklinga að sækja slíkan rétt fyrir dómsstólum.

Að eins og í Sveinbjorndottir case þá litu dómsstólar hérna heima til að bætur skyldu koma til vegna álits EFTA Court og eðlis EES samningsins eftir atvikum.

þetta er dáldið merkilegt allt sko og í raun heillandi viðfangsefni.  Skaðabótaábyrgð ríkja samkv. evrópu laga og regluverki.

Varðandi ríkisaðstoð á Reykjanesi og skaðabætur og án þess að hafa kynnt mér það sérstaklega - þá nei.  Efast um að það komi til álita skaðabætur ríkisins í því dæmi.  Enda er verið að tala um skattaívilnnir oþh. og byggðastyrkir notaðir sem réttlæting.  Við skulum bara sjá til hvað ESA gerir í því dæmi. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.3.2011 kl. 21:26

70 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. Fólk ætti líka að lesa dóminn í máli E-2/10.  Hann er merkilegur.

 http://www.eftacourt.int/images/uploads/2_10_Judgment_ICE.pdf

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.3.2011 kl. 23:14

71 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Arnór, væri ekki nær fyrir þig að taka þátt í rökræðunni og útskýra fyrir mér og öðrum lesendum af hverju þú ert svona viss um að dómstólaleiðin sé betri en samningaleiðin?  Það gæti kannski sannfært einhverja um að segja nei í atkvæðagreiðslunni 9. apríl, miklu fremur en meiningar þínar um garminn mig (sem ég læt mér fullkomlega í léttu rúmi liggja).

En varðandi þetta síðasta, með rannsókn ESA á fjárfestingarsamningi Verne Holding vegna gagnavers, þá lá alltaf fyrir að málið kæmi til kasta ESA enda er það m.a. hlutverk stofnunarinnar að kanna hvort ívilnanir af þessu tagi séu eðlilegar og innan ramma Evrópureglna.  Og svo það sé rifjað upp, þá felst ívilnun Verne einkum í þaki á tekjuskattshlutfalli, sem fer stighækkandi og hverfur loks að 10 árum liðnum.  (BTB afsalaði sér ávinningi af þessari ívilnun, eins og menn kannski muna.) Sú ívilnun er mun minni en t.d. Norðurál og Reyðarál njóta skv. sambærilegum fjárfestingarsamningum við ríkið.  Um einhvers konar skaðabótaskyldu, ef ívilnanir standast ekki Evrópureglur, er ekki að ræða.

Ragnar: Já, það er alveg rétt að tryggingakerfið okkar með 1% iðgjaldi hentaði afar illa fyrir bankakerfi með fáum en mjög stórum bönkum miðað við ríkissjóð og gjaldmiðilinn.  En það var þá okkar að skilgreina öðru vísi tryggingarkerfi, eða takmarka innlánasókn bankanna að öðrum kosti.  Til þess höfðu Seðlabanki og FME ýmis verkfæri, t.d. bindiskyldu sem Seðló lækkaði sérstaklega af erlendum innlánum.

Styrmir: Gjaldeyrisáhættan hverfur heldur ekki þótt við förum dómstólaleið.  Ef og þegar við verðum dæmd til að greiða eftir 2-3 ár, þá verður það á grundvelli gengis krónunnar eins og það verður þá, eftir að hafa gengið eyðimerkurgöngu með "D" lánshæfismat og brenndar brýr að baki gagnvart AGS og nágrannalöndum.  Það kalla ég gengisáhættu í lagi.

Skilanefnd Landsbankans hlýtur að vera best til þess fallin að meta eignir bankans, og aðferðafræðin hefur a.m.k. staðist próf.

Ég var á málstofu Seðlabankans í dag um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins og viðskiptajöfnuðinn.  Þar var útskýrt mjög vel hvernig 200 milljarða matið á viðskiptajöfnuðinum er fengið.  Talan sem þú nefnir er með reiknuðum vöxtum á skuldir sem verða aldrei greiddar (og vextirnir ekki heldur) og með Actavis inni í dæminu sem hefur engin áhrif á raunverulegan gjaldeyrisjöfnuð þjóðarbúsins.

Það eru verulegar líkur fyrir að "nei" 9. apríl hefði alvarleg áhrif því í þetta sinn er engin varaleið.  Við getum ekki sannfært gagnaðila um að til standi að semja og standa við skuldbindingar og því er hætta á að samstarfi við AGS yrði sjálfhætt og lán Norðurlanda hugsanlega dregin til baka.  Að auki væri þá litið svo á að Ísland væri í greiðslufalli og fengi lánshæfi "D".  Loks yrði dregin sú ályktun að (a) ekki væri unnt að semja við Íslendinga, og (b) ekkert sé að marka orð íslenskra stjórnvalda.  Ég býð ekki í þá stöðu f.h. okkar eða komandi kynslóða.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.3.2011 kl. 23:22

72 identicon

Siðferðispostulin,Vilhjálmur Þorsteinsson auðmaður og  nýjasta málpípa Samfylkingarinnar fer hér á flug í pistlum sínum,og er hræðsluáróður hans framarlega þar.   Vilhjálmur vertu ekki með þessa hræsni að þú beri ótta gagnvart komandi kynslóð,ef við játumst ekki Icesave-ánauðinni . Við Sannir Íslendingar látum ekki svona fýra einsog þig  hræða okkur. Hvað eða hver heldurðu að þú sért ?

Númi (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 23:41

73 identicon

Vilhjálmur. Þú svaraðir ekki spurningum mínum.

Ef að þessi fyrirgreiðslupólitík (ríkisstjórnarinnar til Verne holding, en ekki samkeppnisaðilana) kemur til með að springa í andlitið á ríkisstjórninni eins og alt þeirra klúður í sambandi við Icesafe hingað til.

Á þá Íslenska þjóðin einnig að bera skaðann af því ef við fáum á okkur málaferli og dómskröfur út af þessu máli?

Eða getum við búist við því að eigendur Verne beri skaðann?

"Um einhvers konar skaðabótaskyldu, ef ívilnanir standast ekki Evrópureglur, er ekki að ræða".

Segir þú.

Að sjjálfsögðu ekki frá hendi ESA frekar en í Icesafe , en mögulega frá 3ja aðila.

Munt þú og Björgólfur borga það?

Eða ætliði kanski að fara fram á RÍKISÁBYRGÐ eins og Landsbankinn gerði sem EINKAFYRIRTÆKI, til að koma ábyrgð Icesafe yfir á ÞJÓÐINA.

Og Bjöggarnir höfðu ekki einu sinni borgað lánið fræga, í KB banka, greiðslunni fyrir Landsbankanum (sem Davíð hafði reyndar logið að þjóðinni að kæmi inn sem erlendur gjaldeyrir) Og Bjöggarnir reyndu síðar að fá niðurfellt að mestu.

Síðan segirðu:

"þá lá alltaf fyrir að málið kæmi til kasta ESA enda er það m.a. hlutverk stofnunarinnar að kanna hvort ívilnanir af þessu tagi séu eðlilegar og innan ramma Evrópureglna".

Það er nú sitt hvað að sæta könnunar á vegum ESA eða "FORMLEGRAR RANNSÓKNAR"

Samanber RANNSÓKNAR SKÝRSLA ALÞINGIS. Sem allir þínir makkerar í samspillingunni og viðskiftum virðast hafa lagt bak við sig og gleymt þótt flestir þeirra hafi hlotið ávirðingar þar.

Og ef það er staðreynd að þið, Verne holding og alþingismenn þeir sem "LAUMUÐU" lögum um þessar ívilnanir í gegn um alþingi um miðja nótt þegar þjóðin svaf og alþingismenn þeir sem ekki vildu koma nálægt málinu voru fjarri. Vitandi um hversu nálægt samningsbrotum EFTA samningsins og að þetta myndi sæta ransókn.

Þá eru það svik við þjóðina. Og algjörlega óásættanleg framkoma.

Og lögin ætti að ógilda strax.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 01:47

74 identicon

"taka þátt í rökræðunni og útskýra fyrir mér og öðrum lesendum af hverju þú ert svona viss um að dómstólaleiðin sé betri en samningaleiðin?"

Hvaða dómstólaleið góði? Og stefnu frá hverjum? Og fyrir hvaða dómstólum?

Ég sé ekkert dómsmál á leiðinni vegna Icesafe. Frekar en þú í kæru ESA vegna Verne.

Íslenska þjóðin á ekki skuldir EINKAFYRIRTÆKIS. Og ber sannarlega ekki ábyrgð á alþjóða glæpahyski.

Þvert NEI við því að mínir afkomendur borgi ICESAFE takk.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 01:57

75 identicon

Þessi frétt var að birtast rétt í þessu:

9.3.2011 10:15:59 - TR ONE, Iceland
OSSR : Össur hf. - Endurfjármögnun
Tilkynning frá Össuri hf. Nr. 4/2011
                                                         Reykjavík, 9. mars 2011

Össur undirritaði í dag samning við þrjá alþjóðlega banka, ING Bank, Nordea og
SEB, um langtímafjármögnun að fjárhæð 231 milljón Bandaríkjadala.
Lánasamningurinn markar tímamót í fjármögnun félagsins. Össur hefur nú tryggt
sér alþjóðlegan aðgang að fjármagni, bæði eigin fé og lánsfé.



Þetta er þrátt fyrir óleysta IceSave deilu, en 3 alþjóðlegir bankar, frá jafnmörgum löndum, greinilega setja það ekki fyrir sig að fjármagna félagið eða að vera í viðskiptum við Íslendinga.

kveðja, Styrmir

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 09:45

76 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Styrmir: Frábærar fréttir.  Eins gott að þetta kláraðist áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram!  En auðvitað er líka sitthvað, einkafyrirtæki sem gæti flutt höfuðstöðvar sínar úr landi hvenær sem er, eða opinberir aðilar og orkufyrirtæki með ábyrgð þeirra.

Arnór: Umræða um fjárfestingarsamning gagnaversins á ekki beinlínis heima í þessum þræði.  Ég skrifað um fjárfestingarsamninga almennt í þessari bloggfærslu.  Svo minni ég á að samningur Verne var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum á þingi gegn 5 atkvæðum Vigdísar Hauksdóttur og Hreyfingarinnar, sem greinilega hefur ekki mikinn áhuga á atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ og nágrenni, en þar er atvinnuleysi sem kunnugt er mest á landinu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.3.2011 kl. 09:58

77 identicon

Þetta er að gerast eftir að við synjuðum þessu síðast í þjóðaratkvæði.

Þeir sem á endanum eiga að standa straum af IceSave endurgreiðslum geta líka flutt úr landi.  Þúsundir eru þegar farnar og fleiri á leiðinni.

kveðja, Styrmir

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:03

78 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Vilhjálmur, ég var á móti sérstökum fjárfestingasamningi við Verne holding vegna þess að mér finnst rétt að öll önnur fyrirtæki á landinu njóti sömu kjara og fríðinda!

Ég gæti aldrei, sem jafnaðarmaður, sætt mig við að eitthvað eitt sérstakt fyrirtæki fengi afsætti og fríðindi.  Sérstaklega án þess að það liggi ljóst hvers vegna verið sé að veita þessi sérstöku kjör!

Þetta er ekki vegna þess að ég er á móti atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi!  Ég vil að öll fyrirtæki á Reykjanesi fái sömu afslætti og fríðindi og Verne holding!  Þingmenn hafa hins vegar verið mótfallnir því!

Þess vegna er á hlynntur meiri atvinnuuppbyggingu en það fólk sem samþykkti fjárfestingasamninginn við Verne Holding!

Lúðvík Júlíusson, 9.3.2011 kl. 10:06

79 identicon

Hækkun bindiskyldu hefði varla breytt neinu, enda aldrei nema nokkur prósent hvort eð er.

Ég spurði mjög háttsettan aðila í Seðlabankanum nýlega hvort ríkið hefði getað heft vöxt bankanna. Hann svaraði því til, að lögin næðu mjög skammt í þeim efnum, bæði hér á landi og annars staðar, en hins vegar væri úti í heimi ætlast til að hvert ríki "hefði hemil" á sínu bankakerfi. Svo nefndi hann dæmi um fjármálafyrirtæki sem hafði verið stöðvað, en lýsti því jafnframt, hvernig þurfti beinlínis að brjóta lög til þess að gera það.

Umhverfi af þessu tagi er auðvitað óþolandi fyrir almenning. Auðvitað þurfa stjórnvöld og eftirlitsstofnanar að hafa mjög skýr tæki til þess að stöðva vöxt bankanna. Eftirlitsstofnanir um allan heim kveinka sér undan þessu. Hvers vegna er þetta ekki lagað? Er það til þess að fyrrirtækin geti farið sínu fram án afskipta almennings, haldið almenningi utan við viðskiptin, stóru lánin, sem hann á svo að ábyrgjast? Auðvtiað hentar þetta kerfi fjármálamönnum, sem stjórna almenningi með því að halda honum í fáfræði.  

Almenningi er talin trú um að fjármálafyrirtæki séu einkafyrirtæki, en almenningur er látinn borga brúsann þegar illa gengur. Almenningur hér á landi er í fullum siðferðilegum rétti til þess að neita að bera ábyrgð á greiðslum innistæðutryggingasjóðs. 

Ragnar (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:11

80 identicon

Á blaðsíðu 11 í Fréttablaðinu í dag (9/3,2011) efst í hægra horni er innsend grein frá sjö lögmönnum. Greinin ber titilin:ÞEYR MYNDU TAPA FYRIR DÓMI.  ( Icesave)

Þannig er greinin.::

Af hverju hafa Bretar og Hollendingar ekki stefnt Íslenska ríkinu fyrir dóm til greiðslu

á Icesave-kröfunum fyrst þeir telja okkur eiga að borga.?

Það er þýðingarmikið að Íslendingar átti sig á svarinu við þessari spurningu.  Þessar kröfuþjóðir vita að þær myndu að öllum líkindum tapa slíkum málum.          Þær vita að þær munu ekki ná fram kröfum sínum á hendur Íslensku þjóðinni nema að hún taki á sig skuldbindingar til að greiða með samningi. Góðir Íslendingar,við skulum ekki láta það eftir þeim . Fellum Icesave-lögin. :::grein lokið::

                                  Undir þennan pistil rita sjö Hæstaréttarlögmenn.

                                                                                       Brynjar Níelsson             

                                                                                        Björgvin Þorsteinsson

                                                                                         Haukur Örn Birgisson

                                                                                         Jón Jónsson

                                                                                          Reimar Pétursson

                                                                                           Tómas Jónsson

                                                                                           Þorsteinn Einarsson.

Númi (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:25

81 identicon

Þarna sést svart á hvítu tölvukunnátta mín. en hér koma aftur nöfn þessa Hæstaréttalögmanna.     Brynjar Níelsson,  Björgvin Þorsteinsson, Haukur Örn Birgisson, Jón Jónsson, Reimar , Pétursson, Tómas Jónsson, og Þorsteinn Einarsson.

Þökk sé þessum lögmönnum,fyrir þennan þarflega pistil.

Númi (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:30

82 identicon

Þorsteinn - þú óttast að "engin varaleið" yrði í boði, ef íslendingar segðu "nei" í kosningunum í apríl. 

Varaleiðin er að "bíða og sjá". EFTA-dómstólinn tæki 12 mánuði í málið, í framhaldi af því skaðabótamál fyrir íslenskum dómstólum. Allt tekur þetta tíma. Á þeim tíma gerist ýmislegt. Greiðslur hefjast úr þrotabúinu, við sjáum betur hvað er til í þrotabúinu, staðan skýrist að öllu leyti. En við sleppum við að taka alla áhættuna, ef illa fer.

Við segjum við Breta og Hollendinga: Bíðið rólegir, peningarnir eru hvort eð er á leiðinni. Ég held þeir færu ekki í "high profile" dómsmál á meðan, með öllum þeim alþjóðlegu óþægindum, sem sköpuðust af því, að vera að fjasa um gallað innistæðukerfi evroópskra banka mánuðum og árum saman. Frekar myndu þeir bíða eins og við.

Á þessum tíma getum við séð hver útkoman yrði úr dómsmáli vegna jafnstöðusamningsins. Hagstæð útkoma úr því skiptir tugum milljarða. Svo mun liggja fyrir niðurstaða vegna forgangskröfumálsins sem nú er fyrir héraðsdómi. Hagstæð niðurstaða þar gæti munað tugum milljarða.

Við gætum byrjað á því, "strax daginn eftir" þjóðaratkvæðið, að greiða þeim það sem er í innistæðutryggingasjóðnum, jafnvel hækkað í 26 ma "for good measure". Þá eru eftir (miðað við bjartsýnisspár) 20 ma í viðbót, jafnvel minna. Allt í blóma, nema við tökum ekki ÁHÆTTUNA ef illa fer (minni heimtur þrotabúsins, gengisfall, etc.).

Þetta er fjandi góð lausn fyrir alla aðila. Ég held að Bretar og Hollendingar muni fella sig við þetta, frekar en að froðufella á alþjóðavettvangi.

Við getum ekki sannfært gagnaðila um að til standi að semja og standa við skuldbindingar og því er hætta á að samstarfi við AGS yrði sjálfhætt og lán Norðurlanda hugsanlega dregin til baka.  Að auki væri þá litið svo á að Ísland væri í greiðslufalli og fengi lánshæfi "D".  Loks yrði dregin sú ályktun að (a) ekki væri unnt að semja við Íslendinga, og (b) ekkert sé að marka orð íslenskra stjórnvalda.  Ég býð ekki í þá stöðu f.h. okkar eða komandi kynslóða.

Ragnar (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:32

83 identicon

Þorsteinn - þú segir að við hefðum bara átt að "skilgreina öðru vísi tryggingarkerfi". Þar er ég sammála þér. En hversu mikið svigrúm höfðum/höfum við þess í EES? Nú liggur fyrir Alþingi að taka upp 100 000 evru lágmarkstryggingu, til samræmis við nýtt lágmark EES. 100 000 evrur! Og við sem gátum ekki tryggt 20.887 evrur. Þetta e

Ragnar (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:39

84 identicon

Afskaið - síðasta málsgreinin í athugasemd minni hér að ofan (10:32) slæddist inn fyrir mistök, og er copy/paste af svari Þrosteins ofar.

Ragnar (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:41

85 identicon

Og enn verð ég að biðjast afsökunar - Vilhjálmur var það, ekki Þorsteinn.

Ragnar (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 10:58

86 identicon

Vilhjálmur. Þú predikar hér um Viðskiftasiðferði, lagarök og nytjarök.

Og hvað? Á það bara við þegar það hentar þér og Bjöggonum að skuldbinda þjóðina í Icesafe en ekki í t.d. Verne málinu?

Atkvæði féllu þannig á alþingi í Verne nauðguninni: Já 36, Það er mjög naumur meirihluti í svo stóru máli.

nei 5, greiddu ekki atkv. 7 fjarvist 6, fjarverandi 9

15 þingmenn VORU EKKI Í SALNUM. 7 ÞORÐU EKKI að taka afstöðu.

Hreyfingarþingmenn enn og aftur að standa vörð um lýðræðið og réttlætið. Ásamt Vigdísi Hauksdóttur og Þránni Bertelssyni. Og auðvitað vilja þessir þingmenn stuðla að atvinnu uppbyggingu á suðurnesjum.

En á forsendum viðskifta siðferðis, lagaraka og nytjaraka.

Og jafnræðis og eðlilegum samkeppnis grunni. En ekki einokunnar tilburðum þeim sem þið hafið leitt inn í þessa nýju atvinnugrein. Gagnabanka.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 12:00

87 identicon

Vilhjálmur. Enn og aftur. Þú svaraðir ekki spurningum mínum.

Ef að þessi fyrirgreiðslupólitík (ríkisstjórnarinnar til Verne holding, en ekki samkeppnisaðilana) kemur til með að springa í andlitið á ríkisstjórninni eins og alt þeirra klúður í sambandi við Icesafe hingað til.

Á þá Íslenska þjóðin einnig að bera skaðann af því ef við fáum á okkur málaferli og dómskröfur út af þessu máli?

Eða getum við búist við því að eigendur Verne beri skaðann?

Og síðan:

"taka þátt í rökræðunni og útskýra fyrir mér og öðrum lesendum af hverju þú ert svona viss um að dómstólaleiðin sé betri en samningaleiðin?"

Hvaða dómstólaleið góði? Og stefnu frá hverjum? Og fyrir hvaða dómstólum?

Ég sé ekkert dómsmál á leiðinni vegna Icesafe. Frekar en þú í kæru ESA vegna Verne.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 12:06

88 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Arnór: Prinsippið hjá Hreyfingunni var svo sterkt að þó að BTB hefði afsalað sér ávinningi af ívilnuninni og fyrir lægi að öll ný fjárfesting í verkefninu kæmi frá nýjum hluthafa (Wellcome Trust), þá gátu þeir samt ekki samþykkt þessa atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.  Ég efast ekki um að kjósendur þar, atvinnulausir og aðrir, muni kunna að meta þessa prinsippfestu fyrir sína hönd í næstu kosningum.

En varðandi dómstólaleiðina, þá er ég vitaskuld að tala um (a) kæru ESA sem er í farvegi og mun enda fyrir EFTA-dómstólnum, verði ekki samið, varðandi brot Íslands á EES-samningnum; og svo (b) málaferli B&H f.h. innistæðueigenda fyrir íslenskum dómstólum til greiðslu skaðabóta, þar sem óska verður ráðgefandi álits sama EFTA-dómstóls.  Fordæmi eru um að EES-reglur skapi einstaklingum skaðabótarétt vegna ófullnægjandi innleiðingar tilskipana, jafnvel þótt íslensk lög ein og sér veiti þeim ekki þann rétt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.3.2011 kl. 12:33

89 identicon

Vilhjálmur. Enn og aftur. Þú svaraðir ekki spurningu minni.

Ef að þessi fyrirgreiðslupólitík (ríkisstjórnarinnar til Verne holding, en ekki samkeppnisaðilana) kemur til með að springa í andlitið á ríkisstjórninni eins og alt þeirra klúður í sambandi við Icesafe hingað til.

(sjá:ESA, eftirlitsstofnun EFTA, kallar eftir athugasemdum við ákvörðun um að hefja rannsókn á stuðningi ríkisins og Reykjanesbæjar við Verne Holdings.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 17:31)

Á þá Íslenska þjóðin einnig að bera skaðann af því ef við fáum á okkur málaferli og dómskröfur út af þessu máli?

Eða getum við búist við því að eigendur Verne beri skaðann?

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 12:52

90 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Vilhjálmur, ég vona að kjósendur kunni að meta það að önnur fyrirtæki fengu ekki sömu eða sambærilegar ívilnanir og Verne Holding.

Lúðvík Júlíusson, 9.3.2011 kl. 12:56

91 identicon

@Lúðvík Júlíusson, 9.3.2011 kl. 12:56

Nákvæmlega Lúðvík.

Og einnig vona ég að kjósendur kunni að meta, að enn eitt fyrirtækið tengt Bjöggonum er á leið fyrir sömu dómstóla og Icesafe.

Þökk sé þér og samspillingunni.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 13:25

92 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þið hafið ekki lesið ykkur til um grundvallaratriðin í þessu máli, félagar Arnór og Lúðvík.  Fjárfestingarsamningar standa öllum til boða sem uppfylla almenn skilyrði, til dæmis um staðsetningu á atvinnuþróunarsvæði.  Að sjálfsögðu gildir jafnræðisregla í þessu eins og öðru.  En fjárfestingarsamningar álfyrirtækjanna eru reyndar mun meira ívilnandi en samningur Verne.  Lúðvík, þú gætir t.d. byrjað á að lesa lögin sem Katrín Júlíusdóttir hafði forgöngu um á Alþingi og kveða á um almennan ramma um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga.

Arnór, þessi fabúlering þín um einhverjar kröfur út af fjárfestingarsamningum er fullkomlega úr lausu lofti gripin og því er ekki hægt að svara henni með öðru en að benda á þá staðreynd.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.3.2011 kl. 13:36

93 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ég hef lesið mér nægilega vel til Vilhjálmur.  Eins og þú segir sjálfur þá þurfa fyrirtækin að uppfylla sérstök skilyrði.  -  Ef það er vilji þingmanna að efla atvinnu þá væri það gert á þann hátt að sjá til þess að öll fyrirtækin á Reykjanesi fengju sambærilega styrki og ívilnanir, ekki bara sum.

Eitt skilyrðanna er að fyrirtækið sé með amk 300 milljón króna veltu eða skapi amk 20 ársverk á fyrstu tveimur árum starfseminnar.

.. þá er ljóst að þetta stendur ekki öllum til boða!  Um það þarf ekki að hafa fleiri orð enda væru það bara útúrsnúningar.

Lúðvík Júlíusson, 9.3.2011 kl. 14:08

94 identicon

Vilhjálmur minn. Ef þetta er fabúlering. Þá er það alveg sama fabúleringin hjá þér að Icesafe fari í dómsmál ef við semjum ekki.

Kæran á hendur Verne er í sama farvegi og Icesafe byrjaði hjá ESA.

Og eins og Lúðvík bendir á þá er það LYGI að allir sitji við sama borð við fjárfestingasamninga.

Það hafa nefnilega ekki allir sama aðgang að alþingismönnum og t.d. þú og Bjöggarnir, hvers fyrirtæki mútuðu bæði flokkum og stórum hluta alþingismanna. Og það voru tug miljónir. Eins og lesa má í RSA.

Enda löngu tímabært að hreinsa til á alþingi öllu. Hruna og spillingarpakkið þar þarf að fara.

Fyrr breitist ekkert hér á landi.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 14:38

95 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Finn pistill hjá þér Vilhjálmur.

Allveg sammála þér.

Sleggjan og Hvellurinn, 9.3.2011 kl. 17:45

96 identicon

ÞETTA  ER  EKKI  FÍNN   PISTILL  HJÁ  ÞÉR  VILHJÁLMUR  HANN  ER LÉLEGUR.

TÓMLEGUR HÉGÓMALEGUR SJÁLFSELSKULEGUR ÓÞJÓÐLEGUR PISTILL.

                  N E I  VIР ICESAVE   9  APRÍL

Númi (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 20:00

97 identicon

@23:22

Enn ruglar þú saman tveimur mælikvörðum þ.e. viðskiptjöfnuðu og undirliggjandi viðskiptajöfnuði.  Augljóst mál að undirliggjandi Excel æfingar Seðlabankans hafa lítið gildi þessa dagana því gengið hefur ekki verið styrkt og skuldatryggingaálagið hefur ekki lækkað.

Við höfum ekki efni á því að treysta skilanefnd þrotabús fyrir mati á sínum eignum frekar en bankastjórnum Glitnis, Kaupthings og Landsbankans á sínum tíma. Þetta hafa Írar og Danir brennt sig illa á. Amager banki var t.d. í fínum málum fram á síðustu dagana. Raunhæfast er að skoða markaðsvirð forgangskrafna í þrotabú Landsbankann. Held að það sé nær 600 ma frekar en 1200 ma. 

NN (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 21:04

98 identicon

Siðferðið í Icesavemálinu

Sjö hæstaréttarlögmenn skrifa um Icesave

Hvernig stendur á því að sumir menn halda því fram að íslensku þjóðinni beri siðferðileg skylda til að borga Icesavekröfurnar?

Er það vegna þess að íslenskir ríkisborgarar stóðu fyrir starfseminni erlendis, þegar menn lögðu peninga sína á þessa reikninga?

Ber almenningur á Íslandi siðferðilega ábyrgð á þessari atvinnustarfsemi Íslendinga erlendis?

Auðvitað ekki. Þeir sem lögðu fé inn á reikningana í þeirri von að hafa af þeim hærri vexti en buðust hjá öðrum, verða að bera sína áhættu sjálfir.

Það er siðferðilega rangt að velta henni á okkur og það er siðferðilega rangt af okkur að taka við henni og leggja byrðarnar á börnin okkar. Fellum Icesavelögin.

Brynjar Níelsson hrl.

Björgvin Þorsteinsson hrl.

Haukur Örn Birgisson hrl.

Jón Jónsson hrl.

Reimar Pétursson hrl.

Tómas Jónsson hrl.

Þorsteinn Einarsson hrl.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 08:28

99 identicon

Sæll Vilhjálmur. Langaði til að heira álit þitt á siðferðishlið þess sem fjallað er um í Icesafe grein þessari sem birtist annarstaðar hér á blogginu. En þar segir meðal annars.

Mbk.

Björgólfur Thor hegðaði sér eins og Tchenguiz bræður

Það voru ekki bara Tchenguiz bræður sem misnotuðu íslensku bankanna. Björgólfur Thor skrapaði innan úr Landsbankanum. Meðal þess sem heyrst hefur um lánamál Börgólfs hjá bankanum er að félag hans Novator Pharma fékk 43 milljarða að láni hjá útibúi Landsbankans í London á fyrri hluta ársins 2007."

Yfirtaka Björgólfs Thors á Aktavís kostaði sex milljarða EVRA. Landsbankinn og Kaupþing lánuðu hundrað milljónir evra hvort í tengslum við yfirtökuna. Skuldbindingar félaga sem tengjast Björgólfi Thor gagnvart Landsbankanum koma ekki fram í ársreikningum bankans. Björgólfur Thor Björgólfsson ber ábyrgð á um fjórðungi af erlendum brúttóskuldum íslenska þjóðarbúsins Fjöldi stofnana hafa tapað stórfé á fjárfestingum sem tengjast Björgólfsfeðgum. Svo virðist sem Björgólfarnir hafi fært skuldirnar á föðurinn en eignirnar á soninn. Og nú er unnið að því að íslenskur almenningur greiði skuldir þeirra.

Að Icesave meðtöldu er talið að Björgólfsfeðgar beri ábyrgð á u.þ.b. 40% af skuldum þjóðarbúsins að frátöldum skuldum gömlu bankanna.

Í fyrra var hafin rannsókn 800 hundruð milljóna króna lánveitingar frá Samson sem var í eigu Björgólfsfeðga til fjögurra aflandsfélaga á Bresku Jómfrúareyjum. Forsvarsmenn Samsonar eignarhaldsfélags geta ekki gert grein fyrir lánum eða fyrirgreiðslum fyrir meira en tvo milljarða króna til að minnsta kosti sex félaga í eigu Björgólfsfeðga á Tortóla, Kýpur og Lúxemborg sem skráð eru í bókhaldi félagsins.

Björgólfur Thor er sagður eiga mikilla hagsmuna að gæta í ýmsum fyrirtækjum hér á landi, svo sem eins og CCP, Nova og gagnveri Verne Holdings. Vilhjálmur Þorsteinsson einn helsti talsmaður Björgólfsarms Samfylkingarinnar er náinn samstarfsmaður Björgólfs og fer núna mikinn við að telja landsmönnum trú um að það sé hagur þjóðarinnar að greiða skuldir Björgólfs Thors. Vilhjálmur hefur ásamt Össuri Skarphéðinssyni viljað veita Björgólfi Thor skattaskjól á Íslandi. Greint er frá því á pressunni að talið sé að lagasetning um gagnaverið´sé óeðlileg fyrirgreiðslu til handa einu fyrirtæki.

Árið 2007 stóð til að innleiða tilskipun sem hefði veitt tryggingasjóðnum undanþágu vegna innstæðna lögaðila erlendis. Stjórnendur Landsbankans settu sig á móti því og einhverra hluta var tilskipunin aldrei innleidd. Mjög hljótt hefur farið um þetta mál og það aldrei skýrt fyrir þjóðinni. Það var ráðuneyti Björgvins G sem bar ábyrgð á þessari innleiðingu.

Á meðan ráðherrar samfylkingarinnar hafa séð Björgólfi Thor fyrir tækifærum til þess að mæta til Íslands með gamla krumpaða Icesave peninga og fjárfesta hér í auðlindum er keyrður mjög harður áróður til þess að fá skattgreiðendur til þess að taka að sér þetta vandræðabarn Björgólfs Thors.

Vilhjálmur Þorsteinsson tryggur dílamaður Björgólfs Thors er falið að uppfræða (sumir segja heilaþvo) samfylkingarfólk og fjölskyldur þeirra.

Almenningi er talið trú um að sú stöðnun sem í raun má skrifa á viðvarnadi fjárstreymi í svarthol Bankakerfisins sé Icesave deilunni um að kenna. Samþykki þjóðin Icesave lögin er hún að gangast undir það að taka á sig ábyrgð af businessdílum Björgólfs Thors. Ástandið á vinnumarkaði mun ekkert lagast við það nema síður sé.

Nálgun yfirvalda í endurreisn er kolvitlaus sem og hugmyndir sjálfstæðismanna um að byggja álver í hverjum krók og kima. Vandræðin er færð á framtíðina. Landið mergsogið af auðlindum til þess að viðhalda velmegun fámenns hóps í samfélaginu.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 08:47

100 identicon

Bindum endi á síbyljuna

Sjö hæstaréttarlögmenn skrifa sína þriðju grein um Icesavelögin.

Við erum öll orðin leið á endalausu málæðinu um Icesave. Getur sá leiði átt að valda því að við samþykkjum lögin til að losna við málæðið? Varla.

Ef við samþykkjum lögin eiga umræður um þetta ömurlega mál eftir að lifa á Íslandi um ókomin ár, meðan við erum að greiða þessar kröfur sem okkur hefur aldrei borið lagaleg skylda til að greiða.

Við verðum því að hafna kröfunum ef við viljum einhvern tímann fá frið fyrir síbyljunni um þetta. Fellum Icesavelögin.

Um fjárhagslegt traust

Af hverju er því haldið að Íslendingum að við munum glata fjárhagslegu trausti annarra ef við borgum ekki Icesavekröfurnar? Þeir sem segja þetta eru hættir að reyna að halda því fram að okkur beri skylda til að borga þær. Hvenær hafa menn áunnið sér fjárhagslegt traust með því að taka á sig þungar skuldbindingar sem þeim ber ekki skylda til að taka á sig?

Slíkt er auðvitað eingöngu fallið til að kalla yfir sig fyrirlitningu annarra, í besta falli meðaumkun. Menn treysta ekki lyddum í fjármálum.

Fellum Icesavelögin.

Brynjar Níelsson hrl.

Björgvin Þorsteinsson hrl.

Haukur Örn Birgisson hrl.

Jón Jónsson hrl.

Reimar Pétursson hrl.

Tómas Jónsson hrl.

Þorsteinn Einarsson hrl.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 09:23

101 identicon

Þú segir að breskir og hollenskir innistæðueigendur séu þolendur.

En hvað verður með íslendinga ef icsave verður samþykktur? 

Þeir verða þolendur vegna þessa óhófsömu starfsemi sem var stunduð án þess að væri innistæða fyrir henni og hafa ekkert val.

Hins vegar höfðu bretar og hollendingar val hvað þeir gerðu við peninga sína.

Það sem maður sá sjálfur að eftir því sem innistæðu vextir voru meiri fylgdi því meiri áhætta og sú áhætta eingöngu manns eigin áhætta.

Björn Ingi (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 23:30

102 identicon

Quote "Við þóttumst vera menn í það að gera út banka í samkeppnisumhverfi evrópska efnahagssvæðisins, undir sömu tilskipunum, eftirlitsramma og lágmarksskilyrðum um tryggingar og annars staðar tíðkast."

Ég Þóttist ekkert vera neitt í þessu máli og átti engan banka né fékk arðgreiðslur eða ofurlaun frá slíkri stofnun. Hvernig stendur á því að ég á þá að fara að borga gjaldþrot slíkrar stofnunar ?

ÉG SEGI NEI VIÐ AÐ BORGA SKULDIR SEM ÉG HEF EKKI STOFNAÐ TIL

Versta Frelsi er Betra en Besti Þrældómur.

Einar Már Atlason (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 14:04

103 identicon

Sæll  Vilhjálmur afsakaðu hvað ég kem seint með comment.

Ég er þér algerlega sammála. Mér finnst hinsvegar skrýtið hvað hljótt er um hjá þér og öðrum ein helstu siðferðileg rök fyrir að ganga að þessum hagstæða samningi.

ÞAð virðist alltaf gleymst að Íslendingar áttu líka innistæður í bankanum, um 470 milljarða, en Icesave var rúmlega 1300 miljarðar. Núvirt virðist vanta um 20% uppá að þrotabúið eigi fyrir öllum innistæðum sem gerðar voru að forgangskröfum. Ef allir innistæðueigendur eiga sömu kröfur í þrotabúið töpuðu innlendir innistæðueigendur því um 84 milljörðum. Þeir fengu hinsvegar allar sínar innistæður án þess að ríkið legði fram annað en eigið fé í NBI. Við stofnun NBI var tekið nákvæmlega jafn mikið af eignum (útlánum) á móti innistæðum íslendinga úr þrotabúinu. Þrotabúið borgaði því þessa 84 miljarða til íslandinga. All féð kom því úr vata Icesave innistæðueigenda. Ef við borgum um 40 milljarða í Icesave erum við aðeins að endurgreiða helminginn af því sem við tókum af ICESACE. 

Við borgum því ekki krónu til Breta og Hollendinga en þeir borga helminginn af okkar innistæðutryggingum, ef við samþykkjum Iceasve. 

Þetta er svipuð athugasemd og Guðjón Eiríksson kom með en þú svaraðir engu. Fróðlegt væri að fá álit þitt á þessu. 

Kveðja

Þorbergur Steinn Leifsson

Þorbergur Steinn Leifsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 22:01

104 identicon

Þorbergur: Ekki var hægt að tryggja erlendu innistæðurnar af því þær hefðu verið teknar út samdægurs. Það hefði lítið þýtt að búa til nýja banka með Icesave innistæðunum í. Þær hefðu verið teknar út strax, og þessi nýji banki hefði farið strax á hausinn. Það voru hins vegar góðar vonir til þess að íslensku innistæðurnar (í  nýja Landsb.) yrðu áfram kyrrar á sínum stað, og því var hægt að stofna og  tryggja slíkan banka á rústum þess gamla.

En með neyðarlögunum, sem íslenska ríkisstjórnin setti, var reynt að koma til móts við Iceasve innistæðueigendur. Innistæðueigendur (íslenskir sem erlendir) fá forgang í eignir þrotabúsins. Án þessa forgangs ættu Icesave innistæðueigendur ekki möguleika á að endurheimta nema fáeina tugi prósenta úr þrotabúinu, en nú stefnir í 90%, eða  jafnvel meira fyrir þennan hóp.

Það er eitt af mörgu, sem m.a. Evrópusambandið þarf að draga lærdóm af, ef það ætlar áfram að leyfa frjáls flæði fjármagns milli svæða og stofnun útibúa í öðrum löndum. Það er allt annað að tryggja innistæður í heimalandinu en innistæður í útibúum erlendis því almennt er tiltrú almennings á "erlenda banka" (hvar í landi sem þeir eru) fljótari að hverfa en tiltrú almennings á banka í þeirra heimalandi.

Það eru því ekki Icesave eigendur sem niðurgreiða innistæður á Íslandi, heldur óvarðir kröfuhafar (mest þýskir bankar) sem niðurgreiða innistæður, BÆÐI á Íslandi og Icesave. Og... passaðu þig samt að fá ekki samviskubit, því þetta er sú leið, sem flest lönd hafa nú tekið upp til þess að taka á bankahruninu (sjá t. d. Danmörku, sem gerir þetta í stórum stíl): Tryggir almennar innistæður, en fórnar ótryggðum lánveitendum (a la þýsku bankarnir) sem tóku auðvitað áhættu með því að fjárfesta í bankanum eins og hverju öðru fyrirtæki.

Sænska ríkisendkurskoðunin var nýlega að skila skýrslu, þar sem fram kemur að sænsk yfirvöld hefðu engar leiðir haft til þess að heft vöxt sænskra banka erlendis og bendir á að þetta þurfi að laga, til þess að koma í veg fyrir næsta hrun. Það er ekki bara á Íslandi, sem bankarnir gátu vaxið óáreittir, þótt það komi auðvitað harðar niður á Íslandi, vegna smæðar landsins. ESB hefur komið búið þannig um hnútana, að innistæðutryggingakerfið er bundið við heimalandið, á meðan starfsemi bankanna getur vaxið hömlulítið um allt ESB-svæðið. Þetta er viðurkenndur galli, sem ESB er að reyna að leysa úr, en gengur að mínum dómi allt of skammt í þá átt.

Í litlu landi eins og Íslandi verður þessi galli auðvitað ennþá alvarlegri.

Vilhjálmur, vel kann að vera, að ástæða sé til þess að æsa sig yfir 32 ma krónu framlagi til Íbúðalánasjóðs, en það er þó sá eðlismunur á, að þeir peningar almennings fara í að styrkja íbúðakerfið hér á landi, þeir haldast inní íslensku hagkerfi, og nýtast amk að hluta þeim almenningi, sem greiddi þá, á meðan 32 milljarðarnir, sem þú gerir ráð fyrir að fari í Icesave, fara beint út úr landinu og nýtast ekki þeim almenningi sem kæmi til með að greiða þá.

Ragnar (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 10:25

105 identicon

Sæll Ragnar

Mér kemur það mjög óvart ef önnur lönd hafa farið sömu leið og Íslendingar og breytt forgangsröðun eftirá. Við höfum rökstutt þetta með neyðarrétt, sem ekki er til staðar í Danmörku eða Þýskalandi.  Þannig að þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá þér. Það er allt í lagi að taka innistæður yfir í nýjan banka en þú mátt ekki taka jafnmiklar eignir líka. Ríkissjóður hlítur að hafa lagt fram eigið fé auk þess sem bæta þurfti við innistæðurnar. 

Það er ekki rétt hjá þér að það séu óvarðir kröfuhafa sem tryggi innistæður á íslandi. Þð gerðist í tilfellum Glitnis og Kaupþings ,en ekki hjá Landsbankanum. Þar fá almennir kröfuhafar ekki krónu, og hefðu ekki heldur fengið krónu þó innlendar innistæður hefðu ekki verið tryggðar (umfram breyttan forgang)  og íslendingar hefðu aðeins fengið 80% af sínum innistæðum eins og Icesave eigendur. 

Þetta er því alrangt hjá þér hvað varðar Landsbankann, engu breytti fyrir almenna kröfuhafa hvort innistæður Íslendinga voru tryggðar eða ekki, ekki króna kom úr ríkissjóði þannig að allt kom frá Icesave innistæðueigendum. Þetta er það sem ég var að reyna að skýra út og þú skautar framhjá með því að setja alla bankana undir sama hatt. 

Og Vilhjálmur, það væri mjög fróðlegt ef þú kommentaðir einnig á þetta. 

Þorbergur

Þorbergur Steinn Leifsson (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 11:34

106 identicon

http://vimeo.com/21213886

Þetta erindi svara með rökstuddum hætti, á lögfræðilegum grunni frekar en tilfinningalegum, öllum þeim rangfærslum sem eru í pistli Vilhjálms.

heidar (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband