Sjálfbærnina vantaði í viðskiptalífið

Hugtakið sjálfbærni (á ensku: sustainability) tengja sennilega flestir við umhverfismál.  En það getur haft, og á að hafa, miklu víðari skírskotun.  Sjálfbærni má líta á í samhengi við hvers kyns ferla sem nýta forða og eiga sér stað til lengri tíma, þar á meðal fyrirtækjarekstur – og rekstur hagkerfa.

Sjálfbæra þróun má í hnotskurn skilgreina þannig að með henni sé leitast við að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum.  Sjálfbær ferli eru rekin með þeim hætti að þau geti gengið til lengdar í jafnvægi við umhverfi sitt, þau gangi sem sagt ekki á umhverfið eða forða með óafturkræfum hætti.

Af sjálfu leiðir að stórir hlutar íslensks efnahags- og fjármálalífs voru ekki reknir með sjálfbærum hætti um all-langt skeið fyrir hrun.  Þessi ósjálfbærni kom meðal annars fram í gríðarlegum viðskiptahalla, sem sagt mikilli nettó skuldsetningu í erlendri mynt; útþenslu bankakerfisins langt umfram getu Seðlabanka og ríkissjóðs til að standa á bak við það; gírun efnahagsreikninga sem uxu mun hraðar en eiginfjárgrunnur hagkerfisins; og svo framvegis.

Ekkert af þessu gat gengið til lengdar og ósjálfbærnin var eftir á að hyggja augljós.  Viðskiptahallinn var til dæmis svo mikill – 727 milljarðar, hálf landsframleiðsla á þremur árum 2005 til 2007 – að það var morgunljóst að skuldadagar væru í nánd; teygjan hlaut að skreppa til baka með smelli og lenda í andlitinu á okkur.

Hagnaður og ábyrg langtímahugsun geta farið saman

Í umhverfismálum hafa menn áttað sig á því fyrir allnokkru að það þarf að hugsa og framkvæma með sjálfbærni í huga.  Hrunið sýnir okkur að það er ekki síður ástæða til að huga að sjálfbærni fyrirtækjarekstrar og fjármálakerfisins almennt.  Skammsýn hámörkun eigin hagnaðar leiðir greinilega ekki sjálfkrafa til besta heildarhagsins; eitthvað flóknari hugsunarháttur þarf að koma til.

Í því sambandi er ástæða til að minna á að Adam Smith skrifaði fleiri bækur en Auðlegð þjóðanna, hann skrifaði líka bókina Kenningu um siðlegar hugðir (Theory of Moral Sentiments) sem fjallar ítarlega um samúð og meðlíðan manna hvers með öðrum.  Enda er ekkert sem segir að hagnaður og ábyrg langtímahugsun geti ekki farið saman, og eigi ekki að fara saman.  Eitt af grunngildum Google er You can make money without doing evil – það er hægt að hagnast án þess að gera eitthvað illt af sér – og þeim virðist takast ágætlega upp; hagnaður þeirra árið 2009 var 6,5 milljarðar dala af veltu upp á 26,5 milljarða.

Fyrirtæki – og hagkerfi – á að byggja upp með því hugarfari að þau geti enst til langs tíma, í stað þess að hola þau að innan svo þau hrynji í næstu niðursveiflu.  Allt annað er óábyrgt og ósiðlegt gagnvart almenningi, starfsfólki, viðskiptavinum og birgjum, að ógleymdum kröfuhöfum og hluthöfum.

Huga þarf að fyrirtækjamenningu og gildum

Við Íslendingar getum margt lært af íhaldssömum bönkum og öðrum fyrirtækjum í Evrópu og víðar, sem sum hver hafa lifað af endurteknar styrjaldir, kreppur og samdráttarskeið og hafa komið sér upp stofnanaminni gagnvart slíku.  Hluti af því stofnanaminni eru gömul og góð gildi á borð við fyrirhyggju, varkárni og gagnrýna hugsun.

Ný öld í íslensku atvinnulífi hlýtur að byggja á sjálfbærni, heilbrigðri fyrirtækjamenningu og sterkum gildum.  Fjárfestar og sjóðir gerðu vel í því að rýna fjárfestingartækifæri með þetta í huga, og verðmeta fyrirtæki meðal annars á slíkum grundvelli; hugsa um hið tilfinningalega eigið fé – emotional capital.

Framtíðin tilheyrir fyrirtækjum sem vinna sér inn og verðskulda traust viðskiptavina, starfsfólks, hluthafa og samfélags.  Það gera þau með því að vera siðleg, ábyrg, gegnsæ, og tileinka sér hugsunarhátt sjálfbærni; lifa í sátt við umhverfi sitt; skila ekki minna til baka en þau taka til sín.  Slík fyrirtæki verða bestu vinnustaðirnir, bestu samstarfsaðilarnir, og bestu fjárfestingarkostirnir.

(Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 18. febrúar sl.
og er byggður á erindi sem ég flutti við afhendingu íslensku þekkingarverðlaunanna 2010.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hér má sjá Kristínu Pétursdóttur forstjóra Auðar Capital tjá sig um sama efni í Fréttablaðinu sl. sumar, langt á undan mér...

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.2.2010 kl. 21:12

2 identicon

Frábær grein Vilhjálmur og orð í tíma töluð.

Hugtakið sjálfbærni er afar einfalt í sjálfu sér eins og þú lýsir vel, en þar sem það er tiiltölulega nýtt og ofurtengt umhverfismálum eingöngu í huga flestra virðist sem svo að flestir einfaldlega skilji ekki um hvað það snýst.

Fyrstu alþjóðlegu stórfyrirtækin -og góðir bændur eða sjoppueigendur ef því er að skipta- sem hafa sett sjálfbærni á oddinn í sínum viðskiptaháttum skilja það að þetta er eina leiðin og hún byggir á hugsuninni: "Ætlum við að vera í bransanum eftir hundrað ár eða tvöhundruð?" Svarið er já, svarið er sjálfbærni.

Kannski fancy orð fyrir einfalda hugmyndafræði, en það skilja allir að þú klárar ekki auðlindir eyjunnar og fyllir allt af rusli og situr svo eftir með sárt ennið. Svona eins og sex ára ævintýrið 2002-2008 er gott dæmi um. Það sem þú gerir verður að virka, og halda áfram að virka, annars er betra að sitja heima og lesa.

Það er svo athyglisvert að hamingjan og sjálfbærnin eru sama eðlis. Að hámarka skammtímahag og langtímahag samtímis. Í einkalífi hvers og eins jafnt sem plánetunnar.

Það er góður búskapur.

Teitur

Teitur Þorkelsson (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 21:21

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Akkúrat, Teitur - sjálfbærnihugtakið kann að hljóma einfeldningslegt, en er þó ekki einfaldara en svo, að það kveiktu fáir á þessu í íslensku efnahags- og viðskiptalífi 2003-2008.  Enda má segja að það sé andstæðan við "þetta reddast" - sem er miklu einfeldningslegra.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.2.2010 kl. 21:53

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Ég er hrifin af þessu erindi og sérstaklega það sem felst í þessum orðum:

"Framtíðin tilheyrir fyrirtækjum sem vinna sér inn og verðskulda traust viðskiptavina, starfsfólks, hluthafa og samfélags.  Það gera þau með því að vera siðleg, ábyrg, gegnsæ, og tileinka sér hugsunarhátt sjálfbærni; lifa í sátt við umhverfi sitt; skila ekki minna til baka en þau taka til sín. "

Einstaklingar og fyrirtæki sem telja það töff og útstjónarsemi, að elta hverjar holur og smugur í skattakerfinu, eiga ekki virðingu samfélagsins skilið.  Sérstaklega þeir sem telja sig yfir það hafið, og skjóta auði sínum í skattaparadísir.

Flutti reyndar erindi á svipuðum nótum á siðferðsiþingi hjá Háskólanum fyrir 15 árum.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.2.2010 kl. 22:13

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Góður punktur, Jenný, en skattkerfið á líka í sama anda að vera einfalt og gagnsætt.   Flækjur og óskilvirkni í kerfinu hvetja til flókinnar og óskilvirkrar hegðunar, það held ég að sé náttúrulögmál sem ekki er raunsætt að reyna að sigrast á, fremur en þyngdarlögmálinu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.2.2010 kl. 22:30

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er eðlilegt að sjálfbærni vanti þegar það virðist vera meginmarkmið fjárfesta að ryksuga fyrirtækin af eigin fé (sem er grunnur sjálfbærni) og skuldsetja þau upp í topp.

Ég tel að grunnurinn að heilbrigðum fyrirtækjarekstri sé sjálfbærni, þ.e. að reksturinn sé hóflega skuldsettur og hagnaður rati að mestu aftur inn í uppbyggingu fyrirtækisins, eins og þið gerðuð í stjórn Kögunar á sínum tíma.  Lykill að góðum fyrirtækjarekstri er að viðhalda traustu langtíma sambandi við starfsfólk og viðskiptavini.  Að geta komið aftur þar sem maður hefur verið er mikilvægara en að ná inn súperhagnaði.

Marinó G. Njálsson, 22.2.2010 kl. 00:24

7 identicon

Þetta er svo sem ágæt grein. Full af selvfolgeligheder.

Það sem er athyglisverðast við hana er að það skuli einhver hafa þurft að skrifa hana.

Ástandið er orðið bágborið þegar það þarf að skrifa greinar af þessu tagi.

Siðleysingjar og sjálftökulið hefur vaðið of lengi uppi.

Spurningin er hins vegar þessi: Ef saltið dofnar með hverju á þá að selta það?

Hvert ætla menn að sækja siðferðið?

Í gömul gildi og vonina um hóflegan hagnað?

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 10:05

8 identicon

Róttækt gegnsæji er forsenda þess að eitthvað eigi eftir að breytast. Allt uppá borðið, ekkert leyndó, undanskot til Tortóla eða svoleiðis rugl. Það þarf REGLUR.

Andri (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 11:05

9 identicon

Vilhjálmur-

Góð grein og gott innlegg í Ísland 2.0. Ein leið til að hugsa um þetta sem kerfi er að reyna að skilja hvaða "abstration" er í gangi. Þeas., það er grundvallaratriði í góðum kerfum að aðskilja þætti svo að hægt sé að greina orsakir og afleiðingar. Einungis ef þetta er gert er hægt að skilja hvað er að gerast.

Í stjórnkerfum landa þá er talað um þrískiptingu ríkisvaldsins. Eins þá er reynt að greina á milli ríkisvaldsins og einkaframtaksins. Megin hugmyndin er sú að ríkið hefur vald til að takmarka einkaframtakið svo að enginn ákveðinn þáttur einkaframtaksins verði svo sterkur að hann geti stefnt heildarkerfinu í voða.

Í fyrirtækjum er einnig reynt að brjóta ákvörðunarvaldið í nokkra þætti. Þannig eru eigendur (hluthafar), fulltrúar þeirra (stjórn), og stjórnendur/starfsmenn. Eins þá hafa aðrir áhrif á rekstur fyrirtækja, nefnilega þeir sem lána fé til rekstursins.

Að gefnum þessum almennu skilgreiningum, þá er hægt að draga nokkrar ályktanir um hvað fór úrskeiðis á Íslandi, og eins um hvað sé nauðsynlegt að gera til að mál fari ekki aftur úrskeiðis.

Fyrst er að stjórnskipulagið hefur ekki raunerulega þrískiptingu. Þing og ríkisstjórn eru í raun á sömu hendi. Til viðbótar þegar lítil nýliðun er í flokkunum, þá færist dómsvaldið einnig á sömu hendur þar sem ráðherra sama flokks hefur smátt og smátt nefnt bróðurpart allra dómara.

Annað er að stjórnkerfi sem er samtvinnað eins og lýst er, og hefur ekki ríka upplýsingaskyldu gerir almenningi (kjósendur sem hafa valdið um hverjir stjórna landinu) ókleift að sjá orsakir og afleiðingar. Þeas., þar sem allar ákvarðanir eru í einum stórum klumpi er ómögulegt að finna út hvort, hvar, og hvers vegna það eru að verða mistök. Eina sem sést eru skammtíma niðurstöður.

Þriðja sem þarf að skoða sérstaklega í litlu landi eins og Íslandi er að kerfið var hannað fyrir rólegt vandamannaskipulag. Þeas., kerfið hefur byggt inn mjög mikið af því sem kalla má "discretion." Þetta átti ágætlega við á Íslandi þegar að það var almennt samkomulag um að vera tiltölulega einangrað frá umheiminum (haftaárin, t.d.) og að breytingar voru hægar. Stjórnmálamenn og búrókratar gátu bara ákveðið sín á milli hvað væri leyft og hvað bannað. Þetta kerfi gat engan vegin ráðið við nýja tíma þar sem fyrirtæki voru að starfa í alþjóðlegu umhverfi og gátu orðið veltumeir en allt íslenska hagkerfið.

Númer fjögur þá fór ýmislegt úrskeiðis á fyrirtækjahliðinni. Sérstaklega má sjá að ónóg reynsla hluthafa í því að tryggja hag sinn, og lítil dreifing eignarhalds á hlutabréfamarkaði hafði mikil áhrif. Þannig gátu aðilar sem etv. áttu ekki nema minnihluta í félögum í raun gert hundakúnstir til þess að færa hagnað úr almenningsfélögum inní einkafélög. Þetta er vel þekkt fyrirbæri og er auðvelt að sýna framá hvernig þeir sem eiga einungis minnihluta allra hlutabréfa á markaði geta náð til sín meirihluta alls hagnaðarins. Það er mikilvægt hér að skoða hlut lífeyrissjóða í fjárfestingum innanlands, og sérstaklega í samskiptum þeirra við bankana. En það er mikilvægt að velta fyrir sér hvort að það skipti nokkru máli -- ef kerfið væri skipulagt skynsamlega þá myndi það að eitt fyrirtæki fer á hausinn ekki valda kerfisskaða sem slíkt.

Fimmta sem auðvelt er að sjá er að bankarnir voru reknir sem venjuleg fyrirtæki, en þeir eru ekki venjuleg fyrirtæki. Í svo smáu landi sem Ísland er þá er augljóst að þeir fáu bankar sem reknir eru innanlands geta ekki verið í leik með fjöregg þjóðarinnar. Það voru mistök i rekstri þeirra og vitleysa, en raunverulegu mistökin voru að halda að þetta myndi ekki gerast. Bankar hagnast á því að lána peninga og skapa veltu og fjármunafærslur. Og það var það sem þeir gerðu.

Margt fleira má týna til sem stafar af þvi að kerfið var illa samsett og ekki tilbúið að takast á við nútíma viðskipti. En ef Ísland, sem þjóðfélag, vill vera sjálfbært þá þarf að huga að grunn skipulaginu -- kerfinu -- sem stýrir því hvernig fólk í þjóðfélaginu getur og má hegða sér. Án þess verður engin breyting.

En kerfinu verður sennilega ekki breytt nema að sett séu ný markmið og að til komi hugarfarsbreyting meðal almennings á Íslandi. Hvað vilja íslendingar sem þjóð standa fyrir?

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 15:17

10 identicon

Takk fyrir góða grein Vilhjálmur og ekki þá fyrstu í þessum gæðaflokki. Takk einnig fyrir góð innlegg að ofan.

Andri, þú snertir marga góða strengi og gaman að sigla í gegnum texta þinn með seglin þanin af andvara sjálfbærninnar sem Vilhjálmur leikur svo faglega með - magnað hvað hugtakið nær að fanga margt af því sem flestum ber saman um að þurfi að öðlast aukna vigt.

Einar Vilhjálmur (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 16:39

11 identicon

Fín grein.  Langar samt að gera eina athugasemd.  Þú talar um eitt af grunngildum Google sem er að hagnast án þess að gera eitthvað illt.  Þú getur hins vegar ekki dregið þá ályktun að þeir uppfylli þetta grunngildi þó að þeir hafi hagnast gríðarlega.

Styrmir (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 21:39

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Andri Haraldsson: Þakka innleggið, sem er skýrt og skorinort að vanda og ég get tekið undir allt sem þú bendir á.

Strangari reglur kunna að vera hluti af lausninni en annar mikilvægur (mikilvægari?) hluti er að stilla af hvatana og hugarfarið.  Svo dæmi sé tekið þá geta lífeyrissjóðir, sem eru stærstu fjármagnseigendur landsins, haft mjög afgerandi áhrif á þróun viðskiptalífsins með fjárfestingarstefnu sinni, siðareglum og viðmiðum.  Ef þeir leggja áherslu á skynsemi og varkárni í rekstri, og líta til jákvæðra gilda og fyrirtækjamenningar, erum við strax komin nokkuð á leið.  Og ég vildi gjarnan sjá viðskiptalífið (t.d. SA, Viðskiptaráð, SI o.s.frv.) leggjast í naflaskoðun varðandi nýtt og betra hugarfar til framtíðar, sem andsvar við kröfu samfélagsins um uppgjör og nýtt upphaf.

Styrmir: Rétt, ég tek orð Google sjálfra fyrir því að þeir geri ekki illt, er ekki að leggja sjálfstætt mat á það.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.2.2010 kl. 23:03

13 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Vilhjálmur þakkir fyrir frábæra grein um brýnt málefni. Hún virkar á mig sem jákvæð hvatning til framtíðar og ekki veitir af. Þú talar um Lífeyrissjóðina og þeirra fjárfestingastefnu, siðareglur og viðmið. Tek heils hugar undir það og er líka nokkuð viss um að þessi þættir verða endurskoðaðir hjá sjóðunum eða eru í endurskoðun nú þegar.

Andri (skrifar ekki föðurnafn). Tek undir með þér um REGLUR. Vil benda þér á vef Aiþingis www.althingi.is  Það er að finna undir liðnum þingmál og síðan frumvörp, mikla lesningu lagafrumvarpa frá viðskiptaráðherra Gylfa Magnússyni.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.2.2010 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband